Færslur

Geitafellsrétt

Gengin var óhefðbundin leið frá Þrengslavegi að Strandarhæð. Leiðin er greiðfær og auðveld yfirferðar. Hallar undan, einkum seinni hlutann.

Selvogsheiði

Gengið um Selvogsheiði.

Byrjað var á því að ganga að Sandfelli og áfram yfir slétt mosahraunið að Geitafelli, með því að austan og sunnanverðu uns komið var að Seljavöllum. Þaðan var haldið suðvestur með Réttargjá að gömlu hlöðnu Geitafellsréttinni. Geitafellsréttin var frádráttarrétt Ölfus- og Selvogsbúa. Réttin hefur ekki verið notuð lengi, en stendur þarna heilleg og löngum einmana undir gjáarveggnum. Umhverfið er allt hið fegursta og skjólgott undir gjáarveggnum. Skömmu áður en komið var að réttinni mátti sjá gamlar hleðslur utan í hraunhól.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Í auglýsingu í Ísafold 22.09.1875, bls. 143-144 er m.a. minnst á Geitafellsréttina: “Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdæminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprætingar fjárklaðans í suðrhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjareigendr þá.. sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er úr þessu lögsagnarumdæmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Mun almenn skoðun á réttarfénu, fyrren það er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. þ. m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s. m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar í stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar.”

Strandarhæð

Við Gapa.

Gengið var með Merarbrekkum að slysavarnarskýlinu undir Heiðinni há og kíkt á Kjallarahelli, sem er skammt ofan við það. Ekki var gengið á Svörtubjörg og komið við Eiríksvörðu að þessu sinni (hlaðin árið 1710), en þess í stað var haldið í átt að Staðarsel (Strandarseli), fráfæruseli við efri rætur þeirra. Leiðin lá framhjá hlöðnu Selvogsréttinni norðan við Hnúkana með viðkomu í Hellholti og Hellholtshellir skoðaður, Hafri, Hruni svo og nokkrir aðrir. Áður höfðu ferðalangar áð í Selvogsréttinni þar sem gangnamenn fyrrum höfðu verið svo vinsamlegir að skilja eftir svolítið af kjarngóðum hákarli, reyktum rauðmaga og brennivíni fyrir ferðalúna vegfarendur.

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

Þá var haldið niður að Eimubóli (Eimustekkur er í Eimuhelli) og Vindásseli, gengið yfir Vörðufell og skoðuð hlaðna Vörðufellsréttin (hætt að nota 1924) og Markavarðan með krossmarkinu (landamerkjavarða), auk litlu smalavarðanna, sem tengjast þjóðsögunni um endurheimtur.
Á þessu svæði eru miklar og merkilegar mannvistaleifar, ekki síst í hellum og skútum. Hafa þær væntanlega tengst seljabúskapnum í heiðinni, sem hefur skilið eftir sig miklar og merkilegar minjar.

Eimusel

Hleðslur í Eimuseli (Eimubóli).

Þarna er fjölmargt að skoða þótt ekki virðist það vera við fyrstu sýn, a.m.k. ekki séð neðan frá þjóðveginum.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Á leiðinni að Strandarhelli var komið við í Ólafarseli, sem liggur undir hraunkrikanum syðst í Vörðufellshrauni. Skammt austar liggur gömul þjóðleið. Loks var skoðað í Strandarhelli, Bjargarhelli og í Gaphelli (Gapstekk).
Gangan tók u.þ.b. 8 klst. Veður var frábært og björt júlínóttin gaf ferðinni skemmtilegt yfirbragð.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg og síðan haldið sem leið lá vestur yfir Þúfnavelli austan Geitafells, yfir Ólafsskarðsveg og vestur með fellinu norðanverðu.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að rótum vesturhorns fellsins. Þaðan sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selvelli fyrir neðan.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá sást í stórt jarðfall. Þegar þangað var komið sáust rásir liggja inn til beggja enda. Rásin til suðurs var fremur stutt og lokast með hruni, en rásin til norðurs, mót Heiðinni há, var lengri og opnari. Fyrir innan er mikil hraunrás með háum bálkum beggja vegna. Mikil hrauná hefur runnið þarna niður og mátti sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 sentimetra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða mátti sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ganga þurfti uppi á hægri bálknum inn með rásinni fyrir neðan, en innst inni í þessum 80 metra langa helli er hann heill og rúmgóður. Hátt er til lofts þar sem fyrir er mjór og hár hraunfoss. Hann kemur úr úr veggnum í allnokkurri hæð og hefur storknað utan í veggnum á leið sinni niður. Ofarlega á veggjunum neðan við fossinn eru mjög fallegar hraunmyndanir. Erfitt er að mynda fossinn nema með mjög góðum ljósabúnaði.
Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann. Hellirinn er bæði aðgengilegur og auðfundinn, og ekki skemmir hið fallega umhverfi á heiðinni fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Fosshellir

Fossinn í Fosshelli.

Litlalandssel

Genginn var slóði upp á Búrfell í Ölfusi. Þegar upp var komið var gengið inn á þjóðleiðina, sem nú er merkt sem slík um Ólafsskarðsveg vestan fellsins og honum fylgt áleiðis að Geitafelli.

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur – ÓSÁ.

Í örnefnaskrá segir hins vegar að “um[Ólafsskarð] liggur Ólafsskarðsvegur, og áfram suður með Bláfjöllum, um Þúfnavelli norðan við Geitafell, niður hjá Grislingahlíð, að Litlalandi … “Ólafsskarðsleið frá Litlalandi liggur um Fagradal, Þúfnavelli, milli Fjallsins eina og Bláfjalla, um Ólafsskarð, Jósefsdal á þjóðveg neðan við Þórishamar.” Þannig er Ólafsskarðsvegur merktur inn á gömul kort.

Hlíðarendasel er í götunni þegar þriðjungur leiðarinnar er ófarinn að Geitafelli, eða þar sem hraunbungan ber hæst, með stefnu af Búrfelli í Hrútagil (Fálkaklett).
Bærinn Hlíðarendi stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan.
Slóðinn upp á Búrfell er nokkuð brattur, en greiðfær. Áður en komið er að efstu brúnum fellsins var beygt út af slóðanum til vinstri og inn á sæmilega sýnilega þjóðleiðina um Ólafsskarðsveg, sem lá frá Ölfusá áleiðis til Reykjavíkur um Jósepsdal og Lyklafell. Yfirleitt eru Búrfellin, sem eru 47 talsins hér á landi, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Þetta Búrfell er hins vegar hraungígur ofan við brún Hlíðarendafjallsins. Efst í því er gígur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur.
Fagurt útsýni er suður af heiðinni, af Búrfelli, um allt til sjávar. Leiðin liggur upp í Jósefsdal um Ólafsskarð og síðan niður með Lyklafelli austan Fóelluvatna.

Litlalandssel

Litlalandssel.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Lyklafell

Lyklafell – varða við Austurleiðina að Kolviðarhóli fremst.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta, m.a. um veg þann sem síðar var nefndur eftir honum, og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið einnig eftir honum.
Þessi hluti Ólafsskarðsvegar, norðan Búrfells, er vel greinilegur og auðvelt að fylgja götunni áleiðis að Geitafelli. Þegar komið er svo til á efstu hæðina er hraunið tekur að halla að Geitafelli með stefnu í Fálkaklett er svo að segja gengið yfir tóftir í götunni.

Geitafell

Geitafell og nágrenni – kort.

Þar er Hlíðarendaselið á milli hóla. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin götunnar og síðan er hlaðinn stekkur á hraunhól norðan þeirra. Á bak við selið að austanverðu er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður. Selið lætur ekki mikið yfir sér og erfitt gæti verið að finna það ef ekki væri gatan. Litlalandsselið, sem er þarna allnokkur suðaustar, er t.d. erfitt að finna nema komið sé að því úr suðri. Sama má segja um Hlíðarendasel.
Leitað var annarra hugsanlegra minja við selið. Erfitt er að leita þarna í hrauninu, hver bollinn og hraunhæðin er upp af annarri, en skammt sunnan við Réttargjá, undir hraunhól í skjóli fyrir suðaustanáttinni, skammt ofan Götugjár, fannst hleðsla, sem gæti verið stekkur. Þar austur af heita Selvellir. Engar merkjanlegar tóftir eru þar, en vellirnir eru vel grónir.
Gatan var rölt til baka með viðkomu á gíg Búrfells. Sólin roðagyllti Geitafellið að baki og á móti lýsti sólarrönd hafflötinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Farfuglinn (1975)
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
“Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin”.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

“Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga”.

Í Þjóðólfi 1875 eru “Auglýsingar“. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
“Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…”. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I”, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

“Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: “Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…”.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.”

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.

Heiðin há

Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883”:

Heiðin há

Heiðin há – gígurinn (loftmynd).

“Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.

Heiðin há

Heiðin há – gjár.

Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.

Heiðin há

Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.

Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.

Heiððin há

Heiðin há – jarðfræðikort.

Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.”

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:

Heiðin há

Í Heiðinni há  – Bláfjöll fjær.

“Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.

eiðin há

Efst í Heiðinni há.

Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.

Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.”

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.

Heiðin há

Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.