Fornigarður

“Landbúnaðurinn hefir hér á Íslandi mikið til þrætt sömu sporin í 900 ár að því er búnaðarhætti snertir. Er það að vísu óræktur vottur um tryggð og fastheldni vor Ísendinga við gamlar venjur og væri að sönnu allrar virðingar vert, ef vér hefðum eigi jafnframt fellt niður aðal-búmannskostina; atorkuna og dugnaðinn.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Slægjulöndin skiftust þá eins og nú í tún og engjar, en sá er munurinn, að á söguöldinni voru slægjulöndin, bæði tún og engjar, rammlega girt og varin fyrir ágangi fénaðar og var það eitt hið fyrsta og æðsta boðorð í landbúnaðarlöggjöf forfeðra vorra. Og eigi létu þeir þar við sitja. Þeir girtu einnig haga sína og afréttarlönd. Þorsteinn Egilsson á Borg lét gera garð um þvera Grísatungu milli Laugavatns og Glúfrár, og hefir það verið býsna mikið verk, enda lét hann þar að vera marga menn um vorið.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ein af þrautum þeim, er Víga-Styr lagði fyrir berserkinn, er hann mælti til ráðahags við dóttur hans, var sú, að hann skyldi leggja hagagarð yfir þvert hraunið milli landa þeirra Vermundar. Hér er hagagarðurinn um leið merkigarður, og hefir það auðvitað víða fallið saman. Lögin heimiluðu hverjum bónda, að krefjast þess af nágranna sínum, að hann legði merkigarð á milli landa þeirra í félagi við hann, og var nefndur löggarður og verkið löggarðsönn. Löggarður skyldi vera 5 feta þykkur niður við jörð, en 3 feta að ofan, og axlar hár af þrepi. Lögin ætla 12 vikur á ári til garð-anna og sýnir það bezt hve mikla áherslu forfeður vorir lögðu á að verja land sitt. Þeim mönnum, er vel kunnu til garðlags, varð öðrum fremur gott til vistar, og sóttust menn eftir þeim langt að og vildu oft mikið til vinna.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Maður var nefndur Ásbjörn vegghamar, ættaður úr Flóa. Hann var heldur óþokkamenni og illa kynntur, en margir slægðust til að taka við honum, því hann var garðlagsmaður svo mikill, að enginn lagði lag við hann. Hafðist hann við austur í Fljótsdalshéraði og lagði garða um tún manna og svo merkigarða. Var hann svo mikill meistari á garðlag, að þeir garðar stóðu öldum saman í Austfjörðum, er hann lagði. En vér þurfum eigi að leita vitnisburðar fornritanna um atorku og dugnað forfeðra vorra í þessu efni. Verkin sýna merkin. Enn í dag sjást víða hér á landi leifar af fornum merkigörðum, og eru þeir hin mestu mannvirki í sinni röð og óskeikull vottur um hið stórbrotna starfsþrek forfeðra vorra. Fyrir ofan Stóra-Klofa á Rangárvöllum sér enn votta fyrir fornum garði yfir þveran hreppinn, nær ½ mílu á lengd.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Hafa menn eignað Torfa ríka garð þennan, af þeim ástæðum sennilega, að hann var einna alkunnastur höfðingi um þessar slóðir, en óefað er mannvirki þetta miklu eldra. Á Mýrum vestra er og fjöldinn allur af slíkum fornaldargarðlögum, eigi aðeins í grennd við bæina, heldur og víða í höfum úti. Í Suður-Þingeyjarsýslu (Reykjadal, Laxárdal og Reykjahverfi) er örmull af fornum görðum. Liggja þeir meðal annars yfir Fljótsheiði þvera frá norðri til suðurs, nál. 5 mílur vegar á lengd, og yfir Hvammsheiði. Hafa sumir ætlað þetta forna upphleypta vegi, eða “göngugarða”, og meðal annars eignað Guðmundi ríka á Mörðuvöllum einn þeirra, yfir Hvammsheiði, er létta skyldi ferðir hans í Reykjahverfi. En allt munu þetta vera fornir merkigarðar eða afréttagarðar. Sumstaðar sér og votta fyrir fornum túngörðum, er sýna það og sanna, að tún fornmanna hafa verið miklu stærri en nú, enda leiðir það og beint af skepnufjöldanum [sjá frásögn annars staðar].”

Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 244-246.

Grjóthleðsla-9

Unnið við endurgerð sjógarðs í Vogum.