Vefurinn “VisitReykjanes” gaf út “göngukort“; Reykjanes-HikingMap, sem leiðbeina átti áhugasömu fólki um útivist að dásemdum Reykjanesskagans. Kortið og upplýsingarnar eru sæmilegar til síns brúks:
1. Arnarsetur
Arnarseturshraun – hrauntjörn.
Fremur stutt gossprunga (2 km) með gjall- og klepragígum. Hraun frá henni (um 20 ferkm) er stórskorið og þar eru hraunhellar og ummerki um mannvistir. Eldgosið er úr seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneseldar á árabilinu 1210-1240.
2. Brennisteinsfjöll
Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.
Stór þyrping móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Fjöllin eru skorin nokkrum gossprungum með nútíma gígaröðum en þó ekki yngri en landnám. Háhitasvæði er norðan í fjöllunum. Þar var numinn brennisteinn nálægt 1880.
3. Djúpavatn/Spákonuvatn/Arnarvatn
Djúpavatn.
Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Arnarvatn við göngustíg yfir Sveifluháls.
4. Eldborg við Höskuldarvelli
Eldborg undir Trölladyngju.
Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, rís stór gjall- og klepragígur, eldri en landnám. Gígurinn er skemmdur eftir efnisnám. Jarðhitagufur stíga upp við gíginn.
5. Eldborg við Geitahlíð
Eldborg undir Geitahlíð.
Forsöguleg gossprunga skerst inn móbergsstapann Geitafell með fimm gígum. Eldborg er þeirra langstærstur og brattastur, úr gjalli en einkum kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur, hrauntröð.
6. Eldvörp
Í Eldvörpum.
Um 10 km löng gígaröð í skástígum hlutum úr gos- og rekhrinunniReykjaneseldum 1210-1240, ásamt um 20 ferkm hrauni. Jarðhiti er á yfirborði við miðbik raðarinnar og ein rannsóknarborhola. Mannvistarleifar eru hér og var við Eldvörp.
7. Grænadyngja/Trölladyngja
Trölladyngja á Reykjanesskaga.
Brött móbergsfjöll vestan við Sog. Ungar gossprungur umlykja þau og háhitasvæði eru þar nálæg. Apalhraun runnu frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut, t.d. Afstapahraun.
8. Hafnarberg
Hafnarberg.
Há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.
9. Háleyjarbunga
Háleyjarbunga.
Lítil og flöt hraundyngja með stórum toppgíg, 20-25 m djúpum, eftir flæðigos. Hún er 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi.
10. Hrafnagjá
Hrafnagjá.
Siggengi á togsprungu, 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Gjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum.
11. Hrólfsvík
Hrólfsvík.
Lítil vík, þekkt sem fundarstaður hraunmola með hnyðlingum, þ.e. grófgerðum djúpbergsmolum úr gabbróinnskoti. Hraunið er af óvissum aldri og uppruna.
12. Hrútagjáardyngja
Hrútargjárdyngja.
Hraundyngja, 6.000-6.500 ára, ásamt 80- 100 ferkm hrauni; alls rúmir 3 rúmkílómetrar. Hún er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota.
13. Hvassahraunskatlar
Hvassahraunskatlar.
Hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum.
14. Katlahraun
Í Katlahrauni.
Hraun sem rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum, hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar hraunmyndanir.
15. Kerlingarbás
Berggangur í Kerlingarbás.
Leifar þriggja stórra gjóskugíga, 800 til 2.000 ára gamalla. Ofan á þeim liggja hraunlög, það efsta úr Yngri Stampagígum, úr Reykjaneseldum, eins og tvö yngstu gjóskulögin. Berggangar skera gjóskuna.
16. Lambafellsgjá
Í Lambafellsgjá.
Lambafell myndaðist sennilega á næst síðasta jökulskeiði. Toghreyfingar vegna plötuskriðs hafa klofið fellið. Í norðri opnast 150 m löng og 50 m djúp gjá en aðeins 3-6 m breið, með veggjum úr bólstrabergi. Gjáin er vel fær.
17. Méltunnuklif
Méltunnuklif.
Lágt klettabelti með ólíkum jarðlögum, móbergi (palagónít túffi), gamalli jökulurð, millilögum, hraunlögum og einum roffleti; samtals ágætt yfirlit yfir helstu þætti í myndunarsögu Reykjanesskagans.
18. Rosmhvalanes
Á Rosmhvalanesi.
Stórt flatlendi með elstu jarðlögum Reykjanesskagans. Yfirborðslögin eru úr dyngjuhraunum, mjög jökulsorfnum. Myndunartíminn er talin vera tvö síðustu hlýskeið ísaldar sem gengu yfir fyrir 120.000 (Eem) til 240.000 árum (Saale).
19. Sandfellshæð
Sandfellshæð.
Ein stærsta hraundyngja Reykjanesskagans. Hraunbreiðan úr henni nær vel yfir 100 ferkm. Toppgígurinn er stór en grunnur. Eldstöðin er um 14.000 ára en þá stóð sjór 30 m lægra en nú.
20. Skálafell
Skálafell á Reykjanesi.
Samsett eldstöð sem hlóðst upp fyrir 3.000 til 8.000 árum í fáeinum eldgosum. Efst er reglulegur gjall- og klepragígur. Misgegngi í grendinni mynda austurjaðar Reykjaneseldstöðvakerfisins og gos- og rekbeltisins á Suðvesturlandi.
21. Sog
Í Sogum.
Fáein vatnssorfin gil og lágir hryggir suðvestan við Trölladyngju mynda sundursoðið, myndbreytt og litríkt svæði eftir virka háhitahveri. Þar er töluvert um gufuaugu, vatnshveri og leirhveri.
22. Stampar
Gígar í Yngra- Stampahrauni.
Tvær samsíða gossprungur með fjölda gjall- og klepragíga á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Eldri gígarnir og hraun eru 1.800 til 2.000 ára en hinir urðu til í Reykjaneseldum, langri gos- og rekhrinu 1210-1240, ásamt 4,6 ferkm hrauni.
23. Sundhnúkaröð
Sundhnúkar.
Gígaröð sem reis á gossprungu fyrir um 2.300 árum. Hraun frá henni rann til sjávar, m.a. þar sem nú er Grindavík. Þar voru ágætar bátalendingar í lóni sem smám saman þróaðist til góðrar hafnar og þéttbýlisins.
24. Sveifluháls
Á Sveifluhálsi.
Einn af lengstu og stærstu móberghryggjum jarðvangsins. Hann geymir góðan þverskurð af ásýndum móbergsmyndunar; lagskipt móberg (túff), þursaberg (breksju) og bólstraberg. Allt ber þetta vitni um átök kviku, jökulíss og vatns.
25. Þráinsskjöldur
Þráinsskjöldur – gígurinn.
Stór og flöt hraundyngja, vel sjáanleg af Reykjanesbraut. Hún liggur langan veg yfir helluhraun hennar. Það er yfir 130 ferkm að flatarmáli og rúmmál gosmyndunarinnar a.m.k. 5,2 rúmkm. Dyngjan er talin um 14.000 ára gömul.
26. Ögmundarhraun
Ögmundarhraun – dys Ögmundar.
Stór hraunbreiða frá 1151. Hún er syðsti hluti nokkru yngri hrauna úr rek- og goshrinunni Krýsuvíkureldum (1151-1180). Gossprungan nær sundurslitin um 25 km til norðausturs. Ögmundur var sagður berserkur sem lagði veg um hraunið.
27. Brimketill
Brimketill – Oddnýjarlaug.
Lítil náttúrulaug í rofdæld með sjó, án jarðhitavirkni, við ströndina vestan við Grindavík. Þarna á skessan Oddný að hafa setið á góðum stundum.
28. Brú milli heimsálfa
Brú milli heimsálfa.
Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.
29. Eldey
Eldey.
Eldey reis úr sjó í gjóskugosi og er gerð úr lagskiptu móbergi, 77 m há, um 15 km frá landi úti á Reykjaneshrygg sem er hluti Mið-Atlanshafshryggjarins. Aldur hennar er óþekktur. Um 18.000 súlupör halda sig á 0,3 ferkm flötu landi.
30. Gunnuhver
Gunnuhver.
Þyrping ólgandi leir- og gufuhvera á Reykjanesi. Þeir breytast með tíma. Þyrpingin varð til að nokkru eftir jarðskjálftahrinu 1967. Heitið vitnar um sögu af illræmdum draug, Gunnu, sem sökkt var með blekkingum ofan í hver.
31. Festarfjall/Hraunsvík
Festarfjall og Hraunsvík.
Móbergsfjall eftir eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði ísaldar. Sjávararof hefur afhjúpar háan þverskurð af móbergi, brotabergi og bóstrabergi ásamt aðfærslugangi kviku. Hann er sagður vera silfurfesti tröllskessu.
32. Hópsnes
Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.
Lítið nes við Grindavíkurbæ, myndað við hraunrennsli frá gígaröð kenndri við Sundhnúk. Hraunið á hlut í góðum hafnarskilyrðum við bæinn.
33. Húshólmi
Húshólmi – skáli.
Óbrinnishólmi (kipuka), land sem Ögundarhraun náði ekki af kaffæra árið 1151. Þar getur að líta rústir býlis og kirkju, auk hlaðinna veggja. Hluti húsanna og mest allt ræktarland hvarf í hraunið.
34. Keilir/Keilisbörn
Keilir.
Keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg, Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli á sínum tíma. Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans, vegna lögunar, og það er gamalt mið af sjó.
35. Kleifarvatn
Kleifarvatn.
Stærsta stöðuvatn Reykjanesskagans, 9,1 ferkm og 97 m djúpt. Það fyllir í dæld milli Brennisteinsfjalla og móbergshryggjarins Sveifluhálss. Smálækir renna í það en aðeins grunnvatn úr því. Sagt er að þar búi svartur
risaormur.
36. Mannvistarleifar við Eldvörp
Eldvörp – byrgi.
Ýmsar mannvistarleifar er af finna í Eldvarpahrauni; þrjá þjóðstíga milli byggða og þyrpingu kofa úr hraungrýti. Óvíst er um tilgang þeirra en varla unnt að samþykkja sögusagnir um útilegumenn.
37. Ósar
Ósar.
Vogur með mörgum skerjum og hólmum við Hafnir. Í þorpinu er uppgrafnar rústir af norrænni eða keltnskri útstöð. Ósar eru verndarsvæði vegna fuglalífs og áhugaverðs sjávarvistkerfis.
38. Pattersonflugvöllur
Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.
Undir gömlum flugvelli er að finna þjappað sjávarset með lítið steingerðum skeljum. Algengasta tegundin er sandmiga (smyslingur), 20.000 –
22.000 ára gamlar leifar vistkerfis frá því skömmu fyrir hámark síðasta jökulskeiðs.
39. Selatangar
Selatangar – sjóbúðir.
Lágir hrauntangar með rústum af verbúðum, að mestu úr hraungrýti. Auk þeirra eru þar fiskibyrgi, bæði til að þurrka fisk og geyma. Verstöðin var notuð frá því á miðöldum allt til 1884.
40. Snorrastaðatjarnir/Háibjalli
Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.
Háibjalli er 10 m hátt siggengi næst Snorrastaðatjörnum. Þarna er gróskumikið og vinsælt útvistarsvæði, og farfuglar hvílast þar á leið sinni.
41. Sogasel
Sogasel í Sogaselsgíg.
Rústir af seli (sumarkofa þar sem fólk hafi auga með sauðfé á beit); skammt frá Grænudyngju og Sogum. Selið er sérstætt vegna þess að það var byggt inni í stórum gjallgíg.
42. Svartsengi
Háhitasvæðið í Svartsengi.
Eitt af helstu háhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar er framleitt rafafl á landsnetið og heitt vatn til byggða á skaganum. Afrennsli frá virkjuninni er notað í Bláa lónið en auðlindagarðurinn er fyrirtaks dæmi um heildræna nýtingu jarðvarma.
43. Valahnúkar/Valabjargargjá/Valahnúksmöl
Valahnúkar og Valahnúkamöl.
Hér mætast þurrlendið og Mið-Atlantshafshryggurinn. Valahnúkur er rofið móbergsfell með bólstrabergi og þursabergi. Valabjargargjá er stórt siggengi og Valahnúksmöl, úr hnullungum, girðir fyrir lítinn sigdal austan við Valahnúk.
44. Þorbjarnarfell
Þorbjarnarfell (Þorbjörn).
Stakt móbergsfjall norður af Grindavík. Misgengi þvera það og mynda grunnan sigdal. Hluti hans kallast Þjófagjá eftir 15 misyndismönnum sem þar eiga að hafa dvalist.
45. Básendar
Básendar – húsgrunnur.
Gríðarmikil fárvirðri, við háflóð, olli versta sjávarflóði í manna minnum á Suðvesturlandi árið 1799. Heitið, Básendaflóð, er komið af lítilli verslunar- og verstöð. Þar breyttist ströndin til mikilla muna og byggðin eyddist að
mestu.
46. Drykkjarsteinn
Drykkjarsteinn.
Stór steinn við þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Í honum eru þrjár holur. Sagnir herma að ein sé fyrir hunda, önnur fyrir menn og sú þriðja handa hestum. Ferðalangar áttu að geta treyst á að komast þarna í drykkjarvatn.
47. Garðskagaviti
Garðskagaviti.
Eldri vitinn er reistur 1897 en hinn var byggður 1944. Áður hafði stóra varða verið hlaðin á skagatánni og 1884 var sett í hana ljósker. Svæðið er mikilvægt fyrir farfugla.
48. Gálgaklettar
Gálgaklettar í Hagafelli.
Efst á Þorbjarnarfelli við Grindavík eru háir móbergsklettar með þessu heiti. Þjóðsaga hermir að þar hafi staðbundnir þjófar verið teknir af lífi.
49. Hvalsneskirkja
Hvalsneskirkja.
Vel viðhaldin kirkja og kirkjugarður frá árinu 1887. Kirkjan er byggð úr tilhögnu grágrýtishrauni (basalti) sem fengið var í nágrenninu. Hluti innviða
eru úr rekatimbri. Systurkirjkuna er að finna í Njarðvík.
50. Reykjanesviti
Reykjanesviti.
Vitinn er elsti viti í fullri notkun á landinu, frá 1908. Lengst af var þar vitavörður og bóndi að störfum og má sjá ummerki eftir búskap víða í nágrenninu. Nú er vitanum að mestu fjarstýrt.
51. Skagagarðurinn
Skagagarðurinn.
Leifar af mjög löngum og háum garði síðan á fyrri hluta Þjóðveldisaldar (870-1000). Hann var byggður úr tofi og grjóti til að aðskilja húsdýr, tún og akra. Garðurinn er mjög siginn og hefur víða horfið með öllu.
52. Staðarborg
Staðarborg.
Hringlaga fjárgeymsla en án þaks. Hún er rúmlega 2 m há, 8 m í þvermál og 35 m að ummáli og vandlega hlaðin úr flötu hraungrýti. Aldurinn er óþekktur en talinn í nokkrum öldum.
53. Vigdísarvellir
Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.
Víðir, flatir grasvellir við rætur móbergshryggja. Þar sjást rústir tveggja smábýla sem minna á forna búskaparhætti á hálendi. Yngri bærinn var yfirgefinn eftir harða jarðskjálfta 1905.
54. Vogur í Höfnum
Skálinn í Höfnum.
Rústir elstu byggðar á Reykjanesskaga. Aldursgreind til 9. aldar. Þarna eru hefðbundinn skáli og smáhýsi. Ef til vill er um að ræða útstöð landkönnuða, svipaða byggingum norrænna manna á Nýfundnalandi.
55. Þórshöfn
Áletrun á klöpp við Þórshöfn.
Einn helsti 15. og 16. aldar verslunarstaður Þjóðverja á Íslandi. Á 18. öld tóku skip að nýta höfnina að nýju, en smám saman varð þar fáfarnara eftir því sem höfnin í Sandgerði batnaði.
Heimild:
-https://www.visitreykjanes.is/static/files/pdf/Reykjanes_HikingMap.pdf
Göngukortið.