Færslur

Dyravegur

Dyrafjöll eru á Hengilssvæðinu norðnorðaustan við Hengilinn, vestan Nesjavalla.

Dyravegur

Dyrnar á Dyravegi.

Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
Á Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast.

Sporhellan

Sporhella.

Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Eldborg í Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hvera-gerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Hún skiptist í tvær gosreinar. Önnur liggur um Henglafjöll, hin um Hrómundartind. Milli gosreinanna skilur Þverárdalur og Bitra sem fyllt hefur framhald dalsins til suðurs.
Hengilskerfið er yngst og virkast. Frá ísaldarlokum eru þekkt 4-5 sprungugos á þessu svæði. Síðast gaus fyrir um 2000 árum, er hraunið rann á Hellisheiði, og Nesjahraun í Grafningi. Þá gaus á 25 km langri sprungu, sem náði frá Eldborg undir Meitlinum, um Hellisheiði, Innstadal og norðaustur í Sandey í Þingvallavatni.

Dyravegur

Sporhella.

Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubeltinu, sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og þaðan norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár, um 1-2 m.
Ætlunin er að ganga Dyraveginn fljótlega, frá Nesjavallavegi (Nesjavallarétt) að gatnamótum Austurvegar (Hellisheilarvegar) norðaustan við Lyklafell. Hér verður þó tekið svolítið forskot á sæluna og Sporhellunni lýst, en Dyravegur liggur um hana norðan Skeggjadals. Við Sporhelluna, sunnan Sporhelludals (og norðan Skeggjadals) liggur leiðin upp hálsinn á fleiri en einum stað, enda er Dyravegurinn ekki einsamall á þessum stað.

Sporhella

Gatan um Sporhellu.

Í Dyradal greinist Dyravegur í tvennt, en sameinast aftur í Dyrafjöllum. Annars vegar liggur leiðin um Dyrnar svonefndu, u.þ.b. tveggja til þriggja m breitt gil austnorðaustan í Dyradal og áfram uoo og yfir í Sporhelludali. Þar beygir sú gata til vinstri þar upp á Sporhelluna, sem fyrr er lýst. Sneiðingur sést í hlíðinni, en skriða hefur smám saman afmáð götuna á kafla. Uppi beygir gatan síðan til suðausturs og aftur til norðausturs. Þar eru gatnamót. Þarna er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum, bæði á leiðinni, sem lýst var og til suðurs þar sem hin gatan kemur inn á hana. Sú gata liggur til suðurs inn Dyradal og síðan á ská upp hlíðina í honum austanverðum, upp í Skorhelludali.

Dyravegur

Sporhella.

Í stað þess að beygja þar til norðurs að hinni götunni liggur gatan áfram til austurs í sneiðinginn og síðan til norðurs, upp á móbergshelluna. Þarna er gatan einnig djúpt mörkuð í helluna. Fyrrnefnda leiðin er stikuð, en sú síðarnefnda ekki. Líklegt má telja, að hestalestir hafi farið sneiðinginn austan Sporhelludala og síðan upp á helluna síðarnefndu leiðina því hún er auðveldari yfirferðar, einkum fyrir hesta með birgðar. Þá gæti þetta hafa verið kúastígur fyrrum.

Sporhella

Sporhella – skilti.

Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: “Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.

Sporhella

Sporhella.

Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir (sjá meira HÉR og HÉR).
Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.

Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.

Sporhella

Sporhella.

Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.
Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
DyravegurFlestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.

Sporhella

Gatan um Sporhellu sunnanverða.

Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.”
Tiltölulega auðvelt er að rekja Dyraveginn, eins og hann er skikaður um Sporhellu, en hafa ber í huga að vegurinn var miklu mun lengri og hafði bæði upphaf og endi – mun fjær.
Sjá meira um Dyraveg HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-or.is

Sporhella

Gata um Sporhellu.

 

Hellukofinn

Í Sýslu- og sóknarlýsingum, Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703, eftir Hálfdán Jónsson, segir m.a. um vegi um Hellisheiði:
“Fyrir austan … Bæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.”
Árið 1840 segir: “Hellirsheiði er … vel rudd. Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.”
“Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.”

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].”

“Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði.
Eirikisvegur-221Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól. …Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum.
hellisheidi-222Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum… . Síðan lá leiðin eftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.” 

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur… .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjóta tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur… . Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim… . Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni.

Hellisheiði

Hellisheiði – skjól við gömlu götuna.

Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.” Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
“Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klö

ppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.” segir í örnefnalýsingu.

hellukofinn-121

Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp.
Friðlýstur 13.5.1971. – var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa).

Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.” “Á þeim stað sem hétu Syðri Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.”  Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel.

Hellisheiði

Hellisheiði – hellirinn á Hellisheiði; dágott varðað skjól.

Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.”

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellisheiðargatan. Girðingarvinnugerð hefur hunsað allar fornleifar á stórum kafla á heiðinni.

Í takmarkaðri fornleifaskráningu vegna framkvæmda Hitaveitunnar á Hellisheiði (svo virðist sem nánar engar kröfur hafi verið gerðar til skráninga fornminja á svæðinu þrátt fyrir einar mestu framkvæmdir frá upphafi byggðar) segir m.a.: “Hellukofi, Hellisheiði“- Friðlýst hús, byggingarár: 1830. Hönnuður: Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi. Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Í Örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar um Hellisheiði segir: “Gamli hellukofinn var byggður 1830 á grunni krossvörðu sem þarna var fólki og skepnum til skjóls, líklega í hundruðir ára. Gamli vegurinn yfir Hellisheiði var allur varðaður. Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m. í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak. Þar austur á miðri heiðinni eru Þrívörður við veginn, segir Hálfdán Jónsson í Ölfuslýsingu sinni 1703.
Syðri vegurinn var líka vel varðaður, þar stóðu vel hlaðnar, mannháar vörður, með nef út að veginum. Þannig voru þær tölusettar. En tréspjöldin með tölunum fuku og fúnuðu, og nú eru
allar vörðurnar horfnar, fyrir tönn tímans og jarðýtanna”.

Hellisheiði

Ásýnd Hellisheiðar 2023.

Í “Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990“, segir um Hellukofann: “Ölfushreppur; Afréttarland. Gamla sæluhúsið, “Hellukofinn” svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestantil við miðja heiði.[(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu. Skjal undirritað af ÞM 13.05.1971. Þinglýst 03.09.1971.”

Heimildir:
-SSÁ, 238, 205 .
-SK, 1 .
-SB III, 282.
-Ö-Hellisheiði,1 .
-Útivist 6(1980), 82-86.
-Jón Pálsson.
-Austantórur II, 131-2 .
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148.
-Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
-Íslenzkir sagnaþættir XI, 113-129.
-Morgunblaðið, 26. júní 1980, Gamla gatan á Hellisheiði, bls. 22.
-Hellisheiði – Örnefnaskráning; Eiríkur Einarsson.
-Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990, Hellukofinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

 

Hjallasel

Gengið var upp með austanverðu Kerlingarbergi áleiðis að Litlabergi.

Ölfus

Hjallasel.

Haldið var áfram upp í Lyngbrekkur og stefnan þá tekin upp í svonefndar Vatnsbrekkur með stefnu á Skálafell. Undir brekkunum kúrði fallegt sel. Sennilega er um að ræða sel frá Hjalla. Megintóftin var óvenjustór af selstóft að vera, en rými var austan við hana. Tvískipt tóft var lítillega ofar (norðar) og síðan önnur skammt vestar. Á milli hennar og megintóftarinnar var garður. Tækifærið var notað og selstaðan rissuð upp. Suðaustan við tóftirnar eru Selbrekkur ofan við Hjalla. Gamall stígur liggur í móanum upp hlíðina og liðast áfram upp hana skammt vestan við selið. Að sögn Hjalta Þórðarsonar, bónda á Bjarnastöðum, sem er manna fróðastur um þetta svæði, er þarna um að ræða sel, mjög gamalt, frá Hjalla og síðar notað sem sauðhús. Annað sel frá Hjalla væri í u.þ.b. 20 mín. gang til norðvesturs upp í heiðinni, í svonefndum Sellautum. Það væri minna og einnig mjög gamalt.

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hjalli er bær og kirkjustaður í Ölfusi. Hann er sennilega kunnastur fyrir að þar bjó einhver vitrasti og lögfróðasti höfðingi landsins á sínum tíma, Skafti Þóróddsson, lögsögumaður (†1030). Síðasti katólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni að Hjalla 2. júní 1541, þegar danskir hermenn handtóku hann þar. Hann sætti illri meðferð í þeirra höndum og var fluttur til Hafnarfjarðar, þar sem hann var settur á skip til Kaupmannahafnar. Ögmundur lézt á leiðinni.

Til baka var gengið ofan við brekkurnar áleiðis niður að Kerlingarbergi. Gengið var niður af því að vestanverðu og var þá komið selstíginn frá Hrauni. Hann liggur áfram upp í Hraunsel undir Löngubrekkum, sem eru þarna skammt ofar. Hraunsel er lítið sel utan í úfnum hraunkanti skammt austan við Raufarhólshelli.
Stígnum var fylgt niður eftir, niður að Lækjarmóa og að Guðnýjarhæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn.

Ölfus

Hjalli – örnefnakort.

FERLIR hefur pússlað saman örnefnakortum fyrir Ölfusbæina. Eru það þrjú stór kort er mynda samfellt svæði frá Þrengslum að Þurá. Áður höfðu verið útbúin slík kort af svæðinu vestan Þrengslanna.
Þarna er Fjallsendaborgin, stór gróin fjárborg. Heimildir segja að ekki sé ólíklegt að hún hafi verið topphlaðin. Skammt norðaustar er hlaðin, fremur lítil, fjárborg, Lækjarborg. Stuttir leiðigarðar liggja út frá borginni. Neðar er Sólarvarðan á Hjallafjalli, en vestar er Fjallsendi.
Framundan er að taka hús á Hrafnkeli á Hrauni og Helga á Bjarnastöðum. Þeir eru mjög fróðir um svæðið og geta auðveldlega kveðið á um heiti og staðsetningar eintakra minja skv. Örnefnakortunum. Fengist hafa talsverðar upplýsingar um einstakar minjar, s.s. Beinteinsvörðu, en í henni á að vera letursteinn. Svo er einnig um Markaklett á gömlu þjóðleiðinni undir Hjallafjalli.

Fjallsendaborg

Fjallsendaborg.

Ekki er að sjá á örnefnalýsingum að getið sé um selstöður bæjanna undir Hjallafjalli í Ölfusi. Í lýsingu af Hjalla segir m.a. að “vestan við Kerlingarberg er skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina.”
Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: “Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjáborgin teldst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.” Framundan er m.a. að huga að þessari borg.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Ölfus

Ölfus – kort.

Hnúkar

Á landakortum koma oft fram misvísandi upplýsingar. Þar eru t.d. staðsettur Kvennagönguhóll í Selvogi er Hnúkar heita. Hinn réttnefndi Kvennagönguhóll er sunnar og neðan við Hnúkana. FERLIR gekk á dögunum niður að hólnum. Segir sagan að þangað hafi konur, gamalt fólk og lasburða úr Selvogi gengið til að líta krossinn helga í Kaldaðarnesi augum. Hafði hann slíkan lækningamátt að hver sem rak hann augum gat læknast af meini því sem viðkomandi hrjáði. Þótt Kvennagönguhólar virðist vera eins og hverjir aðrir slíkir í landslaginu er hér um mjög merkilegan stað að ræða í sögu landsins.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – kort.

Þegar kaþólskan vék fyrir lútherskunni varð krossinn þrándur í götu kirkjuvaldins. Segir sagan að Gissur biskup Einarsson hafi látið taka niður krossinn í kirkjunni í Kaldaðarnesi og sett hann á afvikinn stað. Á þessum krossi hafi hvílt mikil helgi og fjöldi fólks streymt í Kaldaðarnes á stórhátíðum til þess að gera þar bæn sína að krossinum. Þangað hafa og iðurlega verið farnar heitgöngur, þegar á bjátaði, og krossinum verið gefið stórfé.
Gissur biskup sendi prestum sínum áminningarbréf í vetur nokkru eftir áramótin og skipaði svo fyrir, að það skyldi lesið í öllum kirkjum biskupsdæmisins á krossmessu, helgum dómum til fordæmingar.
Bréfið sagðist hann skrifa sökum þess, að forn trú, er þann nefndi blindleika og hjátrú, haldist við í biskupsdæminu, og fólk láti ekki af því að leita líknar og huggunnar “hjá svo auðvirðulegum hlutum sem hjá einum og öðrum líkneskjum, sérlega hjá þeirri róðukrossmynd, sem hér er í Kaldaðanesi, með áheitum, fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti guðs boðorðum og vorrar trúar artikúlum.”

Kaldaðarnes

Kaldaðarnes – kirkjuhlið.

Þessu til áréttingar reið biskup síðan í Kaldaðarnes og fjarlægði krossinn. Hefur miklum óhug slegið á alþýðu manna, sem trúir sem fyrr staðfastlega á krossinn, við þessar tiltektir biskups.
Einhvern tímann á árinu 1560 eða 1561 var krossinum helga í Kaldaðarnesi tortímt. Gísli Skálholtsbiskup lét flytja hann í Skálholt og setti mann í að höggva hann sundur og brenna síðan brot og spæni. Fólkið bar harm sinn í hljóði. Var það blandið ugg og kvíða, því að mörgum bauð í grun, að land og þjóð myndi gjalda þess, er svo illa og ómannlega var farið með þann grip, sem mest helgi hefur verið á í öllum kirkjum landsins.

Heimild:
-Öldin okkar 1546-1547.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Hraun

Haldið var að Hrauni í Ölfusi og tekið hús á Ólafi Þorlákssyni, öldnum og virtum bónda. Hann fylgdi FERLIR góðfúslega að hinni dulúðlegu dys á bökkum Ölfusár, en í henni eru taldar vera jarðneskar leifar Lénharðs fógeta á Bessastöðum.

Ölfus

Dys Lénharðs.

Í Öldinni okkar árið 1502 segir m.a. um dráp Lénharðs fógeta:
“Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann.
Torfi í Klofa er eitt hið mesta afarmenni, sem nú er uppi í landinu, og flestum óvægnari, ef í odda skerst. Hann hefur lengi átt í miklum deilum við Stefán biskup Jónsson í Skálholti, goldið slælega tíundir og kirkjureikninga, haft að engu dóma hans og haldið verndarhendi yfir fólki, sem biskup telur í sökum við kirkjuna.Lénharður fógeti hefur getið sér hið versta orð sökum ofríkis og ójafnaðar síðan hann kom að Bessastöðum. Í vetur gerðist hann sekur um manndráp, og á páskadag í vor misþyrmdi hann Árna Snæbjarnarsyni, ábóta í Viðey. Með þeim Torfa og Lénharði var fullur fjandskapur, og hefur fógeti haft í heitingum við hann að undanförnu. Fjandskapur var einnig með þeim Lénharði og biskupi.
Þegar Lénharður reisti austur í Ölfus, settist í bú að Arnarbæli og fór þar með ránskap og ofbeldi, safnaði Torfi liði og fór að fógetanum.

Hjalli

Lénharðardys.

Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann varð ófriðarins var. Varð þeim Torfa ekki greitt inngöngu, því að piltur úr liði Lénharðs, Eysteinn Brandsson að nafni, varði dyrnar svo fimlega, að þeim vannst ekki á, nema hætta sér undir vopn hans.
Torfi greip þá til þess ráðs að láta rjúfa þekjuna á bæjarhúsunum, og féll fógeti eftir skamma viðureign, er menn Torfa voru inn komnir.
Stefán biskup í Skálholti hefur lagt bann við, að fógeti fái kirkjuleg, nema greidd séu þrjátíu hundruð honum til yfirbótar.”
Torfi ríki Jónsson, sýslumaður í Klofa, andaðist snögglega á þingferð í Landeyjum er hann sat að drykkju árið 1505. Ekkja hans, Helga Guðnadóttir, varð að gjalda biskupi nokkrar jarðir til þess að fá hann grafinn í Skálholti.

Hraun

Hraun í Ölfusi.

Lénharður var sagður hafa verið dysjaður að Hrauni. Hóllinn, eða dysin, er greinilega manngerður. Hlaðið er með hólnum og hefur áin skolað steinum úr henni. Regluleg hleðsla er vestan við hólinn. Líklegt er að þarna hafi verið t.d. leiðarmerki yfir Ölfusá, en vaðið er þarna nokkur ofar í ánni.
Ólafur sagðist hafa verið á ferð þarna einhverju sinni og þá fundið mannbein er stóð út úr hólnum. Áin hafi oft leikið hólinn illa, einkum fyrrum. Hún flæddi oft um svæðið og mæddi þá talsvert á hólnum. Munnmæli hafi verið um að þarna hefði Lénharður fógeti verið dysjaður, en hann teldi eins víst að þarna hefði fornmaður látið verpa yfir sig.
Ólafur sagði að einhverju sinni hafi ung nafngreind kona dvalið í tjaldi niður við bakka árinnar, nálægt dysinni, ásamt öðrum. Þá dreymdi hana að einkennisklæddur maður kæmi til hennar og sagði að þau myndi una þarna hag sínum vel um sumarið. Setti hún drauminn í samband við fógetann.
Frábært veður.

Lénharð

Dys Lénharðs.

Breiðabólstaðasel II

FERLIR sótti heim Breiðabólstaðasel II eð Hafnarsel (Þorlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum. Um 10 mín. gangur er að selinu frá Þrengslavegi.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I” má lesa eftirfarandi um Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) undir norðanverðum Krossfjöllum:
“Ómar Smári Ármannsson fjallar um þessar minjar á heimasíðu Ferlis. Þar segir: “Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. […].” Selið er ekki þekkt úr rituðum heimildum og er því nafnlaust. Hér er stuðist við nafngjöf Ómars Smára og selið nefnt Breiðabólsstaðarsel II. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 1,7 km NNA við Breiðabólsstaðarsel I. Selið er undir norðurhlífðum Krossfjalla.

Breiðabólstaðase II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Allt umhverfis selið er mosavaxið hraun. Meðfram norðurenda Krossfjalla er mjótt undirlendi og er selið þar, byggt upp við fjallshlíðarnar.
Á svæði sem er 100×40 m að stærð og snýr norður-suður eru sjö tóftir. Ástand þeirra allra er svipað, veggirnir útflattir og tóftirnar grónar. Var hverri tóft gefin bókstafur til aðgreiningar í lýsingu þessari. Tóft A er byggð norðan undir fjallshlíð Krossfjalla og er sú stærsta á svæðinu. Hún er 20×7 m að stærð, snýr austur-vestur og skiptist í fjögur hólf. Austast er hólf 1.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Það er 1,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er byggt upp við klett til suðurs en aðrir veggir eru hlaðnir. Þeir eru 0,3-0,4 m að hæð og má sjá tvenn umför grjóthleðslu í þeim. Op er á miðjum norðurvegg.
Hólf 2 er vestan við hólf 1. Það er 5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð og glittir í grjót hér og þar. Op er á miðjum norðurvegg. Hólf 3 er vestan við hólf 2. Það er 5×3 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru algrónir og 0,6-1 m á hæð. Tóftin er betur varðveitt að sunnan en til norðurs. Op er sem fyrr á miðjum norðurvegg.

Breiðabólstasel II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) – stekkur.

Hólf 4 er vestan við hólf 3. Það er byggt upp við hraunbrún að sunnan. Það er 3×3 m að innanmáli og op er til norðurs. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og grónir. Það má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóft B er 2 m vestan við tóft A, fast upop við gróna hraunbrún til suðurs. Hún er 7×7 m að stærð og einföld. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð, 2-2,5 m á breidd, algrónir og reisulegri að innan en utan. Op er á miðjum norðurvegg. Tóft C er 5 m vestan við tóft B. Hún er 7×6 m að stærð, einföld og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og má greina 2 umför af grjóthleðslu í þeim. Þeir eru mosavaxnir og útflattir. Op er á miðjum austurvegg. Tóft D er 20 m norðan við tóft A. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og snýr suðaustur-norðvestur. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, útflattir og algrónir. Op er á miðjum suðurvegg.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstasel II – uppdráttur í fornleifaskráningunni.

Tóftir E og F eru uppi á mosavaxinni hraunklöpp, tæpum 50 m norðan við tóft D. Tóft E er sunnar. Hún er 3×3 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina eitt umfar grjóthleðslu í þeim. Ekkert op er inn í tóftina.
Tóft F er 2 m norðaustan við tóft E. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Hún snýr norður-suður og líklega er op í suðausturhorni. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóftin er lyngivaxin að innan líkt og hluti af veggjunum. Tóft G er nyrst og er tæpum 30 m norðan við tóft F. Tóftin er 8×8 m að stærð, einföld og er opin til norðvesturs. Veggirnir eru útflattir og lyngivaxnir. Tóftin er í viki inn í hraunbrúnina, suðaustan við mosavaxin hraunhól.”
Ágætt vatnsstæði er norðan við selstöðuna, en hún var þurr að þessu sinni – í lok júlímánaðar. Selstaðan er tiltölulega nýleg, en þó má sjá í henni a.m.k. tvær kynslóðir selja, þ.e. þá nýlegu og aðra mun eldri. Til að gæta allrar sanngirni rak Alda Agnes Sveinsdóttir augun á selstöðuna í seinni tíð á leið hennar norður yfir Krossfjöll frá Breiðagerðisseli I og gerði FERLIR kunnugt um dásemina.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Þórlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum.

Í Jarðabók Árna og Páls 1708 segir um Breiðabólsstað í Ölfusi: “Skipsuppsátur á jörðin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi.” Í 1. bindi sögu Þorlákshafnar eftir Skúla
Helgason segir: “Frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi… Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi, sem er skammt fyrir norðan þjóðveginn um Þrengslin. Þar má enn sjá tóftir selsins. Ef Hafnarselið undir Votabergi hafi verið í landi Breiðabólstaðar hefur selið norðan Krossfjalla örugglega verið í landi staðarins.

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi.

Þá sótti FERLIR heim Hraunssel í Ölfusi milli Eldborgarhrauns og Skógarhlíðar. Lagt var af stað frá bifreiðastæðinu við Raufarhólshelli í Þrengslunum og gengið austur yfir gamburmosahraunið með grónum lyngbollum í beina línu að hlíðinni þar sem styst er yfir hraunið. Gangan tók innan við 10 mínútur.
Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið, greinilega miðlungs gamalt. Í selinu eru fimm rými; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn liggur niður með kantinum um Skóghlíðarstíg. Ofan við selið eru grasi grónar Lönguhlíðar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-http://www.ferlir.is/?id=1772

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi – uppdráttur ÓSÁ.

Fornugata

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015” og í örnefnalýsingum fyrir Stakkavík og Vogsósa, má lesa eftirfarandi um hraunmarkaðar götur vestan Víðisands suðvestan Hlíðarvatns í Selvogi.

Fornugötur

Fornugötur.

Göturnar eru markaðar í helluhraunshelluna allt að apalhrauni Herdísarvíkurhrauns þar sem þær hverfa undir nýrra hraun. Ljóst er að mikil umferð hefur verið um þessa leið, enda helsta skreiðarflutningsleiðin frá sunnanverðum Reykjanesskaganum að Skálholtsstól til forna. Gatan eða göturnar á hraunhellunni vestan Víðisands hafa ýmist verið nefndar “Alfaraleið”, “Hellugata” eða “Fornugötur”.

“Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand,” segir í örnefnalýsingu Stakkavíkur. Til er önnur lýsing sem segir frá ýmsum leiðum í nágrenni við Selvog.

Förnugötur

Alfaraleið/Fornugötur.

Þar er þessi leið kölluð Alfaraleið. Hún lá frá Vogsósum, yfir Ósinn á Vogsósavaði og síðan um Víðisand. Þar sem honum sleppir var farið um Hellur svonefndar og var þá hægt að fara bæði efri og neðri leið, og var sú neðri talin eldri, enda sennilega torfær í seinni tíð. Hún hverfur nánast í hraun skammt austan við Mölvík en sú efri stefnir meira í norðaustur, fyrst yfir fremur slétt hraun en svo um troðning yfir yngra hraun sem stundum er kallað Bruninn. Þá taka við Mölvíkurklappir, beint upp af Mölvík en vestan við þær er komið yfir í Herdísarvíkurland. Sá hluti leiðarinnar sem var skráður á vettvangi er vestan við Víðasand, Hellurnar svonefndu og einnig Mölvíkurklappir. Í Hellunum sjást bæði merki um efri og neðri leiðina.
Leiðin liggur um fremur slétt helluhraun. Bílfær vegur liggur niður til suðurs rúmlega 1 km vestur af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er nálægt sjávarkampinum eru Hellurnar á vinstri hönd og sjást götur í þeim fast við veginn, í stefnu á tvö vörðubrot.

Fornugötur

Fornugötur – varða.

Þetta er efri leiðin. Hún er fremur óljós í fyrstu en sést þó sem stígur í helluhrauninu. Þegar nær dregur vörðunum verður hún skýrari en verður aftur óljós á kafla á milli þeirra en fjarlægð milli varða er um 120 m. Annars er hægt að rekja þennan stíg um 400 m til VNV. Má ætla að það hafi þurft talsverða umferð járnaðra hesta til að slíta hrauninu svo mjög, enda lítur gatan helst út fyrir að hafa verið meitluð í hraunið með verkfærum, víðast um 30 cm breið og allt að 5-7 cm djúp. Um 400 m VNV af upptökum verður gatan ógreinileg en aftur sést stígur í grónu landi uppundir Brunanum og virðist hafa legið meðfram honum til norðurs, vestan við upphlaðinn vegarspotta. Skammt norðar sveigir svo gatan nánast beint í vestur, um troðning gegnum Brunann sem hlýtur að hafa verið ruddur því hraunið er annars úfið mjög.

Fornugötur

Fornagata.

Troðningur þessi er 2-3 m breiður, gróinn í botni en nokkuð hlykkjóttur. Bruninn er sennilega um 400 m breiður en þar sem honum sleppir tekur aftur við eldra helluhraun, Mölvíkurklappir. Þar sést aftur gata í hrauninu og er hún mjög greinileg á 30-40 m kafla en fjarar út heldur vestar en um miðjar klappir. Er þá komið út undir merki móti Herdísarvík. Þar tekur aftur við yngra hraun og úfnara og sést þar troðningur í átt að Herdísarvíkurbænum. Þá er komið að neðri leiðinni um Hellur. Hún sést um 150 m suðvestan við vestari vörðuna á efri leiðinni og þaðan má rekja hana rúma 500 m til vesturs, ofan í kvos sem liggur A-V ofan við sjávarkamp. Þessi gata er víðast hvar dýpri og greinilegri en efri leiðin og allt að 10-15 cm djúp þar sem mest er.
Í kvosinni er mikið af rekavið og rusli sem sjór hefur borið á land. Þar sem henni sleppir er gatan orðin ógreinileg en þó má sjá grunnan stíg sem liggur áfram til vesturs nokkurn spöl, uns komið er að úfnu hrauni sem er ekki greiðfært nema varkárum göngumönnum og sennilega alveg ófært hrossum.

Fornugötur

Fornugata.

Þá hefur götunum um Hellur verið lýst. Leiðir voru ekki raktar á vettvangi á Víðasandi. Þess má geta að póstvegurinn í átt að Strönd hefur væntanlega fylgt þessari leið, þá hinni efri, en ekki sáust þó vörður við hana nema þær tvær sem áður var getið og eru suðvestan við Hlíðarvatn.
Póstvegurinn lá þó ekki yfir Ósinn á Vogsósavaði heldur á Eysteinsvaði sem er töluvert neðar. Þess má geta að þegar komið hefur verið yfir Brunann á austurleið virðist slóð hafa legið áfram beint í austur, heim að Stakkavík.”

“Vogsósavað var rétt við túngarðinn og eiginlega aðalvaðið,” segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki ljóst hvar nákvæmlega Vogsósavað var en þó er líklegt að það hafi verið vestur eða suðvestur af bæ, þar sem breidd er á ósnum hátt í 250 m suður af Vaðhól”.

Fornugata

Fornugata.

“Eysteinsvað var niður undir Ósnum ytri, þ.e. Ósvaðið syðra. Það var einnig kallað Póstvaðið,” segir í örnefnalýsingu. Eysteinsvað var heldur ofar en kampurinn eða um 1,2 km SSV af bæ. Á þessum stað er dálítil beygja á Ósnum. Að sögn Þórarins Snorrasonar var Ósinn víða fær en þessi staður var valinn vegna þess að það gat verið sandbleyta bæði ofan og neðan við við Ósinn. Vaðið var einnig kallað Póstvað, enda lá póstvegurinn þar yfir og sjást hans greinileg merki austar.”

Vogsósar

Vogsósar og nálægar götur.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Vogsósa segir: “Ósinn nefnist lækurinn, sem rennur úr Hlíðarvatni til sjávar niður undan Vesturtúni. Hlíðarvatnsós er hann einnig nefndur og Ósinn innri, þar sem hann fellur úr vatninu. Vogsósaós er hann einnig nefndur. Mörg vöð eru á Ósnum, enda þótt hann sé eiginlega alls staðar fær. Nyrzt er Ósvaðið nyrðra eða Gamlavað niður undan Vaðhól. Þá var Vogsósavað rétt við túngarðinn og var eiginlega aðalvaðið. Niður undir Ósnum ytri var Ósvaðið syðra, sem einnig var kallað Eysteinsvað, líka Póstvaðið.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-Ö-Stakkavík, Gísli Sigurðsson.
-Ö-Vogsósar, Gísli Sigurðsson.

Fornugötur

Fornugötur (Alfaraleið/Hellugata).

Stakkavík

Stakkavík er jörð í Selvogi, norðan Hlíðarvatns. Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfus – Áfangaskýrsla I, 2015“, er m.a. fjallað um Stakkavík:
“Jarðardýrleiki x að sögn, en engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 464.

Stakkavík

Stakkavík – bæjarstæði.

Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: “Lýngrif brúkast til eldiviðar bjarglegt. Rifhrís og til eldiviðar brúkast og peningi til bjargar í heyskorti….Eggver í Hlíðarvatnshólnum má ekki telja…Rekavon í besta lagi af þessari sveit þá inná voginn líður, og fylgir hún kirkjunni og proprietariis. Sölvafjara bjargvæn heimamönnum og so fjörugrös. Heimræði má hjer valla telja, því bærinn liggur lángt frá sjó, þó hefur það fyrir fám árum reynt verið, og til gagns komið sumar og vetur. Túnin brýtur Hlíðarvatn. Engi litlu betur, en um Hlíð segir. Torfrista og stúnga so sem lökust er hún í þessari sveit, nema miður se fyrir grjótum.” JÁM II, 465-466.

Stakkavík

Stakkavík – bæjarstæði.

“Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn,” segir í örnefnalýsingu. Nú er gamalt veiðihús í niðurníðslu rétt vestan við síðasta bæjarstæðið í Stakkavík.
Bærinn stóð á túnræmu sem afmarkast af túngarði í norðri og nokkuð bröttum hraunkambi í suðri. Þar fyrir neðan er Hlíðarvatn. Túnið er óslétt og töluvert af hrauni stendur upp úr. Trúlega hefur þetta ekki þótt gott tún.

Stakkavík

Stakkavík – leifar íbúðarhússins.

Stakkavíkurbærinn stóð fremst á hraunkambinum norðan megin við Hlíðarvatn. Um 50 m norðar er túngarður sem liggur austur-vestur. Húsin voru þrjú, íbúðarhús, heyhlaða og skemma sambyggt því. Alls er bæjarstæðið um 16×16 m stórt. Húsið sem var framar á hraunkambinum hefur verið steypt, 8×7 m á stærð og veggirnir um 25 cm þykkir. Veggirnir hafa fallið út á við nema vesturveggurinn sem hefur hrunið inn í grunninn. Í grunninum má sjá leifar af eldavél og ef til vill sést þar einnig í steyptan skorstein. Grunnurinn á húsinu er mosa og grasi gróinn. Vestan megin við húsið hefur verið steyptur pallur/stétt um 2×2 m og um 0,5 m há. Virðist hún hafa verið í sömu hæð og gólfflötur hússins og ef til vill var inngangurinn í húsið þar. Ætla má að húsið hafi verið hvítmálað þar sem leifar af málningunni sjást á steypunni. Við húsið er lítil hella og á henni platti sem á stendur. ,,Stakkavík í eyði 1943. Síðasti ábúandi Kristmundur Þorláksson”.

Stakkavík

Stakkavík – íbúðarhúsið og nágrenni.

Norðan við húsið er eitthvað sem virðist vera upphlaðin tóft, ferningslaga, um 5×5 m á stærð. Trúlega eru þetta leifar af skemmunni. Hún er nánast algróin og svo virðist sem fyllt hafi verið upp í hana. Á stöku stað sést í hleðslurnar að utanverðu. Heyhlaðan er 9×7 m á stærð. Veggirnir eru um 1 m á hæð og 1 m á breidd. Allir eru þeir vel hlaðnir nema suðurveggurinn sem ekki sést og ef til vill hefur verið op þar. Veggirnir eru mosa og grasi grónir og þá sérstaklega að utanverðu. Tóftin er algróin að innaN og engar leifar af milliveggjum eru sjáanlegir. Leifar af norðurvegg íbúðarhússins eru inn í tóftinni. Mikil gróska er í bæjarstæðinu en ekki teljandi bæjarhóll, enda ekki víst að nokkur mannvirki hafi staðið þarna fyrr en eftir miðja 19. öld.
Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: “Afbýli hefur hjer að fornu verið, það var kallað fjórðúngur jarðarinnar og naut afbýlismaðurinn kosta jarðarinnar pro qvoto.” Ekki er nú vitað hvar afbýli þetta hefur verið og ekki er getið um hjáleigu frá Stakkavík í seinni tíma heimildum.” JÁM II, 466.

Eggert Kristmundsson

Eggert Kristmundsson.

Í Frey 1994 er viðtal Matthíasar Eggertssonar við Eggert Kristmundsson undir fyrirsögninni “Sauðurinn slapp á Lækjartorgi og náðist uppi í Öskjuhlíð“. Hér á eftir er hluti viðtalsins. þ.e. þeim hluta er lítur að dvöld Eggerts í Stakkavík.
“Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðumesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin. Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunauti Bsb. Kjalamesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þúfœddur og uppalinn?
Kristmundur ÞorlákssonÉg er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 böm og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.
Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?
Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði.

Stakkavík

Stakkavvík – beitarhús í Höfða.

Þannig var þetta upp á hvem dag á vetuma þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsýningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuæmar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ eftir lýsingu Eggerts Kristmundssonar á vettvangi.

Hvert fóruð þið með sláturfé?
Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á vetuma þá gat maður farið þetta á sex
tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þama sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að
labba þama, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þama um.
Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturmáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb. Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.
Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílamir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður.
Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni.
En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.

Heyskapurinn í Stakkavík?

Stakkavík

Stakkavík – heimatúnið.

Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu.
Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt
upp í þriggja tíma lestarferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindarskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.
Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.
-Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?

Herdísarvík

Herdísarvík – austurtúnið.

Ég hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það.
Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja unt 80 hesta.
En á veturna var hún í gegningunum sjálf?

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þama í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjöm. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.
Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík – Herdísarvíkurtjörn.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á nætumar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.
-Hvað bjó hún þarna lengi?
Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvik, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.
-Hvað réð því að þið flytjið?

Stakkavík

Stakkavík – veiðihúsið. Það var brennt á öðrum áratug 21. aldar.

Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Ámessýslu þama, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur bömin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.” M.E. (Matthías Eggertsson)

Við Stakkavík er grunnur seinni tíma sumarbústaðar, sem nú er horfinn. Í Vísi 1962 er viðtal við Lizzie Olsen, sænska konu, undir fyrirsögninni “Fór til Kleifarvatns”:
“Fyrir skemmstu var haldin hér í bænum myndlistarsýning fimm Svía, sem sjálfir létu ekki sjá sig hér og hafa aldrei hingað komið, en í gær áttum vér viðtal dagsins við sænska listakonu, sem lagt hefir leið sína um Ísland í nokkrar vikur, en fer héðan án þess að halda nokkra sýningu. Hún hefir raunar ekki málað hér neina mynd. En samt þykir oss trúlegt, að Íslands eigi eftir að gæta í ófáum myndum, sem koma frá hendi listakonunnar næstu misseri og jafnvel lengur.

„Hvar er Stakkavík?“
Lizzie Olson Hvað byrjuðuð þér svo að skoða hér eða hvað vilduð þér helzt sjá?
– Ég held helzt að eitt af því fyrsta, þegar ég hafði lent hér, var að spyrja hvern mann á fætur öðrum: „Hvar er Stakkavík?“ og lengi gat enginn svarað þeirri spurningu. Ég gat nokkurn veginn sagt til um, á hvaða svæði Stakkavík væri, en það kom lengi vel fyrir ekki. En þannig stóð á þessu, að kollega minn, sem hafði verið hér, hafði dvalizt um skeið á þessum stað, og fór miklum orðum um þennan part af Íslandi. Svo komst ég í samband við Kjartan Sveinsson, skjalavörð, sem einmitt hafi lánað sænska kolleganum sumarbústað sinn í Stakkavík um tíma. Og mér var strax boðið þangað.

Fyrst til að skoða staðinn

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Við ókum suður að Kleifarvatni og Krýsuvík. Það var út af fyrir sig opinberun að koma þangað og ekki lengra. Aldrei á ævi minni hafði ég séð annað eins landslag, og þó hafði ég verið á eldfjallaeyjum við Grikkland. Þetta var stórkostlegt. Mér fannst ég vera kominn til tunglsins, þegar við stigum út úr bílnum sunnan við Kieifarvatn. Ef málarar geta ekki fengið innblástur þar, þá er ég illa svikin.
En svo, ef einhvern langar til að vita, hvar Stakkavík er, þá er hún við Hlíðarvatn, skammt frá Herdísarvík. Dvaldist ég þarna ein í vikutíma.”

Í Tímanum 1962 eru skrif Jónasar Guðmundssonar; “Sprittloginn í Stakkavík“:

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson.

“Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn, næsti bær fyrir austan Herdísarvík. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úrstjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið. Og í dularfullum rökkrum við snarkið í eldinum, sögðu menn sögur og vöktu nær til morguns.
Oft var lundi á borðum, er synti í þykkri brúnni sósu, en lundinn hefur þá náttúru, að annaðhvort er hann herramannsmatur, eða óæti. Hvergi hefur lundi verið eins góður og í Stakkavík. Soðinn fyrst vestur á Ásvallagötu, og síðan soðinn enn meir í Stakkavík og þá orðinn hæfur til matar.

Kjartan Sveinsson

Kjartan Sveinsson.

Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík. Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi. Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik. Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.

Í “Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943” fjallar Ólafur Þorvaldsson m.a. um Stakkavík undir fyrirsögninni “Grindaskarðavegur“:
“Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá. Er það hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á
klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun
hafa tekið 12—14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.

Stakkavíkurgata

Vörður við ofanverða Stakkavíkurgötu.

Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður meðfram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkur”sels”stígur á brún Stakkavíkurfjalls.

Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.

Stakkavík

Stakkavíkurborg.

Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir ,,Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.”

Í Morgunblaðinu 22. janúar 1986 er minningargrein um Láru Gísladóttur. Hún lést 16.11.1985:
Lára Gísladóttir“Þegar ég kom fyrst að Brunnastöðum var Kristmundur horfinn af vettvangi en Lára hafði stigið fyrstu fetin yfír á tíunda áratugævinnar. Þó hún væri öldruð vakti enn í vitund hennar glaður minningalogi
liðinnar ævi og hú var fús til að bregða upp leifturmyndum sem henni voru hugstæðar.
Lára fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Æskuheimili hennar var lítið en notalegt og henni þótti gott að vaxa þar upp frá
bemsku til ungmeyjarára. Þá fluttust foreldrar hennar að Stakkavík sem var erfíð jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Árið 1918 giftist Lára Kristmundi Þorlákssyni. Hann var ættaður úr Hafnarfírði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafíð biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum á Brunnastöðum.

Hún Lára var heldur enginn veifískati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu böm og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fýrir einangrun og margháttaða erfíðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og flölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.

Stakkavík

Íbúðarhúsið í Stakkavík 1968. Það brann og í framhaldinu var byggt veiðihús í tóftum fjárhúsa skammt vestar, sem síðar var brennt.

En Selvogurinn og Vatnsleysuströndin eu tveir ólíkir heimar. Að vísu fellur sami sjór að ströndinni en ris öldunnar er með ólíku yfirbragði og tónn frá hörpu hafsins ekki sá sami.
Þó húsfreyjan á Brunnastöðum tapaði engu af sinni heimilishyggju og gengi með sömu atorku að hverju starfi á ströndinni og í voginum mun henni hafa fundist eggjagrjótið þar sárara við fót en suður í Stakkavík. Þannig verða viðhorf þeirra sem alast upp og lifa með náttúru landsins og neyta af nægtum hennar síns brauðs í sveita síns andlits.
StakkavíkAf tíu börnum þeirra Láru Gísladóttur og Kristmundar Þorlákssonar eru átta á lífi, af þeim eru fimm búsett á Brunnastöðum og reka þar myndarlegt sauðfjárbú. Þau eru: Gísli Seheving, Eggert, Elín Kristín, Þorkell og Lárus Ellert. Anna Sigríður er húsfreyja á Sætúni á Vatnsleysuströnd, Valgeir Scheving er búsettur í Reykjavík og Hallgrímur í Keflavík. Tvö dóu í æsku, Valgerður og Lárus.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur.

Nú er Lára Gísladóttir gengin á vit hins óþekkta og rekur ekki lengur lífsþræði sína á vettvangi okkar skynjanlegu veraldar. Þótt kynni okkar væru ekki löng minnist ég með söknuði þeirra kvöldstunda þegar þessi lífsreynda heiðurskona opnaði fyrir mér heim sinnar liðnu ævi og gerði mér grein fyrir baráttusögu einyrkjanna í einni afskekktustu byggð á suðurströnd íslands, Stakkavík í Selvogi. Spor genginna kynslóða eru athygli verð. Þar voru flest fótmál stigin og hugsun fjöldans bundin þeim ásetningi að vera sjálfbjarga og varða leiðina í átt til betri og bjartari framtíðar. Ein í þeim hópi var Lára Gísladóttir. Guð blessi minningu hennar.” – Þ. Matt.

Í Tímanum 1971 er grein eftir Ólaf Þorvaldsson; “Tekið heima“. Greinir hann m.a. frá fólkinu og lífinu í Stakkavík.
“Áður fyrr var oft haft á orði, að þessi eða hinn væri búinn „að taka heima“, þegar sá hinn sami hafði fest sér jörð eða kot til ábúðar. Þessi ósköp hafa nokkrum sinnum hent mig á lífsleiðinni, að taka

Stakkavík

Stakkavík – hlaða.

heima, festa mér jörð eða ábýli til búskapar, oft að lítt athuguðu máli, jafnvel af tilviljun einni.
Ekki verða hér rekin tildrög allra minna heimtaka. Ég tek hér eitt út úr, en það var, þegar ég tók heima í Herdísarvík í Selvogshreppi vorið, eða réttara sagt sumarið 1927.
Það mun hafa verið í síðara hluta júlímánaðar 1927, er við hjónin stóðum við slátt á túni okkar á Hvaleyri, nokkuð fyrir venjulegan fótaferðartíma, að kona mín vekur athygli mína á, að maður á brúnu hrossi kemur niður veginn, sem liggur af aðalveginum, og stefnir að túnhliði okkar. Þetta var óvenjuleg sjón, einkum á þessum tíma sólarhringsins. Hér hlaut langferðamaður að vera á ferð, og fer ég strax að huga nánar að þessum árrisula ferðalangi. Eftir smástund segi ég við konu mína, að ekki kunni ég mann að kenna, sé þetta ekki Kristmundur bóndi í Stakkavík í Selvogi. Við Kristmundur vorum vinir og mjög samrýndir á æsku- og uppvaxtarárum okkar í Hafnarfirði, og svo var ekki nema mánuður frá því, að við sáum Kristmund seinast á þessu sama hrossi. Þetta reyndist rétt vera. Sá var maðurinn.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Hið fyrsta, sem ég spurði Kristmund um eftir kveðjur okkar, var, hvort nokkuð væri að hjá honum. Hann kvað svo ekki vera, en segist ætla að biðja mig fyrir hann Brún sinn, þar eð hann þurfi að bregða sér til Reykjavíkur, og var það auðsótt mál.
Þegar við höfðum komið hestinum á snapir, gengum við í bæinn. Kona mín bar Kristmundi góðgerðir — hann hlaut að vera hjallhanginn eftir að hafa verið á ferð alla nóttina. Á meðan við drukkum morgunkaffið, minntist ég á það, að hann hlyti að hafa mjög brýnt erindi að reka, úr því að hann væri á ferð um hásláttinn, og það í þurrkatíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Það er nú samt í sambandi við sláttinn, að ég fer þessa ferð“, anzar Kristmundur. Svo segir hann mér, að nú sé Herdísarvíkin komin í eyði, og hafi ég ef til vill heyrt um það. Þórarinn, bóndinn í Herdísarvík, hafi flutt til Reykjavíkur með sitt fólk, sem væri ekki margt, aðeins þau hjónin og gömul kona, sem búin hafi verið að vera þar mjög lengi. Þetta hafi gerzt eftir að rúningu fjárins og ullarþvotti lauk.

Og Kristmundur heldur áfram og segir: “Nú þarf ég að reyna að komast til Reykjavíkur og leita uppi Einar Benediktsson, skáld og fyrrverandi sýslumann, til að vita, hvort hann vill lofa mér að slá meira eða minna í Herdísarvíkurtúninu, þar eð útlit er fyrir, að Herdísarvíkin byggist ekki þetta árið. Hlíðartúnið, sem ég hef undir, ætlar að verða mjög lélegt, og ekkert tún heima, svo sem þú veizt. Þórarinn bar vel á túnið að venju og lét róta úr öllum hlössum snemma í vor.”

Stakkavík

Stakkavík – herforingjaráðskort 1903.

Um kvöldið kom Kristmundur aftur, svo sem hann ætlaði sér, en ekki með Herdísarvíkurtúnið í vasanum, og óvíst, hvort úr þessu rættist fyrir honum. Við ræddum þetta nokkra stund, unz Kristmundur segir: „Heyrðu annars, af hverju tekur þú ekki Herdísarvíkina. Þessi kot hérna eru ekki við ykkar hæfi“.
Eftir samtal okkar hjóna þetta kvöld var ég ákveðinn að hafa tal af Einari Benediktssyni, að þeim fresti liðnum, sem bann setti sér til þess að gefa Kristmundi eitthvert svar.
Þegar við Kristmundur skildum næsta morgun, og hann hélt heim til sín, sagði ég honum, að ef ég fengi Herdísárvikina til ábúðar, gætum við slegið heimatúnið í félagi og skipt heyinu jafnt. Og
Kristmundi mun hafa þótt þetta betra en ekki.”
Ólafur og kona hans flutti árið síðar að Herdísarvík.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfus – Áfangaskýrsla I, 2015.
-https://timarit.is/page/5584174?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/stakkav%C3%ADk%20kristmundur
-Freyr, 15.-16. tbl. 01.08.1994, Sauðurinn slapp á Lækjartorgi og náðist uppi í Öskjuhlíð – Viðtal við Eggert Kristmundsson, bls. 512-517.
-Vísir, 18. ágúst 1962, Fór til Kleifarvatns, bls. 2 og 4.
-Tíminn, 17. ágúst 1962, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8. Jónas Guðmunsson skrifar.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943, Grindaskarðavegur, Ólafur Þorvaldsson, bls. 99-102.
-Morgunblaðið 22. janúar 1986, minningargrein um Láru Gísladóttur, bls. 44.
-https://timarit.is/page/3560264?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/kristmundur%20%C3%BEorl%C3%A1ksson%20stakkav%C3%ADk
-Tíminn, sunnudagsblað, 16. tbl. 01.05.1971, Ólafur Þorvaldsson – “Tekið heima”.
-Morgunblaðið 21. jan. 2010, Eggert Kristmundsson, minningargrein, bls. 28.

Stakkavík

Stakkavík – rétt á Réttartanga.

Strandarkirkja

Í Vísir 13. ágúst 1968 er grein, “Strandarkirkja – Hugleiðing úr sunnudagsferð til Strandarkirkju“, eftir Jónas Guðmundsson.

Herdísarvík

Herdísarvík.

“Eftir að komið er fram hjá Kleifarvatni og Krýsuvík beygir leiðin til austurs. Útsýni opnast til suðurs. Þótt örskammt sé til þröngbýlisins í Reykjavík, er hér allt svo undarlega friðsælt og ósnortið. Hraunfossar komnir úr Trölladyngju fyrir liðlega 600 árum falla með ótrúlegu lífsmarki fram af Geithlíðarfjalli og sundrast í ótal hraunbolla, hóla og dranga. Framundan er Selvogur.
Hér er indæl fegurð og tign. Hér kaus Einar Benediktsson sér að deyja við drungalegar aðstæður. Svarrandi brim og tröllvaxnar hraunborgir kalla fram undarlegustu litbrigði og áhrif.

Selvogur

Herdísarvík

Herdísarvík – hús Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson.

Í augum vegfarandans virðist byggðarkjarni hafa verið frá Herdísarvík að vestan, að Nesi í Selvogi að austan. Herdísarvík er nú í eyði og er eign Háskólans. Lystilega gerðir hraungarðar faðma túnkrílið umhverfis íbúðarhúsið, sem sýnist sæmilega við haldið, en peningshús eru fallin, eða að falli komin.

Stakkavík

Stakkavík – bæjarstæði.

Þá tekur við Stakkavík, túnlaus jörð og friðlýst. Þar er nú stærsta æðarvarp á Suðurlandi.
Þá koma Vogsósar og svo austast byggðahnappurinn austan við Strandarkirkju. Síðan eru 15 kílómetrar í næsta bæ, Hlíðarenda.
Regnúðinn hefur bundið sjónir við endalaus hraun, sum ber, önnur vaxin mosa enn önnur þau elztu eru vaxin lyngi og blómum og þegar komið er gegnum skriðurnar norðanvert við Hlíðarvatn, tekur við flatlendi. Sér víða á flata eldforna hraunhellu, eða berghellu gegnum moldina. Einu sinni var hér jarðvegur og skógur sögðu þeir okkur í Selvogi, en nú hefur uppblásturinn feykt jörðinni út á bankann fyrir framan.

Vogsósar

Vogsósar.

Í regnúðanum óx himinn og jörð saman rétt fyrir ofan veginn og framundan blasti við sjónum þar sem kallað er Selvogur.
Saltstorkin strá, melgras og smári ásamt blóðbergi, setja fínleg ósýnileg litbrigði á landið og úti í móðunni blasir við helgasta kirkja álfunnar, á lágum sandi við opið haf, þar sem heitir Engilvík. Um þessa kirkju og grasbýlin í kring, fjallar þetta greinarkorn, og um það fólk er lifir í flæðarmáli þessa undarlega staðar.

Strandarsókn

Selvogur

Selvogur – bæjartóft.

Við börðum að dyrum í einu húsanna, eftir að hafa lagt leið okkar að kirkjunni. Það heitir í Þorkelsgerði. Þorkelsgerði tvö er næsta hús, örfáa metra í burtu, og þar við hliðina Torfabær, sem nú er í eyði. Í Þorkelsgerði eitt hittum við að máli Ólaf Bjarnason, bróður bóndans, Rafns Bjarnasonar, en hann var fjarverandi þennan dag, og móður þeirra bræðra, Þórunni Friðriksdóttur, mestu skýrleiksmanneskjur. Ennfremur hittum við að máli fáeina aðra bæði úti við kirkjuna og höfðum tal af kunnugum, og á því byggjum við frásögn þessa.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

Fyrsta Strandarkirkjan mun hafa verið byggð árið 1615 af Norðmönnum sem velktust í sjávarháska fyrir ströndinni. — Hétu þeir að byggja kirkju þar sem þeir næðu landi heilir. — Skyndilega sjá þeir engilveru, sem lóðsar þá inn sundið, þar sem heitir síðan Engilvík. Hinir norsku sjómenn stóðu við heit sitt og reistu kirkjuna ofan við flæðarmálið, við bæinn Strönd, og eru tóftir bæjarins við kirkjugarðsvegginn norðanverðan. Strönd var höfðingjasetur og í byggð fram á 16. öld. Til eru fleiri útgáfur af upphafi og stofnun Strandarkirkju en þessi útgáfa var okkur sögð í flæðarmálinu þar eystra í heimsókn okkar þangað og hana segjum við hér.

Nes

Nes.

Áður en Strandarkirkja var grundvölluð, var bænahús í Nesi. Litlar heimildir eru um það og mun það hafa aflagzt fljótleg eftir að Strandarkirkja var reist. Enn sjást tóftir bænahússins og þar er einn legsteinn ofar moldu, sem höggvið er í krossmark. Prestar Strandarkirkju sátu lengst af í Vogsósum, en núverandi prestur kirkjunnar er búsettur í Hveragerði. Sr. Eggert í Vogsósum, undarlegur klerkur, en gáfaður, reyndi talsvert til að flytja Strandarkirkju að Vogsósum, en vættir kirkjunnar komu ávallt í veg fyrir flutning, með einhverjum ráðum. Gafst klerkur loks upp og lét varða leið til kirkjunnar og standa vörðurnar enn. Sr. Eggert notaði ekki hesta og leiddist rápið út í Engilvík. Mun hafa verið ástæðan fyrir því að hann margreyndi að fá kirkjuna flutta og nú hefur kirkjan verið endurbyggð.
EggertKirkjan sem við höfum fyrir augunum, er næstum algjörlega ný. Þakið nýtt, gólfið og allur innviður. Aðeins kirkjuskipið er úr gömlu kirkjunni, en þó var hún lengd um á að gizka 3 metra svo að hægt væri að koma fyrir sönglofti. Að innan er kirkjan vel einangruð og klædd furu, lakkaðri. Bekkir eru úr furu og mikillar smekkvísi gætir í frágangi, og teikningar eru góðar. Predikunarstóllinn er úr gömlu kirkjunni, sem var 80 ára gömul og sómir sér vel svo og altaristaflan sem er sama mynd og í Dómkirkjunni í Reykjavík, máluð af sama málara. Kirkjan á urmul gripa, merkilegra og algengra. Þá hefur ur hún þegið að gjöf. Merkastur er bikar frá 13. öld, sem Ívar Hólm, frændi Erlendar lögmanns á Strönd gaf kirkjunni. Kirkjan, sem nú hefur verið endurbyggð var hin 3 í röðinni í Engilvík.

Ríkasta kirkja landsins
Ólafur BjarnasonStrandarkirkja er ríkasta kirkja landsins, ef innistæður í bönkum eru taldar saman og verðbréf hennar. Þetta litla óskiljanlega guðshús í flæðarmáli Engilvíkur býr yfir huldum dómum. Hið ytra er ekki til yfirlætislausara hús í öllum heiminum. Það stendur á sæbarinni strönd undir tignum himni guðs, innan um melgras og blóðberg. Hér, þar sem ekki þrífst einu sinni venjulegt gras, býr það volduga afl sem sneiðir hjá háum turnum dómkirknanna hér i prestsleysinu sú tign og festa, sem á sér enga líka, eða hliðstæðu í hinni samanlögðu evangelisku lúthersku kirkju. Opnaðu barnsaugu þín til himins og hlustaðu á brimgný og vindinn salta og þú finnur að hér er helgur staður, tvímælalaust.
En í hverju er þetta fólgið?
Kirkjan verður við, sem kallað er. Menn heita á hana og hún verður við heitum manna. Í raun og veru hefur enginn getað útskýrt þetta, og engar sögur fara af því. Menn gera þetta einir innra með sér. Þetta er aðeins milli þeirra og guðs.
Þórunn FriðriksdóttirEkki vita menn um annað guðshús í lútherskum sið, sem gætt er þessum eiginleika. Svo voldugt er þetta samband Strandarkirkju við fólkið, að kirkjustjómir og guðfræðingar kirkjunnar, ganga í stóran hring og hætta sér ekki í útskýringar. Það er ekki einasta, að heitið sé á kirkjuna í Strandarsókn, af fólki í Reykjavík, á Langanesi og um allt Ísland. Bréf berast líka frá Bretlandi, Þýzkalandi, Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Eitt sterlingspund, eitt þýzkt mark, dollar, eða svo berst í bréfi. Pílagrímar koma yfir þúsund mílna haf til að sjá með eigin augum kirkjuna í Engilvík, til að fá að ganga á söltum sandinum umhverfis hana og anda að sér þeim ilmi er berst frá hafi og jörð á þessum stað. Í sumar kom hér t.d. áttræð ensk kona, varla rólfær og Ólafur Bjamason studdi hana út að kirkju. Strandarkirkja var hennar kirkja líka, eins og hún var kirkjan hans. Með einhverjum hætti hefur kirkjan í Engilvík orðið að stórveldi í hjörtum fólksins, þrátt fyrir látleysi sitt og einangrun. Og eins og brimaldan fyllir loftið niði af bárum, sem borizt hafa yfir þúsund mílna haf til að brotna á sendinni strönd, stíga bylgjur nýrra vona til himins hér.

Sóknarbörn

Selvogur

Selvogur – Guðnabær.

Þó Strandarkirkja hafi staðizt veðrin reið nær fimm aldir og hafi haldið vellii á kjamorkuöld þá hefur sóknarbömum hennar ekki vegnað eins vel, ef hið veraldlega er haft i huga. Sauðfé líður hér bærflega og það kemur fram í holdum, úr hraunum, hvert haust, en nýtízkubúskapur þróast ekki hér. Selvogstorfan er aðeins í þrengsta skilningi aðili að því mannfélagi sem nú byggir Ísland. Þeir hafa að vísu kosningarétt og allt það og borga skatta. En þeir eru t.d. rafmagnslausir ennþá einir bæja á stærsta Orkusölusvæði landsins.

Selvogur

Selvogur – Bjarnastaðir.

Það er of langt til ykkar er viðkvæðið. Landið fyrir ofan hefur orðið uppblæstrinum að bráð og berghellan skín víðast hvar undan, eins og undan götóttri flík. Hinn gljúpi sandur er nær fjörunni og þar þrífast aðeins melur og blóðberg. Nægt vatn er víðast hvar, en aðeins melur nær því. Nú munu vera um 1000 fjár á þeim 4—5 bæjum sem eru í byggð þarna og yfirleitt er fólk komið yfir miðjan aldur. Sumt dáið, annað hefur flutzt burt. Ungt fólk nennir ekki að rölta alla ævina eftir sauðfé.

Selvogur

Selvogur – Þorkelsgerði og Torfabær.

Það vill ekki hóa og æpa að skepnum. Það vill ræktun. Það vill kýr, mjaltavélar, stórbúskap. Samgöngur og dansleiki.

Selvogur

Selvogur – ströndin.

En Strandarkirkja? Jarðeigandinn. Hún á margar jarðanna þama. Vill hún ræktun? Vill hún sóknarbörn, vonglaða æsku, torfur af bömum og akra?
Biskup svarar fyrir hana. Nei. Fjármunir Strandarkirkju fást ekki til að ala upp beljur. Ekki til að rækta venjulegt gras. Ekki í raflínur, þeir fyrir sunnan þekkja þarfir kirkjunnar. Hver eyrir rennur þangað . Meira að segja er sturtað úr samskotabauk Strandarkirkju í kirkjusjóð.

Selvogur

Selvogur – bautasteinar í kirkjugarðinum í Nesi.

Gagnstætt venju fer biskup með fjármál Strandarkirkju en ekki sóknamefndin, eða kirkjuhaldarinn. Í upphafi mun kirkjuhaldara Strandarkirkju hafa óað varzla svo gildra sjóða og farið þess á leit að biskup tæki að sér vörzlu kirkjusjóðsins. Hér er því ekki um slettirekuskap að ræða. En sú ábyrgð er kirkjuhaldari staðarins hafði færzt undan, hún hvílir nú á biskupsembættinu. Gjafir þær, sem áheit færa kirkjunni eru fjármunir. Þær eru gefnar án skilyrða, a.m.k. oftast nær. Úrskurður um ráðstöfun þessa fjár er hins vegar mat einstakra manna á afmörkuðu sviði, sem verja má fénu til.
Dýrlingar koma kaþólikkum ekki í bobba af þessu tagi. Hið innra skipulag kaþólsku kirkjunnar gerir ráð fyrir tekjum af kraftaverkum. Sú ráðabreytni að verja fé Strandarkirkju í aðrar kirkjur en Strandarkirkju þó í formi lána sé, virðist jafnvel hæpnari en að rækta gras í Selvogi, á Strönd, eða í uppblæstrinum. Vörzlumenn sjóða Strandrkirkju neituðu að lána til raflínu þá 15 kílómetra sem vantar á að rafmagn nái til Strandarkirkju og báru við „starfsreglu”. Hins vegar var rándýr einkarafstöð sett upp við kirkjuna, svo þar er rafmagn.

Selvogur

Selvogur – Gata. Gamla skólahúsið t.v.

Hvernig vita forráðamenn kirkjusjóðs að gera beri mun á dieselrafmagni og Sogsrafmagni? Hitt er komið í eyði. Nes í eyði, Torfabær í eyði, og maður finnur að til úrslita dregur senn í sögu þessarar byggðar. Í dularfullum gufum, sem leggur frá hafi, sést úthafsbrimið við hina fornu lendingu. Inni í landi bendir sundmerkið til himins.

Selvogur

Selvogur – Bjarnastaðir.

Enginn heitir lengur á Strandarkirkju í lífróðri í Engilvík. Við erum ekki sveit, segir Ólafur Bjarnason, við erum sjávarþorp.
Hver verða örlög þessarar lágreistu byggðar i Selvogi er ekki gott að segja. Sjálft Skálholt var að afleggjast, en kirkjunnar menn komu vitinu fyrir þjóðina og byggðu staðinn upp. Ekki einasta kirkjuna, heldur líka hinn lifandi stað. Hvað er um Strönd? Verður hún senn arfsögnin, ein byggðin þar? Landsins frægasta kirkja skilin eftir ein og yfirgefin á sandflákunum í Engilvík?

Strandarkirkja

Í Strandarkirkju.

Biskup hefur nú endumýjað Strandarkirkju og notið þar hollráða hinna færustu smiða og teiknara. Vel hefur varðveitzt fomlegur blær og þokki. Enn á biskupinn leik. Vafalaust eru margvíslegir annmarkar því fylgjandi að beita sér fyrir nútímamannlífi í Selvogi. En með eins góðu liði og hann safnaði um sig við kirkjusmíðina mun takast að varðveita lífsstíl þessarar byggðar, þótt stefnt sé samhliða því að endumýja búskaparhættina. Bezt verður þetta starf unnið sem skipulagsverk, með stórbúskap fyrir augum, og þá mun ekki standa á fólki, sem ann sveitalífi, að setjast að í Selvogi og þá mun glaðværðin aftur ríkja í sandhólunum upp af hafi Engilvíkur.” – Jónas Guðmundsson, stýrimaður

Heimildir:
-https://timarit.is/page/2397738?iabr=on#page/n11/mode/2up/search/selvogur
-Vísir 13. ágúst 1968, Strandarkirkja – Hugleiðing úr sunnudagsferð til Strandarkirkju, bls. 9 og 13 – Jónas Guðmundsson.

Selvogur

Selvogur – Strandarkirkja.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.