Færslur

Knarrarnessel

Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athyglina.
Fyrst benti Birgir á leturstein í formi myllusteins. Hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljós hafði komið ártalið 1823. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið, aftan við garðinn er nú umlykur nýju kirkjuna. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysja sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.

Árnastekkur

Árnastekkur.

Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – Leirflagsvatnsstæðið.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leirflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.

Knarrarnessel

Varða ofan Knarrarnessels.

Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnesssel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.

Eldborgir

Eldborgir.

Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða?

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Eldborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á áður þekktu minjasvæði frá því fyrir miðja 15. öld kom í ljós meint kuml.
Um er að ræða Hafnir-kuml-IIIgróinn manngerður hóll á ysta tanga byggðarinnar. Hóllinn er nú óðum að fjúka burt, auk þess sem sjórinn er smám saman að taka leifar hans til sín.
Á Reykjanesskaganum eru allnokkrar fornmannagrafir; kuml, dysjar eða hvað menn vilja nefna þær. Skamms er að minnast afrakstur fornmannagrafanna við Hafurbjarnastaði, sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Þótt ólíklegt megi telja að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lesi efni vefsíðunnar er því samt sem áður boðið að fara í “kumlferð” um Reykjanesið til frekari upplýsinga því til handa þá og þegar því hentar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

 

Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Gerðakot

Magnús Grímsson segir í ritgerð sinni “Fornminjar á Reykjanesskaga” frá tveimur kumlum, sem fundust að Gerðakoti skammt SV Hvalsness árið 1854.
Gerdakot-2Nýbýlið virðist hafa verið byggt á lágum hól, sem að öllum líkindum hefur verið og er kumlateigur. Húsið stóð þangað til annað nýrra var byggt skammt NA. Það var timburhús á steyptum kjallara. Það hús var síðan flutt til Keflavíkur, sem það er enn (Sigurður Eiríksson í Noðurkoti).
Í “Kuml og haugfé” er m.a. fjallað um fundinn á nefndum tveimur mannsbeinagrindum árið 1854 að Gerðakoti í Miðneshreppi. Þar segir m.a.: “Gerðakot er SV frá Hvalsnesi, nær sjó. Nafn bæjarins bendir til að hann sé ekki forn. Þar fundust tvær mannsbeinagrindur 1854 er verið var að grafa fyrir húsi (nýbýli) Finnendur hafa lýst fundinum vo vel að þar er engu við að bæta, og eru lýsingarnar birtar hér orðréttar;
Gerdakot-31. kuml. “Hinn 10. d. maím. í vor var ég undirskrifaður að grafa niður í sléttan hól að Gerðakoti. Þegar ég var kominn niður hér um bil 1 1/2 alin (um 95 sm), fann ég höfuðkúpu af manni í svörtu sandlagi, leitaði svo betur fyrir mér og fann von bráðara hálsliðina, sem rétt voru áfastir við höfuðkúpuna; lá beinagrindin frá landsuðri til útnorðurs.. hnífskaft og var járnryð á öðrum endanum..” Undir þetta ritar Brynjólfur Jónsson frá Klöpp.
2. kuml. “Nokkru vestar en þau bein lágu, sem nú var lýst, fann ég undirskrifaður 13. d. maím. í voru mannsbein, er svo lágu, að höfuðið sneri til útnorðurs og fótleggirnir í landsuður, með þeim umbúnaði að hellur  voru á rönd resitar til beggja hliða og hellulag ofan á..” Undir þetta ritar Jón Jónsson frá Gerðakoti.
Gerdakot-4“Heimilt virðast telja legstaði þessa með fornum kumlum, bæði vegna hnífsins (er svo virðist verið hafa) og umbúnaðar líkanna. Komlin snúa sitt á hvað og því varla gerð samtímis. Bendir það til kumlateigs, en síður að hé rhafi verið grafin lík af einhverri tilviljun. Lega líksins í 1. kumli  minnir á legu í 1. kumli á Hafurbjarnarstöðum. hellulagningin í 2. kumli er einnig eins og í barnskumlinu þar.”
Í Ingólfi 29.07.1854 má auk framangreinds sjá eftirfarandi frá útgefanda: “Viðvíkjandi beinafundi þessum hefur presturinn, sjera Sigurður að Útskálum, látið í ljósi það álit sitt, að bein þessi muni vera þeirra manna, sem árið 1551 voru drepnir af Norðlendingum í hefnd eptir Jón Arason, því svo stendur, að þeir hafi drepið alls 14 á Suðurnesjum, auk þeirra, sem þeir drápu á Kyrkjubóli; en úr dysi þeirra þar [við Hafurbjarnarstaði], segir hann, að uppblásin bein hafi verið tekin á fyrstu árum sínum og flutt að Útskálum.”

Heimildir:
-Kuml og haugfé, Kristján Eldjárn, 2. útgáfa 2000, bls. 94.
-Ingólfur 1854, Beinafundur á Suðurnesjum, bls. 131-32.
-Magnús Grímsson, Fornminjar á Reykjanesskaga, Landnám Ingólfs II, bls. 253-54.

Hvalsnes

Hvalsnes.

Kópavogsdysjar

Í bókinni “Rannsókn á Kópavogsþingstað” eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er fjallað um fornleifauppgröft á þingstaðnum 1973-1976. Í inngangi eru raktar heimildir um svæðið sem og helstu minjar. Þar er m.a. minnst á fjögur kuml nálægt þingstaðnum, þ.e. Hjónadysjar, Systkinaleiði, Þorgarðsdys og Kuledys.
Kopavogsdysjar“Þingstaðurinn í Kópavogi er einn af þekktari þingstöðum landsins, og þá aðallega fyrir Kópavogseiðana svonefndu, sem þar voru unnir árið 1662. Talsverðar rústaleifar eru sjáanlegar á staðnum fyrir uppgröft, en að auki minna dysjar umhverfis staðinn á aftökur þær, sem þar áttu sér stað. Hjónadysjar eru enn allmikil þúst rétt austan við Hafnarfjarðarveginn. Vegavinnumenn rákust á dysina árið 1938, og fundu hauskúpu með miklu hári og aðra beinagrind hauslausa. Huldu þeir dysina aftur og var hún ekki rannsökuð frekar. Systkinaleiði munu nú vera undir Fífuhvammsveginum. Þorgarðsdys er rétt við gamla götuslóðann upp Arnarnesið, og efst á því er Kulesdys, dys Þjóðverja, sem dæmdur var til dauða fyrir manndráp.
Í AI V, bls. 56-7 segir: “Þann 23. febrúar 1582 var kveðinn upp dauðadómur á Kópavogsþingi yfir þýskum manni, Hinrik Kules, sem hafði vegið Bjarna Eíriksson á Bessastöðum. Sést dys hans, Kulesdys, enn efst á Arnarnesinu.”
Kopavogsdysjar-2Hinn 25. júní 1841 kom Jónas Hallgrímsson skáld við í Kópavogi á ferð sinni suður á Vatnsleysuströnd. Sýndi bóndinn þar, Árni Pétursson, honumgamla þingstaðinn, sem hann sagði vera í túninu og nefndi Þinggerði. Þá benti hann Jónasi á dysjar þeirra, sem teknir höfðu verið af lífi og var fróður um afdrif þess fólks.
Matthías Þórðarson krifaði grein um Kópavogsminjar í Árbók fornleifafélagsins 1929, en hann var þá þjóðminjavörður. “Suðaustan þjóðvegarins, rétt við Kópavogslækinn, hafa fundist fjórar dysjar, tvær og tvær saman. Eru þær nefndar hjónadysjar, sem er nær þingstaðnum (nr. 3 á uppdrætti Matthíasar) og systkinaleiði (nr. 4 á uppdrættinum) Þær síðarnefndu hafa nú horfið undir veginn.
Kopavogsdysjar-3Um Kule segir Matthías: “En hinn var dauðadómur yfir þýzkum manni, er Hinrik Kules hét. Var sá dómur kveðinn upp af sex mönnum, og samþyktur af Þórði lögmanni, 23. febr. 1582 »á almennilegu þriggja hreppa þingi« í Kópavogi. Þessi Hinrik Kules hafði vegið íslenzkan mann, Bjarna Eiríksson, á Bessastöðum sjálfa jólanóttina og ekki lýst víginu að lögum, svo það var dæmt morð og níðingsverk. En því er þessa dóms minnst hér, að sagt hefur verið, að dys sú, sem er efst á Arnarneshálsi, vestan við gamla veginn, sé dys dansks manns, er tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp. Skiljanlegt er að þjóðerni mannsins hafi skolast í frásögnunum, mann fram af manni í 3 aldir, og er ekki ólíklegt að þarna liggi Hinrik Kules. Dys þessi er nú að mestu grasi gróin.
Kopavogsdysjar-4Fleiri dysja verður vart í Kópavogi og sennilega eru þar nokkrar að auki, sem ekki eru kunnar nú. Verður sakmálasaga þessa þingstaðar ekki rakin hér, en getið nokkurra mála, sem kunn eru af annálum og dómabókum.”
Þá segir: “Árni prófessor Magnússon hefur getið þess í syrpu sinni, er hann nefnir Chorographica Islandica (213 svo í handrs. hans), að í Hraunhelli, er svo heitir, »fyrir sunnan Efferseyjarsel gamla«, hafi legið »þjófar (maður og kona) circa 1677, eða nokkru fyrr, hver þar fyrir ströffuð urðu á Kópavogsþingi 1677, þann 3. decembris«. Þau hafa sjálfsagt verið tekin af lífi þann dag samkvæmt dómi, dæmdum þar áður, líklega samdægurs, en af því er segir í Valla-annál og síðar skal tekið fram, er óvíst að aftaka þeirra hafi farið fram á sjálfum þingstaðnum. Hins vegar er þó líklegt, að dysjar tvær við Kópavogslæk séu leiði þeirra, því að þær eru nefndar »hjónadysjarnar«. Skal þeirra getið síðar.”
Kopavogsdysjar-5Í skýrslu frú Þuríðar Mathiesen segir m.a.: “Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.”
Þegar litið var eftir dysjunum árið 2011 voru þær allar horfnar nema Kulesdysin efst á Arnarsneshæðinni.

Heimild:
-Rannsókn á Kópavogsþingstað, Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1986.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929, Matthías Þórðason, Kópavogsminjar, bls. 3-4 og 29-30.

Kópavogur

Frá Kópavogi.

Esja

Í fornleifaskráningu Ragnheiðar Traustadóttur Önnu Lísu Guðmundsdóttur um Kollafjörð má sjá eftirfarandi um Arnarhóla (dysjar) og forna götu.
Arnarholl-1“Kollafjarðar er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Helgi bjóla setti Kolla hinn írska niður í Kollafjörð. (Í.F., [Kjalnesingasaga], XIV. bindi, s. 5). Jarðarinnar getur í fógetareikningum á árunum 1547-1552. (D.I., XII. bindi, s. 117). Jörðin var í konungseign 1705 og jarðardýrleiki óviss.”
Arnarhóll er ofan og sunnan Kollafjarðar. “Suðvestur af Réttarholti mitt á milli réttarinnar og þjóðvegarins er Arnarhóll, þar sem Örn austmaður var veginn.” (Ö.Ko.1). “Á Móholti, þar sem gamli vegurinn liggur yfir “Flóalæk”, eru tveir hólar (eða dysjar). Annar er fast við veginn, norðan til á móholtinu. Hinn er nokkuð austar og er stærri. Þessir hólar (eða dysjar) voru báðir kallaðir “Arnarhólar” og kenndir við Örn austmann.” (Ö.Ko.2). “Arnarhóll er frekar lítill hóll með þúfu í kolli.” (Ö.Ko.3). “Arnarhóll er utan við Flóann, vestnorður af honum.” (Ö.Ko.4).”
Arnarholar-2Í Arnarhólum hafa verið talin vera kuml. Í örnefnalýsingu segir: “Á Móholti norðan við, þar sem gamli vegurinn liggur yfir Flóalæk”, eru tveir hólar (dysjar). Annar er fast við veginn, norðan til á Móholtinu. Hinn er nokkru austar og er stærri. Þessir hólar (dysjar) voru báðir kallaðir “Arnarhólar” og kenndir við Örn austmann”. Hóllinn er á miðju móholtinu og ber greinilega við.” Hólar þessir eru mjög greinilegir og erfitt að segja til um hvort þeir séu manngerðir. Sá, sem hér um ræðir, er sporöskjulaga með upphækkun í miðjunni, sem virðist vera hlaðin, sést í grjót á stöku stað og er erfitt að gera sér grein fyrir hvort menn hafi komið því þar fyrir. Lengd hólsins er um 10 m og breidd 5 til 6 m. Hæð hans er frá 10 til 60 sm.
Esjumelar-2Í örnefnalýsingu segir: “Á Móholti norðan við, þar sem gamli vegurinn liggur yfir Flóalæk”, eru tveir hólar (dysjar). Annar er fast við veginn, norðan til á Móholtinu. Hinn er nokkru austar og er stærri. Þessir hólar (dysjar) voru báðir kallaðir “Arnarhólar” og kenndir við Örn austmann”. Þessi hóll er norðan við 282-23 og liggur við hina fornu leið inn Kollafjörðinn. Hóllinn er afar greinilegur og ber við þegar komið er á vettvang.”
Við hólinn liggur forn gata. “Hóllinn liggur fast við hina fornu leið og 4 metrum frá hellulagðri brú/ræsi sem hefur verið lögð yfir læk sem nú er uppþornaður. Hin forna leið liggur um norðurhluta Móholtsins, nærri samhliða núverandi Vesturlandsvegi og inn í Kollafjörðinn. Leiðin er einstaklega vel varðveitt í sjálfu Móholtinu og er hægt að rekja sig eftir henni frá Flóalæk og yfir Móholt að mestu samhliða Vesturlandsveginum en um 50 m ofar. 

Esjumelar-3

Vegurinn liggur yfir mógrafir og að hluta til virðist hann uppbyggður.”
Á leiðinni er brú. “Á hinni fornu leið, þegar komið er um hana miðja af því sem varðveist hefur, er að finna hellulagða brú/ræsi yfir uppþornaðan lækjarfarveg. Stórar grjóthellur hafa verið hlaðnar yfir lækjarfarveg. Hellurnar eru allt 1 m á lengd. Farvegurinn er nú orðið ógreinilegur.”
Örn austmaður, sbr. 8. kafla Kjalnesingasögu: “Eftir leikinn gekk Kolfinnur út að vanda og fór leið sína. En er hann kom suður af holtunum hlupu þeir Örn austmaður upp og sóttu að honum.
Esjan-202Kolfinnur varðist með lurkinum og barði vopnin fyrir þeir. Varð þeim hann torsóttari en þeir hugðu. Og er þeir höfðu saman átt um hríð sló Kolfinnur sveininn í rot. Hraut þá frá honum bæði skjöldurinn og sverðið. Kolfinnur greip þá upp hvorttveggja. Sótti hann þá að Erni austmanni og lauk svo að Örn féll en Kolfinnur varð sár. Í því raknaði sveinninn við og vildi Kolfinnur ekki gera honum meira. Gekk hann þá leið sína. Sveinninn sá Austmanninn veginn. Skaut hann þá yfir hann skildi, gekk síðan heim í Kollafjörð. Kolli lét flytja heim lík hans og búa um eftir siðvenju.”
Lík Arnar austmanns var sem sagt “flutt heim og um það búið að siðvenju”. Hólarnir tveir eru þá líklega bara tilvísun í atburðinn sjálfan þar sem tveir menn börðust…, nema annað eigi eftir að koma í ljós.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Kollafjörð. (Ö.Ko.1).
-Byggt á fornleifaskrá Ragnheiðar Traustadóttur Önnu Lísu Guðmundsdóttur.

Kollafjörður

Kollafjörður 1906. Mynd frá dönsku mælingamönnunum.

Garður

Um er að ræða 12 síðna greinargerð þar sem fjallað er um kuml eða fornmannagrafir í Garði en hún fylgdi jafnframt tillögu að fornleifarannsókn á þeim og umsókn um styrki til að standa straum af kostnaði við grunnrannsóknir.
Kuml-201Kuml eru einstakar fornleifar frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar. Þau eru meðal helstu heimilda okkar um landnámsmennina og samfélagsgerð þeirra tíma. Oft hefur það háð kumlarannsóknum á Íslandi að þau finnast við rask eða uppblástur. Ýmist hafa þau spillst við það og/eða fornleifafræðingar verið undir tímapressu við vettvangsrannsókn vegna framkvæmda.
Reykjanesskaginn er ríkur af fornleifum og benda ýmsar sagnir, örnefni og ekki síst hleðslur eða þústir til heiðinna grafa. Þó hafa kuml á svæðinu ekki frekar en aðrar fornleifar notið verðskuldaðrar athygli fræðimanna til þessa. Áhugamenn um fornleifar, leikir og lærðir, hafa á undanförnum árum gengið víða um Reykjanes, safnað upplýsingum og skráð fornleifar. FERLIR, sem upphaflega var ferðahópur rannsóknarlögreglumanna, hefur lagt drjúgan skerf til þess verks. Í ferðum sínum um Garð hafa félagar í  hópnum m.a. fundið þrjá afar áhugaverða staði þar sem eru vísbendingar um kuml. Staðirnir eru 1) meint gröf landnámskonunnar Steinunnar gömlu og fornmannagröf í landi Stóra Hólms,
 fornmannagröf í Garði, landi „Bræðraborgar“, og  letursteinn, auk 3) fornmannagrafar í Kistugerði á Rafnkelsstöðum.
Fornleifar hafa ekki fundist á Rafnkelsstöðum sem gefa til kynna að þar sé um kuml að ræða, þótt þjóðsagan segi frá fornmannagröf og að í henni sé gullkista. Verður því ekki frekar um Rafnkelsstaði fjallað hér. Aftur á móti er að finna fornleifar á Stóra Hólmi og í landi Bræðraborgar, sem skýrsluhöfundar hafa sérstakan áhuga á að kanna með fornleifarannsókn hvort séu kuml eða önnur mannvirki. Í landi Bræðraborgar er líka að finna leturstein sem stendur rétt við ætlaðan haug og  hefur hann aldrei verið rannsakaður; Þórgunnur Snædal rúnasérfræðingur hefur lýst sig reiðubúna að rannsaka áletrunina á steininum.
Í greinargerðinni er fjallað um hvern fr
amangreindra staða fyrir sig og gerð grein fyrir markmiðum með fyrirhugaðri rannsókn.

Garður

Garður.

 

 

Hof

Á Kjalarnesi má finna ýmsa álagabletti, staði sem tengjast álfum, huldufólki, dvergum, vættum og draugum.
Kjalarnes-442Má t.d. nefna álagablett á Klébergi fyrir neðan Klébergsskóla, Helguhól utan við bæinn Gil (draugasaga), álagablett við Lykkju, huldufólk við Arnarholt og Borg sunnan Brautarholts, draugasaga í Strýthólum, dvergasögur tengdar Dvergasteini vestan við Bakka, Árnesi og Ártúnsgljúfri, álagablett (haugur Andriðar) í Andriðsey (Andrésey), dys í gilinu neðan við Saurbæ, vætti við Miðloku, huldufólk við Tíðarskarð, álagbletti við Óskiptu (land vestan Mela og Norðurkots) og loks draugasögu tengda við Tindstaði Innri.
Um Helguhólsdrauginn segir m.a.: “Helguhóll er grjóthóll upp með Bergvíkurlæk vestan við Vallárgrundir. Hann er eitt af landamerkjum milli jarðanna Hofs og Vallár, ásamt Hrafnaklettum, tveimur einstökum klettum upp í miðri Esjuhlíð og grjótvörðu á Klébergi sem ekki finnst lengur. Vestan við Helguhól er Aurinn. Þar var Aurbrú, gamall snidduhlaðinn vegur sem náði frá fjalli og niður á Grundarholt. Við Helguhól er sögn um lífseigan draug, Helguhólsdraug og var það trú manna að hann gæti tekið upp á því að villa um fyrir mönnum, er áttu leið um Aurbrú. (Kjalnesingar. Hof. 1998 Þorsteinn Jónsson, Byggðir og bú.)
Kjalarnes-441Í Krosshól[um] á að búa huldufólk. Í Kjalnesingasögu er getið um komu Auðar djúpuðgu er hún kom á leið sinni til og um landið við hjá bróður sínum, Helga bjólu, er bjó að Hofi. Helgi vildi bjóða henni og helmingi skipshafnarinnar húsaskjól og mat (hafa ber í huga að á sérhverju skipi voru a.m.k. 64 manna áhöfn), en Auði fannst bróður sinn helst til og nýskur á kostina svo hún ákvað að halda ferð sinni áfram uns Hvammsfirði norðvestra var náð. Þar er nú eitt örnefnið; Krosshólar, fyrir ofan tófta bæjar Auðar. Ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst stuttri viðdvöl hennar í Hofi á Kjalarnesi. Í dag er Hof sunnan við Brautarholt, millum þess og Esjubergs. Þar eru fáar minjar er gefa tilefni til fyrrum fornaldarbæjar. Bæjarnöfn hafa jafnan haft tilhneigingu til að færast til með tíð og tíma.
Kjalarnes-443Austan við núverandi Brautarholtsbæinn (og kirkjuna) er allálitlegar tóftir; vel gróinn bæjarhóll. Í honum eru leifar tiltölulega ungs bæjar; m.a. baðstofu, eldhús, fjós og hlöðu. Skammt vestar má sjá leifar fjárhúsa. Líklegt er að þessi bær hafi farið í eyði öðru hvoru megin við árið 1900. Krosshól[a] má sjá skammt norðaustan við bæjarstæðið. Augljóst er að þarna hafi fyrrum staðið eldri bær eða bæir um langt skeið. Staðurinn er kjörinn til fornleifauppgraftar, og þá með þeim formerkjum að verða grafinn upp í heilu lagi. Ekki er grunlaust um að ýmislegt forvitnilegt kynni að koma þar upp úr sverðinum.
Haugur Andriðar, föður Búa (skv. Kjalnesingasögu) er í Andriðaey. Ætlunin er að skoða hann við fyrsta tækifæri. Við hauginn á að vera Kjalarnes-444stór steinn, uppréttur, sagður legsteinn landnámsmannsins í Brautarholti, þess er sonur Helga bjólu drap á gamalsaldri til að jafna sig á því að hafa ekki náð að drepa son hans, Búa. (Samkvæmt sögunni virðist þetta hafa verið bilað lið.)
Þegar komið var að Saurbæ var þar fyrir sérkennileg kerling á gamals aldri. Aðspurð um “Dysina” sagðist hún vita hvar hún væri, en það mætti alls ekki grafa í hana, a.m.k. ekki meðan hún væri á lífi. Nú væri dysin nánast orðin jarðlæg og ekki fyrir óreynda að staðsetja hana. Sagði hún fornmann vera þarna grafinn og sá átrúnaður væri á honum að á meðan hann fengi að vera óáreittur myndu “hey í Saurbæ ekki bresta”.
Af þeim sökum hefði verið séð til þess að gengið væri um dysina með Kjalarnes-446tilhlýðilegri virðingu. Þessa stundina stóð þannig á að sú gamla í Saurbæ var ekki ferðafær og baðst undan því að fara á staðinn að svo komnu máli. Skrásetjari fékk á tilfinninguna að sú at tharna vissi minna en hún vildi vera láta. Á korti um minjar og sögustaði á Kjalarnesi er dysin staðsett í gljúfrinu norðan og neðan við kirkjuna.
Í örnefnalýsingu Mela segir m.a.: “Rétt neðan við Melabæinn er kvos í gilinu. Þar er brekka, sem heitir Álagabrekka. Hana má ekki slá, því þá ferst bezti gripurinn í fjósinu.” Þegar hús var tekið á Guðna Ársæli Indriðasyni í Laufabrekku austan Mela var ólíku saman að jafna og í Saurbæ. Móttökurnar voru hinar vinsamlegustu. Hann sagði nefnda Álagabrekku vera ofan Álagahvamms í landi Mela. Norðurkot væri ofan og sunnan við hvamminn.

Kjalarnes-447

Faðir hans hefði jafnan haft á orði að Álagahvamm mætti ekki slá. Hann hefði ekki tekið mark á sögninni tvö sumur og ákveðið að slá hvamminn, enda væri hann sérstaklega grösugur. Nú væri búið að gróðursetja þar nokkur grenitré. Þá hefði borið svo við að tvær bestu mjókurkýrnar á bænum hefðu drepist – og tengdi hann það hvammssláttunni.
Guðni sagði þrjár grónar þúfur eiga að vera í Óskiptu (óskiptu landi Melabæjanna). Þær hafi ekki mátt slá með svipuðum formerkjum og í Álagahvammi. Faðir hans taldi sig vita hverjar þessar þúfur væru, en nú væri erfitt að staðsetja þær af nokkurri nákvæmni.

Efstu bæirnir á Kjalarnesi í austri eru Tindstaðir Ytri og Innri. Handan þeirra taka Kjósarbæirnir við; Kjalarnes-448Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur.
Á Tindstöðum Innri var draugurinn “Tindastaðaflyksa”. Þetta var hundtík flegin aftur fyrir miðju, sem send var Halldóri bónda á Tindstöðum í Kjós seint á 18. öld. Um tíkina þá verður fjallað nánar um síðar.
Brautarholt er sagnastaður er fyrr greinir. Í örnefnalýsingu segir: “Sagt er, að í Krosshól hafi verið huldufólk. Eitt sinn þurfti að sækja yfirsetukonu til konu í Mýrarholti. Þegar hún kom, var búið að skilja á milli, en konan vissi ekki sjálf um, hvernig það gerðist. Þetta var um 1880.” Hamrarnir sunnan Borgar suðvestan Brautarholts geymir og sagnir um huldufólk, sem fyrr er lýst.
Við Bakka er Dvergasteinn. Húsfreyjan á Kjalarnes-445bænum, þrátt fyrir annir við mjaltir, gaf sér brosandi tíma til að útskýra tilurð örnefnisins. “Ég var hér í sveit fyrrum. Þá lá fyrir vitneskja um steininn. Hann var alltaf nefndur “Dvergasteinn”. Hann er þarna í túninu og hefur ávallt verið látinn í friði þrátt fyrir túnasléttur og aðrar framkvæmdir. Steinninn, sem nú virðist lítill, hefur áður verið mun hærri. Sagt er að sonur bóndans á Bakka hafi eitt sinn bjargað sér upp á steininn til að forðast mannýkt naut er sótti að honum. Ég veit ekki hvaðan sagan er komin eða hversu gömul hún er, en þarna er steinninn og þess hefur ávallt verið gætt að láta hann í friði”.

Heimildir m.a.:
-kjalarnes.is.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Guðni Ársæll Indriðason frá Laufbrekku á Kjalarnesi.
-Úrill kona í Saurbæ á Kjalarnesi.

Esja

Esja á Kjalarnesi.

 

Arnarnes

“Í ritgerð eftir próf. Matthías Þórðarson í Árbók Fornleifafjelagsins 1829, er nofnist „Nokkrar Kópavogsminjar”, hyggur hann að hálsinn, sem Eyólfur talar um, sje Arnarnesháls, en ekki Kópavogsháls (Digranesháls).
Arnarnes - dysNokkrar dysjar eru á Arnarneshálsi. Er talið að undir einni liggi danskur maður, sem tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp, en M.Þ. þykir líklegra að þar liggi Hinrik Kules, þýskur maður, sem tekinn var af lífi fyrir morð á Bessastöðum sjálfa jólanóttina 1581. Á norðanverðum hálsinum er önnur dvs, sem munnmæli ganga um að sje dys Steinunnar frá Árbæ og segir M. Þ. að það sje ekki að fortaka. En dys Sigurðar hvgg ur hann helst að sje norðan við Kópavogslækinn, skamt fyrir ofan veginn, sem nú er. Þar eru fjórar dysjar, tvær og tvær saman og ber mjög lítið á efri dvsjunum. Annars verður ekkert sagt um það með vissu, hvar þau Sigurður og Steinunn hafa verið dysjuð.

Enginn mun heldur vita hve margt fólk hefur verið tekið af lífi og dysjað í Kópavogi og á Arnarneshálsi. Sumar dysjarnar munu vera horfnar. En allar hafa þær verið meðfram veginum, sem þá var, svo að vegfarendur gæti kastað að þeim grjóti. Dómendur þeirrar tíðar ljetu sjer ekki nægja að dæma sakborninga til lífláts, heldur náði dómurinn út yfir gröf og dauða. Siðurinn sá, að urða sakamenn við alfaraveg, átti bæði að vera viðvörun til annara, og eins til þess að komandi kynslóðir gæti skeytt skapi sínu á hinum framliðnu með því að kasta að þeim grjóti.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla, 24. október 1948, bls. 448.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Sandfellsvegur

Stutt var síðan Kirkjugatan milli Reynivalla og Fossár var rakin (sjá HÉR). Nú var ætlunin að fara um Gíslagötu austar á Reynivallahálsi, upp á Selgötuna (Sandfellsleið), fylgja þeim niður í Fossárdal og ganga síðan til baka eftir Svínaskarðsvegi, hinni fornu þjóðleið, að Vindáshlíð.
GíslagataÁ hálsinum eru Dauðsmanns-brekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna, þar sem hún kemur inn á og yfir Sandfellsveg, er dys.
Guðbrandur Hannesson í Hækingsdal lýsti Gíslagötunni þannig áður en lagt var af stað: “Gíslagatan sést þegar komið er upp úr lúpínubreiðu neðan við Gíslalæk og ofan við Gíslalækjardrög. Gatan er skágengin upp hlíðina vestan  við gilið, sem lækurinn rennur um. Fyrst fer hún frá gilinu, en síðan aftur nær því. Kemur hún upp á hamrana um skarð, sem þar er nokkru frá gilinu. Þegar upp er komið er upp á brúnir er varða. Við hana liggur gatan til norðurs, en beygir síðan aftur til austurs uns hún kemur inn á Sandfellsveg í Dauðsmanns-brekkum. Gengið til austurs inn á Sandfellsveg. Hann liggur þar til norðurs. Þegar veginum er fylgt beygir hann fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þá eru Dauðsmannsbrekkur á hægri hönd en ekki vinstri eins og sýnt er á landakortum. Í þessum beygjum, við gatnamótin, er Dysin.
Gíslagata á að vera greinileg þegar upp úr drögunum er komið ofan við gilið. Þá er Sandfellsvegurinn vel greinilegur. Ekki eiga að vera vörður við  hann utan þeirrar er ég nefndi. Þá er Svínaskarðsvegurinn vel greinilegur. Hafa ber í huga að Gíslagata hefur ekkert með Sandfellsveginn að gera. Hún var leið á milli Gíslholts og Seljadals, en gatan heitir eftir Gísla Einarssyni, bónda á báðum stöðum, síðar í Seljadal þar sem hann bjó á árunum 1897 til 1921. Þetta er leiðin sem Gísli og hans fólk fór á millum bæjanna. Gísli var afabróðir minn. Afi minn hét Guðbrandur Einarsson frá Hækingsdal. Þar er skyldleikinn kominn milli ábúandans í Seljadals og ábúenda í Hækingsdals.”

Varða

Ábendingar Guðbrands komu sér vel því bæði er búið að sá lúpínu þar sem gatan liggur af fyrrum kirkjugötunni frá nálægum bæjum að Reynivöllum og auk þess hefur gatan verið lítið farin í seinni tíð af öðrum en hestamönnum. Fyrir þá, sem vanir eru að rekja gamlar götur, er gatan augljós upp fyrir brúnirnar. Þar taka við gróningar, en ofan þeirra má sjá hvar gatan liggur á ská til austurs, yfir Gíslalæk ofan gilsins og upp á brún, sem þar er vörðuð.
GíslagataVið vörðuna beygir gatan til norðurs, en hins vegar er auðvelt að villast af henni áfram til austurs því kindagata liggur þar af henni áleiðis að Sandfellstjörnum og nágrennisgróningum. Ef götunni er rétt fylgt héðan í frá verður hún auðlesin allt yfir Dauðsmannsbrekkur og að dysinni, sem þar er við Sandfellsveginn. Við götuna eru þrjár vörður og auk þess tvö vörðubrot. Gatan virðist af umsögninni ekki mjög gömul, en er samt sem áður orðin af fornleif skv. skilgreiningu þjóðminjalaga.

Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum lýsir leiðunum þannig:

“Gíslagata

DysinÖnnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.

Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna er dys. Í örnefnaskrá segir: “Dauðsmannsbrekkur, talið var að einhvern tíma hefði fundizt þar látinn ferðamaður”. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn.”

Gíslagata

Gíslagata – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar til 1921.” 

Séra Gunnar lýsir einnig Svínaskarðsvegi:
“Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.

Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmanns-brekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss. Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.

Leiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.

Göngusvæðið

Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.

Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá steypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.

Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.”

SandfellsvegurGíslagatan er vel greinileg yfir hálsinn. Á Dauðsmannsbrekkum verður hún ógreinileg á melum, en auðvelt er að sjá hvernig hún hefur legið á ská niður malarbrekkuna.
Þá var Sandfellsvegi fylgt upp að Sandfelli. Um er að ræða unnin veg, en sjá má gömlu götuna á stuttum köflum beggja vegna hans. Veginum er auðvelt að fylgja. Tvær vörður eru á brúnum austan hans. Sandfellstjörn verður á hægri hönd sem og Sandfellið. Utan í því austanverðu eru gatnamót Svínaskarðsvegar. Neðar hverfur gatan undir veginn, en beygir síðan til hægri ofan við Vindássel. Þaðan í frá er auðvelt að fylgja henni niður á kirkjugötuna gömlu.

Á næstunni er fyrirhuguð ferð upp frá Fossá inn á Sandfellsveg. Ætlunin er að fylgja honum upp að dysinni, rekja síðan Gíslagötu áfram yfir í Seljadal og ganga Svínaskarðsveginn upp að Sandfelli og niður að Vindáshlíð.

Sandfellstjörn

Þegar komið var niður að Vindáshlíð blasti húsakostur KFUMogK við. Einn þátttakenda, fyrrum félagsmaður og síðar starfsmaður, lýsti kirkjunni með eftirfarandi hætti: “Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar Sandfellfrá árinu 1878. Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu. Tveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina.
VindáshlíðÍ miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“. Kirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð.
KirkjanInni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð. 

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Gunnar Kristjánsson – Í Kjósinni.
-Örnefnalýsing fyrir Vindás.
-Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir.Dys