Hjallasel

Gengið var upp með austanverðu Kerlingarbergi áleiðis að Litlabergi.

Ölfus

Hjallasel.

Haldið var áfram upp í Lyngbrekkur og stefnan þá tekin upp í svonefndar Vatnsbrekkur með stefnu á Skálafell. Undir brekkunum kúrði fallegt sel. Sennilega er um að ræða sel frá Hjalla. Megintóftin var óvenjustór af selstóft að vera, en rými var austan við hana. Tvískipt tóft var lítillega ofar (norðar) og síðan önnur skammt vestar. Á milli hennar og megintóftarinnar var garður. Tækifærið var notað og selstaðan rissuð upp. Suðaustan við tóftirnar eru Selbrekkur ofan við Hjalla. Gamall stígur liggur í móanum upp hlíðina og liðast áfram upp hana skammt vestan við selið. Að sögn Hjalta Þórðarsonar, bónda á Bjarnastöðum, sem er manna fróðastur um þetta svæði, er þarna um að ræða sel, mjög gamalt, frá Hjalla og síðar notað sem sauðhús. Annað sel frá Hjalla væri í u.þ.b. 20 mín. gang til norðvesturs upp í heiðinni, í svonefndum Sellautum. Það væri minna og einnig mjög gamalt.

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hjalli er bær og kirkjustaður í Ölfusi. Hann er sennilega kunnastur fyrir að þar bjó einhver vitrasti og lögfróðasti höfðingi landsins á sínum tíma, Skafti Þóróddsson, lögsögumaður (†1030). Síðasti katólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni að Hjalla 2. júní 1541, þegar danskir hermenn handtóku hann þar. Hann sætti illri meðferð í þeirra höndum og var fluttur til Hafnarfjarðar, þar sem hann var settur á skip til Kaupmannahafnar. Ögmundur lézt á leiðinni.

Til baka var gengið ofan við brekkurnar áleiðis niður að Kerlingarbergi. Gengið var niður af því að vestanverðu og var þá komið selstíginn frá Hrauni. Hann liggur áfram upp í Hraunsel undir Löngubrekkum, sem eru þarna skammt ofar. Hraunsel er lítið sel utan í úfnum hraunkanti skammt austan við Raufarhólshelli.
Stígnum var fylgt niður eftir, niður að Lækjarmóa og að Guðnýjarhæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn.

Ölfus

Hjalli – örnefnakort.

FERLIR hefur pússlað saman örnefnakortum fyrir Ölfusbæina. Eru það þrjú stór kort er mynda samfellt svæði frá Þrengslum að Þurá. Áður höfðu verið útbúin slík kort af svæðinu vestan Þrengslanna.
Þarna er Fjallsendaborgin, stór gróin fjárborg. Heimildir segja að ekki sé ólíklegt að hún hafi verið topphlaðin. Skammt norðaustar er hlaðin, fremur lítil, fjárborg, Lækjarborg. Stuttir leiðigarðar liggja út frá borginni. Neðar er Sólarvarðan á Hjallafjalli, en vestar er Fjallsendi.
Framundan er að taka hús á Hrafnkeli á Hrauni og Helga á Bjarnastöðum. Þeir eru mjög fróðir um svæðið og geta auðveldlega kveðið á um heiti og staðsetningar eintakra minja skv. Örnefnakortunum. Fengist hafa talsverðar upplýsingar um einstakar minjar, s.s. Beinteinsvörðu, en í henni á að vera letursteinn. Svo er einnig um Markaklett á gömlu þjóðleiðinni undir Hjallafjalli.

Fjallsendaborg

Fjallsendaborg.

Ekki er að sjá á örnefnalýsingum að getið sé um selstöður bæjanna undir Hjallafjalli í Ölfusi. Í lýsingu af Hjalla segir m.a. að “vestan við Kerlingarberg er skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina.”
Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: “Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjáborgin teldst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.” Framundan er m.a. að huga að þessari borg.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Ölfus

Ölfus – kort.