Arnarsetur

Gengið um Arnarseturshraun og Skógfellahraun með áherslu á nálægð við Arnarsetur, gígsvæðið. Ætlunin var að kíkja í nokkra hella á svæðinu, s..s. Arnarseturshelli, Hnappinn (Geirdal) og Hestshelli, auk þess sem tilgangurinn var að leita eftir áður óþekktum hellaopum í hraununum.
Hrauntröð í ArnarsetriÞegar komið var upp í megingíg Arnarseturs var tilvalið að staldra við og rifja upp uppruna og þróun sköpunarverksins. Miðað við að elsta berg á Íslandi (myndaðist í hraungosi) geti verið um sextán milljón ára gamalt verður Reykjanesskagi að teljast ungabarn á þeim mælikvarða því talið er að elsta grunnbregið á Skaganum geti verið um tvö hundruð þúsund ára gamalt, þ.e. Stapinn og Rosmhvalanesið. Hraunin eru hins vegar allflest frá sögulegum tíma eða yngri en tólf hundruð ára. Tímatal jarðfræðinnar og þróun grundvallast á grágrýti frá síðasta hlýskeiði, móbergsmyndunum frá síðasta jökulskeiði og hraunum frá nútíma. Það merkilegasta við  Reykjanesskaga er að hann er a) úthafshryggur á þurru landi, b) eldstöðvakerfi án „megineldstöðvar“, c) þverbrotabelti, d) gosmyndanir undir jökli, e) móbergshryggir og -stapar, f) gosmyndanir undir berum himni og g) sprunguhraun og dyngjur. Eins og sjá má er ekki af svo fáu að státa á ekki stærra landssvæði.
Hús í ArnarsetriOg þá svolítið um aldur og tilurð hraunanna á sögulegum tíma. Arnarseturshraunið rann árið 1226 líkt og Stampahraun utar á Skaganum. Þó eru nokkur hraunanna eldri, s.s. Afstapahraun frá því um 900 og Svínahraun frá árinu 999 eða 1000. Árið 920 kom upp gjóskulag í gosi á Reykjanesi, en staðsetning þess er óviss. Þannig háttar til að nýrri hraun hafa runnið að hluta til yfir þau eldri og stundum sveipað upprunastað þeirra slæðu.
Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru framangreind gos frá 10. öld, svonefndir Bláfjallaeldar. Goshrinan hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000. Í þessum gosum mynduðust feiknarmikil hraun.
Samkvæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á InnandyraReykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200–300 ár. Miðgosið á Reykjanesskaga er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þá náði gossprungan í Trölladyngju og eru eldarnir stundum nefndir við hana. Árið 1188 gaus enn og þá mynduðust Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun. Óvíst er hversu sú goshrina stóð lengi yfir, en ætla má að hún hafi verið fremur stutt.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga. Á þessu tímabili er vitað skv. öskulagarannsóknum, að gosið hafi árið 1223. Það var undan Reykjanesi og er staðsetningin óviss. Árið 1225 gaus einnig undan Reykjanesi, en staðsetningin er einnig óviss.
Þorbjörn kallast á við ArnarseturÁ árunum 1226-27 urðu nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og hraunið undir fótum vorum; Arnarseturshraun. Sandvetur fylgdi í kjölfarið af völdum mikils öskugoss við Reykjanestá og féll þá svokallað Miðaldalag, sem oft er miðað við þegar aldursgreina á hraun eða mannvistarleifar. Öskulagið er svart og fínkornað. Harðindi og mikið mannfall fylgdu í kjölfarið.
Skömmu síðar, eða árið 1231 gaus undan Reykjanesi. Einnig árið 1238 og 1240, en í öllum tilvikum er staðsetning óviss.
Engin hraun frá 14. öld hafa fundist á Reykjanesskaga. Hins vegar gaus á 15. öld, eða árið 1422 og þá út undan Reykjanesi. Eyja myndaðist og stóð í nokkur ár. Síðan leið og beið. Skaginn svaf rólega um aldir eða allt til 1783. Þá gaus á Reykjaneshrygg suðvestur af Eldey. Nýey reis úr sjó en hvarf fljótt aftur. Eldey, sem varð til á fyrri hluta 13. aldar, er einu verulegu ummerkin eftir jarðeldana utan við Reykjanesið, enn sem komið er a.m.k.
Í Arnarsetri urpu fyrrum ernir að sögn Bjarna Sæmundssonar. Út frá megingígnum er falleg hrauntröð og mikilfenglegHrauntröð í Arnarsetri kvikutjörn.
Gengið var eftir fyrirfram ákveðinni leið, þ.e. um svæði, sem FERLIR hafði ekki skoðað sérstaklega í fyrri ferðum um svæðið. Og eins og svo oft áður fannst svolítið merkilegt – áður óþekkt. Þegar tiltekið svæði með ótrúlegum hraunmyndunum var skoðað mjög nákvæmlega kom skyndilega í ljós “hús”. Hlaðið hafði verið fyrir hellisop. Utan við opið hafði verið flórað og innan við opið voru manngerð þrep. Slétt gólf er í hellinum og loftið braggalaga. Þarna hafa einhverjir kunnáttumenn gert sér athvarf um tíma. Fyrirhleðslan var mosavaxin og í hraungambranum fyrir framan opið voru hvergi ummerki eftir nýlegar mannaferðir. Ekki er ósennilegt að einhverjir í vegavinnuflokknum, sem gerði gamla Grindavíkurveginn á árunum 1913-1918, hafi átt þarna hlut að máli. Flokkurinn var á þessum slóðum árið 1916. Húsið er þó allnokkurn spöl frá hlöðnu vegavinnubúðunum á Gíghæð.
Hið smáa í Arnarsetri er líka fallegtÞegar gengið er um hinar stórbrotnu hrauntraðir og djúpu kvikutjarnir Arnarseturs mátti glögglega gera sér grein fyrir hversu feikilega fallegt og merkilegt þetta landssvæði er, bæði út frá jarðfræðilegum forsendum og ekki síður út frá nærtækum náttúruverðmætum. Eins og síðar kemur fram í tilvitnaðri umfjöllun Björns Hróarsson, jarð- og hellafræðings hefur Arnarsetri verið raskað verulega – og er þá hóflega tekið til orða. Staðreyndin er einfaldlega sú, ef tekið er mið af framangreindu, að svæðið sem heild (eldstöð frá sögulegum tíma) gæti hafa orðið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á gjörvöllum Reykjanesskaganum. Fyrir skammsýni (eða af þekkingaleysi) hefur þessari náttúrperlu verið raskað verulega. Eftir standa á hrauntraðirnar og kvikutjarnirnar fyrrnefndu, sem og hellarnir, sem nú verður lýst nánar.
Í bókinni “Íslenskir hellar” (2006) segir höfundurinn, Björn Hróarsson m.a. eftirfarandi um Arnarseturshraun, Hnapp (Geirdal) og Arnarseturshelli:
Arnarseturshellir“Arnarseturshraun (100 m.y.s.) hefur runnið frá miklum gígum þar sem heitir Arnarsetur og eru skammt austan við Grindavíkurveg, norðan Vatnsheiðar. Þar hefur gosið á stuttri gígaröð með aðeins þremur gígum, sem nú eru mjög skemmdir af efnistöku. Hraun rann til allra átta út frá Arnarsetri. Til norðurs nær hraunið að Snorrastaðatjörnum en til suðurs langleiðina að Svartsengi. Grindavíkurvegur liggur umhraunið langleiðina frá Reykjanesbraut að Svartsengi. Arnarseturshraun er um 22 ferkílómetrar að flatarmáli og talið allt að hálfur rúmkílómetri. Talið er að hraunið hafi runnið skömmu fyrir árið 1230.”
Um Arnarseturshelli segir Björn: “Gígurinn sjákfur við Arnarsetrið er stórbrotinn. Einnig annar stærri skammt austar. Hellirinn er norðan við gíginn. Frá honum liggur stígur til vesturs norðan við Arnarstetrið. Op hellisins er stórt. Botninn er sléttur og gott rými inni í hellinum. Hann er opinn til beggja enda og um 30 metra langur. Þegar jarðföll og rásir sunnan við hann eru taldar með er heildarlengdin um 75 metrar.”
Hnappur, eða Geirdalur, er miðja vegu milli Arnarseturshellis og Hestshellis til norðurs. “Geirdal er fHnappurjölbreytilegur hellir og margslunginn. Þótt hann virðist ekki langur við fyrstu sýn er heildarlengd hans 213 metrar. Lítið er um skraut en hellirinn hefur þó upp á margt að bjóða. Inngangan er í gegnum þröngt, djúpt, op. Þegar niður er komið er hægt að velja um efri og neðri hæð. Efri hæðin lokast fljótt en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfosso. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega og er þar mikill salur. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring. Upp úr einni af þessum rásum er annað op á hellinum.
Hnappsnafnið er þannig til komið að þegar hellamennirnir Ingi Óskarsson og Frímann Grímsson könnuðu hellin héldu þeir lengi vel að þeir væru fyrstu mennirnir þar inn. Skyndilega heyrði Ingi hvar Frímann bölvaði ógurlega, sá hann beygja sig og taka upp tölu, trúlega af skyrtu. Eftir tölunni gáfu þeir félagar hellinum nafn sitt. Jóhann Geirdal kortlagði hellinn ásamt fleirum 1984. Einhver þeirra félaga hefur líklega týnt hnappi þeim sem Frímann fann og nefndi hellinn eftir.”
Hestshellir er fast við Grindavíkurveginn að austanverðu. “Hellirinn liggur undir veginn. Miklar hleðslur eru við munnann og mynda þær reglulegar dyr. Hellirinn er hæstur og víðastur fremst, en lækkar og þrengist eftir því sem innar dregur. Hvergi er hátt til lofts í hellinum, lofthæðin er víðast hvar innan við einn metri. Hellirinn kvíslast í margar áttir, innarlega eru tvö op lítil op til yfirborðs er bera birtu inn. Inn við hellisbotn er töluvert um útfellingar og víða í hellinum myndar hraunið sérkennileg form. Heildarlengd hellisins er um 200 metrar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Arnarsetur