Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.
Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.
Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.
Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.