Tag Archive for: Ölfus

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg og síðan haldið sem leið lá vestur yfir Þúfnavelli austan Geitafells, yfir Ólafsskarðsveg og vestur með fellinu norðanverðu.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að rótum vesturhorns fellsins. Þaðan sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selvelli fyrir neðan.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá sást í stórt jarðfall. Þegar þangað var komið sáust rásir liggja inn til beggja enda. Rásin til suðurs var fremur stutt og lokast með hruni, en rásin til norðurs, mót Heiðinni há, var lengri og opnari. Fyrir innan er mikil hraunrás með háum bálkum beggja vegna. Mikil hrauná hefur runnið þarna niður og mátti sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 sentimetra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða mátti sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ganga þurfti uppi á hægri bálknum inn með rásinni fyrir neðan, en innst inni í þessum 80 metra langa helli er hann heill og rúmgóður. Hátt er til lofts þar sem fyrir er mjór og hár hraunfoss. Hann kemur úr úr veggnum í allnokkurri hæð og hefur storknað utan í veggnum á leið sinni niður. Ofarlega á veggjunum neðan við fossinn eru mjög fallegar hraunmyndanir. Erfitt er að mynda fossinn nema með mjög góðum ljósabúnaði.
Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann. Hellirinn er bæði aðgengilegur og auðfundinn, og ekki skemmir hið fallega umhverfi á heiðinni fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Fosshellir

Fossinn í Fosshelli.

Þorlákshafnarsel

Gengið var yfir Eldborgarhraun eftir Lágaskarðsvegi gegnt Raufarhólshelli, norður með Lönguhlíð, inn á Selstíg, upp í Sandali og á Eldborg undir Meitlum, um Lágaskarð milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells og um Lákastíg austan Stóra-Meitils um Stóradal að Hveradölum. Þessi fyrrum fjölfarni vegur var nefndur Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Gatnamót eru undir Lönguhlíð þar sem Selstígurinn liggur af honum suður með hlíðinni að Hrauni. Þessi leið hefur einnig verið nefnd Lágaskarðsvegur, líkt og hin, sem liggur frá gatnamótunum til suðvesturs áleiðis niður að Breiðabólstað. Sá hluti götunnar (Selstígur/Lágaskarðsvegur) lá niður að Hjalla í Ölfusi. Hraunsselið er skammt neðan við gatnamótin, fast við hraunbrúnina. Í bakaleiðinni var gengið suður með austanverðum Litla-Meitli, ofan við Innbruna og áð undir Votabergi þar sem Hafnarsel kúrir undir grettistaki.
Lágaskarðsvegur var genginn yfir Eldborgarhraunið frá malarnámusvæðinu við Raufarhólshelli að Lönguhlíð. Ofar er Sanddalahlíðin og Suðurhálsar. Þegar komið var yfir hraunið var gengið spölkorn suður eftir Selstígnum og litið á tóftir Hraunssels.
Þá var haldið áfram upp með Lönguhlíð gengið norður eftir Lágaskarðsvegi, milli hraunsins og hlíðarinnar. Undirhlíðin er grasi gróin og því greiðfar göngufólk.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Litli-Meitill blasti við í norðvestri og Eldborgin var beint framundan, ofan Sanddala. Undir Litla-Meitli eru fallegir grasbalar, auk þess sem sjá má vísir af skógrækt undir hlíðinni. Nyrðri-Eldborg er framundan. Úr henni liggur falleg hrauntröð á sléttlendið fyrir neðan. Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla í Ölfusi, kom úr þessari Eldborg. Í raun er það miklu mun eldra en Kristnitökuhraunið norðvestan við Lambafellið, það er myndaði Svínahraunsbrunann.
Gígurinn er mikilfenglegur, ekki síst þar sem hann trjónaði þarna uppi í þokukenndri hlíðinni. Hann hefur hlaðið upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Gígurinn er opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gígarnir tveir, þessi er nefnist Nyrði-Eldborg og annar mun minni austar, utan í Stóra-Sandfelli, nefndur Syðri-Eldborg. Hraunið norðan þeirra er úr Eldborg ofan Hveradala, austan í Stóra-Reykjafelli.
Gengið var áfram um Lágaskarð. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar um þræla Ingólfs Arnarssonar, Sviða og Vífil segir m.a.: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn.”

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Í örnefnalýsingum er fjallað um Lágaskarðsveg. Þar segir m.a. að “Lágaskarð liggur hjá Stakahnúk [en hann er áberandi þegar komið er í skarðið austan við Stóra-Meitil]. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.
Lágaskarðsvegur hefst við Breiðabólstað. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð og upp á Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.”

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusli.

Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: „Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar (303 m.y.s.).

Skálafell

Skálafell.

Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: „Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.“

Lakadalur

Lakadalur.

Í Þjóðólfi 14. september árið 1906 er fjallað um fyrirhugaða járnbrautalagningu milli Reykjavíkur og Ölfuss. Þar segir m.a. um járnbrautarleiðina austur í sýslur að verkfræðingurinn Þorvaldur Krabbe hafi nú athugað leiðina. “Skýrði hann oss frá, að hann hefði fyrst athugað leiðina héðan austur í Ölfus. Er þar um þrjár leiðir að tala: um Ólafsskarð, Lágaskarð og um Hellisheiði niður hjá Reykjaholti og Reykjum, en um þá leið væri naumast að tala. Um Ólafsskarð mætti leggja braut, og væri þá farið fram hjá Vífilfelli, en Lágaskarðsleiðin niður að Hrauni væri greiðust, en á þeirri leið væri um hraun að fara á mjög löngum kafla, og hann vildi ekki leggja til, að járnbrautir væru lagðar yfir hraun. Undirstaðan eða hleðslan undir brautina héldist þar afarilla, sigi niður og skekktist allavega, og það gæti orðið stórhættulegt, því að járnbrautarteinarnir mega ekki haggast hið minnsta, annars er við því búið, að lestin hlaupi út af sporinu.”

Lágaskarðsvegur

Stapi við Lágaskarðsveg.

Framundan var Hveradalaflötin norðan Lakahnúka og Hveradalir suðavestan í Reykjafelli (Stóra-Reykjafelli). Í efsta dalnum, vestan við Eldborg, var skíðastökkpallur og heitir þar Flengingarbrekka. Stærsti dalurinn heitir Stóridalur og ofan við mynni hans er Skíðaskálinn. Hverirnir, sem dalirnir eru við kenndir, eru í litlum hvammi fyrir ofan Skíðaskálann.
Skíðaskálinn í Hveradölum var reistur árið 1934 af Skíðafélagi Reykjavíkur og var hann í eigu þess til 1971 er Reykjavíkurborg keypti hann. Skálinn brann til kaldra kola 21. janúar 1991. Nýr skáli í svipuðum stíl var þá reistur á grunni hins gamla. Hann var tekinn í notkun 4. apríl 1992 og formlega vígður 17. júní það ár.

Skíðaskáli

Skíðaskálinn í Hveradölum.

Uppi í brekkunni fyrir ofan skálann eru tveir minnisvarðar. Annar þeirra er til minningar um Ludvig H. Müller (1879-1952), kaupmann, er var formaður Skíðafélags Reykjavíkur í 26 ár, frá stofnun þess 1914, en hinn um Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1951), kaupmann, er var formaður þess næstu 11 árin. Í Hveradölum bjó á árunum milli 1930 og 1940 danskur maður, A.C. Høyer að nafni. Hafði hann þar greiðasölu. Þá hafði hann gufu- og leirböð og vísi að gróðurhúsarækt, líklega einn fyrsti maður hér á landi sem stundaði þann atvinnuveg.
Gengið var til baka um Stóradal, niður í Stórahvamm vestan undir Stóra-Meitli og hlíðinni fylgt til suðurs milli hennar og Lambafellshrauns, framhjá Hrafnakletti og að Votabergi. Undir berginu er Þorlákshafnarsel (Hafnarsel).

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Í örnefnalýsingu segir að „frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi. Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi. Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við stóran klett kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi. Þar hafði Þorlákshafnarbóndi í seli gegn skipsuppsátri Breiðabólsstaðarbóndans í Þorlákshöfn. Sunnar frá selinu er hóll eða klettaborg og þar við lóðréttan, lítinn hamravegg er eitthvert mannvirki, sem gæti verið kvíar og raunar ekki sýnilegt, hvað það gæti verið annað.

Votaberg

Votarberg.

Hamraveggurinn hefur veirð notaður á eina hlið, en síðan hlaðið á þrjá vegu úr grjóti. Þetta er um 7 m á lengd og 2 m á breidd, kynni að hafa tekið um 25-30, en það má þykja helst til lítið fyrir stórbýlið Þorlákshöfn. Þetta gæti þó vel staðist, því fjöldi sauðfjár var þar ekki svo mikill á 18. öld og fram á þá 19.”
Rústirnar voru friðlýstar af Þór Magnússyni í janúar 1976.
Í heimildum er einnig sagt frá Tæpistíg, leið er lá “upp úr grasgeira ofan við Votaberg, sniðgata í snarbrattri hlíðinni, upp á brúnina.“
Gengið var niður með Litla-Meitli og niður Eldborgarhraun að upphafsstað. Á leiðinni var leitað hugsanlegra hella í hrauninu, en engir fundust að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.

Lambafellshraun

Gengið var um svonefnt Kristnitökuhraun norðan Þrengsla, að Nyrðri- og Syðri Eldborg og síðan niður með suðausturjaðri hraunsins sunnan Lambafells, áfram niður Lambafellshraun um Lambhól, yfir að Stórahvammi undir Stórameitli, suður með vestanverðum Litlameitli, framhjá Hrafnakletti og Votabergi og beygt til norðausturs milli Litlameitils og Innbruna, upp að Eldborg undir Meitlum.

Vatnsskarð

Vatnsskarð vestan Núpa þar sem Þurárhraun rann niður á láglendið.

Árið 2000 voru 1000 ár frá því að Kristnitökuhraunið rann. Um er að ræða mikið mosahraun með löngum og fallegum hrauntröðum. Á þessum tímamótum, með fæturnar á áþreifanlegum ummerkjum sögunnar, voru rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekist var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Þetta hraun, sem þá rann undir Hellisheiði, kom þar við sögu.
Í bók sinni, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: “Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sig alfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnastefið um eldsumbrot í Ölfusi.

Eldborgir

Eldborgir í Svínahrauni.

Í núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristni sögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram. “Þá kom maður hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa ábæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: “Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á.” Þetta atvik er eitt af þeim stórmerkjum, sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita.”

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Kristnitökuhraunið á vestanverðri Hellisheiðinni rann einmitt um þetta leyti. Svínahraunsbruni norður af Þrengslum mun vera umrætt hraun. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000. Ekkert annað hraun á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Gefið er til kynna að bæ Þórodds goða á Þóroddsstöðum eða Hjalla hafi verið í hættu. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi í Ölfus og á bæ goðans. Það hraun, Þurárhraun, rann hins vegar úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni um skarð austan við Þóroddsstaði.

Eldborg

Eldborgir og hraunin – greinilega um tvö gostímabil með stuttu millibili að ræða.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurn veginn samhliðpa Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni. Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vetsurs, nokkurn veginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð.

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum, vaxið þykkum grámosa, sem tekur á sig gulan lit þegar hann vöknar.
Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið yfir Leitarhraunið til norðausturs.

Það hraun, Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla er miklu mun eldra en kristni á Íslandi. Það átti upptök sín í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg, sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Hins vegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gíganir undir Meitlunum tveir; Nyrði- og Syðri-Eldborg. Ofan af gígbarmi Eldborgar sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorkálshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áðurnefnd eldstöð ofan Hveradala.
Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi er átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofan á Þurárhrauni og Eldborgarhrauni, Þess vegan vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristian Kålund (1872-’74), Þorvaldur Thorodssen (1882), Guðmundur Kjartansson (1943), Trausti Einarsson (1951) og Þorleifur Einarsson (1960) töldu allir að hraunin úr Eldborgum í Hveradalabrekkum og Meitlum væru hið svonefnda Kristnitökuhraun.

Skálafell

Skálafell – kort af svæðinu.

Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna,sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristinitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson, jarðfræðingur, birti grein í Náttúrfræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus, og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðsins á nefndum tímamótum, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg ár áður en land byggðist.

Þurárhraun

Þurárhraun um Vatnsskarð á Núpafjalli.

Jón Jónsson skrifaði grein í Náttúrfræðinginn 1979 og er frásögn hennar “Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnáms-öskulagið hafi fundist í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristni sögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein Krýsuvíkurelda eftri Sigmund Einarsson, jarðfræðing, árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstöðvakerfi Breinnisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.

Þurárhraun

„Þurrárhraun“.

Í Andvara 1936 fjallar Hálfdán Jónsson um „Lýsingu Ölvershrepps„:
„Fyrrnefnt Þurrárhraun hefur að vestanverðu Þurrárhnúk með hömrum. Þar kemur rennandi ofan lítil á, er Þurrá kallast. Síðan að austanverðu við hnúkinn heitir Vatnsskarð, sem almennilega er talað, að Kaldá hafi runnið fyrr um, og nú sést merki til hennar farvegs uppi á fjallinu. En fyrir austan þetta skarð nefnist Valhnúkur. Um fyrrnefnt Vatnsskarð, milli hnúkanna, hefur jarðeldur ofan af fjallinu fram á mýrina hleypt Þurrárhrauni, hvort að er án grass, með mosum, um hvers elds uppkomu í Ölvesi lesa má í Kristindómssögu, þegar á Alþingi talað var um kristniboðan hér á landi.
Með títt nefndu Þurrárhrauni aðskiljast Hjalla- og Reykjakirkju sóknir“.
Fróðleiksferð. Fábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mínútur.

Heimild m.a.:
-Lesbók MBL – 1. júlí 2000 – Gísli Sigurðsson.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölvershrepps, Hálfdán Jónsson, 1703, bls. 57-78.

Svínahraun

Hraunskúltúr í Svínahrauni.

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Þorlákshöfn

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp „Útræði í Herdísarvík í Selvogi„. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:

herdisarvik-930

Herdísarvík – sjóbúðir.

„Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

Herdísarvík

Herdísarvík – Langsum og Þversum í Austurtúninu.

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd.

herdisarvik 931

Herdísarvík – eldri bærinn.

Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
HerdísarvíkGamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Ölfus

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Hjalli-2Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Þegar svæðið ofan við Þóroddsstaði var skoðað kom m.a. í ljós hringlaga gerði. Að sögn bóndans hafði svæðið allt verið sléttað út fyrir allnokkru og því erfitt að gera sér grein fyrir gamla bæjarstæðinu af einhverjum áreiðanleik.

Hjalli-3

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata.

Um hlaðið á Þóroddsstöðum liggur Suðurferðagata um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Frá Þóroddsstaðahlaði þarf að stefna fyrst vestar en í meginstefnu, yfir gaddavír og að vörðubroti (N63°7´55 / V21°16´42). Hér er beygt til hægri, farið yfir Hvanngil ofan gljúfra, og stefnt milli Fremra- og Efra-Háleitis. Norðan Háaleita er best að fylgja vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann (beygja við N64°00´06 / V21°16´55) þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð. Þá er stutt að Lofti, þar sem einn farvegur Hengladalsár rann undir þjóðveg 1 (við 40 km steininn).
Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.

Suðurferðagata

Suðurferðagata.

Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910.
Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar.
Leiðin er ágætis dæmi um veg frá síðustu öldum þar sem hún er sýnileg. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
-Eiríkur Einarsson. Örnefnaskrá. Hellisheiði. Örnefnastofnun.
-Örnefnaskrá. Örnefnalýsing Þóroddsstaða. Örnefnastofnun.
-Hengill og umhverfi – Fornleifaskráning 2008, Kristinn Magnússon.

Hjallakirkja

Í Hjallakirkju.

Herdísarvík

Leit var gerð að heimaseli Herdísarvíkur í Selvogi. Í Jarðabók Árna og Páls 1703 segir um hjáleigur og selstöður Herdísarvíkur í Selvogi:
herdisarvik-332„Hjáleiga hefur hjer að fornu verið, ekki var henni nafn gefið nema af bænum; hún hefur undir 30 ár í auðn verið og mikill partur grasnautnar, sem hún hafði, spilltur af sandi, þar er nú stekkur heimabóndans.
Tómthús hefur hjer eitt verið til forna, en í auðn legið undir 50 ár.
Selstöðu eigna menn jörðinni í Krýsuvíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar segir: „Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.  Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
herdisarvikursel - heimasel 1En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni.“
Ólafur Þorvaldsson segir í sinni örnefnalýsingu um Herdísarvík: „
Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík.
Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö
brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið.
Þá er austarlega kemur herdisarvikursel - heimasel 2á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann
hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.“

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir að Herdísarvíkurhraunið hafði verið gengið fram og til baka og allir hugsanlegir möguleikar sem staðsetning á fyrrnefndri heimaselstöðu var haldið á líklegasta staðinn með framangreint í huga: „hjáleiga þar sem nú er stekkur heimabóndans“. Þegar komið var á vettvang var það nefndur stekkur, nú grasi gróinn, sem bar fyrst fyrir augu. Umhverfið er einnig grasi gróið og í miðju þess hið ágætasta vatnsstæði, bæði kjörnar aðstæður fyrir smákot sem og augsýnilegar leifar þess.
Þessi selstaða Herdísarvíkurbænda var sú fjórhundraðasta, sem FERLIR hefur skráð á Reykjanesskaganum. Eflaust eiga þær eftir að verða mun fleiri – þegar upp verður staðið…

Heimildir:
-Jarðabók Páls og Árna 1703, bls. 467.
-Örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar, I og II (ÖÍ).
-Örnefnalýsing Ólafs Þorvaldssonar (ÖÍ).

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Við Torfabæ í Selvogi, skammt frá Strandarkirkju, er fallegur gamall sjógarður, sem Eyþór Þórðarson hlóð á árunum 1926-1934, eins og stendur á skilti á garðinum.
Sjovarnargardur í SelvogiGarðurinn er um 2 m hár og um 30 m langur en var áður mun lengri, sjórinn hefur tekið sinn skerf. Nú eru aðstæður þannig að sjórinn hefur dregið út hnullungafjöruna framan við garðinn svo að sums staðar sér undir undirstöðusteinana. Ef varðveita á þessar menningarminjar þarf að setja vörn framan við.
Framangreindar línur svonefndrar „Sjóvarnarskýrslu“ frá árinu 2004 voru skrifaðar í tilefni að fyrirhuguðum sjóvörnum landsins. Þrátt fyrir að sjóvarnir hafi verið bættar, t.d. neðan við Strandarkirkju, er framangreindur kafli Eyþórs frá Torfabæ, enn óvarinn. Ástæða er til að bæta um betur því minjar þessar eru þær einu er enn má sjá á handhlöðnum sjóvarnargarði í Selvogi. Að vísu má sjá stutta búta af garðinum hér og þar, t.d. neðan við Nes og Þorkelsgerði, en enga heillega sem þennan.

Hlínargarður

Hlínargarður í Herdísarvík.

 

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson lýsir hýsingu jarðarinnar Herdísarvík í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:

Herd-998

Herdísarvík – herforingjaráðskort 1903.

„Nú skal minzt gömlu bæjarhúsanna, ásamt útihúsum, sem stóðu vestast á túninu á bakka tjarnarinnar. Öll eru hús þessi nú horfin. Á þessum umgetna stað við tjörnina mun Herdísarvíkurbærinn, ásamt fleiri og færri útihúsum hafa verið búinn að standa um aldir. Þess sjást hvergi merki, að bærinn hafi annars staðar verið, en vitað er, að byggð í Herdísarvík er mjög gömul. A þessum staö í túninu við tjörnina var Herdísavík. Á þessum stað lifði og starfaði fólkið, — og dó, kynslóð eftir kynslóð. Þarna bjó fólkið í nýjum bæ eða gömlum bæ, byggði upp og endurbætti. Þarna bjuggu oft stórbændur til lands og sjávar, og flestum mun hafa vegnað þar vel efnalega, enda var haft að orðtaki austur þar, að „Herdísarvíkin fæddi sofandi sína.“
Mun ég nú lýsa bæjar- og útihúsum, sem á áðurnefndum stað stóðu, eins og þau litu út, þegar ég tók við þein 1927, og voru svo, þar til þau voru rifin eða féllu, eftir að ég fór þaðan 1933. herd-1000
Bæjarhúsin þrjú snéru stöfnum mót suðri. Vestast stóð baðstofan, hliðarveggir úr grjóti, hlaðin undir syllur, framslafn úr timbri nokkuð niður fyrir glugga, sem var með sex rúðum, norðurstafn úr timbri, jafn risi, en sléttur grasbali fyrir neðan í tóftarstað, á þeim stafni gluggi með fjórum, stórum rúðum, annar helmingur hans á lömum. Þessi gluggi var, auk þess sem opnanlegir gluggar eru ætlaðir til, öryggis-útkomustaður fyrir fólkið, þegar svo bar við, að sjór gekk á land og fyllti svo bæjarhús, að útgöngu var ekki auðið um bæjardyr, þar eð þær ásamt frambænum öllum lágu mun lægra en baðstofa. Öll var baðstofan þiljuð í hólf og gólf, skarsúð úr þykkum og breiðum borðum á sperrum, þiljur og gólf sömuleiðis af breiðum og plægðum borðum. Þessi baðstofa var rifin 1934, þá um sjötíu ára gömul, ófúin, nema eitthvað af undirviðum, sem sjór var svo oft búinn að leika um öll þessi ár. Inni var baðstofunni skipt í þrennt: til endanna afþiljuð herbergi, tveggja rúma lengd hvort, en í miðju var gangur, sem svaraði til einnar lengdar, var þar lítill kvistur á vestursúð, undir honum stór skápur, á honum var tekinn til matur og kaffi skenkt. Úr þessum gangi lágu fjórar tröppur til bæjardyra. Austan við baðstofu var frambærinn, með heilu þili.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Vestast á þilinu voru háar dyr og inn af þeim afþiljaður gangur, og úr honum miðjum göng til baðstofu, en innst úr ganginum var gengið inn í stórt eldhús, og var í því stór eldavél. Utarlega í ganginum voru dyr til hægri, sem lágu til stofu, stóð þar alltaf uppbúið gestarúm. Loft var uppi yfir frambænum, vel til hálfs. Fjögurra rúðna gluggi var á stafni ofarlega fyrir loftið, en sex rúðna niðri fyrir stofu. Þriðja húsið, með stafni mót suðri, var búrið, með litlu hálfþili, og tók ekki eins langt fram og hin húsaþilin. Öll voru hús þessi byggð af rekaviði að öllu leyti, öll voru þau járnvarin utan, en torf á járni á frambæ og búri. Veggir allir þykkir, hlaðnir úr grjóti. Þá voru aðeins sunnar á hlaðinu, nær tjörninni, tvö hús, sem snéru stöfnum til vesturs. Var syðra húsið smiðja, en hið nyrðra hjallur; hliðarveggir hlaðnir af grjóti, þiljaðir stafnar jafnt sperrum, en minna klæddir hið neðra. Loft var yfir hjallinum óllum: Norðan við hjallinn var stór grunnur undan húsi, hlaðinn af grjóti, og stóð þar áður geymsluhús, venjulega nefnt „pakkhús“.

Herdísarvík

Herdísarvík – teikning GS; nýrri bærinn.

Eitt milliþil var í húsi þessu og var minni karmurinn notaður sem smíðahús, en sá stærri fyrir matarforða heimilisins, aðallega kaupstaðarvarning, sem oft var nokkuð mikill, þar eð venja var að fara aðeins eina kaupstaðaríerð á ári. Hús þetta tók af grunni með öllu sem í var í aftaka sunnanveðri með óvenjulega miklu stórbrimi hinn 25. febrúar 1925, og var talið, að sjór hefði ekki í marga áratugi, jafnvel frá því er Bátsenda tók af, gengið svo á land hér sunnanlands sem í þessu flóði. Sjórinn tók húsið í heilu lagi af grunni, því að vel var viðað og traustlega byggt, og setti niður fyrir fjósdyrum úti (fjósið stóð þá austan undir bænum), svo að ekki var hægt að koma kúnum úr fjósinu, fyrr en út féll og hægt var að fara með þær út um bæjardyr. Það, sem bjargaði kúnum frá drukknun, var það, að þær náðu fótfestu með framfótum uppi í veggnum, fyrir básunum, og stóðu þar með upp úr sjó að framan, en svo mikill var sjór í fjósinu, að á básunum náðu þær ekki niðri, og var svo meira en eina stund. Semi dæmi þess, hve hafrótið var mikið og að sjór, sem á land gekk, hefur átt rætur langt undan landi, má geta þess, að þegar sjór féll út, kom í ljós, að mikið af smákarfa og keilu, hafði skolað á land, og keila fannst í bæjardyrum og öðrum húsum, sem sjór braut upp og flæddi inn í.

herd-1002

Herdísarvík um 1900.

Eftir þetta flóð var „pakkhúsið“ flutt upp og norður fyrir tún og sett á sléttan hraunbala og stóð þar enn fyrir fáum árum, en mun hafa lítið verið notað nú í seinni tíð. Nýtt fjós var byggt næsta vor og fært vestast á túnið, fjær tjörninni.
Vestan undir baðstofunni var matjurtagarður, annars voru kartöflur aðallega ræktaðar í gömlum fjárréttum og borgum, svo og í Skiparéttinni, sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Eins og fyrr segir, eru öll þessi hús, sem hér hafa verið talin, rifin eða fallin, en rústir sumra þeirra munu lengi enn sjást.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Hið nýja íbúðarhús, sem byggt var á jörðinni 1932, var sett niður, ekki „utan garðs“, en nyrzt og efst á túnið, mjög skammt frá útihúsum, sem þar voru fyrir. Í þessu nýja húsi dó skáldið Einar Benediktsson eftir nokkurra ára veru þar, farinn mjög að heilsu og kröftum.
Hér hefur náttúran skrifað sína sögu sem annars staðar, hér hefur hún mótað myndir og rúnir á steintöflur sínar, og hér hefur fólkið, öld eftir öld, lesið og ráðið þær rúnir og lifað eftir. Hér hefur fjármaðurinn reikað með hjörð sína um haga úti, talað við fé sitt og talað við náttúruna, og oft fengið svar við hljóðum spurningum. Nú er svo komið hér sem víða annars staðar á afskekktum jörðum, að nú er enginn orðinn eftir til að tala við náttúruna, svo að nú talar hún „ein við sjálfa sig.“ – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík – byggt 1932.

Herdísarvík

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Herdísarvíkurlandi eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

„Austasta örnefni í Herdísarvík með sjó er Breiðibás. Hann er að finna með því, að ganga um 8 mínútur austur með sjó frá eystra túninu. Vestar en í miðjum Breiðabás, sem er allvítt malarvik milli hraunflúða, sem ganga í sjó fram beggja megin, er steinn í lögun svipaður saumhöggi á steðja, með sýlingu í miðju. Steinn þessi er á þurru með lágum sjó, og er landamerkjasteinn milli Herdísarvíkur og Stakkavíkur, úr honum bein lína í vörðu á brún Mosaskarðs, austarlega, sem síðar mun getið verða. Af Breiðabás er haldið vestur á bóginn, og verður þá fyrst fyrir eyðibýlið Herdísarvíkurgerði. Þar á túninu stóðu fram á seinustu ár tvö stór fjárhús, Langsum og Þversum, nú sennilega rústir einar. Eystra húsið snéri gaflhlöðum til austurs og vesturs, hitt til suðurs og norðurs. Niður undan miðju túninu eru malarvik í flúðirnar, og heita þau Básar.

Herdísarvík

Herdísarvík – Langsum og Þversum í Austurtúninu. Skökk efst.

Vestast í fyrrnefndum flúðum er gömul vör (lending), Skökk. Ekki var hægt að fara í vör þessa nema ládautt væri. Þar má enn sjá kjalarför í klöppunum eftir setningu skipa. Í norður frá Gerðistúninu, ofan garðs, er Sundvarða eystri, og átti hún, þegar sundið var tekið, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli, og síðar mun nefndur (á austanverðu sundinu er blindsker, sem Prettur heitir og brýtur á í brimi).

Vestan við Gerðistúnið er Dalurinn, gamall skiptivöllur, þar sem formenn skiptu afla í ,“köst“. Norðan við hann voru sjóbúðir, byggðar hlið við hlið. Símonarbúð, þá Bjarnabúð og austast Gíslabúð. Þá vestar og nær sjó Hryggjabúð. Búðir þessar eru víst engar uppi standandi lengur. Vestur af síðast talinni búð var Skiparéttin, umgirt háum og þykkum grjótveggjum á fjórar hliðar. Þar gengu sjómenn frá skipum sínum milli vertíða.

Herd-996

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Framan undan búðunum er Bótin, aðallending Herdísarvíkur, en upp af henni er hár og þykkur malarkambur, Herdísarvíkurkambur. Liggur hann sem gleiður bogi um Bótina, en svo lágur er hann vestan til, að í aftakaveðrum af hafi gengur sjór yfir hann og fyllir tjörnina, sem er innan við og liggur upp að túninu, svo að stundum fyllti öll hús, sem við tjörnina stóðu, svo að úr þeim varð að flýja með allt, sem komizt varð með, lifandi og dautt. Aldrei mun þetta hafa valdið slysum á mönnum eða skepnum, en tjóni olli það oft bæði á húsum og munum, svo og matbjörg.
Nú fyrir nokkrum árum hafa öll hús verið flutt efst á túnið, en þar eru þau í minni hættu. Innan við Kambinn er, eins og fyrr segir Herdísarvíkurtjörn. Milli heimatúns og Gerðistúns er grjótgarður mikill, Langigarður, ætlaður sem aðhald fyrir stórgripi Herdísarvíkur á graslendi því, sem er milli túna. Sá garður mun hafa verið hlaðinn af sjómönnum í landlegum. Við hlið, austur úr heimatúninu, við tjörnina, var sjóbúð, Ólabúð, nú sennilega ekki lengur til. Austarlega í túninu er klettastapi, sem gengur fram í tjörnina, Hestaklettur, austan við hann Hestavik.

Herdísarvík

Sjóbúðir í Herdísarvík.

Vestast og efst í túninu, þar sem nú eru gripahús og heyhlaða, var Krýsuvíkurbúð, en hún var, eins og nafnið bendir til, sjóbúð Krýsuvíkurmanna. Heimajarðarbændur í Krýsuvík gerðu þar (í Herdísarvík) út tvö skip og áttu því sem aðrir útgerðarmenn sína búð. Sunnan undir heyhlöðu og gripahúsum er Urðin. Þar er sem saman hafi verið safnað á lítinn blett mikilli dyngju af lábörðum steinum, nokkuð misstórum, en mest af þeim má teljast björg svo stór, að enginn mun hafa fært þau þar saman nema Ægir karl, en athyglisvert virðist það, að þau skuli hafa hlaðizt þarna upp í mörg lög á smábletti, en sjást hvergi svipuð, fyrr en niður við sjó.

Herdísarvík

Herdísarvík – Herdísarvíkurtjörn.

Milli Urðarinnar og gamla bæjarstæðisins er smátjörn, Kattartjörn. Þornar hún upp að mestu á sumrin; sést þá, að botninn er að mestu gróinn; vex þar upp þétt og kröftug gulstör, og stingur þessi stararblettur mjög í stúf við annan gróður þar og allt umhverfi. Bendir þessi litli stararblettur á, að þarna hafi starengi verið áður en elzta hraunið rann? Sem fyrr er sagt, stóð gamli bærinn á tjarnarbakkanum, nærri vestast í túninu. Framan undan bænum er smáhólmi í tjörninni, Vatnshólmi. Lítil trébrú var út í hólmann, og var vatn sótt þangað fyrir bæ og fjós, þar sem vatnið bullaði upp undan hólmanum á alla vegu, kalt og ferskt úr iðrum jarðar. Suðvestur af Vatnshólmanum gengur smátangi út í tjörnina, Sauðatangi. Þá eru talin örnefni í næsta umhverfi bæjarins og austan við hann. Suðvestur af Herdísarvíkurtjörn eru nokkrar smátjarnir og heita Brunnar. Milli þeirra og tjarnarinnar er Steinboginn, steinstillur, sem settar hafa verið þarna niður til að stytta leið niður á vesturkambinn, ef hátt var í tjörnunum. Spölkorn suður af Brunnum, nær sjó, er Sundvarða vestri. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.