Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi í fylgd Helga Gamalíassonar. Byrjað var við Húsatóftir og gengið með ströndinni um Kóngshelluna, Hvirfla, Stóra-Gerði, Litla-Gerði – Kvíadal og Stað. Að því loknu var haldið út í Bása ofan við Staðarberg og skoðuð hlaðinn refagildra.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Helgi byrjaði á því að staldra við Pústhól á golfvellinum að Húsatóttum eftir stutta göngu. Sagði hann þann sið viðhafðan að þar hafi menn tekið byrðar af baki sér, sest niður og hvílst um stund áður en lengra var haldið. Rústir Kóngsverslunarinnar eru á sjávarbakkanum vestan við golfvöllinn. Kóngshellan sjálf er að mestu horfin sem og lendingin, enda hafa aðstæður þarna breyst mjög síðari áratugina (og jafnvel til enn lengri tíma litið). Sandfjara, sem verið hafði við skerin, væri nú horfin. Sjórinn hefur verið að brjóta af ströndinni smátt og smátt. Sést það m.a. vel á tóftunum, sem nú eru að hverfa til sjávarins.
Golfsvæðið, sem byggt var eftir stofnun Golfklúbbs Grindavíkur árið 1981, hefur verið varið með brimgarði, en hann nær ekki út fyrir það. Skv. upplýsingum fróðustu manna höfðu fengist fjármunir til að verja landið þarna og aðilum falið að sjá um það, en þeir hafi því miður einungis takmarkað sig við vallarsvæðið. Undir sjávarbakkanum má sjá hluti frá kóngsversluninni, s.s. krítarpíur o.fl. vera koma smám saman í ljós.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Skoðuð var bryggjan á Hvirflum, en hún á sér áhugaverða upprunasögu líkt og svo mörg mannanna verk, þar sem deilt var um gildi og staðsetningu, skatta og skil. Staðarvörin er fallega flóruð.

Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring. Hins vegar er sjóinn að taka Litla-Gerði, sem er þar skammt vestar, til sín. Kvíadalur er heillegar tættur. Við hann eru síðustu leifar af görðum Staðahverfis, en þeir voru áður þarna svo til út um allt. Þegar bryggjan var byggð sem og bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var komið á vörubílum og grjótið úr þeim hirt í hana. Eftir stendur heillegur stubbur til minningar um bræður hans. Vel sést hvernig sandurinn hefur safnast vestan við garðinn og hlaðist upp.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Helgi lýsti Stað og staðháttum þar. Hann vísaði m.a. á Staðarbrunninn, sem byggður var 1914, fallega hlaðinn og nær óskemmdur. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestan við Staðarhverfið er hóll við þjóðveginn. Á honum er varða, svonefnd Tyrkjavarða eða Gíslavarða. Sagan segir að hún hafi verið hlaðin eftir Tyrkjaránið með þeim áhrínisorðum að á meðan hún stæði myndi Grindavík og Grindvíkingum óhætt.
Austan við Staðarbergið þaðan í sjávarhendingu (við austurenda bjargsins) er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðuna til minja um þennan atburð.
Loks vísaði Helgi þátttakendum á hlaðna refagildur á Básum ofan við Staðarbergið. Hún hefur verið staðsett utan í hraunbakka, á leið rebba með berginu.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.