Kambar

Steindór Björnsson frá Gröf skrifaði í Tímann 1958 um gamla veginn um Kamba:

Hellisheiðarvegur-221

„Um all-langt árabil, máske aldabil, hefur vegur legið yfir Hellisheiði, en lengst af, allt þar til lagður var akvegur yfir heiðina á síðasta tug 19. aldar, lá hann norðar en nú er yfir heiðina, þar sem snjór var lítið til farartálma. Kom sá, vegur austur af heiðinni- rétt norðan við norðari Kambinn. En Kambar heita 2 hamra-hnúskar í norður af hamrabeltunum í  Núpafjalli. Síðan lá þessi gamli vegur nærri því beint niður Kambabrekkurnar. Akvegurinn var látinn koma fram á norðari Kambinn, — á þeim kambinum stendur nú útsýnisskífa Ferðafélags Íslands —, og síðan lagður í smáum, kröppum krákustíg niður brekkurnar rétt sunnan við gamla veginn. Nú er búið að taka af mestu smáhlykkina ofantil, en við það liggur vegurinn, þegar neðst í efsta sniðinu, norður á Mosana, það heitir hraunhallinn allt frá því skammt norðan við nyrðri kambinn og norður að Hengildalsánni, sem þar fellur austur af fjallinu. Eftir syðstu rönd Mosanna liggur svo vegurinn (þar til hann beygir beint í suður af Ásnum).

Hveragerði

Hveragerði – Hamrinn.

Ásinn er í Ölfusinu (og Hveragerði) kallaður: Hamarinn. Austast undir endanum á Hamrinum voru beitarhús frá Vorsabæ, fyrsta bænum vestan við Varmá. Niðri á lítið eitt bungumynduðum mel neðan við hallann frá fjárhúsunum, var stór hver nokkuð hringmyndaður, en þó ílangur, líkl. um 15—20 x 30 metrar, sporöskjulaga. Vatnið í honum var kyrrt og bláleitt, aðeins komu upp úr því loftbólur öðru hvoru. Vatnið í hvernum hækkaði og lækkaði á víxl með sem næst jöfnu milliibili. Þegar það var hæst, rann austur úr hverum lækur og austur í Varmá, en þegar vatnið lækkaði, þornaði lækurinn. Í hallanum norður af þessum hver, — mig minnir að hann væri kallaður Bláhver, — var eitthvað af litlum hverholum, og dálítið vestur fyrir stóra hverinn, sem sauð og kraumaði í, en ekki man ég til þess að ég sæi þær spýta vatninu upp. Þetta litla hverasvæði hét Hveragerði. Sunnanvert meðfram þessu hverasvæði lá gamli vegurinn yfir lækinn við Blálhver og á vaði yfir Varmá skammt fyrir ofan Reykjafoss. Þaðan um túnið, hlaðið á Reykjum og suður með Reykjafjallinu, rétt ofan við bæjarhúsin í Reykjahjáleigu, og svo áfram austur með fjallinu, alltaf með fjalla-rótunum, því mýrarnar voru ófærar hestum sem vegur.

Hveragerði

Geysir í Hveragerði.

Upp með Varmá í gilinu austan við Hamarinn, var þá, líkt og nú, talsvert af stærri og smærri hveraholum, svo og upp hjá Reykjum (þar sem Litli-Geysir var stærstur og merkastur, þótt lítt sjái fyrir honum nú) og allt inn að Reykjakoti. Á leiðinni til Reykjakots er gosholan Grýta norðan undir austurendanum á Hamrinum. Ekkert af þessum hverum tilheyrðu því svæði, sem þá hét Hveragerði. Þegar menn nú á 3. og 4. tug þessarar aldar fóru að reisa sumarbústaði þarna við jarðhitann og nota sér hveravatnið og gufuna til húsahitunar, voru sumarbústaðirnir sóttir þarna í kringum Bláhver, mest sunnan og austan við hann. Síðan var meira farið að grafa og enn síðar bora eftir meiri hita, eftir því sem byggðin óx og færðist i það að vera fastir bústaðir, þótt byggðin færðist smátt og smátt langt út fyrir takmörk hins upphaflega Hveragerðis, var nafnið teygt út yfir hana.

Hveragerði

Í Kömbum.

Fyrir fáum árum var – þessi nýja byggð klofin út úr Ölfushreppi og gerð að sérstökum hreppi: Hveragerðishreppi. Mun hið litla land, sem hann nær yfir, vera allt tekið úr landi Vorsabæjar (kannske eitthvað lítið eitt, vestast sé frá Yxnalæk mér er ókunnugt um landamerki þeirra bæja), en hvar mörkin eru milli Hveragerðishrepps annars vegar, en Yxnalækjar og Vorsabæjar hins vegar, veit ég ekki. Hitt veit ég, að Varmá skilur Hveragerðishrepp að austan frá Ölfushreppi og að norðan líklegast gömlu landamerkin milli Vorsabæjar og Reykjakots, því að bæirnir Reykir (þar er Garðyrkjuskóli ríkisins), Gufudalur (sem er fárra áratuga gamalt nýbýli úr Reykjakotslandi), og Reykjakot (þar er Menntaskólaselið) eru allir enn í Ölfushreppi — (ekki í Hveragerði). Þær boranir með stóra bornum, sem nú hafa verið framkvæmdar, eru því í Ölfusi en ekki í Hveragerði. Hitt er önnur saga að eðlilegt er að ókunnugir haldi að öll kvosin þarna á milli fjalla, heyri undir Hveragerðishrepp og taki því svona til orða. Skiptingin, sem nú er, er svo aftaka heimskuleg frá landfræðilegu (og landslagslegu) sjónarmiði. – Reykjavík, 23. sept. Steindór Björnsson.”

Heimild:
-Tíminn 2. október 1958, bls. 6 og 8.

Hveragerði

Hveragerði.