Sogasel

Haldið var upp á Höskuldarvelli þar sem ætlunin var að ganga á Trölladyngju og síðan til baka um Sogin. Vegurinn upp á Höskuldarvelli liggur upp Afstapahraun, sem mun vera frá sögulegum tíma.

Keilir

Hoft á Keili af Trölladyngju.

Gengið var upp grasi gróna vesturhlíð Dyngjunnar, um skarð og síðan aflíðandi upp á hana að austanverðu. Dyngjan er ber á bakinu, en ekki erfið uppgöngu. Heildargangan tekur u.þ.b. 30 mínútur. Fallegt útsýni er af Trölladyngju yfir Höskuldarvelli, Oddafell, Eldborg, Lambafell, niður og norðaustur eftir Dyngjurana, Grænudyngju og um hálsinn að sunnanverðu, yfir að Spákonuvatni og Sogin. Grænadyngja er austan við Trölladyngju og er gróinn dalur (dyngja) á milli þeirra. Hún er gróin upp á topp og því tiltölulega auðveld uppgöngu.
Trölladyngja er móbergsfjall, en þegar komið er á efri hluta hennar verður bólstraberg áberandi. Stundum var talað um Trölladyngur, Dyngjur eða Dyngjuhnúka, og þá átt við báða hnúkana. Trölladyngja er um 375 m og Grænadyngja er um 400 m. Í Trölladyngju hefur fundist silfurberg.
Milli Dyngnanna er skarð sem skipt er þversum af lágum hálsi og heitir hann líklega Söðull.

Sog

Í Sogum.

Sogin skilja Dyngjurnar frá Núpshlíðarhálsi, en þau eru grafningar miklir. Í þeim eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu, og litadýrðin mikil, einkum að sunnanverðu. Hraun hafa runnið bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun, bæði yngra og eldra (Geldingahraun). Enn er þarna mikill jarðhiti á ýmsum stöðum.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali.

Sogin

Litadýrð Soganna.

Eldborgin norðan við Trölladyngju var einnig nefnd Ketillinn. Hún hefur verið fallegur gígur, en er nú ekki svipur hjá sjón. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið í Eldborg hafi án efa verið með þeim seinustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er því yngra en Afstapahraun.
Höskuldavellir eru rúmur kílómetri að lengd og tæpur kílómetri á breidd. Þeir urðu til við leiframburð Sogalækjar, sem kemur úr Sogunum og rennur norður um vellina. Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir, en þeir eru í landi Stóru-Vatnsleysu.
Gengið var upp skarðið stóra milli Dyngnanna, yfir að Sogunum. Búið er að girða af beitarhólf Suðurnesjamanna, en víða í grónum giljum má sjá allt að fimm metra undir girðinguna.

Sog

Í Sogum.

Sogin eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga niður í Sogin sunnan við Dyngjurnar og útsýnið er stórbrotið og litadýrðin mikil. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk. Honum var fylgt niður Sogaselsdalur eða Sogadal, litið á tóftir þar sunnan við lækinn og síðan haldið að selsminjunum inni í Sogagíg eða Sogaselsgíg. Gígurinn er opinn til suðurs, girtur skeifulaga hamrabelti og hefur því myndað gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru á þremur stöðum í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum og við nyrstu tóftina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Sogin

Sogin.