Lífið í Grindavík haustið 1944 virðist hafa verið bæði sælt og friðsamt. Í bók Agnars Þórðarsonar, Í leiftri daganna, sem kom út hjá Máli og Menningu árið 2000 segir frá bréfi sem Gunnlaugur Scheving, listmálari, skrifaði Agnari frá Grindavík haustið 1944, þegar Agnar lá á Vífilsstaðahæli. Í bréfinu, sem er bráðskemmtilegt, segir m.a. eftirfarandi frá menningarlífinu í Grindavík:
“Ég hef verið hér lengst af hjá Sigvalda Kaldalóns og loks nokkra daga á Hrauni hjá Gísla. Fyrir nokkru síðan komu hér stórkarlar úr Reykjavík, biskupinn (ég sá hann ekki), Páll Ísólfsson og Eggert Stefánsson. Þeir komu að Hrauni, ég var þá þar. Stemningin var stórkostleg. Jetnir voru þorskhausar með smjeri. Eggert varð snortinn af hápatríótískri harðfiskrómantík. -Þetta er Íssland-. Á fínasta hóteli í París er ekki hægt að fá þorskhaus -ekki heldur í Búdapest eða London. Aðeins Íssland á þorskhaus -aðeins Íssland á þessa Aaa-rómu (hakan út í loftið). Þessa dásamlegu þjóðlegu stemningu, þennan yndislega há-ísslenska þorskhausaintelligens og harðfiskvísindi Guðmundar Finnbogasonar -þar var tekið í nefið. Sveitasæla, smjerskaka. -Yndislegt.
Svo komu sögur af þorskhausalestarferðum í gamla daga. -(Dásamlegt-dásamlegt). Ekkert gat stöðvað svona lest nema þegar einhver hryssan eignast folald- (Nú hver andskotinn) -Þá var skal ég segja ykkur stansað í einn dag -svo var folaldið bundið inn á milli, og síðan haldið á stað. (Dááásamlegt) Hugsið ykkur -þorskhausar á ferð gegnum hraun, gegnum endalausan brunasand -og svo glænýtt folald inn á milli. Þetta er Ísland -framtíð þjóðarinnar og listarinnar er að fólkið skilji þetta, gútjeri þessa stemningu.
Blessaðir jetið þið meira smjer, meiri þorskhaus. -Yndislegt.
Á eftir þorskhausunum kom kaffi með nýbakaðri köku -nýtt smjer -allskonar bakkelsi. -Ný stemning. Þessi ísslenska flatbrauðsstemning -með endurminningar um gamlar hlóðir í sveitinni -þegar maður var smali. -Ha -ekkert land í veröldinni á slíkan flatbrauðskúltúr og Ísland. Það er eins og að svífa til himins á vængjum morgunroðans. -Yndislegt.
Að síðustu var veislunni slitið. Innileg handabönd með hristingi. Stundin var búin og horfin út í eilífðina. Bíllinn hikstaði á hlaðinu og svo var haldið af stað.
Ég hef sem sagt haft það gott og skemmtilegt. Engin dagblöð -ekkert útvarp -það er jarðnesk sæla nú á dögum. Fréttir hef ég engar að segja þér. Ég bið þig að heilsa öllum heima og svo Gunnlaugi -ég kveð þig svo með ósk um góðan bata.
Þinn einl. – Gunnlaugur”
Hvort fæði það, sem boðið var upp á í Grindavík á þessum tíma, var eitthvað annað og meira en þorskhausar skal ósagt látið – en ljóst er að jafnan var listafólki og öðru aðkomufólki vel boðið þar á bæjum á þeim tímum – sem endranær.
Heimild:
-Agnar Þórðarson – Í leiftri daganna – Mál og menning 2000, bls. 79-80.
(Haukur Ólafsson – FERLIRsfélagi – framsendi frá London).