Klukknaportið í kirkjugarðinum á Stað í Staðarhverfi við Grindavík hefur verið endunýjað.
Það voru þeir feðgar í H.H. smíði sem sáu um verkið undir stjórn Helga Sæmundssonar. Kemur það í stað klukknaports sem smíðað var af Jóni Engilbertssyni frá Arnarhvoli í Grindavík á þriðja áratug síðustu aldar. Nýja portið er smíðað eftir fyrirmyndinni en þó nokkuð stærra og með koparklæðningu á þakhvelfingunni, portið hefur margvíslega trúarlega tilvísun og er í alla staði vel hannað. Ákvörðun um að hafa hið nýja klukknaport stærra helgast m.a. af því að kirkjugarðurinn á Stað hefur verið í mikilli endurnýjun og stækkun, hafa m.a. verið hlaðnir miklir og glæsilegir veggir er afmarka og skipta garðinum.
Í klukknaportinu er bjalla úr Hull-togaranum Anlaby er strandaði utan við Jónsbáskletta 14. janúar 1902 og “spónbrotnaði”. Ellefu lík skipverja rak að landi, en lík skipstjórans, Carls Nilsonar, fannst aldrei.