Staður

Eftirfarandi er skráð í tilefni af aldarafmæli gömlu Grindavíkurkirkjunnar í Járngerðarstöðum 26. september 2009.

StaðurÍ Chorographica Islandica tilgreinir Árni Magnússon (1663 – 1730) sjö bæi vestan Staðar, áður en nesið brann (1210-1240). Þeirra á meðal var kirkjustaðurinn á Skarfasetri, þar sem Árni segir kirkju Reyknesinga hafa staðið fyrir eldana, en þá hafi hún verið færð að Stað.

Elsta örugga heimildin, sem nefnir kirkju í Grindavík, er kirknaskrá Páls biskups (1195-1211) Jónssonar frá því um 1200. Þar er sagt  að prestskyld kirkja sé á Stað. Í máldaga Staðarkikrju, sem talinn er gerður árið 1397, segir m.a.: “Kirkja að Stað í Grindavík er vígð með Guði sælli Maríu og Jóni postula…”

AltaristaflaÞar sem kirkjan á Stað var helguð Blasíusi biskupu mætti halda að hann væri verndari fiskimanna og sæfara. en svo var þó ekki, heldur var á hann heitið af þeim, sem stunduðu landbúnað. Við biskup þennan er kenndur Blasíuboði í Reykjanesröst, “hættulegur jafnvel stærri skipum í þoku og brimi, þar á honumer yfrið grunnt um fjöru. Samt munu þar fáir hafa farist, segir í sóknarlýsingu Grindavíkur.

Í máldaga 1477 er allt Staðarland orðið kirkjueign. Biskup fékk allt forræði jarðarinnar og þeir, sem hana sátu, urðu landsetar Skálholtsdómkirkju, staðarhaldarar. Á miðöldum (í kaþólskri tíð) er lítt getið um kirkjuna, eða þangað til 1. maí 1519. Þá er Guðmundur Ingjaldsson, landseti, ásakaður um ólögmætan hvaldrátt er tilheyra átti Viðeyjarklaustri.
PredikunarstóllÁ dögum Stefáns biskups (1491-1518) var Staðarkirkju settur máldagi. Árið 1657 voru hjáleigur Staðar orðnar sjö; Krókur, Beinróa og Vestur-Hjáleiga, Krukka og þrjár aðrar kenndar við ábúendur.

Meðal merkisklerka á stað var síra Gísli Bjarnason (prestur á Stað 1618-1656). Hann var ósigldur, en þýddi m.a. Veðurfarsbók, sem er að stofni til Díarium eftir Jens Lauritzen, en aukin af sr. Gísla eftir “reynslu hans og þekkingu”. Þar kemur t.d. fram að þegar brimlaus sjór í logni gefur hljóð af sér, merkir það regn og storm í vændum. Ef bylgjur og brim vaxa í logni yfir eðli, boðar það storm og kulda. Ef sjór sýnist gruggugur og mórauður að lit með moski og ögnum í, boðar það storm. Óvenjulegt stórflóð í brimlausu fögru veðri boðar hafviðri. Sjái maður sjóinn óstilltan, gjálfmikinn og úfinn í góðu veðri og logni, er það víst erki til rosa og óstilltrar veðráttu. Ef þang frýs mjög í fjöru, eða frostgufa sést inni á fjörðum, boðar það mikinn kulda.

 

Staðarkirkja

Síra Rafn Ólafsson tók við af Gísla 1656. Kom fljótlega í ljós að hann virtist ekki með réttu ráði. Eftir stríð við söfnuð og fulltrúa kirkjunnar dröslaði hann prédrikunarstólnum norður í hraun og gróf kirkjuklukkurnar niður í kirkjugólfið fyrir framan altarið. Rafn var í framhaldinu sviptur öllum kennimannlegum réttindum og afhentur hinu veraldlega valdi og því treyst til þess að koma honum brott frá Grindavík. Í framhaldinu, vorið 1688, skipaði biskup hinn nafnkunna galdraklerk, sr. Eirík í Vogsóum, til að gera úttekt á Staðarkirkju.
Við brauðinu tók síra Stefán Hallkelsson. Í tíð hans hrakaði Stað og kirkjunni verulega.

Hraun

Ekki er vitað, hve margar kirkjur hafa verið á Stað í aldanna rás, en af vísitasíugerð frá árinu 1642 má sjá, að þá hafði síra Gísli Bjarnason nýlega látið reisa þar kirkju 1640. Hún er elsta Staðarkirkjan, sem eitthvað er vitað um að gagni, og var lýst í vísitasíugerðinni. Kirkjan hefur skv. lýsingu greinilega verið veglegt guðshús að þeirrar tíðar hætti. Hún hefur sýnilega verið torfkirkja líkt og fyrirrennarar hennar, en þiljuð innan, sem að öllum líkindum hefur verið hluti af reka staðarins. Í lýsingu kirkjunnar segir m.a.: “Hún á tvær klukkur og þriðju sem kom frá Hrauni”. Kirkjan á Hrauni var aflögð um aldamótin 1600 og hefur klukkan þá sýnilega verið flutt að Stað.

Enginn vafi leikur á því að kirkja var á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Ekki er vitað með óyggjandi hætti hvenær kirkjan var reist, en líklegt má telja að hún hafi verið risin 1397 og vafalaust allnokkru fyrr. Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir í Fitjaannál: “Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík.. og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.”

Signing

Í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: “Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn nú til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er úr fallin fyrir 100 árum.” Þannig virðist kirkja (bænhús) hafa verið á Hrauni í u.þ.b. þrjár aldir.
Um 300 árum eftir sjóslysið, eða skömmu eftir aldamótin 1900, var skóflu stungið niður að Hrauni. Vertíðarfiskur hafði verið saltaður í sjóhúsi suðaustan við bæinn. Um vorið fór pækillinn að renna úr stíunni út á túnið. Á Hrauni, eins og allsstaðar, var hvert strá dýrmætt í þá daga, og til þess að saltvatnið brenndi ekki grasið var tekið á það ráð að garfa holu utan við húsvegginn. átti að veita pæklinum í hana. En þegar búið var að stinga fyrstu skóflustunguna komu upp mannabein. Var þá fljótt hætt við gröftinn. Sýnt þótti, að hér var grafreitur hins forna kirkju eða bænhúss, þar sem útróðrarmenn Skálholtsstaðar höfðu hlotið leg eftir sjóslysið mikla á þorranum 1602.
Á Hrauni má enn sjá signingarfont frá kaþólskri tíð. Sigurður Gíslason fann gripinn er hann var að grafa við framangreinda “skemmu”. Kom fonturinn þá upp og gætti Sigurður þess að halda honum til haga. Skammt þar frá er tóft er talin er hafa verið fyrrnefnd kirkja.
Í vísitasíugjörðum frá 1646 og 1652 kemur fram, að síra Gísli Bjarnason hefur haldið áfram að bæta kirkjuna og búnað hennar. Árið 1652 er þess getið að höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke hafi gefið kirkjunni “málað spjald með olíufarfa, sem er crucifix. Var sá gripur í kirkjunni um 1800.
Gamla GrindavíkurkirkjanKirkjan hans síra Gísla virðist hafa staðið í tæpar tvær aldir, eða allt til ársins 1836, er timburkirkja var reist á Stað. Er kirkjan var vísiteruð árið 1769, var hún mikið farin að láta á sjá, og var ástandi hennar lýst svo að hún hafi nánast verið komin að falli. Kirkjan virðist hafa verið endurgjörð því biskupar gerðu aldrei umtalsverðar athugasemdir við hana á þrem síðustu áratugum 18. aldar.
Við vísitasíu 2. júlí árið 1800 virðist kirkjan á Stað hafa verið farin að ganga úr sér, enda kirkjan orðin gömul. Þegar prestaskipti urðu árið 1822 vísiteraði Árni Helgason, prófastur, Stað og tók þá út kirkjuna. Í hana vantaði þá glugga og dyr.
KirkjanRáðagerðir urðu til um nýja kirkju á Stað. Sumarið 1836 munu sóknarmenn í Grindavík hafa gefið umtalsvert af borðvið til kirkjunnar og fengið smiðinn Jörund Illugason til að  byggja nýja kirkju. Nam kostnaðurinn 716 ríkisdölum.

Í timburkirkjunni á Stað, sem reist var 1836 var m.a. 200 ára gamall prédikunarstóll með fögrum myndum, kirkunni gefinn af konungshöndlaninni. Altaristaflan átti sér all-merkilega sögu. Hún kom frá Laugarneskirkju, sem aflögð var 1794. Tafla þessi hafi kirkjunni verið gefin af Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni sem þakklætisvott fyrir gistingu á rannsóknarferðum þeirra á árunum 1752-54. Gistu þeir þá jafnan á kirkjuloftinu.

Sálmaskjöldur

Fyrsta timburkirkjan á Stað varð ekki gömul. Þegar síra Geir Backmann lét af störfum í Staðarprestakalli árið 1850, var hin nýja kirkja þegar farin að láta á sjá. Hún stóð einungis í 22 ár því söfnuðurinn virtist ekki hafa áttað sig á að að nýja timurkirkjan þyrfti viðhald líkt og gömlu torfkirkjurnar.
Fyrir milligöngu síra Þorvalds Böðvarssonar var byggð ný kirkja sumarið 1858. Var hún svipuð þeirri fyrri, en nokkuð stærri, og “altimburhús” skv. lýsingu 25. júlí 1859. Þótti sérlega vandlega gengið frá þessari kirkju, þrátt fyrir að vera bláfátæk því skuldir hennar voru 586 ríkisdalir og 75 skildingar. Kirkjan stóð allt til ársins 1910. Árið 1979 segir svo um hana: “Litur innan á kirkjunni er farinn að skemmast og þiljur að gisna. listar að ytra börðum eru á stöku stað farnir að fúna eða gisna. Í loptglug 
ga vatnar 2 rúður og niðri í kirkjunni er ein brotin”.
AltaristaflanÁ safnaðarfundi í júni 1888 var rætt um, hvernig stuðla mætti að betri kirkjusókn. Töldu menn nauðsynlegt, að kirkjan yrði flutt í miðja sveit, og var fimm manna nefnd kosin til að athuga málið. Vorið 1900 voru allir nefndarmenn sammála um að láta gera við gömlu kirkjuna á Stað. Á almennum safnarfundi þremur árum síðar var hins vegar samþykkt með öllum atkvæðum að fá kirkjuna flutta sem allra fyrst. Í formlegri atkvæðagreiðslu safnaðarins árið 1906 var samþykktur flutningur Staðarkirkju í Járngerðarstaðahverfi.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. ok
tóber 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík.

Kirkjan

Í júní 1909 samþykkti sóknarnefndin að láta rífa gömlu kirkjuna á Stað þá um haustið og selja timbrið úr henni. Árið áður hafði verið samþykt að ný kirkja yrði reist á flötunni fyrir norðan barnaskólann (Templarann).  Lagt var til að vegur yrði gerður frá sjónum að skólahúsinu til að hægara yrði að flyta efniðvið að kirkjustæðinu. Hönnuðurinn var Rögnvaldur Ólafsson. Tryggvi Árnason, trésmiður úr Reykjavík, bauðst til að reisa kirkjuna og útvega allt efni til hennar að frádregnum ofni, málningu og málverki. Kostnaður yrði 44475 krónur. Verkið hófst um vorið 1909 og um haustið var kirkjuhúsið við Kirkjustíg tilbúið. Var kirkjan vígð af þáverandi biskupi, Þórhalli Bjarnasyni, þann 26. september 1909. Sonur hans, Tryggvi Þórhallsson, lék á orgel og stjórnaði kirkjusöng, og mun það eitt með öðru hafa sett eftirminnilegan svip á kirkjuvígsluna. Kirkjan þótti “einkar snotur” og bæði rismikil og björt. Var hún byggð úr timbri og klædd að utan með járni. Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var hins vegar flutt á “fornmenjasafnið”.  Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð mynd eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Krist stilla vind og sjó. Einar  G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið árið 1912.
Grindavíkurkirkja“Þann 17. júlí 1910 urðu prófastur, prestur og sóknarnefnd ásátt um, að hin nýja kirkja sóknarinnar, er kom frá Staðarkirkju hinnar fornu og byggð hefur verið austur í Járngerðarstaðahverfi (1909), skuli heita Grindavíkurkirkja og sóknin þá Grindavíkursókn.”
Þegar Grindavíkurkirkja var vísteruð af prófasti vorið 1950, höfðu miklar viðgerðir farið fram á húsinu, og þótti prófasti kirkjan “í alla staði hið fegursta og vandaðsta guðshús vel hirt og vel um gengið”. Um 1960 var skipt um járnklæðningu á kirkjunni og hún máluð að utan og innan, settir í hana nýir gluggar og mátarviðir endurnýjaðir. En kirkjan var þá þegar orðin of lítil fyrir söfnuðinn.
Nú hefur ný kirkja úr steinsteypu verið vígð  í Grindavík horni Austurvegar og Ránargötu, vígð þann 26. september 1982. Undirbúningur að smíði nýju kirkjunnar hófst 1966 og var Ragnar Emilsson, arkitekt, fenginn til þess að teikna kirkjuna.

Grindavíkurkirkja

Fyrsta skóflustungan var tekin 1972. Byggingameistari var Guðmundur Ívarsson. Kirkjan er að grunnfleti 538 fermetrar og að auki er 49 fermetra kjallari. Kirkjuskipið sjálft er 255 fermetrar. Í kirkjuskipi eru þrjátíu bekkir úr oregonfuru og rúmast þar 240 manns. Í norðausturhorni kirkjunnar er skrúðhús. Safnaðarheimilið, 112 fermetrar að grunnfleti, kemur hornrétt á kirkjuna út úr suðurhlið hennar, þar geta kirkjugestir setið við fjölmennar athafnir.
Gamla kirkjan í Járngerðarstaðahverfi fékk um skeið hlutverk leikskóla og má sjá handbragð barnanna á inngarðsveggnum umhverfis hana. Nú, árið 2009, eru haldnir AA og FFO fundir í kirkjunni. Um þessar mundir stendur yfir viðhald á henni í tilefni að væntanlegu aldarafmælinu 26. september n.k.; hún verður m.a. máluð að utan og umhverfið fegrað.

Heimildir m.a.:
-Árni Magnússon: Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2. Reykjavík 1955.
-Geir Backmann; Lýsing Grindavíkursóknar 1840-41.
-Þ.Í. Kirknas. D 2 Gb. sóknarnefndar 1808-1926.
-Stjt. 1929 B. 305.
-Lesbók Mbl 11.02.1968, bls. 10-14 – Staðarkirkja og Staðarklerkar, sr. Gísli Brynjólfsson
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur, 1994.
-Staðhverfingabók, Mannfólk mikilla sæva, 1975.

Kirkjugatan