Vorsabæjarsel

Þegar FERLIR var á göngu um Gufudal ofan við Hveragerði sást á landakorti örnefnið Selgil fremst í austanverðum dalnum.

Reykjasel

Reykjasel/Gufudalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki var vitað um selstöðu þarna; hennar hefur hvorki verið getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningum af svæðinu. Að fenginni reynslu þar sem nánast má heita tryggt að leifar selstöðu kunni að finna þar slíkra örnefna er getið var ákveðið að skoða gilið og nágrenni þess. Selgilslækur rennur ofan úr gilinu, en skammt norðan þess rennur annar lækur, bergvatnslækur, ofan úr hlíðum Selfjalls. Selfjall þetta er einnig nefnt svo vegna selstöðu austan þess.
Frá Gufudal er fjallið nefnt Reykjafell (-fjall).
Við leit komu í ljós leifar af stekk skammt upp með norðanverðum Selgilslæk. Hann hefur verið hlaðinn úr smágrjóti úr lækjarfarveginum og er nú nánast jarðlægur öðrum en fráum augum fornleifaleitenda. Norðan við hann er augsýnilega gömul stutt gata upp á gróinn bakka. Uppi á bakkanum, á grasi grónum stalli, eru leifar selstöðunnar, hér nefnd Gufudalssel (Reykjasel). Um er að ræða nokkuð stóra tóft, tæplega 7 metra langa (660 cm) og um 480 cm breiða. Op er mót vestri. Vestan hennar eru tvær aðskyldar hringlaga tóftir og er sú syðri öllu greinilegri. Frá selstöðunni er ágætt útsýni yfir neðanvarðan framdalinn. Tært vatn er í læknum og hið ágætasta skjól undir grónum brekkunum, sem halla frá selinu upp með hlíðum Selfjalls (Reykjafells). Sauðalækur (Sauðaá) rennur um Gufudal.
Af ummerkjum að dæma ber selstað þessi merki um að hafa verið Reykjasel-2tiltölulega nálægt bæ. Stóra tóftin hefur að öllum líkindum verið baðstofa og hinar tvær aðskilið búr og aðskilið eldhús. Það er svolítið óvenjulegt af selstöðum á Reykjanesskaganum að dæma, en hún ber með sér að geta verið frá seinni hluta 18. aldar.
Af loftmynd að dæma virtust tóftir vera vestast við Varmá (Hengladalaá), við Nóngil undir Kvíum, sunnan Djúpagils. FERLIR hefur áður getið um forna reiðleið upp frá því um Kvíarnar, bratta hlíð, áleiðis upp á austanverða Hellisheiði þar sem hún liggur síðan til norðvesturs um gróninga að Fremstadal og síðan inn á Götu milli hrauna að Hellisskarði.

Vorsabæjarsel

Vorsabæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi gata sést vel skáhallt í brattri hlíðinni. Ætlunin er að fylgja þessari götu fljótlega frá þeim stað er hún fer yfir vað á Hengladalaánni, upp Nóngil og á ská upp hlíðina Kvíahlíðina fyrrnefndu ofan Djúpadals.
Við skoðun á Nóngili kom í ljós leifar selstöðu; þrjú rými og stekkur til hliðar (austar). Um er að ræða dæmigerða selstöðu af eldri gerð, þ.e. óreglulega þyrpingu rýma; baðstofu, búrs og eldhúss með sér inngangi. Selstaðan, sem virðist gleymd, gæti hafa verið frá því á 17. eða 18. öld.
Björn Pálsson, fyrrum héraðsskjalavörður Árnesinga, sem er manna fróðastur um sögu og minjar á þessu svæði, sagðist aðspurður halda að selstaðan við Hengladalaánna hefði verið frá Völlum og selstaðan við Selgilið í framanverðum Gufudal hefði sennilega verið frá Reykjum af landamerkjum að dæma því Reykir hafi átt land austan við Sauðalækinn.
Með framangreindum selstöðum hefur FERLIR staðsett 265 selstöður á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Líklegt má telja, að fenginni reynslu, að fleiri slíkar eigi eftir að opinberast í náinni framtíð (sjá t.d. HÉR).
Líklegt má telja að meiri fróðleikur um framangreindar selstöður og nálægar minjar muni koma til umfjöllunar hér í framtíðinni. Minjarnar voru færðar inn á sérstaka hnitaskrá. Í henni eru varslaðar allar minjar sem FERLIR hefur staðsett á Reykjanesskaganum síðustu áratugina.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er getið um sel frá Reykjum; “Selstaða er nýtanleg í heimalandi, og kokkast allur matur þar á hveri, en ei á eldi“. Skammt ofan við selstöðuna eru hverir. Þá er getið um sel frá Vorsabæ; “Selstöðu á jörðin í landi því, sem eignað var áður Litlu-Reykjum, en lagðist til Ossabæjar, þá þeir lögðust í eyði, vide Stóru-Reyki supra, og í annað mál beit fyrir búsmala norður yfir á, í Árstaðafjall, sem að eignað er Stóru-Reykjum“. Fjallið ofan við selstöðuna heitir Ástaðafjall og áin umrædda er Hengladalaáin. Lýsingin á staðsetningu á selstöðu Vorsabæjar passar við staðhætti á umræddum stað.
Auk framangreind er getið um selstöður frá Krossi og Völlum, sem lýst verður síðar.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ölfus

Reykjasel.