Girðingarrétt

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð (Strandarhelli og Bjargarhelli) að Ólafarseli, upp á Vörðufell að Vörðufellsréttinni, í Vindássel og Eimuból, upp í Hellholt og að Girðingarréttinni (Selvogssréttinni gömlu). Þaðan var ætlunin að halda niður í Staðarsel undir Svörtubjörgum og skoða nokkrar óþekktar tóftir í bakaleiðinni um heiðina. Séra Eiríkur Magnússon á Vogsósum fylgdi ferðalöngunum um heiðina.
Vordufellsgata-21Á 
 leiðinni var gengið fram á óþekktar mannvistarleifar á nokkrum stöðum og þó einkum á einum milli Vindássels og Staðarsels. Þar reyndust vera hús, líklega selstöður, á fjórum stöðum, stórt fjárskjól með miklum fyrirhleðslum og stór hellir með hlöðnum niðurgangi og fyrirhleðslu er niður var komið. Botninn var rennisléttur svo sæmandi væri hverju öðrum samkomustað. Telja verður að þarna hafi 2-3 bæir (hjáleigur) frá Strönd hafst sameiginlega selstöðu í heiðinni um skamman tíma fyrir nokkrum öldum.
Strandarhelir-21Sama verður sagt um Staðarselið. Í því eru fimm  hús; eitt greinilega stærst og annað greinilega nýjast. Alllangur stekkur er þar til hliðar, fjárhellir sunnar og fleiri minni tóftir og brunnstæði vestar. Telja verður líklegt að þarna hafi prestssetrið haft selstöðu undir það síðasta. Annað hvort eru þetta hús frá mismunandi tíma eða að fleiri Strandarbæir hafi haft þarna selstöðu, sem telja verður líklegt, en á Strandartorfunni voru allnokkrar hjáleigur á síðari öldum.
Strandarselið (sem jafnan hefur verið Olafarsel-21nefnt Staðarsel, væntanlega eftir prestsstaðnum) er á mjög fallegu, sléttu og grónu graslendi efst og suðaustan undir Svörtubjörgum. Þaðan er víðsýnt til vesturs sem og heim að bæ í suðsuðvestri.
Í Hellholti eru greinilega smalaskjól. Gólf hafa verið slétt og hlaðið fyrir op skúta (hella). Varða er á norðvesturbrún Hellholts, greinilega markavarða.

Suðvestan undir Vörðufelli er greinilega gleymd forn fjölfarin gata. Hún mætir Selvogsgötunni (Suðurferðavegi) milli Strandarhæðar og Selvogsheiðar (Strandarheiðar). Þessi gata virðist hafa verið fjölfarnari en hin, en ástæðan gæti hafa verið fjárrekstrar frá réttum þeim er hér koma við sögu.

Hnúkar rísa eins og steingerð tröll efst á Selvogsheiði. Heiðin er dyngja en erfitt er að átta sig á því Vordufell-22nema með því að skoða landakort. Á Vörðufelli er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, hringlaga almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924.
Suðvestan undir Vörðufelli er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt suðaustan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.
Í þjóðsögunni “Vörðurnar á Vörðufelli” segir m.a.: “Sagt er að ræningjar hafi komið á land ekki langt frá Krýsuvík. Komu þeir gangandi og stefndu fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var sendur maður til séra Eiríks prests, sem fór með honum og er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn numið staðar á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo þeir drápust fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heim að bænum.
Nokkru Vordufell-21seinna fór prestur austur á Selvogsheiði og nam staðar á felli einu lágu, hann byggði upp margar vörður og sagði að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur. Heitir fellið síðan Vörðufell.”

Í þjóðsögunni “Eiríksvarða og Vörðufell” segir m.a.: “Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða, hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Eiríkur sagði að Selvogur mundi ekki verða rændur á meðan varðan stæði. Margar vörður hlóð hann á hæð þeirri er heitir Vörðufell, ránsmönnum þeim sem fóru um landið sýndist að herflokkar væru þar sem vörðurnar voru, en þær standa í röðum og eru um þrjátíu talsins og allar eru þær með klofi.”

Vordufell-23Margt hefur verið ritað um séra Eirík. M.a. skrifaði Konráð Bjarnason eftirfarandi um hann í Lesbók Morgunblaðsins 1997: “Séra Eiríkur Magnússon varð eftirmaður séra Gríms Ingimundarsonar að Strönd, en með búsetu að Vogsósum. Um hann þyrlaðist upp mikið moldviðri þjóðsagna, sem erfitt hefur reynst að kveða niður.
Séra Eiríkur Magnússon var fæddur 1638, sonur Magnúsar Eiríkssonar lögréttumanns að Njarðvíkum í Gullbringusýslu og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur bónda í Reykjavík á Seltjarnarnesi, Oddssonar. Yngri bróðir séra Eiríks var Jón Magnússon lögréttumaður að Marteinstungu í Holtum fæddur l642. Afi þeirra var Eiríkur Magnússon lögréttumaður að Djúpadal í Skagafirði fæddur um 1575. En langafi hans var Jón Arason skáld og biskup að Hólum í Hjaltadal fæddur 1484. Séra Eiríkur á Vordufell-24Vogsósum var því í beinan karllegg frá Jóni biskupi Arasyni kominn.
Öllum ber saman um að séra Eiríkur hafi frá unga aldri alist upp og lært undir Skálholtsskóla hjá séra Jóni Daðasyni í Arnarbæli Ölfusi. Séra Jón Daðason í Arnarbæli var maður vel að sér, lögvís, náttúrufróður, búhöldur góður og eignaðist fjölda jarða. En hann var haldin þeim veikleika margra sautjándu-aldarmanna, að hægt væri að virkja ill öfl og senda þau óvildarmönnum. Séra Jón Daðason varð bráðkvaddur á túninu í Arnarbæli 13. janúar 1676, þá sjötugur að aldri.
Þann 31. maí 1668, var séra Eiríkur Magnússon vígður af Brynjólfi biskupi í Skálholti Sveinssyni aðstoðarprestur séra Jóns Daðasonar í Arnarbæli, samkvæmt kappelláns köllun frá honum og var vígslubréf séra Eiríks gefið út samdægurs, 31. maí 1668 í Skálholti.
Selvogsmönnum var fullljóst við áramót 1676-7, að þeir þyrftu nú þegar prest til Strandar- og Krýsuvíkursókna, vegna þess hve séra Grímur prestur þeirra að Strönd Ingimundarson var langt leiddur í ólæknandi sjúkdómi sínum. Þeir hafa þegar notið þjónustu séra Eiríks Magnússonar og þekktu mannkosti hans og sækja fast og með lagni að koma honum til embættis að Strönd, með því að fá prófastinn í Gaulverjabæ séra Torfa Jónsson til liðs við sig. En honum er það ljúft, einkum vegna þess að hann nýtur nú Selvogssveitar eftir að frændi hans Brynjólfur biskup arfleiddi hann að skipi sínu og sjóbúð innan við malarkamp Strandar, ásamt uppsátri.

Vindassel-21

Þann 25. febrúar 1677 var að Strönd í Selvogi séra Eiríkur Magnússon kallaður til prests að Strönd og Krýsuvík. Veitingabréf séra Eiríks fyrir Selvogsþingum var gefið út af Þórði Þorlákssyni biskupi og dagsett í Skálholti 5. mars 1677.
Þegar séra Eiríkur tekur við embætti sínu í Selvogssveit fer hann að Vogsósum við Hlíðarvatn. Þar hafa Selvogsprestar haft ábýlisréttindi frá trúarsiðskiptum, en jarðareigendur eru kirkjustaðurinn að Strönd og Strandarkirkja á meðan Strönd er enn í byggð.
Séra Eiríkur verður því ábúandi að Vogsósum, en vegna þess að hann er einhleypur og lítt gefin fyrir búskaparvafstur leigir hann í ábúandarétti sínum fjölskyldubónda, næra allan búskaparmöguleika jarðarinnar með sérsamningi þeirra í millum. Þegar séra Eiríkur kemur i Selvogsbyggð eru þar 42 búendur (vegna gjöfulla fiskislóða upp að sjávarströnd með lendingarvörum). Þá enn 7 búendur á höfuðbólinu Strönd. Það kom í hlut séra Eiríks að jarðsyngja starfsbróður sinn séra Grím Ingimundarson á árinu 1678.

Eimubol-21

Séra Eiríkur verður þolandi þess að sjá höfuðbólið Strönd fara í eyði á tíunda áratug 17. aldar og sandágang teygja sig upp að Strandarkirkjugarði. En án vafa hefur séra Eiríkur notið kyrrðar og friðar á bökkum hins gjöfula veiðivatns og við mófugla- og beitilandsheiðina, er teygðist upp að Hlíðarfjalli og brekkum. Hann er afkomutryggður emættismaður í húsmennsku og nýtur góðhesta sinna á reiðgötu undir Herdísarvíkurfjalli og Geitahlíð á leið til útkirkju sinnar í Krýsuvík, sem og hinnar litríku kaupstaðarleiðar yfir Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
Árið 1688, þann 20. maí, fól Þórður biskup séra Eiríki á Vogsósum, að taka út Stað í Grindavík af séra Rafni Ólafssyni og setja þar inn séra Stefán Hallkelsson.

Hellholt-21

Þetta verk leysti séra Eiríkur fljótt og vel af hendi. En frá þessu verki hafði biskup orðið að ganga árið áður, með því að séra Rafn neitaði að láta af hendi kirkjulyklana við biskup sjálfan. En séra Rafn hafði það eitt brotið af sér við kirkjuvald að hann neitaði að halda kóngsbænadag sem lögboðinn var á árinu 1686.
Með tilliti til manntalsins 1703 er sýnt að laust fyrir aldamót 1700 hafa ung hjón í frumbúskap sínum tekið við Vogsósabúi í ábúð séra Eiríks. Þau voru Jón Jónsson fæddur 1677 og kona hans Helga Gísladóttir honum fjórum árum eldri. Yngri dóttir þeirra Vigdís var fædd 1700 og varð móðir Jóns Halldórssonar lögréttumanns að Nesi, fyrri manns Rannveigar Filippusdóttur, er átti að seinni manni Bjarna Sívertsson dbrm. og kaupmann í Hafnarfirði.
Hellholt-22Samkvæmt jarðabók Árna og Páls 1706 er ljóst að Jón bóndi að Vogsósum hefur gott kúa- og fjárbú, ásamt hlunnindum jarðar í selveiði, fjörureka og eggjatöku. Þar kemur fram, að jörðinni fylgja þrjú leigukúgildi og af þeim greiðir bóndi með smjöri til prests og að hluta til jarðareigenda, en landskuld af allri jörðinni greiðist til prests inná reikning jarðeiganda. Bóndinn hefur þá sjö kýr, kvígu og kálf, að auki prestsins tvær eigin kýr. Þá hefur sóknarpresturinn séra Eiríkur Magnússon herbergi fyrir sjálfan sig og einn þjónustukvenmann og forsorgar sig og hana á eigin kosti (þjónustustúlka séra Eiríks árið 1703 var Oddný Ólafsdóttir þá 29 ára en, séra Eiríkur 65 ára).

Girdingarrett-23

Meðal hinna mörgu sjávar- og landbænda í Selvogssveit fyrir aldamót 1700 voru Páll Björnsson bóndi og lögréttumaður að Bjarnastöðum, fæddur að Teigi í Fljótshlíð og afkomandi Önnu á Stóruborg. Dóttir hans Guðrún átti Bjarna Sigurðsson bónda í Nesi albróður Péturs einnig bónda þar afa Bjarna riddara í Hafnafirði. Svo og Jón Jónsson óðalsbóndi og skáld að Nesi, fæddur laust fyrir 1630. Hann orti “Sveitarbrag” á árabilinu 1677­80, og margt sálma, kvæða og gátna. Hann var vel metinn maður á sinni tíð, átti Nes og bjó þar til dánardægurs. Hann var talinn fornlyndur og trygglyndur og hélt við hinni fornu Neskirkju. Um hana segja þeir Árni og Páll í jarðabók l706, að enn fari þar fram altarisþjónusta fyrir heimilisfólk í Nesi, en tíundir allar komnar undir Strönd. Embættisgerðir þessar í hinni fornu Neskirkju hafa því komið í hlut séra Eiríks að Vogsósum, enda bað Jón óðalsbóndi séra Eirík um að sjá til þess að hann yrði jarðsettur í Neskirkjugarði.

Svortubjorg-21

Í byrjun mars 1702, lést Jón skáld og óðalsbóndi að Nesi í hárri elli. Skrifar séra Eiríkur þá Jóni biskupi Vídalín bréf og skýrir honum frá því að Jón hafi beiðst þess að vera grafinn í Nesi. Í svarbréfi Jóns biskup til séra Eiríks 23. mars 1702. Kemur fram eftirfarandi: “Þar er nú enginn nýlega greftraður (í Neskirkjugarði), og engin skikkun (regla) finnst fyrir um kirkjugarðinn.” Leyfir Jón biskup að “sá erlegi heiðursmann Jón Jónsson, sem var að Nesi, megi grafast þar innan kirkju á sinni heimilis- og eignarjörð.” Þar undir kirkjugólfi í Neskirkju jarðsetti séra Eiríkur Jón Jónsson vin sinn og þar var síðar við hlið hans lögð til hinstu hvíldar Guðrún Jónsdóttir, ekkja hans.

Eiríksvarda-2

Skömmu síðar sama árs bar það til tíðinda á Nesþingi í Selvogi 15. maí 1702, að þar var hýddur N.N. meðal annnars fyrir stuld frá séra Eiríki á Vogsósum á hálfum fjórðungi smjörs, tvennum leðurskæðum og malpoka, er hann hafði tekið úr læstu húsi gegnum vindauga (loftop). Staðreynd þessi er ekki hliðholl þjóðsögum um að séra Eiríkur á Vogsósum hafi skotið hlífiskildi yfir sakamenn. Eftir 1708 er séra Eiríkur á áttræðis aldri og gegnir án aðstoðar báðum sóknum sínum.
Síðasta vitneskja um séra Eirík á lífi er samkvæmt dr. Hannesi Þorsteinssyni 1. desember 1716. Þá bað Jón Vídalín biskup séra Árna Þorleifsson prest í Arnarbæli að messa á Strönd einhvern hátíðisdaginn á jólum með því að hann hafi heyrt, að séra Eiríkur væri lasburða af elliburðum og tilfallandi veikleika. Þann 14. desember 1716 segir Jón biskup í bréfi til séra Árna Þorleifssonar í Arnarbæli (hann varð prófastur í Árnesþingi) að nú sé séra Eiríkur á Vogsósum látinn og sjái hann um hinstu athöfn.

Eirksvarda-3

Dr. Hannes Þorsteinsson ályktar því að séra Eiríkur hafi dáið snemma í desember fremur en síðast í nóvember, ókvæntur og barnlaus.
Séra Eiríkur Magnússon var að áliti greindra manna fyrst og fremst mannþekkjari, sálfræðingur og mannvinur, sem beitti þekkingu sinni í þágu meðbræðra sinna, svo sem í hlutrænum verndartáknum. Hafa Selvogsmenn enn munnlega geymd og tákn þessu til staðfestingar þegar séra Eiríkur létti af sóknarbörnum sínum viðvarandi ótta við landgöngu erlendra ránsmanna á úthafsströnd með því, að taka með sér hleðslumenn upp á Svörtubjörg. Hann lætur þá bera hleðslusteina langt að svo varða hans njóti uppstreymis vindbrots á ystu bjargbrún. Hún er ílöng eftir bjargbrún og gengur upp til einhleðslu efst. Að verki loknu afhendir séra Eiríkur Selvogsbyggð í votta viðurvist vörðuna, sem verndartákn með eftirfarandi orðum: “Meðan enn stendur steinn yfir steini í vörðu þessari verður ekki aðsteðjandi ófriður í Selvogi.”

Stadarsel-21

Þar með blasti Eiríksvarða á ystu brún Svörtubjarga við augum Selvogsmanna á úthafsströnd frá morgni til kvölds, ásamt með vitneskjunni um verndarhlutverk það er hún skyldi þjóna. Og sóknarbörnin minnast sálusorgara síns í þakklátum huga, leyst úr hlekkjum óttanns. Að 300 árum liðnum, stendur Eiríksvarða enn í fullri reisn sinni og aldrei á hinum mörgu liðnu árum steðjaði ófriður að Selvogsbyggð.”

Í riti um galdrapresta frá 1882 er getið um lokadægur séra Eiríks: “Svo er sagt, að fyrir andlát sitt hafi Eiríkur prestur dysjað forneskjubækur sínar í Kálfsgili í Urðarfellum; þau eru norður af Svörtubjörgum. Áður Eiríkur dó, bað hann færa líkama sinn í kirkju, þegar er hann dæi, og leggja í kistu, og bað menn vaka yfir líkinu hina fyrstu nótt og kveikja 3 ljós á kistulokinu, og mundu þau ekki leingi lifa; en þess bað hann þá gæta, að kveikja jafnskjótt aptur, ef eitt dæi, svo ávalt væri eitt lifandi; því ella mundu illir andar taka sig. En ef ljós lifði alla hina fyrstu nótt á kistu sinni, þá hefðu þeir ekkert vald yfir sér. þetta var gjört, og lifði ávalt eitthvert ljósið alt til dags. Svo hafði Eiríkur sagt, að ef hann yrði sáluhólpinn, þá mundu daggardropar koma úr heiðu lopti, á meðan lík hans væri lesið til moldar, og er sagt, að svo hafi orðið.

Stadarsel-22

Það er önnur sögn um dauða Vogsósa-Eiríks, að þegar hann var að bana kominn, tiltók hann, hverjir vera skyldu líkmenn að sér. Sagði hann, að gjöra mundi haglél mikið, þegar hann væri borinn út til kirkjunnar, en bað, að ekki væri kistan sett niður, frá því hún væri tekin upp, fyrr en í kirkjunni. Sagði hann, að þá mundi upp stytta élinu. En þá mundu sjást fuglar tveir, annar hvítur, en annar svartur, yfir kirkjunni, og mundu þeir rífast mjög. Bað hann þess, að ef hvíti fuglinn sigraði, og næði að setjast á kirkjubustina, þá græfu menn sig í kirkjugarði, en ef sá svarti hefði sigurinn, og settist á kirkjuna, þá skipaði hann að dysja sig utangarðs; því þá væri úti um sig. Þetta kom alt fram, þegar Eiríkur prestur dó, bæði um élið og fuglana, og vann hinn hvíti fuglinn sigur á þeim svarta, svo Eiríkur var grafinn í kirkjugarði.”

othekkt sel i selvogsheidi-2Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir að Vörðufellsvörður hafi verið hlaðnar af unglingum. “Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja.”
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum.

othekkt sel i selvogsheidi

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur. Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.

othekkt sel i selvogsheidi-3

Eimuból er norðan við Vörðufell. U.þ.b. 10-15 mínútna gangur er á milli seljanna í heiðinni. Bæði er seltóft ofan við gróið jarðfall og niður í því. Í Eimuhelli í jarðfallinu er hlaðinn stekkur. Umhverfis jarðaflið er hlaðið gerði. Kví er og ofan við það. Í örnefnaskráningu fyrir Eimu segir m.a.: “Fyrir norðan [Vörðu]fellið er Eimuból alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum.” Vindássel er skammt vestar, nokkur tóft og stekkur.
Haldið var upp eftir heiðinni, á Hellholt. Í því er Hellholtshellir, stór inngöngu en frekar stuttur. Botninn er flóraður að hluta. Nokkir smáhellar er undir Hellholti, flestir með mannvistarleifum í. Líkast til hafa þeir verið notaðir sem fjárskjól í gegnum tíðina. Ofan við Hellholtið er Girðingarréttin (Selvogsréttin nýrri). Gamla réttin er á Vörðufelli, stór og dilkrík með löngum leiðigarði til norðurs sem fyrr er lýst. Á leiðinni niður að fellinu var komi við í Skjólinu, merkilegu fyrirbæri. Það er hellisskúti að sjá, en þegar að er komið eru miklar hleðslur, grónar, fyrir munnanum. Gangur liggur niður og þegar þangað er komið tekur við slétt hellisgólf, salur. Varla er arða á gólfi, utan eitt bein inn undir skilum lofts og veggjar. Þarna sést hin mikla hleðsla vel. Hægt er að fara inn fyrir hana hægra megin og inn í afhelli, sem þar er. Ekki er vitað hvaða tilgangi þetta mannvirki hefur átt að þjóna í heiðinni, nema ef vera skyldi forðabúr eða geymsla. Strandarsel (Staðarsel) er þarna skammt vestar og fyrrnefnd sel sunnar. Fjárskjól er skammt austar. Ofan við opið er hlaðinn stekkur. Þarna gæti hugsanlega hafa átt að vera selstaða frá einhverjum bænum ef tekið er mið af mannvirkjunum næst Skjólinu.

Strandarheidi - tankurFrá Hellholti var stefnan tekin í austurátt að Girðingar-réttinni við enda Strandargjár, sem einnig hefur verið nefnd Gamlarétt eða Selvogsréttin eldri. Hún var aflögð árið 1957.

Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar fyrstnefndar tóftir selstöðva. Utan í hól eru a.m.k. tvö fjárhús, stakt hús (að sjá nýjast) og eitt tvískipt. Ekki eru til heimildir um sel þetta, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum sem fyrr sagði. Bæði er staðurinn í Strandarlandi og selstaðan virðist fyrir margt veglegri en aðrar selstöður í heiðinni.

Selvogsheiðin virðist geyma ótrúlega margar mannvistarleifar frá fyrri tíð. Minjarnar eru arfleifð fyrri búskaparhátta og ætti hiklaust að umgangast þær sem slíkar.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Vörðurnar á Vörðufelli, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Eiríksvarða og Vörðufell, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði.
-Örnefnalýsing fyrir Eimu.
-Lesbók Morgunblaðsins 26. júlí 1997, séra Eiríkur á Vogósum, Konráð Bjarnason,bls. 4-5.
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, J.C. Hinrichs, 1882, bls. 580-581.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt.