Stofn lýsingar um “Örnefni í Staðarlandi” í Grindavík, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Einnig eru fleiri upplýsingar fengnar úr þeirri bók.
Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.
Báðar framangreindar lýsingar voru bornar undir þá Sigurð V. Guðmundsson (S. V. G. ) og Árna Vilmundsson (Á. V. ) á Örnefnastofnun 15. janúar 1977. Þeir gerðu miklar athugasemdir við lýsingarnar og juku við upplýsingum, þótt ekki fjölguðu þeir nöfnum verulega. – Sigurður Víglundur
Guðmundsson er fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð 22. júní 1910. Hann kom að Stað sumarið 1914 og ólst þar upp til nítján ára aldurs. Sigurður býr nú í Efstasundi 27, Rvík.
Árni Vilmundsson er fæddur 22. janúar 1914 á Löndum í Staðarhverfi og er þar til tuttugu og fimm ára aldurs. Hann býr nú í Smáratúni 11, Keflavík.
Hér er stuðst við lýsingu Gísla, en aukið inn í hana og leiðrétt samkvæmt frásögn heimildarmanna minna, án þess að þess sé getið sérstaklega. Sums staðar hefur og verið fellt úr frásögn, þar sem vafi þótti leika á sannleiksgildi og nákvæmni.
Þá ber að geta þess, að stuðzt hefur verið við Jarðabók Árna Magnússonar og Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir síra Geir Bachmann, en hún er prentuð í Landnámi Ingólfs III. Fyrir framan sjálfa lýsinguna er orðrétt afrit af landamerkjabréfi Staðar frá 1890.
Kristján Eiríksson skráði lýsingu þessa á Örnefnastofnun í janúar 1977.
Athugasemd: Rétt er að geta þess að lokum, að í bókinni “Frá Suðurnesjum” er grein eftir Guðstein Einarsson, sem heitir “Frá Valahnúk til Seljabótar.” Ekki hefur verið stuðst við þá grein hér að framan, en í henni er getið um einstaka örnefni, sem ekki kemur fram í þessari lýsingu…