Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
“Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin”.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

“Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga”.

Í Þjóðólfi 1875 eru “Auglýsingar“. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
“Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…”. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I”, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

“Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: “Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…”.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.”

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.