Í Lesbók Mbl 7. nóv. 1954 er fjallað um “Heiðina há” í svonefndu Fjarðafoki: “Upp af Selvogsheiði er fjarska mikil hraunbunga, sem kölluð er Heiðinhá. Er hún 2030 fet á hæð, geisimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lík í lögun og Skjaldbreiður. Hún er hlaðin upp úr óteljandi gömlum hraunalögum suður af Bláfjallahlíðum. Efst á heiðinni markar fyrir gígum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr. Gígurinn er nú fullur af hrauni, em hefir verið afar stór, sem sjá má af leifum þeim, sem standa af gígröndinni. Það eru dálitlir hraunhnúkar sem standa í hring og hefir gígurinn verið allt að 100 faðmar að þvermáli.
Við riðum upp á sjálfa heiðarbunguna og útsjónin var ágætlega fögur. Landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum okkar, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa. Sunnanlands undirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum. Vestmannaeyjar lyftust upp af hyllingunni og Snæfellsjökull norðan við flóðann blasti við eins og fagur og hann er vandur. Langt uppi í landi “rís Skjaldbreiður við himin og jöklarnir með hvítleitum bjarma”. (Þorv. Thoroddsen)”
Eldstöðin Heiðin há er af dyngjuætt og er mest eldstöðva á Reykjanesskaganum. Hraun frá henni þekja um 170 ferkíómetra og rúmmál þeirra um 6,8 rúmkílómetrar, en það er ríflega helmingur af hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Ekki ber mikið á gígnum sjálfum en þó eru á börmum hans háar hraunstrýtur sem sýna nokkurn vegin útlínur hans. Hæðin er 613 m.y.s.
Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun. Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.
Dyngjan, sem heiðin há, stendur á, liggur utan í Bláfjöllunum og hefur á kafla kaffært framhald þeirra til suðvesturs að Austurásum. Mögulegt er að hraun frá Heiðinni há hafi fyllt 100-200 m dæld í landið umhverfis Geitafell en það mun vera þykkt hraunanna við fjallið. Eldri hraun, nú grafin, kunna að hafa fyllt slíka dæld við upphaf nútíma áður en Heiðin há varð til.”
Heimild:
-Lesbók Mbl. 7. nóv. 1954.
-raunvís.hi.is