Strandarhellir

Haldið var í Selvog. Staðnæmst var við Bjarnastaðasel. Einn FERLIRsfélaga hafði greinilega unnið heimavinnuna sína og rætt við heimamenn. Hann gekk rakleiðis að klöppinni Fótalaus suðaustan selsins og benti á stafina “LM”, sem klappaðir voru þar. Upp úr klöppinni stendur landamerkjahornstaur bæjanna Ness og Bjarnastaða. Áletrunarinnar er getið í gömlum heimildum, en erfiðlega hefur gengið að finna hana – þangað til nú. Tóftir eru austan og norðaustan við hraunhól vestan klapparinnar, en það hafði fram að þessu verið merkt sem Bjarnastaðasel (Bjarnastaðaból) á kort. Það reyndist hins vegar ekki rétt þegar betur var að gáð (það er mun ofar í heiðinni).

Árnavarða

Árnavarða.

Haldið var að Árnavörðu á Strandarhæð, en hún er norðan Þorlákshafnarvegarins, svolítið ofan og austan við gatnamótin að Selvogi. Varðan, sem er mjög gömul, var endurhlaðinn af Kristófer Bjarnasyni frá Þorkelsgerði, kirkjuverði í Selvogskirkju til margra ára. Hann hefur áður leitt FERLIRsfélaga um Selvoginn og m.a. boðið þeim í kirkjuna til að heyra sögu hennar og skoða dýrgripina, sem eru allt frá því á 13. öld.
Frá Árnavörðu var gengið að hlöðnu smalabyrgi austan vörðu norðvestan hennar. Þaðan var gengið til austurs og skoðaðir tveir skútar, Stóri-Skolli og Litli-Skolli, sem þar eru; annar undir hraunhellu og hinn ofan í sæmilegum grashól.

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Báðir þessir skútar hafa verið nefndir til sögunnar er minnst hefur verið hinn sögufræga Bjargarhelli, sem Selvogsbúar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu á nýjan leik. Til þess kom þó ekki og var Bjargarhellir notaður sem fjárhellir. Hellirinn er þarna skammt norðaustan við skútana. Opið er í norðanverðu jarðfalli, sem hlaðið hefur verið um að austanverðu. Hellirinn er vel manngengur, en hann átti að geta vistað um 200 rollur. Ljóst er að svo getur vel hafa verið. Mold er á botni hellisins og miklar mannvistaleifar eru í honum. Hlaðið er fyrir vinstra megin þegar komið er inn, einni framundan og mestar eru hleðslurnar hægra megin.

Bjargarhellir

Gasuppstreymisop í Bjargarhelli.

Hraunrás er upp undir lofti gegnt opinu. Virðist hún liggja eitthvað inn undir hraunið. Í sunnanverðu jarðfallinu er op inn í skúta, sem einnig virðist hafa verið notaður sem fjárskjól. Sá hluti er opinn til endanna.
Þarna norðnorðaustur af er Strandarhellir. Hann er einnig í jarðfalli og sýnum stærri. Opið er einnig í norðanverðu jarðfallinu og umhverfis það að ofanverðu er hlaðið gerði. Hellirinn er einnig með moldargólf og vel manngengur. Í honum eru einnig talsverðar mannvistaleifar.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Sagnir eru um að Strandarhellir hafi átt að ná alllangt inn undir hraunið og svo getur vel verið. Í stað grjóts gætu bændur hafa notað sand til að fylla í op, sem þeir vildu ekki að kindur þeirra leituðu inn í. Rás gæti því hæglega leynst þarna undir einhverjum veggnum.
Norðan Strandarhellis er hóll og umleikis það allstórt hlaðið gerði.
Gengið var til suðvesturs að Gapinu, rúmgóðum fjárhelli. Nafnið er tilkomið vegna þess að þegar komið er að hellinum úr suðri gapir opið við viðkomandi. Fyrir sunnan opið er hlaðinn allstór stekkur, Gapstekkur.

Selvogur - Eima

Landamerki Eimu og Strandar.

Loks var haldið niður í Selvog og litið á merki á klöpp austan við Strandarvör. FERLIRsfélaginn glöggi hafði uppgötvað að þar var klappaður stafurinn “M” og virðist merkið vera mjög gamalt. Það er á mörkum bæjanna Strandar og Eimu. Líklega er ekki langt þangað til að Ægi takist að brjóta klöppina eins og annað þarna við ströndina.
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.