Hengill

Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1939 um “Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra”: “Í annálum er þess getið, að útileguþjófar hjeldu til í Henglafjöllum. Ekki er þó tekið til hvar í fjöllunum þeir hafi verið, en yfirleitt er afrjettur Grafningsmanna og Ölfusinga nefndur Henglafjöll í fyrri tíðar ritum. Þeirra er getið tvisvar að mig minnir, og hafa að líkindum verið piltar, þó það sje ekki í frásögur fært. Í Nesjum í Grafningi höfðu þeir einu sinni vetursetu sína, en voru teknir og þeim refsað.
henglafjoll-223Þegar jeg var unglingur heyrði jeg sagt frá því, að útilegumenn hefðu verið í Henglinum; þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þeir skipshöfn, sem hefði gert einhver níðingsverk, en aldrei heyrði jeg hver þau hefðu átt að vera.
Tóku þeir sjer nú stöðu í þessum helli og höfðust þar við, sumir sögðu í tvö ár, en aðrir aðeins eitt sumar, en hvort sannara er verður ekki vitað. Og ekki vissu menn heldur, hve margir þeir væru — jafnvel 6 eða 7, og tvær hlutakonur voru með þeim, að því er sagt var, og eru ef til vill líkur fyrir því. Þeir höfðu með sjer langan kaðal eða stjórafæri og drógu konurnar upp í hellirinn og föng sín jafnóðum og þeir öfluðu þeirra, en það var mest sauðfje Ölfusinga og Grafningsmanna.
Nú þótti sveitamönnum hart á barið að verða að þola slíka óhæfu, en fengu ekki að gert um sinn. Er frá leið þá gerðu þeir ráð sitt op tóku sig saman eitt haust litlu fyrir fjallreið og lögðust í leyni margir saman úr háðum sveitum, Ölfusi og Grafningi — sem að vísu var þá sama þingssóknin — og biðu þess að hellisbúar færu úr hellinum í smalatúr og ætluðu þeim svo stundirnar og var þess skamt að bíða. Fóru nú allir úr hellinum, en sveitamenn skipuðu sjer sem fljótast fyrir hellisbergið að neðan og komu hellismenn innan skamms með fjárhóp. En nú var ekki greitt aðgöngu og enginn vegur að ná hellinum. Sveitamenn veittu strax svo harða aðsókn, að hinir hjeldust ekki við, enda var liðsmunur ákaflegur, því sveitamenn höfðu verið milli 50 og 60. Fjárrekstur útilegumanna tvístraðist brátt, enda gáfu menn þá engan gaum að fjenu.
henglafjoll-224Hellismenn tóku nú að flýja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af hinum mesta ákafa og mest þeir, sem fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan og vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Þar eru melar og skriður, segja kunnugir menn; eru þar kölluð „Þjófahlaupin” enn í dag sem örnefni síðan. Allir voru hellismenn drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði, því undan hlupu þeir slíku ofurefli meðan þeir gátu uppi staðið sökum mæði.
Nú voru hellismenn allir unnir, en fylgiskonur þeirra voru enn í hellinum. Þær höfðu veitt hart viðnám, en svo er haft eftir þeim mönnum, sem í atförinni voru, að svo ilt sem hefði Verið að sigra hellisbúa. Þá hefði þó hálfu verra verið að vinna fylgikonur þeirra. En samt að lokum urðu þær teknar og fluttar burtu og er ekki getið að þær sýndu neinn mótþróa eftir að þær komu undir annara manna hendur.
Jón hjet maður, sem kallaður var „yddú”, Jónsson hins harða í Ossabæ, Sigurðssonar Þorkelssonar Jónssonar. Jón var fæddur 1777. Hann var hverjum manni flinkari, ófyrirleitinn og harðfengur í meira lagi, nokkuð ertinn og kappsfullur, starfsmaður mikill og þrekmaður hinn mesti. Ekki fara sögur af honum í æsku. Hefir hann líklega alist upp hjá foreldrum sínum. Þegar hann var um tvítugsaldur var hann vinnumaður í Reykjakoti. Þá var það eitt sinn í fjallgöngum, að Jón kleif upp í þennan umtalaða hellir útilegumannanna. Ekki getur þess, að Jón fyndi þar neitt merkilegt. En öskuleifar litlar voru í einum stað utan við hellisopið, enda hefir alt verið tekið burt þaðan, hafi nokkuð verið að taka, þegar útilegumenn voru unnir.
henglafjoll-225Nú var Jón í hellinum og hafði tvisvar gert tilraun að komast niður, en hikað við. Sá Jón nú, að ekki dugði að vera þar til lengdar og rjeð því til enn að nýju og komst með naumindum alla leið niður fyrir hellisbergið og ómeiddur að öllu leyti. Hafði hann svo sagt, að ekki mundi hann leggja upp í aðra för í þann hellir. Hefir þetta verið kringum aldamótin 1800, eftir því sem næst verður komist, og vita menn hjer ekki til að síðan hafi neinn maður farið upp í þennan hellir.
Það er og haft eftir Jóni „yddú”, að þegar útilegumennirnir komu með fjárhópinn, að þá hafi sveitamenn skipað sjer alt í kring og slegið hring um þá, en þó sluppu þeir allir til að byrja með, og byrjuðu þá strax eltingar. Það hafði og verið mestur tálmi hjá hellismönnum, að þeir voru illa skóaðir, en sveitamenn betur bimir til handa og fóta, og mest höfðu hellismenn fallið fyrir grjótkasti og bareflum, er hinir höfðu, en eiginleg vopn voru fá eða engin.
Sögu þessa hafði Jón „yddú” eftir Jóni harða föður sínum og Sigurði Þorkelssyni afa sínum, en Jón „yddú” sagði aftur Hávarði gamla Andrjessyni, en þeir voru samtíða á Völlum meir en 20 ár, en Hávarður sagði oft gömlum karli, sem enn er á lífi. Jón „yddú” var hrekkjóttur í uppvexti, en svo fimur, að til þess var tekið. Ilann var og ágætur vinnumaður til hvers er taka þurfti, og eru fáeinar smásagnir til um hann.
Ólafur hjet maður Sigurðsson. Hann bjó í Húsagarði á Landi, ókvæntur var hann og átti ábýlisjörð sína. Hann var að langfeðgatali kominn frá Torfa í Klofa og Lofti ríka (fæddur nálægt 1848). Fremur var hann lítill vexti og ekki mjög efnilegur, tileygður og nærsýnn, hagorður vel og fróður um margt, glettinn og gamansamur og ágætur í viðkynningu. Ólafur var vermaður í Þorlákshöfn í margar vertíðir og þótti allgóður háseti. Hann sagði þeim, er þetta skrifar, svo frá — þeir voru lagsmenn 1894 og 1895: Að í Dalseli undir Eyjafjöllum hefði verið kerling ein, sem Vilborg hjet. Hún hefði dáið um 1800 og verið þá talin 100 ára, hefir eftir því verið fædd um 1700, líklega þó nokkuð seinna. Hún hefði verið fædd í hellinum í Henglinum (Skeggjanum) og verið dóttir einhvers af útilegumönnum þeim. sem getið hefir verið. Hún hafði verið mjög undarleg í skapi, vildi aldrei um útilegumenn tala, giftist ekki og átti aldrei barn. Þegar húsmóðir hennar ól börn sín, var kerling jafnan hin reiðasta og kvað maklegt þó húsmóðirin fengi að kenna á sínum hlut, því þetta væru sjálfskaparvíti, og verða þar að auki að stríða við þessa óþægu krakka í viðbót og hafa aldrei næði til nokkurs hlutar.
Ólafur trúði þessu um kerlingu og kvaðst hafa þetta eftir þeim mönnum, er vel mundu hana, en hvort þar hefir verið rjett sagt frá í alla staði, skal hjer ósagt látið.
Hefi jeg svo engu við að bæta um hellirinn, því jeg hefi aldrei orðið svo frægur að skoða hann, því til þess þarf að gera sjer sjerstaka ferð, ef vel ætti að vera. En sjálfsagt hefir hellir þessi verið notaður oftar sem nokkurskonar þrautalending í vandræðum, þegar stór hegning eða líflát lá við smávægilegum afbrotum – Þ. S.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939, bls. 30-31.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.