Færslur

Staðarhverfi

Birgir Kjaran skrifaði þrjár greinar í Lesbók MBl árið 1960 um Suðurnes, einkum þó Grindavík og nágrenni. Fyrsta greinin birtist í apríl. Í grein III segir m.a.:
Manni á Stað skyggnist yfir StaðarbótinaVið göngum upp á hæð  fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. – Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans. Enginn jafn skammur spölur Íslandsstranda getur sagt sögu jafn margra skipsskaða og geymir slíkan ógnafjölda minninga átakanlegra atburða, og þó sem betur fer einnig frábærra afreka við björgun úr sjávarháska. Þarna innst er Selvogurinn og Strandarkirkja, Krýsuvíkurbergið, Hraunsvíkin, Þorkötlustaðahverfið, Hópið við Grindavík, Gerðistangar, Staðarmalir, Víkurnar, Háleyjar, Hrafnkelsstaðarbergið og Skarfasetur yzt á suðurtánni.
Allt sjáum við þetta nú, að vísu ekki í sömu andránni, en við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita, og á leiðinni kemur þetta smám saman í ljós.
Áður en við höldum af Stað, verður okkur enn skrafdrjugt, því Manni kann frá mörgu forvitnilegu að segja og hefur ákveðnar meiningar um hlutina. – Ég varpa t.d. fram spurningu um það, hvað hald hans sé um göngin hans Eggerts Ólafssonar, göngin undir Reykjanesið. – Vegna þeirra, sem ekki þekkja þetta mál, felli ég hér inn í, það sem Eggert segir í Ferðabók sinni um Reykjanesgöngin: “Annars er það algeng sögn, að undir skaga þann hinn mikla, sem er meginhluti Gullbringusýslu, liggi göng, og sérstaklega séu göngin víð milli Grindavíkur og Vogastapa, og á fiskur að ganga í gegnum þau. – Sögn þessi er í sjálfu  sér alls ekki fráleit, því að vér vitum, að landið er hér allt umbylt af jarðeldi bæði á yfirborði og niðri í djúpinu og hvarvetna í því gjár. Þar hljóta einnig að vera neðanjarðarvatnsföll, sem falla út í Reykjanesröst.” – Þannig fórust Eggerti orð fyrir um það bil tvö hundruð árum, og nú legg ég spursmálið fyrir Staðarbóndann og honum verður hvergi svarfátt. Hann segist trúa því, að á renni neðanjarðar undir nesið. – “Það er alveg víst eftir gömlum sögum og meira að segja veit ég það eftir pabba sáluga, að þegar þeir reru í Höfnum, þá sögðust þeir hafa náð í ósalt vatn, eitthvað blandað náttúrlega, en daufara en sjó, út af Skarfasetri. – Pabbi sagði, að það væri alveg sjúrt, að hægt væri að fá sér þarna að drekk í barning. Þeir höfðu fengið sér þarna vatn á kútinn. Það rennur þarna út í Röstina – það er sko alveg sjúrt”, segir minn góði leiðsögumaður ákveðið, því að þegar Gamalíel á Stað segir eitthvað “sjúrt” meinar hann að það sé enginn vafi um þá hluti.
Clam á StrandsstaðEn að fiskur gangi eftir þessum göngum eða þessari á? Það er ekki eins víst. – “Ja, maður veit ekkert um fiskana”, segir hann, “en hérna í Bjarnargjá milli Járngerðarstaða og Staðahverfis hafa þeir oft og iðulega séð ufsa, svo að hvað veit maður svo sem nema hann gangi lengra?”
Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fermur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í barátunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti mandómsþrek sitt. Og mér dettur í hug brimið, já, brimið, ætli hann hafi ekki vanizt á að hlæja svona hátt til þess að yfirgnæfa brimgnýinn?
Björgun áhafnar á Skúla fógetaÞorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hanní ferðabók sinni: “Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, ein eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.” Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
Það hefur líka fyrr og síðar ýmsu öðru en rekatrjám skolað á Staðarfjörurnar. Hann tjáir okkur það, Staðarbóndinn, að hún hafi stundum verið óhugnanleg aðkoman á þessari víðsjálu strönd. Þegar Ægir hefur látið brimrótið skila feng sínu upp í fjörugrjótið. – “Það var verst með það fyrsta”, segir hann. “Það var gamall, reyndur maður, sem var með okkur og gekk fyrstur. Það bjargaði okkur og tók af okkur versta stuðið.

Cap Fagnet á strandsstað

Síðar bregður manni minna. – Einkennilegast var það, þegar ég fann sjórekna manninn undir Háleyjarbergi. Það skil ég aldrei, segi alltaf, að hann hafi hjálpað mér til þess að koma  sér upp. Við vorum tveir bræðurnir, Helgi heitinn og ég, sem fundum hann. – Við sáum, hvar tvær ritur sátu á steini í stórstraumsfjöru. Þetta var í há-átt. Ég fór fram eftir, og þar lá hann undir steininum. Við lögðum líkið í poka og bárum það milli okkar upp að berginu tveir einir, en sjö tíma vorum við að koma því austur með berginu, og veittist þó fullerfitt að koma því alveg austur úr. – Ég skil það aldrei, hvernig við tveir einir skyldum koma því upp allt strórgrýtið og það án þess að blása úr nös. – Ég er viss um, að hann hefur hjálpað til við það sjálfur.”
Þessi frásögn getur eðlilega af sér stuttlegt samtal um myrkfælni, sem mun hafa hljóðað eithvað á þessa leiðina:
-Eru einhverjir þeirra jarðaðir í krikjugarðinum að Stað?
-Jú, hér er eitt lík austan af Selatöngum, af enskum, og fleiri munu hvíla hér, sem rak af hafinu.
-Finnst þér ekki lakara að hafa kirkjugarðinn svona rétt við bæjarhúsin?
-Nei, ég finn ekki til þess.
-Þú ert þá ekkert myrkfælinn?
Á Staðarbergi við Ræningjasker-Nei, ég var myrkfælinn þangað til ég fluttist hingað í nábýlið við kirkjugarðinn, -en þá fór hún af mér.
-Og þið verðið aldrei vör við neitt?
-Það getur ekki heitið. Það er þá helzt, þegar von er á þeim hingað í garðinn. – Þeir láta oft vita af sér, um leið og þeir skilja við þetta jarðneska hérna.
-Meinarðu, að menn geri vart við sig hérna í þann mund, sem þeir gefa upp öndina?
-Já, reyndar, mennirnir, Grindvíkingar, þeir koma og banka og ganga um rétt eftir að þeir eru búnir að skilja við.
-Hefur þú orðið var við það?
-Já og já, ég held nú það.
-En aldrei séð neitt?
-Nei, nei, en ég hef oft orðið var við það.
Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926-´28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bílinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. “Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans”, bætir Staðarbóndinn við.
Gamli vegurinn - lagfærðurÁður en við stigum upp í bílinn bendir Manni okkur út á Staðarbótina og segir: “…Það var þarna út á Staðarsundið, sem sagt er, að séra Oddur hafi farið með menn til þess að kenna þeim björgunartilraunir, kenna þeim að synda og nota bárufleyginn, sem hann fann upp. Hann fermdi pabba hérna á Stað. Það eru til margar sögur og sagnir af honum. Hún heitir Silfra gjáin, sem þú varts að spyrja um og álarnir eru núna í. Í hana missti hann tösku með 60 spesíum. Hann var að sækja konuarfinn. Hún er þar enn taskan, segja þeir.”
Þessari síðustu athugasemd Staðarbóndans fylgir hláturm sem sóttur er hreint niður á neðstu tasíu og endar beinlínis eins og veltandi öldurót við ströndina, brimhljóðinu, sem berst frá Staðarberginu.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja hann um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið  vera og oftast hægt að komast hann, þótt fenni. Umbætur á veginum eru Staðarbónda hjartans mál.
-Heldur þú að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið lagfærður fyrr?
Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvou auga, er hann segir með þunga: “Já, það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað  munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vöruníl. Hann sagði það skipstjórinn á Jóni Baldvinssyni, að það hefði verið langur tími, fannst honum, frá því hann sendi skeytið og þangað til hann sá okkur. Það var ábyggilega tími, sem var lengi að líða. En hvað hefði það verið lengi að líða, ef það hefði verið brim og vegurinn svona?”
Hann bætti við: Undir Háleyjarbergi - Háleyjarhlein“Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi. Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt”, bætir hann við.
“Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. “Resolut” hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. – Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. – Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fóst upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við bjögunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trilli, en þarna björguðust 38 menn af franska togarum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum. Þú sérð þarna, beint út af. Það var svona klukkan að ganga sex um nóttina, sem við vissum um það. Það komu að austan tveir menn og létu okkur vita. Karl heitinn Guðmundsson fór niður um nóttina og var að hlusta á veðrið frá Vestmannaeyjum, og þá heyrir hann, að það var kallað út, að Skúli fógeti væri strandaður. Minnismerki um óþekkta sjómanninn í Fossvogskirkjugarði - vitinn
Það var stöðin í Vestmannaeyjum, sem kallaði þetta út með verðinu. Hann vakti mennina og fór að leita, og svo ræstu þeir okkur. Við höfðum komið heim að Stað um nóttina kl. tvö frá aðgerð. Það var mikið brim, og það var langt að skjóta út í Skúla. Línan var 97 faðmar. – Já, það það mátti ekki miklu muna. Það var síðasta línan, sem náðist í. Við áttum ekki fleiri. Það var seinasta skotið, sem hægt var að skjóta. Við voru svo heppnir, að vindurinn bar línuna upp að mastrinu, þar sem þeir sátu á hvalbaknum, og einn gat teygt sig í hana. Þeir voru sumir mjög þrekaðir, skipsbortsmennirnir, en einn var þó ótrúlegt hraustmenni, og var hann ekki nema 16 ára gamall. Hann hljóp eins og krakki þegan hann kom upp á kambinn, hreint eins og ekkert hefði í skorist. Það var mikið tekið eftir því. Það var Sæmundur Auðunsson, sem síðar varð skipstjóri á Akureyrartogurunum.

Staðarkirkjugarður

Þeir fórust 14 á Skúla, en 24 var bjargar, svo ver hefði getað farið þar, ef síðasta línan hefði brugðizt. – Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax. Við sáum það, þegar við vorum að koma að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíkinni, hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkana. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu.
Bóndinn á Stað hefur ótal sinnum séð strönduð skip í brimgarðinum. Hann hefur gengið fjöru og fundið líkin. Suma þekkti hann, aðra ekki. Það var hann, sem bar heim lík óþekkta sjómannsins, sem fannst undir Háleyjarbjargi, og nú hvílir undir merki vitans í Fossvogskirkjugarði. Hann sagði, að það væri glæpur að leggja ekki þenna veg, því að á liðnum 30 árum hefðu að minnsta kosti 20 skiptapar orðið á ströndinni frá Stafnesi til Krýsuvíkurbergs og í þeim hefðu um sextíu menn farizt.
Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska; “Oddsbraut”, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.

Heimild:
-Birgir Kjaran – Svipast um á Suðurnesjum III – Lesbók Morgunblaðsins 8. maí 1960, bls. 245 – 249.

Staður

Staðarhverfi.

Staðarhverfi

Klukknaportið í kirkjugarðinum á Stað í Staðarhverfi við Grindavík hefur verið endunýjað.

Staður

Nýtt og gamalt klukkuport í Staðarkirkjugarði.

Það voru þeir feðgar í H.H. smíði sem sáu um verkið undir stjórn Helga Sæmundssonar. Kemur það í stað klukknaports sem smíðað var af Jóni Engilbertssyni frá Arnarhvoli í Grindavík á þriðja áratug síðustu aldar. Nýja portið er smíðað eftir fyrirmyndinni en þó nokkuð stærra og með koparklæðningu á þakhvelfingunni, portið hefur margvíslega trúarlega tilvísun og er í alla staði vel hannað. Ákvörðun um að hafa hið nýja klukknaport stærra helgast m.a. af því að kirkjugarðurinn á Stað hefur verið í mikilli endurnýjun og stækkun, hafa m.a. verið hlaðnir miklir og glæsilegir veggir er afmarka og skipta garðinum.
Í klukknaportinu er bjalla úr Hull-togaranum Anlaby er strandaði utan við Jónsbáskletta 14. janúar 1902 og “spónbrotnaði”. Ellefu lík skipverja rak að landi, en lík skipstjórans, Carls Nilsonar, fannst aldrei.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þórkötlustaðir

Morð og manndráp eru engin nútímauppfinning, ekki einu sinni í fámennari byggðum landsins. Í “Sextándu öldinni” er m.a. fjallað um morð, sem var framið á Þórkötlustöðum og aldarfjórðungi síðar á Stað: 

Staður

“Maður var veginn á Þórkötlustöðum í Grindavík [1562], Guðmundur Sigurðsson að nafni, og voru fjórir atvistarmenn. Bóndinn Ketill Ketilsson, kom út úr bæ sínum með atgeir á lofti, er menn hans komu skinnklæddir af sjó og lét kasta til þeirra vopnum. Hjó einn sjómanna til Guðmundar, en annar rotaði hann með steini. Fóru svo leikar að þeir gengu af Guðmundi dauðum.”
Um morð við kirkjugarðshliðið á Stað í Grindavík segir: “Maður var veginn að Stað í Grindavík í haust [1587]. Vegendur voru tveir, og hefur annar þeirra, Björn Sturluson, smiður á Þórkötlustöðum, verið dæmdur útlægur, nema konungur geri þar miskunn á. Þetta gerðist með þeim hætti, að maður nokkur, Ingimundur Hákonarson, kom inn í kirkjuna, þar sem Helgi Úlfhéðinsson var einn með prestinum á Stað, og manaði hann að koma út.

Þórkötlustaðir

Þreif Ingimundur síðan korða sinn, er hann geymdi við kirkjugarðshliðið, og hjó til Helga þrjú högg. Helgi náði þó af honum korðanum og hjó í höfuð hans, svo að hann seig á hnén. Tengdasonur Helga, Björn Sturluson, kom þá innan úr bænum og veitti Ingimundi fleiri sár. Hann lifði síðan tvær nætur eða þrjár, en Helgi var mjög örkumlaður, og var þýskur bartskeri sóttur til að gera að sárum hans. Samningar hafa tekist um vígabætur við erfingja Ingimundar. Helgi var sýknaður með dómi, þótt hann lýsti víginu á hendur sér, en sök felld á Björn.”
Fjórum áður höfðu orðið miklir mannskaðar austan Grindavíkur: “
Tuttugu og fimm menn af tveimur skipum drukknuðu við Þórkötlustaði í Grindavík árið 1583. Þetta bar svo til, að öðru skipinu hlekktist á, og ætluðu þá þeir, er á hinu voru, að fara til hjálpar, en fórust einnig.”

Fimmtán árum síðar, eða 1598, drukknuðu tíu menn er skiptapi varð á Hópi í Grindavík.
Aðrar frásagnir af atburðum eru til frá þessum tímum. Maður skaðbrennist af tjörueldi í Grindavík árið 1601. “Bóndinn á Járngerðarstöðum í Grindavík, Jón Teitsson, var að bræða skiptjöru á dögunum. Kynnti hann eld undir tjörukeri. Svo slysalega tókst til, að eldurinn komst í tjöruna og læsti sig í föt bóndans, svo að hann logaði allur. Hlaut hann við þetta svo mikil brunasár, að hann lifði ekki nema tvær nætur.”
Árið
1634 var hart í ári: “Vetur hefur verið allgóður sums staðar,en vorið hart. Hinn mikli fénaðarfellir í fyrra hefur dregið dilk á eftir sér, því að víða hefur fallið snautt fólk, er komið var á vergang. Í Grindavík dóu fjörutíu og í Útskálasókn og Hvalsnessókn tvö hundruð.”
 SjórEn ekki var allt svartnætti í Grindavík fyrrum. Í maí 1779 voru Grindavíkurbændur heiðraðir: “
Margir bændur í Grindavík hafa lagt stund á garðyrkju undanfarin ár, og sendi konungur þeim tíu ríkisdali að gjöf í vor. Þessari gjöf skipti Grindavíkurprestur á milli fjórtán bænda nú á dögum í viðurvist Skúla fógeta Magnússonar.”
Hinn 19. janúar 1925 er elstu Grindvíkingum enn í fersku minni því þá braut s
tórflóð hús og báta í Grindavík, auk þess það tók 12 saltskúra. “Í dag var brimið í Grindavík svo afskaplegt, að sjó gekk á land 150 metra upp fyrir venjulegt stórstaumsfjöruborð. Sjór tók marga báta, braut suma í spón en stórskemndi aðra. Sjór kom í kjallara margra húsa og tók burt 12 saltskúra og mikið salt. Fjöldi fjár drukknaði einnig í fjárhúsum við sjóinn og í fjörunni. Manntjón varð þó ekki.”
Þekkt er sagan af rymjandi þarfanautinu, sem flaut um á bás sínum eftir að sjórinn hafði brotið fjósið og flutt það um nálægar grundir.

Heimildir:
-Öldin sextánda.
-Öldin sautjánda.
-Öldin átjánda.
-Öldin okkar.
-www.svg.is

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd.

Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi í fylgd Helga Gamalíassonar. Byrjað var við Húsatóftir og gengið með ströndinni um Kóngshelluna, Hvirfla, Stóra-Gerði, Litla-Gerði – Kvíadal og Stað. Að því loknu var haldið út í Bása ofan við Staðarberg og skoðuð hlaðinn refagildra.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Helgi byrjaði á því að staldra við Pústhól á golfvellinum að Húsatóttum eftir stutta göngu. Sagði hann þann sið viðhafðan að þar hafi menn tekið byrðar af baki sér, sest niður og hvílst um stund áður en lengra var haldið. Rústir Kóngsverslunarinnar eru á sjávarbakkanum vestan við golfvöllinn. Kóngshellan sjálf er að mestu horfin sem og lendingin, enda hafa aðstæður þarna breyst mjög síðari áratugina (og jafnvel til enn lengri tíma litið). Sandfjara, sem verið hafði við skerin, væri nú horfin. Sjórinn hefur verið að brjóta af ströndinni smátt og smátt. Sést það m.a. vel á tóftunum, sem nú eru að hverfa til sjávarins.
Golfsvæðið, sem byggt var eftir stofnun Golfklúbbs Grindavíkur árið 1981, hefur verið varið með brimgarði, en hann nær ekki út fyrir það. Skv. upplýsingum fróðustu manna höfðu fengist fjármunir til að verja landið þarna og aðilum falið að sjá um það, en þeir hafi því miður einungis takmarkað sig við vallarsvæðið. Undir sjávarbakkanum má sjá hluti frá kóngsversluninni, s.s. krítarpíur o.fl. vera koma smám saman í ljós.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Skoðuð var bryggjan á Hvirflum, en hún á sér áhugaverða upprunasögu líkt og svo mörg mannanna verk, þar sem deilt var um gildi og staðsetningu, skatta og skil. Staðarvörin er fallega flóruð.

Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring. Hins vegar er sjóinn að taka Litla-Gerði, sem er þar skammt vestar, til sín. Kvíadalur er heillegar tættur. Við hann eru síðustu leifar af görðum Staðahverfis, en þeir voru áður þarna svo til út um allt. Þegar bryggjan var byggð sem og bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var komið á vörubílum og grjótið úr þeim hirt í hana. Eftir stendur heillegur stubbur til minningar um bræður hans. Vel sést hvernig sandurinn hefur safnast vestan við garðinn og hlaðist upp.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Helgi lýsti Stað og staðháttum þar. Hann vísaði m.a. á Staðarbrunninn, sem byggður var 1914, fallega hlaðinn og nær óskemmdur. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestan við Staðarhverfið er hóll við þjóðveginn. Á honum er varða, svonefnd Tyrkjavarða eða Gíslavarða. Sagan segir að hún hafi verið hlaðin eftir Tyrkjaránið með þeim áhrínisorðum að á meðan hún stæði myndi Grindavík og Grindvíkingum óhætt.
Austan við Staðarbergið þaðan í sjávarhendingu (við austurenda bjargsins) er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðuna til minja um þennan atburð.
Loks vísaði Helgi þátttakendum á hlaðna refagildur á Básum ofan við Staðarbergið. Hún hefur verið staðsett utan í hraunbakka, á leið rebba með berginu.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbergs heita “Bergsendi” eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd “Krýsuvíkurberg”. “Ytri” og “Innri” voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innri syðra.

Bergsendi

Bergsendi – útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
“Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur.

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.” Þorsteinn nefnir bergið allt “Krýsivíkurberg”.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg.

“Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
“Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari.

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um “Ræningjasker” og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
“Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: “Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.” (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.”

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus. Hægra megin við lækinn er “Krýsuvíkurbjarg”, en vinstra megin er “Krýsuvíkurberg”.

Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni “Úttekt á Stað”:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún“. Sjá “Lífið hefur dauðann deytt“.
En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.
Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum”, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði. Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki “löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.
Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Staður

Staður fyrrum.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.
Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli. Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson”.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, “rautt og hvítt”, h.m.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið. Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.
Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma. En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.
Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið “með hvannvíta veggi” – byggt um 1930.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; ” Í Staðarkirkjugarði” eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.”

Jónsbásar

Jónsbás.

“Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn“.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, “eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni” undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.”
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.”
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi” í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: “Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar”:
“Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby” var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.
Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby” og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby” hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.”

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Krýsuvík

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Krýsuvíkurkirkju í Lögberg-Heimskringlu árið 1962:

Ólafur Þorvaldsson“Þegar þess var farið á leit við mig, að ég skrifaði fyrir þetta blað nokkuð um Krýsuvíkurkirkju, varð mér fyrst ljóst, hve lítið það er, sem ég veit í þessu efni, — en menn fara stundum enn þá í geitarhús að leita ullar. Ég er því smeykur um, að svipað hafi hent vin minn, þegar hann villtist til mín með þetta efni.
Og nú detta mér í hug sem oftar, þegar svipað stendur á sem hér, hendingar í einu kvæði Fornólfs, þar sem hann segir: „Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin”.
Ég er því miður illa að mér í sögu kirkna á Íslandi frá fornu og nýju, uppruna þeirra, endurbyggingu eða tilfærslu, og allt þar á milli. Það mun mála sannast, að erfitt mun vera að rekja sögu margra kirkna okkar frá fyrstu tíð, þótt sjálfsagt mætti fá úr mörgu skorið í því efni, en til þessa hefur mig skort hvort tveggja, tíma og tækifæri.
Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík úrfallalítið í átta til níu aldir. Ég held, að Krýsuvíkurkirkja sé ein af þeim kirkjum, að erfitt sé að rekja sögu hennar í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fengist í þá sögu. Ég skal aðeins nefna eitt, upphaf þeirrar sögu. Ég held að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar. Síðar kem ég lítillega að þessu óráðna spursmáli, ef rúm leyfir.
Lesendur þessa blaðs munu litlu nær um Krýsuvíkurkirkju af formálanum einum. Þess vegna skal nú sagt hér það helsta, sem ég veit og man um nefnda kirkju, og er því bezt að byrja á byrjuninni.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar; meint kirkjutóft vinstra megin.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rök, að „Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en þau sýslumörk komu löngu síðra. Líklegt má telja, að kirkja hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum auk ítaka.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Eftir það, er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o. fl. og ber víðast fátt þar á milli utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað. Lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og má segja, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Til að sýna megin efni í lestra máldaganna tek ég upp kafla úr máldaga Gísla biskups Jónssonar fré 1577 (í F. XV. 3, bls. 641). Þar segir:… „Ennfremur 6 kýr og 5 ásauðar kúgildi, (þ. e. 30 ær). Einnig þrjá hesta og eitt hross (þ.e. hryssa). Innan kirkju tvenn messuklæði alfær og kantara kápu eina. Einnig tvenn altarisklæði. Ein brún. Einn kaleik, þrjár klukkur, koparstiku með þremur pípum. Glóðker. Einn ampli. Paxspjald . Vatnsklukka. Kirkjustokkur, Þrjár merkur vax. Bækur nokkrar. — Innanstokks tvær skálar, tvo spæni, tvö trog, hægindi, hvíluvoðir og áklæði.”

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju – teiknað árið 1810.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið að lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt heita allvel á vegi í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, þar eð hún átti einnig Herdísarvíkina, beztu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýms ítök. Hitt er ljóst bæði af íslenzkum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru sem flestir munu hafa gert til athugunar á jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.
Árið 1553—54 telur Marteinn biskup „kirkju þa r góða, — en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þessa byggðarlags varað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti niður sóknarkirkju Krýsuvík og leggist hún og eitt kot, sem þar er hjá, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamallt. Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma Guðlegrar hjarðar að vitja.” Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. okt. 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, — en mennirnir viðurkenndu hana ekki lengur. — Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami ,,huldi verndar kraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um „hólmann, þar sem Gunnar snéri aftur”, við að forða því frá að afmást með öllu svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1810.

Það má segja, að frá 1563—1929 hafi Krýsuvíkursókn verið í útlegð eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907—1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjuganga það.
Árið 1929, þegar kirkjan er lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin. Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvædir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, — en þetta kemur í hendi, sagði karlinn. Vegurinn var kominn um eina samfellda stóra gróðursvæðið í hinni miklu hraunbreiðu Reykjanesskagas. Land með mikla möguleika í jörð og á allmikil hlunnindi við sjó, þótt enginn vilji nýta í dag.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, — en „kirkja fyrirfannst engin á staðnum”, en til staðar mun hann ekki hafa verið, sá sem fyrir kúgildunum hefur séð, — en síðustu prestar þar voru það ekki.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggar né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin. Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina, sem önnur hús staðarins, hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórviðri og alla „hverakippi”. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús heldur en þar hefur áður staðið og bíður nú þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Áður er þess getið í grein þessari, að óvíst væri hvar hin fyrsta Krýsuvíkurkirkja hafi staðið. Þótt allt þar um sé í mikilli óvissu enn sem komið er en sem ég veit að á eftir að skýrast áður en langt um líður, þá tel ég, að ekki sé hægt að skrifa svo um Krýsuvík og kirkju þar, að gengið sé með öllu fram hjá hinni aldagömlu sögu, að sú Krýsuvík, sem við þekkjum í dag hafi ekki í upphafi byggðarinnar verið þar sem nú er.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Til fróðleiks skal ég tilfæra hér í sem stytztu máli það helzta, sem vísinda og fræðimenn hafa um þetta efni skrifað. Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: „Að minnsta kosti er það víst, að Krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna”. Hér er vitanlega átt við þann stað, sem nú heitir Húshólmi. Hólmastaðar hef ég hvergi heyrt getið utan í bók Eggerts. Fullvíst má telja, að þetta nafn hafi til orðið eftir að hraunið hólmaði þennan blett af.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni I. bls. 186, um rústirnar í Húshólma: „Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni”.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Og enn segir hann: „Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum”. Einnig getur Þorvaldur Thoroddsen um alllanga garða, sem sjáist þar enn. Þorvaldur Thoroddsen segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi gizkað á, að það hafi runnið kringum 1340, „án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjar þar. Getur hann þa r garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í grein sinni kemst Brynjólfur þannig að orði á einum stað:

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

„Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess”. Brynjólfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphaflega þar sem nú er Húshólmi. Það sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar — Krýsuvík eins og Brynjólfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar sem nú er að hún hefði þá fengið þetta nafn því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík.
Rúmsins vegna verð ég að láta staðar numið hér, en um þetta má nánar lesa í bókinni „Harðsporar” frá 1951, bls. 109.
Vel veit ég, að í framangreindar frásagnir vantar vísindalegar sannanir og er það rétt svo langt sem það nær og þá er að afla þeirra. — Í Húshólma munu svo merkilegar fornminjar vera, að óvíst er hverju þær við rannsókn gætu aukið við hinar fornu sögu okkar. Þegar hér er komið lestri má vera, að einhverjum detti í hug þessi spurning: Hvað kemur þessi týnda byggð ef til hefur verið Krýsuvíkurkirkju við? Hér ber allt að einum brunni. Um þetta vantar aðeins órækar sannanir.
Eggert Ólafsson hafði engar sannanir þá hann skrifaði orð þau, sem að framan getur. En líkurnar hafa honum sýnst svo ljósar, að þar væri ekki um efamál að ræða.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Hafi fyrsta byggð Krýsuvíkur verið niður við sjó svo sem hin aldna saga hermir og minjar þar benda til, hefur vitanlega ekki liðið langur tími þar til þar hafi kirkja risið. Svo stór hefur Krýsuvíkurkirkja aldrei þurft að vera, að efni til hennar hafi skort, þar eð reka fjörur eru miklar og rekasælar, svo sem við vestasta hluta Krýsuvíkurbergs allt til Selatanga vestur.
Skal nú vikið nokkrum orðum aftur til ársins 1200. Þá er sem fyrr segir Krýsuvíkurkirkju getið í kirknaskrá Páls biskups, og þar þess getið að kirkjan sé Maríukirkja svo og landaeigna hennar. Hér hefur þess ekki þótt þurfa við að tilgreina nánar hvar kirkjan væri staðsett, því vitanlega hefur það verið svo sem nafn hennar bendir til í Krýsuvík, og þá var engin nauðsyn að geta þess, hvar sú Krýsuvík væri vegna þess, að aldrei hefur verið nema ein byggð með því nafni, — en hvar var sú Krýsuvík, sem Páll biskup minnist á um árið 1200? Þessari gömlu og nýju spurningu er enn þá ósvarað, en við verðum að vona, að svarið komi von bráðar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Ef það væri nú svo, að Ögmundarhraun hafi runnið kringum 1340 svo sem Jónas Hallgrímsson gizkar á, er ekkert líklegra en að fólkið sem flýði eldana hafi leitað áður en eldurinn lokaði leiðum upp í landið inn milli fjallanna, þar sem eldar sem þá brunnu náðu því ekki. Vegarlengdin var ekki nema röskur stundargangur. Þetta land var þess heimaland, sjálfsagt fyrr nytjað á margan hátt. Þar var búsmali þess hagvanur, heyskaparlíkur meiri og betri, svörður til eldsneytis í mýrum og ef til vill fleira, sem nú er ekki gott að segja um.
Til endurbyggingar húsatimbur á víðáttumiklum rekafjörum, — en dálítið lengra til dráttar. Hafi þetta svona verið þá hefur fólkið flutt með sér nafn þeirrar byggðar, sem það af illri nauðsyn varð að yfirgefa og þá von bráðar komið sér upp kirkju, sem hefur verið Krýsuvíkurkirkja jafnt sem áður.

Krýsuvíkurkirkja

Þótt erfitt sé að fullyrða, hvar fyrsta kirkja þeirra fyrstu Krýsvíkinga hafi staðið, mun aftur á móti óhætt að telja fullvíst, að margar síðustu aldirnar hafi kirkja þeirra staðið þar sem hún stóð fram á þessa öld, — og stendur í rauninni enn. Þeim mun nú óðum fækka, sem við messugerð voru hjá séra Eggert Sigfússyni presti Selvogsþinga, þá hann messaði í Krýsuvíkurkirkju, því eins og fyrr segir þá var Krýsuvíkurkirkja útkirkja frá Strönd til 1907. Sá er þetta skrifar var við eina guðsþjónustu í Krýsuvík hjá séra Eggert 1901. Margt var vel um séra Eggert þótt alleinkennilegur þætti í ýmsu. Ágætur ræðumaður var hann talinn á tækifærisræður, enda var hann gáfaður lærdómsmaður.
Aftur á móti voru flestar kirkjuræður hans mjög stuttar og var sem hohum lægi mikið á við flest verk í kirkju og viðurkenndi þetta sjálfur svo sem þetta dæmi sýnir. Eitt sinn þá hann kom úr kirkju í Krýsuvík segir hann strax þegar hann kom í bæinn: „Nú gerði ég það gott, nú hafði ég faðirvorið í einu andartaki.”

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Margt mætti um séra Eggert segja og allt gott sérdeilis sem mann. Hann var vammlaus maður og heiðarlegur fram í fingurgóma. Hann var einn þeirra, sem samtíðin misskildi, þótt þar væru undantekningar. Á öðrum vettvangi gefst mér ef til vill tækifæri til að segja nánar frá þessum sérkennilega manni.

Ég ætla, að ég hafi verið við síðasta prestsverk, sem framkvæmt var í Krýsuvíkurkirkju, það um árið 1917. Þá var jarðsunginn þar síðasti maður í Krýsuvíkurkirkjugarði, og var ég einn af líkmönnunum. Verkið framkvæmdi sóknarpresturinn séra Brynjólfur Magnússon frá Stað.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð er af timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er hennar getið í mörgum prófastavísitasíum og ávallt nefnd „timburhús”.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst all nákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Hvenær viðgerð sú, er Pétur biskup hvetur til 1875 hefur fram farið hefur mér ekki auðnast að grafa upp, en á síðasta fjórðungi síðustu aldar hefur það verið gert. Þótt mér hafi ekki tekizt að finna reikninga yfir kirkjusmíðar 1857 má fullvíst telja að þar hafi aðalsmiður verið Benteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans Sigurbent varð til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum mun báðum hafa verið í blóð borið. Með endurnýjun þessa rösklega hundrað ára gamla húss, sem lengst af var kirkja, hefst nýr kapítuli í sögu kirkjunnar í Krýsuvík, sem verður ekki sagður hér. Í þeim kapítula hlýtur ávallt að gnæfa hæst nafn þess manns, sem af svo mikilli höfðingslund og óeigingirni og þó í algerri kyrrþey hefur látið gera þetta hús eins og það er í dag, ásamt umbótum á kirkjugarðinum, algeriega fyrir fé úr eigin vasa. Maður þessi er Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Þá mun heldur ekki gleymast nafn þess, sem verkið leysti af hendi, þjóðhagans Sigurbents Gíslasonar í Hafnarfirði. Verk það, sem þessir tveir menn hafa innt af hendi í Krýsuvík á síðustu árum, lofar báða þessa meistara.

Björn Jóhannesson

Björn Jóhannesson.

Ég hygg, að með húsi því í Krýsuvík, sem nú hefur verið þar endurbyggt og innan skamms mun albúið til vígslu á ný til guðsþjónustuhalds, hafi Björn Jóhannesson unnið það lofsverða verk, sem fá dæmi munu finnast fyrir hér á landi í seinni tíð, — og trúað gæti ég að „Fáir muni eftir leika”, og mætti þó gjarnan verða hrakspá.
Að lokum skal hér getið þeirra presta, sem kunnugt er um að þjónað hafi Krýsuvík og setið þar meðan sérstakt prestakall var, en talið er að prestur hafi verið þar allt til 1641. Prestarnir voru þessir: Kálfur Jónsson 1375, Þórarinn Felixson 1447, Guðmundur Steinsson 1525, Björn Ólafsson um 1528 til um 1580, Tómas Björnsson 1586 til um 1602, Bjarni Gíslason 1603, Gísli Bjarnason 1606, Eiríkur Stefánsson 1609.
Eftir að Krýsuvíkursókn var lögð til Strandar í Selvogi þjónuðu þar ýmsir prestar og munu margir enn kannast við nöfn margra þeirra. Má þar til nefna Eirík Magnússon hinn fróða, Jón Vestmann og síðast Eggert Sigfússon. Allir sátu þessir að Vogshúsum. Af síðari tíma prestum, er þjónuðu Krýsuvík um lengri eða skemmri tíma, má nefna Odd Gíslason að Stað í Grindavík, Kristján Eldjárn Þórarinsson að Stað, Ólaf Ólafsson að Vogshúsum síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, og Hafnarfirði og síðast Brynjólf Magnússon að Stað, er síðastur vann prestsverk í Krýsuvík.” – (Tekið saman í janúar 1961 – Ólafur Þorvaldsson).

Sjá einnig hér frásögn Ólafs Þorvaldssonar um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Heimild:
Lögberg-Heimskringla, 45. tbl. 22.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvaldsson, bls. 4 og 7
Lögberg-Heimskringa, 46. tbl. 29.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvalddson, bls. 1, 2 og 7.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Festarfjall

Árið 2001 var gerð svæðaskráning um “Menningarminjar í Grindavíkurkaupsstað”. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Kirkjustaður. Samkvæmt Landnámu nam Þórir haustmyrkr Selvog og Krýsuvík. ÍF I, 392-393. 1275; Krýsuvík og Skálholt eiga hálfan allan reka undir fuglabergi í landi Strandakirkju í Selvogi. 1284: Stadur j videy aa fiordvng j hvalreka j [krýss[v]ik) ok skal sa sem býr j kryssvvik senda mann til videyar þegar hvalvr kemvr adur þridia sol sie af himne ok lata skiera hval ok abyrgizt sem seigir j logbok.” DI II, 124 sbr. DI III, 212. DI II, 246,
sbr. 247, 248 og DI III, 749. 1356 var staðurinn 71 hndr og átti kirkjan allt heimalandið. DI III, 222. 1397: Þá á Krýsuvík fjöru í Keflavík til helminga við Kaldaðaneskirkju. Kaldaðaneskirkjra á “Saudahofn j krysevyk oc hvzrum manne ad geyma þar sauðda. fa kietil oc elldivid oc tvo menn til safna a vorid med þeim er sauda giæter.” DI IV, 54. 1479: lýste hvn þat. at einginn jtok væri j greinda jord vatzleysv. nema kirkian j kryssvvik ætti þar j Xc.” DI VI, 185-186.1524 eru þau kaup gerð að Viðeyjarkalustur eignast part Krýsuvíkurkirkju í Vatnsleysulandi og greiða fyrir fjögur hundruð til prests en kirkjunni áttæring. DI IX, 289. 1496 lét Stefán Jónsson Skálholtsbiskup meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna, “og staðinn aalan með hjáleiguhúsum innan garða.” – DI VII, 324. 1563: “Jtem hefe eg fullt vmmbod gefid mijnumm firrgreinndumm Radsmanne ad byggia Krysewijk fyrst sira Birne ef hann vill med þeirre landskilld sem hann kann af stad ad koma og med þeim leigukugilldumm sem þar kunna til ad setiast svo og med þeim skilmála vmm rekann og allt annad sem addur stendur vmm Grijndavijk.” DI XIV, 201. Kirkjustaður, eign Skálholtsstaðar, og var jarðardýrleiki óviss 1703.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Sama ár eru hjáleigur jarðarinnar Nýibær, Litli Nýibær, Norðurhjáleiga, Suðurhjáleiga, Austur hús og Vestur hús ásamt eyðijörðinni Gestsstöðum. 1847: 31 1/3 hndr, hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Vigðísarveellir, Bali og Lækur. Árið 1918 eru tvö býli í Krýsuvík en jörðinni ekki skipt á milli þeirra. “Krýsuvík. Svo í Ln (Hauksbók og Sturlubók), og því réttara en Krísuvík (í F og víðar).” Árbók 1923, 30.
Þórkötlustaðir áttu selför á Vigdísarvelli en Krýsuvík skipsstöðu í Þórkötlustaðanesi – Saga Grindavíkur I, 145.
Ummál Krýsuvíkurlands er á milli 60-70 km og á 300 ferkílómetra að flatarmáli. Gengið var frá afsali vegna kaupa Hafnarfjarðarkaupstaðar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ 1941. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 107.
Austasti hluti Krýsuvíkurlands (Krýsuvíkurhraun) og sá vestasti (Ögmundarhraun og Vigdísarvellir) heyra þó undir Grindavíkurkaupstað.
1703: “Túninu er hætt fyrir skriðum og fje fyrir hrakníngi um vetur, ef ekki er vel gætt.” JÁM III, 7.
1840: “Í hverfi þessu eru landkostir, hagaganga og heyskapur í meðallagi; ókostir, sérlegir óþerrar og snjókyngi, samt sérlegur uppblástur á öllum högum.” SSÁ, 219. 1918: Tún 5,4, garðar 420 m2. Svæðið milli Kleifarvatns og Grænavatns er engja svæði. “Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hygg, sunnarlega á túninu.” Ólafur Þorvaldsson: Árbók 1943-48, 87.
Hluti Krýsuvíkurlands tilheyrir nú Hafnarfjarðarkaupstað.

Gvendarhellir (hellir/fjárskýli)

Arngrímshellir

Í Gvendarhelli.

“Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp ad Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík … Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundur nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með suðafé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur.”
“Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, so alltíð má beita fé undir vind, af hvörri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum. Er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum eður máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þenna. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Sysitir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyrr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét hönum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gjörði áhlaupsbyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu, tekur hann ána þá og reynir í 3-gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvört sinn við hendur hans, brölti hún upp að hnjám hönum. Loksins gaf hann frá sér og skal hafa sagt löngu seinna, að út af á þessari hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hefi eg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðnalegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst. / Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar hönum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með 2r rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellirinn, hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þókti, bjó til étur úr tilgengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200um eftir ágetskun manna), fluti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu eða öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir 7tugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár á baki.” segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Herdís og Krýs og smali (dysjar)

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

“Norður af því [Krýsuvíkurhrauninu] uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg.
… Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitri Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur , sem Krýsuvíkingar kalla Hvítskeggshvam … Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan …” segir í örnefnalýsingu. “80 m norðan við malbikaðan veg, SV undir hlíðum Geitahlíðar. Við jaðar hrauns og vestan við þjóðleið.” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. “Dysjar tvær eða vörður (“Krýs og Herdís”) austan Kerlingardals, um hálftíma gang fyrir vestan Sýslustein.” Friðlýst (í Hafnarfriði) 30.04.1964, þinglýst 05.05.1964. – Fornleifaskrá, 12.
1840: “Forntíðarkonur 2, Krýs og Herdís, nafnkenndar af bæjum sínum, Krýsu- og Herdísarvíkum, áttu lönd saman, sem enn liggja þau. Vildi Herdís næstum eiga alla Geitahlíð af hennar landi, en hún vildi ei gefa eftir. Fundust þær á Deildarhálsi. Kom so hart í með þeim, að Herdís drap smala Krýsar, sem með henni var, en Krýs vildi hefna, og lauk svo með þeim, að hvör drap aðra. Eru þar 3 dys, þeirra beggja sunnan við götuna, en smalans uppí brekku fyrir norðan hana. Síðan heitir hálsinn Deildarháls.” segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. “… sögn um tvær konur, Krýs og Herdísi, sem deildu um beit og drápu hvor aðra. Enn eru sýndar rétt við veginn yfir hálsinn dysjar Krýsar og smalamanna, sem voru einnig drepnir.” Kålund I, 29. 1950:

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

“Spölkorn austan Eldborgarskarðs, þar sem hin forna leið liggur þétt við rætur hlíðarinnar, eru tvær fornar steindysjar. Báðar eru þær sunnan vegar, með mjög skömmu á milli. Dysjar þessar heita Kerlingar, og segja fornar sagnir um uppruna þeirra á þessa leið: / Krýs og Herdís, konurnar, sem sagan segir að fyrstar hafi búið á jörðunum Krýsuvík og Herdísarvík og jarðirnar síðan við þær kenndar, voru lengi búnar að eiga í deilum um landamerki jarðanna, eða komu sér ekki saman um hvar vera skyldu. Voru smalar þeirra oft búnir að elda grátt silfur sín á milli, út af fjárbeit, og vörðu oft spildur úr beitilandinu hvor fyrir öðrum og töldu, að með því rækju þeir erindi húsmæðra sinna. Erjur þessar leiddu til fjandskapar, ekki einasta hvað smalana snerti, heldur og millum þeirra Krýsar og Herdísar, sem báðar þóttust ofbeldi beittar. Þegar þóf þetta hafði farið fram um hríð, og óvild og ágengni færzt mjög í aukana, varð það þó að samkomulagi millum þeirra Krýsar og Herdísar, að endir skyldi bundinn á deilu þessa á þann hátt, að báðar skyldu þær fara, þar tilsettan dag, að heiman á sólarupprás og mörk ákveðin millum jarðanna þar sem þær mættust. Á tilteknum degi fara svo konurnar hvor heiman frá sér, Krýs frá Krýsuvík og Herdís frá Herdísarvík. Smala sína höfðu þær mð í för þessari. Ekki segir frá ferðum þeirra, fyrr en þær mættust á hálsi þeim, sem liggur austan Eldborgarskarðs. Umsvifalaust ganga þær til málanna, og sakaði Krýs Herdísi um að hafa brotið samkomulag það, sem þær höfðu áður gert, þar sem hún væri komin svona utarlega í landið, og hefði hún því hlotið að fara fyrr að heiman en tilsett var. Þetta vildi Herdís ekki viðurkenna og stóð fast á sínum rétti, sem hún taldi vera, en líklega hefur Herdís verið eitthvað minni fyrir sér.

Krýsa

Krýsa Sveins Björnssonar í Krýsuvík og ÓSÁ.

Um þetta deildu þær langa stund, og á meðan sú deila stóð gekk Krýs svo fast að Herdísi, að hún varð að láta undan síga, austur af hálsinum og yfir dal þann, sem austur af honum er. Með hverju skrefi, sem Krýs gekk fram, en Herdís aftur, hitnaði skap þeirra, svo að heitingum varð. Tóku þær þá að biðja hvor annarri óbæna, ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvíkina, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi og öfugugga, en báðar þessar fisktegundir taldar baneitraðar. Krýs lagði það á Herdísarvíkina, að ein eða fleiri skipshafni skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn, sem er smátjörn, fyrir túni Herdísarvíkur, innan við sjávarkambinn. / Þegar hér var komið sögu, var Krýs búin að hrekja Herdísi á eystri brún dals þess, sem áður er nefndur. Þar sprungu þær báðar af heift og mæði. Smalarnir, sem fram að þessu höfðu aðeins verið áhorfendur að því, sem fram fór millum húsmæðra þeirra, hugðu nú til hefnda. Ekki segir frá viðuregin þeirra annað en það, að þar féll Herdísarvíkursmalinn, en hinn fór heim og kunni frá tíðindum að segja. Staður sá, þar sem konur sögunnar mættust, heiti síðan Deildarháls, og dalurinn þar austur af Kerlingadalur. Þar, sem úrslitaþátturinn í þessari landamerkjaáreið fór fram, sjást enn hinar fornu grjótdysjar, sem … sagt er að séu kuml þeirra Krýsar og Herdísar. Fram á síðustu áratugi mátti sjá votta fyrir dys smalans, sem þarna féll, og var það neðst í hlíðinni ofan vegar, en er nú að fullu horfið undir skriðuhlaup. Dys Herdíar er talin sú eystri, Krýsar hin vestari. Heyrzt hefur, að til forna hafi sýslumörk verið um Kerlingar, en svo er staður þessi ávallt nefndur, og hefur þá línan sennilega verið milli dysjanna, þannig að hvor kona lægi í sínu landi.” Harðsporar, 109-111. Bjarni Einarsson lýsir dysinni svo: “Úr hraungrjóti, ca. 5 m í þvermál og 1 m há. Dysin er talsvert mosavaxin og í henni miðri er friðlýsingarhæll (laus). 2 m vestur af [henni] er [Krýs] … Gamla þjóðleiðin liggur austan við dysina og austan við leiðina, gegnt dysunum, er vörðubrot á kletti. … Ljósleiðari hefur verið lagður býsna nærri dysunum, þó ekki nær en 20 m.”

Húshólmi (bæjarstæði/bústaður)

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

“Neðst í hrauninu [Ögmundarhrauni], austast, er Húshólmi, og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið … Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist í hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna. Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt.”
Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609 (AM 66a 8vo, 55r-56v) (sbr. Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarharuns, 420). 1755: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” segir í hinni prentuðu Ferðabók Eggerst og Bjarna. Í dagbók þeirra fyrir 31. maí 1755 segir hinsvegar: “Om Effter middagen forloed vi Krisevigen med alle, og Reiste moed NV. först over et Nyt hraun, Ogmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey og Naar den er Kommen Ned til det Skionne flade land som her har været udvidet sig alleveigne vel over 3. miile langs med Stranden, taget bort Nogle bajer sem her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (som det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene.” ÍB 8 fol, s. 107v-108r (prentað í Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns, 420). 1817: “Hús-Hólmi, nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa TóptaBrotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan -vestan-sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallina Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid.” [afmg. 2: Um Húshólma er einnig getið í þjóðsögum um Ögmund og Ö.hraun] – FF, 227.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

1840: “Austan til við [Ögmundarhraun] er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niður sokknar, og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalaega. Hefur það verið vel stórt hús. Þó sjást ei tóftirnar allar, því hraunið hefur hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega yfir fullan helfming, því þar hefur vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2r túngarðshringir og hér um bil 20 faðma bil milli þeirra.
Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er og vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.” Sóknarlýsing Jóns Vestmann. 1883: “Á aðalhólmanum eru glöggir garðar, einn þeirra 300 m á lengd; þar er kallaður Kirkjuflötur. Á dálitlum bletti úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, eru bæjarrústir. Hefir hraunið að nokkru leyti runnið yfir þær, en nokkuð hefir orðið eftir, og standa veggirnir út undan hraunröndunum. Lengsta tóttin er 16 m, breidd hennar sést þar eigi fyrir hrauninu, sem runnið hefir yfir báða hliðarveggina; önnur, við enda hinnar þveran, er 10 m á lengd og 7 m á breidd, og hin þriðja sérstök rétt við, 10 m á lengd og 8 á breidd. Utan um hana, frá aðalrústunum, er boginn garður, líkur húsagörðum, sem fyrr tíðkuðust á Íslandi. Auk þess sjást tveir aðrir garðspottar. Grjótið í tóttum þessum er dólerít, sams konar og það grjót, sem undir hrauninu liggur.” – ÞT Ferðabók I, 189-90. “Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. … Þar undir hraunjaðrinum [við Húshólma] kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stenfir í suðaustur. hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skamt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata, er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefur tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur fr´anorðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið alt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., ennál. 5 fðm á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyri vegjgjum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin.

Húshólmastígur

Húshólmastígur.

Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kring um þessa rúst, og ekki veriður komizt að henni nema á hrauni. Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurin Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rúsin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hrauni hulin.”
Bjarni Einarsson skráði fornleifar í Húshólma sumarið 2000. Hann getur þess að fjórar samsíða línur sem Brynjúlfur Jónsson sýnir þvert yfir hólmann ofanverðan séu “sennilega gamlar reiðgötur sem ekki sjást í dag.” Á svipuðum slóðum skráir hann rúst (nr. 2300:4.4) “Ca. 35 m NNV af hæl 17 250, í blásnum móa. … Nánast hringlaga, 8-9 m í þvermál. Veggir ógreinilegir, en úr torfi og grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,1 – 0,5 m háir.
Talsvert rof er í kringum rústina og sjá má líklega hleðslusteina. Engar dyr sjást. Gólf er grasi og lyngi vaxið. Rofabarð við rústina var kannað og kom í ljós að rústin er eldri en 1226.” Rúst þessi hefur hnitið 63°50.22 N 022°09.52 W. Önnur rúst í Húshólma er “Sunnan við jaðar hrauns í móa. … 6 x 11 m (A – V). Veggir úr grjóti ca. 0,5 – 1 m breiðir og 0,2 – 0,8 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B). Dyr eru á hólfi A til suðurs. Hólf B er ógreinilegt og dyr ekki sjáanlegar. Veggir á hólfi A eru mosavaxnir en á hólfi B eru þeir grasi- og mosavaxnir. Gólf er grasi gróið. Í norðurhluta hólfs A er einskonar skúti í veggnum. Er hann hlaðinn úr mun stærra grjóti en veggirnir.” Rúst þessi hefur hnitið 63°50.26 N 022°09.34 W. Enn önnur rúst er “Ca. 4 m vestur af jaðri hrauns, í móa. … 2,5 x 3 m (A – V). Veggir úr grjóti, 0,3 – 0,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Dyr snúa til austurs eða norðausturs. Gólfið er vaxið lyngi.” Þessi rúst hefur hnitið 63°50.25 N 022°09.44. Ennfremur gerinir Bjarni frá túnagrði í Húshólma: “Við austur jaðar Ögmundarhrauns í Húshólma. Í móa. Garðurinn er úr torfi, 1,5 – 2 m breiður og 0,2 – 0,6 m hár. Garðurinn gengur ca. 50-60 m út undan hrauninu í dálitlum boga. Beygir hann síðan til suðurs og er þar mjög ógreinilegur. Þessi hluti liggur rétt vestan við mikið rofabarð. Að endingu gegnur hann inn í annan garð (ca. 60 m sunnar) sem einnig gengur út úr hrauninu. … Grafið var í rof á garðinum skammt austur af þeim stað þar sem hann kemur undan hrauninu og því haldið fram að hann væri eldri en landnámsgjóskan frá 871-72. Landnámsgjóskan lá í pælunni, en ekki garðinum sjálfum.”

Óbrennishólmi (fjárskýli)

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

“Þá er þar vestar og ofar [en Húshólmi] niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi.” segir í örnefnalýsingu. “Í [Ögmundahrauni] spölkorn hér frá [þ.e. Húshólma] er og óbrunninn hólmi og ófært hraun allt í kring nema einn lítill stígur, sem síðan hefur verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennirshólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisféð, meðan hraunið hljóp yfir heila plátsið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir), og að hann hafi ei getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi,” segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. “Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg.” segir Brynjúlfur Jónsson í skýrslu frá 1903. “Þessi rúst er enn greinileg. Hún er á hól syðst í hólmanum.” segir Jón Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði. “Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og digur garður þvert uppeftir. Slitin er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu, Á einum stað t.d. hverfur hann undir hraunnef, en kemur undan því aftur hinumegin. Efst hverfur hann undir hraunnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður milli Krýsivíkur og næstu jarðar fyrir vestan.”
8.8.1979: “Efst og austst í hólmanum rakst ég þá á hleðslu úr grjóti, sem hverfur inn undir hraunið. Við nánari athugun kom í ljós að þarna hefur verið – sennilega – fjárbyrgi eða rétt, sem hraunið hefur runnið inn í og yfir.
Það hefur runnið í lækjum yfir hleðsluna og jafnvel smogið inn milli steinanna.” segir Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði.

Ögmundastígur (leið)

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

“Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.” segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. “Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.” FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661] “Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krísuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð. Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftri að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitir hraunið síðan Ögmundarhraun.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

1840: “Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.” segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. “Frá Borgarhólum heldur leiðin í áttina að Ísólfsskála og áfram til Grindavíkur. Liggur hún þar bæði yfir blásna móa og úfið hraun. Í hinu úfna hrauni er leiðin yfirleitt rudd, ca. 3 m breið. Fornleiðin er vörðuð nær alla leiðina frá Krýsuvík að Ísólfsskála. Alla vega á einum stað er vísir að brú (veghleðsla) þar sem leiðin fellur ofan af stalli niður á hraun skammt vestur af Litlahálsi … Núverandi vegur hefur verið lagður ofan í gömlu leiðina frá Skalla og vestur að Ísólfsskála. Sömuleiðis hefur núverandi vegur legið yfir leiðina á stöku stað vestur af Ísólfsskála.” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.

Ögmundarleiði (legstaður)

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

“Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.” segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. “Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.” FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661]. “Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krýsuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftir að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitri hraunið síðan Ögmundarhraun.” “Austan við hraunið [Ögmundarhraun] í rótum Mælifells er Ögmundarleiðið, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. … Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli …”
1840: “Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.” segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Hettuvegur (leið)

Hetturvegur

Hettuvegur.

“[Drumbsdalavegur liggur yfir Sveifluháls milli Krýsuvíkur og Vígdísarvalla] Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann ég að staðsetja veg þennan.”
1883: “Síðan fórum við frá Vigdísarvöllum yfir Sveifluháls að Krýsuvík um Hettuveg (285 m), sem heitir eftir háu fjalli rétt sunnan við námurnar. Vegur þessi er allbrattur og eru hálsarnir báðir örmjóir að ofan, sagyddir og klungróttir, allir úr móbergi.” – ÞT Ferðabók I, 184.

Ketilstígur (leið)

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

1755: “Hverirnir í Krýsuvík liggja í dalverpi undir háum fjöllum á eldbrunnu landsvæði. Gatan niður af fjallinu í dal þenna heitir Ketilstígur. Hann er stuttur, en allbrattur.” segir í ferðabók Eggerts og Bjarna. “Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og í gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er  kringlóttur djúpur dalur eða skál niður í fjallið … Framan við Ketilstíg er Bleiksfflöt. Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt.”
Henry Holland lýsir leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur 1811 – Dagbók í Íslandsferð 1811, 80-82.
William Hooker lýsir Ketilsstíg 1809 – Ferð um Ísland 1809, 141-42. 1840: “Þegar komið er hér um bil í miðjan [Móhálsadal] liggur leiðin suðaustur til fjalla, yfir esytri Móhrygginn, og er þar fast hjá gígur einn í hálsinum, skammt ofan við dalbotninn. Þessi gamli gígur hefur nú að nokkru fyllst upp og gróið, hann er kringlóttur og var eitt sinn mjög djúpur; heitir hann Ketill og tekur vegurinn nafn sitt af honum og kallst Ketilsstígur. Þar er hálsinn nokkuð hár en ekki breiður og þegar kemur yfir hann eru nyrstu brennisteinsnámarnir í Krýsivík rétt við fætur manns.” Jónas Hallgrímsson, Ritverk III, 366. 1840: “Frá Krýsuvík liggur annar vegur til [Hafnarfjarðar], nefndur Ketilsstígur, 3 partar úr þingmannaleið að lengd, grýttur og brattur sem hinn … Litli-Nýibær í Krýsuvík er næst við Ketilsstíg … Ás í Garðasókn á Álftanesi er næsti bær við Ketilstíg að vestan.” SSÁ, 222.
1879: “Stuttur fjallvegur, en brattur liggur yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er af honum fagurt útsýni yfir fjörðinn til fjallanna fyrir norðan. Einnig er leiðin sem liggur af hálsinum niður að bænum í Krýsuvík talin mjög eftirtektarverð, því að hún bugðast að nokkru milli sjálfra námanna, og verður að gæta vel að sér að stíga ekki niður úr leirskorpunni, sem er laus og brothætt, en oft leynist undir sjóðandi leðja.” Kålund I, 29.

Sogasel (sel)

Sogasel

Í Sogaseli.

“Norðan við Grænavatnseggjar [hæð vestan Djúpavatns og er smávatnið Grænavatn á henni.], Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog. … Vestan í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel.” segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn i Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum.
Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls.
Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka.”

Selatangar (verbúð)

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

1703: “Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lendíng merkilega slæm, heitir plátsið á Selatöngum.” segir í jarðabók Árna og Páls. 1756: “Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima.” segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna. “Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar. … Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu.” segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkr. “Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út í Selatanga er]…Veiðbjöllunef…Austan við Veiðbjöllunef kemur Mölvík…þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahaun…Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. “Nokkuð austan við bæinn á Isólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar.”, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. “Verbúðatóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul ammnvirki í hinni fornu verstöð á Sealtöngum.” Friðlýst (í landi Ísólfsstaða) 01.09.1966, þinglýst 05.09.1966.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

“Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu: Tuttugu og þrjá Jóna telja má,/ tvo Árna, Þorkel, Svein./Guðmunda fimm og Þorstein, þá/ Þorvald, Gunnlaug, Freystein. / Einara tvo, Ingimund, Rafn, / Eyvind, tvo Þórða þar. / Vilhjálmur Gesti verður jafn / Vernharður, tveir Bjarnar / Gissura tvo, Gísla, Runólf, / Grím, Ketil, Stíg, Egil. / Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf, / Björn og Hildibrand til. / Magnúsar tveir og Markús snar / með þeim hannes, tveir Sigurðar. / Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn / þar sezt hann Narfa hjá. / Á Selatöngum sjóróðramenn / sjálfur Guð annist þá. – Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.” Íslenskir sjávarhættir II, 37-38. Guðrún Gísladóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: “Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla (rúst A á 4. mynd). á næstu nibbu austan við eru rústir sömu leiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka felstar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðatóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast (rúst B á 4. mynd). Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallin, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá. … Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhauni og utan í þeim.” “Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum er er nú hruninn…Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunefi.”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. “Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…”, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.

Tangadraugur (draugur)
“Á Seltöngum [045] hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga Tumi), sem talinn var hversdagslegur fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill, að hann “fyllti út í fjallaskörðin” að því er Beinteinn gamli í Arnarfelli sagðist frá.”

Vigdísarvellir (sel/bústaður)

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: Hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selstaða frá Þorkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þorkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krísuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaðalandi.”JÁM III, 14. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. 1840: Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830 en voru áður selstaða – SSÁ, 220, 221. Var í eyði um 1880 en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 – Saga Grindavíkur II, 86-87.
“Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.” Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess”.
“Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.” ” … 1879 féll sterk baðstofa á Vigdísarvöllum, en … (í) jarðskjálftunum 28. og 29. janúar 1905 … hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.” – ÞT Ferðabók I, 184.

Bali (bústaður)

Hjáleiga Krýsuvíkur, ekki nefnd í jarðatali 1703. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Þar er fyst getið búsetu árið 1840 og síðast 1850 – Saga Grindavíkur II, 87.
“Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.” Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess”.
“Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.”

Ísólfskáli (bústaður)

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

16 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. Saga Grindavíkur I, 142.
1703: “Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið. Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…” JÁM III, 8-9.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

1840: “Slétt tún eru á ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.” segir í sóknarlýsingu, Landnám Ingólfs III, 141.
“Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.”, segir í örnefnaskrá.
“Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].” – ÞT Ferðabók I, 184. Athugasemd á túnakorti: “Bærinn fluttur frá sjó, bygður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.”

Selsvellir (sel)

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

“…Hraunsseli, sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík. Þrengslin eru þar innar með hálsinum þar sem hraunið gengur næst hálsinum að vestan. Síðan taka við Selsvellir og þar upp af Selsvallafjall. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn í Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum. Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.”, segir í örnefnaskrá Vesturháls.
Staður í Grindavík átti selstöðuna á Selsvöllum, sbr. 1703: “Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum.” – JÁM III, 22. 1840: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík.” segir í sóknarlýsingu og ennfremur: “Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér, gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. … Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið.” Landnám Ingólfs III, 134. 1844:

Selsvellir

Á Selsvöllum.

” … í bréfi sr. geirs Bachmanns til biskups árið 1844 … segir hann … að hann hafi notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. – Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 nautgripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þetta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestssetursins “leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu”. Ef þessu héldi fram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir “óhemju átroðning og yfirgang”.” GB Mannlíf, 43-44. 1883: “Selvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju. Er þar ágætt haglendi og vatn nóg, lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunið. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grinavík, en er nú af tekið. Sjást þar enn tvennar eða þrennar seltóttir. Nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt og reka þangað fé og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra en víða þar, sem mikil byggð er. Væri það nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit á hálsinum.” ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir tóftum á Selsvöllu í skýrslu frá 1993: “Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel greina þær enn. … Þarna eru rústir í hraunjaðrinum sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í seli á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprestsins.” – Árið 1703 hföfðust útileguþjófar við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár – Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Drykkjarsteinn (þjóðsaga)

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

“…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Norðanvert við Slöguna er Drykkjarsteinn.”, segir í örnefnaskrá AG. “Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drykkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpa skál en litla um sig, og þar stóð oftast vatn í, sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.”, segir í örnefnaskrá.
“Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum.”, segir í örnefnaskrá AG. 1840: “… frá Krýsuvík út eða vestur til Grindavíkur, annar [vegur], og til Njarðvíkur sá vestlægari vegur. Skiptast þeir hjá Drykkjarsteini, markverðum þess vegna, að í enni stærstu holu, sem í hönum eru, fæst eður hefur oftast verið vatn, nema máske í allra langvaranlegustu þerrum, til svölunar ferðafólki á þessum langa vatnslausa vegi. En fyrir fáum árum síðan skyldu nokkrir ferðamenn örmæddir af þorsta ekki hafa fundið vatn í steinsholunni og einn þeirra fyrir þann skuld ósæmt í hana, og er sagt, að síðan hafi hún verið jafnan þurr. … Steinn þessi stendur á þurru aurmelsholti.” segir í lýsingu Selvogsþinga 1840. 1883: “Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls. Á leiðinni er á einum stað, á hálsi nokkru fyrir norðaustan Ísólfsskála, svokallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergssteinn með djúpum holum í. Sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita.” ÞT Ferðabók I, 180.

Hraunssel (sel)

Hraunssel

Hraunssel.

“Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur, sem Hraunssel heita.”, segir í örnefnaskrá.
“…sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík.”, segir í örnefnaskrá Vesturháls. 1840: “Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum.” segir í sóknarlýsingu. 1883: “Komum við fyrst að Hraunsseli (155 m). Það er nú í rústum, en ágætt grras er í kring og dálítil vatnsdeigla í klettunum fyrir ofan.” ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir Hraunsseli í skýrslu frá 1993: “Veggjarhleðslur uppi standandi þótt þær hafi látið á sjá. Þarna var sel frá Hrauni.”

Hraun (bústaður)

Hraun

Hraun við Grindavík.

26 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 9. 1847: Jarðardýrleiki 25 hdr. JJ, 84. Hjáleigur 1703:
Vatnagarður, Garðhús (í eyði) og ein ónefnd við heimabæinn. JÁM III, 10-11. Hjáleigur í örnefnaskrá: Draugagerði, Bakkar (Litla-Hraun), Sunnuhvoll, Hrauntún. Ö-Hraun LJ, 1.

Hraun

Brunnur á Hrauni.

1703: “Rekavon í betra lagi…Heimræði er árið um kríng en lending voveifleg…Engjar öngvar. Útigángur í lakasta máta hjer í sveit.”JÁM III, 9-10. Heimildir frá 18. öld gefa nokkra hugmynd um bújörðina Hraun, og virðast af þeim sem hún hafi þá verið einna lökust í sveitinni. Saga Grindavíkur I, 135. 1840: “Þar eru falleg tún og vel ræktuð; hefir nefndur hreppstjóri [Jón Jónsson] látið mikið slétta í túni sínu, og er þar þó ekkert illþýfi. … láglendið allt um kring túnið að vestan, norðan og útnorðanverðu er svarta lausasandur og lágar hraunklappir … Vatnsskortur er mikill á bæ þessum … Eigi verður þar höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega fluttir langt í burtu á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni. Bágt er þar og með beiti í fjöru á vetrum, því fjara er þar allsstaðar há, en lítið útgrynni. Gengur því oftast fé og hross í Þorkötlustaðanesi um vetur, hvar, eins og á öllum bæjum í Grindavík, er betri fjara en á Hrauni.” Landnám Ingólfs III, 140.
“Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða.”, segir í örnefnaskrá AG.
1840: “Bær þessi er hinn allra reisulegasti í sókninni…uppbyggð nú í seinni tíð þrjú stór og reisugleg timburhús.”SSG

Bænhús (kapella)

Fornleifar

Kapellan á Hrauni – friðlýstar fornleifar.

1840: “Á Hrauni var forðum bænhús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.” segir í sóknarlýsingu. “Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstraumfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er, að það hafi komið upp, þegar bænhús var aflagt á Hrauni (sennil. á 17. öld).”, segir í örnefnaskrá LJ.
“Enginn vafi leikur þó á því, að kirkja hafi verið á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum að sönnu ekki með vissu, hvenær kirkjan var reist, en…voru líkur leiddar að því, að með “Lónalandi”, sem getið er um í Vilkinsmáldaga, væri átt við Hraun. Fái sú tilgáta staðist, er ljóst að kirkja hefur verið risin á Hrauni árið 1397 og vafalaust allnokkru fyrr, en í Vilkinsmáldaga segir um “Lónaland” og kirkjuna þar, að Staðarkirkja eigi fjórðung í jörðinni og “…skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.” Með þessu er átt við það, að til Staðar skyldu renna leigur af jarðarpartinum eftir því sem umsemdist milli þess, er gætti kirkjunnar í “Lónalandi”, og ábúenda þar. Á hinn bóginn kemur ekki fram, hver þar var, sem gæta skyldi kirkjunnar. Hún virðist því ekki hafa verið prestsskyld, engar heimildir eru fyrir því, að til hennar hafi verið goldin neins konar gjöld eða tollar, og er því líklegast, að Staðarklerkar hafi samið um kirkjugæsluna við ábúandann á “Lónalandi” (Hrauni). Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir Fitjaannáll: “Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík..og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.” Þessi útför hefur væntanlega verið ein síðasta kirkjulega athöfnin, sem framkvæmd var í kirkjunni, eða í bænhúsinu, á Hrauni.
Kirkjan mun hafa verið aflögð skömmu eftir þetta og í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: “Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er nú fallin fyrir um 100 árum ongefer (circa vel paulo ante annum 1600).” Saga Grindavíkur I, 137-38. Í vísitasíu Staðar frá 1642 kemur fram að kirkjan þar átti klukku “sem kom frá Hrauni” – Saga Grindavíkur I, 108-109.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

1840: “Á Hrauni var forðum bænahús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.”SSG.
“Milli Festar [berggangur sem gengur úr Festarfjalli] og Dunkshellis upp með hömrunum með sjó er Hraunssandur. Heldur nær bæ en hellirinn er Hvalhóll. Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík.
Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág.”, segir í örnefnaskrá AG. “Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina [017]. Þar eru k[l]appir nefndar Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri-og Fremri-með skeri á milli…Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn, þegar hann var þjóðminjavörður, og taldi hann að þetta hefði verið enzkur verlsunarstaður.”, segir í örnefnaskrá LJ. “Á Hraunssandi, um það bil einum kílómetra fyrir austan Hraun, er örnefnið Kapellulág.” Saga Grindavíkur I. “Ca. 8 m SA af malarvegi og 26 m SV af hæl 5150” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. “Lítil rúst í Kapellulág, við veginn á Siglubergsháls.” Friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. “Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.”, segir í örnefnaskrá AG.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: “Kapellulág heitir lægðardrag nokkurt upp með veginum sem liggur frá Hrauni í Grindavík upp á hálsinn (Siglubergsháls). Í draginu er dálítil grjótrúst, nokkuð grasigróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðast vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir I al. á hæð. Nafnið Kapellulág bendir til þess, að hér hafi verið Kapella, án efa ætluð ferðamönnum til að gjöra þar bæn sína áður en þeir lögðu á Krýsuvíkurhálsa, sem hafa verið álitnir hættulegir eftir að jarðeldar runnu þar ofan. Rústin er raunar lítil til að vera kapellutóft.

Kapella

Kapellutóftin við Hraun eftir uppgröft.

En hafi kapellan verið af timbri og grunnur af grjóti undir, þá mundi rústin svara því, að vera leifar af þeim grunni. Einkennilega munnmælasaga hefir myndast um þessa rúst. Hún er á þá leið: Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjunum elti hann, og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þá dysjaður, og á rústin að vera dys hans.” BJ.
Fornleifarannsókn í Kapellulág 1954: “Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið “Húsið”. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni…Það var þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymst minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið; 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt til norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan.
“Fyrir nokkru benti Þórður Tómasson mér á merkilega heimild sem fram hjá mér fór en miklu máli skiptir. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar, sem hann skrifaði rétt eftir 1600, segir svo um biskupstíð herra Gissurar Einarssonar (þ.e. 1542-1548): “Á hans dögum slógust þeir Erlendur á Strönd og menn hans við Engelska í Grindavík, og fengu menn Erlends miklar skemmdir. Hann lét og þar um bil drepa tvo menn engelska, saklausa, – þeir lágu eptir, – annan á Bjarnarstöðum í Selvogi, þar í dyrunum, er hét Jón Daltun; hann sendi eptir honum í Fljótshlíð austur. Annan lét hann drepa á sandinum fyrir ofan Hraun í Grindavík, þar sem nú er kapellan; sá hét Nikulás”. – Safn til sögu Íslands I, Kph. 1853, bls. 86…þarna skrifar greinagóður maður um 1600 að Kapella sé á Hraunssandi…Í fljótu bragði mætti þetta virðast ótrúlega lítið guðshús, jafnvel þótt kapella sé, á eyðilegum stað…Lítil bænhús við alfaraveg voru (og eru) víða til í kaþólskum löndum. Hér á landi eru dæmi um slíkt mjög fá. Þess vegna væri mikil um vert að geta með vissu sagt að litla húsið í Kapellulág sé í raun réttri slíkur helgistaður.” KE. Sumarið 2000 kom Bjarni Einarsson í Kapellulág: “5 x 6 m (NA-SV). veggir úr grjóti, en form á rústinni ekki sýnilegt. Rústin er 0,6 m há og mjög blásin. Friðlýsingarhæll er utan í rústinni að NV verðu.”
Dysin hefur hnitið 63°51.04 N 022°21.45 W.

Dalssel (sel)

Dalssel

Í Dalsseli.

“Rétt innan við Innstadal, norður undir hrauninu, sem hér heitir Dalahraun, eru Nauthólsflatir, og austast á þeim er hóll, sem heitir Nauthóll…Innst með Fagradalsfjalli, eða beint norðan þess, er gamalt sel, sem hét Dalssel, og inn af því undir vesturhorni fellsins, sem heitir Fagradals-Vatnsfell, er Fagradals-Hagafell.”, segir í örnefnaskrá AG.

Sandakravegur (leið)

Sandakravegur

Sandakravegur.

“…norður af Höfða er Sandfellið…Vestan við Leggjabrjótshraun, Fagradalsfjalls. Næst við Kálffell er Eldborgir. Svo tekur við mikið hraunflæmi og afarfornt, sem heitir Dalahraun…Skammt vestur af Fagradalsfjalli er í því tveir hólar með talsverðu millibili, og heita þeir Innri-Sandhóll og Sandhóll, sem er hærri og sunnar. Meðfram fellinu liggur hér gamall vegur, norðan úr Vogum, og heitir hann Sandakravegur. Lá hann um Móhálsa.”, segir í örnefnaskrá AG.
1840: “Sá norðasti [aðalvegur] kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun …, fram hjá Fiskidalsfelli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.” segir í sóknarlýsingu.

Dúnkhellir (hellir)

Dunknahellir

Dúknahellir á Hraunssandi (lengst t.v).

“Fyrir austan hana [Kapellulág] er allmikil hæð, og af henni skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnkhellir. Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til að festa skip…” KE.
“… hafi Írar fest þar skip sín. Þessir járnhringjar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefður verið þarna.”KE. “Munnmæli eru um það, að í Selskeri, framundan Eystri-Nípu [á merkjum Hrauns og Ísólfsskála], hafi verið annar af tveim festarboltum og að þar hafi forðum verið skipalega. Þetta er þó fremur ólíklegt, vegna þess að á þessum slóðum er sjór sjaldan kyrr og erfitt að athafna sig við út- og uppskipun.” segir í Sögu Grindavíkur I. Munnmæli um skipshringi Íra í sjávarhömrum við Grindavík pr. í Þjóðsögur og munnmæli 1899, s. 1.

Þorkötlustaðir (bústaður)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

60 hdr 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. JÁM III, 11, 14. Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13. 1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tímthúsið Borgarkot. SSG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…”Eptir þremur afsals bréfum 8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84. Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir.
1703: “Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.”JÁM III, 12, 14.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

1840: “Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.” Landnám Ingólfs III, 139. “Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.”Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. “…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.”Saga Grindavíkur I, 129.
21.9.1670: “Áður en Sigmundur [Jónssson] tók við búi á Þórkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, “hornshús”, “hús innar af skála”, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu [000]. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir “trosnaðir” og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.” Saga Grindavíkur I.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: “Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt að ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var sæmilegur grjótveggur, rúml. I al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart við það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim var öllum eldslitur. Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

En auðséð var að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mestallt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þuml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þuml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tík við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefðir verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum “eldaskdla”. Þrepið ætlað til að sitja á , en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur. Eldfjallaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.”BJ.

Þorkötlustaðaviti (viti)

“Í [Þorkötlustaða]nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti.”, segir í örnefnaskrá AG.

Vogavegur / Skógfellavegur (leið)

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

“Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima…Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun…”, segir í örnefnaskrá AG.
“Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um.”, segir í örnefnaskrá LJ.
“Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi.”, segir í örnefnaskrá LJ. GK-016:020 er “afleggjari” af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

“Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.”, segir í örnefnaskrá LJ.

Látragötur (leið)
“Látragötur eru slóðar úr vestur enda Stekkatúns fram í Látur.”, segir í örnefnaskrá LJ. “… úr vesturenda [Stokkatúns] og fram í látrin eru götuslóðar, sem Látragötur heita.” segir í Sögu Grindavíkur I.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

“Framundan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun…og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð…sem heitir Gjáhólsgjá….Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiftist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót…Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnaflatir.”, segir í örnefnaskrá LJ.
“Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú.”, segir í örnefnaskrá LJ.
“Önnur gata [en Eyrargata] er norðar og liggur um kirkjuhóla og fram hjá Hópi.”, segir í örnefnaskrá LJ.

Hóp (bústaður)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

32 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 14. 1847: 33 1/3 hdr. Seld er hún í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eptir afsalsbréfum 8. August 1787 og 26. Januar 1791. JJ, 84. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öld en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talinn hafa heitið Hof.
1703: “Engjar öngvar…Flæðihætt er fyrir sauð. og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.”JÁM III, 15. 1840: “Er jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegleikum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. … Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðzt hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda: þegar fiskur gengur afar grunnt, hefir þar inni þorskur fengizt og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi … á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyzlu.” Landnám Ingólfs III, 138-39. “Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú er þar hafnarmannvirki Grindvíkinga.”Ö-Hóp, 1.
“Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af.”, segir í örnefnaskrá AG.
“Sagt er að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum.”, segir í örnefnaskrá AG. 1902: “Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgi, að þar hafi verið “goðahús” í heiðni.”BJ.

Goðatóft (álagablettur)

Hóp

Hóp – Goðatóft.

“Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft…”, segir í örnefnaskrá AG.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. “Goðahús” svo nefnt á Vesturbæjarhlaðinu, nú fjós” – friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. BJ: “Bærinn Hóp í Grindavík er sagt að upphaflega hafi heitið Hof, og að þar hafi verið goðahof. Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgir, að þar hafi verið “goðahús” í heiðni. Þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota það á hvern hátt sem ábúanda hagar. Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; “goðahúsið” hefir til skams tíma verið geymslu-skemma, en nú er það haft fyrir fjós.” Árb. 1903, 46-47
“…gamalt goðahús friðlýst, sem ekki má róta.”, segir í örnefnaskrá AG.

Selháls (sel)

Hópssel

Hópssel.

“Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan í fellinu er svonenfndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir…Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Þetta er sunnan við Dagmálaholtið.”, segir í örnefnaskrá AG.
“Dagmálaholt mun vera kennt við eyktamark frá selinu á Baðsvöllum [sel frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni]. Einnig er Selháls kenndur við það sel [Hópssel]… Fast við veginn eru seltættur, sem virðast yngri en hin selin.”, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerðarstaðir (bústaður)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. “Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.” JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra-Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: “Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.”JÁM III, 16. “Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eisn og önnur býli hér.” Ö-Járngerðarstaðir SS, 1. 1840: “Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hvefi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.” Landnám Ingólfs III, 137-138.
1840: “Tvíbýli er á heimajörðinni og fylgja hverjum parti 5 hjáleigur…” segir í örnefnalýsingu “Nokkur um Dalinn…Þessar “holur” voru nokkurs konar uppsprettur undir bökkunum. Úr þeim var tekið allt vatn í bæinn, sem kallað var, það var til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum, báðum bæjum…”, segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa (8×5,5 al.), göng (4×1,5 al.), Bæjardyr (6×2,25 al.), skáli (7×3 al.), eldahús (9×4 al.), búr í norðurenda baðstofu (4×5,5 al.), fjós m. 3 básum, hesthús f. 3 hesta, heyhús (8,5×3 al.), smiðja (7×3 al.), sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd (50 fðm), túngarður 160 fðm og traðargarður 85 fðm og kálgarður – Saga Grindavíkur II, 57-58.

Gerðavellir (búðir)

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

“Frá Stórubót [vik inn í landið við Malarenda] liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gegnur gegnum Rásina um flóð.”, segir í örnefnaskrá AG.
“Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.”, segir í örnefnaskrá AG. “Munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stóru bót í Járngerðarstaðalandi.” segir í Sögu Grindavíkur I, 251. “Á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa vara á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stóru bót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartíman. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Af honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.” segir í Sögu Grindavíkur I, 240-41. “Heimildir um “Tyrkjaránið” 1627 herma, að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin og hafa haft bækistöðvar sínar til árins 1939, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík …” segir þar ennfremur á s. 253. Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.

Skipstígur (leið)

Skipsstígur

Skipsstígur.

“Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.”, segir í örnefnaskrá AG.
1840: “Miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaða- eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu.” segir í sóknarlýsingu.

Baðsvellir (sel)

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

1703: “Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu haga oflitlir og þröngvirr. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.” segir í jarðabók Árna og Páls. “Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.”, segir í örnefnaskrá AG.
“Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig … Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll.”, segir í örnefnaskrá AG.

Stekkjarhóll (stekkur)
“Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.”, segir í örnefnaskrá AG.
“Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baða sig…Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll [Stekkhóll]”, segir í örnefnaskrá AG. “Þetta með seltóftina og Stekkjarhól getur verið rétt. Þetta var þá víst í Hópslandi.”, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.

Gyltustígur (leið)

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

“Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni…Vestan í Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr.”, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerður (legstaður)

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

“Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðhúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem um 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður.”, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
“Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum, og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það nú samt horfið fyrir nokkru.”, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Rannsókn í Gullbringusýslu og Kjósarsýslu sumarið 1902 eftrir Brynjúlf Jónsson: ” Járngerðaleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. Ég lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.”BJ.

Engelska lág (vígi)

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

“Upp af Stórubót, á Hellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða …” – “Aðsetur [enskra kaupmanna á fyrri hl. 16. aldar] var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn, þar sem heitir “úti á Hellum”, upp af Stóru bót, og er líklegt, að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig á fyrri öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nær hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld.

Jángerðarstaðir

Virkið.

Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið …” segir í Sögu Grindavíkur I. “… stóðu búðir Jóhanns Breiða og félaga hans skammt upp af Stóru bót, sem er u.þ.b. einn kílómetra fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Þar er örnefnið Engelska lág (eða laut), og herma munnmæli, að þar hafi Jóhann Breiði og aðrir Englendingar, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júlí 1532, verið dysjaðir. Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðisvellir … Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.”, segir í Sögu Grindavíkur I, 246-47.
1532: “Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.” Skarðsárannáll.

Þjófagjá (þjóðsaga)

Grindavík

Grindavík – í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

“Stór sprunga klýfur topp [Þorbjarnarfells] og heitir Þjófagjá. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað Í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum … Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá, og engar mannvistarleifar hafa fundist þar.” segir í Sögu Grindavíkur I.

Húsatóptir (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir.

33 hdr. 1840, óviss 1703. Konungsjörð og liggur til Viðeyjarklausturs. “Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.” Hjáleigur: Kóngshús og Garðhús. JÁM III, 20. 1836: “Seld með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði.” SSG, 136. 1847: Jarðardýrleiki 33 1/3 hdr.JJ, 85. “Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.” GB Mannlíf, 39.
Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946 – GB Mannlíf, 91. 5 tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamrar (til 1930) og Reynistaður (1934-38).

Húsatóftir

Húsatóftir og Staður – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana 1751.

1703: “Túnið er á næstliðnu vori þann 19. maí virt aldeilis fordjarfað að fjórðúngi sínum. Þeir eftirverandi fjórðúngar mjög spiltir af sandi og enn hætt við meiri skaða. Engjar öngvar. Mestalt land jarðarinnar hraun og sandi undirorpið.”JÁM III, 20. 1840: “…fyrir norðan og útnorðan túnið er víðast hvar náttúrleg gyrðing af lágum hraunhömrum, sem þar gjá er kölluð; líkt er og fyrir sunnan túnið sjálfgerð gyrðing af sama efni, em þeim mismun, að hér liggur túnið fram á klettana, þar sem það að norðanverðu hefir skýli af þeim og liggur upp undir þá…Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau og allvel ræktuð.” Landnám Ingólfs III, 136.
1840: “Bærinn stendur spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti…” segir í sóknarlýsingu. Á túnakorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar og gætu það verið tveir bæir eða bær og útihúsaþyrping – eru um 20 m á milli.
“Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Aðrar menjar sjást þar ekki. Er líklegt, að kaupmanns”húsin” hafi verið rifin þegar verzlunin lagðst niður, en svo aftur byggður bóndabær í “tóftum” þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefir nú.” segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930 en fram að því hafði verið þar torfbær – GB Mannlíf, 83.
1786 voru heima á Húsatóftum íbúðarhús verslunarmanna, byggt 1777, 10,6 x 7 m að stærð, múrað í binding með torf og grjótveggjum að utan en göflum úr timbri. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, 7,2×4,4 m að stærð m. veggjum úr torfi og grjóti en þak úr timbri – GB Mannlíf, 117-118.

Kóngshús (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

“Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóttavör …” Hjáleiga 1703. JÁM III

Búðasandur (verslunarstaður)

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

“Upp af Kóngshellu er Búðarhella. … Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðafjöru allt frá Tóftavör, sem er vestast í Garðafjöru.” – GB Mannlíf, 21. “Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör.
Ennþá sést móta fyrir grunni þess.”, segir í örnefnaskrá. “Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóftum.” segir í sóknarlýsingu frá 1840. “Á innri klöppinnni [ofan við Kóngshellu], sem er mun hærri, hafði krambúðin síðast staðið. Þar stóð enn fiskisöltunarhús Húsatóftarmanna, er eg reri þar, 1865 og 1866; og þar á klöppinni var aflanum skift eftir róðra og gjört að fiskinum. Þá var þó klöppin umflotin af sjó í stórstraumsflóðum. Nú er hún enn meira umflotin og ekki þykir lengur óhætt að hafa hús á henni. Hefir það nú verið flutt í land, og sjást engin merki eftir byggingu á klöppinni.” segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903.
“Verzlun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur er nú á. Skipin lágu milli hans og skers, sem heitir Barlest. Í Hólmanum eru enn kengir úr járni, sem skipin voru bundin í. Tangi gekk út að skerinu, og hét Búðartangi, af því verzlunarhúsin stóðu þar, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi.” ÞT Ferðabók I, 179 “Fyrir mörgum árum var verið að grafa þar fyrir sjóhúsi. Þá fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kóngshöndlunar.” GB Mannlíf, 85. 1787 voru þar þessar byggingar: Búðin, byggð 1779, 12,5 x 7,5 m að stærð; Eldhús með múraðri eldstó, 6 x 4 m og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð) einnig 12,5×7,5 m að stærð – GB Mannlíf, 117. Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664 en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn “fluttu sig nú um set vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindavíkurhöfn árið 1751 … má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, þar sem heiti Búðasandur …” seegir í Sögu Grindavíkur I, 255. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin sem reist var 1731 og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð. Saga Grindavíkur I, 255-56.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745 en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og “gamla pakkhús” en hann varð endanlega gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806 – Saga Grindavíkur I, 256-65.

Prestastígur (leið)

Prestastígur

Prestastígur.

“Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá…Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.”, segir í örnefnaskrá.
1840: “Sá fjórði og síðasti vegur, sem út úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má nefnast, liggur upp frá Húsatóttum, í útnorður ofan í Hafnirnar, og er hann sá eini, sem héðan verður farinn þangað.” segir í sóknarlýsingu. = Prestastígur

Byrgi (útilegumannabústaður)

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

“Miðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið [Eldborgarhrauni] úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, út í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni.”, segir í örnefnaskrá.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. “”Útilegumannabæli” svo nefnt, í hraunkvos norðvestur af túninu.” friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. 1883: “Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun … Í því skoðaði ég á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna, á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir, fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hrunhellum og hleðslan virðist einföld. Gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 5-6 m að lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennnan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna, tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun 1872.” ÞT Ferðabók I, 177-78. “Getgátur eru um, að þarna hafi menn flúið – annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannavist þarna. Sléttar klappir eru þarna og hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunpípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.”, segir í örnefnaskrá.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar sumarið 1902: “Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma leið þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870….Rústirnar er í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað og sinn hraunriminn oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vesturbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng og þá 7 fðm. austar en hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum hraunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir; eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum. Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáhalt hver við annarri. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess er Sæmundur [Jónsson á Járngerðarstöðum] sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tótftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Þar hefir víst verið “á flestu góðu mesta óhægð”. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum….Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni. Og trúa myndi ég, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t.a.m. 10-14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefðu komið á þennan stað. En það sýnist mér ekki vera.” Árbók 1903. 1959: “Skammt vestur af Sundvörðunni, sem er við austurbrún þess hluta Grindavíkurhrauns, sem við hana er kennt, er hraunkvos, sem er opin móti vestri. Hefur apalhraunið þar fyrir austan kvíslast í tvennt og þannig myndað kvosina. Í kvosarbotninum er slétt helluhraun, alþakið mosa, en litlum öðrum gróðri. Í kvos þessari eru rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, og tvær rústir eru uppi á brún apalhraunsins fyrir sunnan kvosina. Rústir þesaar eru mjög vel faldar inni í hrauninu, og þar eiga að jafnaði engir leið um, enda voru þær ókunnar, þar til þær fundust af tilviljun veturinn 1872. … Stærsta tóttin innst í kvosinni hefur verið byggð inni í hraunviki, og að norðanverðu hefur hraunbrúnin verið notuð fyrir vegg.

Eldvörp

Dagbjartur Einarsson í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni.

Þessi tótt er langmest úr lagi gengin af öllum tóttunum, svo að erfitt er að ákveða lögun hennar og stærð. Þó virðist hún hafa verið um 4 m á lengd að innanmáli og 1,50 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Í henni hefur verið milligerð, sem skipti henni í tvö herbergi. Bendir Brynjúlfur á, að þessi tótt sé líklegust til að hafa verið mannabústaður. Enn fremur getur Þorvaldur Thoroddsen þess, að bak við þennan kofa sé önnur tótt, djúp eins og brunnur, og þar hafi hann fundið tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Varla getur hér verið átt við aðra tótt en innri endann á sjálfri tóttinni í hraunvikinu, en hann hefur verið aðskilinn frá hinum hlutanum með millivegg og Þorvaldur því kallað hann sérstaka tótt. Þetta eru eunu trjáleifarnar, sem fundizt hada í rústunum, og annars er ekkert, sem bendir til að nokkur spýta hafi verið í þeim. Reft hefur verið yfir allar tóttirnar með hraunhellum, en þakið er allsstaðar dottið niður og hellurnar eru inni í tóttunum eða við þær. Stærstu hellurnar eru um 80 X 90 cm að stærð. Tótt 7 er hringmynduð, og veggir hennar eru miklu lægri en hinna tóttanna. Segir Brynjúlfur eftir Sæmundi bónda á Járngerðarstöðum, að þar hafi hann fundið ösku og skörung úr járni. Ef gert er ráð fyrir að tóttin í hraunvikinu hafi verið aðal-íveruhúsið á þessum stað, liggur næst að halda, að hringmyndaða tóttin hafi verið eldhús eða eldstæði. Tóttirnar nr. 8 og 10 eru mjög litlar og ómerkilegar að sjá. En tótt 9 er einkennilegust allra tóttanna. Eiginlega eru það þrjár tóttir, sem snúa göflum saman, en oðnast hver í sína áttina. Þessar tóttir eru miklu minni en tóttirnar inni í kvosinni. Í einni þessara tótta er ein þakhella enn óhögguð, og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í rústum þessum. Að lokum skal þess getið, að skammt fyrir norðan kvosina, sem rústirnar eru í, er annað hraunvik, sem gegnur inn af sömu hraunsléttunni. Innst í því hefur verið hlaðið upp í öll skörð, svo að þar hefur myndazt aðhald, sem varla hefur verið gert til annars en að handsama fé. Hraunvik þetta er opið að framan, svo að varla hefur verið um eiginlega fjárrétt að ræða. … öruggt vatnsból er ekki nær en í hraungjá einni um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu … Enn fremur er á sumum árstímum hægt að fá vatn rétt við kofana (að minnsta kosti var þar vatn í mái 1950). … Þær eru alþaktar mosa og hljóta því að vera nokkurra alda gamlar.” segir Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Árnastígur (leið)

Árnastígur

Árnastígur.

“Sunnan við Klifgjá er Árnastígur, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfisins og Keflavíkur liggur um Árnastíg og Klifgjá, þar n-austur af er Þórðarfell. Þá er Stapafell og Stapafellsþúfa sem er mikilvægur punktur um landamerki milli ýmissa jarða á Suðurnesjum.” GB Mannlíf, 23.

Staður (bústaður)

Staðahverfi

Staður.

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði – Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi – Ö-Staður, 4; GB Mannlíf, 49-50. “Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.” GB Mannlíf, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki (1908-43), Lönd (1911-46), og Melstaður (1936-50).

1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnunm manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …” sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930. Klukknaportið framar.

21.1.1925: “Gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold “svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.” ” GB Mannlíf, 49.
“Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann.” “Grunnur og tröppur steinhússins [b. 1938] sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð. Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.” AS Staður, 7. Úttekt af bænum á Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur I, 101-103 og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan.

Kirkjugarður / kirkja

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

“Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans. Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.”
Um klukknaportið – GB Mannlíf, 55 og um sögu og skrúða kirkjunnar – GB Mannlíf, 136-44, Saga Grindavíkur I, 108-13. Koparbjallan í klukkuportinu er ú Anlaby, sem strandaði utan við Jónsbása.

Sjávarhús (bústaður)
1840: “Sjávarhús, austur við sjóinn hjá lendingunni; eru þau eyðilögð í mikla flóðinu 1798, og stendur þar nú fiskihjallur á háum, berum kletti; fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði.” segir í sóknarlýsingu. “Staðarklöpp var umflotin á flóði og mun hér áður hafa verið nefnd Hjallhólmi. Um 1916 mátti sjá tættur hæst á Staðarklöpp, en þeim skolaði síðan burt í flóðum. Tættur þessar hafa líklega verið af gömlum fiskihjöllum … Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp.” Í GB Mannlíf, 25-26 er talað um hjáleiguna Sjóhús, norðan við Þvottakletta, en að á Staðarklöppinni hafi verið sjóhús fram til 1930 en á bls. 56 segir: “Sjávarhús. Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. Var síðan reistur þar fiskhjallur á háum, berum kletti og féll sjór milli hans og naustanna í hverju stórstraumsflóði.” Guðsteinn Einarsson lýsir þessu svo: “Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var undir því moldarjarðvegur, ca. 2m á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber.” GE Frá Valahnúk.

Staðarvör (lending)

Staðarvör

Staðarvör.

Fast norðan við Staðarklöpp er Staðarvör, flórlögð upp í sandinn. Á.V. og S.V.G. vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum.” segir í örnefnalýsingu.
“Innan við Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir á land.” segir Guðsteinn Einarsson.

Básar (þjóðsaga / býli)
“Þá [utan við Sölvabása] koma Flóabásar (kallast nú Hróabásar), eign Staðarkirkju. Þar skal hafa staðið bær og heitið í Básum.”
ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Háleyjar (þjóðsaga / býli)

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

“Þá koma Háleyjar. Á Staðarkirkja þar hálfan viðreka en Viðeyjarklaustur hálfan, og hefur sá helmingur fylgt Húsatóftum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur. Í Haleyjum skal hafa verið bær.” hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Á sjálfri Háleyjabungu er grasgróður, en hún er þó minna en 1/3 er gróin og hvergi er bæjarstæði eða sýnilegt vatnsból. Algerlega gróðursnautt er austan og vestan við bunguna. Engar fornleifar eru á þessum stað.
“Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi, og rústir og tóttabrot uppi á kampinum geta bent til þess, að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir, en hafi hún verið einhver, er líklegast, að útvegurinn hafi verið frá Húsatóttum. Húsatóttamenn áttu sölvatekju í Háleyjum, og er reyndar alls ekki loku fyrir skotið, að byrgistrústirnar séu leifar eftir þær athafnir. Þeir, sem á sölvafjöruna fóru, hafa að líkindum legið við þarna út frá og sjálfsagt þurrkað sölin, eftir því sem mögulegt var.” segir í Sögu Grindavíkur I.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Í örnefnalýsingu segir: “Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu.” sbr. GB Mannlíf, 30. Hið rétta um þessa rúst kemur fram í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903: “Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalenfing ekki verið notuð.” Árbók 1903, 44. Leitað 1998 en ekkert fannst – starfsmaður í Saltverksmiðjunni sem segist mikið hafa gengið á þessu svæði kannst ekki við þessar rústir.
Um 1860: “Skarfasetur heitir hin yzta tá á Reykjanesi; þa er þar austur frá kallað Rafnkelsstaðaberg, þá Háleygjahæð …” sgir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. “Fyrir innan Básinn tekur við mishátt berg, 10-40 metra hátt. Það er oftast nefnt Krossvíkurberg, en Guðsteinn Einarsson kveðst einnig hafa heyrt það kallað Rafnkelsstaðaberg. … Ekki er vitað til þess, að bæjarnafnið Rafnkelsstaðir hafi nokkurntíma  verið til í Grindavíkurhreppi, og reyndar mun engin jörð á Suðurnesjum hafa heitið svo, nema Rafnkelsstaðir í Rosmhvalaneshreppi.” segir í sögu Grindavíkur I. Einnig er getið um þennan stað í örnefnalýsingu: “… utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær.”
Gróðurlausir sjávarhamrar.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að þar hafi verið bær nefndur Hrafnkelsstaðir – Árbók 1903, 43-44. Engar fornleifar eru við Hrafnkelsstaðaberg.

Mölvík (þjóðsaga / býli)
1703: “Þá kemur Mölvík, Staðarkirkjueign. Þar skal og hafa verið bær og þar er vatnsból hjá.” Um 1860: “… þá Mölvík, sem samnefndur bær á að hafa staðið við …” ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Sandvík (þjóðsaga / býli)
1703: “Þar næst Sandvík, Staðarkirkju eign, skal og hafa verið bær.” segir í Chorographiu Árna Magnússonar.
Um 1860: “… þá Háleygjahæð og Háleygjar, þá Sandgerði tvö við Sandvíkurnar.” segir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. “Þarna er talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum “byggilegum” stöðum á þessum auðnarslóðum.” segir Gísli Brynjólfsson í bók sinni um Staðhverfinga. “Hvorki [Sigurður V. Guðmundsson] né [Árni Vilmundsson] kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.” segir í örnefnalýsingu. ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Krossvík (þjóðsaga / býli)
“Stóra-Krossvík kemur þá. Hana eignar sér Staðarkirkja í Grindavík, en aðrir eigna hana Nesskirkju á Seltjarnarnesi og hefur nú Þorkell í Njarðvík af Nessmönnum rekann þar. Í Krossvík skal hafa verið bær.” hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Algerlega gróðursnauð klettaströnd.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að bendi til byggðar áður en hraun runnu þar – Árbók 1903, 44.

Herkistaðir (þjóðsaga / býli)
“Þar næst [utan við Krossvík] eru Herkistaðir. Skal hafa verið bær, eign Staðarkirkju.” hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Þverhnípti klettaströnd, gróðursnautt. Engar fornleifar eru á þessum stað.

Skarfasetur (þjóðsaga / býli)
“Næst Herkistöðum er Skarfasetur. Skal hafa verið bær. Eigning er þar óviss. Þar er og gagnslaust öldungis, því þar er engin fjara. Á Skarfasetri halda menn hafa verið kirkju Reyknesinga og er það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. Þessa bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og er þar  engum amnni byggjandi.” hafði Árni Mganússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Skarfasetur er gróðurlaus klettatöng og er á henni lítill viti.
Engar fornleifar eru á þessum stað.

Sundlaug

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

“… örskammt ofan við [Valahnúka] Mölina er gjá í hrauninu, sem heitir Valbjargargjá. Í henni var ylvolgt vatn, og þar var gerð sundlaug um 1930. Laugin var um 30 fermetrar að stærð, og var börnum í Grindavík kennt þar sund. Sjór mun hafa gengið inn í gjána, því dýpi í lauginni fór eftir því, hvernig stóð á sjó. Nú er sundkennsla í gjánni löngu aflögð, en enn má sjá ummerki eftir hana, hlaðinn steinvegg og tröppur niður í vatnið.” segir Jón Þ. Þór í Sögu Grindavíkur. 1998: Sundlaugin er syðst og vestast í túni frá vitavarðabústað, um 10 m norðan við Sjólaug, um 250 m SSV við Reykjanesvita.
Í náttúrulegri sprungu. Við austurenda sprungunnar hefur veggur verið hlaðinn upp með hraungrýti og myndar “U” á móts við sprunguna. Gengið er niður í laugina norðantil á austurvegg. Hleðslan í norðurenda er 1,5 m há en þar er klöpp í botninn en suðurendi laugarinnar er 3m djúpur. Veggurinn í austurenda er um 0,7 m hærri en umhverfið en hefur þó tæplega verið vatnsheldur. Mjög sérstætt mannvirki.

Gunnuhver (þjóðsaga)

Gunnuhver

Gunnuhver.

1841: “Hver er á Reykjanesi, Gunna kallaður, skammt eitt í landnorður af Grasfelli. Bullar hann og sýður í leireðju en ekkert sést tært vatn; er hverinn utan í hól; holan, sem sýður í með mörgum augum, er hér um 12-16 faðmar ummáls og niður að eðjunni fullkomnar þrjár álnir. Fremur líkist hver þessi bullandi feni en nokkrum vatnshver og öldungis ólíkur öllum þeim hverum, ég séð hefi í Borgarfirði, Biskupstungum og Laugardal.” – “Um Hveravelli, sem eru norðaustur frá vitanum, er Gunnuhver, sem mun vera hérna megin merkjanna. Hann er kenndur við Guðrúnu sálugu Önundardóttur, sem steypti sér þar niður á leið yfir í eilífðina.” Gunnuhver er vel merktur og auðfundinn. Gert hefur verið bílastæði skammt sunnan við hann og gönguleið að honum og pallur við hann.
1860: “”Hverir eru hér út á Reykjanesi fæstir mjög stórir og gjósa ei hátt. [. . .] Einn hverinn er stærstur; í honum krakkar eins og katli. Sá hver er kallaður Gunnuhver,. . . Í þessum hver endaði afturgangan Gunna eftir að hún var búin að ganga aftur um hríð og valda skaða meðal manna. Upphaf sögunnar var það að prestur nokkur átti í útistöðum við Gunnu sem síðan dó og hóf að ásækja fólk og sérstaklega prest og konu hans. Hún dró bæði hjónin til dauða áður en menn tóku sig saman, fóru til Eiríks í Vogsósum sem gaf þeim hnoða og sagði þeim að láta Gunnu taka í. Það gerðu þeir og Gunna elti hnoðann ofan í Gunnuhver og sást ekki síðar.” – MG. “… gufuhver einn mikill skammft … frá [Gunnuhver] er kominn þar upp á þessari öld … Rétt hjá “Gunnu” er töluverð fúlga af hreinni kísilsýru (kísill), sem lengi var kölluð postulínsnáma, af því að menn hugðu það vera postulín, en lítill arður hefir enn orðið af henni.” Bjarni Sæmundsson: Suðurkjálkinn, ÁFÍ 1936, 40.
Vilhjálmur Jónsson á Kirkjubóli (d. 1706) átti í útistöðum við kerlingu eina, Guðrúnu Önundardóttur, út af potti sem hann átti að hafa tekið hjá henni, líklega upp í skuld. Heitaðist hún við hann. Vilhjálmur var viðstaddur greftrun hennar en fannst dauður, blár og beinbrotinn á víðavangi daginn efti. Var prestur fenginn til að vaka yfir líkinu en þóttist eiga fullt í fangi við að verja það fyrir ágangi kerlingar. Afturgangan magnaðist mjög og næst dó ekkja Vilhjálms en fólk sem fór um þar sem lík hans fannst annaðhvort viltist eða varð vitstola. Þegar afturgangan var orðin svo mögnuð að menn sáu hana fullum sjónum voru sendir menn til séra Eiríks í Vogsósum en þegar þeir fóru af stað aftur frá honum fékk hann þeim hnoða sem þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sendimenn fóru þá heim og gerðu eins og fyrir þá var lagt. Þegar Gunna tók í lausa endann á hnoðanu valt það af stað en hún á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin. Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er. JÁM III, 508-510

Heimild:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.

Grindavík

Grindavík.

Staðarhverfi

Árið 199 var gerð rannsóknar skýrsla um “Fornleifar Staðarhverfi”. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Staður

Staður

Staður.

Árið 1964 fór Staður með öllu í eyði og þar með Staðarhverfið.
Elsta heimild sem varðveist hefur um húsakost á Stað, er „Reikningur kirkjunnar og Staðarins í Grindavík“, sem gerður var eftir andlát síra Gísla Bjarnasonar árið 1657. Þar var bæjarhúsum lýst allnákvæmlega þó að innbyrðis afstaða þeirra sé ekki skýr. (jþþ,101-3).
Torfbær var á staðnum fram til 1938 er Jón Helgason ábúandi á Stað byggði steinhús ásamt stórri viðbyggingu. Grunnur og tröppur steinhússins sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð.
Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann… – Árið 1964 fór Staður með öllu í eyði og þar með Staðarhverfið.“ (Örn.).

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði. Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinróf  hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi. Ö-Staður, 4; GB, 49-50. “Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.» GB, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki, Lönd, og Melstaður.

Staður

Staður fyrrum.

c. 1200: Staður í Grindavík (G) -Maríu, Jóni post, Stefáni, Ólafi, Blasíu, Þorláki, Katrínu. Kirknaskrá Páls, DI XII, 9.
1367: lxx. Kirkia ad stad j grindavijk er vijd med gude sælle mariu Jone postula. þad ber allt samann vid wilchinzbok. bæde vm reka og annad. vtann hier stendr suo. Kirkia a reka fra Biargsenda og til gardzenda er geingur fyrir vestann arfadalinn. Jtem stendur hier suo. skalhollttzstadr a helming j hualreka ollum vid stad j grindavijk ef meira er en iiij vætter. millum Rangagiogurs og valagnupa annad ber samann. vtann vilchinzbok helldur nockut meira. Hítardalsbók, DI III, 221-222.

Staður

Staður 1960.

1397: a halftt heimaland oc halftt annad mælisland ad Hvsatopttum og mork vadmäla af Jarngierdarstodum. alldri skal minna gialldast þott sa hafi eingi fie er þar byr. giallda skal oc alla kirkiutiund þott hann giori meiri oc aller heimamenn. Þadann skal oc eigi giallda legkaup vnder heimamenn. gialldi þo presti legsaungskaup. [+á grasnautnar hvalreka, reka og viðreka] Þar skal vera heimilisprestur. sa er kirkiu vardveiter. skal abyrgiast hana ad aullu oc allt kirkiufie Kirkia ä Skogfell. giallda skal til Skalholltz vjc skreidar hvert är oc flytia til Hialla. Hun a fiordung j Lonlandi. og skal sa hafa leigu af þeim sem kirkiu vardveiter slijka sem settist vid þann er þar byr. Skalhollt a helming j hvalreka ollum vid stad j Grindavik ef meire er enn iiij vætter millum Rangagiogurs oc Valagnvpa. Þar eiga fleiri j. enn þad verdur attungur skipttingarhvals er hlytst j þessu takmarke j Skalhollti. og þvi eiga Staderner fiordung vr aullum hval. vmm framm aa kirkian or Grindavijk settung vr Hvsatoptta hlut aukist ij kyr oc iij ær. ij hvs. iij hundrad. Jtem gefist sidan sira Ormur tok med einn hestr. portio vm iij ar xvij aurar; Máldagi Staðrkirkju, DI IV,
101-102.

Staður

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

1477: Grindavijk. Kirkian ad stad j grinndavijk er vijgd med gude oc sælle gudz modur märie. jone postula. stephano. olauo. Blacio biskupe. Thorlacho Biskupe oc heilagre katrijnu meyiu fiorum nottum eptir allra heilagra messo. hun a allt heima lannd oc halft annars mælis lannd ad husatoptum oc mork vadmala. af jarngerdartodum. aldreij skal minna gialldst þott sä hafi einngin fee sem þar byr. giallda skal oc alla kirkiutijunnd þott hann giore meire oc allir heimamenn. þadan skal oc ej giallda lægkaup vnndir heimamenn. giallde þo preste legsaungskaup. hun ä ä grasnautnnar hualreka fiorar vættir oc settunng vr þeim hluta er husatoptum fylgir. enn sa hualreke er frä valagnupum til biarnnargiär. enn ef hualur er meire enn iiij vætter þa skal skipt j helmijnnga oc skal hafa stadur j grinndavijk oc jarngerdarstader oc husatoptir helmijnng. þar skal vera heimilisprestur sa er kirkiu vardveitir [oc] skal abyrgiast hana oc allt kirkiufee.kirkia a reka fra gardzbiargz ennda oc til gardz ennda er geingur fyrir vestann arfuadale. hälfur vidreke j mille biarnnargiär oc marks ä arfadalznese. halfur vidreke ä oddbiarnnarkelldu. kirkia a skogfell. hun a iiij kyr. xij ær. iiij saude veturgamla. nockrer hluter jnnann gätta feelitlir et cetera giallda skal til skalhollts .vj. hunndrud skreidar huert är oc flytia til hialla. hun a fiordung j lonalannde oc skal sa hafa leigu af þeim sem kirkiu vardveitir slijka sem hann sættist a vid þann er þar byr. skalhollt a helmijnng I hualreka ollum vid stad j grinndavijk. ef meire er enn iiij vætter millum rangagiogurs [oc valagnupa]. Máldagi Staðarkirkju, DI VI, 125-26. [Þjsks Bps A II, 1, bl. 122a-b].

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

1491-1518: Stadar maldagi j grindavik. Kirkian aa stad j grindavik er vigd med gude: sælli marie og johanne postula. steffano. olafe konge. blasio biskupi. thorlake biskupe. heilagre mey katrine: iiij nottvm eptir allra heilagra messo. hun aa allt heimaland: og hvn aa allt halft annad mælisland at husaþottum. og mork vadmala ath jarngerdarstodvm. alldri skal minna gialldazt þott sa hafi eigi fie er þar byr: giallda skal og alla kirkiv tivnd þott hann giore meire og allir heimamenn. þadan skal og giallda legkaup undir heimamenn. giallda þo presti liksaungskaup. hvn aa grasnautnar hvalreka iiij vættir og siettung vr þeim hlvta er hvsaþottvm fylgir. en sa hvalreki er fra valagnvpvm og til biarnargiar. ef hvalvr er meire en iiij vættir: þa skal skipta j helminga: og skal hafa grindavik og jarngerdarstodvm og hvsaþottir helming. þar skal vera heimilisprestur sa er kirkiu vardveitir: skal hann äbyrgiazt hana at ollv og alltt kirkiv fie: kirkia aa reka firir biarksenda og til gardsenda er gengvr firir vestan arfadali: halfur vidreki aa millvm biarnargiar og markz aa arfadalsnesi. halfur vidreki a oddbiarnarkielldu. kirkia a skogfell: hvn a vj kyr og hesta ij: vj c j busbuhlutum: med skipi: hvn a fiordvng j lonalandi og skal hafa af þeim sem kirkiv vardveitir sliktt sem hann verdvr vid þann asattvr er þar byr.skalholtz stadvr aa hellming j hvalreka ollvm vid stad j grindavik ef meire er enn iiij vættir aa millvm rangagiogvrs og valagnvpa þar eigv flerie j: En þad verdur attungur skiptingar hvals. er hlytzt j þessv takmarki j skallhollt. og þvi eiga
staderner fiordung vr ollvm hval. og vm fram kirkian j grindavik siettung vr hvsaþotta hlvta. Máldagi Staðarkirkju, DI VII, 48-49 [AM 238 4to, bl. 28 (Bessastaðabók skr. c. 1570); JS 143 4to, bl. 19-20, 149-50 skr. 1696 – þessi máld er samstofna Vilchin og sennilega eldri útg. ef eitthvað er – stofninn án efa frá 13. öld sbr. ábyrgðarákv og orðalag eins og ‘búsbúhlutir’].
1553-54: Máldagi Staðarkirkju, DI XII, 663-664.
1575: Máldagi Staðarkirkju, DI XV, 640.
16.2.1907: Selvogsþing lögð niður og Krýsuvíkursókn lögð til Staðar í Grindavík. PP, 95 [lög].

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930.

16.11.1907: Kirkjuvogssókn lögð til Staðar. PP, 12 [lög].
1909: Staðarkirkja flutt í Járngerðarstaðahverfi. PP, 102.
29.10.1929: Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin lögð til Grindavíkurkirkju. PP, 95 [stjórnarráðsbréf].
1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnum manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …” sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.
21.1.1925: “gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold “svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.” “ GB, 49.

Hrafnkelsstaðaberg (bústaður)

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Vestan við Háleyjarbungu er smálægð. Framan við hana er Krossvíkin en utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg. Þykir það nafn benda til þess að þarna hafi verið bær meðan Staður var í „miðri sveit“. (GB,30; Örn.)

Beinrófa/Beinróa (hjáleiga)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjáleigur eru: … Beinrófa… Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok“ (GB,40). Þeirrar hjáleigu er hvergi getið í eldri heimildum
svo vitað sé nema hjá Árna Magnússyni. (GB,57) og ekki er vitað hvar hún á að hafa staðið.

Blómsturvellir (hjáleiga)
Skammt austur af kirkjugarðinum var bakki, allstór, nefndur Blómsturvöllur. Hann var fast austan við túnið. Húsatóftir voru austast á Blómsturvelli. Hafa þær líklega verið af samnefndu býli – en þess getur Geir Bachmann svo í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41: „Blómsturvellir, austan til í túninu, af sandi eyðilagðir síðan 1800, og sést þar nú lítt til rústanna.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 134).
Blómsturvellir eru taldir í byggð í úttektargerð árið 1774 (GB,57).
„Nú hefur verið sléttað úr Blómsturvelli og er þar nú bílastæði við kirkjugarðinn og tóftirnar alveg horfnar. Þá nær nýi kirkjugarðurinn aðeins út á Blómsturvöll.“ (Örn.).

Hús Daða Símonssonar (hjáleiga)
„… þetta vor [1657] voru sjö hjáleigur byggðar í landi Staðar… tvær voru kenndar við ábúendur sína, … og Hús Daða Símonssonar… Enginn veit nú, hvar … bæir þeirra Ólafs og Daða stóðu, en
hugsanlegt er, að … þeir… hafi verið hjáleigurnar, sem síðar voru nefndar Blómsturvellir og Stóragerði.“ (JÞÞ,104).

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Hús Ólafs Sighvatssonar (hjáleiga)
„… þetta vor [1657] voru sjö hjáleigur byggðar í landi Staðar… tvær voru kenndar við ábúendur sína, Hús Ólafs Sighvatssonar…Einna myndarlegastur virðist bær Ólafs Sighvatssonar hafa verið …
Enginn veit nú, hvar … bæir þeirra Ólafs og Daða stóðu, en hugsanlegt er, að … þeir… hafi verið hjáleigurnar, sem síðar voru nefndar Blómsturvellir og Stóragerði.“ (JÞÞ,104).

Krókur (hjáleiga)

Staður

Staður-loftmynd 1954.

„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: … Krókur… Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok“ (GB,40).
Krókur stóð vestur við Móakot. Hann var í byggð 1703 en sr. Geir Bachmann segir í sóknarlýsingu sinni frá 1840, að um hann sjáist lítil merki, en að hann hafi staðið „í túninu sem nú er ræktað milli
Móakots og Staðar“. (Örn.;GB,57).

Krubba/Krukka/Brykrukka (hjáleiga)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: … Krukka … Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok.“ (GB,40).
„Krubbhóll er fast sunnan við Dægradvöl. Sagt er, að á honum hafi fyrir löngu staðið hjáleigan Krubba og dragi hann nafn sitt af heinni. Er þar líklega um að ræða sömu hjáleiguna og séra Geir
Bachmann nefnir Krukku í sóknarlýsingu sinni: Krukka veit ég ei, hvenær var í lögð í eyði, en þar er nú lambhús.“ (Örn.).
Enn heitir Krukkuhóll rétt neðan við brunninn í Staðartúni. (GB, 57).

Kvíadalur (hjáleiga)

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Sr. Geir Bachmann telur í sóknarlýsingu sinni frá 1840 upp hjáleigur staðarins: „c. Kvíadalur, kvígilda- og húslaust, tómthús. Landskuld 1 vætt.“ (GB,40).
Kvíadalur hefur verið lagður undir staðinn þegar úttekt var gerð 1928. Skammt suður af Hundadal er Brunndalur, slétt flöt neðst í túni. Liggur hann frá austri til vesturs næst sjávarkambinum.
Hjáleigan Kvíadalur var suðaustast í Brunndal, niður við kamp. Sjást rústir hans vel ennþá er örnefnaskrá fyrir Stað er gerð 1977. (GB,34,40,50; Örn.).
„Neðst í Staðartúni, rétt ofan við kampinn, þar sem hafrótið hefur hlaðið sínum mörgu sæbörðu hnullungum í myndarlega hrönn, þarna austarlega fyrir miðri Staðarbótinni – þar standa
enn lágar grasi grónar tóftir hjáleigunnar Kvíadals … Í manntali 1822 er Kvíadals ekki getið, svo að þá mun þar ekki hafa verið byggð. En fólk hefur verið þar löngu fyrr, því að í þessu sama
manntali eru tveir menn fæddir í Kvíadal annar 1767 hinn 1786. Í manntali 1829 eru talin þar til húsa Hálfdán Jónsson 32 ára og Gróa Gísladóttir kona hans ári yngri. [Engin byggð í Kvíadal
1833-1845. Síðustu ábúendur voru Eyjólfur Oddsson og Vilborg Ólafsdóttir] … Skammt varð á milli gömlu hjónanna í Kvíadal. Vilborg dó 30. maí 1918 en Eyjólfur ári síðar 22. maí 1919.
Síðan hefur Kvíadalur legið undir Stað en gróin tóftarbrotin niðri við sjávarkambinn minna okkur enn í dag á hið hógværa mannlíf í smábýlinu í túnfætinum á prestssetrinu.“ (GB, 66-67).

Litlagerði (hjáleiga)

Staðarhverfi

„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: … Litlagerði … Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok.“ (GB,40).
„Litlagerði var u.þ.b. 70-100 m í vestur frá Staðargerði, þar í túnjaðrinum.“ (Örn.).
„Frammi á Gerðistöngum vestanverðum spölkorn vestan við rústirnar af Stóragerði sér enn móta fyrir undirstöðum húsanna í Litlagerði innan um sæbarða hnullunga, sem brimið hefur
skilið þar eftir í síðasta flóði. Ótrúlega nærri sjónum hefur bærinn staðið. Rétt framan við bæjarþilin hefur brimhvítt löðrið úðazt yfir svartar fjöruklappirnar. Áður fyrr var Litlagerði þó í enn
nánara sambýli við hafið, því að svo segir sr. Geir Bachmann í sóknarlýsingu sinni 1840: „Þar sem Litlagerðishúsin stóðu er nú hár og stórgrýttur malarkambur“. Það virðist vera upphaf byggðar
í Litlagerði innan þess tímaramma, sem hér er miðað við, að þangað kemur vorið 1851 Halldór nokkur Bjarnason austan af Skeiðum. (GB,72).
Lagðist í eyði 1914. (GB,73).

Staðarhverfi

Staðarhverfi og konungsverslunin – uppdráttur ÓSÁ.

Melstaður (hjáleiga)
„Melstaður nefnist nýbýli frá Stað. Húsið er um 5-600 m norðaustur frá Stað, sunnan undir svonefndun Hvirflum. Húsið var byggt 1936, en skemmdist mjög í eldi árið 1950 og lagðist þá af föst búseta á Melstað.“ (Örn.).

Móakot (hjáleiga)

Staðarhverfi

Móakot.

Sr. Geir Bachmann telur í sóknarlýsingu sinni frá 1840 upp hjáleigur staðarins: „a. Móakot, kvígilda og húsalaust, þó fylgir grasnyt. Landskuld 2 vættir.“ (GB,40).
„Móakot var u.þ.b. 150-200 m austan við Stað. Garður var milli túnanna. Nú er hann horfinn og túnin sameinuð.“ (Örn.).
„Móakot var í byggð fram á öld steinsteypunnar og ber þess augljós merki enn í dag, þar sem stæðilegt hús ber sig vel og reisulega, þótt það hafi staðið að mestu autt og yfirgefið í þrjá áratugi.
Það stendur hátt á barðinu vestast í Staðartúni… Bærinn stendur uppi fyrir miðri Staðarbótinni, víkinni, sem liggur opin til hafs milli Staðarmalar og Gerðistanga…“ (GB,57-58).
Elsta byggð sem minnst er á í bók Gísla er frá 1822, byggð lauk 1945.

Nýibær (hjáleiga)

Staðarhverfi

Staðarhverfi – loftmynd 1954.

„Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“ (Örn.).
Búseta í Nýjabæ hófst vorið 1889 og lýkur 1910 er heimilisfólkið flutti til Reykjavíkur. Nú sjást engin merki um þennan bæ, en hann mun hafa staðið rétt norðan við Staðartúnið þar sem þjóðvegurinn
liggur nú út á Reykjanes. (GB,76-77).

Sjávarhús (hjáleiga)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: …Sjávarhús. Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok.“ (GB,40).
Hjáleigan Sjávarhús stóð líklega á Staðarklöpp austur hjá Staðarvör. Skv. lýsingu sr. Geirs Bachmann hvarf hún í Básendaflóðinu 1799. (GB,25,26; Örn.).
Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. (GB,56).

Stóragerði/Staðargerði (hjáleiga)

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

„Staðargerði eða Stóragerði stóð niður á svonefndum Gerðistöngum , u.þ.b. 250 m suður frá Löndum. Venjulega var það bara nefnt Gerði.“ (Örn.).
Sr. Geir Bachmann telur í sóknarlýsingu sinni frá 1840 upp hjáleigur staðarins: „b. Stóragerði, kvígildislaust, baðstofa og eldhús, samt grasnyt fylgir. Landskuld 2 vættir.“ (GB,40)
„Nesið milli Staðarbótar og Arfadalsvíkur heitir Gerðistangar… Nes þetta dregur nafn af bænum sem á því stóð og var kallað Stóra-Gerði. Trúlegt er að upphaflega hafi bærinn heitið Staðargerði,
enda kemur það nafn oft fyrir í manntalsbókum og víðar. Fyrst hefur verið girt þarna hólf utan við Staðartúnið, notað fyrir nátthaga eða því um líkt. Síðan er byggður þar bær – Staðargerði. –
Löngu síðar annar bær – Litla-Gerði. Þá fær fyrra býlið nafnið Stóra-Gerði. Enn sjást bæjarrústir Stóragerðis vel og bera glöggan vott um hýbýli þar og húsaskipan enda er ekki nema um hálf
öld síðan það fór í eyði … Heim að þessum fornu, grænu rústum liggja fagurlega hlaðnar traðir í mjúkum boga. Fram af bænum hefur verið traustlega hlaðinn kálgarður. Á bæjartóftunum
sést að þetta hefur verið reisulegur bær og rúmgóður. Steinlímdir kambar baðstofunnar standa að nokkru leyti enn … Árið 1786 bjó í Stóragerði Þorgeir nokkur Halldórsson, ekkjumaður með 5 menn í heimili. Þá var vel búið í Stóragerði, því að Þorgeir var hæsti framteljandi í Staðarhverfi – 4 hundruð.“ (GB,68-9).
Stóragerði er í „löglegri byggingu“ þegar úttekt var gerð 1928. (GB,50).

Stóra-gerði

Stóra-Gerði. Uppdráttur ÓSÁ.

„Hjáleiga frá Stað. Getið er um mann fæddan í Stóragerði 1745 en búskapar þar er fyrst getið 1786 og var búið þar til 1919.“ Ekki er ljóst hvaðan þessar heimildir eru komnar en líklegast er að þær komi frá heimildamönnum er rætt var við árið 2002.
1840: “Stóragerði, í landsuður frá Stað, fram á Gerðistöngum.” SSGK, 134. Þar segir jafnframt að Litlagerði hét hjáleiga sem braut í Básendaveðrinu 1799 en 1851 er aftur byggð hjáleiga með því nafni og var þar búið til 1914.
„Stóragerði var í „landsuður frá Stað, fram á Gerðistöngum.“ Hefur þess verið getið til, að nafn hjáleigunnar hafi upphaflega verið Staðargerði, en síðan breytt í Stóragerði, er hjáleigan Litlagerði var byggð lítið eitt vestan á töngunum. […] Bærinn byggðist ekki aftur […], og var því sögu hjáleigunnar lokið um fardaga árið 1918.“ Saga Grindavíkur 1800-1974, 41-42.
„Enginn veit nú, hvar Beinróa eða bæir þeirra Ólafs og Daða stóðu, en hugsanlegt er, að tveir þeir síðarnefndu hafi verið hjáleigurnar, sem síðar voru nefndar Blómsturvellir og Stóragerði.“ Saga
Grindavíkur 1800-1974, 104.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði – uppdráttur.

“Enn sjást bæjarrústir Stóragerðis vel og bera glöggan vott um híbýli þar og húsaskipan […] Heim að þessum fornu, grónu rústum liggja fagurlega hlaðnar traðir [sjá 009] í mjúkum boga. Fram af bænum hefur verið traustlega hlaðinn kálgarður . Á bæjartóftunum sést að þetta hefur verið reisulegur bær og rúmgóður. Steinlímdir kampar baðstofunnar standa að nokkru leyti enn og bera þögult en greinilegt vitni um mannlíf fortíðarinnar á þessum bæ […].” segir í Staðhverfingabók eftir Gísla Brynjólfsson.
“Staðargerði eða Stóragerði stóð niður á svonefndum Gerðistöngum, u.þ.b. 250 m suður frá Löndum. Venjulega var það bara nefnt Gerði,” segir í örnefnalýsingu. Á heimasíðu Ferlis segir:
„Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, því sem næst í miðju túninu. Þá eru níu hús á bæjarhólnum auk þriggja annarra útihúsa í túninu. Tóftir Stóragerðis eru enn varðveittar um 550 m suðaustur af Stað GK-028:001, yst á Gerðistöngum. Heimatúnið er óraskað og ekki hafa orðið miklar breytingar þarna nema af völdum sjávar og gerð sjóvarnargarðs á svæðinu seint á síðustu öld.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði – uppdráttur.

Norðan við bæinn eru gróin tún inn til landsins en skammt sunnan hans tekur við stórgrýttur sjávarkampur. Bæjarhóllinn er 30 x 20 m að stærð og snýr norður-suður. Tóftir síðasta bæjarins ná yfir stærstan hluta hólsins og ekki eru greinileg ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög undir honum. Þau sjást þó á smá kafla norðaustan við bæinn, þar sést bæjarhóllinn og er um 0,3 m á hæð og gróinn. Bæjartóftin er 27 x 17 m að stærð, snýr norður – suður og skiptist í níu hólf/hús auk gangs. Op eru fjögur til vesturs (hólf 1-5) og þar voru stafnar bæjarins. Eins og segir hér ofar þá stendur einn dyrakarmurinn ennþá uppi (sjá hólf 3), þar var baðstofan. Tvö hólf eru opin til austurs (hólf 6-7) og eitt til suðurs (hólf 8). Hólf 9 er norðarlega inni í tóftinni, austan við hólf 4-5.

Hleðsluhæð í hólfunum er mest um 1,3 m og umför grjóts allt að átta. Veggirnir eru grjóthlaðnir og víða er tekið að hrynja úr þeim. Þetta eru engu að síður heillegar minjar og mjög sjónrænar. Hér neðar er nákvæmari lýsing á hólfunum. Hólf 1 er syðst og er raskað til suðurs. Það er 4,1 x 2 m að innanmáli en helmingur þess er horfinn, það sést á túnakorti frá 1918. Stafnar þess snéru til vesturs. Hólf 2 er norðan við hólf 1. Það er 6,1 x 5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Hólfið er opið til vesturs, þar var þil. Á túnakorti frá 1918 sést að þarna voru fleiri hólf en þau eru horfin.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Hólf 3 er norðan við hólf 2 og var baðstofa. Steinlímdir karmar bæjardyranna standa enn að hluta. Hólfið er 5,5 x 2,5 m að innanmáli. Hólf 4 er norðan við hólf 3. Það er 4,3 x 1,7 m að innanmáli og opið til vesturs. Hólf 5 er nyrst í bæjarröðinni. Það er 4,1 x 1,9 m að innanmáli og veggirnir hafa hrunið hér að hluta. Hólf 9 er austan við hólf 4-5, inni í tóftinni. Það er 5 x 1,8 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er opið inn í hólfið í suðausturhorni, innan úr hólfi 6. Til austurs í bæjartóftinni eru tvö hólf opin. Hólf 6 er norðar. Það er 4 x 1,8 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Í suðvesturhorni þess er op inn í gang sem liggur yfir í hólf 9. Hann er 3 m langur. Hólf 7 er sunnar. Það er 4,7 x 2,1 m að innanmáli og op er í suðausturhorni. Gangur liggur til suðvesturs, yfir í hólf 2. Gangurinn er 6 m langur og bogadreginn. Hólf 8 er sunnan í bæjartóftinni. Það er 6,4 x 2,8 m að innanmáli og opið til suðurs. Op er á því til norðvesturs, yfir í hólf 2.

Vestur-Hjáleiga (hjáleiga)
Vestur-Hjáleiga virðist hafa staðið í hlaðvarpanum á Beinróu samkvæmt elstu heimild sem varðveist hefur um húsakost á Stað: „Reikningur kirkjunnar og Staðarins í Grindavík“ frá 1657. (JÞÞ,101,104)

Hjallur
Eftir að hjáleigunni Sjávarhúsum skolaði burt 1799 var byggður fiskihjallur á Staðarklöpp. Um 1916 mátti sjá tættur efst á klöppinni en þeim skolaði síðar burt í flóðum. (GB,56; Örn.)
Samkvæmt Gísla Brynjólfssyni stóð sjóhús á Staðarklöpp fram til 1930. (GB,26).

Kirkja – Staðarkirkja

Staðarhverfi

Letursteinn í kirkjunnar stað.

„Á Stað í Grindavík mun kirkja hafa verið reist í öndverðri kristni en fyrst er hennar getið í kirknatali Páls biskups frá um 1200. Og á Stað stóð hún að öllum líkindum á sama grunni, í meira en 700 ár a.m.k… Allt fram til ársins 1836 var torfkirkja á Stað. Þá var reist timburkirkja… Trúlega hefur Staðarkirkja ætíð staðið á þeim stað, sem síðasta kirkjan stóð – inni í kirkjugarðinum, þar sem klukkuturninn er nú. Sáluhliðið var þá á vesturhlið garðsins, fram undan kirkjudyrum. Í því var klukknaport. Aðrar dyr voru á kórgafli til afnota fyrir prestinn vegna þess hve þröngt var orðið í framkirkjunni þegar guðsþjónustan hófst.
Kirkjan var, ásamt Guði og mörgum dýrlingum helguð Blasíusi biskupi… Staðarkirkja var allvel efnuð, átti heimaland allt, rekasælar fjörur (ásamt með Skálholtskirkju), 4 hundr. í fríðu, 7 hundr. í skipum. Auk þess hafði Staðarprestur tekjur af tveim jörðum með kúgildum austur í Árnessýslu, Stóru-Borg í Grímsnesi (30 hundruð að fornu mati) og Hvoli í Ölfusi (20 hundr.).“ (GB,136-7).

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

„Sumarið 1858 var reist ný kirkja fyrir forgöngu sr. Þorvalds Böðvarssonar, sem þá hélt Stað. Var hún af sömu gerð og hin fyrri kirkja en nokkuð stærri eða um 50 m2. Er fram tekið í kirkjulýsingunni, að hún sé byggð á traustum grunni og rammbyggileg… Kirkja sr. Þorvalds var sú síðasta á Stað.“ (GB,142).
„Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“ (Örn.).
„Ekki er vitað, hve margar kirkjur hafa verið á Stað í aldanna rás, en af vísitasíugerð frá árinu 1642 má sjá, að þá hafði síra Gísli Bjarnason nýlega látið reisa þar kirkju. Hún er elsta Staðarkirkjan, sem við vitum eitthvað um að gagni, og var lýst svo í vísitasíugerðinni: „Kirkjan í sjálfri sér með kórnum sterk og ný að sínum viðum, súðþak og nýtt öðrumegin. Kirkja og kór í 8 stafgólfum og kapella inn af kórnum. Að auki hálfþil undir bita milli kórs og kirkju og þil bak altaris, sem víðast umhverfis kirkjuna og framanfyrir. Tveir stólar kvennamegin, einn langbekkur kallmannamegin.
3 glergluggar vænir. Hurð á járnum með koparhring, innlæst. Hefur síra Gísli látið gjöra kirkjuna og lagt til marga viðu.“ (JÞÞ, 108).

Kirkjugarður – Staðarkirkjugarður

Staðarhverfi

Staðarhverfi – kirkjugarður.

„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans“ (Örn.).

Klukknaturn/Sáluhlið

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði.

Sáluhliðið hefur verið á vesturhlið garðsins fram undan kirkjudyrum. (GB,137).
„Enda þótt klukknaportið á Stað í Grindavík sé nú löngu horfið, eigum við af því nákvæma lýsingu … Í sáluhliði, sem er 6 ál. vítt með kræktri rimlahurð á járnum er KLUKKNAPORTIÐ 2 1/6 al. á vídd og eins á breidd á 4 stólpum 4ra álna háum greypuðum á undirstokka að neðan og syllum hið efra og að neðanverðu eru greypaðir í fjóra stólpa út við veggi kirkjugarðsins, hverjir stólpar að eru styrktir með skástífum á jörð fyrir utan og innan sáluhliðið … Sjálft er klukknaportið með einfaldri súð á alla fjóra vegu uppmjókkandi, og í toppi vindhani á stöng. Undir súðinni er allt um kring rimlar negldir á slár, sem saman binda ennþá betur umgetna 4 stólpa klukknaportsins.
Uppi í því hanga á ramboltum tvær góðar klukkur sem hringt er með útleggjurum …“ (GB,55).

Lambhús
„Hún (Krukka) á að hafa staðið vestur við Móakot, þar sem nú sé lambhús.“ (GB,57).

Bergskot (þurrabúð)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjáleigur eru: … Bergskot … Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok“ (GB,40).
„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað. Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir.“
(Örn.).
Bergskot I er þurrabúð í úttekt árið 1928. Bergskot II hafði lagst niður í tíð sóknarprestsin þegar úttekt var gerð 1928. (GB,50).
„Uppi á bringunum rétt ofan og utan við Stað stóð tómthúsið Bergskot. Þegar þar var mannflest voru þarna mörg lágreist þil í beinni bæjarrönd, sem sneri fram að sjónum. Var gott útsýni af
stéttinni til hafs og strandar… stundum voru þarna þrjú heimili… Bergskot hafði enga grasnyt frekar en aðrar þurrabúðir. Þar lifði fólkið á sjónum haust, vetur og vor en fór gjarna í kaupavinnu um
sláttinn og fékk sauði til frálags í heimilið fyrir veturinn. Í tiltækum manntölum er ekki getið um byggð í Bergskoti fyrr er 1845.“ (GB,62).
Síðasti ábúandi flutti burt 1927. (GB, 64).

Lönd (þurrabúð)
Staðarhverfi„Sunnan við Bjarnasand eru smáklappir, oft nefndar Landaklappir, en þurrabúðin Lönd var beint upp af þeim. “ (Örn.).
„Það var árið 1911, að stofnað var nýtt býli í landi Staðar. Það var nefnt á Löndum… Nýbýlið á Löndum fékk 900 ferfaðma lóð á grundinni skammt norðvestur af fjárhúsunum og má enn
sjá greinileg merki þess. Vilmundur reisti þar timburhús. Það var 3 herbergi og eldhús. Á því var óinnréttað ris, við innganginn var skúr með flötu þaki. Það var klætt með járni á tveimur
hliðum en pappa á tveimur. Gólfflötur þess var 37,6 fermetrar. Þessi lýsing er tekin úr fasteignamati 1916… Árið 1946 fluttist fjölskyldan frá Löndum til Reykjavíkur.“ (GB,77-79).

Merki (þurrabúð)
„Einar Einarsson og Guðrún Ingvarsdóttir voru gefin saman í hjónaband 10. nóvember 1908. Þetta sama ár fengu ungu hjónin leyfi Staðarprests til að byggja sér hús á Hvirflunum við landamerkin
milli Staðar og Tófta. Það kölluðu þau Merki. Þetta var hið snotrasta býli á fallegum stað með útsýni vestur yfir Staðartúnið, suður til Gerðistanga austur um Arfadalinn og víkina… Guðrún og
börn hennar fluttust frá Merki til Keflavíkur árið 1943. Síðan hefur ekki verið búið í Merki og litli bærinn löngu fallinn.“ (GB,75).

Vör – Staðarvör

Staðarvör

Staðarvör.

„Hér við Bjarnasand er eitt af stórmannvirkjum áraskipaútgerðarinnar: Flórlögð Staðarvörin, slétt og breið neðan úr stórstraumsflæðarmáli uppundir grasbakkana ofan við sandinn. Hún
hefur varðveitzt furðu vel, þótt áratugir séu síðan hér var skipi lent.“ (GB,26).
ÁV og SVG vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum. (Örn.).

Brunnur – Staðarbrunnur

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

„Lægðin neðan við Bring nefnist Dægradvöl. Þótti góð dægradvöl að slá hana. Í suðurjaðri Dægradvalar lét séra Brynjólfur Magnússon grafa mikinn brunn árið 1914.“ (Örn.).
Skip fylgdu prestsetrinu Stað frá fornu fari og fram á daga sr. Brynjólfs Magnússonar. En með stjórnarbréfi 10. sept. 1914 var presti leyft að verja 300 krónum af andvirði skipanna til að grafa brunn á staðnum og er honum ýtarlega lýst í úttektinni 1928. Þar með er skipastóll Staðar úr sögunni…(GB,42).
„Í úttekt á Stað 16. júlí 1928 er 7. liður í upptalningu á mannvirkjum þannig: Brunnur byggður og tilbúinn ár 1914 að dýpt 23 fet, að þvermáli 6 fet, mjókkandi niður, hringhlaðinn að innan og hleðslan sementeruð ofan frá og niður að klöpp, er tekur við fyrir neðan miðju. Steinsteypur kragi er í kringum brunninn ofan jarðar og yfir sjálfu brunnopinu þak úr plönkum með hlera. Öflug vinda er til upphölunar á vatninu. Brunnurinn með öllum útbúnaði er í óaðfinnanlegu lagi. – (Álag því ekkert).“ (GB,82).

Brunnur -Kvíadalsbrunnur

Staðarhverfi

Kvíadalsbrunnur.

„Brunnur var beint vestur af Kvíadal. Hann er nú alveg horfinn í sjávarkampinn. Þessi brunnur mun hafa verið notaður í Staðarhverfinu áður en brunnurinn í Dægradvöl var gerður.“ (Örn.).
„Vatn handa fénaði var hvergi að fá í Staðarlandi nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í með hverju sjávarfalli. Neyzluvatn var tekið úr brunni syðst í túninu en það var slæmur sjóblendingur.“ (GB,39).

Bryggja
Fram af svonefndum Hvilftum er bryggjustúfur, byggður 1933, meðan útgerðin var hér í fullu fjöri. (GB,25).

Heimild:
-Rannsóknarskýrsla, Fornleifar í Staðarhverfi, Þjóðminjasafn Íslands 1999.
-Deiliskráning í Grindavík: Stóragerði, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.