Hellisskarð
Eftirfarandi er álit Örnefnastofnunnar á nafninu Hellisheiði:
“Hellisheiði er í vestanverðri Árnessýslu. Vestarlega á henni er Hellisskarð (kallað Öxnaskarð að fornu) nálægt Kolviðarhól.”
Í Árbók Ferðafélags Íslands 2003, Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: “Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.” Ennfremur segir í skýringargrein: “Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.”  Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli, þ.e. af hella kv., en þar eru miklar sléttar hellur . Nafnið hefði þá átt að vera “Helluheiði” eða “Hellnaheiði”, en síðan breyst í Hellisheiði. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni (Árnessýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar (1979), bls. 238). Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli. Þannig lítur nafnið Hellnar á Snæfellsnesi, á Hellnum, út fyrir að vera af hella kv, ef. Hellna, en er líklega dregið af orðinu hellir. [innskot S.G. : Og þá af hellinum Baðstofu sem liggur við höfnina og er mjög tilkomumikill].

Hellisheiði

Gígar á Hellisheiði.

Svo lýkur Svavar (hjá Örnefnastofnun) ályktun sinni á örnefninu Hellisheið með eftirfarandi orðum: “Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem týndur er.”
Við þetta má bæta að “Hellukofinn” (sjá mynd) er á Hellunum þar sem varðaða leiðin liggur yfir Hellisheiði. Ekki er ekki ólíklegt, ef vel er skoðað, að á þessari leið kunni að leynast “hellir” sá er hraunið var nefnt eftir, þ.e. ef það hefur ekki verið nefnt eftir helluhrauninu, sem einkennir meginhluta leiðarinnar.
Þegar farið var austur s.l. vetur með Jóni Jónssyni, jarðfræðingi, benti hann á stað á Hellisheiðinni þar sem hann taldi vera hellir undir. Taldi hann það vera hellinn, sem Hellisheiðin hefði nafn sitt frá, en hann væri nú lokaður…

Hellisheiði

Gatan um Hellisheiði fyrrum.