Tag Archive for: Staður

Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi í fylgd Helga Gamalíassonar. Byrjað var við Húsatóftir og gengið með ströndinni um Kóngshelluna, Hvirfla, Stóra-Gerði, Litla-Gerði – Kvíadal og Stað. Að því loknu var haldið út í Bása ofan við Staðarberg og skoðuð hlaðinn refagildra.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Helgi byrjaði á því að staldra við Pústhól á golfvellinum að Húsatóttum eftir stutta göngu. Sagði hann þann sið viðhafðan að þar hafi menn tekið byrðar af baki sér, sest niður og hvílst um stund áður en lengra var haldið. Rústir Kóngsverslunarinnar eru á sjávarbakkanum vestan við golfvöllinn. Kóngshellan sjálf er að mestu horfin sem og lendingin, enda hafa aðstæður þarna breyst mjög síðari áratugina (og jafnvel til enn lengri tíma litið). Sandfjara, sem verið hafði við skerin, væri nú horfin. Sjórinn hefur verið að brjóta af ströndinni smátt og smátt. Sést það m.a. vel á tóftunum, sem nú eru að hverfa til sjávarins.
Golfsvæðið, sem byggt var eftir stofnun Golfklúbbs Grindavíkur árið 1981, hefur verið varið með brimgarði, en hann nær ekki út fyrir það. Skv. upplýsingum fróðustu manna höfðu fengist fjármunir til að verja landið þarna og aðilum falið að sjá um það, en þeir hafi því miður einungis takmarkað sig við vallarsvæðið. Undir sjávarbakkanum má sjá hluti frá kóngsversluninni, s.s. krítarpíur o.fl. vera koma smám saman í ljós.

Staðarhverfi

Bryggjan á mörkum Staðahverfis og Húsatófta.

Skoðuð var bryggjan á Hvirflum, en hún á sér áhugaverða upprunasögu líkt og svo mörg mannanna verk, þar sem deilt var um gildi og staðsetningu, skatta og skil. Staðarvörin er fallega flóruð.

Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring. Hins vegar er sjóinn að taka Litla-Gerði, sem er þar skammt vestar, til sín. Kvíadalur er heillegar tættur. Við hann eru síðustu leifar af görðum Staðahverfis, en þeir voru áður þarna svo til út um allt. Þegar bryggjan var byggð sem og bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var komið á vörubílum og grjótið úr þeim hirt í hana. Eftir stendur heillegur stubbur til minningar um bræður hans. Vel sést hvernig sandurinn hefur safnast vestan við garðinn og hlaðist upp.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Helgi lýsti Stað og staðháttum þar. Hann vísaði m.a. á Staðarbrunninn, sem byggður var 1914, fallega hlaðinn og nær óskemmdur. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestan við Staðarhverfið er hóll við þjóðveginn. Á honum er varða, svonefnd Tyrkjavarða eða Gíslavarða. Sagan segir að hún hafi verið hlaðin eftir Tyrkjaránið með þeim áhrínisorðum að á meðan hún stæði myndi Grindavík og Grindvíkingum óhætt.
Austan við Staðarbergið þaðan í sjávarhendingu (við austurenda bjargsins) er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðuna til minja um þennan atburð.
Loks vísaði Helgi þátttakendum á hlaðna refagildur á Básum ofan við Staðarbergið. Hún hefur verið staðsett utan í hraunbakka, á leið rebba með berginu.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbjargs (-bergs) heita „Bergsendi“ eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd „Krýsuvíkurberg“. „Ytri“ og „Innri“ voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innra syðra.

Bergsendi

Bergsendi innri (eystri)- útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
„Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, vestan Bergsenda eystri, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur (nú horfinn).

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi vestari. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.“ Þorsteinn nefnir bergið allt „Krýsivíkurberg“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg (Heinaberg).

„Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
„Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg) – kort.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari (ytri).

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um „Ræningjasker“ og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
„Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: „Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg fjær) – nafnlausi fossinn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um „Þróun byggðar í Grindavík“ í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

„Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Staðhverfingabók

Í bókinni „Mannlífi mikilla sæva – Staðhverfingabók„,  er m.a. lýst hungurástandi því sem ríkti í Grindavík og á Suðurnesjum um miðja 18. öld – á tímum einokunarverslunar Dana.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna.

Ekki verður, í ljósi þess, hjá því komist að skoða tilvist „Tyrkjabyrgjanna“ svonefndu í Sundvörðuhrauni neðan Eldvarpa, en þau virðast fyrst og fremst hafa verið byggð sem fiskbyrgi – og þá mögulegar vistgeymslur til að bregðast við ríkjandi tímabundnu ástandi. Ekki er vitað um aldur þeirra, en hafa ber í huga að fyrr á öldum voru allflestir Grindvíkingar leiguliðar og þurftu því á stundum nauðráð til bjargar. Byrgin gleymdust, en voru uppgötvuð sem minjar í lok 19. aldar. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindvíkingar á árabátum Skálholtsstóls hafi stungið undan einum og einum fiski, borið hann upp í hraunið og hlaðið þar byrgi sem geymslur með það fyrir augum að geta sótt hann þangað síðar þegar hungur svarf að fjölskyldunni. Síðar, með breyttum breytanda, urðu byrgin óþörf og gleymdust, enda úr alfaraleið. Byrgin bera öll einkenni fiskibyrgjanna í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni vestan Hrauns, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum.

Einokunin
„Með tilskipun 20. apríl 1602 gaf konungur þegnum sínum einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Með því hófst Einokunarverslun Dana hér á landi, sem stóð í 185 ár. Versluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingaeyrar. Kom Grindavík, ásamt Keflavík og fjórum öðrum höfnum, í hlut höfuðstaðarins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Þótt Danir ættu að taka við versluninni að fullu árið 1602 var svo ekki í raun. Til þess skorti bæði kapítal, skipakost og mannafla. Hlutu þeir því að semja um það við Þjóðverja að annast verslunina að svo miklu leyti, sem þeir ekki komust yfir hana sjálfir. Stóð svo a.m.k. 2 fyrstu áratugi einokunar. Á þessum tíma átti Skálholtsstóll nánast allar jarðir í Grindavík og nágrenni.

Aðeins tvær ýsur

Húsatóptir

Minjar konungsverslunarinnar við Húsatóptir.

Hér skal brugðið upp einni mynda, sem lýsir nokkuð vel ástandinu og afkomunni í Grindavík þegar harðindin, aflaleysið og verslunaráþjánin fylktu liði gegn þessari örbjarga þjóð með þeim afleiðingum, að á árunum 1756 og ’57 dóu 2500 manns í Skálholtumdæmi.
Árið 1756 voru búsettir í Grindavík 28 fjölskyldur eða 196 manns, segir í umfjöllun Guðmundar sýslumanns Brynjólfssonar þann 12. febrúar, um ástandið á Suðurnesjum; „sem ei hafa annað af að lifa en litla mjólk vel flestir en sumir aldeilis ekkert nema það hjá öðrum skrármegandi betla. Hér fyrir utan er heill hóp margt sjófólk í þessa sveit komið matarlítið, sem ei verður matur lánaður, svo fyrir því bíður ei annað en vísast aftur til baka heim í sveitir, hvað þessa hreppa innbyggjurum, sem sjálfu því, er hin mesta skaða von. Og orsakast þessi bágindi mest af fiskleysi og stórri óveðurháttu, sem lengi hefur viðhaldist og enn nú yfir dynur.

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

Því er vor þénustusamleg begjæring til hr. sýslumannsins, að hann láti þess hrepps innbyggjara fá hjálp og styrk til lífs uppihalds í soddan nauðsynjum frá Básendabúðum ei síður en aðra utan districtsmenn þar eð vér byggjum Grindarvíkurhafna matvöru fyrirliggjandi í nefndum búðum og þykjumst því eiga þar frekara tilkall en þeir, hvað ef ekki nægir, óskum vér í undirgefni að hann komi hingað hið snarasta og opni hér kaupmannshúsin til frekari hjálpar þeim nauðlítandi, sem ómögulega geta sótt mjöl eður brauð til Bátsenda, því vér meinum hér fyrirliggja um eða yfir 10 tunnur matar.“
Átta dögum síðar – þ. 19. febrúar er sýslumaður kominn til Járngerðarstaða; „Kemur þar allt hið sama fram og hér að framan er lýst. Í sveitina hafa aðeins fengist 14 tunnur matar frá Bátsendum. Hins vegar telja þeir sig vita „nokkurn mat fyrirliggja í Companiniens handelshúsum hér í Grindavík“. Það sé því lífsnauðsyn, að þau sömu séu af sýslumanninum, sem næsta yfirvaldi með fyrstu hentugleikum, opnuð nauðlíðandi fólki í sveit þessari til lífsbjargar svo ei af hungri út af deyi eða ófært verði sér næringar leita á sjónum, hvar af sjófólksins heimavísan hangir, oss og því til óbætanlegs skaða“.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Aðspurði sýslumaðurinn samankomna þingmenn hvort þeir vissu engin önnur ráð, meðöl eður útvegi þessu nauðlíðandi fólki til lífsbjargar en Companiens handels húsa opnan í Grindavík, hvar til einlæglega og sameiginlega svaraða var: NEI“.
„Svo og undirréttast sannferðulega, að næstliðinn dag hafi nær alskipa róið í sveit þessari, og allan dag í temmilegum makindum úti verið, djúpt og grunnt að leita. Hafi þó einasta tvær ýsur á land komið en varla orðið vart við aðra drætti. Sanni þessa best, hve algjört fiskleysið sé.“

Ein tunna bygg, en brennivín nóg

Húsatóftir

Húsatóftir – leifar konungsverslunarinnar.

En hvort sem Grindavíkurverslunin hefur verið opnuð á þessari vertíð og eitthvað hefur verið gert til að seðja sárasta hungur útróðrarmanna eða ekki, þá er svo mikið víst, að vorið fyrir var þar ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvöruna snerti, aðeins tvær tunnur af skonroki og ein af af bygggrjónum. Hins vegar voru vínbirgðirnar 878 pottar af kornbrennivíni, 92 pottar af öðru víni, 4 tunnur af öli og 68 pottar af mjöð.“

Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR og HÉR.

Heimild:
-Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók, séra Gísli Brynjólfsson, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1975-, bls. 107-113.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Húsatóftir

Skúli Magnússon, sagnfræðingur, skrifaði í Morgunblaðið 2016 um „Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík„:

Skúli Magnússon„Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur.
Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund.

Húsatóftir

Húsatóftir – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana.

Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210.

Húsatóftir

Neðri-Sundvarða austan Húsatófta

Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Sundvarða

Sundvarða í Sundvörðuhrauni.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.“

Heimild:
-Morgunblaðið 27. feb. 2016, Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík eftir Skúla Magnússon, bls. 30.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Staður

FERLIR fer jafnan víðreist þegar lagt er af stað á annað borð. Að þessu sinni var ætlunin að skoða nánar meint bæjarstæði Kaldrana norðvestan Kleifarvatns, mögulegar leifar verslunarstaðar ofan Hvalvíkur austan Hrauns í Grindavík, fornan brunn á Brunnflötum ofan Þórkötlustaðarbótar, gamlar bæjarleifar hins þjóðsagnakennda Nýjabæjar ofan Staðar í Staðarhverfi sem og sagðar sjóbúðaleifar í Litlu-Sandvík.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík. Þar segir m.a.: „Inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól.“

Í fornleifaskráningu Agnesar Stefánsdóttur 2008 um Krýsuvík og Trölladyngju má lesa eftirfarandi: „Matthías Þórðarson Þjóðminjavörður friðlýsti túngarðsleifar býlisins Kaldrana árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar (Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“): Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleyfarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það hafa verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“

Í örnefnaskrám segir að bæjarins sé getið í þjóðsögum og segir sagan að fólkið á bænum hafi étið loðsilung úr Kleifarvatni sem var eitraður. Um það á þessi vísa að vera:

Liggur andvana
lýður í Kaldrana
Utan ein seta
er ei vildi eta

Kaldrani

Kaldrani – garður.

Suður af Kleifarvatni eru Hvammarnir, þar hafa skátar frá Hafnarfirði byggt skála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Samkvæmt heimasíðu gönguhópsins Ferlis eru minjar á þessum stað. Mögulegar tóftir fundust á tveimur stöðum í Hvamminum.

Í austur frá Krýsuvíkurvegi við suðurenda Kleifarvatns liggur vegslóði í átt að frístundabyggð sem þar er við endann á vatninu. 150 metrum NA við vegslóðann og 50 m neðan við Krýsuvíkurveg eru leifar túngarðs sem svarar nákvæmlega til lýsingar Brynjúlfs hér að ofan. Túngarðsbúturinn er tæplega 60 metra langur og liggur í sveig neðan við melhól. Friðlýsingarskilti er við norðurenda. Krýsuvíkurvegur fer yfir háhólinn vestan við garðinn.

Kaldrani

Kaldrani – hleðsla undir nýlega girðingu.

Vestan við veginn uppi í hlíðinni fundust leifar af öðrum garði, mun ógreinilegri. Sumsstaðar er einungis ein steinaröð eftir. Garður þessi liggur nærri þráðbeinn uþb. 80 metra langur í SA-NA meðfram veginum. Ef loftmyndin af svæðinu er skoðuð virðist garðurinn halda áfram í NA u.þ.b. 100 metra í viðbót og jafnvel sveigja í átt að veginum. Mögulega hafa þessir tveir garðar ofan og neðan vegar verið samtengdir í upphafi. [Þessi „garður“ eru reyndar leifar girðingar frá Krýsuvíkurbúinu frá því um miðja 20. öld öld; FERLIR].
Ef marka má sagnir um býlið um býlið Kaldrana og að túngarðurinn hafi legið umhverfis bæjarstæðið má telja líklegt að bæjarstæðið sjálft sé nú að mestu horfið undir veg. Upp við og neðan túngarðs er smávegis gróið svæði í dálítilli lægð, þar er nokkuð þýft og mögulega gætu leynst þar tóftir. Annars er svæðið milli garðanna mjög uppblásið.
Hvammarnir sem selið frá Kaldrana á að vera í er rúmlega 1 km. suðsuðaustur af túngarðinum. Það var ekki skoðað að þessu sinni og var ekki greinilegt á loftmynd.

Kaldrani

Kaldrani – minjaskrá.

Einu heimildirnar um bæ á þessum stað eru munnlegar þjóðsögur sem skráðar voru af Jóni Árnasyni (Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862). Þjóðsagan, útgefin af Jóni Árnasyni. Túngarðurinn bendir hins vegar til þess að einhver fótur sé fyrir sögum um bæ á þessum stað og túngarðsleifar í brekkunni ofan vegar renna frekari stoðum undir það. Hér væri því um að ræða jafnvel elsta bæjarstæði á svæðinu og sem slíkt hefur það mikið rannsóknargildi. Ekki er ólíkegt að finna megi fleiri minjar á þessum stað. Sögusagnir um að sel frá bænum sé í Hvömmunum suður af Kleifarvatni þyrfti líka að kanna nánar.“

Öfuguggi
Bær er nefndur Kaldrani er lá nærri fjöllum; annar bær var þaðan býsna langt burtu og er eigi getið hvað hann hét, en nær var hann byggðum. Báðir þessir bæir höfðu silungsveiði í vatni nokkru allstóru er var á milli bæjanna. Eitt sinn heyrðu menn á þeim bænum sem ekki er nafngreindur að komið var upp á baðstofuglugga um kvöld og þetta kveðið:

„Mál er að gana,
[geislar flana.
[Liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana,
[utan sú eina seta,
sem ekki vildi eta.“

Eða svo:

„Mál er að gala
hauknum hálfvana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Át af óvana,
át sér til bana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.

Hvalvík

Hvalvík.

Kviknaði þá umræða af þessum hendingum; þóttu öllum þær undarlegar og lögðu ýmist til. En bóndi sagði að menn skyldu fara að morgni að Kaldrana og vita hvað þar væri tíðinda. Leið svo af nóttin, en að morgni komandi var farið að Kaldrana og fundust þar allir bæjarmenn dauðir nema barn eitt sem þar var í niðursetu. Þeir sem að komu sáu að heimamenn höfðu allir verið að matast því sumir sátu enn þótt dauðir væru með silungsfötin í knjám sér, en aðrir höfðu rokið um koll með silungsstykkin í höndunum. Húsfreyju fundu þeir dauða á eldhúsgólfinu; hafði hún fallið fram yfir pottinn og réðu menn af því að hún mundi hafa farið að borða úr pottinum þegar hún var búin að færa upp og skammta hinu fólkinu. Þessi atburður þótti öllum kynlegur því engir sáust áverkar á hinum dauðu. Var þá niðursetningurinn spurður hvernig þetta hefði orðið og sagði hann að fólkið hefði dáið þegar það fór að borða, en hann sagðist ekkert hafa viljað og ekki heldur borðað neitt af silungnum. Var silungurinn því næst aðgættur sem af var neytt, og sáu menn að það var öfuguggi, en ekki silungur; en öfuguggi hefur jafnan þótt drepvænt óæti.
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði eftirfarandi: „Fyrir innan Miðdegishnúk er Kaldrani. Meðal manna lifir enn sú sögn, að heitið Kaldrani sé af býli, er þarna hafi verið. Nú sjást þess engin merki og hvergi finnst þess getið.“

Kapella

Kapellan ofan Hvalvíkur.

Um ofanverða Hvalsvík eða Efri-Hrólfsvík skráði Loftur Jónsson: „Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.“ Þarna er Loftur að vísa í uppgröft þann er dr. Kristján o.fl. stunduðu ofan við Hrólfsvíkina á síðari hluta 20. aldar. Aðstæður eru allnokkuð breyttar frá því sem þá var. Búið er að fara með jarðýtur yfir svæðið með fyrirhugaðar túnsléttur í huga. Garðahróf á svæðinu gefa það skýrt til kynna. Ef verslunarstaður hefur verið ofan Hvalvíkur hefur ummerkjum um hann verið eytt, annað hvort með stórvirkum vinnuvélum eða freklegum ágangi sjávar, sem mulið hefur af ströndinni svo tugum metra skiptir á undanförnum öldum.

Brunnflatir

Brunnurinn á Brunnflötum.

Um Brunnflatir á Þorkötlustöðum eru til eftirfarandi heimildir: „Í fyrsta lagi viðtal við Guðmund Benediktsson; í öðru lagi frá feðgunum á Hópi í Grindavík; í þriðja lagi það sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti hefur skráð. Ari Gíslason skráði („Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum“).

Loftur Jónsson skráði eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum.“

Rétt mun vera að nefndur brunnur hafi verið á Brunnflötum. Leifar hans, þ.e. hleðslum ofan hans, má sjá þar enn í dag.

Staður

Stekkur ofan Staðs.

Í „Örnefni í Staðarlandi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, má lesa um „Nýjabæ“. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað (þ.e. bænum). Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir. – Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“
Skv. framanskráðu var nefndur Nýibær í núverandi vegstæði Reykjanesvegar. Ofan vegarins má hins vegar sjá stekk, gerði, rétt, fiskibyrgi, fiskigarða og fleira er hafa verið hluti slíkrar búskaparheildar.

Staður

Staður – gerði ofan bæjar.

Um Litlu-Sandvík segir: „Vestan við Klettinn er Sandvík. Niður í báðar víkurnar, Mölvík og Sandvík, er hægt að aka á bíl.- Skálholtsstaður átti fyrrum allan reka í Sandvík.“
Gísli Brynjólfsson segir, að í Sandvík sé „talið, að hafi verið verbúð, jafnvel tvær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ (Staðhverfingabók, bls. 29). Hvorki S.V.G né Á.V. kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.

Þegar aðstæður í Litlu-Sandvík voru skoðaðar má ljóst vera að þar hafi fyrrum verið nauðhöfn. Að vísu hefur marinn barið ströndina óbirmilega í gegnum aldirnar svo í dag er þar fyrrum ólíku saman að jafna. Ef sjóbúðir hafa einhvern tíma verið ofan Litlu-Sandvíkur hefur Ægir annað hvort brotið þær undir sig fyrir löngu eða að minjar slíkra búða lumist undir ofanverðri sandorpinni ströndinni. Erfitt er um slíkt að spá…

Litla-Sandvík

Litla-Sandvík – mögulegar mannvistarleifar.

Staður

Stofn lýsingar um „Örnefni í Staðarlandi“ í Grindavík, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Einnig eru fleiri upplýsingar fengnar úr þeirri bók.

Staður

Staður árið 1925.

Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Báðar framangreindar lýsingar voru bornar undir þá Sigurð V. Guðmundsson (S. V. G. ) og Árna Vilmundsson (Á. V. ) á Örnefnastofnun 15. janúar 1977. Þeir gerðu miklar athugasemdir við lýsingarnar og juku við upplýsingum, þótt ekki fjölguðu þeir nöfnum verulega. – Sigurður Víglundur

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Guðmundsson er fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð 22. júní 1910. Hann kom að Stað sumarið 1914 og ólst þar upp til nítján ára aldurs. Sigurður býr nú í Efstasundi 27, Rvík.

Árni Vilmundsson er fæddur 22. janúar 1914 á Löndum í Staðarhverfi og er þar til tuttugu og fimm ára aldurs. Hann býr nú í Smáratúni 11, Keflavík.

Hér er stuðst við lýsingu Gísla, en aukið inn í hana og leiðrétt samkvæmt frásögn heimildarmanna minna, án þess að þess sé getið sérstaklega. Sums staðar hefur og verið fellt úr frásögn, þar sem vafi þótti leika á sannleiksgildi og nákvæmni.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Þá ber að geta þess, að stuðzt hefur verið við Jarðabók Árna Magnússonar og Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir síra Geir Bachmann, en hún er prentuð í Landnámi Ingólfs III. Fyrir framan sjálfa lýsinguna er orðrétt afrit af landamerkjabréfi Staðar frá 1890.

Kristján Eiríksson skráði lýsingu þessa á Örnefnastofnun í janúar 1977.

Athugasemd: Rétt er að geta þess að lokum, að í bókinni „Frá Suðurnesjum“ er grein eftir Guðstein Einarsson, sem heitir „Frá Valahnúk til Seljabótar.“ Ekki hefur verið stuðst við þá grein hér að framan, en í henni er getið um einstaka örnefni, sem ekki kemur fram í þessari lýsingu…

Staðarhverfi

Staðarhverfi – örnefni.

Staður

Þegar ekið var til Grindavíkur skein sólin skemmtilega á Þorbjarnarfell. Mátti þá vel sjá hvernig misgengið liggur þvert í gegnum fellið hvernig toppur þess hefur sigið með því niður á milli gjárbarmanna.

Staðarvör

Staðarvör.

Gengið var niður að Staðarvör við Staðarklöpp í Arfadalsvík. Innan hennar er flórað gólf í fjöruborðinu Utan við klöppina er festikengur á tanga (Vatnstanga). Ekki var nægilega lágsjávað að þessu sinni til að sjá hann. Haldið var framhjá Kasalóni, gengið með fjörunni og yfir á Gerðistanga. Ofar lágu kollur grafkyrrar á hreiðrum sínum. Ofar mátti slá leifar gamallar réttar á hól.
Á Gerðistanga voru skoðaðar heillegar tóftir Stóra-Gerðis, garðar heimtröðin og brunnurinn. Áður fyrr voru miklir hlaðnir garðar í Staðarhverfi, en þegar bryggjan var byggð í Hópinu var komíð á vörubílum og grjótið úr görðunum, réttinni og öðru, sem hlaðið var, sótt í höfnina. Nú má einungis sjá þarna búta úr görðunum.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Utar á kambinum eru tóftir Litla-Gerðis og síðan Kvíadalur enn utar. Neðan hans er Staðarbótin. Með henni vestanverðri eru Malarendar. Innan þeirra eru tjarnir. Þýski togarinn Schluttup kom upp á Malarenda í ársbyrjun 1924. Sagan segir að fólkið í Móakoti og fleira fólk hafi verið að spila um þokukennt kvöldið þegar einhver hafi haft á orði að gott væri nú að fá svo sem eitt strand þarna fyrir utan. Um morguninn stóð togari í heilu lagi uppi á Mölunum fyrir neðan bæinn. Hafði honum verið siglt upp í fjöruna um nóttina. Varð að reisa planka með síðu hans til að ná skipstjóranum frá borði því feitari gerðust þeir varla í þá daga.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Malarenda er gömul fjárhústóft. Í hana voru þeir, sem fórust í strandi Önnu frá Tofte, lagðir. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs, þann 4. apríl 1924. Fimmtán eða sextán fórust þá, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík. Tóftin sést enn niður við Endana.

Sléttlent og grösugt er ofan við Staðarmalir. Þar mátti sjá móta fyrir gömlum görðum á tveimur klapparhólum og svo virðist sem gerði hafi verið í lægðinni milli hólanna. Vestan þeirra er nokkuð stór aflöng tóft. Svo er á sjá sem hlaða hafi verið í vesturendanum á henni. Hluti skipsskrokks var upp á Staðarmölum sem og ýmislegt brotakyns. Ofan þeirra mátti t.d. sjá hvalbein og ýmislegt annað forvitnilegt.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Þegar komið var út á Bergsenda mátti sá Bergsendaskerið þar utan við. Ræningjasker er nokkru austar. Klappirnar á Berghrauni eru þarna vel sléttar og þarna er ákaflega fallegt í góðu veðri, eins og nú, en eflaust getur þarna verið skaðvænlegt líkt og verið hefur þegar kútterinn Anna rak þar upp í bergið. Gengið var eftir Staðarberginu. Það er nokkuð slétt að ofan og útsýni af því eftir berginu er fagurt. Litadýrðin er mikil og margt ber fyrir augu. Önd lá t.d. grafkyrr á hreiðri sínu uppi á svörtu bjarginu. Áð var á einni syllunni þar sem lítill gatklettur var undir, en víða eru básar og rásir inn í bergið þar sem hraunrásir hafa legið áður með mýkra bergi í.

Staðarberg

Staðarberg.

Ofan við bergið má sjá lagskiptingu nokkurra hrauna, en meginhraunin eru frá Sandfellshæðargígnum og Eldvörpum. Skammt vestar eru Víkur. Skammt ofan við þær má m.a. sjá litla gíga, sem virðast hvorki vera gervigígar né sprengigígar. Helst er að sjá að lítið gos hafi orðið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði eða í samhengi við annað fjær.Sumstaðar mótar fyrir hraunæðum og öðrum skemmtilegum jarðfræðilegum fyrirbærum.

Skoðuð var hlaðin refagildra í Básum ofan við Víkur, en hún er með þeim heillegri á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.

Gamli vegurinn úr á Reykjanes liggur þarna skammt ofar, svo til nakinn á sléttu helluhrauninu. Sennilega hefur þetta upphaflega verið vegurinn, sem lagður var út að vitanum árið 1918, en síðan hefur verið farið í far vegarins og hann endurbættur. Veginum var fylgt til baka yfir á nýja veginn. Komið var við á hól norðan vegarins, en á honum eru þrjár vörður. Virðast tvær þeirra nýlegri, en sú stærsta gæti hafa verið nota sem mið af annarri vörðu, eða vörðum, sunnar. Gengið var yfir Grænubergsgjá, en í botni hennar er tandurhreint ferskvatn. Austanhennar er hóll, sem Tyrkjavarðan stendur á. Af fæti vörðunnar að dæma hefur hún verið allmyndarleg á meðan var. Þau álög hvíla á vörðunni að Staðarhverfi sé óhætt á meðan hún stendur. Kríuhreiðrum var raðað í móann umhverfis vörðuna.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Loks var staldrað við Staðarbrunninn vestan við kirkjugarðinn. Brunnurinn var hlaðinn árið 1914 og nú, níutíu árum síðar, er hann að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga. Verið er að gera brunninn upp til ánægju, fróðleiks og yndisauka fyrir aðkomandi vegfarendur. Ekki væri úr vegi, einhvern tímann í framtíðinni, að kíkja inn í hólinn sunnan við brunninn. Í honum á að vera gamall bær, Krukka, sem sandfok lagði í eyði, sennilega á 16. eða 17. öld. Ekki er ósennilegt að minjar kunni að leynast í öðrum hólum við Hundadalinn (í túninu).
Líkt og staðendurnar er lágu á hreiðrum sínum ofan við Staðarvörina lágu frænkur þeirra, syrgjendurnar, á hreiðrum sínum í kirkjugarðinum á Stað. Friður og ró ríkti á svæðinu.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Staðarhverfi

Farið var með Helga Gamalíassyni frá Stað áleiðis út að Héleyjabungu, en þar undir bungunni á að vera gömul klukka. Á leiðinni lýsti Helgi Litluvör og Stóruvöllum, litlum grasbölum suðvestan við farskiptamöstrin ofan við byggðina í Grindavík. Þar eru hleðslur er gætu einhverjar hýst refagildrur og það gamlar.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum fornan brunn.

Vestan við kirkjugarðinn á Stað og sunnan við Staðarbrunninn er hóll í túninu. Í hólnum á að vera gamall bær er nefndist Krukka (Krubba). Hann var yfirgefinn í miklum sandstormi er gekk yfir fyrir einhverjum öldum síðan. Gamli Staðarbærinn var hins vegar vestan og fast við kirkjugarðinn. Honum var ýtt um koll þegar farið var að slétta túnin neðan við nýja húsið, sem stóð utan í hólnum norðvestan við garðinn. Helgi hafði gengið með þann draum í maganum að Staðarbrunnurinn, sem hlaðinn var 1914, yrði einhvern tímann hlaðinn upp og hafður áhugasömu fólki til sýnis, enda hið fallegasta mannvirki.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Í hól vestan Móakots, nálægt sjónum, voru flestir skipshafnarmeðlima færeyska kúttersins Anne fra Tofte (frá Austurey) lagðir til og síðan jarðaðir í kirkjugarðinum í Reykjavík (Hólavallakirkjugarði). Um tugur ungra manna fórst með bátnum þarna fyrir utan, austan Staðarbergs, flestir úr sömu fjölskyldunum. Atburðurinn var mikil harmsaga.

Í kirkjugarðinum á Stað er klukknaport. Í því er klukka úr Alnaby, sem strandaði austan við Stað, í Jónsbás, árið 1901. Mannskaði varð, en skipstjórinn, Nilson, kom við sögu í Dýrafjarðarmálinu svonefnda þegar Hannes Hafstein, sýslumaður, ætlaði ásamt heimamönnum að handsama þar landhelgisbrjóta í firðinum eins og frægt varð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Þegar komið var út í Háleyjabungu benti Helgi á staðinn þar sem hann hafði síðast séð nefnda klukku. Ekki var nægilega fallið frá til þess að hægt væri að nálgast hana að þessu sinni, en svo til nákvæm staðsetning er komin á hana. Helgi sagðist hafa verið að eltast við mink þegar hann hafi allt í einu rekist á klukkuna í fjörunni. Þá hafi verið mjög lágsjávað. Hún er líkast til um 60 cm á hæð og virðist vera úr járni. “Ef hún hefði verið út kopar hefði einhver verið búinn að hirða hana fyrir löngu”, sagði Helgi og glotti. Brotið er úr henni á einum stað. Klukka þessi gæti verið fjörgömul, en enginn veit hversu lengi hún hefur legið á þessum stað.

Háleyjar

Tóft undir Háleyjarbungu.

Utan í Háleyjabungu er m.a. tóft af hlöðnu húsi. Enginn veit hvaða hlutverk það hefur þjónað. Þó er jafnvel talið að Skálholtskirkja hafi átt reka við Háleyjar og Krossavík, sem er skammt vestar. Ekki er ólíklegt að menn biskups hafi unnið reka og/eða setið um reka því hann þótti mikil hlunnindi áður fyrr. Aðal siglingaleiðin til landsins var þarna fyirr utan og og aldrei var að vita hvað kynni að gerast í vondum veðrum. Gat þá skipt miklu máli að vera til staðar þegar eitthvað bar út af. Hval gat líka rekið fyrirvarlalaust á land og var þá betra að geta brugðist fljótt og vel við.
Farið verður fljótlega aftur á staðinn við hentugri aðstæður og þess freistað að ná klukkunni á land.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Reykjanes

Guðmundur G. Bárðason skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins 1928, „Á Reykjanesi„:

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

„Þeir sem ætla frá Reykjavík út á Reykjanes eiga um tvær leiðir að velja. Önnur liggur frá Grindavík en hin frá Kalmanstjörn í Höfnum vestan á Reykjanesskaga. Til beggja þessara staða er góður bílvegur frá Reykjavík og tekur aksturinn um 2 klst. Frá Kalmanstjörn er 3 klst. gangur suður á Reykjanes. Liggur vegurinn fyrst fram hjá Hafnarbergi yfir gömul helluhraun, sem eiga upptök sín í Sandfellsdyngju (Sandfellshæð) upp við fjöllin á skaganum hefir hrunið fallið hjer í sjó fram og myndað Hafnaberg. Er hæsti hraunhóllinn yst á berginu nefndur Berghóll. Sunnan við Hafnaberg taka við Stóra- og Litla-Sandvík. Alt þangað suður eru foksandsbreiður á veginum, er skapast hafa af foksandi frá ströndinni. Veður í sandinn og er þungfært, einkum þegar þurt er. Úr Litlu-Sandvík liggur leiðin heim að Reykjanesbænum yfir Stampahraun. Er þar greiðfær og sæmilega sljett gata. Öll er þessi leið greiðfær hestum.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Norðanvert við Hafnaberg mótar fyrir sandorpnum rústum, eyðibýlum. Þar voru í fyrndinni 3 bæir, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, og Eyri og sunnan við Hafnaberg eru rústir af bæ, sem hjet Skjótastaðir. Líklega efir sandfok eytt býlum þessum. Nú eru þessi svæði mjög sandorpin og gróðurlaus að kalla. Hefir roksandurinn hjeðan borist langa leið upp í Hafnaheiði, austur fyrir veg þann, er liggur úr (Grindavík norður) í Hafnir.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík. Það mun hafa verið Ólafur Sveinsson vitavörður, er fyrstur kastaði þarna grjóti úr götu. Ólafur og synir hans voru menn harðduglegir til verka, og þeir ruddu þarna veg svo að bílar gátu komist alla leið út að vita.

Frá Járngerðarstöðum í (Grindavík er einnig 3 klst. gangur út á Reykjanes. En s.l. vor hefir Ólafur Sveinsson vitav. á Reykjanesi unnið að því með sonum sínum að bæta veginn úr Staðarhverfinu út á nesið, og orðið mikið ágengt. 23. júlí í sumar fór jeg á bíl úr Grindavík alla leið út að túninu á Reykjanesi. Var það fyrsti bíllinn er komst alla þá leið. Milli Járngerðarstaða og Staðar skiftast á grónar grundir með sjónum og hraun, og á einum stað er sjávarós, sem tæpast verður ekið yfir um flæði.

Staðarberg

Staðarberg.

Utan við Stað taka við hraun og eru sum allúfin apalhraun. Ná þau útundir svo nefnda Sandvík mitt á milli Staðar og Reykjanes. Enda hraunin í bröttum hömrum við sjóinn. Heitir þar Staðarberg. Er þar torfærulaus leið fyrir bíla, en krókótt og seinfarin. — Út frá Sandvík er vegurinn sljettur og greiðfær, en víðast sandborinn. — Aðeins á stöku stað, svo laus að hjólin vantaði viðspyrnu og „spóluðu“ sem kallað er; en úr því hefir vitavörðurinn bætt með því að leggja hraunsteina í veginn. Alt er þetta bærilegur reiðvegur og greiðfær gönguleið, en heldur þungfært í sandinum. En hvorki þessa leið eða frá Kalmanstjörn skyldu menn fara á spariskóm. Eru gúmmískór hentastir í hraununum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Eldvörp kallast hraunhólaröð, sem ber við himin í hraununum nlllangt fyrir norðan veginn. Er það gömul gígaröð með strjálum gíghólum og eldborgum, sem mynd ast hefir á eldsprungu. Stefnir hún frá Sandvík til norðausturs inn Skagann, norðanveit við Þorbjarnarfell. Úr eldvörpunum hefir fallið mikil hraunbreiða fram á Staðarberg milli Staðar og Sandvíkur og önnur kvísl til sjávar milli Húsatófta opr Járngerðarstaða. Hafa gos þessi líklega orðið á undan landnámstíð, þó eigi verði það sagt með neinni vissu.

Baðstofa

Baðstofa.

Gjár eða hraunsprungur alldjúpar eru á nokkrum stöðum í hraunum þessum nærri veginum og stefna þær allar að kalla líkt og Eldvörpin, frá SV.—NA. — Nafnkunnust er gjá austan vert við bæinn á Húsatóftum; er hún kölluð Baðstofa. Er hún ca. 25—30 m. djúp og ferskt vatn í henni um fjöru. Er það eini staðurinn á þessari strandlengju sem ósalt vatn er að fá. Silfurgjá („Silfra“) er fyrir ofan Járngerðarstaði, 20—25 m. djúp. Inn í sumar gjárnar gengur smá upsi gegnum hraunið t.d. Bjarnagjá.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Útilegumannabygð. Í Eldvarpahrauni, í norðvestur frá Grindavík, fundust 1872 eldgamlar rústir af hraunkofum er sumir hafa haldið að væru eftir menn sem lagst hafi út í hraunið, en aðrir halda að Grindvíkingar hafi notað þá sem fylgsni á ófriðartímum. Eru kofarústirnar á afskektum stað í versta hrauninu, og eigi gjörlegt að leita þeirra nema með leiðsögu kunnugra manna. Hefir Þorv. Thoroddsen lýst þeim í ferðabók sinni, (Ferðabókin T. bls. 174).

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Eydd bygð. Nú er Staðarhverfið vestasta bygðin sunnan á Skaganum. En ummæli herma að í fyrndinni hafi bygð verið miklu lengra út eftir og prestssetrið Staður hafi þá verið í miðri sveit. Ef til vill hefir einhver bygð verið í Sandvík og þar í grend, sem sje eydd af sandfoki. Sumir telja að Reykjanes hafi áður fyr náð lengra út og þar muni hafa verið bygð, sem sokkin sje í sjó. En það er harla óiíklegt og engin rök hafa fundist fyrir því í fornritum. Hafi Eldvarpahraun runnið eftir landnámstíð gæti það hafa eytt býlum við ströndina.
Háleyjarbunga. Utanvert við Sandvík er ávöl hæð eða bunga suður við ströndina góðan spöl frá veginum. Heitir hún Háleyjarbunga. Er hentugt að taka sjer krók af veginum til að skoða hana. – Er það gömul gosdyngja svipuð Skjaldbreið að lögun, en margfalt minni og halla minni. Efst í bungunni er gosketillinn og sjest hann eigi fyr en alveg er komið að honum. Er hann um 130 m. að þverm. og 20—30 m. djúpur, í börmunum er straumlögótt grágrýtiskent berg með glitrandi ólivín kristöllum gul grænum að lit og eru sumir með bláleitum blæ. Gosdyngjur svipaðar þessum eru allvíða hjer á landi en fágætar annarsstaðar nema á Sandwicheyjum í Kyrrahafi. Sjórinn hefir brotið af suðurjaðri dyngjanna og heitir þar Háleyjaberg.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell. (Heiðin). Af Háleyjarþungu er best að fara vestur á Skálafell, sem er eldfjall (ef fjall skyldi kalla), og hæsta fjalli sunnan á Reykjanesi (78 m.).
Djúpur gígur eða eldborg með börmum af gjallkendu hrauni en austan í fellstoppnum. Þaðan hefir mikið apalhraun runnið niður fjallið. Annar eldri gígur ógleggri er þar nokkrum metrum vestar. Á fjallinu er gott útsýni út á Reykjanestána, þar sem litli vitinn er. Hraunsprungur og gjár eru margar í fjallshlíðinni að norðvestan. Stefna allar frá SV—NA og rýkur úr þeim á stóru svæði.
Mest ber á Misgengissprungu niður við rætur fjallsins og nær hún út að sjó, hefir þar myndast kletta belti af því landið austan við gjána hefir sigið 10—15m. Þar sem mest er. Heitir gjáin

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valbjargargjá. Stefnir hún yfir hverasvæðið upp á nesinu. Líklega er suðurbarmurinn á svo kallaðri Hauksvörðugjá, norðvestur af Sandfelli inn á Skaganum, áframhald af Valbjargargjá. Sumir telja að sprungur þessar megi rekja austur í Strandaheiði, suður af Vogum.

Reykjanes-sundlaug

Reykjanes – sundlaug. Valborgargjá er staður sem fáir hafa heyrt um og er falin perla fyrir mörgum. Hún er með fallegri stöðum á Reykjanesi en þar er m.a að finna eina af elstu sundlaugum landsins. Ólafur P. Sveinsson vitavörður á Reykjanesi lét gera litla laug í gjánni á árunum 1925–1930. Hann lét sprengja hraunklöpp þannig að volgur sjór seytlaði í gjánna og útbjó hann þrep niður í gjánna. Byggður var skúr yfir gjána og var börnum kennt sund þarna áður en sundlaugar komu til skjalanna í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaganum. Laugin er kulnuð í dag.

Sjávarlaug. Sunnan við Valbjargargjá eru óslitin hraun út á Reykjanestána. Sunnanvert við Reykjanestána er Blásíðubás og svo Skarfasetur, þar sem litli vitinn stendur. Eru þar allsstaðar brattir hraunhamrar með ströndinni norður undir Valbjargargjá.
Norðan við gjána er láglent, Hefir brimið hlaðið þar upp háum malarkambi úr stórum hnullungum, er nær norður að Valahnúkum. Bak við malarkambinn er mjótt og langt krókótt lón. Sígur sjórinn inn í það um flæði gegnum malarkambinn. Einnig mun sjór leita neðanjarðar miklu lengra inn undir hraunin bak við, þangað sem jarðhitinn er. Þegar fer að falla út sígur sjórinn undan hrauninu út í lónið og er þá 26° heitur. Er hitinn mestur nyrst í lóninu. Þarna virðist vera efni í besta baðstað. Væri lónið hreinsað, steyptir að því veggir og stúkað í sundur, ættu menn þar völ á sjóböðum, misheitum, frá átta til tíu gráður eins og hann er hjer við ströndina upp í 26° eins og suður við Ítalíu. Nóg er hjer líka af skjólasömum sandstráðum, lægðum og skútum í Valbjargargjá og hrauninu til sólbaða þegar sólar nýtur.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Valahnúkar. Svo heita tveir einkennilegir móbergshnúkar við sjóinn norðan við sjólaugina og er sá syðri miklu stærri (48 m. hár). Í raun og veru munu hnúkarnir vera leifar af afargömlum eldvörpum, er spúið hafa ösku. Hefir sjórinn sorfið og brotið niður helming hnjúkanna og stendur þvergnýpt stálið eftir og fljettast svartir blágrýtisgangar og blágrýtislög alla vega innan um móbergið. Í nyrðri hnúknum ber meira á blágrýtinu. Hefir brimið etið breið göng í gegnum hann. Geta menn um fjöru gengið þar þurrum fótum í gegn, undir fellið.
Áður stóð vitinn á Stóra-Valahnúk En í landskjálftum vildi það til að bergið sprakk og hrundu úr því stykki svo staðurinn var ótyggur. Á vorin og framan af sumrum er allmikið af bjargfugli bæði lunda, ritu og fíl í hömrunum framaii í hnúkunum. Eiga þeir þar hreiður sín. Er þar tækifæri til að sjá þá hlynna að ungum sínum og færa þeim fæðu.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli. Eldri vitavarðahúsin.

Heima á Reykjanesi. Jeg býst við að ferðamennirnir sjeu farnir að þreytast af göngunni, þegar þeir hafa sköðað það sem hjer hefir verið talið. Er þá ráð að skreppa heim á bæinn og heilsa upp á vitavörðinn, taka sjer stundar hvíld.
Bærinn stendur sunnan undir svonefndu Bæjarfelli. Er það úr móbergi og líkt og Valahnúkar. Vitavörðurinn og frú hans taka vel á móti gestum sínum og eru fús að greiða götu ferðamanna og leiðbeina þeim. Ólafur vitavörður hefir aðeins verið 3 ár á Reykjanesi. Er hann mesti atorkumaður og hefir ótrálega mikið bætt jörðina á þeim stutta tíma, bæði aukið og bætt túnið og girt það með öflugum grjótgirðingum.

Reykajnes - viti

Reykjanes – yngri vitinn og yngri vitarvarðahús.

Vitinn stendur efst á Bæjarfelli (áður Vatnsfelli), er hann 25 m. hár og ljóskerið um 73 metra hátt, yfir sjó. — Borgar sig að skreppa upp í hann til að skoða ljóskerin og njóta útsýnis yfir nágrennið. Er erfitt að standa á verði við ljósin efst í turninum þegar landskjálftar ganga og alt leikur á reiðiskjálfi.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Hefir vitavörðurinn stundum komist í hann krappan við ljóskerin þegar landskjálftar hafa komið. Goshverinn er góðan spöl fyrir austan bæinn á jarðhitasvæðinu norður af Skálafelli. Er hann nefndur Litli-Geysir. Mun hann hafa; myndast 1906(?). Áfast við hann að vestan er annað uppgönguauga. — Eru þetta einu hverirnir hjer á nesinu sem gjósa vatni. Þó er það ekki ferskt vatn sem kemur upp með gosunum, heldur saltur sjór, enn saltari en við ströndina. Liggur þó hverinn nm 15 metra hátt yfir sjó og frá honum er 2—3 km. spölur til sjávar. En óefað sígur sjórinn eftir sprungum neðan jarðar inn undir jarðhitasvæðið. Hverinn gýs á 15—20 mínútna fresti og eigi hefi jeg sjeð hann gjósa nema c.a. 3 m. frá jafusljettu, en stundum kvað hann gjósa mun hærra. Á undan gosunum heyrast miklar dunur niðri í jörðinni, er smáaukast þangað til gosið byrjar. — Nokkrum metrum fyrir austan Geysi ee vellandi leirpyttur er mikið gufar úr. Myndaðist hann í landskjálftum 1919.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna eða Gunnuhver. Fyrir norðaustan Geysi er öll jörðin soðin sundur af jarðhita, bergtegundirnar leystar upp og orðnar að ruuðum, gulleitum og hvítum leirtegundum. Hafa menn haldið að hvítasti leirinn, sem best sjest þar í gryfju einni, væri postulínsjörð, en í rauninni er í honum sömu efni og venjulegu hverahrúðri (Kisill). Þar í holtunum eru á stóru svæði fjölmörg jarðffufuott, er sjóðheitar gufur streyma upp um. Hefir safnast nokkur brennisteinn við sumar þeirra (brenniateinshverir) og víða er leirinn blandaður brennisteini. Í dálítilli hvilft norður í holtaröðlinum, sem þar er, eru vellandi leirhverir. Heitir aðalhverinn Gunna eða Gunnuhver. Er sagt að hverinn dragi nafn af draug, er Eiríkur prestur á Vogsósum setti þar niður (Þjóðsögur Jóns Arnasonar I. 577—578). Í hverunum er vellandi leirgrautur, og öðru hvoru gjósa þar upp brennheitir gufustrókar með miklum hvin og dunum. Er þetta talinn einna mestur leirhver hjer á landi. Fara skyldu menn gætilega nærri þessum leirhverum því jarðvegurinn er ótraustur og undir honum er jörðin sjóðheit og vellandi.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Láta mun nærri að jarðhitasvæðið á Reykjanesi muni vera 3-4 ferkílómetrar. Á öllu því svæði stíga gufur upp hjer og hvar úr sprungum og hraungjótum, þegar svalt er veður. Í grasflesjunum nærri aðalhveruuum, þar sem engar gufur sjást koma úr jörðu, er jörðin víða 80—90° heit rjett undir grassverðinuni; fer þar að rjúka ef jarðvegurinn er rofinn. Er það ljóst að hjer er geysimikil og dýrmæt orka falin í jörðu, sem nægt gæti Reykjavík og öllum þorpum hjer á skaganum til ljósa, hita og iðnaðarstarfa. En til þess þarf að beisla jarðhitann og breyta honum í rafmagn, líkt og nú er gert á Ítalíu og Japan. Telja fróðir menn að virkjun jarðhitans sje ódýrari en fossavirkjun. Áður en farið er að virkja fossa í stórum stíl handa Reykjavík, er sjálfsagt að rannsaka það til hlítar, hvort eigi borgi sig eins vel eða betur að virkja jarðhitann á Reykjanesi eða öðrum hverasvæðum í nálægð við bæinn.

Sýrfell

Sýrfell.

Sýrfell. Frá hverunum er um klukkutíma gangur norður á Sýrfell; er það móbergsfjall og hæsta fjallið út á nesinu (96 m.). Er þaðan gott útsýni. Suðvestur af því eru svo nefndir Rauðhólar; eru þar ljós og rauðleit leirlög, leifar eftir gamla hveri. Í hæðarana suðvestur af Sýrfelli er gígskál allstór og annar gígur nokkrum metrum sunnar efst í sömu hæðinni. Norðaustur af Sýrfelli mætast nýju hraunin úr Grindavíkur-Eldvörpunum og Stampahraunin úr gígaröðinni á norðanverðu nesinu.

Súlur

Súlur.

Í norðri og austri blasir við Hafnaheiði, Stapafell, Súlur, Þórðarfell, Sandfell og Sandfellshæð, sem er langstærsta hraundyngjan á utanverðum skaganum. Frá Sýrfelli gengur lægð til norðausturs inn skagann, sjest glögt fyrir henni norðaustur við nýjuhraunin. Heitir dældin Hauksvörðugjá, er þessi sigdæld takmörkuð af misgengissprungum beggja vegna. Framhald þessarar sigdældar er lægðin á Reykjanesi milli Skálafells og Stampahrauns. En sprungurnar eru þar víðast duldar undir yngri hraunum nema norðan í Skálafelli. Þjóðsögur herma að Kaldá hjá Kaldárseli hafi í fyrndinni runnið út Reykjanesskaga og þessi sigdæld sje hinn forni farvegur hennar, en forneskjumaður hafi breytt farvegi hennar.

Stampar

Stampar og Stampahraun.

Stampar og Stampahraun. Hraunbreiðan á nesinu norðan við fellin heitir Stampahraun. Hafa þau hraun komið úr eldsprungu (einni eða fleiri) er hefir vanalega stefnu (SV—NA) og nær alla leið frá sjó við svo kallaður Kerlingarbás, eins langt til norðausturs sem hraunið nær. Hefir röð af gígum eða eldvörpum myndast á sjálfum sprungunum þar sem hraunið hefir ollið upp. Heita gíghólar þessir Stampar. Mun nafnið þó helst eiga við þá syðstu. Til þess að skoða gígaröðina er hentast að fara út í hraunið norðvestur af Sýrfelli og fylga eldvörpunum til sjávar. Þar eru víða holar hrannpípur eða hraunræsi er storknað hafa utan um hraunstrauma og hraunleðjan síðan tæmst innan úr. Niður við sjóinn eru háir hamrar af lagskiftu móbergi og hraunið ofan á. Þar eru lóðrjettir blágrýtisgangar upp í gegnum móbergið er renna saman við hraunið ofan á, Eru það án efa endarnir á eldvörpunum sem hraunið hefir ollið upp um.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Spöl norður með sjónum er gíghóll framan í hömrunum. Hefir brimið etið hann inn að miðju svo þverskurður sjest af innri gerð hans. Er gígrásin full af rauðleitu gjalli. Önglabrjótsnef, litlu norðar, er myndað úr gjallkendu hrauni úr þessum gíg og fleirum af líkri gerð, er standa nokkru fjær ströndinni.

Karlinn

Karlinn.

Karlinn er 50 m. hár drangur fram af nesinu undan Stampahrauni 400—500 m undan landi. Þar eiga bjargfuglar hreiður í berghillum.
Eldey blasir við í suðvestur af nesinu. Er hún um 14 km. undan lyndi, álíka há og Skálafell (77 m., 100 m. breið, um 300 m. löng), flöt að ofan og öllu megin þverhnýpt niður að fjöru. Eyjan er úr móbergi og gróðurlaus. Hjalti Jónsson framkvæmdarstjóri kleif upp í eyjuna 30. maí 1894. Þótti það þrekvirki. Rak hann járngadda í bergið og las sig eftir þeim upp á eyjuna, og tengdi festi í bjargið. Þar verpa súlur í þúsundatali.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Brimið við Reykjanes er oft stórkostlegt þegar vindur stendur af vestri. Þeir sem staldra við á Reykjanesi þegar öldurót er, og eigi hafa sjeð stór brim, ættu að bregða sjer ofan á hamrana hjá Valbjargargjá eða ofan á Valahnúk, og virða fyrir sjer brimgarðinn, og hlusta á gróttuhljóðið við Valhuúkamöl, þegar brimsogið og öldurnar eru að velta til hnullungunum, sem sumir hverjir eru 1—2 m að þvermáli, Fágætar jurtir. Mjög er gróður lítið á Reykjanesi. Helstu gróðurflesjurnar eru í lægðinni frá túninu vestur fyrir hverina. Fann jeg þar á nesinu um 50 plöntutegundir. Af fágætum plöntum, fann jeg þar þessar: Baunagras í brekku við bæinn. — Naðartungu og flóajurt við gufuhverina. Þistil í túnjaðrinum. Gullkollur er algengur í hraununum. Sækvönn í grasbrekkum og á bjargröndinni suður af Skálafelli.

Gullkollur

Gullkollur – einkennisblóm Reykjaness.

Landskjálftar eru að líkindum tíðari á Reykjanesi en á nokkrum öðrum stað hjer á landi. Hafa þeir oft gert þar spjöll á vitanum og bæjarhúsum og valdið röskun á hverunum. Hafa þeir stundum staðið í sambandi við eldsumbrot í hafinu út af nesinu. Engar sögur fara af eldgosum á landi þar á hesinu. Vita menn því eigi hvort nokkur af hraununum þar hafa runnið eftir landnámstíð. Frásögurnar um gosin í hafi, framundan nesinu eru einnig mjög óglöggar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 38. tbl. 23.09.1928, Á Reykjanesi – Guðmundur G. Bárðarson, bls. 297-300.

Reykjanes

Reykjanes.