Strandarsel

Farið var með Guðmundi Þorsteinssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Hellholtið. Þeir eru kunnugir á svæðinu og ætluðu m.a. að benda á hella og tóttir, sem þeir hafa orðið varir við.

Girðingarrétt

Girðingarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var frá Girðingarréttinni niður á holtið, u.þ.b. 10 mínútna gangur. Byrjað var að líta á fjárhelli utan í vestanverðu Hellholtinu og síðan á hellinn Hafra. Varða er ofan við opið, sem horfir mót norðri. Stór og rúmgóður hellir, en fremur stuttur.
Gengið var vestur að Strandarseli (Staðarsel), sem er sunnan við austanverð Svörtubjörg. Á leiðinni var kíkt í nokur göt. Í einu þeirra vex hár burkni er teygir sig móti sól. Er greinilega búinn að vera þarna lengi. Í öðru voru kindarbein. Þarna er greinilega um sömu rásina að ræða er teygir sig til vesturs frá Hellholti. Önnur sambærileg teygir sig til suðurs. Annars virðist Hellholtið hafa vera dyngja eða þunnfljótandi gígop.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel).

Í Strandarseli eru tóttir tveggja selja. Utan í hól eru stekkir og lambakró suðvestan við hann. Samkv. upplýsingum Þórarins á Vogsósum var þarna um fráfærusel að ræða. Það gæti verið skýringin á því sem síðar kom í ljós. Vestar er hraunhóll. Vestan undir honum er hlaðinn stekkur. Enn vestar er op, Hellholtshellir. Þetta er bæði fallegur og merkilegur hellir. Hann er u.þ.b. 70 metra langur og svo alveg heill. Hann hefur ekki verið notaður sem fjárskjól, þótt hann hafi verið ákjósanlegur til þess. Í hellinum eru bæði dropasteinar og hraundrýli, auk hraunstráa. Innst í öðrum enda hans er hlaðin fyrirhleðsla.

Strandarsel

Stekkur í Strandarseli.

Sunnar var komið að hleðslur fyrir hellisopi. Greinilegt er að þar hefur verið hlaðið fyrir opið og síðan gangur niður, en þakið fallið að hluta. Inni er fallegasti hraunhellir, víður og hár. Gólfið er slétt. Vel sést hlaðinn niðurhleðslan. Þetta mannvirki er ekki á örnefnaskrá svo vitað sé. Gæti hafa verið forðabúr Staðarsels eða átt að vera athvarf ef tyrkirnir kæmu aftur. Hver veit? Fallegt að minnsta kosti.
Ofan við opið ert ótt, sem ekki heldur er á örnefnaskrá. Enn austar eru enn tvær tóttir, Sunnan við þær er op á fjárhelli. Innan við það er mikil hleðsla. Við suðurenda hellsins er op og ofan þess enn ein hleðslan. Þar hefur greinilega verið gengið niður í þennan fjárhelli. Þarna eru sem sagt á litlu svæði ein tvö sel og sérstakur hellir, sem vert væri að skoða nánar.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Hvaða seltættur eru þarna um að ræða er ekki vitað. Gætu hafa tilheyrt einhverjum Selvogsbæjanna eða jafnvel hjáleigum Strandarkirkju því skv. landamerkjum virðast þau innan lands Strandar. Eða verið eldri sel Strandar því greinilegt er að þessi tvö sel eru mjög gömul, mun eldri en þau sem ofar eru.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp, auk þess sem GPS-punktar voru teknir á sérhverjum stað. Í fjarlægð virðist heiðin auð og tóm. En í nálægð eru þar minjar við hvert fótmál.

Strandarsel

Strandarsel – uppdráttur ÓSÁ.