Knarrarnessel

Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athyglina.
Fyrst benti Birgir á leturstein í formi myllusteins. Hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljós hafði komið ártalið 1823. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið, aftan við garðinn er nú umlykur nýju kirkjuna. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysja sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.

Árnastekkur

Árnastekkur.

Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – Leirflagsvatnsstæðið.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leirflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.

Knarrarnessel

Varða ofan Knarrarnessels.

Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnesssel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.

Eldborgir

Eldborgir.

Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða?

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Eldborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.