Hwellukofinn

Í Morgunblaðinu 1980 fjallar Tómas Einarsson um  “Gömlu götuna á Hellisheiði“:

Hellisheiði
“Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur Hellisheiði verið fjölförnust allra fjallvega á Íslandi. Það er því vel við hæfi að eyða dagsstund til þess að ganga þessar gömlu götur, sem blasir við sjónum, þegar ekið er yfir heiðina, en svo fáir þekkja af raun. Þegar komið er upp á heiðina nokkru fyrir austan Skíðaskálann í Hveragerði kemur í ljós, vestast á heiðinni, fyrir norðan Stóra-Reykjafell, röð af vörðum, sem liggja í beinni röð austur á bóginn. Þessar vörður fylgja gömlu götunni yfir heiðina. Þeim munum við kynnast betur í ferðinni.
Við ökum austur á Hellisheiðina, allt þar til við erum komin á móts við Hurðarás eða Urðarás eins og stendur á kortinu, förum þar út úr bílnum og fylgjum síðan alla leið vestur í Hellisskarð, sem er fyrir ofan Kolviðarhól, en þann stað þekkja flestir. Á meðan við göngum leiðina, skulum við rifja upp brot af þeirri vitneskju, sem kunn er um þessa leið.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Árið 1703 ritaði Hálfdan Jónsson lögréttumaður að Reykjum Ölfusi grein um Ölfushrepp og þar stendur þetta um Hellisheiði: “Vestan Varmár liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn, á Suðurnes og í Kjalarnesþing, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestari partur er víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna, nema þar sem hestanna járn hafa gjört, og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og víða við veginn, hlaðnar til leiðarvísis”.

Hellisheiði

Gatan um Hellisheiði fyrrum.

Þannig hljóðar þessi lýsing, sem rituð var fyrir 277 árum. Við þræðum nú slóðina meðfram vörðunum. Þær standa margar mjög vel, þrátt fyrir lítið sem ekkert viðhald á þessari öld. Ekki er vitað hver var upphafsmaður að þessari vörðuhleðslu, eða hver hlóð fyrstu vörðuna, en líklega hefur það gerst löngu áður en Hálfdan Jónsson ritaði fyrrnefnda lýsingu.
Er vestar kemur á heiðina minnkar mosinn því þar er hún.. “víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna nema þar sem hestanna járn hafa gjört…”. Þar liggja sönnunargögnin er sýna hversu fjölfarin heiðin hefur verið, því víða sjást djúpar götur markaðar ofan í stálharða klöppina, og eru þær dýpstu allt að ökkla djúpar. Þetta er rannsóknarefni sem forvitnilegt er að skoða. En brátt ber okkur að sérkennilegri byggingu, sem stendur á hæð skammt frá götunni hægra megin. Þetta er hellukofinn, gamla sæluhúsið á heiðinni. Hann ber við loft í skarðinu milli Stórareykjafells og Skarðsmýrarfjalls þegar ekið er eftir þjóðveginum og er til að sjá eins og kúptur, stór steinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Hellukofinn var gerður á árunum milli 1830 og 1840 og stendur skammt þar frá, sem Biskupsvarðan fyrrnefnda stóð. Var grjótið úr vörðunni notað í kofann. Þórður Erlendsson, sem síðar bjó að Tannastöðum í Ölfusi hlóð kofann og ber hann meistara sínum fagurt vitni. Kofinn er ferhyrndur að lögun, 1.85 m á hvern veg og hæðin upp í mæni um 2 m. Hann er einvörðungu byggður úr hraunhellum. Eftir að fullri veggjarhæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið. Eru sömu vinnubrögð viðhöfð og Grænlendingar nota, þegar þeir byggja snjóhús. Efst er stór hraunhella sem lokar opinu. Dyrnar eru um 60 cm á breidd og 1 m á hæð. Til að þétta veggina var mosa troðið í glufurnar. Kofinn stendur nærri 45. vörðu. Talið austanfrá. Hann veitti oft hröktum mönnum skjól og til er rituð frásögn, er greinir frá því að veturinn 1884 hafi gist þar 6 ferðamenn nótt eina í hríðarbil. Er tekið fram að þeim hafi liðið ágætlega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – horft frá Hellisskarði 2010.

Frá Hellukofanum hallar vestur af og innan stundar stöndum við á efstu brún Hellisskarðs (eða Uxaskarðs smbr. Kjalnesingasögu). Þaðan sjáum við heim að Kolviðarhóli. Er þá ekki annað eftir en rölta niður brekkuna ofan úr skarðinu heim að Hólnum. Þar endar þessi gönguferð.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 141. tbl. 26.06.1980. Gamla gatan á Hellisheiði, Tómas Einarsson, bls. 22.
-https://www.fi.is/static/files/gongur/a_slodum_tomas_einarsson/gamla-gatna-yfir-hellisheidi.pdf
Hellisheiði