Kistufell
Fregnir höfðu borist af a.m.k. tveimur álitlegum og áður ómeðvituðum götum í Kistu í Brennisteinsfjöllum.
Stefnan var því tekin síðdegis upp úr Fagradal, út (austur) með hraunbrúninni ofan hans og inn á slétt helluhraun Eldborgar. Kistan blasti við í langri fjarlægð, mitt á milli Kistufells í norðri og Eldborgar í suðri. Þátttakendur voru léttbyrgðir, enda farið hratt yfir. Þarna hefðu reiðhjól komið sér vel til að flýta för því hraunhellan var næsta slétt alla leið upp að fjallsrótum Kistu.
Síðdegissólin var byrjuð að gylla fjöllin, sem færðust óðfluga nær. Þessi nálgun Brennisteinsfjalla er ein sú tilkomumesta; fallegt útsýni með rauðleitum eldborgum nánast alla leiðina, ólík hraunsvæði á báðar hendur, “svartur” helluhraunsdregill Kistuhrauns fyrir fótum undirvert og heiðblár himininn ofanvert. Brennisteinsfjallasvæðið hefur hingað til ekki verið aflögufært með vatn, en á þessari leið eru vatnsstæðin í grónum hraunbollum allnokkur.
Brennisteinsfjöllin eru með áhugaverðari útivistarsvæðum landsins. Sem dæmi um áhugaleysið, sem þeim hefur verið sýnd, má benda á kort af svæðinu, en á þeim virðast fjöllin vera eyðimörk. Fjölbreytni jarðmyndana, gróðurbreytingar og formfegurð náttúrunnar eru þó óvíða meiri en einmitt þarna. Þá hefur jafnan verið haldið fram að Brennisteinsfjöll væru erfið yfirferðar vegna vatnsskorts, en það er nú öðru nær. Auðvelt er að nálgast vatn í fjöllunum, hvort sem um er að ræða ofan jarðar eða neðan.
Í þessari ferð uppgötvuðust m.a. tvær rásir með nokkrum jarðföllum, önnur nálægt 3 km löng úr vestari Kistugígnum og hin til hliðar við meginrás Kistufells hrauntraðarinnar. Reyndar eru hrauntraðir Kistufellsgígsins tvær. Sú vestari er vel gróin, en stutt, en sú austari er mikilfengleg eftir að hún opnast á hraunsléttunni norðvestan fellsins. Af stærðinni að dæma má ljóst vera að þarna hafi farið um mikill hraunmassi í fljótandi formi. En meira um það síðar.
Auk þessa uppgötvuðust nokkur op á mismunandi stórum hellum. Allt var þetta skráð samviskusamlega og fært í “hellaskrána”, sem nú telur rúmlega 400 hella á Reykjanesskaganum.
Eftir þessa ferð í Brennisteinsfjöll er ljóst að fjallgarðurinn beggja vegna er líkur götóttum osti. Ef vel er gáð má finna op niður í rásir hvar sem stigið er niður. Stærstar eru rásirnar norðvestan Kistufells, en þar eru hellarnir líka stystir, en umfangsmiklir. Lengstar eru rásirnar úr vestanverðum Kistugígnum, eða um 3 km eins og áður sagði. Rásin er hins vegar á svæði, sem hvað “afskekktast” er í Brennisteinsfjöllum. Hliðarrásin í meginrás Kistufellsgígs er geysistór, en ókönnuð. Vatn er á gólfi hennar fremst svo vaða þarf inn í hana. Engin op er að sjá á henni norðan meginopsins.
Skemmtilegasta atvikið, og það er sannfærði leiðangursmenn um að þarna hefðu verið menn fyrrum, var innan við eitt af stærstu opum Kistuhraunshellanna (3 km). Undir hellisveggnum var rautt bitabox, bambusstafur og nokkrar stuttar fjalir. Þegar bitaboxið var opnað komu í ljós nokkrir litlir timburstafir, sérhver merktur með tölustöfum sem og tveir tússpennar (sjá mynd). Líklega hafa einhverjir verið að merkja jarðföllin í rásinni og annaðhvort gleymt kassanum og öðru, sem þarna var, eða ákveðið að geyma það þarna. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um tilganginn og annað er laut að framkvæmdinni. Við boxið var lítil þrýhyrnd seglveifa. Skammt ofar í rásinni var hið gerðalegasta vatnsstæði.
 Rásinni var fylgt upp hraunið, alla leið að rótum Kistuhrauns. Á henni eru fjölmörg op og víða hrun í rásum svo ekki er hægt að tala um samfelldan helli frá fyrsta jarðfalli til upphafsins, en rásin er í heildina a.m.k. 3 km sem fyrr er á um kveðið.
Þegar upp í vestanverða Kistu var komið var punktur tekinn á Snjólf. Fyrst var þó talin ástæða til að koma við í eldborginni norðan undir hlíðum Háborgarinnar (þeirrar er trjónir hæst), austan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum, sem lætur minna fyrir sér fara, en hefur gefið hvað mest fóður af sér.
Frá brún eldborgar sést vel til Vestmannaeyja og Eyjafellsjökuls í austri og Hálsanna (Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í vestri. Í raun má segja að þarna sé eitt stórbrotnasta útsýni sem hugsast getur (í góðu skyggni).
Þá var kíkt á og niður í Lýðveldishelli. Rásin ofanverð er bæði heilleg og auðvel uppgöngu. Í heild er hellirinn um 200 metrar. Skammt austan við opið er annað op á annarri samhliða rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni, heldur var stefnan tekin á Snjólf. Opið er þarna skammt norðar. Það lætur lítið yfir sér, er bæði lágt og lítið. En þegar farið er undir hraunbrúnina að sunnanverðu og vent til austurs koma í ljós fallegar rásir, bæði til austurs og norðvesturs. Dropsteinar eru á gólfum, einkum í vestlægari rásinni. Einn er t.a.m. ca. 40cm hár og nokkrir aðrir standa þar þétt við hann. Dropsteinshellar eru sjaldgæfir í Brennisteinsfjöllum og því er þessi litli, en netti, hellir kærkominn – þar sem hann er. Hraunstrá eru í loftum.
Leitað var að tveimur opum í Kistu, sem spurnir höfðu borist af. Annað reyndist nánast efsti hlutinn af fyrrgreindri 3 km rás úr vestari hluta Kistu og hitt reyndist vera nánast efsti hluti af rás úr austari hluta Kistu. Hið síðarnefnda var op niður í stóra rás, en stutta (vegna hruns). Rásinni var fylgt spölkorn til norðvesturs og má telja nokkur lítil op á henni. Hún er þó í heildina fremur stutt (á Brennisteinsfjallamælikvarða).

Þegar rás var rakin upp til rótar vestari Kistugígs komu í ljós nokkur op. Eitt af þeim efri var sérstaklega áhugavert. Greinilegt var að enginn hafði farið þangað inn áður. Einstaklega fagurrauðir separ voru í loftum og rásin reyndist öll hin rauðasta. Þessi hluti var nefndur “Fagurrauður”. Hann er skammt neðan við KIS-04, en ekki er samgangur þarna á milli. Fagurrauður gæti því verð rás til hliðar við KIS-04. Þegar sá hellir var skoðaður komu í ljós einir tilkomumestu “hraunsveppir” er um getur.
Stefnan var tekin á Kistufellshella. Til að komast þangað var að fara yfir norðaustanvert Kistuhraunið og síðan yfir vestari hrauntröð Kistufellsgígsins. Hún er vel gróin. Kistufellshellarnir eru í geysistórum jarðföllum, sem þó mynda hvergi ákveðna heild. Um er að ræða grágrýtishella, stóra, en án sérstakra myndana. Mikið hrun er í mörgum þeirra. Áhugaverðastur af þeim er Jökulgeimur, íshellirinn, en ekki var farið niður í hann að þessu sinni. Sennilega er myndun hans komin af því að opið snýr mót norðri svo sólin nær ekki að skína inn um það og verma innvolsið. Snjóskafl var enn við opið – og það í júlí.
Leitað var tveggja opa á sléttri hraunhellu skammt frá austari hrauntröð Kistufellsgígsins. Þessi op, tveggja ferfaðma að stærð með ca. 15-20 metra niðurhali, fundust í einni FERLIRsferðinni fyrir nokkrum árum (fyrir tíma GPS-tækjanotkunar), en þrátt fyrir leit á líklegum stöðum endurfundust þau ekki að þessu sinni.
Hrauntröðinni var fylgt til vesturs. Í fyrstu er hún lítil og gróin í botninn, en skyndilega stækkar hún til muna. Austan stækkunarinnar fundust nokkur op á myndarlegum rásum. Ein þeirra var sérstaklega áhugaverð. Þar var tekinn GPS-punktur. Hliðarrás opnast og innan við opið er stór og mikil rás. Vatn er á gólfi svo henni var ekki fylgt inn eftir að þessu sinni. En það mun verða gert innan ekki langs tíma.
Í BrennisteinsfjöllumLjóst er að hliðarrásinar hafa loks runnið saman þar sem megin hrauntröðin opnast. Þar hefur farið um gríðarlegur hraunkvikumassi. Hraunbrú er yfir tröðina nálægt þar sem hún opnast og nokkur hellisop má sjá við brúarskil neðar. Forvitnilegt er að horfa eftir endaþarmi rásarinnar þar sem Kistuhraunið (sem er nýrra) hefur náð að renna að henni og færa hluta þess undir sig.
Þokuslæðingur hafði færst yfir Fjöllin og gerði hið smæsta dulúðlegt við hina minnstu ásýnd. Haldið var niður eftir hinu slétta Kistuhrauni uns komi var að brún Fagradals. Fótur var þræddur niður mosavaxna suðurhlíða hans og gamalli götu síðan fylgt að upphafsstap.
Á göngunni mátti greina grópaðan götustubb á einum stað í Kistuhrauni. Gæti þar verið um að ræða hina gömlu leið Stakkavíkurbræðra með rjúpnafeng sinn til sölu í Hafnarfirði er Þorkell og Eggert Kristmundssynir lýstu á sínum tíma. Þá var farið upp með Eldborginni, er blasir við, og niður Fagradalsmúla. Þessi götustubbur er einmitt á þeirri leið.
Segja má með góðri samvisku að enginn hafi í raun komið í Brennisteinsfjöll hafi hann ekki farið um Fagradal og Kistuhraun.
Gangan tók 6 klst og 60 mín. Meðalhraðinn var 3.2, en á göngu 3.9. Samtals voru gengnir 21.5 km, sem verður að teljast nokkuð gott á 7 klst. Frábært veður – og birtan einstök.

Hellir