Ari Gíslason skráði örnefni í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Þar segir m.a.: “Næst utan við Hóp er Járngerðarstaðahverfi. Upplýsingar um örnefni eru frá Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti, Ingibjörgu Jónsdóttur kennara, systur hans, Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum, Spítalastíg 3 í Reykjavík, Guðsteini Einarssyni hreppstjóra í Grindavík o.fl.
Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó og eru þar nokkur önnur býli sem hafa sameignlegt land nema túnblettina.
Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Suður-Gjáhús heita nú Vík en Norður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.
Guðsteinn Einarsson las yfir hluta af handriti Ara Gíslasonar og gerði athugasemdir við það í apríl 1967. Sæmundur Tómasson las það einnig allt yfir og bætti ýmsu við og lagfærði. Auk þess ritaði hann meðfylgjandi viðbætur eftir að gengið hafði verið frá aðalskránni.”…