Færslur

Gálgaklettar

Í Melkorku árið 1954 birtist grein eftir Guðrúnu Sveinsdóttur undir fyrirsögninni “Gönguför um Gálgahraun“.

Melkorka“Á Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti BessastöÖum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o. fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla í sandbleytunni og smátjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir. Á milli grasigróinna sandlbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla rifnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglár þjóta á milli klettanna, sem endur fyrir löng báru uppi líkami ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. Við erum þrjár á ferð, frú Unnur Skúladóttir, Signý, bróðurdóttir hennar, 11 ára gömul, og sú er þetta ritar.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við nemum staðar og fáum okkur sæti í brekkunni, að vestanverðu við stóra klettinn. Landslagið er sérkennilegt og víður sjóndeildarhringurinn. Hér er friðsælt, við njótum veðurblíðunnar og finnum hve staðurinn er laus við ömurleg áhrif þess, sem hér hefur áður gerzt. Hinzta hvíla hinna ógæfusömu, sem fengu ekki að bera beinin í kristinna manna reit, hefur áreiðanlega hlotið sína vígslu, sem hrakið hefur á brolt allt óhreint og helgað staðinn.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gömul frásögn hermir, að einu sinni sat lítil stúlka undir Gálgaklettum. Var hún þá, sem í leiðslu, hrifin upp í ljóshvolf vítt og undrafagurt. Að eyrum hennar bárust tónar, fegurri en mannlegt eyra má heyra og var sem bylgjur hinna fögru tóna bæru með sér blikandi litskrúð. Loftið var þrungið angan blóma og hreinleika ópilltrar náttúru. Svo sterk voru áhrifin af þessari óviðjafnanlegu fegurð, að hún minntist þess ekki, kvort hún hafði séð fólk á þessum stað, en samt fannst henni sem þarna hefði farið fram einhver helgiathöfn. Þegar hún kom aftur til sjálfrar sín, þar sem hún sat í brekkunni, flutti hún með sér þessa vísu:
Æðra ljós, sem lyftir sál
lífið að mér rétti.
Mig vermir eilíft andans bál
undir Gálgakletti.

Esja

Esjan.

Þarna sátum við og virtum fyrir okkur umhverfið fjær og nær. Regnskúrirnar í Esjunni færðust lengra í vesturátt, en Snæfellsnesið og jökullinn voru enn umvafin skærri birtu og bláma, og andspænis okkur litum við höfuðbólið Bessastaði.

Bessastaðir

Bessastaðir 2023.

„Sjáðu nú Signý min, þarna á Bessastöðum fæddist hann pabbi þinn,” sagði Unnur, „og þar var hún Unnur frænka þín heimasæta,” bætti ég við. „Finnst þér ekki einkennilegt að horfa héðan heim að þeim stað, sem geymir svo margar minningar æskuáranna, þar sem þú þekkir hvern krók og kima inni og hverja þúfu úti fyrir?” spurði ég Unni.
„Jú víst er það einkennilegt, ég átti þar heima í 9 ár. Ég man það eins og það hefði skeð í gær, þegar ég kom fyrst að Bessastöðum.”

Sveppir

Bessastaðasveppir.

Náttúran og sólskinið var hið sama og á sólskinsdögum æskuáranna, þegar Unnur var heimasæta á Bessastöðum. Það hlaut að vera hið ákjósanlegasta tækifæri til að fá að skoða í myndabók minninganna hjá henni. Það bar margt á góma þennan dag, atburðir alda og ára, og eilífðarinnar, sem geymir allt í fórum sínum. Svo fáum við kannske einbverntíma seinna að skoða og skilja allt, sem okkur langar til. Þegar ég kom heim, fannst mér samt, að það mundi ekki skaða að rissa á blað til minnis frásögn Unnar þennan dag, og nú vill Melkorka skrá þessar minningar. Frú Unnur er elzt af börnum Skúla Thoroddsen alþingsmanns og konu hans frú Theodóru, sem er nýlega látin í hárri elli. Þau voru bæð þjóðkunn og ætt þeirra og uppruna er óþarft að rekja hér. Þau eignuðust 13 börn og var heimili þeirra jafnan umfangsmikið. Það kom sér því vel, að þar voru tvær atkvæðakonur að verki, húsfreyjan sjálf og Guðbjörg Jafetsdóttir. Guðbjörg var dóttir Jafets Einarssonar gullsmiðs í Reykjavík. Jafet var bróðir Ingibjargar konu Jóns Sigurðssonar forseta. Bessastaðir
Guðbjörg ólzt að meslu leyti upp í Reykjavík, en var um tíma í Njarðvíkum hjá Ingveldi systur sinni, konu Ásbjarnar Ólafssonar. Guðbjörg var mjög glæsileg kona og vel gefin til munns og handa.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Á milli tvítugs og þrítugs kemur hún á heimili séra Guðmundar á Breiðabólsstað og Katrínar konu hans. Theodóru dóttur þeirra, sem er 9 árum yngri en Guðbjörg, þykir mikill fengur að því að fá á heimilið Reykjavíkurstúlkuna, sem les og talar reiprennandi dönsku, og ber með sér nýjan og hressandi andblæ frá umheiminum. Árið 1884 giftist Theodóra, 21 árs að aldri, og fer þá Guðbjörg á undan til Ísafjarðar, til þess að setja heimilið á laggirnar. Ætlað er, að hún verð ungu hjónunum til aðstoðar fyrst í stað, en þegar von er á fyrsta barninu, finnst öllum nauðsynlegt að hún hafi hönd í bagga með fæðingu þess og fyrstu skrefum. Þegar þar að kemur er Guðbjörg orðin nátengd heimilinu, og með hverju barni verða böndin sterkari. Guðbjörg lézt á heimili Katrínar Thoroddsen læknis árið 1944, 90 ára að aldri.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Vorið 1899 fór Guðbjörg fóstra okkar suður á Álftanes með bræður mína tvo, Þorvald og Skúla, sem þá voru 7 og 9 ára. Fenginn var ráðsmaður, áður bóndi, frá Ísafjarðardjúpi, Gunnar Sigurðsson að nafni, og tvær vinnukonur. Svo var hafinn búskapur á Bessastöðum. Þar var fyrir blindur maður, sem Ólafur hét, virðist hann hafa fylgt staðnum. Ólafur var skýr og greindur maður og afburða vel að sér í fornum fræðum. Síðan var fenginn fjósamaður, Guðmundur að nafni, ættaður sunnan með sjó, og svo drengur til snúninga. Auk þess fólk af bæjunum í kring, til aðstoðar þegar þörf gerðist.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Um haustið bættumst við Guðmundur bróðir minn í hópinn. „Thyra” gamla lá fyrir landi og bátur flutti okkur upp að Fischersbryggju. Þar var saman komið múgur og margmenni og mest áberandi í þeim hóp voru skólapiltarnir með fínu húfurnar sínar. Guðbjörg var þar komin til þess að taka á móti okkur og hún fór með okkur, fyrst til fröken Kristínar Thorlacius, sem lengi var hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara, en Katrín kona hans var ömmusystir okkar.
Seinna kom Katrín Magnússon, kona Guðmundar prófessors, til sögunnar, en hún var dóttir Skúla Sívertsen í Hrappsey, sem var ömmubróðir okkar. Katrín fór út með okkur til þess að skoða bæinn. Benti hún okkur á allt hið markverðasta og okkur þótti, sem von var, mikið til koma. Einhvern næstu daga var svo gengið suður Mela, suður í Skerjafjörð og þaðan róið úr Þormóðsstaðavör beint í Skansinn inn tjörnina. Nú vorum við komin heim að Bessastöðum. Ég sá, að þar var ákaflega fallegt, en ég saknaði fjallanna. Heima á Ísafirði voru þau svo nálægt okkur, en hérna voru þau óralangt í burtu.

Bessastaðir

Bessastaðir – Esjan að baki.

Ég reyndi að hugga mig við Esjuna og Jökulinn. Eitt sinn í svartasta skammdeginu, um jólaleytið, kom ég út og sá sólina. Ég hafði aldrei áður séð sólina um þetta leyti árs, ég stóð hugfangin, eins og kraftaverk hefði gerzt fyrir augum mínum, mér lá við gráti. Þá fann ég það fyrst, að ég gat sætt mig við að sakna fjallanna minna.
Að Grími Thomsen látnum hafði lítið verið hirt um húsið. Það var að mestu í sama horfi þegar við komum þangað. Mér fannst mikið til um, hversu veglegt anddyrið var, stofurnar stórar, hátt til lofts, þykkir veggir og djúpar gluggakisturnar. Uppi á loftinu var þó enn merkilegra. Þar voru 4 herbergi, 2 sitt í hvorum enda, en geimur þar á milli. Þetta var áður svefnloft skólapilta og enn mátti sjá hvar verið höfðu lokrekkjur þeirra.

Bessastaðastofa

Bessastaðastofa 1928.

Guðbjörg svaf með okkur börnin í svokölluðu Amtmannssonalofti, í austurenda hússins, en úr gluggunum blöstu við Gálgaklettar, þess vegna urðu þeir mér fljótt að umhugsunarefni. Á kvöldin þegar ég fór upp að hátta, hugsaði ég oft um hverjir hefðu sofið þarna í lokrekkjunum á loftinu og ég lék mér að því að skipa þeim hverjum á sinn stað. Það voru afar mínir, bæði Jón Thoroddsen og séra Guðmundur á Kvennabrekku, og svo Jónas Hallgrímsson og fleiri Fjölnismenn og fjöldinn allur af öðrum þjóðkunnum mönnum. Þrátt fyrir alla þessa heiðursmenn, fann ég oft til myrkfælni á loftinu, en sú tilfinning fékk byr í báða vængi, því að margir töldu sig sjá og heyra sitt af hverju, sem ekki þoldi dagsins ljós né hæfði heilbrigðu lífi. Einna helzt var það Ólafur gamli, sem varð var við ýmislegt “óhreint” á sveimi kringum staðinn og alltaf áskildi hann sér að ganga síðastur frá bakdyrunum á kvöldin. Þar hrækti hann, fussaði og sveiaði, svo að ekkert óhreint kæmist inn.

Laugavegur

Laugavegur 32.

Um haustið var ráðinn til okkar heimiliskennari. Björn Jensson yfirkennari hafði verið beðinn að útvega gáfaðan og duglegan pilt til þeirra starfa. Fyrir valinu varð Björn Líndal, sem síðar varð lögfræðingur og alþingismaður.

Björn Líndal

Björn Líndal (1876-1931).

Hann kenndi okkur tvo næstu vetur, en las auk þess sjálfur undir 5. og 6. bekk. Smiðir úr Reykjavík voru fengnir til þess að vinna að nauðsynlegum umbótum og breytingum. Sveinn Jónsson, stofnandi Völundar, sá um smíðina. Þá var byggður kvistur, þvert í gegnum húsið að sunnan og norðanverðu, kirkjan var dubbuð upp að utan og innan, en allt var það gert í samræmi við það sem áður hafði verið. Á þessum árum, 1899—1901, var hafin smíði á húsi, sem ætlað var undir prentsmiðju Þjóðviljans, sem þá hafði verið gefinn út á Ísafirði. Það hús stóð niður við Bessastaðatjörn, á sjávarbakkanum. Seinna var það flutt til Reykjavíkur og stendur nú innarlega við Laugaveginn nr. 32.
Sumarið 1900 kom móðir mín snöggva ferð með systur mínar, Katrínu og Kristínu. Þær urðu eftir hjá okkur, svo þá vorum við orðin 6 systkinin á Bessastöðum. Foreldrar mínir voru enn einn vetur á ísafirði, en fluttu svo alfarin þaðan til okkar með yngstu systkinin, sem þá voru Jón, Ragnhildur og Bolli, sem þá var 7 vikna. Það var vorið 1901.

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson (1882-1938).

Að vestan komu tveir prentarar. Var annar þeirra Jón Baldvinsson, sem síðar varð kunnur stjórnmálamaður, en hinn var Einar Sigurðsson frá Seli. Auk þeirra var einn lærlingur. Uppi á prentsmiðjuloftinu, sem oft var kallað Glymjandi, varð nokkurskonar latínuskóli. Þar lásu, auk bræðra minna, Jakob Smári og Sigurður Sigurðsson, síðar sýslumaður Skagfirðinga. Heimiliskennari var öll þau ár sem við vorum á Bessastöðum, og var það alltaf einhver duglegur latínuskólapiltur.
Þegar í upphafi var gestkvæmt og glaðværð mikil á Bessastaðaheimilinu, en eins og nærri má geta dró ekki úr því við komu foreldra minna. Hvorugt voru þau hneigð fyrir búsýslu, en þá hlið önnuðust þau enn sem fyrr Guðbjörg fóstra okkar og Gunnar Sigurðsson, auk fjölda vinnuhjúa.
Faðir minn var stopull við heimilið. Hann rak enn um nokkurt árabil verzlun á Ísafirði og um þingtímann dvaldizt hann að mestu í Reykjavík. Ritstjóri Þjóðviljans var hann frá 1887 til æviloka.

Bessastaðastofa

Móttaka forseta Íslands í Bessastaðastofu.

Heima á Bessastöðum sat hann löngum inni á skrifstofu sinni og oft sat móðir mín þar hjá honum. Sjaldan held ég að hann hafi látið blaðagrein eða annað af því tagi frá sér fara, svo að hún hafi ekki fylgzt með gangi málanna. Foreldrar mínir voru að mörgu leyti kynlegar andstæður að eðlisfari, en áttu þó svo óvenju vel saman, líklega fyrst og fremst vegna þess, að hugur þeirra stefndi að sama marki, að tímanlegri farsæld og menningarþroska í landinu, sem einungis gat dafnað hjá þjóð, sem var frjáls og óháð erlendu valdi. Á stjórnmálasviðinu var faðir minn einbeittur og gat verið harður í horn að taka, en í daglegu lífi voru þau bæði mannvinir, sem máttu ekkert aumt sjá. Þá var hans megin hlýjan og mildin, en hennar eðli var að ganga rösklega að verki með að rétta hjálparhönd, enda hafði hún þar frjálsar hendur.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Hér er eitt lítið dæmi um hjálpsemi hennar: Móðir mín var eitt sinn stödd niður við höfnina. Þar var skip að fara í strandferð og stóð þar veikluleg og illa klædd kona með börn sín og farangur. Einhvernveginn fær móðir mín vitneskju um, að það eigi að flytja konu þessa sveitarflutningi. Það var kalt í veðri, og móðir mín gerir sér lítið fyrir, tekur af sér hlýja og góða sjalið sitt og vefur utan um konuna. Svo kom hún heim með mun lélegri flík, sem hún hafði fengið í næstu búð handa sjálfri sér.
Á Bessastöðum voru menn árrisulir. Þar var unnið af kappi að hverju sem var, búsýslu, heimilisstörfum, lestri, ritstörfum, prentiðn o. s. frv. Þó að mamma tæki ekki mikinn þátt í búsýslunni, hafði hún nóg að gera við að sinna gestum, innlendum og erlendum, og við að vaka yfir velferð barnanna og heimilisins á ýmsa vegu, en þegar pabbi kvaddi hana til aðstoðar og samfylgdar við sig, þá yfirgaf hún allt annað á augabragði og fylgdi honum hvert sem vera skyldi.

Bessastaðir

Glatt á hjalla í Bessastaðastofu 2023.

Eins og nærri má geta var oft glatt á hjalla þar sem var saman komið svo margt fólk í blóma aldurs síns, og alltaf bættist við álitlegur hópur gesta og gangandi. Stundum var slegið upp dansi í forstofunni, en annars skemmtu menn sér við tafl og spil. Sérstaklega var teflt mylla, refskák og kotra. Síðast en ekki sízt var til skemmtunar allskonar fróðleikur, sögur, söngur, ljóðalestur og kveðist á og látið fjúka í kviðlingum, því að bæði voru menn heima fyrir, sem gátu látið til sín taka í þeim efnum og margir þeirra gesta, sem að garði komu, voru heldur ekki í neinum vandræðum með að koma saman vísu, eins og t. d. Þorsteinn Erlingsson, Lárus Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhann Gunnar og Guðmundur Kamban og margir fleiri, þótt eigi hafi þeir allir orðið þjóðkunnir á því sviði.

Þorsteinn Erlingse

Þorsteinn Erlingsson ((1858-1914) .

Af þeim mönnum, sem þegar hafa verið nefndir, má sjá að þessi staður hefur á ýmsum tímum haft að geyma marga af mætustu mönnum þjóðarinnar. Geta menn því gert sér í hugarlund, að það eru ljúfar minningar, að hafa átt sín beztu æskuár í hópi nokkurra þeirra og á þessum merka stað.
Frásögn þessi var rituð í ágústmánuði árið 1951. Birt með leyfi frú Unnar Skúladóttur.”

Hafa ber í huga að þrátt fyrir Bessastaðadekur til handa útvöldum með einskisvirðu skrauti hafa miklu mun fleiri og merkilegri landmenn og -konur lagt hönd á plóg ávöxtunar til framfara landsins er aldrei hafa hvorki náð eyrum né augum “elítunnar” vegna eigin hógværðar. Allt þetta gleymda fólk eru “menn og konur” að meiri og ber að virða með sæmilegri hætti en með prjáli Bessastaðaeilítunnar…

Heimild:
-Melkorka, 10. árg., 2. tbl. 1954, Guðrún Sveinsdóttir, Gönguför í Gálgakletta, bls. 39-43.

Bessastðir

Bessastaðir.

Gálgaklettar

Maður var hengdur í Gálgaklettum “í Garðahrauni” árið 1664 skv. heimildum. Sennilega er þetta elsta heimildin um örnefnið “Garðahraun”, sem síðar, þ.e. nyrsti hluti þess, var nefnt “Gálgahraun“. Gefum Árna Óla orðið:

Galgaklettar-141

“Í þessu trjálausa landi var ekki hægt að hengja menn upp hvar sem var. En hér hafði þó náttúran látið hugvitsömum réttvísinnar þjónum annað í té, sem var jafn gagnlegt. Hún hafði gert stóra steindranga með stuttu millibili, eða þá djúpar klettasprungur og gjár, þar sem ekki þurfti annað en leggja ás yfir á milli klettanna og koma þar snörunni fyrir. Eru enn til sagnir um að á sumum stöðum hafi verið svo rúmt á milli klettanna, að marga þjófa mátti festa þar upp í einu. Þegar af tökunni svo var lokið og böðullinn hafði fengið sitt, var líkið eða líkin urðuð, annaðhvort í sömu klettasprungunni, eða rétt þar hjá.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Slíkir aftökustaðir voru mjög víða, og sumir eru enn kendir við þjófa og gálga. Og það bregst varla að hægt er að benda þar á grjóthrúgu, sem á að vera dys sakamanna. Einn þessi hengingarstaður er hér í nánd við Reykjavík og heitir Gálgaklettar. Þeir eru á Álftanesi, sunnan Lambhústjarnar, gegnt Bessastöðum.
Hér eru langir klettaröðlar sprungnir sundur að endlöngu, hér eru háir klettar með sprungum og hellum, og hér eru djúpar hvosir.

Gálgahraun

Gálgahraun – herslugarðar.

Við höfðum haldið að Gálgahraun væri hinn ömurlegasti staður. En það er nú eitthvað annað. Þetta er allra skemmtilegasti staður, þegar maður fer að skoða hann og kynnist honum. Víða er brunagrjót, ómjúkt undir fæti og skófrekt, en yfir það verður að klöngrast til þess að geta skoðað einkennilegustu klettana.
Og hér kemur maður svo í grasi gróna klettasprungu og gengur eftir henni. Allt í Galgaklettar - AOeinu kemur maður að gloppu á þessum gróðurfeldi og sér þá niður í botnlausa gjá undir fótum sér.
Hér eru margir sundur sprungnir klettar, þar sem mjög hentugt hefði verið að koma fyrir gálgatré. En það eru þó ekki hinir réttu Gálgaklettar. Þessir klettar eru of langt inni í hrauninu. Menn voru ekki að leggja á sig það ómak að drasla dauðadæmdum mönnum til aftökustaðar, sem illt var að komast að. Það er því ekki fyrr en við erum staddir beint á móti Bessastöðum, að við komum að Gálgaklettum. Og við sjáum þegar að þeir bera svo af öðrum klettum, að þeir hafa hlotið að vera sjálfkjörnir „til síns brúks”.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Þeir eru hærri en flestir aðrir klettarnir, brattir og sprungnir sundur sitt á hvað, sprungurnar djúpar og beinir klettaveggir sitt hvorum megin við þær. Hér fram undan er líka allvíð klettakvos með sléttum og grónum botni, þar sem margt manna hefir getað staðið til að horfa á. Og rétt fram undan er dálítil vík eða vogur, þar sem hægt hefir verið að lenda báti. Er þangað stuttur sjóvegur frá Bessastöðum yfir Lambhúsatjörn.
Ekki hefir mér auðnast að grafa upp hve margir menn hafa verið hengdir hér. En í annálum er þess getið, að hinn 26. janúar 1664 hafi maður verið hengdur „suður frá Bessastöðum í Garðahrauni”. Hann hét Þórður Þs. (líklega Þórðarson) og honum var gefið að sök að hafa stolið „úr búðum danskra í Hólminum”.

Gálgahraun

Fornar götur um Gálgahraun.

Samkvæmt þessu verður ekki um vilst, að þessi maður hefir látið lífið í Gálgaklettum. Og líklegt er að fleiri hafi verið teknir af þar og að þetta hafi verið opinber aftökustaður, líkt og Sjávarkvíar á Kjalarnesi. Kjósarannáll segir frá því, að 1634 hafi verið hengdur þjófur á Bessastöðum. Skarðsárannáll segir að 1635 hafi 2 menn verið hengdir í Gullbringusýslu fyrir stuld, sinn í hvorn tíma. Setbergsannáll segir að 1702 hafi tveir þjófar verið hengdir í Gullbringusýslu, en í Mælifellsannál segir að það ár hafi þrír þjófar verið hengdir á Suðurnesjum.
Sennilega hafa allir þessir menn verið hengdir í Gálgaklettum, því að þegar þeir voru gripnir, munu þeir hafa verið fluttir í Bramshúsið á Bessastöðum. Þetta var sérstakt hús og fyrsta og eina fangelsi hér á landi þangað til hegningarhúsið á Arnarhóli var byggt. Alþýða kallaði þetta hús „Þjófakistu” og er það kunnast undir því nafni.
Galgaklettar-140Í klettaskoru austan í Gálgaklettum er grjóthröngl allmikið og var talið að þetta væri dys, þar sem sakamennirnir hefði verið urðaðir. Hafa gengið sagnir um að þar hafi sézt mannabein. Auðséð er, að einhver hefir ætlað að rannsaka þessa dys, því að nokkuð af grjótinu hefir verið rifið upp, en ekki sjást þar nú nein bein, nema eitt rif úr hrossi, hvernig svo sem á því stendur að það er þangað komið. En þarna hefir verið djúp glufa út undir bergið og má vera að þar sé eitthvað af mannabeinum og þá djúpt á þeim. Við skulum ekkert forvitnast um það. Ef þetta er dys sakamannanna, eins eða fleiri, þá hafa þeir nú legið þarna í 250—318 ár og það er bezt að lofa þeim að vera þarna í friði.”

Heimild:
-Í Gálgahrauni – Árni Óla – Lesbók Morgunblaðsins 24. ágúst 1952, bls. 405-409.

Gálgahraun

Gálgahraun og Garðahraun – minjar.

Sundhnúkur

Gengið var til austurs yfir Arnarseturshraun, yfir í Skógfellshraun og upp á tindinn á austanverðu Stóra-Skógfelli. Frá því er stórbrotið útsýni yfir svo til alla gígaröð Sundhnúka.

Sundhnúkur

Hagafell, Þorbjarnarfell og Sundhnúkur.

Sjá mátti yfir í nyrstu gígana í röðinni í hrauninu milli fellsins og Fagradalsfjalls, og síðan hvern á fætur annan áleiðis til suðurs, uns komið var að sjálfum Sundhnúknum utan í austanverðu Hagafelli. Það fell er ekki síst þekkt af Gálgaklettunum, sem þar eru. Gígaröðin liggur áfram til suðvesturs norðan við Hagafellið og niður af því að vestanverðu. Um er að ræða sömu sprungureinina, en óvíst er hvort um sama gosið hafi verið að ræða og í sjálfri Sundhnúkaröðinni.

Sundhnúkar

Gjallgígur í Sundhnúkagígaröðinni.

Þoka grúfði yfir þegar komið var upp á Stóra-Skógfell (190 m.y.s). Eftir svolitla bið rann hún hjá og landið lá sem landakort fyrir neðan. Fallegur gígur er austan við fellið, en suðvestan hans er samfell gígaröð að Sundhnúknum.
Haldið var niður af Stóra-Skógfelli og gengið að nyrsta gígnum í hinni samfelldu gígaröð. Frá honum var gígaröðinni fylgt til suðurs, sum staðar eftir Skógfellastígnum, sem liggur þar austan við hana. Víða mátti sjá fallega og litskrúðuga klepra í gígbörmum með hinum ýmsustu myndunum.
Hver gígurinn tók við af öðrum – hver öðrum glæsilegri. Varla þarf að taka fram að þarna er um óraskaða gígaröð að ræða, enda nú komin á náttúruminjaskrá sem einstakt náttúruvætti.
SprungurDalahraun liggur austan Sundhnúkaraðarinnar og norðan Vatnsheiðar. Hraunið í því er allslétt og má því vel sjá hraunskilin í annars úfunu apalhrauninu.
Sprungureinakerfin á Reykjanesskaganum eru fjögur eða jafnvel fimm, eftir því hvernig þau eru metin. Óvéfengjanleg eru þó vestustu svæðin, þ.e. á sjálfu Reykjanesinu vestan Krýsuvíkur. Þar fyrir austan eru Brennisteins- og Hengilssæðin með tiheyrandi sprungureinakerfi.
Sprungureinakerfi Reykjanessins er dæmigert fyrir slík svæði. Gosið hefur á a.m.k. þremur sprungureinum með 2 til 3 km millibili. Á hverri rein hefur einnig gosið oftar en einu sinni, sbr. Stampana, en þar má sjá a.m.k. þrjár gígaraðir frá mismunandi tímum.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun – eldri gígur.

Sprunureinakerfin 3 eru Stampar vestast, þá Eldvörp og Sundhnúkarnir austast. Sandfellshæðin og Þráinsskjöldur eru dyngjur á þessum reinum. Jón Jónsson, jarðfræðingur (1978) telur að öll þessi kerfi hafi verið virk á sögulegum tíma. Samkvæmt upplýsingum ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) eru Stampa- og Eldvarpahraunin um 2000 ára gömul og svo mun einnig vera um Sundhnúkaröðina.
Gengið var eftir Reykjaveginum, sem kemur þarna yfir Dalahraunið frá Drykkjarsteinsdal, upp að hinum hrikalegu Gálgaklettum í Hagafelli. Spurst var fyrir um aftökustaðinn sjálfan. Freystandi var að kveða á um einn tiltekinn stað umfram annan, en raunin er hins vegar sú að staðurinn var aldrei notaður sem aftökustaður.

Sundhnúkar

Sundhnúkur.

Tilvísun til slíks er einungis til í einni þjóðsögu af þjófum er héldu til í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli. Í henni segir m.a. að sé sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.

Sundhnúkur

Í Sundhnúkagígaröðinni. Stóra-Skógfell fjær.

Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.

Hagafell

Hagafell.

Klettarnir eru bæði tilkomumikill og áhrifaríkur staður, svo áhrifaríkur að sagan gæti alveg eins átt við rök að styðjast. Í klettunum sjálfum má sjá einstakar bólstrabergsmyndanir.

Gígaröðinni var fylgt áfram til suðvesturs. “Yfirvaldið” frá fyrrum má enn sjá greypt í stein vestan Gálgakletta. Myndarlegur gígur er sunnan í Hagafellinu og fleiri á hraunsléttunni suðvestar, skammt fyrir ofan Grindavík. Úr gígnum hefur runnið hraun um fagurformaða hrauntröð, sem nýtur sín vel þegar staðið er upp á brúninni.
Haldið var niður hraunið og áleiðis niður í Grindavík.
Um er að ræða tilvalda gönguleið fyrir áhugafólk um umhverfislega fegurð og mikilfengleik jarðfræðinnar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gálgaklettar

Gengið var vestur eftir Fógetastíg (Álftanesgötu) og þvert yfir Garðahraun.

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Gatan er greinileg í gegnum hraunið. Við hana eru gömul vörðubrot á nokkrum stöðum. Á a.m.k. tveimur stöðum eru grashólar er gætu þess vegna verið gamlar dysjar eða önnur ummerki. Þegar stígnum er fylgt er komið út úr hrauninu við Hrauntunguflöt. Hrauntunga er sá tangi, sem skagar lengst til vesturs út úr hrauninu að vestanverðu. Þó, skammt áður en komið er komið út úr hrauninu, rétt sunnan vörðubrots, liggur stígur til vinstri. Það er Garðagata. Hún liggur síðan áfram til vesturs upp norðanvert Garðaholt þar sem hún fer m.a. í gegnum skotgrafir og skotbyrgi áður en komið er upp á háholtið.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Beygt var út af Fógetastíg sunnan Garðagötu. Þaðan liggur stígur að Garðastekk. Áður en komið var að stekknum var staldrað við og skoðuð, að því er virðist, allstór fjárborg uppi á hraunkantinum ofan við stekkinn. Borgin er greinilega mjög gömul. Þarna gætu einnig verið um að ræða leifar af húsi eða byrgi ofan við stekkinn. Stekkurinn undir vesturhraunbrúninni er allstór og gæti þess vegna hafa verið breytt í rétt undir það síðasta. Norðan stekksins, inni í stekkjargerðinu, er greinilega gömul tótt og vinkillaga garður norðan hennar. Ekki er vitað hvað sú tótt gæti hafa verið því hvorki er minnst á hana né fjárborgina í örnafnaskrám.

Garðahverfi

Presthóll.

Gengið var áfram til vesturs áleiðis upp á Garðaholt. Við gatnamót Álftanesvegar og Garðaholtsvegar er stór hóll – Presthóll eða Prestahóll. Utan í honum er miklar skotgrafir og hlaðið smáhús.

Haldið var áfram til suðurs og upp á hæð, sem í seinni tíð hefur verið nefnd Völvuleiði. Á henni er Mæðgnadys skv. örnafnalýsingu. Utan í henni er skotgröf, sem og víðar í holtinu.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Áfram var haldið til vesturs og þá komið að hinu eiginlega Völvuleiði skv. lýsingu Ágústar frá Miðengi. Það er við hinn gamla Kirkjustíg, sem lá þarna frá Engidal að Garðakirkju. Gömul sögn segir að valva hafi orðið þar úti og verið dysjuð við stíginn.
Eftir stutt staldur við Garðaholt var guðað á glugga á Króki, gömlu uppgerðu húsi skammt neðan við veginn. Það mun nú vera í eigu Garðabæjar og er látið halda sér að innan eins og það var yfirgefið á sínum tíma. Gengið var niður með Austurtúnsgarði Garða og niður fyrir kirkjugarðinn, eftir Lindargötu og að Garðalind. Lindin er undir stórum steini og liggur hlaðinn stokkur niður frá henni. Yfir stokkinn er brú upp við lindina og önnur aðeins neðar. Neðan og vestan við lindina var Garðhúsabrunnur, en hann var fylltur upp eftir að dauð rolla fannst í honum. Þarna skammt frá voru Garðhús (gæti verið áberandi tótt sunnan við Garðalind, fast upp við kirkjugarðsgirðinguna.

Fógetagata

Fógetagata.

Gengið var til norðurs að bæjarhóls þurrabúðarinnar Hóls við norðvesturhorn kirkjugarðsins, upp túnið norðan hans, framhjá Ráðagerði og upp á Garðaholt. Þaðan sést vel Hallargerðið, þar sem bærinn Höll stóð, í suður. Staðnæmst var við þann stað, sem Garðaviti stóð. Þar á stórri vörðu var höfð lukt á 19. öld að skipan Garðapresta. Framhjá henni til austurs liggur Garðagata niður holtið – þvert í gegnum hlaðnar skotgarfir og tvö steypt skotbyrgi. Litið var á þau og síðan haldið áfram niður eftir Garðagötu. Miðja vegu í holtinu, vinstra megin og alveg við götuna, er gömul ferköntuð hleðsla. Gömul hringlaga hleðsla er utan um hana. Þarna er eitthvað, sem skoða þarf nánar. Í örnafnalýsingu segir m.a. að “frá Garðatúnshliði lá Garðagata (Stekkjargatan) vestan Götuhóls, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól við vegamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar”.

Garðahverfi

Hallargerði.

Í örnefnaskránni segir að Presthóll sé við fyrrnefnd gatnamót. Það segja og Ágúst á Miðengi og Guðjón á Dysjum.

Um Mæðgnadys segir einnig í örnefnalýsingunni að hún sé “í norðanverðu Garðaholti sunnan við Presthól”. Hér gætir ónákvæmni. Ekki er ólílegra að Mæðgnadysin kunni að vera þessi því hún er við götu eins og flestar dysjar, sbr. Völvuleiðið, sem er við Kirkjustíg. Því eru hér uppgefnir GPS-punktar af báðum stöðunum.

Gálgahraun

Fiskbyrgi í Gálgahrauni við Sakamannastíg.

Síðan var haldið áfram að Sakamannagötu eða Gálgastíg, eins og hann hefur stundum verið nefndur. Þarna lá gatan, nyrst í vesturjarði Gálgahrauns, austur með sjónum að Gálgaklettum. Á leiðinni eru m.a. hleðslur við stíginn og garðar á stangli. Þeir voru fyrst og fremst notaðir sem þurrkgarðar fyrir þang, sem skorið var þarna í fjörunni. Gengið var framhjá Hrauntanga, en ofan þeirra er fallegt útsýni að klettunum.
Gálgaklettar voru skoðaðir í krók og kima. Þeir eru gamall aftökustaður frá Bessastaðavaldinu. Í lýsingum er talað um Gálgaflöt þar sem hengdir voru grafnir, en óljóst er hvar hún er nákvæmlega. Þó má sjá á einu korti af svæðinu að flötin sé nokkru norðaustan við klettana, svo til alveg niður við sjó, á milli Hrauntanga og Vatnagarða. Skoðað síðar. Tækifærið var notað og skimað eftir skútum við Gálgakletta, en engir fundust að þessu sinni.

Gálgahraun

Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í fornleifakönnun FÍ 1999 segir m.a. um Gálgakletta: “Við Lamhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim…. Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirravar lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessi klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.”
Um Garðastekk segir jafnframt: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana… Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930”, segir í örnefnalýsingu.
“Fógetastígur er mjög sérstæð og óvenjuleg fornleif. Hún getur engan vegin talist greiðfær fyrir hesta, en engu að síður ber hún vitni um mikla umferð á þessari leið um aldir. Gatan er enn þann í dag skemmtileg gönguleið og hefur ótvírætt varðveislugildi…. [Fógetastígur] greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.”
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk að skoða stígana í Garðahrauni, skoða Garðastekk og kíkja á Gálgaklettana í Gálgahrauni. Aðkoman að þeim eftir Sakamannagötunni úr vestri er áhrifarík.
Frábært veður. Gangan, fram og til baka, tók 3 klst og 3 mín.

Garðavegur

Garðagata ofan Garðakirkju.

 

Gálgaklettar

Gengið var um Gálgahraun, en hraunið sem og Klettahraun eru nyrstu hlutar Garðahrauns. Eftirfarandi lýsing er m.a. byggð á lýsingu Jónatans Garðarssonar um svæðið. Um Hraunin lá svonefndur  SelurFógetastígur, frá Reykjavík til Bessastaða, Garðagata og Móstígur.
“Nyrsti hluti Búrfellshrauns nefnist Garðahraun og skiptist í Engidalshraun og Klettahraun sem er líka nefnt Klettar. Allra nyrst er Gálgahraun þar sem hraunið gengur fram í Lambhúsatjörn og Skerjafjörð. Þetta er gott útivistarland og margt að sjá í hrauninu og fjörunni. Gróðurfar er fljölbreytt, klettamyndir stórfenglegar, djúpar gjótur og grunn jarðföll setja svip á landið og ströndin er heillandi. Við hraunjaðarinn eru fallegir bollar og hraunstrýtur og klettar af öllum stærðum. Myndarlegustu klettarnir bera einkennandi nöfn eins og Stóriskyggnir og Litliskyggnir og skammt frá þeim eru Vatnagarðarnir. Frægastir eru Gálgaklettar, eða Gálgar, sem eru þrír stórir hraundrangar sem standa í þyrpingu. Það eru Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, sem segja má að sé þríklofinn klettur og þar af leiðandi allt eins nefndir einu nafni Gálgaklofningar.

Hraunkarl

Við Gálgana átti að vera staður sem kallaðist Gálgaflöt. Munnmæli herma að þar hafi sakamenn sem hengdir voru í gálgunum verið dysjaðir. Grasi grónir balar norðan við Gálgakletta eru grænni en aðrir staðir nærri klettunum. Ekki er ljóst hvar Gálgaflötin var en þessir balar koma sterklega til greina. Ritaðar frásagnir af því að mannabein hafi fundist við Gálgakletta bera þess vitni að þar hafi menn verið dysjaðir þó aðrar skráðar heimildir séu ekki fyrir hendi.
Áður fyrr þótti hraunið ekki mjög heillandi eða árennilegt öðrum en þeim sem þekktu það vel. Álftanesgata eða Fógetagata eins og hin forna alfaraleið út á Álftanes var nefnd, lá í krókum gegnum hraunið eftir ruddri slóð.

Fógetastígur

Gatan var ágæt yfirreiðar í björtu veðri en gat reynst hættuleg og valdið óhugnaði hjá fólki í dimmviðri, regni og vetrarhríð. Gatan var líka nefnd Gálgahraunsstígur nyrðri og Sakamannastígur. Þessi nöfn voru nægjanlega skuggaleg til að setja hroll að ferðalöngum sem áttu leið um þessa grýttu og torfæru götu eftir að rökkva tók. Gatan er enn nokkuð augljós og auðvelt að rekja sig eftir henni þar sem hún fetar sig upp á hraunið nærri Eskinesi við botn Arnarvogs yfir hraunið og að hraunbrúninni rétt norðvestan við Garðastekk. Hraunið þótti það villugjarnt að um tíma gat Arnes Pálsson falist þar á 18. öld, en hann var kunnur þjófur sem lagðist út og var samtíða Fjalla Eyvindi og Höllu. [Arnes dvaldist í Arnesarhelli við Hraunsholt, nokkru austar, undir norðurbrún Flatahrauns.]
Þeir sem kunnu að nýta það sem hraunin gáfu af sér töldu þau afar gjöful. Hraunið tilheyrði Garðakirkju og fengu leiguliðar kirkjunnar að beita þar sauðfé sínu. Víða í grasgefnum lautum í hraunjaðrinum og út með ströndinni var ágætist útibeit fyrir sauðfé hvort heldur var að sumri eða vetri. Auðvelt var að útbúa fjárskjól í hraunskútum og má finna minjar um smala- og fjárskjól ásamt hlöðnum byrgjum á nokkrum stöðum. Þegar skyggnst er ofan í jarðföll, sprungur í hraunjöðrum og klettaborgum sjást þessar grjóthleðslur, eða vallgrónir torf- og grjótveggir. Stundum var hlaðið upp við sprungur og reft yfir til að nýta náttúrlegar aðstæður sem best. Slíkar minjar er hægt að finna í Klettahrauni og Gálgahrauni, t.d. á Grænhól, við Garðastekk og við Eskines.
 GálgahraunHraunið gat verið ágætis beitiland en það var ekki hættulaust að nýta það. Sauðamenn fylgdu sauðfénu og gættu þess að það færi sér ekki að voða því víða leynast glufur í hrauninu sem geta valdið skaða. Á vetrum var fénu beitt í fjörunni á hólmum og flæðiskerjum. Það var því mikilvægt að gæta að sjávarföllum og koma fénu í land áður en féll að. Féð gekk í fjöru frá Gálgaklettum inn að Eskinesi og þar rak oft ferskan marhálm sem var á við töðugjöf þegar hálmurinn var nýr. Fjárkynið sem undi sér best í Klettunum var kallað Klettafé. Það var á útigangi í hrauninu nema þegar rekið var á fjall yfir hásumarið. Hraunið var leitótt og erfitt yfirferðar og féð styggt og meinrækt að sögn Ólafs Þorvaldssonar, sem bjó í Ási við Hafnarfjörð. Þetta leiddi til þess að iðulega kom fyrir að eitthvað af fénu komst ekki á fjall og var í hrauninu allt árið.

 Gálgahraun

Nokkur örnefni og kennileiti minna á þessa tíð, þ.á.m. eru Garðastekkur og Garðarétt, ásamt túnflekk og húsatóftum í hraunjaðrinum á móts við Prestaþúfu. Beitin hefur án efa átt sinn þátt í að eyða kjarrgróðri sem eflaust hefur vaxið í hrauninu í öndverðu. Birki og víðir eru að ná sér á strik á stöku stöðum í hrauninu en það er að mestu vaxið lyngi, mosa og hverskyns lággróðri.  Hálmskurður var stundaður aðallega í Lambhúsafjöru í Lambúsatjörn. Skorinn Marhálmurinn var notaður þegar illa áraði og heyfengur af skornum skammti og þótti góð búbót því nautgripir voru sólgnir í hann. Hálmur sem rak á Lambhúsafjörur var góður sem undirlag í rúm og til að útbúa dýnur. Hann var stundum notaður sem stopp í söðla og hnakka og jafnvel í sængur. Marhálmurinn var algjörlega ónýtur sem eldsneyti en þegar farið var að byggja timburhús var hann mikið notaður til að einangra milli þilja. Hann var seldur til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og notaður í íshúsin, einkum Nordalsíshús og Ísbjörninn.

 Gálgahraun

Guðmundur Þóroddson í Lásakoti á Álftanesi hafði atvinnu af því að hirða marhálm í Skógtjörn, þurrka hann og flytja á tveimur hestum til kaupenda. Marhálmur vex í minna mæli nú en áður og hvarf að mestu veturinn 1918-19. Hálmurinn er mikilvæg fæða álfta sem Álftanes dregur væntanlega nafn sitt af. Margæsir sem staldra hér við á vorin og haustin á leið sinni til og frá vetrastöðvunum í Bretlandi en sumarsvæði hennar eru í Grænlandi og Kanada sækjast í marhálminn. Það eru fleiri fuglar sem sækja í tjarnirnar á Álftanesi í grennd við Gálga- og Klettahraun. Fuglalífið er ákaflega fjölbreytt og tegundafjöldinn óvenju mikill.
 GálgahraunTalsverð búbót var af torfristu og mótekju en fjörumór þótti mun betri eldsmatur en hálmurinn. Garðhverfingar höfðu leyfi til að skera þang í fjöru en rekaþangið var betra og þornaði fyrr en þang sem var skorið í sjó. Það var ekki eins salt og brann líka betur. Mór og þang var þurrkað á þurrkvöllum í hrauninu og á hlöðnum þurrkgörðum. Það var síðan geymt í hlöðnum grjótbyrgjum. Þegar þangið var vel þurrt var það bundið upp í sátur sem voru bornar á bakinu heim á bæina. Þegar allt annað þraut var lyng rifið og notað sem eldsmatur og það litla sem fékkst af kvisti var líka tekið.
Jón Jónsson jarðfræðingur segir í bókinni frá Fjöru til fjalls að sjávarstaða hafi verið lægri en nú er þegar Búrfellshraun rann. Eskines er kvísl eða hrauntangi sem gengur lengst út í Arnarvog og hefur stöðvast á þurru landi telur hann. Nesið hefur brotnað á undangenginni öld og sjór flæðir nú yfir stóran hluta þess á stórstraumsflóðum.

Tóft

Húsatóftir sem eru að eyðast sjást enn á Eskinesi. Erfitt er að henda reiður á hvort þetta er gömul verbúð eða kotbýli, en líklegast er að þetta sé hús sem Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum lét reisa um 1870. Hann ætlaði að koma upp æðarvarpi í Eskinesi. Samkvæmt frásöng Ólafs Þorvaldssonar lét hann reisa kofa í hraunjaðrinum og þar eru vallgrónar minjar, þannig að það má vera að tóftirnar á nesinu séu af eldra húsi. Séra Þórarinn flutti karl og konu í kofann og lét þau hafa hænsnfugla hjá sér sem áttu að lokka æðakollurnar til að verpa í hreiðrin sem útbúin höfðu verið. Þetta hafði ekki tilætlaðan árangur og gafst Þórarinn upp á þessari tilraun stuttu seinna. Norðan við Eskineseyrartá eru tvö eða þrjú flæðisker sem sauðfé sótti mjög í á sínum tíma. Þar varð verulegur fjárskaði um 1900 þegar 40-50 kindur úr Hafnarfirði og Garðahverfi flæddi til dauðs.
Þrátt fyrir dulúð, drunga og harðneskjublæ sem fylgir óneitanlega Gálgahrauns- og Klettahrauns nöfnunum eru margir heillandi staðir á þessum slóðum.

 Gálgahraun

Þeir sem vilja kynnast þessu merka hrauni nánar ættu að gefa sér tíma og fara nokkrar ferðir um hraunið. Það er margt að sjá og um að gera að skyggnast eftir minjum og áhugaverðum stöðum.
Ekki má gleyma strandlengjunni sem er síbreytileg og tjarnirnar í Vatnagörðunum eru mjög sérstakar. Það er auðvelt að fara um hraunið allan ársins hring og hægt leita skjóls ef vindur blæs og regnið lemur. Þarna hafa skáld og myndlistarmenn eins og Kjarval, Pétur Friðrik, Eiríkur Smith og Guðmundur Karl oft leitað fanga. Þeir sem hafa gaman af því að taka ljósmyndir ættu að finna ógrynni af skemmtilegum mótífum í klettum og klungrum.”
Selir léku sér í lygnunni á austanverðri Lambhúsatjörninni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir:
-Ólafur Þorvaldsson, Áður en fífan fýkur.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jón Jónsson, Frá fjöru til fjalls.

Gálgahraun

Gálgaklettar

Gengið var frá Skerseyri um Langeyri, litið á landamerkjavörðu Hafnarfjarðar og Garðabæjar neðan Bala, kíkt undir Balaklöppina, haldið yfir að Garðalind, skoðuð verk steinsmiðsins mikla frá Görðum, spáð í Völvuleiði og Garðastekk og síðan Sakamannagatan gengin að Gálgaklettum.
Skerseyri og Skerseyrarmalir var nefnd fjaran frá gamla Hafnargarðinum út að Langeyri. Langeyri var í raun stutt eyri á Langeyrarmölum, en hún náði allt að Markavörðunni á Balaklöppum.

Balavarða

Balavarða.

Á Balaklettum var gengið að Markavörðu. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, sagði eitt sinn að þeir bæjarstarfsmenn hefðu gengið að markavörðunum í landi Hafnarfjarðar og “gert þær varanlegri með steinsteypu.” Þannig hafi þeir “steypt upp hlöðnu vörðurnar á Balakletti, í Engidal við Hafnarfjarðarveginn, á Miðdegishól, á Hádegishól, við Setbergsfjárhelli, við Markrakagil og víðar.
Skarfur þakti klappirnar utan við ströndina.
Guðmundur Kjartansson kannaði mó og jurtaleifar við Balakletta um 1970. Reyndist aldur jurtaleifanna verð aum 7000 ára, en niðurstaðan gefur til kynna hvenær Búrfellshraunið (Garðahraun) hefur runnið. Nokkru austar er Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar. Bali er ofan við kampinn.

Bali

Bali – Sléttubraut.

Til fróðleiks má geta þess að austan undir Balatúni er vegarspotti, kallaður Sléttubraut. Sigurgeir Gíslason, vegaverkstjóri, lagði þennan veg, en nefndur Sigurgeir var m.a. verkstjóri við Gamla Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918.
Þá tóku við Dysjar. Gengið var framhjá Dysjatjörn, en á flóðum flæðir inn í hana.
Þá var gengið um land Pálshúss og síðan áfram um Garðamýri, inn á Lindargötu og eftir henni að Garðalind. Skammt vestar var Sjávargatan frá Görðum. Hlaðin brú er á götunni neðan við lindina, aðalvatnsból Garðhverfinga. Við lindina liggur gríðamikið bjarg, Grettistak. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi eins og svo algengt var um allt Reykjanesið og víðar.

Garðar

Garðar – legsteinn.

Við Garða má sjá mikla garða. Á loftmyndum má t.d. sjá Garðatúngarð. Garðinum var skipt í Vesturgarð og Austurgarð. Bærinn Krókur stóð við Austurtúngarð og Krókstún niður við bæ. Vestan og neðan kirkjugarðs var Sjávargatan (Gata) niður að sjó. Við sjávargötuna var þurrabúðin Hóll. Sjá má tóftir hennar neðan við norðvesturhorn kirkjugarðsins.
Margir telja að Garðar séu landnámsjörðin í Álftaneshreppi hinum forna, en hún hét Skúlastaðir. Ekki liggur þó fyrir með óyggjandi hætti hvar Skúlastaðir voru, sbr. Skúlatún ofan Undirhlíða.
Garðakirkja er í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Í Garðasókn eru tvær kirkjur: Garðakirkja og Vídalínskirkja. Garðakirkja á Álftanesi er vegleg kirkja á sögufrægum stað. Hún hefur átt tímana tvenna kirkjan, sem þar er nú. Hún var reist 1879-80 og Pétur Sigurgeirsson, biskup, vígði hana á öðrum degi hvítasunnu. Kirkjan er úr hlöðnu grjóti úr holtinu fyrir hana.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Hinn 20. desember 1914 var nýja kirkjan í Hafnarfirði vígð og frá sama tíma var Garðakirkja formlega lögð niður. Gekk nú á ýmsu uns konur í Garðahreppi tóku málið í sínar hendur á öndverðu ári 1953 og hafði kirkjan þá verið rústir einar að heita má í aldarfjórðung. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Björn Th. Björnsson listfræðingur velti fyrir hver steinsmiðurinn mikli í Görðum væri. Í þeim vangaveltum kom m.a. fram eftirfarandi:
“Allt of lengi hefur það farið fram hjá mönnum, að hér syðra, í næstu nálægð höfuðstaðarins, eru til slík steinhöggsverk sem vekja jafnt undrun og aðdáun á þeim ókunna manni sem beitti þar hagleik sínum. Er þar átt við svokallaða ,,Garðasteina” stóra legsteina í kirkjugarðinum í Görðum á Álftanesi og í nálægum görðum, Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd, úr kirkjugarðinum á Gufunesi í Mosfellssveit og á Þingvöllum. Allt eru þetta stórir steinar, sem næst í grafarstærð, höggnir úr ljósu grágrýti með frábæru klassisku letri og margvíslegri myndskreytingu. Grjót þetta virðist steinafræðingum annaðhvort vera úr Garðaklettum eða úr hömrunum á Setbergi, þar skammt frá.

Garðalind

Garðalind.

Vel má ímynda sér verkferilinn við slíkt steinhögg: Fyrst að kljúfa tilætlaðan stein úr berginu, og þá líklegast með frostþenslu trékíla, svo sem reykvískir legsteinasmiðir gerðu síðar á Skólavörðuholti. Næst er að flytja steininn heim á þann stað þar sem hann á að vinna. Kemur þar naumast annað til greina en sleði á vetri. Kemur þá að því þolinmæðisverki að jafna steininn undir og yfir, slétta hann ofan og fága, höggva brúnir. Loks kemur að hagleiksverkinu sjálfu: mæla út og reikna fyrirferð letursins, stað myndskreytinga og jafnvel teikna fyrir þeim. Eftir allt þetta kemur loks til meitils og hamars, þar sem smiðurinn situr á steininum og stýrir eggjárninu um hina fögru stafi. Allt er letrið á þessum steinum hrein antikva, þ.e. rómverskt jafnstilka letur, oftast með fæti og höfði, andstætt steinskriftarletri, sem hann notar samt á elzta steininn.
Þegar hugað er að aldri legsteina, hafa þeir það fram yfir flest önnur hagleiksverk, að ártals er þar getið. Markar það tímann á eldri veginn, en mörg dæmi eru hinsvegar til þess að minningarmörk séu gerð alllöngu eftir andlát og greftrun manns.

Garðar

Legsteinn yfir guðmund Sigurðsson í Garðakirkjugarði.

Í sögu lærðra manna á 17. öld er aðeins einn mann að finna sem uppfyllir kosti steinsmiðsins, og þá ekki sízt um stað og tíma. Sá maður er Þorkell Arngrímsson sem var guðsþénari í Görðum á Álftanesi um nær tvo áratugi, frá 1657 eða ’58 og til dauðadags 1677, á þeim tíma sem flestir steinarnir eru höggnir.
Líklegt er um mann með þann feril, að hann hafi verið vel búinn tækjum og áhöldum til viðureignar við steina, enda stóð hugur hans svo lítt til prestsskapar, að hann segir í bréfi til biskups 1657, að ,,höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke er að knýja mig mig til þess að taka Garða á Álftanesi”; hefur viljað hafa slíkan vísindamann nálægt sér. En þar sem ekki var af öðru lífvænt hér á landi, gekkst hann undir það jarðarmen árið 1658. Ekki varð prestskapartíð Þorkels Vídalíns með neinum friði, heldur eilífum róstum og ákærum sóknarbarna hans, enda hefur hugur hans staðið til annars frekar en messusöngs yfir illviljuðum sálum.

Henrik Bjelke

Henrik Bjelke.

Í stað slíkra leiðindaverka rannsakaði hann hverina á Laugarnesi, brennisteinsnámurnar í Krýsuvík og Surtshelli, og meitlaði steingervinga úr berglögum handa erlendum vísindamönnum. Milli þess hefur hann setið á hlaðinu heima í Görðum og hoggið út þessa makalausu legsteina. Enn er slíkt þó tilgáta ein og til frekari rannsókna.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan við Álftanesveg. Þar lá vegurinn (Fógetastígur) um til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Nafnið er frá þeim tíma er dómsvaldið var á Bessastöðum. Eins og fram hefur komið í öðrum FERLIRslýsingum (t.d. FERLIR- 541) um svæðið er Gálgahraun hluti Búrfellshrauns. Við stíginn má sjá vörðubrot og hleðslur á a.m.k. tveimur stöðum. Ekki er útilokað að þar kunni að leynast dysjar genginna vegfarenda.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Garðaholti ofan Dysja.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur (sjá FERLIR-541), lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu.
Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn.

Garðagata var reiðgata eða stígur frá Garðahliði norður yfir Garðaholt, fast austan við skotbyrgi frá síðari heimstyrjöldinni, vestan Götuhóls, norður í Álftanesstíg. Við nefnda Garðagötu er dys, vinstra megin þegar gengið er til norðurs, norður undir Garðaholti. Öllu sennilegra er að þarna sé um Mægðnadys að ræða, enda við götu þar sem algengt var að dysja látna ókunna ferðalanga.
Skotbyrgi frá stríðsárunum eru í Garðaholti sem og skotgrafir frá þeim tíma. Ein þeirra tekur í sundur Garðagötuna hina fornu efst á hæðinni. Að norðanverðu má sjá hana síðan liðast niður hlíðina, í átt að Álftanesvegi hinum nýja.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Utan í vesturhraunbrún Gálgahrauns, norðan við Krummakletta, er Garðastekkur, allstór hraunhlaðin fjögurra hólfa rétt, sem notuð var fram til 1930. Leifar af fimmta hólfinu sést enn. Þar hjá er gróin tóft er gæti hafa verið stekkurinn sjálfur. Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá síðustu öld, en um 200 m norðan við stekkinn er gömul hleðsla í hraunbrúninni, sem gæti verið leifar af eldri stekk. Á hraunbrúninni ofan við réttina er gömul fjárborg, sem enn sést móta vel fyrir.

Fógetagata

Fógetastígur.

Fógetastígurinn liggur þarna upp í Gálgahraunið skammt norðar. Hann var alfaraleiðin um hraunið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið; liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes.

Utar með Lambhúsatjörninni var Selskarð. Bæjarhóllinn í Selskarði er hár og greinilegur og fast upp við þjóðveginn að austan. Hann geymir leifar eftir a.m.k. 600 ára mannvist og eflaust talsvert eldri. Telja má þær til merkustu fornleifa á þessu svæði.

Gálgastígur

Sakamannagata.

Gálgahraunsstígurinn nyrðri (neðri) var einnig nefndur Gálgastígur eða Sakamannastígur. Þegar komið var yfir hraunhrygg á stígnum birtust Gálgaklettanir framundan, seiðmagnaðir, svartir upp úr annars hvítum freranum í einum mestu vetrahörkum nóvembermánaðar síðan 1985. Gálgaklettarnir eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi. Í raun er um háan hraungúlp, glóandi kvikuhólf, að ræða er lokast hefur af í storknandi hrauni og flætt hefur frá allt um kring. Við það myndaðist margklofinn hraunhóll sem svo algengt er í hraunum Reykjanesskagans. Ef skoðað er umhverfi Gálgakletta má sjá jarðfræðilega skál vestan þeirra.

Líklega hefur hún verið betrumbætt að hluta, en hún er a.m.k. vel gróin með mynduðum veggjum.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Þarna gætu hafa farið fram einhvers konar atfhafnir fyrrum. Stígurinn upp í klettana að vestanverðu liggja upp með garðinum. Skammt er þaðan upp að klofinu, þar sem þvertré á að hafa verið yfir og reipi niður úr. Ef vel er að gáð má sjá grópir efst í klettunum beggja vegna. Vel má gera sér í hugarlund hvernig aftakan hefur gengið fyrir sig því aðstæður tala sínu máli – þó ekki væri annað en að horfa frá klofanum uppi í klettunum heim að Bessastöðum, þar sem yfirvaldið hefur setið, sæmilega öruggt, og séð þegar “réttlætinu” var fullnægt. Sagnir eru bæði um að farið hafi verið með sakamennina gangandi að Gálgaklettum frá dómsuppkvaðningu í Kópavogsþingi (stað erfðahyllingarinnar) eða á bát frá Bessastöðum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Úr því fæst ekki skorið nema beint “samband” náist við einhvern, sem þekkti til. Annars eru Gálgaklettar ágætt dæmi um andspænistákn samfélagsins; sjálfstöku samtvinnaðs embættisvalds og dómsvalds annars vegar og vonlitla baráttu alþýðufólksins gagnvart hvorutveggja hins vegar ef þannig skipaðist veður í lofti. Oft mátti lítið út af tilviljunum bera hjá hinum síðarnefndu til að “friðþæg” yfirstéttinn gripi til geðþóttaákvarðana. Í rauninni hefur lítil breyting orðið þar á, þótt “myndbreytingin” sé nú önnur en var. Staðreyndin er sú að margur “baráttumaðurinn” var því miður dæmdur saklaus eða fyrir litlar sakir og varð gert að taka afleiðingum, ekki endilega af sínum gerðum, heldur af hugdettum og ákvörðunum annarra að tilteknum ákveðnum hagsmunum – líkt og enn tíðkast. Dæmi þar um er dómurinn yfir Hólmfasti forðum. Þjóðfélagið hefur í rauninni lítið breyst þrátt fyrir aukna reynslu og aukna menntun – því miður.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Gálgaklettarnir í Gálgahrauni eru ágæt áminning þar um.
Lengi voru munnmælasögur um bein í skútum í hrauninu við Gálgakletta, en Gísli Sigurðsson telur líklegt að sakamenn hafi að henginu lokinni verið dysjaðir í Gálgaflötinni skammt norðan við Gálgakletta.

Gengið var um Gálgahraun yfir að Fógetastíg, hina fornu leið um Gálgahraun frá Reykjavík og Bessastaða, og hann rakin til vesturs og síðan gengið um Hafnarfjarðarhraun, stystu leið að upphafsstað.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifakönnun – FL FS087-99081 – 1999 – OV
-www.nat.is
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/steinsmidur.html
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001
-Saga Hafnarfjarðar – 1983.

Garðahverfi

Garðahverfi – Örnefnakort – ÓSÁ.

Sundhnúkur

Gengið var frá Sýlingsfelli að Selshálsi ofan Grindavíkur með viðkomu í Hópsseli. Þá voru skoðaðar tóttir í brekkukvos norðan selsins, sem gætu verið hluti selsins.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Haldið var upp, til suðurs og austurs að Gálgaklettum. Um er að ræða hrikalega kletta undir háum sléttum klettavegg norðan Hagafells. Segir þjóðsagan að þar hafi yfirvaldið hengt nokkra ræningja skýrslulaust eftir að þeir náðust við heitar laugar undir Þorbjarnafelli, en þeir höfðu haldið til í Þjófagjá í fellinu og herjað þaðan á íbúa þorpsins. Óþarfi er að birta mynd af klettunum. Bæði eru þeir auðfundnir og auk þess er mikilvægt að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín á stað sem þessum. Þarna er fallegt um að litast – útsýni yfir á Vatnaheiði og að Fagradalsfjalli.

Stapinn

Hlaðið byrgi á Stapanum.

Þá var haldið að hlöðnu byrgi á Stapanum ofan og austan við Brekku. Stapagatan var gengin spölkorn, en síðan vikið af henni og gengið ofan Stapabrúnar. Ætlunin var að leita að Kolbeinsvörðu og hugað að letursteini (1774), sem í henni á að vera. Gengið var að Kolbeinsskor og síðan frá henni áleiðis að Stapakoti. Allar vörður voru skoðaðar á leiðinni, bæði neðst á brúninni sem og aðrar ofar. Nokkrar vörður eða vörðubrot eru við Stapagötuna, sem einnig voru skoðaðar – en allt kom fyrir ekki. Letursteinninn er enn ófundinn. Austan við Stapakot eru
miklar hleðslur, garðar og hús, auk tótta gamla bæjarins sunnan þeirra. Þá má enn greina fallega heimreið bæjarins með hleðslum beggja vegna.
Í leiðinni var litið á hringlóttan hlaðinn fót vörðu á heiðinni, sem gæti vel verið landamerkjavarða. Uplýsingar höfðu borist um að hún væri svonefnd Kolbeinsvarða, en þar fannst enginn letursteinn heldur. Mjög er gróið umhverfis fótinn.
Frábært veður.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gálgaklettar

Gálgaklettar eru á yfir 100 stöðum á landinu. Flest örnefnin tengjast aftökum eða aftökustöðum, hvort sem slíkar hafi farið þar fram eða ekki. Ofan við Stafnes er einn slíkur; Gálgar; tvær klettaborgir með u.þ.b. 6 metra bili á millum þeirra. Á skilti við klettaborgirnar má lesa eftirfarandi: “Við erum stödd við Gálgakletta (sem einnig [eru] nefndir Gálgar í landi Stafness, en örnefnið og munnmæli í sveitinni benda til að hér hafi menn verið hengdir til forna. Hér upp af heitir Gálgahraun.
SkiltiÁ Stafnesi er þekkt örnefnið Lögrétta, þar er hugsanlegt að sakamenn hafi verið dæmdir. En sögnin hermir að tré hafi verið lagt á milli klettanna og þeir hengdir þar á, sem Básendamenn greindi á við, en Básendar eru rösklega stundarfjórðungs gang héðan í austur [á að vera vestur]. Líkum hinna hengdu á að hafa verið kastað í gjótu undir öðrum klettinum og grjót borið að. [Ekki er líklegt að gjóta hafi verið þar á sandvindsorfnum hraunmelnum, en holu hefði auðvellega mátt grafa við klettinn].
Hvorki eru þekktar skjalfestar heimildir um að menn hafi verið réttaðir á þessum stað né mannabein eða annað sem styður sögnina, en bilið milli klettanna sýnist og breitt til þess að unnt sé að leggja gálgatré á milli þeirra. Einhver hinna þröngu sprungna getur þó komið til álita í þessu sambandi. [Hér gleymist að gálgar hafi ekki endilega þurft að vera úr þvertrjám milli kletta.

Gálgaklettar

Gálgaklettar ofan Stafness.

Líkams- og dauðarefsingar voru í lög leiddar á Íslandi á 13. öld. Líflátsaðferðirnar voru henging, hálshögg, drekking og brenna. Líkamlegar hegningar aðrar voru umfram allt hýðingar, en einnig brennimerking, og stundum voru menn handhöggnir, klipnir með glóandi töngum eða útlimir þeirra marðir áður en þeir voru teknir af lífi.
Dauðarefsing var afnumin úr lögum árið 1928 og heimild til hýðingar 1940 – en þá hafði þessum viðurlögum ekki verið beitt lengi. Síðasta aftakan fór fram 1830.
Stjórnarskrá Íslands bannar að dauðarefsing verði aftur tekin upp.”
Á vestari klettinum er grasi gróinn hóll. Ætla mætti að þarna hafi annað hvort verið dys, sem gróið hefur yfir, eða stór varða; kennileiti af sjó. Ekki er vitað til þess að rannsókn hafi farið fram á “mannvirkinu”.
Gálgar

Gálgaklettar

Listasafn Reykjavíkur efndi til gönguferðar um Gálgahraun og Klettahraun að kvöldi 14. júní 2012 í tengslum við sýninguna “Gálgaklettur og órar hugans” sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum um þessar mundir.
Kjarval-221Þar eru m.a. sýnd um 30 
málverk sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði í Klettahrauni, sem er hluti Garðahrauns, en hann nefndi myndirnar ýmist úr Bessastaðahrauni, úr Gálgahrauni eða jafnvel Gálgaklettur þó svo að hann hafi ekki málað Gálgakletta enda komst hann aldrei nálægt þeim stað þar sem þeir klettar standa.
Ólafur Gíslason listheimspekingur og sýningarstjóri hefur lagt út af málverkum Kjarvals og hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið á afskaplega fjölbreyttan hátt í fyrirlestrum sínum í Listaháskólanum og víðar. Á sýningunni eru verk eftir fjölda annarra listamanna og talaði einn þeirra Halldór Ásgeirsson um nálgun sína við viðfangsefnið þegar komið var að Kjarvalsflöt og Kjarvalsklettum eins og farið er að nefna klettana sem Kjarval heillaðist svo mjög af og málaði aftur og aftur.
Kjarval-222Jónatan Garðarsson fór fyrir göngu um svæðið og byrjaði á að ganga um Vatnagarða í áttina að Gálgaklettum. Þar var staldrað við í bíðskaparveðri á meðan rætt var um staðinn og þá atburði sem talið er að þar hafi átt sér stað á meðan fógetavaldið var á Bessastöðum. Síðan var förinni heitið að Kjarvalsklettum og gengið frá Gálgahrauni, um Flatahraun milli Stóra-Skyggnis og Garðastekks í áttina að Klettum. Staldrað var við á nokkrum stöðum á leiðinni og rætt um það sem fyrir augu bar.
Göngufólk var ánægt með framtakið og ekki spillti veðrið fyrir en það var um 16 stiga hiti og sannkölluð rjómablíða. Hér eru tvær myndir af svæðinu, bæði nú og fyrrum af þeim mótífum sem Kjarval málaði á þeim aldarfjórðungi sem hann sótti sér efnivið á þessar slóðir.
Svo er hægt að skoða nokkur málverka Kjarvals og ljósmyndir sem teknar eru á sömu stöðum og hann málaði á 25 ára tímabili undir lok starfsferilsins.

Kjarvalsklettur

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Bergþórsvarða

Þegar FERLIR barst eftirfarandi ábending var talin ástæða til að skoða hana nánar, þ.e. örnefnin Gálgaklettar. Við þá leit álpaðist hlutaðeigandi leitandi inn á Flekkuvígurstíginn svonefnda, öðru nafni Refshalastíg skv. örnefnaskrám, stíg sem ekki átti að vera lengur til skv. nýjustu heimildum.
Gálgaklettur nyrðriÁbendingin var svona: “Reynir heiti ég og er mikill aðdáandi Reykjanessins. Les ég síðuna nokkrum sinnum í viku og hef reglulega gaman að. Ég sá að það var færsla um Stóru-Vatnsleysu og nágrenni um örnefni og ýmsu því tengdu. Þess vegna ákvað ég nú í gamni mínu að senda þér lítið örnefnakort sem ég vann í skólanum og fékk hjálp hjá bóndanum á Stóru-Vatnsleysu. Er þetta unnið eftir örnefnalýsingum en ekki skal ég ábyrgjast hvort þetta er hárrétt unnið. Mig langaði bara til að sýna þér þetta ef þú hefðir áhuga á þessu.” Meðfylgjandi var loftmynd með örnefnum fyrir Minni-Vatnsleysu (og reyndar líka Stóru-Vatnsleysu). Á því voru örnefnin Gálgaklettur-syðri og Gálgaklettur nyrðri staðsett. Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir um þetta: “Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra.”
Gálgaklettur-syðriNyrðri kletturinn er svo til beint niður af suðurtúngarði Minni-Vatnsleysu og sá syðri skammt sunnar. Þegar staðurinn var skoðaður kom í ljós að vik er neðan Gálgakletts-nyrði, en engu slíku er fyrir að fara við þann syðri. Hins vegar eru aðstæður á báðum stöðunum mjög svipaðar; sléttir klapparstandar, svipaðir að stærð, alveg niður við strandbrúnina, nú grónir. Hafa ber í huga að gjarnan er tekið miða af klofnum háum klettum þegar getið er um Gálga eða Gálgakletta, en slík örnefni eru fleiri en 100 talsins hér á landi. Ekki eru heimildir um að aftökur hafi farið fram á þeim öllum, en ef taka ætti þau öll alvarlega mætti ætla að fleir hafi verið hengdir hér á landi en skráðar heimildir eru til um. Einhverjir hafa þá verið hengdir án dóms og laga. Hafa ber og í huga að henging var einungis ein tegund aftöku og nutu aðallega þjófar þeirrar náðar. Og þeir voru ekki svo margir er örnefnastaðirnir gefa tilefni til. Og til eru jafnvel nokkrir slíkir í hverri sveit. Öðrum sakamönnum voru ýmist drekkt, þeir brenndir eða hálshöggnir. Sýslumenn framfylgdu dauðarefsingum í fyrstu (og þá um skamman tíma), en síðar fóru þær flestar fram á Alþingi (alls 15 manns).

Flekkuvíkurstígur

Þessi örnefni gefa þó tilefni til svolítillar íhugunar – og jafnvel endurskoðunar á tilefni örnefnisins. Gjarnan fylgir eftirfarandi skýring á örnefninu: “Sú saga er um Gálgakletta, að þar hafi fyrr á öldum verið hengdir sakamenn“. Eflaust hefur yfirvaldið sumstaðar nýtt sér náttúrulegar aðstæður til framkvæmdarinnar, s.s. í Gálgaklettum í Gálgahrauni gegnt Bessastöðum. Þar eru til heimildir um að menn hafi verið hengdir. En hvers vegna ætti að hengja fólk í klettaskoru neðan við Vatnsleysu. Þótt fólk hafi verið lágvaxnara fyrrum má samt ætla að viðkomandi hafi getað tyllt niður tá eftir fallið og staðið af sér henginguna. Til langs tíma gæti viðkomandi þó hafa kafnað til ólífis líkt og þeir sem brenndir voru á báli. Nýtínt prekið, allt að 25 hestburðir sem þurfti í einn bálkost, brann ekki svo augljóslega og má því ætla að sakamaðurinn hafi látist úr reykeitrun löngu áður en eldurinn náði skrokknum.
FlekkuvígurstígurinnAftur að Gálgaklettum. Sléttir klapparstandarnir gefa tilefni til að ætla, ef einhverjir hafa verið hengdir þar, að þar hafi verið reistir gálgar og þá líklega úr rekaviði. Stallarnir eru kjörnir til slíks og ekki erfitt að gera sér í hugarlund þá mynd að áhorfendur hafi staðið ofar í brekkunni og þannig haft góða yfirsýn um svæðið neðanvert. Líkunum gæti síðan hafa verið kastað fyrir klettana og sjórinn séð um að skola þeim út í stað þess að dysja þá í einhverri klettaskorunni, sem engum er reyndar fyrir að fara á svæðinu. Ekki hefur þurft mikinn efnivið í sæmilegan gálga. Stallarnir hafa ekki verið skoðaðir m.t.t. þess hvort þar kunni að leynast göt fyrir kaga. Hafa ber þó fyrirvara á öllu þessu að ekki eru heimildir um sýslumannssetur á Vatnsleysu, einungis kirkjustað fram á 18. öld. Það eitt gæti þó gefið tilefni til að ætla a.m.k. einhver tengsl milli örnefnisins og staðarins.
Eftir að hafa skoðað strandsvæðið umhverfis Gálgakletta var ráfað til suðvesturs, áleiðis upp á Almenningsveg. Þá – og allt í einu, birtist áberandi gömul gata vestan túngarða Vatnsleysu. Götunni var fylgt til norðvesturs, áleiðis niður að Flekkuvík. Hún liðaðist um neðanverða Flekkuvíkurheiði áleiðis að bæjarstæðunum við ströndina. Í götuna virtist enginn hafa stigið fæti um langa tíð. Kastað hafði verið upp úr götunni á köflum, hún lagfærð og greinilega hafði verið borið í hana, en jarðvegurinn fokið burt. Þegar götunni var fylgt til baka lá ljóst fyrir að hún myndi annað hvort sameinast Almenninsveginum eða þvera hann ofan við Stóru-Vatnsleysu. Gatan lá áleiðis að vesturtúngarði Stóru-Vatnsleysu, en beygði síðan svo til austurs, beint að svonefndri Bergþórsvörðu í heiðinni. Skammt þar frá var gróin tóft á fallegum stað er lætur lítið yfir sér. Bergþórsvarðan er skammt ofan við túnblett suðvestan bæjarins. Hún er að nokkru leyti hrunin. Varðan hefur einnig verið nefnd Svartavarða. Sumir hafa talið að varðan hefi verið innsiglingarvarða fremur en mið. Líklegri skýring er þó sú skv. framangreindu að þarna hafi verið viðsnúningur því Almenningsvegurinn greinist þarna, annars vegar beygir hann í 90° hjá vörðunni með stefnu á steinbrú yfir Hrafnagjá, og hins vegar beygir hann til suðvesturs áleiðis að gatnamótum Vatnsleysu og Strandarvegar. Þar heldur fyrrnefndi vegurinn áfram uns hann beygir aftur um 90° við gatnamót Almenningsvegar og Flekkuvígurstígs (Refshalastígs). Við vörðuna er einnig Eiríksvegur. 

Tóft við Flekkuvíkurstíg

Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba.
Ef skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík segir m.a.: “Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir.  Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar.  Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Þá segir: Refshalastígur: “Frá býlinu [Refshala] lá í suður Refshalastígur á Flekkuvíkurstíg en hann lá suður í Heiðina og tengdist þar Almenningsgötum.” Hér er Almenningsvegurinn nefndur “Almenningsgötur”.
Í Fornleifaskrá fyrir Vatnsleysuströnd segir m.a.: “Flekkuvíkurselsstígur – heimild um leið 64°40.130-22°14.049: “Flekkuvíkurselsstígur lá úr Traðarhliði og upp Heiðarlandið, sem var óskipt milli Bæjanna.” segir í Eiríksvegurörnefnaskrá.
Ekki er til nánari lýsing á legu stígsins en vísast hefur hann legið um/við Flekkuvíkurheiði og svo áleiðis í átt að Flekkuvíkurseli. Líklegt er að stígurinn hafi þá legið við Reykjanesbraut í námunda við Stóra-Hrafnshól. Ekki sést neinn fornlegur slóði í námunda við Reykjanesbrautina á þessum stað
.” Hér er verið að rugla saman Flekkuvíkurselstígnum annars vegar og Flekkuvíkurstígnum hins vegar. Hinn fyrrnefndi er þarna skammt vestar og má vel sjá hann í lágheiðinni ef vel er að gáð. Eftir að hafa fylgt Almenningsveginum frá Kúagerði upp Flekkuvíkurheiði má segja að hver sá einn verði ekki ósnortinn.
Almenningsgöturnar tvær er greinast við Bergþórsvörðu eru annars vegar gata, sem löguð hefur verið sem hestvagnavegur (vestari leiðin) og hins vegar gata, sem liggur upp heiðina framhjá Arnarvörðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík og Vatnsleysu.

Hestar