Sundhnúkur

Gengið var til austurs yfir Arnarseturshraun, yfir í Skógfellshraun og upp á tindinn á austanverðu Stóra-Skógfelli. Frá því er stórbrotið útsýni yfir svo til alla gígaröð Sundhnúka.

Sundhnúkur

Hagafell, Þorbjarnarfell og Sundhnúkur.

Sjá mátti yfir í nyrstu gígana í röðinni í hrauninu milli fellsins og Fagradalsfjalls, og síðan hvern á fætur annan áleiðis til suðurs, uns komið var að sjálfum Sundhnúknum utan í austanverðu Hagafelli. Það fell er ekki síst þekkt af Gálgaklettunum, sem þar eru. Gígaröðin liggur áfram til suðvesturs norðan við Hagafellið og niður af því að vestanverðu. Um er að ræða sömu sprungureinina, en óvíst er hvort um sama gosið hafi verið að ræða og í sjálfri Sundhnúkaröðinni.

Sundhnúkar

Gjallgígur í Sundhnúkagígaröðinni.

Þoka grúfði yfir þegar komið var upp á Stóra-Skógfell (190 m.y.s). Eftir svolitla bið rann hún hjá og landið lá sem landakort fyrir neðan. Fallegur gígur er austan við fellið, en suðvestan hans er samfell gígaröð að Sundhnúknum.
Haldið var niður af Stóra-Skógfelli og gengið að nyrsta gígnum í hinni samfelldu gígaröð. Frá honum var gígaröðinni fylgt til suðurs, sum staðar eftir Skógfellastígnum, sem liggur þar austan við hana. Víða mátti sjá fallega og litskrúðuga klepra í gígbörmum með hinum ýmsustu myndunum.
Hver gígurinn tók við af öðrum – hver öðrum glæsilegri. Varla þarf að taka fram að þarna er um óraskaða gígaröð að ræða, enda nú komin á náttúruminjaskrá sem einstakt náttúruvætti.
SprungurDalahraun liggur austan Sundhnúkaraðarinnar og norðan Vatnsheiðar. Hraunið í því er allslétt og má því vel sjá hraunskilin í annars úfunu apalhrauninu.
Sprungureinakerfin á Reykjanesskaganum eru fjögur eða jafnvel fimm, eftir því hvernig þau eru metin. Óvéfengjanleg eru þó vestustu svæðin, þ.e. á sjálfu Reykjanesinu vestan Krýsuvíkur. Þar fyrir austan eru Brennisteins- og Hengilssæðin með tiheyrandi sprungureinakerfi.
Sprungureinakerfi Reykjanessins er dæmigert fyrir slík svæði. Gosið hefur á a.m.k. þremur sprungureinum með 2 til 3 km millibili. Á hverri rein hefur einnig gosið oftar en einu sinni, sbr. Stampana, en þar má sjá a.m.k. þrjár gígaraðir frá mismunandi tímum.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun – eldri gígur.

Sprunureinakerfin 3 eru Stampar vestast, þá Eldvörp og Sundhnúkarnir austast. Sandfellshæðin og Þráinsskjöldur eru dyngjur á þessum reinum. Jón Jónsson, jarðfræðingur (1978) telur að öll þessi kerfi hafi verið virk á sögulegum tíma. Samkvæmt upplýsingum ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) eru Stampa- og Eldvarpahraunin um 2000 ára gömul og svo mun einnig vera um Sundhnúkaröðina.
Gengið var eftir Reykjaveginum, sem kemur þarna yfir Dalahraunið frá Drykkjarsteinsdal, upp að hinum hrikalegu Gálgaklettum í Hagafelli. Spurst var fyrir um aftökustaðinn sjálfan. Freystandi var að kveða á um einn tiltekinn stað umfram annan, en raunin er hins vegar sú að staðurinn var aldrei notaður sem aftökustaður.

Sundhnúkar

Sundhnúkur.

Tilvísun til slíks er einungis til í einni þjóðsögu af þjófum er héldu til í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli. Í henni segir m.a. að sé sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.

Sundhnúkur

Í Sundhnúkagígaröðinni. Stóra-Skógfell fjær.

Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.

Hagafell

Hagafell.

Klettarnir eru bæði tilkomumikill og áhrifaríkur staður, svo áhrifaríkur að sagan gæti alveg eins átt við rök að styðjast. Í klettunum sjálfum má sjá einstakar bólstrabergsmyndanir.

Gígaröðinni var fylgt áfram til suðvesturs. “Yfirvaldið” frá fyrrum má enn sjá greypt í stein vestan Gálgakletta. Myndarlegur gígur er sunnan í Hagafellinu og fleiri á hraunsléttunni suðvestar, skammt fyrir ofan Grindavík. Úr gígnum hefur runnið hraun um fagurformaða hrauntröð, sem nýtur sín vel þegar staðið er upp á brúninni.
Haldið var niður hraunið og áleiðis niður í Grindavík.
Um er að ræða tilvalda gönguleið fyrir áhugafólk um umhverfislega fegurð og mikilfengleik jarðfræðinnar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.