Stakkavíkurselsstígur

Haldið var upp í Stakkavíkursel á Stakkavíkurfjalli; um Selskarðsstíginn ofan Hlíðarvatns og síðan Selstíginn í selið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði heimildir um Stakkavík í febrúar 1982. Eggert Kristmundsson, Brunnastöðum, er heimildarmaður. Hann er fæddur 1919 í Stakkavík og alinn þar upp; var í Stakkavík til 1942. Móðir hans, Lára, 94 ára, ættuð úr Selvogi, kom ung að Stakkavík og bjó þar í 28 ár.

Selskarðsstígur

Selskarðsstígur.

“Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu.
Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðarbrekkur.”

Gísli Sigurðsson gerði örnefnalýsingu fyrir Stakkavík. Hann minnist á Selsskarðsstíginn, en ekki á Stakkavíkurselið.
“Þá kom lægð í hraunið upp af Botnaviki, er hét Flöt. Þá komu Höfðar, og þar voru fjárhúsin, lágu upp frá Austurnesi. Um Flötina lá Selstígurinn, og var þetta brött leið. Stakkavíkurfjall eða Útfjallið var fjallið nefnt vestan úr Mosaskarði að Nátthagaskarði, og var fjallið afar bratt. Þar voru Brekkurnar eða Stakkavíkurfjallsbrekkur, Skriðurnar eða Stakkavíkurfjallsskriður.
Í Mosaskarði var Hamragerði, og lá þar um landamerkjalínan milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Þar litlu austar var svo Mjóigeiri og enn austar Breiðigeiri. Geirar þessir eru gróðurtorfur, sem liggja upp skriðurnar; þá kom ónafnkenndur partur og síðan Hrísbrekkur upp af Flataskógi og Nátthaganum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Þá kom Nátthagaskarð; hefur þar runnið niður mikill hraunfoss. Vestan til við hraunfossinn liggur svo Nátthagaskarðsstígur upp á fjallið.
Austar er svo Selskarð, og þar um liggur Selskarðsstígur og síðan norður fjallið. Litlu austar eru svo Kleifar og Kleifarvallaskarð. Enn austar er Urðarskarð eða Urðarvallaskarð.
Efstu brúnir fjallsins eru nefndar Stakkavíkurfjallsbrúnir. Í Brúnunum austan til við Kleifarvallaskarð eru hellisskútar þrír, nefndir Músarhellir, Pínir og Sveltir. Hellar þessir voru hættulegir fé. Það fennti þarna, og vegna harðfennis varð því ekki bjargað. Þar af koma nöfnin.”

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Í Jarðabókinni 1703 segir um Stakkavík: “Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”:

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Selskarðsstígur er greinilegur frá litlu bílastæði skammt ofan við fjárhúsin í Höfðum. Lítil varða er við Selskarðið. Ofar er girðing um beitarhólf. Yfir hana er tréstigi. Skammt austar er myndarleg varða og önnur norðar, fast við Selstíginn. Hann liggur að hlið á girðingunni skammt norðaustar og síðan upp með henni til norðurs. Við horn á girðingunni heldur Selstígurinn áfram upp fjallið áleiðis að selinu, en Stakkavíkurgatan heldur áfram upp með henni áleiðis að Vesturásum. Framundan gnæfir selsvarðan yfir grónu selinu í suðurbrúnum fjallsins, þar sem það er hæst. Við selið eru hleðslur eftir refaveiðimenn á a.m.k. tveimur stöðum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Stakkavík – Svör við spurningum. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði í febrúar 1982.
-Stakkavík – Gísli Sigurðsson skráði.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.