Kópavogsdysjar

Í bókinni “Rannsókn á Kópavogsþingstað” eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er fjallað um fornleifauppgröft á þingstaðnum 1973-1976. Í inngangi eru raktar heimildir um svæðið sem og helstu minjar. Þar er m.a. minnst á fjögur kuml nálægt þingstaðnum, þ.e. Hjónadysjar, Systkinaleiði, Þorgarðsdys og Kuledys.
Kopavogsdysjar“Þingstaðurinn í Kópavogi er einn af þekktari þingstöðum landsins, og þá aðallega fyrir Kópavogseiðana svonefndu, sem þar voru unnir árið 1662. Talsverðar rústaleifar eru sjáanlegar á staðnum fyrir uppgröft, en að auki minna dysjar umhverfis staðinn á aftökur þær, sem þar áttu sér stað. Hjónadysjar eru enn allmikil þúst rétt austan við Hafnarfjarðarveginn. Vegavinnumenn rákust á dysina árið 1938, og fundu hauskúpu með miklu hári og aðra beinagrind hauslausa. Huldu þeir dysina aftur og var hún ekki rannsökuð frekar. Systkinaleiði munu nú vera undir Fífuhvammsveginum. Þorgarðsdys er rétt við gamla götuslóðann upp Arnarnesið, og efst á því er Kulesdys, dys Þjóðverja, sem dæmdur var til dauða fyrir manndráp.
Í AI V, bls. 56-7 segir: “Þann 23. febrúar 1582 var kveðinn upp dauðadómur á Kópavogsþingi yfir þýskum manni, Hinrik Kules, sem hafði vegið Bjarna Eíriksson á Bessastöðum. Sést dys hans, Kulesdys, enn efst á Arnarnesinu.”
Kopavogsdysjar-2Hinn 25. júní 1841 kom Jónas Hallgrímsson skáld við í Kópavogi á ferð sinni suður á Vatnsleysuströnd. Sýndi bóndinn þar, Árni Pétursson, honumgamla þingstaðinn, sem hann sagði vera í túninu og nefndi Þinggerði. Þá benti hann Jónasi á dysjar þeirra, sem teknir höfðu verið af lífi og var fróður um afdrif þess fólks.
Matthías Þórðarson krifaði grein um Kópavogsminjar í Árbók fornleifafélagsins 1929, en hann var þá þjóðminjavörður. “Suðaustan þjóðvegarins, rétt við Kópavogslækinn, hafa fundist fjórar dysjar, tvær og tvær saman. Eru þær nefndar hjónadysjar, sem er nær þingstaðnum (nr. 3 á uppdrætti Matthíasar) og systkinaleiði (nr. 4 á uppdrættinum) Þær síðarnefndu hafa nú horfið undir veginn.
Kopavogsdysjar-3Um Kule segir Matthías: “En hinn var dauðadómur yfir þýzkum manni, er Hinrik Kules hét. Var sá dómur kveðinn upp af sex mönnum, og samþyktur af Þórði lögmanni, 23. febr. 1582 »á almennilegu þriggja hreppa þingi« í Kópavogi. Þessi Hinrik Kules hafði vegið íslenzkan mann, Bjarna Eiríksson, á Bessastöðum sjálfa jólanóttina og ekki lýst víginu að lögum, svo það var dæmt morð og níðingsverk. En því er þessa dóms minnst hér, að sagt hefur verið, að dys sú, sem er efst á Arnarneshálsi, vestan við gamla veginn, sé dys dansks manns, er tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp. Skiljanlegt er að þjóðerni mannsins hafi skolast í frásögnunum, mann fram af manni í 3 aldir, og er ekki ólíklegt að þarna liggi Hinrik Kules. Dys þessi er nú að mestu grasi gróin.
Kopavogsdysjar-4Fleiri dysja verður vart í Kópavogi og sennilega eru þar nokkrar að auki, sem ekki eru kunnar nú. Verður sakmálasaga þessa þingstaðar ekki rakin hér, en getið nokkurra mála, sem kunn eru af annálum og dómabókum.”
Þá segir: “Árni prófessor Magnússon hefur getið þess í syrpu sinni, er hann nefnir Chorographica Islandica (213 svo í handrs. hans), að í Hraunhelli, er svo heitir, »fyrir sunnan Efferseyjarsel gamla«, hafi legið »þjófar (maður og kona) circa 1677, eða nokkru fyrr, hver þar fyrir ströffuð urðu á Kópavogsþingi 1677, þann 3. decembris«. Þau hafa sjálfsagt verið tekin af lífi þann dag samkvæmt dómi, dæmdum þar áður, líklega samdægurs, en af því er segir í Valla-annál og síðar skal tekið fram, er óvíst að aftaka þeirra hafi farið fram á sjálfum þingstaðnum. Hins vegar er þó líklegt, að dysjar tvær við Kópavogslæk séu leiði þeirra, því að þær eru nefndar »hjónadysjarnar«. Skal þeirra getið síðar.”
Kopavogsdysjar-5Í skýrslu frú Þuríðar Mathiesen segir m.a.: “Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.”
Þegar litið var eftir dysjunum árið 2011 voru þær allar horfnar nema Kulesdysin efst á Arnarsneshæðinni.

Heimild:
-Rannsókn á Kópavogsþingstað, Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1986.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929, Matthías Þórðason, Kópavogsminjar, bls. 3-4 og 29-30.

Kópavogur

Frá Kópavogi.