Færslur

Hveragerði

Við Varmahlíð í Hveragerði er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

“Íbúðarhúsið Varmahlíð er elsta hús Hveragerðis, reist árið 1929, og markar það, ásamt garðyrkjustöðinni Fagrahvammi sem hóf starfsemi sama ár, upphaf byggðar í Hveragerði.

HveragerðiVarmahlíð var byggð á lóð Mjólkurbús Ölfusinga sem hafði keypt stórt land undir starfsemi sína árið áður. Húsið var upphaflega bárujárnsklætt timburhús, en var síðar múrhúðað að utan. Við byggingu var það rúmir 30 fermetrar að stærð, með forstofu, dagstofu, svefnherbergi og eldhúsi, auk geymslu við norðurgafl.

Varmahlíð var byggð fyrir Guðmund Gottskálksson og fjölskyldu frá Hvoli í Ölfusi sem bjuggu um 30 á í húsinu. Hveragerðishreppur keypti Varmahlíð árið 1961 og hefur sveitarfélagið átt það síðan. Húsið var engst af í útleigu en á árunum 1992-1995 var ráðist í umfangsmiklar endurbætur á húsinu og það fært til upprunalegs horfs, að viðbættu fordyri, og telst í það tæpri 50 fermetrar að stærð. Húsið var jafnframt fært inna á lóðina, en upprunalega stóð það neðar götunni. Frá árinu 1995 hefur Hveragerðisbær boðið erlendum sem innlendum listamönnum að dvelja í húsinu.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Garðahlynur austan Varmahlíðar. Undir hlynum er bekkur til minningar um Margréti Sverrisdóttur er síðust bjó  í Varmahlíð.

Hveragerði

Í Hveragerði eru nokkur minnismerki.

Hveragerði – Blóm í bæ 2010

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Blóm í bæ.

Þessi silfurreynir er gjöf frá Garðyrkjufélagi Íslands til Hveragerðisbæjar í tilefni af 125 ára afmæli félagsins.
Hann er beinn afkomandi elsta trés landsins sem talið er að hafi verið gróðursett 1884 við hús Schierbech landlæknis við Suðurgötu í Reykjavík.

Gunnar Björnsson

“Trjálundur þessi er til minningar um Gunnar Björnsson garðyrkjubónda í Álfafelli 1913-1977”.

Minnismerkið er á steyptum stöpli í Listigarði Hvergerðinga.

Reykjakirkjugarður

Hveragerði

Hveragerði – minnismeri; Reykjakirkjugarður.

Í Hveragerði, neðan við Garðyrkjustöðina, er Reykjakirkjugarður. Garðurinn sá forni hefur nú verið enduvakinn, bæði með málamyndauppgreftri, tilbúnum garðhleðslum, en ekki síst öllu merkilegra skilti á vegg er vísar á nafngiftina. Skiltið má þakka Sesselju Guðmundsdóttur.
Þessara merku minja virðast hvergi getið í vefheimildum.

Gísli Sigurbjörnsson 1907-1994

Gísli Sigurbjörnsson fæddist 29. okt. 1907 í Reykjavík. Hann lést 7. janúar 1994.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Gísli Sigurbjörnsson.

Gísli lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1927. Hann stofnaði Elli- og hjúkrunarheimilið Grund árið 1938 og var forstjóri þess frá stofnun og jafnframt forstjóri Áss í Hveragerði frá 1952. Auk þess að vinna brautryðjendastarf í þágu aldraðra sinnti Gísli mikið íþróttamálum, bindindismálum og ferðamálum alla tíð. Hann var einn af stofnendum Krabbameinsfélags Íslands og formaður Knattspyrnufélagsins Víkings um skeið. Hann gegndi auk þess fjölda trúnaðar- og ábyrgðarstarfa á ýmsum vettvangi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 3. sept. 1995. Hann stendur á lóð Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason myndhöggvari.

Lárus J. Rist (1879-1964)

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Lárus J. Rist.

“Munit, at léð er lýði land fyrir kraft og anda. [M. Joch.]”

Árið 1936 kom Lárus J. Rist sundkennari frá Akureyri til Hveragerðis. Hann hafði stundað nám við lýðháskólann Askov í Danmörku og lokið prófi frá fimleikaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1906. Lárus hafði um árabil unnið við sundkennslu á Akureyri og 6. janúar 1907 vann hann það afrek að synda yfir Eyjafjörð. Lárus gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu. Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins. Lárus tók forystu í sundlaugarnefnd og valdi sundlauginni stað í gilinu fyrir neðan gróðurskálana á Reykjum. Þar seytlaði volgur lækur milli grasigróinna bakka og hjálpaði hann til að grafið var fyrir lauginni á þessum stað.

Í ágústmánuði árið 1959 var afhjúpaður minnisvarði um Lárus J. Rist í Laugaskarði í tilefni áttræðisafmæli hans. Þetta var brjóstmynd gerð af listamanninum Ríkharði Jónssyni.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Elna og Unnsteinn.

Það var hátíðarblær yfir staðnum þennan dag og hundrað börn og unglingar steyptu sér til sunds í laugina. Jóhannes úr Kötlum flutti frumsamið kvæði að fornum hætti. Gunnar Benediktsson rithöfundur las kvæði Matthíasar Jochumssonar í tilefni af Eyjarfjarðarsundi Lárusar árið 1907.

Brjóstmyndin er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Elna Ólafsson (1912-1998) – Unnsteinn Ólafsson (1913-1966)

“Hjónin Elna Ólafsson og Unnsteinn Ólafsson skólastjóri 1939-1966”.

Unnsteinn var skólastjóri Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.
Nemendur og vinir reistu honum þennan minnisvarða sem stendur í Unnsteinslundi ofan við Garðyrkjuskólann. Helgi Gíslason myndhöggvari gerði minnisvarðann.

Unnsteinslundur

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Unnsteinslundur.

Árið 1943 átti Unnsteinn Ólafsson skólastjóri frumkvæði að gerð grasagarðs hér í hlíðinni, sem nú er við hann kenndur.

Á sumardaginn fyrsta 1998
Garðyrkjuskóli ríkisins

Jóns Kristjánsson
Minnisvarðinn er við Náttúrulækningafélagið í Hveragerði.

Garðahlynur

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Garðahlynur.

Við Varmahlíð er hlynur. Við hann er skilti: “Garðahlynur”.
Undir honum er bekkur. Á bekknum er skilti: “Margrét Sverrisdóttir – Greta, 7.12.1942-3.4.2021. Minningin lifir”.

Minningabekkur gegnt Reykjafossi, norðan árinnar.
“Njótum útsýnis og kyrrðar. Blessuð sé minning hjónanna í Laugaskarði, Hjartar og Margrétar. Bekkurinn er gjöf frá börnum og tengdabörnum”.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Hjörtur og Margrét.

Konungsvegurinn

Í fornleifaskráningu Kristins Magnússonar frá árinu 2008 er m.a. fjallað um Eiríksbrú; vegagerð um Hellisheiði fyrir 1880:

Kambar

Núverandi vegur um Kamba.

“Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.

Hellisheiðarvegur

Eiríksvegur ofan Hveragerðis.

Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.”

Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkrum stöðum á heiðinni og í Kömbum. Kafli vegarins sem varðveittur er á háheiðinni.

Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Hveragerði

Eiríksvegur ofan Hveragerðis – lagður um 1880.

Enn eru varðveittir kaflar af þessum vegi. Einna heillegasti kaflinn er neðan við Kambana í landi Hveragerðis. Verndargildi vegarins felst ekki hvað minnst í því að hann er sennilega með fyrstu vegum á Íslandi sem byggður er samkvæmt forskrift en í reglugerð sem gefin var út um veginn var sagt að hann skyldi vera 10 feta breiður, upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Þannig er hann einmitt gerður á þeim stöðum þar sem enn má sjá leifar hans.

“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn.

Eiríksvegur

Eiríksvegur ofan Hveragerðis 2009.

Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].”

“Frá stóru vörðunni á Efra-Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum Gíghól…

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leiðin.

Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum…

Eiríksvegur

Hestakjól við Eiríksveg á sunnanverði Hellisheiði.

Síðan lá leiðin eftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.”
“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, [b. 1877-78], lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur… .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjóta tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.

Kambar

Kambar – vegir og leiðir frá mismunandi tímum.

Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur…

Svínahraun

Vagnvegurinn um Svínahraun.

Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagður á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim… . Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni.”

Eftirfarandi ábending kom við deiliskipulag Hveragerðisbæjar vegna skipulags byggðar í Kambalandi:
“Það eru ekki allir sem vita að Hveragerði hefur verið í þjóðleið frá því að land byggðist, þó að þéttbýli hér sé ekki eldra en 90 ára.

Svínahraun

Forna gatan um Svínahraun.

Vestast í sveitarfélaginu, undir Kömbunum, er að finna leifar af þremur kynslóðum af þjóðvegum. Með þeim þjóðvegi sem nú liggur um Kamba er því að finna á litlu svæði fjórar kynslóðir af þjóðvegum allt frá landnámi. Mér finnst mikilvægt að við höldum þessum minjum til haga og skipuleggjum byggðina í Kambalandi þannig að sýnishorn þessara þjóðvega fái að njóta sín og vera hluti af skipulaginu. Samkvæmt núverandi skipulagi er aðeins gert ráð fyrir að mjög lítill hluti þessara minja verði varðveittar.

Kambar

Mynd; skipulag – “Hér fyrir neðan er mynd af skipulagi Kambalands þar sem ég er búinn að merkja inn þessar mannvistarleifar, nr. 1-3 og svo eru ljósmyndir af minjunum, sem sjást kannski ekki mjög vel í dag þar sem mosinn hefur náð yfirhöndinni víða.”

Meðfylgjandi voru eftirfarandi fróðleikur með vísan til merkinga á uppdrættinum:
Nr. 1: Gamla þjóðleiðin frá landnámi til um 1880. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má. Gamla þjóðleiðin liggur niður í Ljóðalaut. Á brotalínunni á skipulagsteikningunni má sjá m.a. hvar þjóðleiðin liggur, m.a. við lóðir næst Ljóðalaut og aðrar lóðir sem munu skera þjóðleiðina í sundur.

Nr. 2: Um 1880 var lagður vegur yfir Svínahraun og Hellisheiði og niður Kamba. Vegavinnustjóri var Eiríkur Ásmundsson í Grjóta og hefur vegurinn verið kenndur við hann, ýmist nefndur Eiríksvegur eða Eiríksbrú.

Kambar

Eiríksvegur frá því um 1880 ofan Hveragerðis.

Vegurinn var steinlagður og einkenni hans var að hann var lagður þráðbeinn yfir hæðir og lautir. Í Kömbunum gat vegurinn því orðið nokkuð brattur. Vegna þessa og að sjaldan var borið í hann var vegurinn sjaldan notaður. Nýr Kambavegur var svo lagður árin 1895-1896. Enn sést móta fyrir Eiríksvegi fyrir ofan byggðina í Hveragerði þó að mosi hylji nú þennan gamla veg. Á brotalínu á skipulagsteikningunni má sjá hvar Eiríksvegur liggur efst uppi við Kambaveg. En Eiríksvegur liggur í raun nánast alveg að byggðinni við Borgarhraun/Kjarrheiði en skipulagið gerir ráð fyrir að hann hverfi alveg undir lóðir og götur.

Kambar

Vegurinn um Kamba 1906.

Nr. 3. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði og niður Kamba árin 1895-1896 og var sá vegur í notkun allt til ársins 1972 þegar núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun. Gamli Kambavegurinn er nú vinsæl gönguleið. Gert er ráð fyrir því í skipulagi Kambalands að vegurinn verði ein af stofnbrautum hverfisins og má þannig segja að hann haldi sínu hlutverki.

Við athugun kom í ljós að engar opinberar fornleifaskráningar hafa verið gerðar um framangreinda vegi og leiðir um Kambana fyrrum.

Kambar

Forna þjóðleiðin frá landnámi til um 1880 um Kamba ofan Hveragerðis.

Á vefsíðu um söguferðir í Hveragerði segir um Eiríksveg:
“Um 1880 var lagður vegur yfir Svínahraun og Hellisheiði og niður Kamba. Vegavinnustjóri var Eiríkur Ásmundsson í Grjóta og hefur vegurinn verið kenndur við hann, ýmist nefndur Eiríksvegur eða Eiríksbrú. Vegurinn var steinlagður og einkenni hans var að hann var lagður þráðbeinn yfir hæðir og lautir. Í Kömbunum gat vegurinn því orðið nokkuð brattur. Vegna þessa og að sjaldan var borið í hann var vegurinn sjaldan notaður. Nýr Kambavegur var svo lagður árin 1895-1896. Enn sést móta fyrir Eiríksvegi fyrir ofan byggðina í Hveragerði þó að mosi hylji nú þennan gamla veg.”

Eiríksvegur

Eiríksvegur ofan Vatnsleysu á Vatnsleysutrönd.

Annar Eiríksvegur er ofan Vatnsleysustrandar: “Eiríksvegur liggur frá Akurgerðisbökkum upp í Flekkuvíkurheiði, áleiðis að Þrívörðuhól. Um er að ræða sýnishorn af vegagerð fyrri tíma.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í EiríksvegurReykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.”

Heimildir m.a.:
-Hengill og umhverfi, fornleifaskráning, Kristinn Magnússon – 2008.
-https://krumminn.is/kambaland-og-thjodvegir-fra-landnami/
-https://www.facebook.com/508916472581521/posts/1510638752409283/

Kambar

Gamli Kambavegurinn sem var lagður um 1895-1896.

Ölkelda

Gengið var af Ölkelduhálsi, sunnan Ölkelduhnúks, niður um Klambragil í Reykjadal, komið við í Dalaseli og dalurinn síðan rakinn um hlíðar og gil (Djúpagil) niður með Rjúpnabrekkum til Hveragerðis (að Varmá í Ölfusdal).
Komið niður í Reykjadal við KlambragilUm er að ræða einstaklega fallegt umhverfi. Spáð hafði verið rigningu á göngutímanum, en henni hafði verið flýtt. Samt sem áður var umhverfið sveipað ákveðinni dulúð svo ná mátti fram hinum fjölbreytilegu blæbrigðum þess. Annars réði sólin heiðríkjum í þessari ferð eins og í öðrum.
Gengið var um sunnanverðan Ölkelduháls og niður í ofanverðan Reykjadal. Dalurinn sem og aðliggjandi dalir hafa einnig gjarnan verið nefndir einu nafni Reykjadalir. Gatan liggur aflíðandi niður skriður. Efst í inndalnum er háhitasvæði og ber umhverfið þess merki. Víða eru fjölskrúðugar litmyndanir og hvæsandi hverir. Klambragil er efst í inndalnum, hátt og tilkomumikið.
Um 3 km gangur er frá Ölkelduhnjúk niður að dalsmynninu ofan Hveragerðis. Gönguleiðin er stikuð og fylgja rauðar Litskrúð hverasvæðanna í Reykjadalvegstikur þessari gönguleið. Leiðin hefur verið skilgreind sem stutt og fremur auðveld.
Neðan inndalsins liðast heitavatnslækur. Skammt neðan hans er litskrúðugt hverasvæði utan í lækjarbakkanum.
Skáli Orkuveitunnar í Dalaseli. Hann ávallt opinn fyrir göngufólk, allt árið í kring. Í skálanum eru kojur, gönguleiðakort, sjúkrakassi ásamt öðrum neyðarbúnaði. Gestabók er í skálanum. Af henni að dæma er talsvert um göngufólk á svæðinu, bæði Íslendinga og útlendinga. Þennan dag mátti t.a.m. sjá nokkra hópa vera að ganga upp dalinn frá Hveragerði.
Eins og fyrr sagði þá skiptist gönguleiðin í nokkrar aðrar gönguleiðir sunnan meginn við Ölkelduhnjúk. Gönguleið liggur í austur frá skálanum í átt að Klóarfjalli og að Álútri ( ca. 4.6 km leið ) og önnur ofan með Kattartjörnum og niður Tindagil (7.6 km). Klóarvegur er gömul þjóðleið sem liggur milli Ölfuss og Grafnings. Gönguleið liggur í vestur í átt að Sleggjubeinsdal. Sú leið liggur Baðaðstaða í Reykjadalsáum Brúnkollubletti, Miðdal, Hengladal, og svo um Innstadal. Þetta er um 11 km leið að vegvísi sem er staðsettur í Innstadal. Heitir hverir og ár eru þarna víðs vegar á gönguleiðinni. Hægt er að baða sig í heitum pyttum á leiðinni (í Reykjadalsá). Í ánni hefur á nokkrum stöðum verið hlaðið fyrir lækinn og þannig búnir til hyljir til baðtækifæra.
Gönguleið liggur í kringum Ölkelduhnjúk og hægt er að velja leið sem liggur í vestur og austur um Hnjúkinn. Gönguleið liggur í kringum Ölkelduhnjúk og hægt er að velja leið sem liggur í vestur og svo austur um Hnjúkinn. Ef gengið er í norður frá Ölkelduhnjúk er hægt að ganga í átt að Þingvallavatni, komið er að upplýsingaskilti við Ölfusvatn. Ölfusvatn er um 10 til 11 km frá Ölkelduhnjúk, gera má ráð fyrir um að sú ganga taki um 4-5 klst. Öll  gangan þ.e. frá Rjúpnabrekkum og alla leið að Ölfusvatni, má gera ráð fyrir að sú ganga taki um 6 til 7 klst en leiðin er um það bil 16 km löng.
FálkakletturÁ göngunni bar margt fyrir augu, s.s. Fálkaklettur ofarlega í Reykjadal og litskrúð þverdalanna. Í hlíðum eru bæði bullandi gufuhverir og grámallandi leirhverir.
Þegar komið var áleiðis niður í ofanverðar Rjúpnabrekkur blasti Reykjadalsfoss við í allri sinni dýrð. Grændalur og Reykjadalur liggja upp af Hveragerði, austan Reykjadals. Grændalur sem er næst ósnortinn lokast til norðurs og er Ölkelduháls norðvestan hans. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup. Á svæðinu eru góðar opnur sem eru mikilvægar til rannsókna og fræðslu.
Einkennandi eru lækjarsitrur sem seitla niður hlíðar Reykjadals. Þær eru sérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja um lífríki hveranna. Víða má sjá gróður á botninum, sem er einkennandi fyrir hveralækjasvæðin.
Neðst hefur trébrú verið lögð yfir ánna sem hægt er að ganga yfir. Innan við hana er upplýsingarskilti í Rjúpnabrekkum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Reykjadalur

Reykjadalur

Þann 23. júní 2014 var afhjúpað upplýsingaskilti um náttúru Reykjadals sem sett var upp við Rjúpnabrekkur inn í Ölfusdal ofan við Hveragerði. Skiltið var unnið af Landvernd í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðafélag Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, Safe Travel, Hveragerðisbæ, Sveitarfélagið Ölfus, Ferðafélag Íslands, Eldhesta og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi.  Á upplýsingaskiltinu má lesa eftirfarandi fróðleik:

Jarðhiti

Reykjadalur

Reykjadalur – afhjúpun skiltisins 2014.

Jarðhiti í Reykjadal og Hveragerði er í rótum útkulnaðrar eldstöðvar sem var virk fyrir um 120.000 árum í rekbeltinu á svipuðum slóðum og Hengill er í dag. Eldstöðina hefur rekið til austurs frá miðju rekbeltisins og jöklar hafa sorfið hana niður. Eldstöðinni fylgir sprungu- og eldstöðvakerfi sem nær frá sjó í Selvogi, norðaustur um Hengilssvæðið um Nesjavelli til Þingvalla. Á stærstum hluta Hengilssvæðisins er að finna móberg og móbergsset frá ísöld en einnig basalthraun sem runnu eftir að henni lauk.

Reykjadalur

Reykjadalur – jarðhiti.

Jarðhiti á svæðinu einkennist af leirugum vatnshverum og kolsýruhverum og víða eru merki um aukna virkni í seinni tíð. Í Klambragili eru fjölmargir kolsýruhverir og laugar með miklu rennsli, sem gefa megnið af hita Reykjadalsár. Mörg þessara fyrirbæra njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Náttúrufar

Reykjadalur

Reykjadalur – laug.

Jarðhitinn hefur víða áhrif á gróður svæðisins og felst sérkenni hveragróðurs einkum í gróskumiklum votlendissamfélögum við heita læki og laugar og moslendi þar sem þurrara er. Ýmsar hitakærar tegundir jurta vaxa á svæðinu og má þar nefna laugadeplu (Veronica anagallisaquatica) og naðurtungu (Ophioglossum azoricum). Báðar þessar jurtir eiga undir högg að sækja og eru því á válista háplantna. Ennfremur finnast ýmsar hitakærar tegundir mosa og smádýra, sumar hverjar á válista. Litríkar og fjölbreyttar hveraörverur setja svip sinn á svæðið. Þær flokkast sem bakteríur og fornbakteríur og eru margar afar fágætar.

Hverafuglar og aðrar sögur

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Reykjadalur hefur löngum verið nýttur til beitar og vegna jarðhitans gat fé gengið þar lengur að grænum gróðri en annarsstaðar.
Í þjóðsögum er getið um svokallaða „hverafugla“ í hverum á Ölkelduhálsi og Hagavíkurlaugum. Þeir voru sagðir litlir vexti, dökkleitir og taldir synda í bullandi hverum. Sagt var að ekki þýddi að sjóða þá en ef þeir væru látnir í kalt vatn bragðist þeir sem soðnir væru.
Þá segir í Landnámabók að Ingólfur Arnarson landnámsmaður hafi búið hin síðustu ár ævi sinnar á Reykjum í Ölfusi, þá blindur orðinn.

Verndum viðkvæma náttúru Reykjadals

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Reykjadalur er einn fjölsóttasti náttúrulegi baðstaður landsins í afar fögru og friðsælu umhverfi. Það einkennir Reykjadal, líkt og önnur jarðhitasvæði, hve viðkvæmt svæðið er fyrir átroðningi og umferð.
Setjum vernd svæðisins ávallt í fyrsta sæti, fylgjum merktum stígum og hverfum frá ef aðstæður, t.d. árstími eða tíðarfar, leyfa ekki umferð. Þannig getum við og komandi kynslóðir áfram notið þessa einstaka svæðis. Njótið svæðisins!
Reykjadalur

Reykjadalur – Upplýsingaskilti.

 

Hveragerði

“Hveragerði er í austurjaðri gosbeltis sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og norður Langjökul. Gosbeltið er framhald Mið-Atlantshafshryggjarins sem þarna gengur á land.

manndrapshver

Manndrápshver.

Annað gosbelti liggur síðan frá Vestmannaeyjum um Vatnajökul og norður í Öxarfjörð. Í gosbeltunum er mikil framleiðsla á kviku sem kemur upp í eldgosum eða storknar neðanjarðar og myndar hitagjafa jarðhitasvæðanna. Eitt slíkra jarðhitasvæða er kennt við Hengil og er Hveragerði í eldri hluta þess. Hin mikla jarðhitavirkni þar er þannig nátengd reki meginlanda og eldsumbrotum.
Jarðhitasvæðum á Íslandi er skipt í háhita- og lághitasvæði eftir uppruna og hitastigi. Hiti í háhitasvæðum er yfir 200ºC á eins km dýpi og er Hengill eitt þeirra. Jarðskjálftar eru eitt af einkennum jarðhitasvæða. Þeir viðhalda brotum og glufum í berginu sem auk lekra jarðlaga gera vatni kleift að renna niður í jarðhitakerfin og upp aftur. Það er því algengt að í jarðskjálftum breytist jarðhitasvæði, hverir hverfi og nýir komi í staðinn. Jarðhitasvæðin eru þannig síbreytileg. Staða grunnvatns hefur einnig mikil áhrif á útlit hveranna, í þurrkum lækkar vatnsborð og gufuhverum fjölgar, en í rigningartíð breytast gufuaugu í vatns- eða leirhveri. Háhitasvæðið í Hengli er ævagamalt, að öllum líkindum nokkur hundruð þúsund ára, og er elsti hluti þess í Hveragerði. Þar var hverasvæðið löngum farartálmi og til lítilla nota þótt alltaf þætti ferðamönnum það forvitnilegt. Einkum fannst þeim mikið til um goshverina, Litla-Geysi sem nú er horfinn og Grýlu sem enn skvettir úr sér.

gryla

Hverinn Grýla.

Jarðhiti í Hveragerði var fyrst nýttur í einhverjum mæli við Mjólkurbú Ölfusinga um 1930. Árið 1940 var fyrsta jarðhitaholan boruð og gufan leidd í gróðurhúsið í Fagrahvammi. Þessi hola var 54 m djúp og er nú löngu horfin. Með henni var framtíð bæjarins ráðin því gróðurhúsabyggð óx smám saman og garðrækt varð einn af aðalatvinnuvegum bæjarins.
Gufan sem notuð var í Mjólkurbú Ölfusinga kom úr kraftmiklum gufuhver, Bakkahver. Hann er nú rólyndislegur og stendur enn pýramídalagað þak yfir honum, þaðan sem gufuleiðslan lá.
Nafnfrægastur hveranna á girta svæðinu er Manndrápshver, en í hann féll maður árið 1906 og lést. Varð það til þess að götulýsing var sett upp í Hveragerði, sú fyrsta á landinu. Gróuhver heitir eftir nágranna hversins. Bláhver er nefndur eftir lit vatnsins og var áður mun kraftmeiri. Ruslahver (Önnuhver) hafði um árabil verið notaður sem ruslagryfja og dregur nafn sitt af því að hann lifnaði við í jarðskjálfta 1947 og þeytti öllu ruslinu úr sér. Annar hver sem nýlega hefur stækkað er Dynkur, en hann var lítið gufuauga 1991 og er nú orðinn að snotrum leirhver.
Fyrir utan að vera náttúruundur er hverasvæðið í Hveragerði virkjað fyrir hitaveitu bæjarins. Nú eru nýttar tvær holur, hola HS-02 boruð 1959 í 311 m og HS-08 boruð 1988 niður í 254 m. Jarðhitinn er einkum virkjaður til hitunar íbúðarhúsnæðis og gróðurhúsa og í sundlaugar bæjarins. Vegna hins öfluga jarðhita er Garðyrkjuskóli ríkisins staðsettur í nágrenni Hveragerðis.”

Heimild:
-http://www.hveragerdi.is/Ferdamenn/Ahugaverdir_stadir/Hverasvaedid_i_midbaenum/

Hveragerði

Hveragerði – hverasvæði.

Ölfusrétt

Í Bændablaðinu 2016 segir Ólafur R. Dýrmundsson frá Ölfusréttum:

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur R. Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

“Það þykir gjarnan fréttnæmt þegar ný og vönduð mannvirki eru tekin í notkun, ekki síst lögréttir sveitarfélaga, svo sem öðru hvoru er greint frá hér í Bændablaðinu og öðrum fjölmiðlum.

Gamlir siðir og hefðir
Íslenska fjallskilakerfið sem felur í sér nýtingu víðáttumikilla sumarbeitilanda, göngur og réttir á haustin og notkun eyrnamarka fyrir allt sauðfé, er eitt af því fáa sem lítið hefur breyst frá upphafi byggðar í landinu. Allt er þetta hluti af menningararfinum. Sömuleiðis sauðkindin sjálf sem þekkt er fyrir mikla erfðafjölbreytni, svo sem í litum, fyrir verðmætar afurðir, og síðast en ekki síst, fyrir veigamikið hlutverk í viðhaldi búsetu og mannlífs þjóðarinnar um aldir.
Það er í sjálfu sér verðugt verkefni að skoða til dæmis hvar og hvernig réttir voru reistar um land allt, allt frá litlum sundurdráttarréttum heima við bæi til stórra lögskilarétta sveitarfélaga í samræmi við ákvæði afréttarlaga og fjallskilasamþykkta á hverjum tíma. Enn er þessum gömlu siðum og hefðum haldið við, að mestu óbreyttum, en þó í takti við nýja tíma.

Ölfusið var fjármargt

Hvammur

Hvammur – gamli bærinn.

Sveitarfélagið Ölfus, sem var myndað við sameiningu Ölfus- og Selvogshreppa 1988, hafði innan sinna marka Grafning allt til 1785 og höfðu sveitirnar sameiginlegar lögréttir allt til 1910 þegar Selflatarétt í landi Úlfljótsvatns var vígð. Hún gegnir enn hlutverki sínu og er ein af elstu réttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.
Um langt skeið á meðan réttarhaldið var enn sameiginlegt með Ölfusi og Grafningi, eða allt til 1845, stóðu Ölfusréttir skammt fyrir austan bæinn Hvamm, vestan við innanvert Ingólfsfjall. Í fornöld er talið að Ölfusingar og Suðurnesjamenn hafi réttað sameiginlega við Orrustuhól á Hellisheiði.

Selflatarétt

Selflatarétt – loftmynd.

Hin víðáttumiklu og góðu engjalönd í Ölfusinu tryggðu heyskap í öllum árum, einnig fyrir bændur úr öðrum sveitum. Þar var því löngum fjármargt og vetrarbeit nýttist einnig vel.
Síðustu áratugina hafa þó orðið miklar breytingar á fjárbúskapnum. Þannig var ásett sauðfé í Ölfusi og Selvogi samtals 8.200 kindur haustið 1965, 7.000 haustið 1982, fækkaði hratt á þeim áratug niður í 4.750 haustið 1989 en um árabil hefur fjártalan í sveitarfélaginu Ölfusi verið tæplega 2.000 vetrarfóðraðar kindur. Fjárbúum fækkaði einnig fyrir og um aldamótin en fjöldi þeirra hefur haldist svipaður í seinni tíð.
Þess ber að geta að fyrir 50 árum voru rúmlega 500 vetrarfóðraðar kindur í Hveragerði sem gengu með Ölfusfénu í afrétti en þar er nú fjárlaust.

Lögréttir í Ölfusi og Selvogi

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – loftmynd.

Rétt er að geta þess að í Sveitarfélaginu Ölfusi eru tvennar lögréttir, annars vegar Selvogsrétt sem lengi hefur staðið við Hlíðarvatn og Ölfusrétt sem nánar verður greint frá hér á eftir.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt neðan Kolviðarhóls.

Sundurdráttarrétt fyrir norðurhluta sveitarfélagsins er og hefur lengi verið við Húsmúla á Hvannavöllum vestur af Kolviðarhóli en þangað var hún flutt frá Draugatjörn nokkru neðar 1967 og endurbyggð 2006. Þar kemur margt Ölfusfé fyrir eftir fyrri gangnadaginn, vestan Hengils, auk fjár frá nærliggjandi sveitarfélögum, einkum úr Reykjavík og Þingvallasveit. Þá kemur töluvert af fé úr Ölfusi fyrir í útréttum, einkum í Selflatarétt í Grafningi og Fossvallarétt í Kópavogi.
Féð úr þeim hluta Ingólfsfjalls sem ekki er beitarfriðaður er rekið að og dregið sundur í Hvammi. Leitir eru tvennar með tveggja vikna millibili, að mestu leyti á hestum, og síðan er farið í eftirleitir eftir þörfum. Í Ölfusrétt er réttað í lok seinni gangnadagsins.

Nýja Ölfusréttin

Ölfusrétt

Ölfusrétt við Hveragerði – loftmynd 1954.  Nú horfin.

Svo sem áður var vikið að stóð lögrétt fyrir Ölfus í Hvammi fram undir miðja 19. öld þegar hún var flutt vestur í Hveragerði. Sú rétt, stór og hlaðin úr hraungrýti, stóð sunnan við gamla Suðurlandsveginn, skammt frá býlinu Hraunbæ, nokkurn veginn þar sem Hótel Örk stendur.

Ölfus

Í Tímanum 1980 er frétt; “Samþykkt að rífa ekki réttirnar – Fyrir nokkru var skrifað um gamlar réttir sem standa fyrir utan bæinn og af þvi máli er helst það að frétta að hreppsnefndin samþykkti nýlega að ekki skyldi rifa þær að sinni, enda eru þær sögulegt mannvirki eins og Sigurður Pálsson komst að orði. Sagðist hann mikla eftirsjá í réttunum frá því þegar réttað var, en nú er búið að reisa fullkomnari réttir í Ölfusinu. Nú kemur helst til greina að einhver félagasamtök taki málið í sínar hendur og kæmi e.t.v. helst í hlut Náttúruverndarráðs Suðurlands, sem hefur aðsetur á Selfossi, að það tæki af skarið og setti nefnd í málið. Sem fyrr segir er kjörið að sá í dilkana og gera gróðurreiti og eins er hægt að koma upp aðstöðu fyrirferðamenn, tjaldstæðum eða því um líku, nema hvort tveggja væri.”

Mörgum er sú rétt enn minnisstæð og mér vissulega því að ég kom fyrst þangað sem einn skilamanna fyrir Kópavog, Seltjarnarnes og Reykjavík um miðjan 6. áratug liðinnar aldar, rétt tvítugur en þó búinn að stunda fjárbúskap í Reykjavík frá fermingaraldri.

Núparétt

Núparétt – loftmynd.

Mér eru enn minnisstæðir ýmsir bændur þess tíma úr Ölfusi og Grafningi sem þar voru, sumir fjármargir. Ýmsum þeirra átti ég eftir að kynnast síðar. Hvergi hef ég fyrr né síðar séð jafn marga ómerkinga í haustrétt.
Næsta Ölfusrétt var byggð töluvert sunnar, niður undir Núpum, vönduð hringrétt með steyptum undirstöðum og timburklæðningu á stálrörum, vígð haustið 1977. Þangað var ánægjulegt að koma sem skilamaður um áratuga skeið. Eftir að girt var norðan Suðurlandsvegar um og uppúr aldamótunum, og landið sunnan hans var beitarfriðað, lokuðust hefðbundnar rekstrarleiðir til réttarinnar. Einnig var hún farin að láta á sjá. Því var ákveðið að byggja nýja Ölfusrétt norðan við Kamba, við mynni Reykjadals þar sem gott er að reka að í lok seinni gangnadags.
Á þessum stað hafði fé reyndar verið rekið saman um árabil og hægt var að nota safngirðinguna með minni háttar breytingum.

Reykjadalsrétt

Ölfusréttin neðan Reykjadals – loftmynd.

Nýja réttin var smíðuð frá grunni úr timbri í fögrum hvammi vinstra megin við hinn vinsæla göngustíg og reiðleið inn í Reykjadal sem tugir þúsundir ferðamanna fara um á öllum árstímum. Hún var vígð í haust, nánar tiltekið sunnudaginn 18. september 2016, í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölmenni, þar með erlendum ferðamönnum á leið upp í dalinn. Þar var einnig dregið í sundur útréttafé og seinni rétt var hálfum mánuði síðar. Áætlað er að þarna hafi komið til réttar um 1.000 kindur í haust. Reyndist nýja réttin vel í alla staði.
Um er að ræða hringrétt með 18 dilkum af ýmsum stærðum auk tveggja upprekstrardilka með stillanlegum upprekstrargöngum fyrir flutningatæki af ýmsu tagi því að allt fé er bílflutt úr réttinni. Bílastæði eru mjög rúm og aðkoma með flutningatæki góð að öðru leyti en því að fara þarf á vaði yfir Hengladalaá sem aðeins er brúuð með göngubrú.

Gleði og góð stemning
Við vígsluathöfnina fluttu ávörp þeir Halldór Guðmundsson, réttarstjóri og fjárbóndi í Hvammi, Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, og Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss. Halldór greindi í stuttu máli frá breytingum í réttahaldi í Ölfusi undanfarna áratugi og minntist þess þegar hann fór drengur í sínar fyrstu göngur haustið 1953. Þá var féð mjög fátt eftir fjárskipti til útrýmingar mæðiveiki og fleiri sauðfjársjúkdómum. Gunnsteinn benti m.a. á menningarlegt gildi sauðfjárbúskaparins í sveitarfélaginu og það verðmæta tækifæri sem þéttbýlisbörn o.fl. fengju til að kynnast réttastörfunum á haustin.

Barnvæn rétt
Ölfusrétt
Nýja Ölfusréttin er nokkuð sérstæð. Auk þess að vera þægileg við innrekstur og til sundurdráttar er hún mjög aðgengileg gestum og gangandi. Það á ekki síst við um börnin sem eiga greiða leið að almenningnum, jafnvel án þess að fara inn í hann, því að engir dilkar eru þar sem fólk kemur að réttinni. Þá er utan með réttinni gangur sem kemur sér mjög vel, sérstaklega þegar verið er að reka fé úr dilkum að upprekstrargöngunum. Allir dilkar eru vel merktir með bæjaheitum og bæjanúmerum.” – Dr. Ólafur R. Dýrmundsson

Heimild:
-Bændablaðið, 24. tbl. 15.12.2016, Ölfusréttir – Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 42.
-Tíminn-Byggða-Tíminn 10.09.1980, Samþykkt að rífa ekki réttirnar, bls. 2.

Ölfusrétt

Ölfusrétt við Hveragerði – horfin. Uppdráttur ÓSÁ eftir loftmynd 1954.

Krosssel

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er, auk selja frá Reykjum og Vorsabæ, getið um selstöður frá Völlum og Krossi, hvorutveggja hjáleigur frá Reykjum.
MulagataÍ Jarðabókinni segir um selstöðu frá Völlum: “Selstaða er í betra lagi til fjalls í Reykjalandi, en hefur í nokkur ár ei brúkast”.
Um selstöðuna frá Krossi segir: “Selstaða hefur brúkuð verið í heimajarðarinnar landi, er enn nú til gagnleg, þó ei hafi í nokkur ár brúkast”.
Örnefni eru til upp undir fjalli, Múlanum, beint upp af bæjunum,s.s.
Kross-stekkatún, Kross-stekkur, Vallaá, Vallagil og Stekkhóll (Stekkjahóll / Stekkshóll). Um og neðan undir hólunum, sem eru þrír, lá Múlagatan og sést hún enn greinilega. Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði
á Hérðasskjalasafni Árnesinga. “Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.”

Stekkholl-1

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili, á Kross-stekkatúni, eru aflangar þústir er gætu verið leifar mannvirkja. Líklegt má telja að annað hvort báðar eða önnur hafi að geyma leifar fornrar selstöðu frá Völlum. Ekki vottar fyrir veggjum eða öðru í þústunum. Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Kross-stekkjatún, sem fyrr sagði. “Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.”
Þegar framangreindar tóftir voru skoðaðar má krosssel-2telja líklegast að þarna hafi Krossselstaðan verið. “Stekkurinn” hefur í raun verið síðasta selshúsið í selstöðunni, þ.e. skjól fyrir selsmatseljuna, og “garðlagið” aftan hennar hefur greinilega verið stekkur, sem tóftin dregur nú nafn sitt af. Um er að æða óvenjulegt sel á Reykjanesskaganum að því leyti að einungis er um eitt viðverurými að ræða en ekki þrjú eins og venja er. Skýringin getur auðveldlega verið sú að svo stutt er heim til bæjar, einugis um stundarfjórðungs gangur, að óþarfi hafi verið að byggja fullgilt sel á staðnum, enda er selstaðan bæði með afbrigðum skjólsæl fyrir rigningaráttinni þar sem hún kúrir undir klettunum og gnægt vatn hefur verið að fá úr læknum. Á meðfylgjandi mynd, sem tekin er ofan af klettunum má vel sjá stekkkinn og litla tóftina við enda hans vinstra megin. Mun líklegra er að þarna hafi verið selstaða frá Krossi, enda gefur örnefnið “Kross-stekkur” tilefni til að ætla að svo hafi verið, þrátt fyrir að hún liggi við Vallaá (reyndar austan við hana).

Vallasel-2

Vallsel – uppdráttur ÓSÁ.

Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3m x 5,7m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.” Þarna hefur líklega verið stekkur fyrrum frá eldri seltóftunum á Kross-stekkatúni, sem fyrr er getið.
Skammt vestar er Stekkhóll. Á honum eru leifar stekks undir brotabergskletti (allir klettar í hólunum eru sambland af móbergi og brotabergi). Af ummerkjum að dæma gæti efri hluti hans hafa þjónað sama hlutverki og tóftin í Krossseli, þ.e. verið skjól fyrir selsmatsseljuna. Ástæðulaust hefur verið að að byggja þarna fullgilt sel því vegalengdin frá því heim að bæ er sú sama og frá Krossseli. Líklegt má telja að selsmatsseljan hafi ekki hafst við í selstöðunni nema yfir dagmálstímann, en smalinn haft aðstöðu þar um náttmál. Vatn er stutt að sækja í Vallaána. Miðað við heilleika Krosssselsins má ætla að selstaðan hafi ekki lagst af fyrr en um aldamótin 1900 og þá hafa áður verið samnýtt með Völlum um nokkurn tíma.
Gengið var um svæðið til að gaumgæfa hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Í leiðinni voru skoðaðar minjar Reykjahjáleigunnar vestar undir Reykjafellinu. Hún fór í eyði skömmu fyrir miðja síðustu öld, enda ber hún þess öll merki.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.


Heimild:
-Kristinn Magnússon – Rammaáætlun, fornleifaskráning 2008.
-Þórður Ögmundur Jóhannsson. Reykjatorfa. Örnefnaskrá. Örnefnastofnun.

Krosssel

Krosssel.

Vorsabæjarsel

Þegar FERLIR var á göngu um Gufudal ofan við Hveragerði sást á landakorti örnefnið Selgil fremst í austanverðum dalnum.

Reykjasel

Reykjasel/Gufudalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki var vitað um selstöðu þarna; hennar hefur hvorki verið getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningum af svæðinu. Að fenginni reynslu þar sem nánast má heita tryggt að leifar selstöðu kunni að finna þar slíkra örnefna er getið var ákveðið að skoða gilið og nágrenni þess. Selgilslækur rennur ofan úr gilinu, en skammt norðan þess rennur annar lækur, bergvatnslækur, ofan úr hlíðum Selfjalls. Selfjall þetta er einnig nefnt svo vegna selstöðu austan þess.
Frá Gufudal er fjallið nefnt Reykjafell (-fjall).
Við leit komu í ljós leifar af stekk skammt upp með norðanverðum Selgilslæk. Hann hefur verið hlaðinn úr smágrjóti úr lækjarfarveginum og er nú nánast jarðlægur öðrum en fráum augum fornleifaleitenda. Norðan við hann er augsýnilega gömul stutt gata upp á gróinn bakka. Uppi á bakkanum, á grasi grónum stalli, eru leifar selstöðunnar, hér nefnd Gufudalssel (Reykjasel). Um er að ræða nokkuð stóra tóft, tæplega 7 metra langa (660 cm) og um 480 cm breiða. Op er mót vestri. Vestan hennar eru tvær aðskyldar hringlaga tóftir og er sú syðri öllu greinilegri. Frá selstöðunni er ágætt útsýni yfir neðanvarðan framdalinn. Tært vatn er í læknum og hið ágætasta skjól undir grónum brekkunum, sem halla frá selinu upp með hlíðum Selfjalls (Reykjafells). Sauðalækur (Sauðaá) rennur um Gufudal.
Af ummerkjum að dæma ber selstað þessi merki um að hafa verið Reykjasel-2tiltölulega nálægt bæ. Stóra tóftin hefur að öllum líkindum verið baðstofa og hinar tvær aðskilið búr og aðskilið eldhús. Það er svolítið óvenjulegt af selstöðum á Reykjanesskaganum að dæma, en hún ber með sér að geta verið frá seinni hluta 18. aldar.
Af loftmynd að dæma virtust tóftir vera vestast við Varmá (Hengladalaá), við Nóngil undir Kvíum, sunnan Djúpagils. FERLIR hefur áður getið um forna reiðleið upp frá því um Kvíarnar, bratta hlíð, áleiðis upp á austanverða Hellisheiði þar sem hún liggur síðan til norðvesturs um gróninga að Fremstadal og síðan inn á Götu milli hrauna að Hellisskarði.

Vorsabæjarsel

Vorsabæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi gata sést vel skáhallt í brattri hlíðinni. Ætlunin er að fylgja þessari götu fljótlega frá þeim stað er hún fer yfir vað á Hengladalaánni, upp Nóngil og á ská upp hlíðina Kvíahlíðina fyrrnefndu ofan Djúpadals.
Við skoðun á Nóngili kom í ljós leifar selstöðu; þrjú rými og stekkur til hliðar (austar). Um er að ræða dæmigerða selstöðu af eldri gerð, þ.e. óreglulega þyrpingu rýma; baðstofu, búrs og eldhúss með sér inngangi. Selstaðan, sem virðist gleymd, gæti hafa verið frá því á 17. eða 18. öld.
Björn Pálsson, fyrrum héraðsskjalavörður Árnesinga, sem er manna fróðastur um sögu og minjar á þessu svæði, sagðist aðspurður halda að selstaðan við Hengladalaánna hefði verið frá Völlum og selstaðan við Selgilið í framanverðum Gufudal hefði sennilega verið frá Reykjum af landamerkjum að dæma því Reykir hafi átt land austan við Sauðalækinn.
Með framangreindum selstöðum hefur FERLIR staðsett 265 selstöður á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Líklegt má telja, að fenginni reynslu, að fleiri slíkar eigi eftir að opinberast í náinni framtíð (sjá t.d. HÉR).
Líklegt má telja að meiri fróðleikur um framangreindar selstöður og nálægar minjar muni koma til umfjöllunar hér í framtíðinni. Minjarnar voru færðar inn á sérstaka hnitaskrá. Í henni eru varslaðar allar minjar sem FERLIR hefur staðsett á Reykjanesskaganum síðustu áratugina.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er getið um sel frá Reykjum; “Selstaða er nýtanleg í heimalandi, og kokkast allur matur þar á hveri, en ei á eldi“. Skammt ofan við selstöðuna eru hverir. Þá er getið um sel frá Vorsabæ; “Selstöðu á jörðin í landi því, sem eignað var áður Litlu-Reykjum, en lagðist til Ossabæjar, þá þeir lögðust í eyði, vide Stóru-Reyki supra, og í annað mál beit fyrir búsmala norður yfir á, í Árstaðafjall, sem að eignað er Stóru-Reykjum“. Fjallið ofan við selstöðuna heitir Ástaðafjall og áin umrædda er Hengladalaáin. Lýsingin á staðsetningu á selstöðu Vorsabæjar passar við staðhætti á umræddum stað.
Auk framangreind er getið um selstöður frá Krossi og Völlum, sem lýst verður síðar.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ölfus

Reykjasel.

 

Grændalsvellir

Stekkatún hafa verið víða fyrrum. Nafngiftin gefur vísbendingu um horfna búskaparhætti þegar fráfærur voru enn stundaðar.
Stekkatun-1Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots við Hveragerði er Stekkatún eitt grónar brekkur austan í litlu gili vestan við Græn[a]dalsá. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var 40 álnir en leigukúgildi ekkert. Í Jarðabókinni segir að ekki sé hægt að taka upp búskap á jörðinni að nýju nema jörðinni til skaða (Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók II, 401).
Stekkatun-2Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.
Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8m x 5,1m að stærð og liggur NA-SV.

Stekkatun-3

Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin. Um 2m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8m x 6,8m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu. Um 28,6m í NA er fjórða tóftin, 13,6m x 7,6m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1m. Um 10,6m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4m x 7,5m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1m. Tóftirnar tvær í brekkunni eru tengdar saman með garðlagi. Garðlagið er 12m á lengd og um 3m á breidd. Vegghæð um 10-30cm. Er vaxin grasi en þó sér í grjót. Á garðlaginu er viknilbeygja.
Umhverfið sem tóftirnar standa í er mjög fallegt. Þarna er, sem fyrr sagði, grasi gróin rani meðfram Grændalsá þaðan sem útsýni er yfir árnar, Grændalsá og Hengladalaá, vellina sunnan ánna og upp á Hellisheiðina til suðvesturs. Tóftirnar mynda skemmtilega rústaþyrpingu. Ekki er ljóst til hvers þær voru nýttar en eflaust er hér um útihúsatóftir að ræða. Rannsóknir á staðnum myndu geta gefið betri vísbendingar um notkunina. Rústirnar eru vel grónar og ekki í neinni hættu. Stuttur gangur er að þeim og því möguleikar á að kynna þær fyrir almenningi.

Heimild:
-Hengill og umhverfi – fornleifaskráning. Kristinn Magnússon 2008.

Grensdalur

Grensdalur – Stekkatún.