Efrafjall

Þann 22. október 1944, u.þ.b. kl. 15:00, flaug fyrsti lútenant John J. Custy, meðlimur 33ju orrustusveitar ameríska flughersins, C-64 flugvél sinni, í Efrafjall ofan við Ölfus. Hann, ásamt fjórum farþegum, liðþjálfanum Robert R. Richt, korperálnum Anthony P. Colombo, óbreyttum Leonard T. Damerval og óbreyttum Floyd C. Van Orden, lést er kviknaði í flugvélinni við brotlendinguna. Brak úr henni dreifðist um stórt svæði.
Þremur árum fyrr, eða sunnudaginn 7. desember 1941, fórst önnur herflugvél, af Hudson-gerð/G, þarna í fjallinu, ekki langt frá. Fjórir menn í áhöfninni létust allir. Flugstjórinn hét Eric Stewart, 22 ára Nýsjálendingur.
Ætlunin var að skoða brakið úr vélunum, sem er þarna enn um 65 árum síðar, en líta fyrst á á Hraunssel við Selstíginn undir Lönguhlíðum og athuga hvort tóftir kunni að leynast undir Selbrekkum í austanverðu Efrafjalli.
Gengið var til austurs yfir Eldborgarhraun ofan við Frambrúnir í Þrengslunum og yfir á Selstíginn undir Lönguhlíð. Þar kúrir Hraunsselið. Auðvelt er að fylgja gróinni kindaslóð í gegnum mosahraunið, svo til beint að selinu.
Eftir að hafa skoðað tóftirnar var gengið upp á Litlaberg ofan við Kerlingaberg og inn á Selbrekkur undir Efrafjalli. Ofar eru Vatnsbrekkur og enn ofar Suðurhálsar. Neðar er Neðrafjall ofan við Hjalla.
Altalað var í Ölfusi að búkonurnar á Hrauni hafi fengið nægan efnivið til sauma eftir slysið því fallhlífarnar, sem voru úr silki, fundust skammt frá slysstaðnum og voru notaðar í flest það sem þurfa þótti til sauma næstu daga á eftir, hvort sem um var að ræða klæðnað eða gluggatjöld.
Í bókinni “Styrjaldarárin á Suðurlandi”, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson segir m.a. frá síðarnefnda flugslysinu. Í frásögninni kemur fram að slysið hafi borið upp á sama dag og árás Japana á Pearl Harbour, þann 7. desember 1941. Þrátt fyrir að þetta væri á sunnudegi var búist við því að þessu myndi fylgja óvænt árás þýska hersins einhvers staðar í Evrópu. Að því tilefni var 8 Hudson flugvélar, sem staðsettar voru á Kaldaðarnesflugvelli, sendar á loft um hádegisbil og var hlutverk þeirra að skima eftir eftir óvinaflugvélum, kafbátum eða skipum nálægt suðurströndinni. Þegar líða tók á daginn fór veður versnandi. Flugstjórar vélanna ákváðu því að snúa til baka fyrr en ákveðið hafði verið. Síðastur á loft hafði verið Eric Stewart á Hudson/G, með einkennisstafina T-9416, ásamt þremur öðrum áhafnameðlimum. Samkvæmt áætlun átti vélin að lenda kl. 15:45. Á þeim tíma sást hún fljúga tvo hringi yfir vellinum fyrir lendingu, en mjög lágskýjað var orðið þegar það varð.

Hraunssel

Hraunssel Ölfusi.

Tómas Jónsson frá Þóroddsstöðum, þá 8 ára, var að sækja hesta út í mýri á þessum tíma, handan Ölfusár. Komið var myrkur. Kl. 16:45 sá hann ógurlegan eldblossa í fjöllunum fyrir ofan Hjall. Hann hafði skömmu áður séð vél koma fljúgandi með blikkandi ljós og stefna beint á fjallið. Bjarminn var eldrauður og u.þ.b. 15 mínútum síðar sá hann annan blossa, hvítan er lýsti sem dagur væri. Fyrr bjarminn gæti hafa stafað af því er kviknaði í flugvélinni er hún snerti jörðina, en síðari blossinn gæti hafa verið kafbátasprengjur að springa, sem höfðu verið um borð í vélinni. Bjarmar þessir sáust vel frá Hveragerði því næstum albjart varð þar þessa örskömmu stund.
Gerður var út 12 manna leitaflokkur frá Hjalla undir leiðsögn þeirra Sigurðar Steindórssonar og Engelberts Hannesson frá Bakka. Flakið af flugvélinni fannst á Efrafjalli ofan við Hjalla síðar um kvöldið. Aðkoman var hroðaleg. Ljóst var af ummerkjum að dæma að vængur hafði rekist í jörðina, vélin steypst í fjallið og síðan allt sprungið í tætlur. Fallhlífar fundust, sem fyrr sagði, skammt frá slyssstað og úr þeim voru saumaðar margar flíkur, allar úr skínandi silki. Og það þóttu nú ekki dónalegur fatnaður til sveita í þá daga.
Öðrum Hudson vélum á Kaldaðarnesflugvelli var síðan flogið til Reykjavíkur og þær gerðar út þaðan. Sem fyrr sagði fórust fjórir með vélinni.
Gengið var frá Raufarhólshelli í Þrengslunum og austur yfir gamburmosahraun, afurð Eldborgar norðaustur undir Litlameitli, með sínum grónu lyngbollum. Gangan tekur innan við 10 mínútur. Hægt er að ganga eftir gamalli götu er liggur upp úr Lyngbrekkum frá Breiðabólstað, um Rauðhól, síðan eftir gróinni kindaslóð yfir hraunið og áfram inn á Selstíginn skammt norðar. Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið þar sem það kúrir undir lágum hraunkantinum, greinilega miðlungs gamalt. Þetta eru fimm tóttir; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn (Skógstígurinn) liggur upp og niður milli hraunkantsins og hlíðarinnar. Bæði ofan og neðan við selið að norðanverðu eru grasi grónar Lönguhlíðarnar.
Eitt af sérkennum seljanna á Reykjanesskaganum er hversu fá þeirra uxu og urðu að kotum til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu. Einungis Straumssel, af þeim 165 seljum, sem enn hafa verið skoðuð á svæðinu (landnámi Ingólfs) mun hafa vaxið til heilsársbúsetu, en þó einungis í skamman tíma. Þessu er t.a.m. öfugt farið á öndverðu landinu, Melrakkasléttu. Þar virðist einungis Bakkaselið hafa varðveist í upprunalegri selsmynd, en önnur sel orðið að kotum til heilsársbúsetu. Fróðlegt væri að bera þessi landssvæði saman, því á báðum má finna margar selsminjar og aðstæður eru ekki svo frábrugnar til sauðfjárbeitar og fjarnýtingar frá bæjunum með ströndinni. Sel á Norðurlandi og Vestfjörðum (og jafnvel víðar) virðast hafa verið annarskonar, þ.e. nokkurs konar afrit af bæjunum þangað sem búsmalinn flutti yfir sumartímann.
Gengið var yfir vestanvert Litlaberg og áfram inn á Efrafjall austarn Kerlingabergs. Gott útsýni er þarna yfir fjalllendið sem og niður á Neðrafjall, sem nú hefur víða orðið gróðureyðingunni að bráð. Bændur þar neðra hafa þó reynt að stemma stigu við eyðingunni með víðtækri trjáplöntugróður-setningu.
Þegar horft var yfir fjallshlíðina var erfitt að reyna að gera sér í hugarlund hvar brakið af Hudson/G vélinni gæti verið. Kaldalaðanesflugvallarstæðið sést í austri, handan Ölfusár. Flugvélin hefur væntanlega verið í aðflugsbeygju að vellinum. Stefnan var tekin á brekkuna þar sem hún rís hæst á móti suðvestri, líklegasta slysstaðinn. Eftir u.þ.b. klukkustundar göngu var lagst niður í móann og hann skimaður. Stöng stóð upp úr í norðri. Haldið var þangað. Þar reyndist verða slysstaðurinn með öllu því braki er slíku fylgir.
Heillegt dekk merkt Goodyear, tveir hreyflar, blágrænn litur á áli, leiðslur, hjólaspyrna og hluti mælaborðs, auk annars er fylgir sundurtættu flugvélaflaki var þarna. Ógróið svæði var þar sem flugvélin hafði komið niður og væntanlega brunnið skv. lýsingunni, en smábrak allt um kring. Vel mátti ímynda sér hvernig slysið hafði orðið. Ekki var þó að sjá leifar eftir eld eða sprengingar á vettvangi. Teknar voru myndir af númerum einstakra hluta og sendar sérfræðingi. Mun álit hans væntanlega berast innan skamms.
Ef finna ætti brakið af C-64 flugvélinni í heiðinni myndi það væntanlega verða meiriháttar tilviljun. Samkvæmt lýsingum á það að vera u.þ.b. 2 km sunnan Núpafjalls. Það gæti verið í suðausturhlíðum Skálafells. Ef einhver fróður eða upplýstur maður getur gefið upplýsingar hvar brakið er að finna væru þær upplýsingar vel þegnar.
Þá var gengið upp í Hjallasel og áfram norðaustur upp og yfir Efrafjall. Bóndinn á Hrauni hafði áður sagt að sjá mætti tóftir suðvestan við Hjallaselið, en þar eru víða grónir blettir. Við leit var ekki að sjá ummerki eftir mannvistarleifar, enda geta þær varla verið miklar því vatnsskortur hlýtur að hafa háð viðverandi dvöl manna og skepna í heiðinni.
Á göngunni til vesturs voru þveraðar a.m.k. þrjár veglegar götur, þ.á.m. Sólarlagstígurinn neðan frá Hjalla.
Frábært veður. Lygna og angan af vorgróanda. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Styrjaldarárin á Suðurlandi, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson.
-Sævar Jóhannesson.

Efrafjall

Brak á Efrafjalli.