“Árið 1996 birtist í Lesbók grein um morð við Skötufoss í Elliðaám árið 1704. Sakborningarnir, Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir voru teknir af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Fornleifarannsókn var gerð á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk 1988 og eru hér leiddar líkur að því að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.
Fyrir nokkru var ágæt frásögn í Lesbók Morgunblaðsins eftir Helga M. Sigurðsson um gamalt morðmál frá 1704. Tildrög málsins voru þau að Sæmundur Þórarinsson, sem bjó í Árbæ ásamt 44 ára gamalli konu sinni, Steinunni Guðmundsdóttur, móti Sigurði Arasyni, 26 ára gömlum manni, og móður hans, fannst þann 22. september 1704 látinn í Elliðaá. Skömmu síðar vaknaði grunur um að hann hefði verið myrtur og við yfirheyrslur hjá Paul Beyer landfógeta játaði Sigurður að hafa myrt Sæmund að undirlagi Steinunnar. Þau Steinunn voru tekin af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Henni var drekkt í Kópavogslæk og hann var hálshöggvinn. Í Vallaannál er þess jafnframt getið að höfuð Sigurðar hafi verið sett á stöng við gröf hans. Mál þeirra hefur orðið kveikja að draugasögu í nokkrum gerðum og er afturgangan ýmist nefnd Selsmóri, Sviðholtsdraugur eða Þorgarður.
Í niðurlagi fyrrnefndrar Lesbókargreinar segir að annað sé ekki vitað um afdrif þeirra Steinunnar og Sigurðar en talið að grafir þeirra hafi fundist við vegagerð á fyrri hluta aldarinnar. Verður hér reynt að bæta nokkru við þá frásögn.
Munnmæli og sagnir um dysjar þeirra sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi hafa jafnan fylgt svæðinu og sést enn móta fyrir dys við gamla veginn sem liggur frá Kópavogslæk upp Arnarnesið sunnan læksins.
Frásagnir um beinafundi sem taldir hafa verið úr sakamannadysjum hafa einnig minnt á aftökurnar. Nokkrum sinnum hafa t.d. mannabein fundist í grennd við Gálgakletta í Garðabæjarhrauni. Þá er, eins og áður er getið, til frásögn um að vegagerðarmenn hafi árið 1938 fundið höfuðkúpu með miklu hári við Kópavogslæk og aðra beinagrind höfuðlausa. Þessi bein munu hafa verið sett aftur á sinn stað, en ekki var fundarstaðurinn staðsettur neitt nánar.
Í þessari grein, sem er stytt útgáfa greinar sem birtast mun í næsta hefti tímaritsins Landnám Ingólfs, er sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk vorið 1988 í sambandi við breikkun Hafnarfjarðarvegar. Leitt er að því líkum að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.
Fyrir rannsókn sást dálítil þúst í krikanum milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar sem talin var vera dys. Fyrirsjáanlegt var að nýi vegurinn hlyti að fara yfir hana að hluta eða öllu leyti. Auk greinarhöfundar unnu fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Lise Bertelsen við rannsóknina.
Við rannsókn komu fyrst í ljós tvær smásteinahrúgur rétt undir yfirborði, um 3 x 1,5 m að ummáli hvor um sig, og var um 1 m á milli þeirra. Hér voru greinilega fundnar tvær grafir sem í upphafi höfðu verið þaktar steinhnullungum. Í efri lögunum voru margar smávölur sem vegfarendur hafa kastað í dysina um leið og þeir áttu leið framhjá, en samkvæmt gamalli þjóðtrú var það talið geta komið í veg fyrir óhöpp að henda þremur steinum í dys þegar farið var framhjá henni í fyrsta sinn.
Undir neðsta steinalaginu var beinagrind og vantaði á hana höfuðkúpu og þrjá hálsliði. Hendur lágu yfir magann. Fætur voru krosslagðir. Gröfin, sem lá frá norðvestri til suðausturs, var 1,62 m löng og um 0,7 m þar sem hún var breiðust, mjókkaði til austurs og var um 0,4 m breið til fóta. Hún hafði upphaflega verið grafin niður um hálfan metra.
Fyrstu dauðadómar sem heimildir eru til um frá Kópavogsþingi, og sem jafnframt eru elstu rituðu heimildir um þingstaðinn, er frægur tylftardómur frá 1. júní 1523 yfir Týla Péturssyni. Týli sem var fyrrverandi hirðstjóri á Bessastöðum, hafði tvívegis snúið aftur til Bessastaða, tekið hirðstjórann Hannes Eggertsson til fanga um skeið, rænt fé úr Bessastaðakirkju og sköttum konungs. Eftir að hann hafði verið tekinn fastur og dæmdur var hann leiddur “austur yfir Bessastaði” þar sem hann var hálshöggvinn ásamt syni sínum, þar sem kallaðist Týlshóll síðan.
Greinarhöfundi er ekki kunnugt um legu Týlshóls. Af orðalagi heimilda má ætla að hann hafi verið í túni austan Bessastaða, en þar er ekkert slíkt örnefni varðveitt. Líklegra má telja að þeir feðgar hafi verið teknir af lífi á Kópavogsþingstað og dysjaðir þar. Hinrik Kules var þýskur maður sem dæmdur var til dauða og tekinn af lífi á Kópavogsþingstað, þann 23. febrúar árið 1582, fyrir að hafa drepið Bjarna Eiríksson á Bessastöðum á jólanótt. Talið hefur verið að Kules hafi verið dysjaður efst á Arnarneshæð, vestan við gamla veginn og mun þar lengi hafa mótað fyrir gróinni dys. Árið 1664, þann 25. janúar, var Þórður Þórðarson dæmdur til dauða í Kópavogi fyrir þjófnað á verslunarvarningi. Systir hans Guðrún kærði dóminn á Alþingi 1665. Í athugasemd með afskrift af dómnum sem færður er í alþingisbók 1666 kemur fram að Þórður hafi verið hengdur.
Í desember 1677 voru maður og kona dæmd fyrir sams konar afbrot. Árið 1703 voru tveir flökkuþjófar dæmdir til dauða og hengdir. Að lokum er þess getið að Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir hafi verið dæmd og tekin af lífi á Kópavogsþingi árið 1704.
Ekki hef ég fundið fleiri heimildir um dauðadóma sem framfylgt hefur verið á Kópavogsþingstað en þessa 10 einstaklinga sem hér voru taldir upp að framan.
Kópavogsþingstaður var fluttur til Reykjavíkur árið 1753 og þá er hlutverki hans lokið. Eftir því sem næst verður komist virðast að minnsta kosti 4 karlmenn hafa verið hálshöggnir og 4 hengdir á þeim tíma sem þingstaðurinn var í notkun. Ein kona virðist hafa verið hengd og einni var drekkt.
Enda þótt það komi ekki fram af fornleifafræðilegum rökum, má telja líklegast að konunni hafi verið drekkt í Kópavogslæk.
Breikkun Hafnarfjarðarvegar við Kópavogslæk og rannsókn á dysjunum þar hefur orðið til þess að rifja upp fornt sakamál.
Heimild:
-Laugardaginn 23. mars, 1996 – Lesbók Morgunblaðsins, bls. 6-7, eftir Guðmund Ólafsson.