Færslur

Gíslagata

Stutt var síðan Kirkjugatan milli Reynivalla og Fossár var rakin. Nú var ætlunin að fara um Gíslagötu austar á Reynivallahálsi, upp á Selgötuna (Sandfellsleið), fylgja þeim niður í Fossárdal og ganga síðan til baka eftir Svínaskarðsvegi, hinni fornu þjóðleið, að Vindáshlíð.
GíslagataÁ hálsinum eru Dauðsmanns-brekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna, þar sem hún kemur inn á og yfir Sandfellsveg, er dys.
Guðbrandur Hannesson í Hækingsdal lýsti Gíslagötunni þannig áður en lagt var af stað: “Gíslagatan sést þegar komið er upp úr lúpínubreiðu neðan við Gíslalæk og ofan við Gíslalækjardrög. Gatan er skágengin upp hlíðina vestan  við gilið, sem lækurinn rennur um. Fyrst fer hún frá gilinu, en síðan aftur nær því. Kemur hún upp á hamrana um skarð, sem þar er nokkru frá gilinu. Þegar upp er komið er upp á brúnir er varða. Við hana liggur gatan til norðurs, en beygir síðan aftur til austurs uns hún kemur inn á Sandfellsveg í Dauðsmanns-brekkum. Gengið til austurs inn á Sandfellsveg. Hann liggur þar til norðurs. Þegar veginum er fylgt beygir hann fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þá eru Dauðsmannsbrekkur á hægri hönd en ekki vinstri eins og sýnt er á landakortum. Í þessum beygjum, við gatnamótin, er Dysin.
Gíslagata á að vera greinileg þegar upp úr drögunum er komið ofan við gilið. Þá er Sandfellsvegurinn vel greinilegur. Ekki eiga að vera vörður við  hann utan þeirrar er ég nefndi. Þá er Svínaskarðsvegurinn vel greinilegur. Hafa ber í huga að Gíslagata hefur ekkert með Sandfellsveginn að gera. Hún var leið á milli Gíslholts og Seljadals, en gatan heitir eftir Gísla Einarssyni, bónda á báðum stöðum, síðar í Seljadal þar sem hann bjó á árunum 1897 til 1921. Þetta er leiðin sem Gísli og hans fólk fór á millum bæjanna. Gísli var afabróðir minn. Afi minn hét Guðbrandur Einarsson frá Hækingsdal. Þar er skyldleikinn kominn milli ábúandans í Seljadals og ábúenda í Hækingsdals.”

Varða

Ábendingar Guðbrands komu sér vel því bæði er búið að sá lúpínu þar sem gatan liggur af fyrrum kirkjugötunni frá nálægum bæjum að Reynivöllum og auk þess hefur gatan verið lítið farin í seinni tíð af öðrum en hestamönnum. Fyrir þá, sem vanir eru að rekja gamlar götur, er gatan augljós upp fyrir brúnirnar. Þar taka við gróningar, en ofan þeirra má sjá hvar gatan liggur á ská til austurs, yfir Gíslalæk ofan gilsins og upp á brún, sem þar er vörðuð. Við vörðuna beygir gatan til norðurs, en hins vegar er auðvelt að villast af henni áfram til austurs því kindagata liggur þar af henni áleiðis að Sandfellstjörnum og nágrennisgróningum.
GíslagataEf götunni er rétt fylgt héðan í frá verður hún auðlesin allt yfir Dauðsmannsbrekkur og að dysinni, sem þar er við Sandfellsveginn. Við götuna eru þrjár vörður og auk þess tvö vörðubrot. Gatan virðist af umsögninni ekki mjög gömul, en er samt sem áður orðin af fornleif skv. skilgreiningu þjóðminjalaga.

Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum lýsir leiðunum þannig:

“Gíslagata

DysinÖnnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.

Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna er dys. Í örnefnaskrá segir: “Dauðsmannsbrekkur, talið var að einhvern tíma hefði fundizt þar látinn ferðamaður”. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn.”

Gíslagata

Gíslagata – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar til 1921.” 

Séra Gunnar lýsir einnig Svínaskarðsvegi:
“Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.

Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmanns-brekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss. Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.

GöngusvæðiðLeiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.

Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.

Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá steypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.

Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.”

SandfellsvegurGíslagatan er vel greinileg yfir hálsinn. Á Dauðsmannsbrekkum verður hún ógreinileg á melum, en auðvelt er að sjá hvernig hún hefur legið á ská niður malarbrekkuna.
Þá var Sandfellsvegi fylgt upp að Sandfelli. Um er að ræða unnin veg, en sjá má gömlu götuna á stuttum köflum beggja vegna hans. Veginum er auðvelt að fylgja. Tvær vörður eru á brúnum austan hans. Sandfellstjörn verður á hægri hönd sem og Sandfellið. Utan í því austanverðu eru gatnamót Svínaskarðsvegar. Neðar hverfur gatan undir veginn, en beygir síðan til hægri ofan við Vindássel. Þaðan í frá er auðvelt að fylgja henni niður á kirkjugötuna gömlu.

Á næstunni er fyrirhuguð ferð upp frá Fossá inn á Sandfellsveg. Ætlunin er að fylgja honum upp að dysinni, rekja síðan Gíslagötu áfram yfir í Seljadal og ganga Svínaskarðsveginn upp að Sandfelli og niður að Vindáshlíð (sjá væntanlega lýsingu HÉR).

Sandfellstjörn

Þegar komið var niður að Vindáshlíð blasti húsakostur KFUMogK við. Einn þátttakenda, fyrrum félagsmaður og síðar starfsmaður, lýsti kirkjunni með eftirfarandi hætti: “Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar frá árinu 1878. Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu.
SandfellTveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina. Í miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“.
VindáshlíðKirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð.
KirkjanInni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð.
Sjá einnig Kirkjugötuna yfir Reynivallahálsinn HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Gunnar Kristjánsson – Í Kjósinni.
-Örnefnalýsing fyrir Vindás.
-Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir.

Varða

 

Hraun

Haakon Shetelig skrifaði í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 um íslenskar dysjar Islenzkar dysjar og fornleifar frá víkingaöld:
“Eftir frásögn Ara fróða var landið numið á árunum sextíu frá 870—930. Verða færð ýms rök að því, að tímatalið er ábyggilegt um þetta að öllu verulegu leyti, að fyrstu landnámin áttu sér stað á árunum 870—80, en að útflutningurinn varð mestur frá því um 900, og að árið 930, er kjörinn var hinn fyrsti lögsögumaður, er hið eðlilega lokaár landnámsaldarinnar. Íslendingar voru þá og nokkuð eftir það Ásatrúar, og fylgdu hinum fornu, heiðnu greftrunarsiðum, unz kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Heiðnar dysjaleifar á Íslandi geta því ekki, nema að eins sem undantekningar, verið eldri en frá því um 900 og alls ekki neinar verið neitt að ráði yngri en frá því um 1000.
thorkotlusdys-221Norskir fornfræðingar veittu því snemma athygli, að svo var þessu farið, og að nokkur stuðningur gæti orðið að því við niðurskipun norskra funda frá víkingaöldinni eftir aldri þeirra, og þetta atriði heldur ennþá fullu gildi sínu að sínu leyti, þótt vjer höfum nú á annan hátt öðlazt möguleika til nákvæmari tímatalsákvarðana um hinar ýmsu gerðir forngripa frá víkingaöldinni í Noregi. En fornleifafundirnir á Íslandi eru samt sem áður alveg sjerstaklega athyglisverðir frá almennu norrænu sjónarmiði sjeð einnig. Það er óvenjusjaldgæft, að vjer höfum tækifæri til að athuga ákveðinn flokk fornleifafunda með svo vissum tímatakmörkunum og jafnframt innan jafn fastákveðinna landamæra. Forngripirnir sjálfir og sömuleiðis það samband, sem þeir eru í við aðrar fornleifar í fundunum, geta veitt hjer mjög merkilegan fróðleik (það er ekki til neitt fornfræðilegt heildar yfirlit yfir fornleifafundi frá víkingaöld á Íslandi. Ingvald Undset gerði í bók sinni, Norske Oldsager i fremmede Museer, bls. 53, skrá yfir íslenzkar fornminjar í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (1878). Kr. Kálund gerði fullkomna skrá yfir dysjar og dysjaminjar i ritgerð sinni, Islands Fortidslævninger, í Aarb. f. n. Oldkh., 1882, og er sú skrá góður grundvöllur. Við það bættust svo einkum rannsóknir Daniels Bruuns 1898, sbr. Geografisk Tidsskrift XV, Kh. 1900, og framhald í Geogr. Tidsskr. XVII, Kh. 1904, og loks ritgerðin Dalvik-Fundet í Aarb. f. n. Oldkh. 1910. — Kálund skýrir svo frá, að 30—40 dysjafundir frá heiðni á Íslandi hafi verið kunnir 1882. Nú munu þeir varla vera fleiri en 100).
gislagata-221-dysAð sjálfsögðu eru til fjöldamargar dysjar frá heiðni á Íslandi, miklu fleiri en ætla mætti, er litið er yfir það safn af fornleifum, sem nú verður sjeð í safninu í Reykjavík. Þess skal getið hjer, að reglubundnar rannsóknir með uppgrefti hafa þa að eins verið framkvæmdar, er ástæður voru til, og mjög hógværlega farið í þær, og hins er einnig að minnast, að jarðræktin á Íslandi er ekki innifalin í því, að brjóta land og plægja akur, störf, sem í Noregi verða mjög drjúgum til þess að leiða í dagsins ljós fornleifar úr dysjum frá löngu liðnum tímum. Á Íslandi finnast fornminjar helzt við heimaverk af hendingu, þegar grafið er fyrir undirstöðum nýrra húsa. Annars finnast hinar fornu dysjar þar venjulega fyrir eins konar fyrirbrigði í náttúrunni, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland; það er þannig, að grassvörðurinn rifnar upp í roki og síðan blæs jarðvegurinn neðanundir smám saman burt með vindinum; beinaleifar og fornminjar koma þá fram til sýnis á yfirborðinu á eðlilegan hátt. Mjer hefir skilizt, að með reglubundnum rannsóknum mætti áreiðanlega gera ráð fyrir því, að auka mætti allmikið á tölu kunnra, íslenzkra dysjafunda frá víkingaöldinni og fylla enn betur yfirlitið yfir þær dysjaminjar og þær dysjar frá heiðni, sem til eru. Þetta síðast nefnda, um dysjarnar, er ekki hvað minnst áríðandi fyrir fornfræðilegar rannsóknir landsins, þar eð því fer vafalaust f jarri, að í öllum gröfum eða dysjum hafi verið fólgnar fornminjar með hinum framliðnu.
hraunsdys-221Greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa yfirleitt verið óbrotnir, og dysjar, sem hafi verið verulega auðugar að fornminjum, hafa verið fásjeðar í samanburði við það, sem hefir átt sjer stað í Noregi. Sá var siður á íslandi, hinn sami og vestanfjalls í Noregi, að menn voru dysjaðir heima við bæina, innan landamæra ættmenna sinna, en ekki í grafreitum, sameiginlegum fyrir stóran söfnuð.
Að ytra útliti eru dysjarnar frá heiðni ætíð óálitlegar. Grafirnar eru luktar litlum grjóthrúgum og grasþökum, og eru nefndar dysjar á Íslandi, en oft eru slíkar dysjar að eins lágar, steinlagðar hvirfingar, sem eru naumast hærri en svæðið umhverfis; eða grafirnar geta verið blátt áfram grafnar niður í jarðveginn undir flötu yfirborði Sams konar fyrirkomulag með öllum mögulegum tilbreytingum er einnig alþekkt í Noregi, en það, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland, er, að þar sjást engin minningarmörk, sem mikið ber á, engir stórir haugar, svo sem vjer getum að líta hvarvetna um land allt í Noregi frá víkingaöldinni, — suma furðulega mikla. Íslendingar hafa í því tilliti verið alveg lausir við allan metnað, og má segja, að hin einfalda, hógværlega gerð á dysjunum sje einkennandi þáttur í þessu nýja þjóðfjelagi þeirra allan fyrsta hlutann af lýðveldistímabilinu.
egilsdys-221Jafn tilbreytingarlaus var greftrunin sjálf. Líkin voru ætíð jörðuð óbrennd, svo sem einnig átti sjer stað, með mjög fáum undantekningum, í norrænu víkingabyggðunum á brezku eyjunum. Er hjer þannig enn um verulega frábrugðinn sið að ræða frá því, sem venja var til í Noregi; þar hölluðust menn mjög víða að líkbrennum alla tíð meðan heiðnir jarðarfararsiðir voru yfirleitt hafðir um hönd. Þeir, sem fengizt hafa við rannsóknir í fornfræði Íslands, hafa jafnan bent á þetta, hversu frábrugðnir greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa verið, og hafa menn helzt viljað leita ástæðunnar í því, hve erfitt hafi verið að afla brenniviðar á Íslandi. Ekki er sú ályktun alveg sannfærandi. Í þann tíð var trjágróður allmiklu meiri á landinu en á síðustu tímum. Vjer sjáum t. a. m., að rauðablástur var stundaður mjög mikið, en til þeirrar iðju þarf mikinn við. Það er því ekki líklegt, að Íslendingar hafi látið af líkbrennum, vegna þess, að þeir hafi viljað fara sparsamlega með skógarviðinn, hefði þessi siður, að brenna líkin, stuðzt við viðurkennda, siðferðislega kröfu, sem menn væru skyldugir að gegna fyrir hina framliðnu. öllu heldur verður að dæma um greftrunarsiðina á Íslandi með tilliti til þess, hversu til var hagað í þeim efnum í víkingabyggðunum á Skotlandi og Írlandi; þar var greftrun án líkbrennslu svo að kalla undantekningarlaus, svo sem þegar hefir verið tekið fram. Á Íslandi var því fylgt þeim sið í þessu, sem þegar var kominn á fyrir löngu í nýlendunum vestan hafs, og það sennilega helzt fyrir áhrif frá kristninni, og fluttist þaðan með vestrænum landnámsmönnum, svo sem eðlilegt má þykja.
Gröfin sjálf er hin einfaldasta að gerð, hvort heldur hún hefir verið gerð að öllu leyti neðan jarðar eða lukt með dys ofan jarðar, og oft sett umhverfis hana röð af steinum, en ekki haft neitt verulegt grafarhólf. Ekki verður bent á það, að fylgt hafi verið neinni fastri reglu um það, hversu grafir manna skyldu snúa eftir áttum. Líkið er oft þannig í gröfinni, að rjett hefir verið úr því; en þess kvað einnig vera ábyggileg dæmi á Íslandi, að líkin hafi verið jörðuð sitjandi. Skipsgrafir eru undantekningar; þótt þær þekkist.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, bls. 5-6.

Þórkötludys

Þórkötlusdys.

Hraðaleiði

Nokkur fornmannaleiði eru í Mosfellsbæ. Má þar nefna Þormóðsleiði í Seljadal, Hraðaleiði á mörkum Hraðastaða og Mosfells, Æsuleiði við Æsustaði, Skeggjaleiði hjá Skeggjastöðum, Úlfarsleiði í Úlfarsfelli, Reynisleiði við Reynisvatn og Egilsdys í Tjaldanesi neðst í Mosfellsdal.
BjarkiSamkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði.
Sá maður í Mosfellssveit (-bæ) sem veit manna best um þau þá fyrrum heygðu er heitir Bjarki Bjarnason og býr að Hvirfli í Mosfellsdal. Hann er margfróður um sögu byggðarinnar enda lagt sig fram við að varðveita gamlar sagnir og sögur af svæðinu.
Áður en eftirgrennslan hófst var vitað að í örnefnalýsingum kemur fram að “Þormóðsleiði er týnt, eftir því sem ég best veit. Hef heyrt að bóndinn í Þormóðsdal hafi sléttað það út”, “Hraðaleiði er áberandi hóll vestast á túnunum á Hraðastöðum”, “Skeggjaleiði er týnt”, “Egilsdys er lítill hóll í svonefnum Víðirodda vestast í Mosfellsdal þar sem árnar koma saman” og “Æsuleiði er hóll miðja vegu á milli Norður-Reykja og Æsustaða.” Ekki beint örvandi til leitar, en FERLIR er þekktur fyrir annað en uppgjöf.
Bjarki fylgdi FERLIR um Mosfellsdalinn með það fyrir augum að reyna að staðsetja Æsuleiði, Hraðaleiði og Egilsdys, en Þormóðsleiði virðist hafa farið forgörðum er nýi vegurinn var lagður um Seljadal rétt neðan við býlið Þormóðsdal upp í grjótnámið sunnan í Grímannsfelli (sjá “Þormóðsdalur – minjar og annað gull” á vefsíðunni undir Lýsingar). Þá er ekki vitað hvar Skeggjaleiði kann að vera. Að þessu sinni var hvorki gerð leit að Úlfarsleiði eða Reynisleiði, en að sjálfsögðu verður gerður út leiðangur í það verkefni fyrr en seinna.

Þegar gengið var að Hraðaleiði vakti stórt hringlaga, næstum jarðlægt, gerði athygli þátttakenda. Auk þess að skoða fyrrnefnda staði var kíkt á Jónssel ofan við Seljabrekku.
Samkvæmt þjóðminjalögum eru haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið, taldir til fornleifa. Hins vegar getur þurft að horfa til þess að “dysjar” þurfa ekki endilega að vera raunverulegar dysjar heiðins fólks. HraðaleiðiBjarki gat þess t.d. að hvorki Hraðastaða né Æsustaða væri getið í fornum skráðum heimildum. Einungis væri um að ræða munnmælasögur sem gengið hafa í sveitinni um langan tíma. Sama sagan væri um Skeggja á Skeggjastöðum, Þormóð í Þormóðsdal, Reyni á Reynisvatni og Úlfar á Úlfarsfelli, sem reyndar nefndist áður Úlfmannsfell. Sögurnar virðast hafa orðið til líkt og aðrar þjóðsögur þar sem reynt var að finna tilvist þeirra stað með því að vitna til óráðinna sagna og jafnvel áþreifanlegum sönnunum, þ.e. dysjunum.
Hvað um það – sögurnar eru góðar og hafa staðið fyrir sínu um langan tíma, þ.e. þjónað þeim tilgangi sem þeim var ætlað. Það ber þó, með framangreint í huga, að taka sögunum með hæfilegum fyrirvara. Fróðlegt er þó að skoða staðsetningu framangreindra dysja og leiða út frá sögnum um að þau hafi jafnan verið fyrst staðsett á mörkum jarða og síðar á mörkum gróinna bletta umhverfis bæjarstæði. Æsuleiði er einmitt í jarðri fyrrum gróins svæðis, Hraðaleiði er á mörkum jarðarinnar að vestanverðu og Egilsdys er á mörkum jarðar að suðvestanverðu.
Túnasléttur voru versti óvinur fornra mannvistarleifa á öndverðri síðustu öld. Á þeim tíma voru ótal forn mannvirki jöfnuð við jörðu og sléttuð. Skipti þá engu hvort um var að ræða fornar grafir eða annað. Heimafólkið eitt vissi gjarnan

hringlagaum tilvist þeirra og gætti þess vel að þeim væri ekki raskað, enda fylgdi oft lýsing á hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér, jafnvel þótt ekki gerðist annað en að þau væru nytjuð. Átti kýr á bænum þá gjarnan að drepast, sjómenn að drukkna, heimilisfólk að veikjast og/eða deyja eða aðrar skelfingar að dynja yfir.  Ástæðurnar voru jafnan af tvennum toga; annars vegar til að auka líkur á varðveislu þess, sem fólkið trúði í alvöru að væri satt, og hins vegar til að standa vörð um aðrar varhugaverðari ástæður, s.s. grafir skepna er látist höfðu úr miltisbrandi eða þar sem fatnaður fólks var grafinn er látist hafði úr svartadauða eða spænsku veikinni og svo mætti lengi telja.
Æsuleiði er norðvestan undir rótum gróinnar brekku í túni Æsustaða. Að sögn Bjarka eru Æsustaðir alls ekki svo gamalt býli. Þeir eru einn hluti af nokkrum frá Reykjum. Sunnar er Æsustaðafjall og norðvestar Helgafell. Milli þeirra er skarð, Skammaskarð. Handan og suðaustan þess er Skammidalur. Þar eru minjar stekks eða annarrar rústar.
Gömul kona, sem bjóð að Æsustöðum hefði fylgt honum um túnið á sínum tíma með það fyrir augum að staðsetja Æsuleiði. Þá hefði hann haldið að leiðið væri áberandi gróinn rofhóll undir brekkunni, en gamla konan hefði hins vegar Jónsselbent honum á ílanga þúst, um 8 m langa og 2.5 m breiða, skammt norðar undir brekkurótunum. Hæðin er um 0.8 m. Leiðið snýr nokkurn veginn á lengdina í suður/norður. Þarna á Æsa gamla að hvíla. Teknir voru GPS-punktar á dysina.
Í Æsileiði á landnámskonan Æsa að liggja. Æsuleiði er álagablettur sem ekki má slá. Álagablettirnir eru fleiri því auk Æsuleiðis er slíka bletti einnig að finna á Hrísbrú, Norður-Reykjum, Úlfarsá (Álagablettur og Álagabrekka) og Úlfarsfelli. Blettina má ekki, skv. gömlum sögnum, slá eða eiga við á annan hátt.
Álfabyggð er skráð á átta bæjum í sveitarfélaginu, Blikastöðum, Helgafelli, Hraðastöðum, Miðdal, Mosfelli, Óskoti, Reykjakoti og Suður-Reykjum. Um 450 metra suður af bæjarhúsunum á Helgafelli er hóll sem nefndur er Sauðhóll. Samkvæmt gamalli sögn hafði bóndinn á Helgafelli einhvern tíma verið að reka heim fé neðan úr Skammadal í austanbyl. Sá hann þá mann á undan sér sem einnig var við fjárrekstur. Hvarf maðurinn fyrir Sauðhól en þegar bóndi kom sjálfur fyrir hólinn sást hvorki af honum tangur né tetur. Taldi bóndi víst að maðurinn hefði horfið inn í
hólinn með allt féð en það voru víst sauðir. Var þarna því um huldumann að ræða en ekki mennskan mann.
EgilsdysSauðhóll er á því svæði þar sem nú er fyrirhugað að rísi ný íbúðarbyggð. Tekið var fullt tillit til hólsins og mun hann standa áfram inni í hinni nýju byggð.

Mjög margar af þeim fornleifum sem skráðar voru í Mosfellsbæ tengjast landbúnaði, , t.d. útihús, stekkir, kvíar, réttir, nátthagar, fjárborgir, sel og mógrafir. Margar þessara minja eru enn greini-
legar.
Að sögn Bjarka er Víghóll áberandi kletthóll suðvestan við Norður-Reyki. Að sögn fyrrum ábúanda á jörðinni mun hóllin hafa heitið Kvíahól og þá dregið nafn sitt af kvíahleðslum, sem þar hefðu verið undir honum.
Þá var gengið að Hraðaleiðinu. Það er á vesturmörkum jarðarinnar. Skurður vestan hennar undirstrikar mörkin. Dysin er um 15 m löng og um 6 metra breið. Hæðin er um 1.5 m. Ummerkin benda, ef satt er, til þess að þarna hafi höfðingi verið dysjaður. Leiðið liggur, líkt og Æsuleiði, nokkurn veginn suður/norður.
Gamla íbúðarhúsið að Hraðastöðum sem byggt var 1923 og hefur verið endurbyggt. Það er dæmigerður fulltrúi hins “íslenska sveiser” og mikilvægt sýnishorn ákveðins tímabils í sögu
bændabýla hérlendis (Hörður Ágústsson).
ÓþekktFyrrnefnt gerði, sem uppgötvað var vestast á túninu á Hraðastöðum, skammt sunnan Þingvallavegar, hefur verið nokkuð stórt. Nú er það um 20×20 m að ummáli, hringlaga. Hringurinn er um 0.20 m hærri en túnið umhverfis. Litabreyting er í hringnum miðað við umhverfið. Ef mjög vel er að gáð má sjá móta fyrir hleðslum í hringnum.
Ljóst er að þarna hefur verið mannvirki áður en túnið var sléttað. Hvort sem það hefur verið hringlaga rétt eða eitthvað annað er ástæða til að skoða það sérstaklega. Enn er t.a.m. ekki vitað hvar Kjalarnesþing var til forna, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hvers vegna skyldi það ekki hafa verið þarna – áleiðis til Þingvalla.
Mosfell er ekki langt undan sem og aðrar merkisjarðir fyrrum. A.m.k. kosti væri ástæða til að gaumgæfa þennan stað mun betur. Ekki er vitað hér og nú hvort hann hafi verið uppgötvaður áður sem fornleif svo tekinn var GPS-punktur á hann – ef einhver áhugi skyldi vakna hjá einhverjum.
Innar er Helgadalur. Þar er Katlagil í Grímannsfelli. Í því er hlaðin tóft, sem skoða þarf við tækifæri.
Þá var haldið að Egilsdys. Fyrsti legstaður Egils Skallagrímssonar er sagður í greinilegum haug eða hól á Tjaldanesi. Haugurinn eða hóllinn er nú afgirtur innan hestagirðingur – af einskærri tillitssemi við söguna. Sagnir herma að Egill hafi verið grafinn upp þegar kirkja var reist að Hrísbrú. Margir hafa reyndar velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.

Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Bein Egils munu skv. þessu hafa verið flutt í gömlu kirkjuna, sem nú er reyndar verið að grafa upp í fornleifauppgrefti að Hrísbrú, en síðan þaðan í gamla kirkjugarðinn við Mosfellskirkju, sem væntanlega hefur staðið skammt austar en núverandi kirkja – há og hnarreist.
Loks var haldið í Jónssel ofan Seljabrekku. Sagt er frá því annar staðar á vefsíðunni ( Bringur – Helgusel – Mosfellssel – Jónssel undir Lýsingar). Bjarki gekk öruggum skrefum inn á óslegin austurtún bæjarins. Hann sagðist hafa farið þangað einu sinni með Guðjóni Bjarnasyni, þáverandi ábúanda. Hann hefði vísað á Jónsselselstóftirnar. Þeir hefðu gengið frá bænum, en á leiðinni hafi þeir komið að folaldi í skurðfestu svo einungis höfuðið hafi staðið upp úr. Tekist hefði að bjarga því, en vegna þessa atviks hafi gangan verið einstaklega eftirminnileg.
Leifar Jónssels eru austarlega á grónum túnum Seljabrekku, en þó enn óhreyft. Sjá má móta fyrir útlínum húsanna. Ekki er þó gerlegt að ákvarða veggi einstaka rýmishluta svo öruggt megi teljast. Tækifærið var notað til að rissa minjarnar upp og mæla. Einnig voru teknir GPS-punktar, en þeir reyndust vera þeir sömu og teknir voru í tilefni framangreindrar lýsingar. Munurinn var einungis sá að nú var grasið hávaxnara en áður.
Ljóst er þó að selstóftin hefur greinst í þrennt. Gengið var inn í aðalrýmið úr suðri. Norðaustan við tóftirnar mótar fyrir stekk eða kví. Vestan tóftarinnar er gamalt vatnsstæði. Jónsselslækur er norðar og er selið reist á suðurbakka lækjarins. Frá selinu sést vel hvar lækurinn liggur enn ósnertur þar sem hann liðast upp (ætti að vera niður) brekkuna suðaustanverða, en norðvestar hefur verið grafinn skurður í hann með stórvirkum vinnuvélum.
Hinar hlöðnu tóftarhleðslur, sem lýst var að Jórunn í Bringum hefði notað við heyskapsverkin í byrjun 20. aldar, virðast nú horfnar niður í þykkan svörðinn. Svona er hin “eilífa hringrás”.
Frábært veður.

Óþekkt

Dómhringur?

 

Arnarnes

“Sumarið 1926 hafði ég tal af frú Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen, ekkju Theodors Mathiesen í Hafnarfirði. Hún er fædd í Kópavogi 14 árum eftir að Jónas kom þangað (21. sept. 1855) og uppalin þar, unz hún var komin á 19. ár. Frú Þuríður er prýðilega gáfuð kona, skýr í tali og minnug vel enn á margt það er hún sá eða heyrði í æsku. — Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Thorgardsdys-21Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 42. árg. 1929, bls. 29-30.

Þorgautsdys

Þorgautsdys.

Þinghóll

“Í fyrra (23. mars, 1996) birtist í Lesbók grein um morð við Skötufoss í Elliðaám árið 1704. Sakborningarnir, Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir voru teknir af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Fornleifarannsókn var gerð á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk 1988 og eru hér leiddar líkur að því að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.

Þinghóll

Þinghóll.

Fyrir nokkru var ágæt frásögn í Lesbók Morgunblaðsins eftir Helga M. Sigurðsson um gamalt morðmál frá 1704. Tildrög málsins voru þau að Sæmundur Þórarinsson, sem bjó í Árbæ ásamt 44 ára gamalli konu sinni, Steinunni Guðmundsdóttur, móti Sigurði Arasyni, 26 ára gömlum manni, og móður hans, fannst þann 22. september 1704 látinn í Elliðaá. Skömmu síðar vaknaði grunur um að hann hefði verið myrtur og við yfirheyrslur hjá Paul Beyer landfógeta játaði Sigurður að hafa myrt Sæmund að undirlagi Steinunnar. Þau Steinunn voru tekin af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Henni var drekkt í Kópavogslæk og hann var hálshöggvinn. Í Vallaannál er þess jafnframt getið að höfuð Sigurðar hafi verið sett á stöng við gröf hans. Mál þeirra hefur orðið kveikja að draugasögu í nokkrum gerðum og er afturgangan ýmist nefnd Selsmóri, Sviðholtsdraugur eða Þorgarður.

Kópavogur

Kópavogur – herforingjaráðskort.

Í niðurlagi fyrrnefndrar Lesbókargreinar segir að annað sé ekki vitað um afdrif þeirra Steinunnar og Sigurðar en talið að grafir þeirra hafi fundist við vegagerð á fyrri hluta aldarinnar. Verður hér reynt að bæta nokkru við þá frásögn.
Munnmæli og sagnir um dysjar þeirra sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi hafa jafnan fylgt svæðinu og sést enn móta fyrir dys við gamla veginn sem liggur frá Kópavogslæk upp Arnarnesið sunnan læksins.
Frásagnir um beinafundi sem taldir hafa verið úr sakamannadysjum hafa einnig minnt á aftökurnar. Nokkrum sinnum hafa t.d. mannabein fundist í grennd við Gálgakletta í Garðabæjarhrauni. Þá er, eins og áður er getið, til frásögn um að vegagerðarmenn hafi árið 1938 fundið höfuðkúpu með miklu hári við Kópavogslæk og aðra beinagrind höfuðlausa. Þessi bein munu hafa verið sett aftur á sinn stað, en ekki var fundarstaðurinn staðsettur neitt nánar.

Kópavogur

Þinghóll – dysjar.

Í þessari grein, sem er stytt útgáfa greinar sem birtast mun í næsta hefti tímaritsins Landnám Ingólfs, er sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk vorið 1988 í sambandi við breikkun Hafnarfjarðarvegar. Leitt er að því líkum að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.
Fyrir rannsókn sást dálítil þúst í krikanum milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar sem talin var vera dys. Fyrirsjáanlegt var að nýi vegurinn hlyti að fara yfir hana að hluta eða öllu leyti. Auk greinarhöfundar unnu fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Lise Bertelsen við rannsóknina.
hjonadysjar-1Við rannsókn komu fyrst í ljós tvær smásteinahrúgur rétt undir yfirborði, um 3 x 1,5 m að ummáli hvor um sig, og var um 1 m á milli þeirra. Hér voru greinilega fundnar tvær grafir sem í upphafi höfðu verið þaktar steinhnullungum. Í efri lögunum voru margar smávölur sem vegfarendur hafa kastað í dysina um leið og þeir áttu leið framhjá, en samkvæmt gamalli þjóðtrú var það talið geta komið í veg fyrir óhöpp að henda þremur steinum í dys þegar farið var framhjá henni í fyrsta sinn.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Undir neðsta steinalaginu var beinagrind og vantaði á hana höfuðkúpu og þrjá hálsliði. Hendur lágu yfir magann. Fætur voru krosslagðir. Gröfin, sem lá frá norðvestri til suðausturs, var 1,62 m löng og um 0,7 m þar sem hún var breiðust, mjókkaði til austurs og var um 0,4 m breið til fóta. Hún hafði upphaflega verið grafin niður um hálfan metra.

Fyrstu dauðadómar sem heimildir eru til um frá Kópavogsþingi, og sem jafnframt eru elstu rituðu heimildir um þingstaðinn, er frægur tylftardómur frá 1. júní 1523 yfir Týla Péturssyni. Týli sem var fyrrverandi hirðstjóri á Bessastöðum, hafði tvívegis snúið aftur til Bessastaða, tekið hirðstjórann Hannes Eggertsson til fanga um skeið, rænt fé úr Bessastaðakirkju og sköttum konungs. Eftir að hann hafði verið tekinn fastur og dæmdur var hann leiddur “austur yfir Bessastaði” þar sem hann var hálshöggvinn ásamt syni sínum, þar sem kallaðist Týlshóll síðan.
hjonadysjar-2Greinarhöfundi er ekki kunnugt um legu Týlshóls. Af orðalagi heimilda má ætla að hann hafi verið í túni austan Bessastaða, en þar er ekkert slíkt örnefni varðveitt. Líklegra má telja að þeir feðgar hafi verið teknir af lífi á Kópavogsþingstað og dysjaðir þar. Hinrik Kules var þýskur maður sem dæmdur var til dauða og tekinn af lífi á Kópavogsþingstað, þann 23. febrúar árið 1582, fyrir að hafa drepið Bjarna Eiríksson á Bessastöðum á jólanótt. Talið hefur verið að Kules hafi verið dysjaður efst á Arnarneshæð, vestan við gamla veginn og mun þar lengi hafa mótað fyrir gróinni dys. Árið 1664, þann 25. janúar, var Þórður Þórðarson dæmdur til dauða í Kópavogi fyrir þjófnað á verslunarvarningi. Systir hans Guðrún kærði dóminn á Alþingi 1665. Í athugasemd með afskrift af dómnum sem færður er í alþingisbók 1666 kemur fram að Þórður hafi verið hengdur.
Í desember 1677 voru maður og kona dæmd fyrir sams konar afbrot. Árið 1703 voru tveir flökkuþjófar dæmdir til dauða og hengdir. Að lokum er þess getið að Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir hafi verið dæmd og tekin af lífi á Kópavogsþingi árið 1704.
Ekki hef ég fundið fleiri heimildir um dauðadóma sem framfylgt hefur verið á Kópavogsþingstað en þessa 10 einstaklinga sem hér voru taldir upp að framan.
Kópavogsþingstaður var fluttur til Reykjavíkur árið 1753 og þá er hlutverki hans lokið. Eftir því sem næst verður komist virðast að minnsta kosti 4 karlmenn hafa verið hálshöggnir og 4 hengdir á þeim tíma sem þingstaðurinn var í notkun. Ein kona virðist hafa verið hengd og einni var drekkt.
Enda þótt það komi ekki fram af fornleifafræðilegum rökum, má telja líklegast að konunni hafi verið drekkt í Kópavogslæk.
Breikkun Hafnarfjarðarvegar við Kópavogslæk og rannsókn á dysjunum þar hefur orðið til þess að rifja upp fornt sakamál.

Heimild:
-Laugardaginn 23. mars, 1996 – Lesbók Morgunblaðsins, bls. 6-7, eftir Guðmund Ólafsson.

Kópavogur

Svæðið.

Dysjar

Eftirfarandi fróðleik um Dysjar má finna í fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins í Garðahverfi árið 2003:
Gardahverfi - fornleifar VII“Dysjar eru nefndar meðal Garðakirkjujarða í máldögum þegar árin 1397  og 1477 , í Jarðaskrá kirkjunnar 1565 með ábúandann Jón Markússon  og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók Árna og Páls var þetta lögbýli í eigu Garða og árið 1703 bjó ekkjan Valgerður Nikulásdóttir á hálfri jörðinni með sex manns í heimili. Hinn helmingurinn var ábúandalaus um nokkurt skeið og hafði séra Ólafur í Görðum af honum nytjar en af  Manntali má sjá að Ásmundur Gissurarson flutti þangað sama ár ásamt kvinnu sinni Hildi Guðmundsdóttur og 11 ára sveitarómaga. Bændur með jarðnyt voru einnig tveir árið 1801, Jón Þorsteinsson og Hans Ormsson hreppstjóri, og hafa búið á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum sem var stærri bærinn. Jón var giftur Iðunni Jónsdóttur og bjuggu hjá þeim 22 ára dóttir, Guðrún, og Guðbrandur Hannesson vinnumaður.
Hreppstjórafrúin Vigdís Jónsdóttir var ljósmóðir að atvinnu. Heimilismenn voru 12 og meðal vinnumanna Narfi Jónsson, trúlega sonur hjóna í einu tómthúsi jarðarinnar, Jóns Narfasonar og Solveigar Hannesdóttur. Jarðnæðislaus eins og þau var einnig nafni hreppstjórans Arnórsson, titlaður húsmaður og fiskari og átti heimili ásamt konu sinni og föður. Fyrir fimmta býlinu var loks handverkskonan og ekkjan Ragnheiður Jónsdóttir sem bjó ásamt móður sinni og 82 ára gömlum húsmanni. Einhver af þessum fjölskyldum hefur væntanlega haldið til í hjáleigunni Dysjakoti en aðrar þurrabúðir eru ekki nafngreindar á Dysjum.
Í Manntal 1816 var fólkið flutt og ekki vitað hvert nema hvað Guðrún Jónsdóttir frá Vestur-Dysjum giftist Bjarna Sveinssyni húsmanni í DysjarSjávargötu. Jónar tveir höfðu hins vegar tekið við ábúð í Dysjum, bókbindari með konu og þrjú börn sem fyrir tilviljun var alnafni fyrri ábúanda, og svo Þorgrímsson nokkur með sjö í heimili,  þeirra á meðal mæðgurnar Herdís Símonsdóttir húskona og Ástríður Jónsdóttir, rétt komin yfir tvítugt. 28 ára gamall sonur húsbóndans, Gamalíel, mun síðar hafa flust í áðurnefnda hjáleigu. Í Manntali 1845 hafði aftur fjölgað á jörðinni en þá var í Vestur-Dysjar kominn Erlendur Halldórsson, þrítugur bóndi og fiskari með konu og þrjú börn, að líkindum sonur Halldórs Erlendssonar í Hlíð. Sjötti heimilismaður hans var Pétur gamli Jónsson sem var á sveitinni. Vigfús Hjörtsson á hinum Dysjabænum hafði sjö í heimili og bjó þar áfram Ástríður, dóttir Herdísar, ekkja og sjálf komin með titilinn húskona og lifði á handiðn. Með henni var fimmtán ára gömul dóttir, Guðrún. Þá voru tómthúsmennirnir þrír, Þórvaldur Sæmundsson með konu og barn, Sigvaldi Árnason með konu og Guðmundur Gíslason með vinnukonu og barn. Loks bjó á jörðinni Ólafur Bjarnason smiður og hafði níu í heimili. Þegar Jarðatal var tekið 1847 voru Dysjar enn í eigu kirkjunnar og ábúendur tveir. Þær eru nefndar í Jarðabók 1861  og voru áfram kirkjueign skv. Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4. Dysjar eru skv. Fasteignamati ríkisins enn í ábúð og skráður eigandi Úlfhildur Kristjánsdóttir.
Dysjar-221Árið 1565 galt Jón Markússon í landskuld þrjár vættir fiska, mannslán og vallarslátt, jörðinni fylgdu tvö kúgildi og bóndi hafði eins dags sölvatekju í landi staðarins. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld orðin hundrað álnir sem guldust með fjórum fiskavættum í kaupstað og vallarslætti. Kúgildi var eitt á jörðinni og borgaði Valgerður það hálft með fæði til vallarsláttarmanna en auk þess með fiski eða smjöri til staðarhaldara sem bar að uppyngja það. Kvaðir á hvern ábúanda voru dagsláttur, hríshestur og hestlán. Í bústofninum voru tvær kýr en fóðrast kunnu þrjár. Heimræði var allt árið og uppsátur í Dysjavör. Jarðardýrleiki var enn óviss 1847 en landskuld hafði lækkað í 80 álnir. Kúgildið var sem áður eitt. 1861 taldist jörðin 11,5 ný hundruð. 1932 var verðið 37 hundruð kr. fyrir Vestur-Dysjar og 51 hundruð fyrir Austur-Dysjar. Fyrrnefnda bænum fylgdu tvö kúgildi og 20 sauðir, þeim síðarnefnda þrjú kúgildi og 30 sauðir og einn hestur hvorum.
Matjurtagarðar sem við gerð Túnakorts 1918 voru 900 m² á Vestur-Dysjum og 1100 m² á Austur-Dysjum höfðu minnkað í 480 m² vestan megin en stækkað í 1220 m² austan megin og dysjar-223fengust árlega úr þeim tíu og átján tunnur garðávaxta. Jörðin hafði útræði og hrognkelsaveiði hefur verið í Dysjaþara af Dysjabryggju. Árin 1942-4 eru aðeins nefndar Austur-Dysjar og var fasteignamat þeirra orðið alls 61 hundruð kr. Nautgripir voru fjórir, sauðirnir jafn margir og áður og hesturinn einn. Úr görðunum fengust um 24 tunnur og auk fyrri hlunninda nefnd mótekja. Túnið skiptist í Dysja-Vesturbæjartún sem skv. Túnakortinu var 1,2 ha og Dysja-Austurbæjartún sem var 2,1 ha, þ.e. “allstórt” eins og segir í Örnefnaskrá 1964 en þar eru sérstaklega nefndir nokkrir túnskikar: Hólsflöt ofan bæjanna og Minkaflöt austarlega, kennd við minkabú sem þar var í eina tíð.
Brúarflatir þrjár sem urðu til eftir að Dysjamýri var ræst fram og ræktuð og liggja meðfram henni og eru kenndar við mýrarveginn Dysjabrú  og neðan þeirra er loks nýræktin Dýjaflöt. Frá túnunum er einnig sagt í Örnefnalýsingu 1976-7: “Austan bæjar á Dysjum er túnið sundurskorið af skurðum og teygist upp í Dysjamýrina. Næst bænum er Gerði, þá er Hólsflöt og síðan Minkaflöt. Þar ól Guðmann [Magnússon] eitt sinn minka. Þá er Dýjaflöt og þar fyrir austan Brúarflatir, þrjár flatir, aðgreindar með skurðum, og liggja þær að veginum. Allar þessar flatir hafa verið skírðar í seinni tíð, enda ekki svo langt síðan þær hafa verið ræktaðar.” Norðan í túninu var svo Dysjakot sem öðru nafni hét Gamlakot og kallaðist þar Dysjakotsvöllur eða Gamlakotsvöllur. Dysjatún var að mestu umgirt garði.
Þetta er syðsta jörðin í Garðahverfi og voru Bakki og Pálshús að vestan og norðan. Austar var jörðin Bali og nefndist vestasti hluti Balamalar Dysjamöl. Að norðaustan var Dysjamýri og við sjóinn suðvestan megin neðan bæjanna hétu Dysjafjörur.
dysjar-222Skv. Túnakortinu heita Dysjar öðru nafni Desjar. Við Fornleifaskráningu 1984 taldi heimildakona skrásetjara nafnið komið frá Völvudys en hún er hins vegar í Miðengislandi. Á Túnakorti er athugasemd um þetta í tengslum við landbrot við Dysjar af völdum sjávar: “Hér munu og hafa brotnað upp síðan í fornöld engjar miklar. – Og líklegra að býlin séu kend við des: (hey) en við dys (dauðra) þar á röku láglendinu.”
Á Túnakorti 1918 má sjá tvær stórar torfbyggingar í bæjarstæðinu, væntanlega bæina tvo en sá vestari skiptist í tvö aflöng hólf og hið vestara aftur í tvö ferningslaga hólf. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skv. Fasteignabók eru Vestur-Dysjar enn úr torfi árið 1932 en þær eru ekki nefndar árin 1942-4 og hafa væntanlega verið komnar úr byggð þá. Í Örnefnaskrá 1964 er talað um Dysjar Vesturbæ og Dysjar Austurbæ. Stóðu bæirnir “lítið eitt aðgreindir fram um 1900”. Í Örnefnalýsingu frá 1976 segir: “Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl. Gömlu bæirnir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er.
Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. Fast fyrir norðan núverandi íbúðarhús er fjós og hlaða, byggt um 1944-45. Bílskúr tengir það íbúðarhúsinu. Fjárhús er fast norðaustan fjóssins. […] Íbúðarhúsið á Vestur-Dysjum stendur, eins og nafnið bendir til, rétt vestan við Austur-Dysjar og gripahús og hlaða frá Vestur-Dysjum rétt sunnan hússins. U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […]”. Þeir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar fornleifaskráning fór fram 1984, annar þeirra, líklega sá vestari, var alveg farinn en “hleðslugrjót sést í bakkanum”.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, Garðahverfi – fornleifaskráning 2003, bls. 16-24.

Garðahverfi

Garðahverfi – flugmynd.

Stóra-Eldborg

Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu ofan Kerlingahvamms. FERLIRsfélagar mættir á vettvang.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: “Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg. Deildarháls er ofan hennar.

Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.”

Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans fremst. Þjóðleiðin lá milli dysjar smalans og kerlinganna.

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –

Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu. Eldborg fjær. Hér má sjá friðlýsingarskilti, sem nú er horfið.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.

Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.

Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.”

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Garðar

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 segir m.a um Garða á Garðaholti, Ráðagerði og Nýjabæ:

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Kirkjustaður. Hóll var hjáleiga 1803. 1307: “ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allann vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.” DI II, 362. 1367 átti kirkjan allt heimland, Hausastaði og Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Harunasholt og Hjallaland, auk þess afrétt í Múlatúni – DI III, 220 sbr. 1397 – DI IV, 107-108. 1558: Var kirkjujörðin Hlið lögð til Bessastaða en Garðar fengu í staðinn Vífilsstaði DI XIII, 317. 1697 var staðurinn 60 hndr.
Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …” (ÁG Saga Hafnarfjarðar I, 101). Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægtí hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…” Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar I, 102-104). Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.
1703: “Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.” JÁM III, 181.

Garðar

Garðaholt – loftmynd 1954.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for.
Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu “byggingar staðarins […] á bæjarhólnum austan kirkju […] ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu” […] Örnefnalýsing 1976-7 hefur þetta: “Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]”.”

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ósá.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í grein frá árinu 1904 […] segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn “þar sem Garðakirkja stóð” kallaður “Kirkjuhóll” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir hins vegar: “Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.” […] Núverandi kirkja var reist árið 1966.”

“Bygt í tíð og með leyfi Peturs Reyelssonar kaupmanns lengra inn í Garðastaðar landareign en Einarhús [sem var líklegast innan núverandi marka Hafnarfjarðar] af búandanum i Digranesi á Seltjarnesi, sem þessi búð brúkaði og skipi sínu þar hjá til fiskjar hjelt um vertíð orðlofslaust af staðarhaldaranum, so vítt menn vita. Búðin iggur nú í eyði síðan fiskiríið brást í Hafnarfirði,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703.
Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðar

Garðar árið 1900.

“Byggð nokkru síðar en Digranessbúð í tíð Knúts Storms kaupmanns í Hafnarfirði og með hans leyfi að menn meina. Stendur þessi búð álíka lángt inn í Garða landareign sem Digranesbúð. Brúkaðist hún og brúkast enn núi fyrir verbúð um vertíð af ábúandanum á Hólmi við Seltjarnarnes í leyfi kaupmannsins í Hafnarfirði, so framt menn vita, að vísu leyfislaust af staðarhaldaranum, og gánga þar við þessa búð tvö tveggja manna för jafnlega um vertíð,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðar

Garðar fyrrum.

“Út með Hafnarfirði í Garðastaðalandi standa þessi tóm hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallna búð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthússmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallandi fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðahorlt

Garðaholt.

“Út með Hafnarfirði í Garðastaðalandi standa þessi tóm hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð.
Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthússmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallandi fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðaholt

Stríðsminjar á Garðaholti.

“Hefur verið tómthús, fyrir átta eður tíu árum fyrst uppbygt. … Nú er þetta býli öldungiss eyðilagt og i tóftarbrot komið og byggist aldrei nema stór fiskiganga inn á Hafnarfjörð komi,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. “Sýslumaður nefnir eigi býli þetta, en jarðabækurnar telja hér 3 smábýli, sem sé Garða kirkjueign (Lángeyri, Bali og Skerseyri), en prestur nefnir Lángeyri eingaungu,” segir jarðaskrá Johnsens frá 1847. “Balatún: Tún býlisins Bala. Er eiginlega í Garðahverfi, en þar sem hann er á Hrauninu verður hann hér með. Balatúngarður: Túngarður austan túnsins aðallega,” segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar.
“Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. .. Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u.þ.b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar,” segir í örnefnaskrá Garðahverfis. Nákvæm staðsetning býli þess sem getið er í jarðabók er ekki þekkt, en samkvæmt lýsingu hefur það sennilega verið skammt frá hjalli sem er nú á þessum slóðum og er á hraunbrúninni.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeryrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar. “L[itla]-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. L[itlu]-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið. L[itlu]-Langeyrarbrunnur: Brunnur í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. ” Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.” segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið. Tvö hús standa bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Sjóminjasafn

Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.

1703 segir um Skerseyri “Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 ” “2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842” SSGK, 206. Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar.
“Skerseyrartún: Næsta býli við L[itlu]-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.” segir í örnefnalýsingu. Hús með torfþaki stendur rétt við ströndina byggt inn í hól. Upphlaðin leið liggur meðfram suð-vestur hlið. Húsið er tvískipt og eru á því tveir inngangar sem snúa í suð-austur. Framhlið er úr við, norð-austur og norð-vestur hlið eru klappir og suð-vestur hliðin er hlaðin úr grjóti. Þetta er ekki bæjarhús en er trúlega tengd búskap. Ekki að sjá neitt á svæðinu sem gæti verið bústaður.

Völvuleiði

Á Völvuleiði 1999.

“Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.” “Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð [1964].” Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Suðvestan til í Garðaholti, norðvestur af Völvuleiði, fannst við Fornleifaskráningu 1984 kofi og sunnan hans kálgarður.”
Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Kofinn er ferhyrndur og utanmál hans 7,25×5 m. Hann er hlaðinn úr grjóti, norðausturhliðin grafin inn í hæðina og grasþak á honum. E.t.v. Hefur þetta verið kartöflugeymsla.”

“Hún lá vestan Balaklettanna,” segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar. “Balaklettur gengur í sjó fram innan (austan) við Balamöl Vestan við hann var lending frá Bala,” segir í örnefnalýsingu Garðahverfis. Ekki er greinanleg manngerð, rudd vör vestan Balakletta, svo lendingin hefur verið náttúruleg. Balavör hefur verið um 50 m VNV af Balaklettsvörðu.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

“Segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar. Varðan er á klett við sjávarmál, um 50 m suður af unglegum hjalli sem stendur líklega nærri fyrrum bæjarstæði Bala.
Varðan er á hraunkletti í sjó fram, skammt norðaustur af er hraunið gróið grasi. Varðan er um 1,3 m á hæð og um 1 m í þvermál. Hún er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara. Varðan er brotin að ofan og hefur því verið hærri áður fyrr.

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá gamla grafreitinn í Görðum rétt suðvestan við kirkjuna og bæjarhúsin. Skv. Örnefnalýsingu 1958 er Garðakirkjugarður neðan bæjarins, upp af þurrabúðinni Hól: “Þarna er svæði slétt upp að kirkjurúst, en á það vantar nöfn.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 lá hann “neðan kirkjunnar og bæjarhúsanna” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: ,,Gamli kirkjugarðurinn er sunnan kirkjunnar og íbúðarhússins. Hann hefur nú verið stækkaður til vesturs.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er kirkjugarðurinn beint niður og vestur af núverandi bæjarhúsum “girtur grjóthlöðnum garði”.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: “Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.” […] Árið 1918 voru “um 40 minnisvarðar” í Garðakirkjugarði.”” Ekki er þess getið í skráningu RT og RKT hvað gamli garðurinn sé stór, hvort hann hafi verið sléttaður eða hvort þar sjáist merki eldri kirkju.

“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.” Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Garðaholt

Garðaholt – götur og býli.

“Gardhus, hjáleiga fyrirsvarslaus samtýniss við hinar hverfinu.” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá byggingu vestan við Garðatraðir og Garðahlið rétt innan túngarðsins, líklega svo nefnd Garðhús. Í Örnefnalýsingu 1958 er talað um hól vestur af Görðum ofan götu […] en skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta “hjáleiga og þurrabúð” upp við eða ,,vestan Garðahliðs” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Efst í Garðatúni, fast vestan við heimreiðina, eru gamlar tóftir af þurrabúðinni Garðhúsum.” […] Fornleifaskráning fór fram 1984 og eru minjarnar neðan vegar rétt áður en kemur að “heimkeyrslu að Garðakirkju […]” beint niður af spennistöð sem þarna er.” “Þjóðvegurinn er beint upp af, tún niður af, að kirkjunni.” Nokkru vestar kemur fram hluti af landamerkjagarði Garðalands og stefnir á Háteig.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Tóftin er ferhyrnd, mjög greinileg og virðist niðurgrafin. Hún skiptist í tvennt, innanlengdin 7 m að skilveggjum og 11,7 m frá honum, innanbreiddin um 3 m og veggirnir 1,5 m á breidd. Tóftin er full af grjóti, hefur nokkurn veginn sömu stefnu og vegurinn og vísar sú langhlið sem fjær honum er í suðvestur að Garðatúni. Fram af henni er eins konar bakki, e.t.v. Útlínur kálgarðsins sem þá er um 14 m breiður frá húsinu. Þetta kemur saman við Túnakortið sem sýnir aflangt torfhús með stefnuna norðvestur-suðaustur og áfastan kálgarð suðvestan megin.”

Bali

Bali – fjárhús.

Rúst af fjárhúsi er við gatnamót Garðavegar og afleggjarans sem áður lá að býlinu Bala. Umhverfis tóftina er grasigróið hraun.
Tóftin er hlaðin úr hraungrýti og er steypt á milli umfara, sem eru um 7. Veggjahæð er rúmlega 1,5 m og þykkt er milli 0,5 og 1 m. Hún er um 9 x 7 m að stærð og snýr NA-SV. Rústin er ferhyrnd og í henni eru tvö hólf, en vesturvegg vantar og hefur hugsanlega verið þil þar fyrir. Gólf eru steypt. Að líkindum er um rúst fjárhúss að ræða, en í örnefnaskrá segir að fjárhús Bala standi “upp við veginn til Hafnarfjarðar.”

“Skv. Örnefnaskrá 1964 tók Gálgahraunsstígur syðri við þar sem Dysjabrú sleppti. Hann lá austur frá Mónefi upp á Flatahraun við Hvítaflöt nokkru norðar, framhjá Oddsnefi og Bakkastekksnefi í hraunjaðrinum og um Gatnamót yfir í Engidal…Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið en í miklum leysingum fóru þeir frekar Kirkjustíg síðasta spölinn,” segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003.

Garðalind

Garðalind.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Garðalind er á Túnakortinu 1918 merkt inn beint suðvestur af Garðakirkjugarði þar sem túnið mætir mýrlendinu fyrir neðan, þ.e. Garðamýri […] Skv. Örnefnalýsingu 1958 er “við mýrarjaðarinn […] stór steinn, og hjá honum er uppspretta, sem heitir Garðalind.” […] Í Örnefnaskrá 1964 er hún einnig nefnd Garðabrunnur: “Svo var aðalvatnsból hverfisins kallað. Lind með rennandi vatni góðu. Þar var brunnur grafinn undir stórum steini og hlaðin upp með tröppum niður að vatninu […] Þangað sótti allt hverfið vatn til fjóss og bæjar.” Steinninn er kallaður Grettistak: “Mátti þar sjá fingraför Grettis er hann tók bjargið og færði í vegg brunnsins, lindarinnar.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Garðalind er niður undir Garðatjörn, beint niður af bænum í Görðum. Stór klettur er yfir lindinni. Er hann nefndur Grettistak. Tvær, þrjár tröppur eru ofan að vatninu í lindinni. Í garðalind var sótt vatn frá mörgum bæjum í Garðahverfi og jafnvel öllum í miklum þurrkum. Aldrei þraut Garðalind, og þótti í henni bæði heilnæmt og gott vatn., Smálækur rennur frá lindinni.” Samkvæmt Fornleifaskráningu 1984 er lindin beint niður af íbúðarhúsinu í Görðum, í vesturátt til sjávar, með grasbala ofan við upp að gamla kirkjugarðinum og blauta mýri framan við.”

Garðabúð

Garðabúð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Kletturinn liggur yfir lindinni eins og lok eða þak en nafnið Grettistak mun frekar ungt. Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða árið 1820 lýsir séra Markús Magnússon þessu allnákvæmlega: ,,Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu ein og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum svo að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú, eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann.” […] Árið 1984 kemur vatnið enn undan þessu stóra bjargi sem skrásetjari kallar ,,framhlið vatnsbólsins en bárujárnsþak, þakið torfi hefur verið reist aftan við það […] Byggt hefur verið utan um vatnsbólið – hlaðið múrsteinum – ferhyrnt lítið (dælu)hús sem gengið er inn í um dyr að sunnan”, um 1,8x2m að stærð og 1,2 m á hæð. Vatnsrásin sem einnig sést á Túnakortinu liggur líkt og áður í átt til sjávar en út í skurð og meðfram henni á um 4rra m kafla næst steininum eru hlaðnir veggir. Dæluhús og seinni tíma hleðslur hafa síðan hrunið utan af lindinni sem varðveist hefur óskemmd með klettinum yfir.”

Garðaholt

Garðaholt – Götur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Nokkru suðaustan Sjávargötu, milli samnefndrar leiðar og Garðalindar og ofan mýrlendis, er á Túnakortinu 1918 tvískiptur Kálgarður. Öðrum heimildum ber saman um að þarna sé hið gamla stæði Hóls, hjáleigu og þurrabúðar frá Görðum eða eins og segir í Örnefnalýsingu 1958: ,,Við mýrarjaðarinn er […] uppspretta, sem heitir Garðalind. Aðeins utar er Hóll.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 stóð hann ,,neðar en Sjávargata í Garðatúni […] niður undir Garðamýri […]” […] og í Örnefnalýsingu 1976-77 er sagt svona frá: ,,Hér áður voru tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. Hét sá eystri Hóll, og voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.” […]”

Garðaholt

Garðaholt.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Jarðabók 1703 segir: “Heimræði er árið um kríng og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 var lending í Garðavör við Garðasjó, fjöruna sunnan Miðengisvarar. “Vörin var nokkuð mikil um sig, enda mikil útgerð oftast frá Görðum. Var ætíð talað um að róa eða lenda í Garðasjó, og sandhryggurinn eða sjávarkampurinn allt austur undir Bakka nefndur svo.” Enn fremur er nefndur Garðagrandi en ..svo var sjávarkampurinn stundum kallaður mest allur” eða “frá Miðengi suður að Bakka” […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 er Grandi við sjóinn framan við Garðamýri […] en tveir bæir niður við hana ,,vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata.
Garðavör er neðan hennar, vestast á Granda.”

Garðar

Garðar – Móakot.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 er bærinn í Háteigi beint norðvestan Garða, alveg upp við Garðatúngarð. Hann skiptist í fimm hús og er byggður úr steini. Girt er kringum tún hans en nokkru austar í því er hús sem gæti verið Ráðagerði. Bygginarefnið er skv. Fasteignabókum áfram hið sama 1932 […] en auk þess er nefnt timbur árin 1942-4 og húsið þá járnvarið […] Í Örnefnalýsingu 1958 segir að Ráðagerði sé neðar en Gata og “Háteigur í líkri hæð, svo Miðengi neðan undan Háteigi.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 er Háteigur býli eða “hjáleiga frá Görðum litlu vestar en Ráðagerði” og Háteigstún ,,nú sameinað Ráðagerðistúni.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Býlið Háteigur er vestan Garða. Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó. Íbúðarhúsið stendur efst í túninu, rétt fyrir neðan garðinn (þ.e. garðinn” […] þ.e. túngarðinn.”

Garðahverfi

Garðaviti.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Á háholtinu er viti, Garðaviti. Þar var áður torfvarða og kveikt á lukt.” […] Örnefnaskrá 1964 bætir við: “Hann mun hafa verið reistur um 1870. Hann stóð á holtinu norður frá Garðahliði.” […]. Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: “Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti.” […] Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóftir séu “uppi á háhólnum […] svo til beint upp af Háteigi”, alveg við veginn, ofan og austan hans og er hæðin grýtt allt um kring.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: ,,Leifar sjást af tveimur tóftum hlið við hlið og virðast þær samfastar. Sú austari er stærri og greinilegri, innanmálið um 5,8 x 2 m. Hún er nokkuð niðurgrafin og um 1,1 m á dýpt. Stefnan er norður-suður. Sú vestari er öll ólögulegri, um 2,5 x 2 m að innanmáli […] Vitinn var í notkun sem ljósgjafi á tímabilinu 1868-1912 […] Tryggvi Gunnarsson í Grjóta (f.1899) mundi eftir honum og sagði hann hafa verið notaðan sem mið af sjó fyrir fiskibáta en á stríðsárunum notuðu Bretar hann sem virki. Húsið var síðan “selt og flutt heim að Hlíð, þar sem það var notað sem kamar”.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Nokkru norðvestan við kirkjuna sýnir Túnakortið 1918 garð. Hlaðnir veggur liggja kringum hann upp að girðingu sem skilur milli Garða annars vegar, Háteigs og Ráðagerðis hins vegar. Þetta hlýtur að vera niðursokkni grjóthlaðni garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984 og vísar eins og á Túnakortinu í norðvestur frá Garðakirkjugarði, “út að girðingu við Ráðagerði”. Hann beygir síðan í horn til vesturs.”

Móslóði

Móslóði.

“Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar.” segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist
Fógetagötu í miðju hrauninu.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við Lambhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim. … Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirra var lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessir klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.” Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Við fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé í úfnum norðvesturhluta Gálgahrauns, um 650 m í norðnorðvestur frá fjárborginni og um 10 m yfir sjávarmáli: “Klofinn hraunklettur – 2 m bil þar sem mest er – á milli gjábarma.” […] Gálgaklettar eru þó fjarri þingstað sveitarinnar í Kópavogi og heimildir eru ekki þekktar frá fyrri öldum um aftökur á þessum stað.”

Garðastekkur

Garðastekkur.

“Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta,á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.” segir í örnefnalýsingu. Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft.
Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar.
Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19x6m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5x5m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10x4m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftanúr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.

Eskines

Eskines – sjóbúðir.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í endurminningum sínum frá 1968 segir Ólafur Þorvaldsson: “Hrauntanga þann, sem gengur fram í sjó, milli Arnarnesvogs og Lambhúsatjarnarinnar, hef ég frá æskuárum heyrt nefndan “Eskineseyrar” og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt enginn viti nú, af hverju dregið er.” Síðan segir hann frá kofarúst í hraunjaðrinum upp af Eskineseyrum: “Sögu þessa tóttarbrots hef ég frá fólki, sem mundi byggingu hennar og tildrög. Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870 að honum kom til hugar, hvort ekki mundi kleift að rækta æðarvarp á Eskineseyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnugur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum, og hvort tveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg og natni og kunnátta viðhöfð.

Eskines

Tóft af hænsnakofa við Eskines.

Þar eð Garðkirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skammt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun séra Þórarinn hafa talið ómaksvert að reyna, hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi. Hann lét ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var, að hænsn lokkuðu fuglinn að með vappi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefur víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.” […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: ,,Skammt fyrir innan Gálga byrja Vatnagarðar, en svo heitir hraunið með Lambhúsatjörn. […] Nokkru fyrir ausatn þá eru Eskineseyrar svokallaðar. Í hraunjaðrinum fyrir ofan Eskineseyrar byggði séra Þórarinn í Görðum kofa, er hann hugðist koma sér þar upp æðarvarpi. Rústir kofans sjást enn. Eskineseyrar ganga til austurs út í Arnarnesvog. […] Á Eskineseyrum er fjörumór.” […]. Skv. Fornleifakönnun 1999 er kofinn í gjá ofan við Eskines […] Séra Þórarinn (f. 1825) var prestur í Görðum á tímabilinu 1868-95.” Eskinesbyrgi er ekki nánar lýst í fornleifaskráningu RT og RKT.

“Vestur frá Húsafelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell. Vestur úr því gengur Búrfellsgjá. Í gjánni er hellir, sem heitri Búrfellshellir, ágætur fjárhellir,” segir í örnefnaskrá. Búrfellshellir er sunnarlega í Búrfellsgjá nærri eldfjallinu. Hellirinn er við vesturbakka gjárinnar og um 1,1 km sunnar í henni en Gjárrétt. Hellirinn er í fremur grónu hrauni.
Munni Búrfellshellis er 5-6 m breiður og um 3 m hár og snýr til suðurs. Hleðsla er fyrir munnanum og dyr á henni miðri. Hleðslan er mest 2 m há, 1 m breið og úr stóru til miðlungs hraungrýti. Dyrnar á hleðslunni eru um 1 m breiðar. Lofthæð hellisins minnkar þegar innar dregur og endar innst í um 1,2 m hæð. Hellirinn er um 9 m djúpur og víðast um 6 m breiður, en norðaustur úr honum liggur lítill afhellir, um 5 m djúpur og mest 2 m breiður. Sauðaskán er á hellisgólfinu.

Gjárrétt

Gjárétt.

“Við norðurenda Búrfellsgjár er gömul rétt, sem heitir Gjárrétt,” segir í örnefnaskrá. Gjárrétt er merkt með skilti og er við göngustíg einna nyrst í Búrfellsgjá, um 320 m SSA af trébrú yfir Hrafnagjá við göngustíg.
Gjárrétt er á grónum hraunbotni Búrfellsgjáar, en Búrfellsgjá er á þessum slóðum breið og tiltölulega grunn.
Gjárrétt var hlaðin 1840 og var fjárskilarétt Álftaneshrepps til 1922, en eftir það var réttað í henni að einhverju marki allt til 1940. Réttin er þurrhlaðin úr miðlungs og stórum hraunhellum og eru í henni fremur fallegar hleðslur. Nokkuð eru hleðslurnar gengar til, en eru allt að 1,6 m þar sem þær eru hæstar og 8 umför. Þykkt veggja er 0,5 – 1 m. Hraunhleðslurnar eru grónar skófum og mosa. Réttin er nokkuð ferköntuð í laginu, u.þ.b. 35×25 m að stærð N-S og í henni eru 13 dilkar. Til suðausturs frá réttinni liggur nokkuð sigið garðlag, um 15-20 m langt, hæst 1 m (en víðast nokkuð lægra) og 0,5 – 1m breitt. Garðlagið liggur frá réttinni að öðru aðhaldi, við vesturbarm Búrfellsgjáar. Aðhaldið nýtir náttúrulega hraunveggi að norðan, vestan og sunnan, en austurveggurinn er hlaðinn úr hraungrýti og þar er inngangur. Austurveggurinn er um 25-30 m langur og liggur frá norðri til suðurs, og er inngangurinn skammt norðan við miðjan vegginn.
Hleðslan er hæst við innganginn, um 2,3 m, en annars er meðal hæð um 1 m og þykkt um 0,5 m. Veggurinn er fallega hlaðinn, en ráða má af skorti á skófum og mosa að þar sem hann er hæstur við innganginn, að hleðslan þar sé líklega nokkuð nýrri en annarsstaðar. Að innanmáli er aðhaldið allt að 20×20 m og innst (eða vestast) í því er hlaðið byrgi við náttúrulegan hraunvegginn. Vestast í aðhaldinu slútir hraunbrúnin fram til austurs og myndar grunnan helli, sem byrgið hefur verið hlaðið við. Hleðslur mynda norður-, austur- og suðurveggi byrgisins, en loft og vesturveggur eru náttúrulegir. Þar sem hleðslan er hæst og minnst tilgengin, nær hún enn upp í hið náttúrulega þak byrgisins, alls um 3 m og er 18 umför. Annars er hleðslan að nokkru leyti gengin til.
Á suðurvegg byrgisins og undir skyggni hraunbakkans eru dyr, um 1,5 m háar. Aðrar dyr, um 1 m háar, eru á austurvegg byrgisins, en austurveggurinn er afar breiður svo allt að 3 m löng göng liggja frá eystri dyrunum inn í byrgið. Sauðaskán er á gólfi byrgisins. Alls er rústasvæðið, réttin, garðlagið og aðhaldið, rúmlega 50 x 50 m að stærð

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

“Sunnan réttarinnar heita Garðaflatir. Þar mun hafa verið sel. Ef til vill eru Norðurhellarnir hér nálægt, enda eru hér miklar rústir uppi í brekkunni,” segir í örnefnaskrá. Selrústin er á Garðaflötum austanverðum, í lágri brekku, um 660 m SA af Gjárrétt.
Kenningin í örnefnaskránni um að Norðurhellar kunni að vera nærri Garðaflötum er hinsvegar röng, því þeir eru mun norðar, eða norðan við Selgjá sem er aftur norður af Búrfellsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ selið hefur verið, en það er um 9,4 km frá bæ á Görðum.
Garðaflatir eru grasigrónar og þýfðar, en norður og vestur af þeim er mosavaxið hraun og melur suður og austur af. Einföld, nokkuð stór tóft er greinileg og um 5 m norðaustur af henni eru mögulega frekari rústir. Tóftin er um 10 löng og 5 m breið og snýr NV-SA. Hún hefur að líkindum verið hlaðin úr torfi og grjóti, en einungis glittir þó í grjót sitthvoru megin við innganginn að norðvestan. Tóftin er sigin, mest um 0,5 m á hæð en víðast nokkuð lægri og eru veggirnir útflattir og ríflega 2 m breiðir. Tóftin er algróin sinu og lyngi. Um 5-10 m norðaustur af tóftinni er möguleg rúst annars mannvirkis, en þó er það afar óljóst. Helst er sem greina megi vegg sem snýr eins og tóftin og svipað langur henni, en afar siginn og alveg yfirgróinn og ekki sést í grjót.

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Vatnsgjáin er sprunga í hrauninu í botni Búrfellsgjár, um 50 m NNA af Gjárétt 048 og er merkt með skilti.
Vatnsgjáin er vatnsból réttarinnar. Brunnurinn er náttúrulegt vatnsból í sprungu í Búrfellsgjá og er nauðsynlegt að fikra sig um 6 m niður þrönga sprunguna eftir einstigi til að nálgast vatnið. Þrep hafa verið hlaðin til að auðvelda ferðina niður í brunninn.

“Skiemma, útihús heima við staðinn í Görðum. Hefur um fáeina tíma ljeð verið manni einum til íbúðar, so sem hjáleiga og fylgdi því þá grasnyt sú, er nú er með hjáleigunni, er Garðabúð heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð.” Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skemma var skv. Jarðabók árið 1703 “útihús heima við staðinn í Görðum” sem um tíma var leigt “manni einum til ábúðar”. Skemmu fylgdi sama grasnyt og seinna hjáleigunni Garðabúð sem kom í stað hennar.”

Garðar

Garðar – Höll.

“Óskarbud. Tómthús. Stendur í Garðastaðar landi og er uppbygð af Jakob Bang … Og bygð einnri konu að nafni Ósk, sem hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng. Síðan hafa sjer eignarráð yfir búðinni tiltekið Bessastaðamenn og hafa þar látið gánga kóngsbáta, stundum tíu, stundum fleiri, stundum færri, item inntökuskip fyrir undirgift eður annan góðvilja meðan fiskiríið var gott í Hafnarfirði. Búðin stendur enn nú, en þó í auðn,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Jarðabók byggði Jakob Bang, síðar sýslumaður í Árnessýslu, verbúð eða tómthús í landi Garða, í valllendi nálægt Dysjamýri […] Hún var uppistandandi árið 1703 en óbyggð og ekki er greint nánar frá staðsetningu. Ekki er heldur minnst á tómthúsið í síðari heimildum.” Í skráningu RT og RKT kemur fram að fornleifin sjáist ekki á yfirborði.
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Búðin var kend við Ósk, leigjanda Bang, sem “hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng.””

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í bæjarstæði Hóls sýnir Túnakortið 1918 tvo samfasta kálgarða með hlöðnum veggjum og götuslóða á milli frá suðaustri til norðvesturs en skv. Örnefnalýsingu 1976-77 umgirtu þeir Hólsbæinn: “[…] voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.” […].
Þetta virðist mega lesa úr lýsingu við Fornleifaskráningu 1984: “Þarna er allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.” Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggðaleifanna.”

Brúsastaðir

Brúsastaðir – uppsátur.

Tóft er við sjávarmál um 50 m suður af Brúsastöðum. Hún er byggð utan í klappir alveg við sjóinn. Hlaðið úr grjóti og að hluta styrkt með sementi.

Gata liggur til austurs, yfir hraunið. Að hluta byggð upp úr hraungrýti.

Þrír steyptir grunnar, trúlega braggar, eru sitthvoru megin við Herjólfsgötu, sunnan við þar sem hún mætir Garðavegi og Herjólfsbraut. Á hæð, um 500 m frá sjó. Hver grunnur um sig er um 14 x 35m, með steyptum veggjum 0,5-2m á hæð. Snúa allir norður-suður og hafa innganga á báðum endum. Búið er að setja upp körfuboltakörfur á mið grunninn.

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll), austan Langeyrarmala.

“Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys.” segir í örnefnalýsingu. Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A m k 7 litlar (3x5m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

“Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.” Þetta hús hefur verið á sama svæði og eða heldur sunnar. Enginn húsgrunnur er þó þar.

“Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.” segir í örnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hrauið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðusrs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn. Mæðgadysin fremst.

Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið. algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn.

Garðar

Krókur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir; “Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð og er girt kringum tún býlisins. Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.” […] Skv Örnefnaskrá 1964 var Krókur “hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt” […]. Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: “Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).””

Krókur

Krókur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir; “Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu og garði. Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi […] en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar […], timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4 […]. Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30. Nú hefur bærinn verið endurgerður og er til sýnis fyrir almenning. Krókur er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á fyrri hluta 20. aldar.”

Garðahverfi

Álftanesgata/Fógetastígur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Fornleifaskýrslu um Garða 1820 segir Markús Magnússon: “Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestssetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. […] Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins, er 13 álnir að umfangi og 1 3/4 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann. Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja í sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að sjórinn hafi fyrrum gengið svo hátt sem kletturinn stendur nú, fremur en að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan, því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.” […] Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: “Hvorki blótsteina né Grettistök þekki ég hér, en einstakur steinn, mikill um sig, stendur fyrir vestan Garða, er sumir segja sé brimbarinn þeim megin, er veit frá sjó (hann er frá sjó meir en 100 faðma og 5-6 eða meir yfir sjávarborðið).” […] Við Fornleifaskráningu 1984 er getið um “tvö björg” vestur frá Görðum, um 18 m suðaustan Garðalindar, austan við Garðamýri og er tóft byggð utan í þeim, vestan megin. Þetta gæti verið kletturinn sem séra Markús nefnir.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er skólahús beint vestur af Króki, nokkru utan Garðatúngarðs. Húsið er úr timbri og hefur stefnuna norðvestur-suðaustur. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.” […] Þarna er nú samkomuhús [Garðaholt].”

Garður

Garður – Garðavegur liggur að Garðatröðum.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá traðir sem byrja vestan bæjarhúsanna í Görðum, milli þeirra og kirkjunnar og liggja beint norðaustur að hliði í Garðatúngarði.
Mun það vera Garðahlið eða Garðastaðarhlið sem skv. Örnefnaskrá 1964 var Aaðalhlið á Garðatúngarði beint upp frá staðnum” en frá því lágu Garðatraðir “heim á hlað milli staðarhúsa og kirkjunnar”.” Ástandi traðanna er ekki lýst í skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Rétt austan Háteigsbæjarins sýnir Túnakortið 1918 tvö hringlaga mannvirki sem gætu verið brunnar. Einhver punktalína liggur frá bænum framhjá þeim að Garðatúngarði en greinileg gata er þar ekki. Í Örnefnaskrá 1964 er þó minnst á Háteigshlið í garðinum […]” Ekkert er sagt til um ástand minjanna í fornleifaskráningu RT og RKT.

Garðahverfi

Háteigur 1915.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 er garður suðvestan megin framan bæjarhúsa í Háteigi, líklega sami og lýst var við Fornleifaskráningu 1984 “suðvestur af húsinu” og var enn notaður. Garðurinn er grjóthlaðinn, nær upp í 1,2 m hæð og er um 17 x 48 m að stærð, með stefnuna norðvestur-suðaustur […]”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er tvíhólfa útihús úr torfi, upp við landamerkjagarð suðvestan Háteigs, miðja vegu milli hans og Miðengis. Gata er ekki sýnd milli bæjanna en e.t.v. Eru þetta samt gripahús sem skv. Örnefnalýsingu 1976-77 “eru aðeins vestar og neðar en íbúðarhúsið [í Háteigi], við veginn niður að Miðengi.”” Ekki er frekari lýsing á ástandi minjanna í fornleifaskráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: “Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt.” […] Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44.”

Garðar

Garðar – túngarður, og Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 segir: “Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar. Var það mikið mannvirki.” […] Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru ,,vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […]” Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. […] Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður. Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta. […] Ætla má að allir íbúar garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra garða og segir þar að Löggarður átti að vera “fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnir og faðma”.”

Garðar

Garðar 2021.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Mýrarhús hét skv. Jarðabók “hjáleiga í óskiftu Garðastaðalandi” sem var komin í eyði árið 1701 en hafði verið byggð í 60 ár eða lengur. 35 álna landskuld hafði goldist í fiski í kaupstað og eitt kúgildi í fiski eða smjöri til Garða. Grasnautnin fóðraði kúgildið en hana brúkaði síðan staðarhaldarinn. […] Hjáleigunnar er ekki getið í síðari heimildum og hefur e.t.v. ekki byggst aftur. Af nafninu að dæma hefur hún verið staðsett nálægt mýri, trúlega Garðamýri […] en þar nokkru sunnar en Sjávargata og Hóll er greinilegur tóftarhóll.”

“Svo voru göturnar meðfram hrauninu úr Engidal í Vikið,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Moldargöturnar lágu vestan við Troðningana við Hraunsholtslæk og upp með Gálgahrauni að norðaustan, þvert suður frá vesturenda Troðninga,” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar, göturnar eru jafnframt sýndar á korti á bls. 6 í sömu bók. Moldargötur voru áður fyrr austur af Garðahrauni og Gálgahrauni og vestur af því svæði sem Ásahverfið nú byggir. Á þessari landræmu sem snýr nokkurn veginn N-S frá Engidal norður í Hraunsvik, er nú gatan Hraunsholtsbraut og vestan við hana, meðfram hraunjaðrinum er malarborinn göngustígur. Engin merki Moldargatna sjást á vettvangi.

Garðahverfi

Katrínarkot yngra.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Manntali 1845 er Tómthús talið meðal býla í Garðahverfi en þar bjuggu Jón Jónsson “grashúsmaður, vitstola í 10 ár”, kona hans Katrín Eyjólfsdóttir og fjögur börn þeirra, Eyjúlfur, Erlendur, Jón og Ingveldur. Auk þeirra voru Ingunn Helgadóttir sem lifði “af handavinnu sinni” og sonur hennar Ólafur Einarsson […] Tómthús þetta er ekki nefnt í öðrum heimildum og hefur e.t.v. einungis verið í byggð í tíð þessara tveggja fjölskyldna. Nöfn húsfreyjunnar og elsta sonarins minna þó á fyrstu ábúendurna í Katrínarkoti sem hétu Katrín og Eyjólfu og gætu þar verið tengsl. Þar eð Katrínarkot á að hafa byggst á sama tíma og Tómthús birtist í Manntalinu vaknar sá grunur að um sama býli sé að ræða. Eðlilega hefur þá með tímanum verið farið að kenna það við húsfreyjuna sem hlýtur að hafa staðið ein fyrir öllum heimilisrekstri og búskap fyrst maður hennar var veikur. Það að Tómthús er í Manntalinu talið upp næst á eftir Hausastöðum en næst á undan Hausastaðakoti gæti bent til að það hafi verið staðsett í nágrenni þeirra eða á sömu slóðum og Katrínarkot. Á móti mælir hins vegar að Katrín og Eyjólfur í Katrínarkoti eru talin hafa verið hjón en ekki mæðgin eins og fólkið í Tómthúsi og því eru býlin skráð í sitt hvoru lagi. ” Ekki er greint frá aðstæðum á svæðinu né mögulegu ástandi Tómthúss í skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Höll “hjáleiga og þurrabúð” frá Görðum og stóð bærinn “utan Garðs, ofan Garðahliðs” […] Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóft hans sé svo til beint upp af Garðakirkju, “rétt eftir að kemur að vegamótum heim að henni, að norðan”. Allt í kring er grýtt holtið. Mundi Tryggvi Gunnarsson í Grjóta eftir því þegar búið var í þurrabúðinni. Þarna er garður og við norðausturhorn hans lítil aflöng tóft, grjóthlaðin og niðursokkin. Hún er um 6 m á lengd og 2,1 m á breidd, þykkt veggja um 0,5 m. Stefnan er suður-norður og virðist inngangurinn vera á suðurgafli […]
Höll er hvorki nefnd í jarðabókum né manntölum.”

Garðahverfi

Hallargerði.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er Hallargerði sagt liggja kringum Höll: “Svo hét gerði umhlaðið miklum grjótgarði norðan vegar […] garður af grjóti kringum bæinn” […]
Gerði sem teiknað var upp við Fornleifaskráningu 1984 er þó vestan við hústóftina.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: ,,ferhyrndur garður eða þurr grjóthleðsla, um 40,8 m á breidd og 18,2 m á lengd, veggir 1,8 m á breidd. Um 19 m frá austurendanum mótar fyrir yfirgróinni hleðslu, um 1,2 m á breidd, sem liggur þvert inn í garðinn.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Fornleifaskráningu 1984 var aðalloftvarnarbyrgi Breta á stríðsárunum hæst á hæðinni, þ.e. í Garðaholtsenda, og mjög grýtt allt í kring. “Nú stendur hús á staðnum og sér engin merki umsvifa Bretanna”.”

Hernám

Skotbyrgi á Garðaholti.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Fornleifaskráningu 1984 eru tvö samtengd skotbyrgi ofan Garðakirkju, í austurbrún Garðaholts, beint út frá útsýnisskífu, grýtt holtið allt í kring.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þetta eru ferhyrnd steinsteypt byrgi 2 x 3 m að stærð. Á 18 m bili milli þeirra hlykkjast grjóthlaðin skotgröf eins og göng, um 1 m á breidd og 0,80-1 m á dýpt. Hún liggur suður út frá vestra byrginu, beygir til austurs, bugðast upp að og austur fyrir eystra byrgið og sveigir svo suður meðfram brún lítils klettabeltis. Útsýni er úr byrgjunum til norðurs, aðallega út á Álftanes.”

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: “Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu norðan Torfavörðu. Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […].” Ekki kemur fram í skráningu RT og RKT hvernig ástand dysjarinnar er í dag.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata “frá Garðahliði norður hjá Prestahól í Stekkinn” […], þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, “klapparhóll litlu norðar en Presthóll, rétt við Garðagötu” […] Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra eftir um 250 m.”

Hvíldarklettar

Hvíldarklettar.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Hvíldarklettar “grágrýtisklappir upp frá Álamýri. Austan Hausastaða.” […].  Þeir eru ekki langt frá Garðavegi og hafa e.t.v. verið áningarstaður”

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Minnispunktum úr skoðunnarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: ,,Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur […]. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur. Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.” Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera “á hrauntá í jaðri Gálgahrauns” um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðavegi.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Rústin er mjög skýr, “hringlaga eða réttur hringur að utanmáli”,
um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið.”

Gálgahraun

Gálgahraun – naust.

Í skráningarskýrslu frá 1999 segir OV: “Við norðvesturhorn Gálgahrauns, þar sem það rennur út í Lambhúsatjörn er dálítil vík og í henni hleðsla sem gæti verið eftir naust.”

“Upp með hraunbrúninni, ofan við Balatjörn, skerst hraunnef fram í tjörnina. Það heitir Mónef ,” segir í örnefnaskrá AG. Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 náði Dysjamýri frá Garðatúngarði austur að hrauni, frá Dysjamöl og Balatjörn upp að holti” þ.e. Garðaholti, en norðan við Bala er Mónef, ,,hraunsnef lítið, sem svo heitir.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts […] á hraunjaðrinum með henni […] norðan við Bala gengur Mónef fram í mýrina. Hér áður var tekin upp mór í Dysjamýri, en því var hætt, þegar Guðmann [Magnússon] man eftir. Mórinn mun hafa verið þurrkaður á Mónefni” […] Skv. Jarðabók 1703 áttu flestar jarðir í Garðahverfi mótak í landi staðarins en þar segir: “Móskurður til eldiviðar hefur nægur verið, en fer í þurð og gjörist erfiður.” […] Aðalmótekjusvæðið var þó í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog.”

Garðar

Bali – gerði.

Gerði er skammt suðvestur af enda afleggjarans sem áður lá að Bala frá Garðavegi. Gerðið er nærri sjó, 30-40 m suður af Balatjörn og 70-80 m VNV af hjalli sem stendur við Balakletta og er að líkindum nærri gömlu bæjarstæði Bala. Inni í gerðinu og í kring er algróið þykkri sinu og nokkuð þýft.
Gerðið er hlaðið úr hraungrýti, sem er gróið mosa og skófum. Það er um 35 x 25 m N-S að stærð og ferhyrnt, en þrengist til suðurs og er innan við 10 m á breidd syðst. Hleðslurnar eru um 1 m á þykkt og 0,5 m háar. Gerði þetta er án efa mun yngra en rétt 034 sem er hátt í 200 m norðaustar.

Garðar

Ráðagerði.

Ráðagerði var Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða “Rádagierde, hjáliega í óskiftu staðarins landi. Jarðardýrleiki er óviss.” JÁM III, 185.
1918: “Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1020 m2.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá hús úr steini eða torfi ofarlega í túninu rétt suðaustan Háteigs og Götu, norðvestan Garða. Húsið hefur stefnuna norðvestur-suðaustur og kálgarðar eru til hliðar við það en líklega er þetta bæjarstæði Ráðagerðis sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1958 […] og síðan í Örnefnaskrá 1964: “Fyrrum býli, hjáleiga frá Görðum, stendur ofar en Gata […]” litlu austar en Háteigur sem það liggur nú undir. […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Ráðagerði var í Háteigstúni nærri túngarði milli Garða og Háteigs, neðanhallt við húsið í Háteigi. Það er farið í eyði fyrir lifandi löngu.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta í grösugum aflíðandi halla á milli Háteigs og Garðakirkju. Um 19,15 m frá garðhleðslu sem þarna er sést óljós steinaröð, líklega frambrún bæjarins.

Garðahverfi

Nýibær.

Nýibær 1565: skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Nyiabæ Gudmunde fyrer iij vætter fiska. vallarslátt. Röa a skipenu heim um kring ár. med jördunna kugillde.” Garðakirkjueign. “Nýebær, kallaður hálfbýli, því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.” JÁM III, 184.
1918: “Tún 1,9 teigar”.

Garður

Nýibær – túnakort 1919.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti má sjá stæði Nýjabæjar með þyrpingu húsa og garða norðarlega í Nýjabæjartúni. Bærinn er úr torfi og hólfast í þrennt með stefnu suðvestur-norðaustur. Í Örnefnaskrá 1964 segir að hann sé “neðar í túni en Krókur” […] og Örnefnalýsing 1976-7
bætir við: “Nýibær er upp af Pálshúsum og liggja túnin saman. Hlaða og fjós eru rétt austur af gamla húsinu. Nú hefur nýtt hús verið byggt í Nýjabæ í túnjaðrinum austur við veginn. Nýbýlið Grund, sem byggt var nálægt 1950, er ofan og austan við túngarðinn. Því fylgir ekki grasnyt, aðeins lítil lóð.” […] Skv. Fasteignabókum var komið timburhús í Nýjabæ árið 1932 […] og járnvarið 1942-4 ef ekki fyrr […] Núverandi íbúðarhús hefur vafalaust raskað eldri byggingarleifum. Erfitt er að meta hvort einhverjar leifar bæjarhúsanna geti enn leynst undir sverðinum.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.

Garðaholt

Garðaholt – skotgrafir við Garðaveg..

 

Garðahverfi

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 er m.a. getið um Pálshús í Garðaholti:

Pálshús

Pálshús.

1565: Á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. “Pálshus byggd Heriolfe fyrer iij. vætter fiska. og vera fyrer skipe stadarens heima. og Röa á þvi epter þvi sem sá skicka vill sem Ráda á stadnum. er þar med j kugillde.” DI XIV, 438. Garðakirkjueign. “Palshus, hjáleiga fyrirsvarslaus, stendur í óskiptu Garðastaðar landi og samtýniss við staðinn og hinar hjáleigurnar í hverfinu.” JÁM III, 183.
1918: ,,Pálstún 1,5 teiga og 870 m2 kálgarða.”

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti árið 1918 má sjá bæjarstæði Pálshúsa austan megin í túninu. Bærinn er byggður úr torfi og hólfast í fimm hluta með stefnu nokkurn veginn suðurnorður. Skv. Fasteignabókun er komið timburhús árið 1932 […], járnvarið 1942-4 eða fyrr […]. Í
Örnefnaskrá 1964 segir: “Pálshús: Hjáleiga frá Garðastað neðan til við Nýjabæ, þar á bala.” […]  Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 eru Pálshús ,,skammt noðan Dysja, en lengra frá sjónum.” Ekki er nánari lýsing á Pálshúsum eða ástandi fornleifa þar í fornleifaskráningu RT og RKT.

Bakki

Pálshús – Garðafjara.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Jarðabók 1703 segir um réttindi ábúanda í Pálshúsum: “Uppsátur hefur staðarhaldarinn unt hönum hjer til þar sem heita Pálshúsvarir. Enn inntökuskip má hann eigi taka” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 var Pálshúsavör í smá viki austan Bakkabæjar, eða “austan til við lítið nef í Bakkafjöru”.” Ekki er nánari lýsing á vörinni í fornleifaskráningu RT og RKT.

“Skv. Örnefnaskrá 1964 er Pálshúsabrunnur “rétt fyrir ofan bæinn. Allgott vatnsból” […] Hann sést ekki á túnakorti.”

Heimildir:
-Fornleifaskráning fyrir Garðabæ 2009.
-Fornleifaskráning í Urriðaholti 2003.

Garðaholt

Garðaholt – bæir.

 

Garðahverfi

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 kemur m.a. eftirfarandi fram um Dysjar sunnan Garða á Garðaholti:

1397; Eign kirkjunnar á Görðum. DI IV, 107. 1565, skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Dysiar. Jone Markussyne fyrer iij. vætter fiska mannslán. vallarslátt, med jördunne ij kugillde. Jtak j sölfafiöru stadarins einn dag.” DI XIV, 437. Garðakirkjueign. “Lögbýli kallað því það hefur fullkomið fyrirsvar sem aðrar sveitajarðir, en stendur þó í óskiftu Garðastaðarlandi og samtýniss við Garða, nema hvað túnið alleina er afdeilt. Jarðadýrleiki er óviss.” JÁM III, 181. Hafnarfj. að Garðahreppur gerðu makaskipti árið 1971 og eignaðist bærinn hluta úr landi Dysja. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116.
1703: “Túnum spillir sjáfargángur.” JÁM III, 182.
1918: “Austurbæjarkálgarðurinn á Dysjum hefur verið færður 5 sinnum síðustu 28 árin undan sjóbakkabrotinu, rúmleg garðsþyktina um sinn. Hér mun og hafa britað upp síðan í fornöld engjar miklar.”

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

“Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. … Gömlu bærinir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er. Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu,” segir í örnefnaskrá KE. “Á Túnakortinu 1918 er eystri bærinn, Austur-Dysjar eða Dysjar-Austurbær, ögn stærri en sá vestari. Hann skiptist í fjögur hólf og hefur stefnuna suðvestur-norðaustur. Byggingarefnið virðist vera torf en Samkvæmt Fasteignabókum var þar komið timburhús árið 1932 […] og járnvarið 1942-4 […]. Bæirnir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar Fornleifaskráning fór fram 1984 en annar þeirra, líklega Austurbærinn var beint norðvestan fjóss og hlöðu sem fundust, milli þeirra “og útihúss sem þarna er nú”,” segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003.

Garðahverfi

Dysjar.

“Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. … Gömlu bærinir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er. Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. … U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir, og er þeirra áður getið,” segir í örnefnaskrá KE. “Á Túnakorti 1918 má sjá tvær stórar torfbyggingar í bæjarstæðinu, væntanlega bæina tvo en sá vestari skiptist í tvö aflöng hólf og hið vestara aftur í tvö ferningslaga hólf. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Samkvæmt Fasteignabók eru Vestur-Dysjar enn úr torfi árið 1932 […] en þær eru ekki nefndar árin 1942-4 og hafa væntanlega verið komnar úr byggð þá. Í örnefnaskrá 1964 er talað um Dysjar Vesturbæ og Dysjar Austurbæ. Stóðu bæirnir “lítið eitt aðgreindir fram um 1970” […]. Í Örnefnalýsingu frá 1976-7 segir: “Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl. Gömlu bæirnir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er. Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. Fast fyrir norðan núverandi íbúðarhús er fjós og hlaða, byggt um 1944-45. Bílskúr tengir það íbúðarhúsinu. Fjárhús er fast norðaustan fjóssins. […] Íbúðarhúsið á Vestur-Dysjum stendur, eins og nafnið bendir til, rétt vestan við Austur-Dysjar og gripahús og hlaða frá Vestur-Dysjum rétt sunnan hússins. U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […]”. Þeir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar fornleifaskráning fór fram 1984, annar þeirra, líklega sá vestari, var alveg farinn en “hleðslugrjót sést í bakkanum.”

Dysjar

Dysjar – Dysjabrunnur fremst.

Árið 1703 var hér góð lending. “Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl,” segir í örnefnaskrá KE. “Í Jarðabók 1703 segir: ,,Heimræði er hjer árið um kríng og lending góð, varir stórar nóg so inntökuskip mætti gánga, og heyrir þá sú undirgift leiguliða til.” […] Á Túnakorti 1918 má nokkuð austan bæjanna á Dysjum sjá vör með tveimur naustum og einhvers konar gerði, líklega úr grjóti. Dysjavör er nefnd í Örnefnaskrá 1964: “Hún var neðan bæjanna og austanvert við þá. Góð vör. […] Lík er flutt voru til Garðakirkju fóru um Dysjavör.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: Dysjabæir standa vestan Balatjarnar” og “Dysjavör er vestan við Balamöl” en svo nefnist kamburinn við tjörnina. “Skerjarani gengur í sjó fram suðvestur frá Dysjabænum, og heitir hann Dysjabryggja. Uppsátrið var austan Dysjabryggju, þar sem skerjunum sleppir.” […] Ekki er tekið fram hvort uppsátrið við bryggjuna sé Dysjavör en að sögn skrásetjara 1984 er hún í grýttum sjávarbakkanum “rétt sunnan við bárujárnssker sem þarna er”. Þegar Fornleifaskráning fór fram var bátabyrgi sem þarna var hins vegar farið í sjó og sér nú engin merki um mannvirki.”

Dysjar

Dysjar – Dysjarétt.

“Rétt norðaustan vesturbæjarins, er samkvæmt Túnakorti útihús, líklega úr steini, byggt við garðsenda vestan heimreiðar eða Dysjatraða.”

“Rétt norðan Austurbæjarins, við garðsenda austan Dysjatraða, er á Túnakortinu 1918 útihús úr torfi.”

“Rétt norðan við Austur-Dysjaútihúsið, utan við garðshorn austan Dysjatraða, er á Túnakortinu 1918 útihús úr timbri.”

“Nálægt austurhorni eystri Dysjabæjarins sýnir Túnakortið 1918 svolítið mannvirki sem gæti verið for eða skólpgryfja.”

“Rétt við austurlangvegg eystri Dysjabæjarins er samkvæmt Túnakortinu 1918 útihús, líklega úr timbri.”

Garðahverfi

Garðahverfi – Bæir.

“Niðri við sjóinn, sunnan Austur-Dysja sýnir Túnakortið ferhyrningslaga útihús úr torfi. Þetta er á sömu slóðum og fjós og hlaða sem fundust við Fornleifaskráningu 1984: “Sunnan við Austurbæinn, alveg fram á sjávarbakkanum” og ,,tilheyrðu gömlu bæjunum að Dysjum”. Nú er þarna kálgarður og “aðeins veggur að vestan og vísar í 220° hornrétt á hann til suðausturs”.”

“Á Túnakorti 1918 liggja kálgarðar umhverfis Dysjabæina og eru girtir með hlöðnum veggjum út að sjógarðinum. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […] Kartöflugarðar voru fyrir framan þá, nú að mestu komnir í sjó.” Við Fornleifaskráningu 1984 segir: “Hér er núna kálgarður og aðeins veggur að vestan og vísar í 220°hornrétt á hann til suðausturs. Grjót og torfhlaðinn, 21 m á lengd, grasivaxinn. Mjög hár”.”

“Norðan Dysjabæja sýnist á Túnakortinu 1918 vera útihús með áföstum garði, nánar tiltekið upp við Dysjatraðir austan megin þar sem þær taka á sig hlykk til austurs.”

Garðaholt

Garðaholt – Götur.

“Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Dysjabrunnur “austan bæjanna […] í mýrlendri flöt”. Brunnurinn sést ekki á Túnakortinu 1918 en þar er hins vegar “pollur” á þessum slóðum í Dysjatúni og nokkru austar byrjar “mýri”,” segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003. Í skráningu RT og RKT kemur fram að fornleifin sjáist ekki á yfirborði.

“Í Örnefnaskrá 1964 segir að Dysjabrunngata lá “frá brunninum heim til bæja”, segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003. Engin lýsing á götunni fylgir skráningu RT og RKT, né kemur fram hvort enn sjáist til hennar.

“Túnakortið sýnir útihús í túninu norðvestan Dysjabæja, nálægt sjávarbakkanum. Húsið er aflangt og virðist úr torfi. Það hefur nokkurn veginn stefnuna norður-suður.”

Garðaholt

“Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir […]: ,,Skerjarani gengur í sjó fram suðvestur frá Dysjabænum, og heitir hann Dysjabryggja. Uppsátrið var austan Dysjabryggju, þar sem skerjunum sleppir. Stakur steinn er í Dysjabryggju nálægt því beint fram af gripahúsum Vestur-Dysja. Sá heitir þórarinn.” […]. Samkvæmt Fornleifaskráningu 1984 gengur Dysjabryggja “út í sjó suður af bænum” og er ekki um mannvirki að ræða, heldur er þetta “náttúrulegur lágur tangi sem lent var við” […] má bera þetta saman við Bakkabryggju, Miðengisbryggju og Hausastaðabryggju sem einnig hafa verið
myndaðar af náttúrunnar hendi. Staki kletturinn Þórarinn á Dysjabryggju er forvitnilegur í ljósi þess að á Hausastaðabryggju er annar slíkur klettur sem einnig heitir Þórarinn. Sá sem er við Dysjabryggju var ysta sker við innsiglingu til Hafnafjarðar gegnt Helgaskeri.”

Garðaholt

Garðahverfi.

“Við fornleifaskráningu 1984 fundust grunnur og tóft byggingar á grasi grónum tanga rétt austan við afrennslið úr Balatjörn, þ.e. á bakkanum Dysjamegin. Að sögn húsfreyjunnar á Dysjum er þetta frá lýsisbræðslu sem norskur maður setti upp.” “Grunnurinn er mjög reglulega ferhyrndur og frambrúnin greinilegust en vestast hefur sjórinn borið möl upp á bakkann. Hann er um 7,7 m á breidd og 10,7 m á lengd miðað við það sem sýnilegt er, grjóthlaðinn með grófri steinsteypu í samskeytunum. 1,75 m frá suðurausturhorni grunnsins, um 0,5 m neðan hans, gengur grjóthlaðinn stallur 2,75 m út til austurs. Óljóst er hve langt hann nær til norðurs en hann er líka hlaðinn úr grjóti og hefur e.t.v. verið undirstaða timburhúss. Norðan megin við stóra grunninn er lítil tóft, 9,15 m á breidd og 3,4 m á lengd.”

“Á Túnakorti 1918 er girt í kringum mestan hluta Dysjatúns, með túngarði út að mýrinni norðaustan megin og að austan en þar er hann sérlega skýr. Að suðvestan tekur við sjógarður sem liggur eftir sjávarbakkanum framhjá bæjunum. Á kaflanum frá þeim yfir að Bakka hefur sjórinn brotið af landinu og er þar enginn garður. Girðing skilur svo tún Dysja frá túnum Bakka og Pálshúsa. Skv. Fasteignabók er enn girt með túngarði og girðingu árið 1932. Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Dysjatúngarður “aðallega á austurkanti túnsins”.”

Garðaholt

Garðaholt.

“Á Túnakortinu 1918 má sjá traðir sem liggja milli Dysjabæja, annars vegar suður gegnum kálgarðana niður að sjó, hins vegar norður í átt að Pálshúsum. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […] Traðir lágu niður í fjöru milli þeirra.” Í örnefnaskrá 1964 er nefndur Dysjavegur eða Dysjatraðir sem “lá frá Dysjum eftir túninu að Pálhúsahliði” en það mun vera sama og Nýjabæjarhlið. Frá því lágu Nýjabæjartraðir og Pálhúsatraðir og hafa Dysjatraðir tekið við af þeim.”

Dysjar

Dysjar.

“Á milli Dysja og Pálshúsa var gamalt býli, nefnt Dysjakot,” segir í örnefnaskrá KE. “Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Syðsta jörðin og næst sjó er Dysjar. Þar ofan túns var býli, sem nefnt er nú Gamlakot. Nú er þar kálgarður, og þar sem vegur liggur heim, er stykki í túni, sem heitir Gamlakotsvöllur.” […] Samkvæmt örnefnaskrá 1964 var þetta “þurrabúð í Dysjatúni upp með veginum” ýmist nefnt Dysjakot eða Gamlakot og hefur annaðhvort verið “kennt við Gamla er það bjó, eða verið upprunalegasta kotið við Dysjar” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir nánar frá: “Skammt norðan Dysja, en lengra frá sjónum, eru Pálshús. Á milli Dysja og Pálshúsa var gamalt býli, nefnt Dysjakot. Síðasti ábúandinn þar hét Gamalíel Jónsson, kallaður Gamli. Var kotið í hans tíð nefnt Gamlakot. Dysjakotsvöllur nefndist þríhyrnd spilda, sem fylgdi kotinu. Í tíð Gamla var einnig farið að kalla hana Gamlakotsvöll. Gamlakot og Gamlakotsvöllur er nú komið í tún. […] Ekki er kotið merkt inn á Túnakortið árið 1918 enda hefur það verið komið í eyði fyrir þann tíma. Þar virðist þó mega sjá garðinn miðja vegu milli Dysja og Pálshúsa.

“Á Túnakorti 1918 sést ferhyrndur garður þar sem Gamlakot á að hafa verið í Dysjatúni, þ.e. miðja vegu milli Dysjabæja og Pálshúsa en samkvæmt Örnefnalýsingu 1958 er kálgarður þar sem kotið var áður […] Í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Gamlakotsgerði: “Svo var lítið gerði kallað kringum kotið, nú flöt.” […] Garðurinn var skrásettur við Fornleifaskráningu 1984,” segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003.

Heimildir:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.
-Fornleifaskráning á Garðaholti 2003.

Garðaholt

Garðaholt.