Færslur

Grindavík

Ari Gíslason skráði örnefni í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Þar segir m.a.: “Næst utan við Hóp er Járngerðarstaðahverfi. Upplýsingar um örnefni eru frá Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti, Ingibjörgu Jónsdóttur kennara, systur hans, Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum, Spítalastíg 3 í Reykjavík, Guðsteini Einarssyni hreppstjóra í Grindavík o.fl.

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó og eru þar nokkur önnur býli sem hafa sameignlegt land nema túnblettina.

Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Suður-Gjáhús heita nú Vík en Norður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.

Grindavík

Grindavík.

Guðsteinn Einarsson las yfir hluta af handriti Ara Gíslasonar og gerði athugasemdir við það í apríl 1967. Sæmundur Tómasson las það einnig allt yfir og bætti ýmsu við og lagfærði. Auk þess ritaði hann meðfylgjandi viðbætur eftir að gengið hafði verið frá aðalskránni.”…

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – örnefni.

Grindavíkurkirkja

Gamla Grindavíkurkirkja, við Kirkjustíg, varð aldargömul þann 26. september [2009].
Þennan dag árið 1909 var kirkjan vígð í Járngerðarstaðahverfi. Hönnuðurinn var Rögnvaldur Ólafsson. Hún þjónaði söfnuðinum allt þar til núverandi kirkja Grindavíkurkirkja um 1923tók við hlutverki hennar 26. september 1982. Áður hafði kirkjustaðurinn verið á Stað í Staðarhverfi. Elstu skráðar heimildir um kirkju þar eru frá 1640.

Í tilefni af afmæli gömlu Grindavíkurkirkju var gengin kirkjugatan frá Stað að gömlu kirkjunni í Járngerðarstaðahverfi. Álitlegt söguskilti, hannað af FERLIR og Martak, var sett upp við kirkjuna á þessum tímamótum að frumkvæði Grindavíkurbæjar og myndir af gömlum kirkjugripum var komið fyrir í kirkjunni. Auk þess var heitt á könnunni fyrir aðkomandi gesti í gömlu kirkjunni.

GunnlaugurÁ safnaðarfundi í júni 1888 var rætt um, hvernig stuðla mætti að betri kirkjusókn. Töldu menn þá nauðsynlegt, að kirkjan yrði flutt í miðja sveit. Á almennum safnarfundi þremur árum síðar að samþykkt var með öllum atkvæðum að fá kirkjuna flutta sem allra fyrst. Það var þó ekki fyrr en í formlegri atkvæðagreiðslu safnaðarins 23. nóvember árið 1906 að samþykktur var flutningur Staðarkirkju í Járngerðarstaðahverfi.
Í júní 1909 samþykkti sóknarnefndin að láta rífa gömlu kirkjuna á Stað þá um haustið og selja timbrið úr henni. Árið áður hafði verið ákveðið að ný kirkja yrði reist á flötunni fyrir norðan barnaskólann (Templarann). Lagt var til að vegur yrði gerður frá sjónum að skólahúsinu til að hægara yrði að flyta efniðvið að kirkjustæðinu. Grafreitur Grindvíkinga er ennþá í Staðarhverfi.

Grindavíkurkirkja

Tryggvi Árnason, trésmiður úr Reykjavík, bauðst til að reisa kirkjuna ásamt grindvískum smiðum, s.s. Guðjóni í Hliði og Engilbert á Hrauni, og útvega allt efni til hennar að frádregnum ofni, málningu og málverki. Kostnaðurinn átti að verða 44.475 krónur. Verkið hófst vorið 1909 og um haustið var kirkjuhúsið við Kirkjustíg tilbúið. Heildarkostnaður varð um 50.000 krónur. Var kirkjan vígð af þáverandi biskupi, Þórhalli Bjarnasyni, þann 26. september 1909. Sonur hans, Tryggvi Þórhallsson, lék á orgel og stjórnaði kirkjusöng, og mun það eitt með öðru hafa sett eftirminnilegan svip á kirkjuvígsluna. Fyrsta embættisverkið í kirkjunni var þegar Fanney Guðjónsdóttir frá Hliði (f: 13. júní 1909 d.1988) var skírð, við vígsluathöfnina. Guðjón Einarsson frá Hliði, faðir Fanneyjar, smiður og útgerðarmaður, tók m.a. þátt í byggingu kirkjunnar.
GrindavíkurkirkjaKirkjan þótti “einkar snotur” og bæði rismikil og björt. Var hún byggð úr timbri og klædd að utan með járni. Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var hins vegar flutt á “fornminjasafnið”. Á því, nú Þjóðminjasafni Íslands, eru nú 16 gripir úr Staðarkirkju, s.s. textílar (höklar, altarisklæði og patínudúkur), altaristafla, predikunarstóll, ljóshjálmur, stjakar, söngtafla og skarbakki.

Orgelið

Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð málverk eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Krist stilla vind og sjó. Hún var sett upp í kirkjunni árið 1910. Einar  G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið, M. Hörügel, árið 1912. Það var síðan flutt upp í skóla og notað þar uns Ólafur Rúnar Þorvarðarson, kennari, kom því í geymslu um 1980 er til stóð að henda því, en því var bjargað af bílpallinum á síðustu stundu. Orgelið er nú á geymsulofti á bæjarskrifstofunum.
Dagbjartur Einarsson, bóndi á Velli, gaf kirkjunni rikkilín og hökkul og nokkrar konur í hreppnum tóku sig saman og gáfu kirkjunni altarisklæði. Tveir ljóshjálmar og sex vegglampar voru keypt fyrir samskot. Með tímanum var kirkjunni færðar fleiri veglegar gjafir, s.s. minningarspjald um Gísla Jónsson frá Vík, sem ekkja hans, Kristólína Jónsdóttir, gaf. Ramminn var gerður af Ríkharði Jónssyni. Um 19050 eignaðist kirkjan skírnarfont úr grárri marmarasteypu, gerðan af Ásmundi Sveinssyni, til minningar um hjónin Eyjólf Björnsson og Vilborgu Þorsteinsdóttur frá Krosshúsum. Nokkru síðar eignaðist kirkjan fagurlega útskorinn stól eftir Ríkharð Jónsson. Orgelin voru þrjú frá upphafi. Annað orgelið, rafmagnsorgel, var keypt nýtt árið 1951. Mun það “tvímálalaust verið eitthvert hið frábærasta hljóðfæri, sem til [væri] í kirkju hér á landi”. Árið 1968 eignaðist kirkjan svo vandað ellefu radda pípuorgel frá Þýskalandi. Flestir gripanna prýða nú hina nýrri kirkju Grindvíkinga.

Altaristaflan

Á safnaðarfundi árið 1933 lagði Sigvaldi Kaldalóns, læknir, til að kirkjan yrði máluð að innan, mislitar rúður settar í gluggana og blómum plantað í kringum hana.
Þann 17. júlí 1910 urðu prófastur, prestur og sóknarnefnd ásátt um, að hin nýja kirkja sóknarinnar skuli heita Grindavíkurkirkja og sóknin þá Grindavíkursókn. Um tíma var kirkjan kynnt með kolaofni og síðar olíuofni. Bar hún þess merki, skorstein ofan við gráturnar.
Þegar Grindavíkurkirkja var vísteruð af prófasti vorið 1950, höfðu miklar viðgerðir farið fram á húsinu, og þótti prófasti kirkjan “í alla staði hið fegursta og vandaðsta guðshús vel hirt og vel um gengið”. Á næstu tveimur árum var lóð kirkjunnar sléttuð og lögð grasþökum. Umhverfis var steypt vönduð girðing um 1956 og lögð breið gangstétt frá hliði að Kirkjutröppum. Seinna var sett blómabeð meðfram kirkjunni og þremur bekkjum komið fyrir á kirkjulóðinni. Um 1960 var skipt um járnklæðningu á kirkjunni og hún máluð að utan og innan, settir í hana nýir gluggar og máttarviðir endurnýjaðir.

En kirkjan var þá þegar orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Íbúafjöldinn nálgaðist þúsund, og var nú svo komið, að við guðsþjónustur á stórhátíðum og ýmsar aðrar athafnir varð fólk að standa úti undir vegg og hlusta á það, sem fór fram inni, úr hátalara, sem komið var fyrir úti.
Hinn fyrsta nóvember Stóll1972 tók þáverandi sóknarnefndarformaður, Einar Kr. Einarsson, fyrstu skófustunguna að nýrri kirkju og um um haustið 1982 var byggingunni lokið. Sunnudaginn 12. september fór síðasta guðsþjónustan fram í gömlu kirkjunni, sem þá var formlega lögð niður sem sóknarkirkja, 73 þremur árum eftir að hún var fullbyggð.
Tíðarhlið var á kirkjugötunni frá Stað, skammt suðvestan Járngerðarstaða. Þar skiptu kirkjugestir m.a. um skó og geymdu aðra í litlum skúta.

Kirkjan var fastheldin á þjóna sína, þá séra Brynjólfur Gunnarsson (1909-1910), Brynjólfur Magnússon (1910-1947) og séra Jón Árni Sigurðsson (1947-1982). Sr. Örn Bárður Jónsson þjónaði nýju kirkjunni til 1990, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, síðar bæjarstjóri, þjónaði frá 1990 til haustins 2007 er sr. Elínborg Gísladóttir var skipuð sóknarprestur. Séra Jónas Gíslason, leysti Jón Árna af í veikindum á áttunda áratugnum (Jónas fermdi t.d. í gömlu kirkjunni börn fædd 1960, vorið 1974).

Kirkjan var afhelguð við messu í henni 12. september 1982.

Einkarekið dagmæðraheimili, Kirkjukot, var í húsinu á árunum frá byrjun árs 1989 til febrúar 2001 þegar leikskólinn Krókur opnaði við Stamphólsveg.
Álfhildur H. Jónsdóttir var síðasti Grindavíkurkirkjaforstöðumaðurinn þegar dagmæðraheimili var starfrækt í gömlu kirkjunni. Hún færði Grindavíkurbæ nýlega gestabók úr Kirkjukoti frá 1993 þar sem stendur: ,,Í tilefni af miklum ferðamannastraum útlendinga sl. sumar sem koma að skoða Kirkjukot, þá var ákveðið að fá gestabók fyrir kotið. Við fáum líka Íslendinga hingað til okkar og allir eru mjög hrifnir af barnaheimili í kirkju.”
Álfhildur minnist þess að allt að 30 börn hafi verið samtímis í Kirkjukoti, allt frá því að þau byrjuðu að ganga til 6 ára aldurs. Tíminn með börnunum í kirkjunni var mjög ánægjulegur í alla staði.
AA-samtökin hafa haft athvart í kirkjunni með fundi sína sem og önnur félagsstarfsemi í bænum.
Karitas Una og Bjarný hafa unnið muna- og myndaskrá um munina, sem voru í Grindavíkurkirkjunni gömlu og hafa verið varðveittir í nýju kirkjunni. Hún er til sýnis í gömlu kirkjunni.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Spáð hafði verið leiðindarveðri á göngutímanum, en Guð sá um sína. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur.
-Staðhverfingabók.
-Ólafur Rúnar Þorvarðarson.
-Jóna Kristin Þorvaldsdóttir .

Upplýsingaskilti

Staður

Eftirfarandi er skráð í tilefni af aldarafmæli gömlu Grindavíkurkirkjunnar í Járngerðarstöðum 26. september 2009.

StaðurÍ Chorographica Islandica tilgreinir Árni Magnússon (1663 – 1730) sjö bæi vestan Staðar, áður en nesið brann (1210-1240). Þeirra á meðal var kirkjustaðurinn á Skarfasetri, þar sem Árni segir kirkju Reyknesinga hafa staðið fyrir eldana, en þá hafi hún verið færð að Stað.

Elsta örugga heimildin, sem nefnir kirkju í Grindavík, er kirknaskrá Páls biskups (1195-1211) Jónssonar frá því um 1200. Þar er sagt  að prestskyld kirkja sé á Stað. Í máldaga Staðarkikrju, sem talinn er gerður árið 1397, segir m.a.: “Kirkja að Stað í Grindavík er vígð með Guði sælli Maríu og Jóni postula…”

AltaristaflaÞar sem kirkjan á Stað var helguð Blasíusi biskupu mætti halda að hann væri verndari fiskimanna og sæfara. en svo var þó ekki, heldur var á hann heitið af þeim, sem stunduðu landbúnað. Við biskup þennan er kenndur Blasíuboði í Reykjanesröst, “hættulegur jafnvel stærri skipum í þoku og brimi, þar á honumer yfrið grunnt um fjöru. Samt munu þar fáir hafa farist, segir í sóknarlýsingu Grindavíkur.

Í máldaga 1477 er allt Staðarland orðið kirkjueign. Biskup fékk allt forræði jarðarinnar og þeir, sem hana sátu, urðu landsetar Skálholtsdómkirkju, staðarhaldarar. Á miðöldum (í kaþólskri tíð) er lítt getið um kirkjuna, eða þangað til 1. maí 1519. Þá er Guðmundur Ingjaldsson, landseti, ásakaður um ólögmætan hvaldrátt er tilheyra átti Viðeyjarklaustri.
PredikunarstóllÁ dögum Stefáns biskups (1491-1518) var Staðarkirkju settur máldagi. Árið 1657 voru hjáleigur Staðar orðnar sjö; Krókur, Beinróa og Vestur-Hjáleiga, Krukka og þrjár aðrar kenndar við ábúendur.

Meðal merkisklerka á stað var síra Gísli Bjarnason (prestur á Stað 1618-1656). Hann var ósigldur, en þýddi m.a. Veðurfarsbók, sem er að stofni til Díarium eftir Jens Lauritzen, en aukin af sr. Gísla eftir “reynslu hans og þekkingu”. Þar kemur t.d. fram að þegar brimlaus sjór í logni gefur hljóð af sér, merkir það regn og storm í vændum. Ef bylgjur og brim vaxa í logni yfir eðli, boðar það storm og kulda. Ef sjór sýnist gruggugur og mórauður að lit með moski og ögnum í, boðar það storm. Óvenjulegt stórflóð í brimlausu fögru veðri boðar hafviðri. Sjái maður sjóinn óstilltan, gjálfmikinn og úfinn í góðu veðri og logni, er það víst erki til rosa og óstilltrar veðráttu. Ef þang frýs mjög í fjöru, eða frostgufa sést inni á fjörðum, boðar það mikinn kulda.

 

Staðarkirkja

Síra Rafn Ólafsson tók við af Gísla 1656. Kom fljótlega í ljós að hann virtist ekki með réttu ráði. Eftir stríð við söfnuð og fulltrúa kirkjunnar dröslaði hann prédrikunarstólnum norður í hraun og gróf kirkjuklukkurnar niður í kirkjugólfið fyrir framan altarið. Rafn var í framhaldinu sviptur öllum kennimannlegum réttindum og afhentur hinu veraldlega valdi og því treyst til þess að koma honum brott frá Grindavík. Í framhaldinu, vorið 1688, skipaði biskup hinn nafnkunna galdraklerk, sr. Eirík í Vogsóum, til að gera úttekt á Staðarkirkju.
Við brauðinu tók síra Stefán Hallkelsson. Í tíð hans hrakaði Stað og kirkjunni verulega.

Hraun

Ekki er vitað, hve margar kirkjur hafa verið á Stað í aldanna rás, en af vísitasíugerð frá árinu 1642 má sjá, að þá hafði síra Gísli Bjarnason nýlega látið reisa þar kirkju 1640. Hún er elsta Staðarkirkjan, sem eitthvað er vitað um að gagni, og var lýst í vísitasíugerðinni. Kirkjan hefur skv. lýsingu greinilega verið veglegt guðshús að þeirrar tíðar hætti. Hún hefur sýnilega verið torfkirkja líkt og fyrirrennarar hennar, en þiljuð innan, sem að öllum líkindum hefur verið hluti af reka staðarins. Í lýsingu kirkjunnar segir m.a.: “Hún á tvær klukkur og þriðju sem kom frá Hrauni”. Kirkjan á Hrauni var aflögð um aldamótin 1600 og hefur klukkan þá sýnilega verið flutt að Stað.

Enginn vafi leikur á því að kirkja var á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Ekki er vitað með óyggjandi hætti hvenær kirkjan var reist, en líklegt má telja að hún hafi verið risin 1397 og vafalaust allnokkru fyrr. Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir í Fitjaannál: “Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík.. og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.”

Signing

Í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: “Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn nú til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er úr fallin fyrir 100 árum.” Þannig virðist kirkja (bænhús) hafa verið á Hrauni í u.þ.b. þrjár aldir.
Um 300 árum eftir sjóslysið, eða skömmu eftir aldamótin 1900, var skóflu stungið niður að Hrauni. Vertíðarfiskur hafði verið saltaður í sjóhúsi suðaustan við bæinn. Um vorið fór pækillinn að renna úr stíunni út á túnið. Á Hrauni, eins og allsstaðar, var hvert strá dýrmætt í þá daga, og til þess að saltvatnið brenndi ekki grasið var tekið á það ráð að garfa holu utan við húsvegginn. átti að veita pæklinum í hana. En þegar búið var að stinga fyrstu skóflustunguna komu upp mannabein. Var þá fljótt hætt við gröftinn. Sýnt þótti, að hér var grafreitur hins forna kirkju eða bænhúss, þar sem útróðrarmenn Skálholtsstaðar höfðu hlotið leg eftir sjóslysið mikla á þorranum 1602.
Á Hrauni má enn sjá signingarfont frá kaþólskri tíð. Sigurður Gíslason fann gripinn er hann var að grafa við framangreinda “skemmu”. Kom fonturinn þá upp og gætti Sigurður þess að halda honum til haga. Skammt þar frá er tóft er talin er hafa verið fyrrnefnd kirkja.
Í vísitasíugjörðum frá 1646 og 1652 kemur fram, að síra Gísli Bjarnason hefur haldið áfram að bæta kirkjuna og búnað hennar. Árið 1652 er þess getið að höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke hafi gefið kirkjunni “málað spjald með olíufarfa, sem er crucifix. Var sá gripur í kirkjunni um 1800.
Gamla GrindavíkurkirkjanKirkjan hans síra Gísla virðist hafa staðið í tæpar tvær aldir, eða allt til ársins 1836, er timburkirkja var reist á Stað. Er kirkjan var vísiteruð árið 1769, var hún mikið farin að láta á sjá, og var ástandi hennar lýst svo að hún hafi nánast verið komin að falli. Kirkjan virðist hafa verið endurgjörð því biskupar gerðu aldrei umtalsverðar athugasemdir við hana á þrem síðustu áratugum 18. aldar.
Við vísitasíu 2. júlí árið 1800 virðist kirkjan á Stað hafa verið farin að ganga úr sér, enda kirkjan orðin gömul. Þegar prestaskipti urðu árið 1822 vísiteraði Árni Helgason, prófastur, Stað og tók þá út kirkjuna. Í hana vantaði þá glugga og dyr.
KirkjanRáðagerðir urðu til um nýja kirkju á Stað. Sumarið 1836 munu sóknarmenn í Grindavík hafa gefið umtalsvert af borðvið til kirkjunnar og fengið smiðinn Jörund Illugason til að  byggja nýja kirkju. Nam kostnaðurinn 716 ríkisdölum.

Í timburkirkjunni á Stað, sem reist var 1836 var m.a. 200 ára gamall prédikunarstóll með fögrum myndum, kirkunni gefinn af konungshöndlaninni. Altaristaflan átti sér all-merkilega sögu. Hún kom frá Laugarneskirkju, sem aflögð var 1794. Tafla þessi hafi kirkjunni verið gefin af Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni sem þakklætisvott fyrir gistingu á rannsóknarferðum þeirra á árunum 1752-54. Gistu þeir þá jafnan á kirkjuloftinu.

Sálmaskjöldur

Fyrsta timburkirkjan á Stað varð ekki gömul. Þegar síra Geir Backmann lét af störfum í Staðarprestakalli árið 1850, var hin nýja kirkja þegar farin að láta á sjá. Hún stóð einungis í 22 ár því söfnuðurinn virtist ekki hafa áttað sig á að að nýja timurkirkjan þyrfti viðhald líkt og gömlu torfkirkjurnar.
Fyrir milligöngu síra Þorvalds Böðvarssonar var byggð ný kirkja sumarið 1858. Var hún svipuð þeirri fyrri, en nokkuð stærri, og “altimburhús” skv. lýsingu 25. júlí 1859. Þótti sérlega vandlega gengið frá þessari kirkju, þrátt fyrir að vera bláfátæk því skuldir hennar voru 586 ríkisdalir og 75 skildingar. Kirkjan stóð allt til ársins 1910. Árið 1979 segir svo um hana: “Litur innan á kirkjunni er farinn að skemmast og þiljur að gisna. listar að ytra börðum eru á stöku stað farnir að fúna eða gisna. Í loptglug 
ga vatnar 2 rúður og niðri í kirkjunni er ein brotin”.
AltaristaflanÁ safnaðarfundi í júni 1888 var rætt um, hvernig stuðla mætti að betri kirkjusókn. Töldu menn nauðsynlegt, að kirkjan yrði flutt í miðja sveit, og var fimm manna nefnd kosin til að athuga málið. Vorið 1900 voru allir nefndarmenn sammála um að láta gera við gömlu kirkjuna á Stað. Á almennum safnarfundi þremur árum síðar var hins vegar samþykkt með öllum atkvæðum að fá kirkjuna flutta sem allra fyrst. Í formlegri atkvæðagreiðslu safnaðarins árið 1906 var samþykktur flutningur Staðarkirkju í Járngerðarstaðahverfi.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. ok
tóber 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík.

Kirkjan

Í júní 1909 samþykkti sóknarnefndin að láta rífa gömlu kirkjuna á Stað þá um haustið og selja timbrið úr henni. Árið áður hafði verið samþykt að ný kirkja yrði reist á flötunni fyrir norðan barnaskólann (Templarann).  Lagt var til að vegur yrði gerður frá sjónum að skólahúsinu til að hægara yrði að flyta efniðvið að kirkjustæðinu. Hönnuðurinn var Rögnvaldur Ólafsson. Tryggvi Árnason, trésmiður úr Reykjavík, bauðst til að reisa kirkjuna og útvega allt efni til hennar að frádregnum ofni, málningu og málverki. Kostnaður yrði 44475 krónur. Verkið hófst um vorið 1909 og um haustið var kirkjuhúsið við Kirkjustíg tilbúið. Var kirkjan vígð af þáverandi biskupi, Þórhalli Bjarnasyni, þann 26. september 1909. Sonur hans, Tryggvi Þórhallsson, lék á orgel og stjórnaði kirkjusöng, og mun það eitt með öðru hafa sett eftirminnilegan svip á kirkjuvígsluna. Kirkjan þótti “einkar snotur” og bæði rismikil og björt. Var hún byggð úr timbri og klædd að utan með járni. Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var hins vegar flutt á “fornmenjasafnið”.  Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð mynd eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Krist stilla vind og sjó. Einar  G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið árið 1912.
Grindavíkurkirkja“Þann 17. júlí 1910 urðu prófastur, prestur og sóknarnefnd ásátt um, að hin nýja kirkja sóknarinnar, er kom frá Staðarkirkju hinnar fornu og byggð hefur verið austur í Járngerðarstaðahverfi (1909), skuli heita Grindavíkurkirkja og sóknin þá Grindavíkursókn.”
Þegar Grindavíkurkirkja var vísteruð af prófasti vorið 1950, höfðu miklar viðgerðir farið fram á húsinu, og þótti prófasti kirkjan “í alla staði hið fegursta og vandaðsta guðshús vel hirt og vel um gengið”. Um 1960 var skipt um járnklæðningu á kirkjunni og hún máluð að utan og innan, settir í hana nýir gluggar og mátarviðir endurnýjaðir. En kirkjan var þá þegar orðin of lítil fyrir söfnuðinn.
Nú hefur ný kirkja úr steinsteypu verið vígð  í Grindavík horni Austurvegar og Ránargötu, vígð þann 26. september 1982. Undirbúningur að smíði nýju kirkjunnar hófst 1966 og var Ragnar Emilsson, arkitekt, fenginn til þess að teikna kirkjuna.

Grindavíkurkirkja

Fyrsta skóflustungan var tekin 1972. Byggingameistari var Guðmundur Ívarsson. Kirkjan er að grunnfleti 538 fermetrar og að auki er 49 fermetra kjallari. Kirkjuskipið sjálft er 255 fermetrar. Í kirkjuskipi eru þrjátíu bekkir úr oregonfuru og rúmast þar 240 manns. Í norðausturhorni kirkjunnar er skrúðhús. Safnaðarheimilið, 112 fermetrar að grunnfleti, kemur hornrétt á kirkjuna út úr suðurhlið hennar, þar geta kirkjugestir setið við fjölmennar athafnir.
Gamla kirkjan í Járngerðarstaðahverfi fékk um skeið hlutverk leikskóla og má sjá handbragð barnanna á inngarðsveggnum umhverfis hana. Nú, árið 2009, eru haldnir AA og FFO fundir í kirkjunni. Um þessar mundir stendur yfir viðhald á henni í tilefni að væntanlegu aldarafmælinu 26. september n.k.; hún verður m.a. máluð að utan og umhverfið fegrað.

Heimildir m.a.:
-Árni Magnússon: Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2. Reykjavík 1955.
-Geir Backmann; Lýsing Grindavíkursóknar 1840-41.
-Þ.Í. Kirknas. D 2 Gb. sóknarnefndar 1808-1926.
-Stjt. 1929 B. 305.
-Lesbók Mbl 11.02.1968, bls. 10-14 – Staðarkirkja og Staðarklerkar, sr. Gísli Brynjólfsson
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur, 1994.
-Staðhverfingabók, Mannfólk mikilla sæva, 1975.

Kirkjugatan

Grindavík
Fyrirlestur Jón Þ. Þórs, fluttur í tilefni af 20 ára afmæli Grindavíkurkaupstaðar 10. apríl 1994.
(Birtist í Árbók Suðurnesja 1994, VII. árangi).

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Í almennum ritum um sögu Íslands á fyrri öldum eru þrír staðir nefndir öðrum oftar: Skálholt, Hólar og Þingvellir. Í sömu ritum er okkur tjáð, að biskupsstólarnir hafi verið mestu menningarsetur landsins og jafnframt auðugustu og valdamestu stofnanir á landi hér. Allt er það satt og rétt. Öll vitum við að völd fylgja auði, en jafnframt að auður verður ekki til af engu. Hann skapast því aðeins að menn, fyrirtæki eða stofnanir hafi tekjur, helst miklar og tryggjar tekjur umfram útgjöld í langan tíma. En hér er, að minni hyggju, brotalöm í frásögnum almennra rita um íslenska sögu. Í þeim er þess sjaldan getið hvaðan auður íslensku biskupsstólanna kom, hvernig hann varð til, hver voru tengsl stólanna við byggðir landsins, hver var þýðing einstakra staða og plássa fyrir valda- og menntasetrin. Í þessu stutta erindi verður rætt lítillega um tengsl Grindavíkur og Skálholts á öldum áður, ef það mætti verða til þess að varpa nokkru ljósi á þetta forvitnilega viðfangsefni.
Þegar Jarðabókin, sem tíðast er kennd við Árna Magnússon og Pál Vídalín, var saman tekin árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóttir, í eigu Skálholtsstóls. Húsatóttir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti. Þegar hér var komið tilsögu, hafði biskupsstóll staðið Skálholti í hálfa sjöundu öld og mikinn hluta þess tíma höfðu ítök og eignir stólsins í Grindavík verið að eflast og aukast. Í því viðfangi er athyglisvert, að elsta skjalfesta heimild, sem greinir frá ítökum og fjárhagslegum réttindum í Grindavík er rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Þar er kveðið á um skiptingu reka í Víkinni og er ljóst af skránni að Skálhyltingar hafa fengið umtalsverðan reka úr Grindavík – jafnt matreka sem viðreka – allt frá því snemma á 13. öld.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Þegar kom fram á 14. öld efldust og jukust ítök og eignir stólsins í Víkinni jafnt og þétt og á 15. öld bendir flest til þess að Grindavíkurjarðir hafi allar með tölu orðið kirkjueign. Að vísu er ekki vitað nákvæmlega hvenær þetta gerðist eða hvernig, og varla von, því á ofanverðri 17. öld vissu Skálhyltingar það ekki sjálfir. Eldsvoðar léku skjalasöfn Skálholtsbiskupa grátt fyrr á öldum og eyddust þá margar jarðabækur og skjöl, sem nú myndu veita ómetanlegar upplýsingar. En fleira kom til. Árið 1684 risu deilur vegna rekamála á Ísólfsskálafjörum. Af því tilefni ritaði Þórður biskup Þorláksson bréf, þar sem hann kvartaði undan því, að fátt væri um skjöl er greindu frá eignarhaldi Skálholtsdókmirkju á jörðum í Grindavík. Þar kenndi hann um eldsvoðunum og því að staðarskipið hefði farist á leið til Grindavíkur og með því jarða- og skjalabók, sú besta, er hann jafði heyrt getið um. Þarna átti biskup vafalaust við farmaskip Skálholtsstaðar, sem fórst við Þórkötlustaðanes árið 1602 og með því liðlega tuttugu manns.
Flest rök hníga að því að Skálholtsstóll hafi eignast Grindavíkurjarðir á 15. öld, nánar tiltekið á tímabilinu frá því Vilkinsmáldagi var settur árið 1397 og þar til Magnús biskup Eyjólfsson setti Staðarkirkju í Grindavík nýjan máldaga 1477. Á þessu skeiði voru mikil umbrot og átök í íslensku samfélagi. Á 14. öld varð bylting í atvinnuháttum og utanríkisverlsun landsmanna, er sjávarafurðir urðu verðmætasta útflutningaafurðin og sjávarútvegur arðsamasta atvinnugreinin. Á sama tíma hófu Englendingar stórfelldar fiskveiðar hér við land og á öndverðri 15. öld olli Plágan mikla stórfelldri röskun á mannfjölda og búsetu í landinu. Þessum atburðum verða ekki gerð nánari skil hér, en afleiðing þeirra varð sú, að byggðin færðist nær sjávarsíðunni en áður hafði verið, eftirspurn eftir sjávarjörðum jókst og þær hækkuðu í verði. Sama máli gegndi um sjávarafurðir, einkum skreið. Hefur dr. Þorkell Jóhannesson reiknað út, að skreiðarverð hafi hækkað um samtals 141 prósent á tímabilinu frá 1350 og fram til 1550. Tilkostnaður við útveginn fór vitaskuld hækkandi á sama tíma, en þó hvergi nærri jafn mikið. Við þessar aðstæður var eðlilegt að fjársterkir og valdamiklir aðilar í samfélaginu renndu hýru auga til góðra sjávarjarða, eins og þeirra í Grindavík, og svo mikið er víst, að um miðja 16. öld voru allar jarðir í Víkinni komnar í kirkjueign og hélst svo framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

En hvaða arð hafði biskupsstóllinn af þessum jörðum, hvern þátt áttu þær í viðhaldi stólsins og stofnana hans? Þessum spurningum verður að sönnu ekki svarað af þeirri nákvæmni að við getum áttað okkur á arði stólsins af jörðunum frá einu ári til annars, en tiltækar heimildir gefa þó nokkra mynd af gangi mála.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Bygging stóljarðanna fór þannig fram að biskup byggði þær bændum, sem þar með urðu landsetar dómkirkjunnar. Þeir greiddu ákveðið afgjald af jörðunum á ári hverju. Það var nefnt landskuld og fór eftir mati jarðarainnar. Við vitum ekki með fullri vissu hver landskuldin var á 15. og 16. öld, er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var saman tekin árið 1703 var landskuld af jörðum í Grindavík samtals 17 hundruð og 40 álnir. Þessar upplýsingar segja nútímamönnum kannski ekki mikið, en greiðsla landskuldar fór fram í verkuðum fiski, harðfiski, og voru 240 fiskar, svonefndir gildingar, í hverju hundraði. Gildingur vó að jafnaði fjórar merkur, þ.e. eitt kíló, og voru þannig 240 kíló í hverju hundraði, en í hverri alin voru tvö kíló. Landskuld af jörðum Skálholtsstóls í Grindavík árið 1703 nam þannig 4.140 kílóum af fullþurrkuðum harðfiski og vilji fólk reikna það magn til peningaverðs á okkar dögum nægir að skreppa út í búð og athuga hvað harðfiskurinn kostar. Á þessum tíma, þ.e. um aldamótin 1700, var almennt reiknað með því að fullverkaður fiskur vægi um fjórðung af þyngd fisks upp úr sjó. Það þýðir að bændur í Grindavík hafi þurft að afla um það bil hálfa sautjándu smálest af fiski til þess eins að hafa upp í landskuldina.
En landskuldin var aðeins hluti af tekjum Skálholtsstóls af jörðunum í Grindavík. Stóllinn hafði umtalsverða útgerð á eigin vegum í Víkinni. Sú útgerð var vitaskuld mismikil frá einu ári til annars og arður af henni réðst af aflabrögum og árferði. Mest var stólsútgerðin í biskupstíð Brynjólfs Sveinssonar á 17. öld og má nefna sem dæmi um afraksturinn að árið 1674 fluttu faramenn biskups alls 15.357 fiska, þ.e. gildinga, af afla stólsskipanna frá Grindavík, auk lýsis og landskuldafisks. Þetta ár var afraksturinn af stólsútgerðinni þannig um 15 smálestir af fulþurrkuðum fiski, sem samsvarar 60 smálestum upp úr sjó. Gefur það nokkra hugmynd um umsvifin og við þetta bættist lýsi, reki og fleiri sjávar- og fjörunytjar.

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Tekjurnar vor þannig miklar og tilkostnaðurinn við að afla þeirra fremur lítill. Biskupsstóllinn átti að sönnu vergögn í Grindavík, báta, verbúðir o.fl., en landsetar, þ.e. bændurnir, urðu að lána menn til skipsáróðurs á stólsskipunum, auk þess sem þeim bar að annast verkun á fiski stólsins.
En nú kynni einhver að spyrja: Hvaða þýðingu hafði sjávaraflinn úr Grindavík fyrir biskupsstólinn? Þessari spurningu verður best svarað með því að líta á fiskþörf Skálhyltinga og er þá einvörðngu miðað við neyslu þar heima á staðnum.
Af varðveittum heimildum er svo að sjá sem árleg fiskþörf í Skálholti hafi verið 10-11 smálestir. Á árunum 1547-1563 fluttust þangað liðlega 10 smálestir af skerið á ári að meðaltali, minnst 8 en mest 13 smálestir á einu ári. Á fyrri helmingi 18. aldar virðist fiskneyslan hafa verið lítið eitt minni, en á árabilinu 1730-1743 var flutt heim til staðarins hálf níunda smálest á ári að meðaltali. Er athyglisvert, að á þessum árum hefur landskuldarfiskurinn úr Grindavík numið nálægt helmingi af árlegri harðfiskþörf Skálhyltinga og segir það nokkra sögu um þýðingu jarðanna í Víkinni fyrir rekstur biskupsstólsins.
Í Skálholti var jafan fjölmenni, um og yfir eitt hundrað manns þegar allt er talið, og fiskur var meginuppistaðan í fæði vinnufólks og skólapilta. Má í því viðfangi minna á, að á fáfiskisárunum 1685-1704 gerðist það oftar en einu sinni, að illa horfði um skólahald í Skálholti sökum fiskileysis, og eitt árið, 1698, varð að fella niður skóla í marsmánuði og senda pilta heim vegna þess að ekki var til nægur fiskur. Sést mikilvægi harðfisksins í mataræði heima í biskupssterinu ef til vill best af því að á síðari hluta 18. aldar fékk hver skólapiltur harðfisk í tvö mál á rúmhelgum dögum, eða einn gilding yfir daginn. Piltarnir voru að vísu mismargir frá einu ári til annars, en yfirleitt um 30 þegar skóli var fullskipaður.

Slokahraun

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Árið 1770 voru skólapiltar 33, og voru þá skammtaðir 33 fiskar alla rúmhelga daga í þær 35 vikur, sem skóli stóð. Það voru 5-6 smálestir yfir skólatímann og lætur nærri að landskuldarfiskurinn úr Grindavík hafi dugað skólapiltum yfir veturinn. Um þetta leyti fengur skólapiltar 1/5 hluta úr fiski í morgunverð á sunnudögum og öðrum bæna- og helgidögum, og urðu það 363 fiskar á 35 vikum. Í Skálholti var jafnan að störfum sérstakur barsmíðamaður og hafði hann það hlutverk að berja harðfisk. Hann barði 32-360 fiska á viku hverri, og á tímabilinu 29. janúar til 26. febrúar 1723 barði hann t.d. 1670 fiska.
Auk alls þess fisks, sem fluttist frá Grindavík til Skálholts var vitaskuld mikið af afla stólsins í Víkinni flutt í kaupstað og selt utan. Fyrir andvirði þess fisks keyptu biskupar ýmsar nauðsynjar, en þótt fiskurinn hafi verið verðmætasta afurðin sem biskupsstóllinn fékk af jarðeignum sínum í Grindavík má ekki gleyma öðru, t.d. viðrekanum, sem notaður var í húsagerð og viðhald heima í Skálholti.
Jarðirnar í Grindavík voru vitaskuld aðeins brot af öllum jarðeignum Skálholtsstóls. Hér verður þess ekki freistað að meta hve mikill hluti af tekjum stólsins á ári hverju kom úr Grindavík, enda skortir nauðsynleg gögn til að það megi gera af skynsamlegu viti. Engum getur þó dulist, að Grindavík var um aldir ein af styrkustu stoðunum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju, sem þar var stunduð.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól á Ísólfsskála.

Hóp

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (fyrri hluti). Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Árið 1703 voru “öngvar engjar” á Hópi. “Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.” Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt of flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Árið 1840 er “jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegheitum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.” Í Landnámi Ingólfs segir að “á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.”

Hóp

Hóp – túnakort.

Árið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talið hafa heitið Hof. Bær Molda-Gnúps í Álftaveri austan mun hafa heitið Hof. “Sagt er að bærinn hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum,” segir í örnefnaskrá.
Landið er sneið af Þorkötlustaðanesinu og spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn sitt af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga. Ós var á hópinu, austast, stundum nefndur Barnaós því þar munu börn hafa drukknað.
Inn á túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Það var um 140 m suðsuðaustan við Hópskot. Húsið hefur verið í námunda við þar sem nú er fiskvinnsluhús við Bakkalág. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og bærinn því kominn undir veginn.

Grindavík

Grindavík – Hópið.

Gamli Hópsbærinn stóð að hluta þar sem fjárhúsbyggingin stendur nú. Hann hefur þó náð lengra til norðurs þar sem nú eru tún. Tröð lá niður túnið á Hópi. Enn sjást merki um tröðina vestan í bæjarhólnum og má greina hvar hún beygir meðfram honum til austurs. Sléttuð tún eru umhverfis. Tröðin er greinileg á 16 m kafla vestan í bæjarhólnum og beygir meðfram honum sunnaverðum. Á þessu svæði hefur tröðin mótast af bæjarhólnum, en hlaðið hefur verið upp með henni að austan.
“Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft”, segir í örnefnaskránni. Goðatóftin er friðlýst frá 25.10.1930. Brynjúlfur Jónsson segir 1903 að “bærinn Hóp hafi upphaflega heitið Hof og að þar hafi verið goðahof”. Þar hafi verið “goðahús” í heiðni og þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota á hvern hátt sem hentar. “Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; “goðahúsið” hefir til skamms tíma verið geymsluskemma, en nú er það haft fyrir fjós,” segir Brynjúlfur. Tóftin er einföld og snýr austur-vestur. Op er syðst á vesturhlið.

Hópsnesviti

Hópsnesviti (Þórkötlustaðanesviti).

Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Engar vísbendingar eru um staðsetningu bænhússins, en það hefur þó líklega verið í námunda við bæjarstæðið.
Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum. Frá 1880 og fram yfir aldamótin er þriðja býlið á Hópi nefnt Litla-Hóp í manntölum, og á kortum er sýnt Hópskot suðaustan við bæinn.
Melber er merkt inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamal bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún.

Hópssel

Hópssel.

Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá asuturhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Tóft er 10 m norðan við vegarslóðann sem liggur suður Hópsnes. Þar mun hafa verið ískofi, líkt og í Þórkötlustaðanesi. Önnur tóft er fast norðan við Bakkalág með sama brúkunargildi skv. upplýsingum Tómasar Þorvaldssonar.

Ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða og norður af þeim hólum heita Katlar. Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, sem stóð á fjörukambinum, en er nú horfin. Hún var endurhlaðin a.m.k. í tvígang, en Ægir tók Siggu jafnan til sín á ný.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þórkötlustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var.
Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Hún er 5-10 m vestan við vegarslóða, sem liggur suður Hópsnesið. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Skiparéttin er um 10 m suðaustan við bílastæði við smábátahöfnina.

Hóp

Minjar í Hópstúni.

Langhóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. “Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,” segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir hálft Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör, sem er þarna fyrir utan.
Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Mikið er um hleðslur í hrauninu á þessum stað, sumar hverjar greinileg hólf en aðrar ógreinilegar. Hugsanlega hafa þetta verið herslugarðar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Túngarðsleifar sjást 50-60 m ofan við eystri bæ Hóps. Hægt er að greina hvar túngarðurinn hefur legið í vestur frá þessari girðingu, en þar hefur verið sléttað yfir hann. Garðurinn liggur í grasigrónu og sléttuðu túni. Hægt er þó að sjá hvar garðurinn hefur legið til vesturs frá girðingunni austan við Hópstún. Frá girðingunni er um 30 m kafli þar sem einungis er merkjanlegur hryggur þar sem garðurinn var. Þá verður garðurinn greinilegri og sést hann þaðan á um 36 m kafla til vesturs þar til rof er í hann og honum hefur alveg verið rutt á 22 m kafla. Hann birtist aftur þar vestan við á 40 m kafla áður en hann verður enn aftur ógreinilegur og úr honum sléttað. Þó sést hann óglöggt í 35 m til viðbótar sem hæð í túninu uns hann hverfur alveg. Hornsteinn í norðvesturhorni garðsins er enn merkjanlegur í sléttu túninu miklu vestar, en þær garðleifar sem enn sjást á yfirborði.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við garðinn í túninu er brekka, sem heitir Kinn, og rétt við hana er laut, sem heitir Kvíalág. Þar voru kvíar þegar fært var frá. Kvíarnar voru þar sem Hópsvegur liggur niður brekku vestan við túnin á Hópi, milli hans og túnanna.
“Hópsvör er austan við bæinn að Hópi. Austan við vörina heita Vöðlar. Þá er Stekkjarfjara og svo básar, sem heita Heimribás og Syðribás,” segir í örnefnaskrá. Þar ofan við er Stekkjarbakki og Síkin, feskvatnstjarnir. Hópsbændur reru frá Hópsvör á fyrri tíð. Enn má sjá móta fyrir vörinni utan varnargarðsins á lágsjávuðu. Þar sem garðurinn er nú voru sjóbúðirnar frá Hópi.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjarvarða er um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes. Hún stendur þar á hól fast sunnan við vegarslóðann. Varðan er alveg hrunin, en sést grjóthrúga þar sem hún stóð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.
Markasteinn var í fjörunni um 60 m vestan við Hópsvita. Á hann voru klappaðir stafirnir LM til merkis um landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Hann virðist nú vera horfinn.
Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Ummerki eftir þvottastaðinn eru nú horfin vegna framkvæmda, en Vatnatangi er beint suður af innsiglingarvörðunni, stundum nefnd Svíravarða, en sú varða mun hafa verið nokkru vestar við Hópið, í Járngerðarstaðalandi. Efri innsiglingavarðan er efst í túninu á Hópi. “Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur á Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,” segir í Sögu Grindavíkur.

Hóp

Hóp.

Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Draugur var klettur í túninu á Hópi. Hann er nú horfinn þar sem eru sléttuð tún. Draugar eru víða til, en þeir voru nefndir svo vegna rökkuropinberunarinnar.
Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin liggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.
Leifar gerðis eru sunnan við Austurveg. Gerðið er fast vestan við óskýrðan vegarslóða sem liggur frá Austurvegi að olíutönkum. Það er á gróðurlitlu hraunlendi, formlega lagað.
Í efralandinu er Heiðarvarðan í Hópsheiði, en svo nefnist svæðið ofan þjóðvegarins að Þórkötlustaðahverfi. Varðan var innsiglingamerki. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni einkum úr suðurhlið hennar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Gjáhóll er austan við Stamphólsgjá. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Leifar þess eru að mestu horfnar.
Gálgaklettar eru norðan í Hagafelli. Þar er klettabelti með þessu nafni. Þar segir sagan, að þjófarnir í Þjófagjá hafi verið hengdir. Vestan í Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri og er gamalt fiskimið (Melhóll í Grágeira). Þar vestan í fellinu er svonefndur Selháls, sem þjóðvegurinn liggur yfir. Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Hann er sunnan við Dagmálaholtið. Dagmálaholt mun vera kennt við eyktarmark frá selinu á Baðsvöllum, en það var frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni. Einnig er Selháls kenndur við það sel, sem er fast austan við veginn norðan við hálsinn. Þær tættur virðast yngri en Baðsvallaselin. Tóftin er í aflíðandi hæð. Seltóftin er þrískipt. Hún er tæp 12 m á lengd, en 4,5 m á breidd. Op eru á suðurveggjum allra hólfanna, en ekki er greinilegt op á milli þeirra. Tóftin er gróin að utan, en grjóthleðslur sjást að innan.

Skógfellavegur

Skógfellavegur og Sandakravegur.

Skógfellaleið er forn leið milli Grindavíkur og Voga. Við hana eru vörður, sumar fallnar, aðrar endurhlaðnar í seinni tíð. Fast norðan við Austurveg, þar nálega til móts við þar sem Mánagata kemur á veginn er nýlegt minnismerki þar sem Skógfellsleið lá. Leið þessi lá frá merkinu og til norðvesturs út á hraunið. Afleggjarinn lá á hina eiginlegu Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur og liggur frá Þórkötlustöðum, austur fyrir Stóra Skógfell og í Voga eins og nöfnin gefa til kynna. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur hafi numið land þar sem nú er Hóp og nefnt bæ sinn Hof. Eldgos efra á 12. og 13. öld raskaði byggð í Grindavík sem og á nálægum svæðum, t.d. í Krýsuvík. Eftir það byrjar flækja búsetu í Grindavík, sem enn á eftir að greiða úr.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Fornleifaskráning FÍ 2002.
-Örnefnalýsing.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Faxi

Í Faxa 1977 fjallar Svavar Árnason um Grindavík undir yfirskriftinni “Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið”.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

“Alþingi veitti Grindavík kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974. Grindavíkurkaupstaður er því með alira yngstu kaupstöðum landsins. Saga hans er að vonum ærið stutt og naumast annálsverð enn sem komið er, en Grindavíkurhreppur, sem er eðliiegur undanfari kaupstaðarins, á sér aftur á móti langa og að ýmsu leyti merka sögu, sem rekja má allt til landnámsaldar. Þess er þó enginn kostur að rekja þá sögu í stuttu máli, aðeins skal lauslega minnst á minnisverða atburði og þá ekki síður þá atburði, sem minni eftirtekt hafa vakið í gegnum tíðina.
Um það hvernig Grindavík byggðist segir svo frá í Landnámabók: „Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
banaorð.
Blástu meir.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígfar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar. Þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórðu leggjaldi.

Hraustir menn og vígreifir víkingar

Grindavík

Grindavík og nágrenni.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímkaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sáu ófreskir menn, að landvættir fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Af þessari lýsingu er bersýnilegt, að þeir sem námu land í Grindavík voru hraustir menn og vígreifir víkingar, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna svo sem kviðlingur Vémundar ber vott um. Það er víst að Landnámsmennirnir hafa frá upphafi byggðar í Grindavík stundað jöfnum höndum landbúnað og fiskveiðar og farnast vel, enda til þess notið fulltingis landvættanna eftir því sem sagan segir.
Landafræðin kenndi okkur að Grindavík væri lítið og afskekkt sjávarþorp á sunnanverðum Reykjanesskaganum, umkringt hraunum og langt frá öðrum byggðum. Landkostir rýrir en stutt á fangsæl fiskimið. Úthafsaldan, ferleg og há, komin um óravegu sunnan úr höfum, brotnar hér við ströndina með háreisti og gný. Af því leiðir að Grindavík hefur ávallt verið talin brimveiðistöð.

Skipströnd og björgunarafrek

Skipsskaðar

Skipsskaðar við Grindavík.

Strandlengjan fyrir landi Grindavíkur nær frá Valahnúk á Reykjanesi, eða nánar tiltekið frá miðri Valahnúkamöl og austur að Seljabót, en þar tekur við Selvogur í Árnessýslu.
Á þessari strönd hefur mörg harmsagan gerst. Guðstéinn Einarsson hreppstjóri hefur í ágætri grein í bókinni Frá Suðurnesjum, skráð örnefnin og um leið fléttað inn í frásögnina viðburðaríkum atburðum af skipsströndum og björgunarafrekum, sem unnin hafa verið á þessari strandlengju, sem hann telur vera um 70 til 80 km. langa.
Fjallahringur upp til landsins umlykur Grindavík og gefur henni hlýlegt svipmót. Fjöllin eru fremur lág, en Þorbjörn er þeirra nálægastur byggðinni og nýtur mestrar virðingar innfæddra Grindvíkinga, þótt hann sé ekki nema 243 metrar á hæð. Þar skammt frá er- Hagafell” með Gálgaklettum og síðan kemur Svartsengi, sem nú er þekkt vegna háhitans, sem er á því svæði, og nú er virkjaður af Hitaveitu Suðurnesja í þágu íbúa á Suðurnesjum.

Útilegumenn hengdir í Gálgaklettum

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þar sem fjallið Þorbjörn rís upp úr hraunflákanum í allri sinni tign með klofinn toppin og myndar gjá, sem heitir Þjófagjá, þar eiga útilegumenn endur fyrir löngu að hafa átt skjól. Þjóðsagan segir að þeir hafi um síðir verið handsamaðir og færðir til hengingar í Gálgaklettum.
Lengra austur eftir Sakganum koma svo Húsafell í grennd við býlið að Hrauni, þá Fiskidalsfjall, Fagradalsfjall og Festi eða Festarfjall. Festi er fyrir botni Hraunsvíkur. Þar þykir skemmtilegt útivistarsvæði undir fjallinu á Hraunssandi við sjó fram. Ekki er þó þessi staður með öllu hættulaus vegna grjóthruns úr fjallinu og engan veginn er hættulaust að fara þar í sjóinn vegna strauma, sem liggja fram með ströndinni, og hafa gert færustu sundmönnum örðugt að ná landi aftur.
Býlið Hraun er austan við Þorkötlustaðahverfið, en austasti bærinn er ísólfsskáli og er yfir Hálsa að fara þangað. Austan við Ísólfsskála eru fjöllin Slaga og Skála-Mælifell og enn austar er svo Krýsuvíkur-Mælifell, en austast er Geitahlíð með Æsubúðir efst á tindi. Skammt austan við Ísólfsskála eru Selatangar. Þaðan var útræði frá Skálholti á fyrri tíð, og enn má sjá þar ummerki og tóftabrot, er minna á frumstæðan aðbúnað sjómanna í verbúðum þeirra tíma.

Járngerður og Þorkatla

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Grindavík hefur frá fornu fari verið skipt í þrjú hverfi, þ.e. Staðarhverfi vestast, þá kemur Járngerðarstaðahverfi og austast Þorkötlustaðahverfi, en auk hverfanna þriggja voru svo einstaka bæir svo sem Hóp — þar sem nú er höfnin — lífæð byggðarinnar —, Hraun og Ísólfsskáli og áður fyrr byggðarhverfi í Krýsuvík. — Í Krýsuvík er risinn myndarlegur skóli, sem sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi, SASÍR, hafa barist fyrir að koma á fót, en kennsla er rétt óhafin.
Það er athyglisvert við nöfn hverfanna, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi, að svo virðist sem “rauðsokkur” þeirra tíma hafi látið mikið til sín taka í Grindavík. Ekki greinir þó sagan frá jafnréttisbaráttu kvennanna þar, en víst má telja að konur þessar, Járngerður og Þorkatla, hafi verið hnir mestu skörungar og stórbrotnar að allri gerð. Þær sátu báðar jarðirnar, sem einnig bera þeirra nöfn. Báðar munu þær hafa átt útvegsbændur og framsækna fiskimenn, en gifta þeirra fylgdist ekki að. Járngerður missti bónda sinn í sjóinn á Járngerðarstaðasundi. Segja munnmæli að þá hafi Járngerður orðið myrk í skapi, og kveðið svo á, að 20 skip skuli farast á Járngerðarstaðasundi. Telja fróðir menn að þeirri tölu sé náð. Af Þorkötlu er aftur það að segja, að hún hafi látið svo ummælt, að aldrei skyldi skip farast á Þorkötlustaðasundi, ef rétt væri farið og fomann brysti ekki dáð og dug, og þykir það hafa farið eftir.

Oft var teflt á tæpasta vað
Grindavík
Landnámsmennirnir komu til Íslands á opnum skipum. Molda-Gnúpur og synir hans stunduðu sjóinn á opnum skipum að sjálfsögðu, og Grindvíkingar hafa löngum háð sína hörðu lífsbaráttu á opnum skipum — fyrst og fremst áraskipum — fram yfir árið 1926 og þar næst á opnum vélbátum, „trillum,” allt þar til að hafnarskilyrði sköpuðust í Hópinu fyrir stærri skip og báta, svo að sambærilegt er orðið við hvaða verstöð sem er á landinu.
Þeir einir, sem muna tímana tvenna og þær stórkostlegu breytingar, sem hafa orðið á aðstöðu allri til sjósóknar og fiskveiða í Grindavík síðustu 50 árin, hljóta að undrast það nú, að það skuli hafa verið mögulegt að stunda róðra á þessum litlu fleytum og bjóða þeim það sem þeim var boðið og ekki síður eftir að „trillurnar” komu til sögunnar. Þeir sóttu sjóinn fast, og tefldu oft á tæpasa vað. Lendingin var oft erfið og áhættusöm þegar komið var upp að Járngerðarstaðasundi og þurfti að liggja til laga eins og það var kallað. Þeir sem í landi voru, og fylgdust með þegar lagið var tekið, biðu í ofvæni og eftirvæntingu úrslitanna um það, hvort mætti sín meira, mannlegur máttur ræðaranna, eða hrammur holskeflunnar. Oftast tókst þetta vel, og formennirnir lærðu að finna rétta lagið — nákvæmlega rétta augnablikið — þegar lagt var á sundið í tvísýnu. Oft skall hurð nærri hælum og slysin urðu ekki umflúin, eins og hún Járngerður, og svo ótal margir fleiri hafa orðið að horfa upp á og þola. —

Áfram nú í Herrans hafni
Grindavík
En nú er allt orðið gjörbreytt til hins betra. Hætturnar leynast að vísu alls staðar, bæði á sjó og landi. Bátastærðin, öryggistækin og höfnin, allt ber það vott um þá stórkostlegu byltingu, sem átt hefur sér stað í þróun og vexti staðarins. —
Þegar þróunin verður skyndilega ör, vill það stundum gleymast að halda til haga ýmsum fróðleik varðandi atvinnusöguna og líf fólksins á viðkomandi stað. Hvert tímabil á sína sögu.
Ef við hugsum til þess að fram til ársins 1926 er svo til eingöngu róið á árabátum, þá er líklegt að ýmsir siðir og venjur, áhöld og tæki, sem þá voru notuð, séu nú lítt þekkt eða með öllu ókunn þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp í landinu.
Við skulum leiða hugann að því að formaðurinn á áraskipinu fer árla dags á fætur, gáir til veðurs, því að þá er engin veðurþjónusta, fer síðar um kotin og kallar, þ.e. ræsir skipshöfnina. Hún bregður skjótt við og innan tíðar eru allir komnir til skips í nausti, hver maður skinnklæddur og kominn að sínum keip. Það fyrsta sem þeir gera, er að þeir taka ofan og signa sig. Þá er losað um skorður og formaðurinn segir: Áfram nú í herrans nafni. —
Samtaka ganga nú allir til verks og setja skipið á hlunnum fram í vörina, og þegar skipið flýtur, hoppa allir léttilega upp í, og setjast undir árar, en formaðurinn kemur fyrir stýri. —
Á vetrarvertíð voru skipin flest tíróin, kölluð teinæringar.
Þegar ýtt hefur verið úr vörinni er fyrst róið yfir Lónið á Járngerðarstaðavíkinni og fram á snúning, en það er hættulegasti staöurinn þegar brim er. Þegar snúningi er náð, er stefnan tekin út Víkina, en þá taka allir ofan, og halda þó róðrinum áfram, en um leið sameinast skipshöfnin í Ijóðlátri sjóferðabæn. Þegar bænin er á enda setja menn upp sjóhattinn á ný. Þannig hefst sjóferðin.

Og forða því frá öllu grandi
GrindavíkEf til vill er verið með línu, þá er hún lögð þegar komið er fram á mið, eða þá að verið er að vitja um netin.
Yfirleitt er hraði í öllum verkum og kostur þótt það að vera fljótur á sjó, því að á skammri stund skipast veður í lofti. — Glöggir formenn gerðu sér Hjótt grein fyrir því, hvort farið væri að brima eða ekki. Þeir sáu það á öldunni og það engu síður þótt í logni væri.
Þegar komið var að landi og sjóferðin var á enda var það venjan að tveir fremstu ræöararnir lögðu upp árarnar áður en komið var í vörina.
Þeir voru kallaðir framámenn og tóku sér í hönd „kolluband” og settust framan á kinnungin og höfðu það Þýðingarmikla og vandasama starf með höndum að taka skrið af skipinu þegar þeir sjálfir höfðu fengið fótfestu, og halda því á floti á meðan bskurinn var seilaður þ.e. dreginn UPP á snæri, sem kallað var seilaról, því að engin var þá bryggjan til að landa við. Seilaról var þannig gerð, að á öðrum endanum var tréspjald en á hinum endanum var lykkja. Lykkjan var þrædd í auga á seilarnál, sem venjulegast var tiltelgd úr hvalbeini.
Með seilarnálinni var svo fiskurinn seilaður upp á seilarólina og þegar allir höfðu lokið við það, voru seilarólarnar sameinaðar og bundnar við streng eða tóg, sem fesi var við klettanöf í fjöruborðinu. Á meðan þessu fór fram hafði formaðurinn nóg að gera við að halda skipinu í horfi í vörinni með sérstökum krókstjaka, sem til þess var ætlaður. Þannig unnu þeir saman formaðurinn og framámennirnir, að því að halda skipinu í réttu horfi og forða því frá öllu grandi. Var það oft erfitt verk og vandasamt, ef sogadráttur var í vörinni og mikil lá.

Hvort viltu heldur, sporð eða haus?

Grindavík

Þegar skipið hafði verið sett í naust var næsta verkefnið að bera aflann upp á bakinu, um annað var ekki að ræða. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðri birðaról, einnig úr snæri, en miklu styttri en seilarólin. Hver maður bar það sem hann vildi í einu og var stundum keppni um það hve marga fiska var hægt að bera í einni ferð. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðan skiptavöll og þar skipti formaðurinn aflanum í köst. Það var reyndar kallað að skipta í fjöru.
Í kastinu voru 2 hlutir. Síðan var dregið um köstin og þar sem 2 menn voru um kastið skiptu þeir á milli sín, og gerðu út um skiptin með því að annar sneri frá, en hinn spurði t.d. hvort viltu heldur sporð eða haus, lófa eða laska, skaft eða blað, hæl eða tá og sitt hvað fleira mátti nota til að gera út um skiptin. — Síðan gerði hver að sínum aflahlut.
Hér áður fyrr var talið að vetrarvertíð byrjaði 2. febrúar ár hvert og lokadagurinn var óumdeilanlega 11. maí. Í vitund fólksins var lokadagurinn mikill hátíðisdagur, sérstaklega ef vertíðin hafði verið gjöful og stórskaðalaus.
Á tímum áraskipanna var það mjög algengt, að ungir og frískir bændasynir austan úr sveitum og víðar að, fóru í verið út í Vík þ.e. Grindavík, og dæmin voru þess, að þeir komu ár eftir ár, sömu mennirnir og voru hjá sama formanninum og á heimilum þeirra og annara, sem að útgerðinni stóðu. Þessir menn voru á þeim tíma kallaðir útgerðarmenn þ.e. þeir voru gerðir út. Með þessum mönnum og heimamönnum var náið samstarf, sem leiddi oft til traustrar vináttu og samhjálpar í erfiðri lífsbaráttu. Og trúlega munu þeir menn enn finnast, sem eiga hugljúfar minningar um samveruna í verinu og kveðjustundirnar á lokadaginn 11. maí.”

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.08.1977, Grindavík – Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið, Svavar Árnason, bls. 2-4.

Grindavík

Grindavík 1963.