Krýsuvík

Fróðlegt er að lesa manntöl, einkum síðustu alda. Manntal frá 1802 gefur t.a.m. góðar upplýsingar um búsetu og fólk í Strandar- og Krýsuvíkursókn, en Grindavík heyrði þá undir þá síðarnefndu.
Manntöl frá 1816 og 1822 gefa auk Torfbaerþess ágæta yfirsýn yfir fjölda bæja og fólks í Selvogsþingi og Staðarsókn í Grindavík. Manntal frá 1845 getur enn um Krýsuvíkursókn og Staðarsókn í Grindavík líkt og manntalið frá árinu 1822. Mikil breyting virðist hafa orðið á svæðunum á tiltölulega skömmum tíma.
Í manntalinu frá árinu 1802 er getið um 17 bæi í sókninni. “Hlyd” er þá enn í byggð sem og “Hialeje”, “Salthóll” og “Beggjakot”. Sautján eru þá heimilisfastir á Wogsosar (Vogsósum). Húsbóndinn er Benedikt Sveinsson, sóknarprestur (36 ára). Eiginkona hans er Oddni Helgadóttir (33 ára). Á Hlyd (Hlíð) búa Egill Jónsson, útvegsbóndi, og Guðrún Guðmundsdóttir ásamt sjö öðrum. Í Stachavÿk (Stakkavík) búa Biarne Björnsson og Gudrun Jonsdottir. Í sókninni búa þá 115 manns á 17 bæjum. Í dag má telja íbúana á fingrum annarrar handar.

Minnismerki um horfin bæ, Strönd, í Selvogi

Í Krýsuvíkursókn eru 5 bæir árið 1810; Krisivik, Nordurkot, Sudrkot, Store Niebær og Litle Niebær. Húsbóndinn í Krýsuvík er þá Guðmundur Þorsteinsson og húsfreyjan Agnes Jonsdottir. Auk þeirra búa þar níu aðrir. Í sókninni búa all 39 manns.
Manntalið var tekið saman af Jóni Jónssyni, presti í Vogssósa- og Krýsuvíkursókn. Sama ár tók Benedikt  Ingemundsen, prestur í Grindavíkursókn og bóndi á Stað, saman manntal fyrir sóknina. Íbúar voru 146 talsins, þar af ellefu á Stað, 17 á Járngerðarstöðum og 20 á Þórkötlustöðum. Bæirnir voru 24 að Ísólfsskála meðtöldum, en þar bjuggu þá 5 manns; John Nicolausson (48 ára) ásamt eiginkonu (49 ára), Solveigu Bjarnadóttur, tveimur börnum og fósturbarni.
Tóftir Lækjar í KrýsuvíkTæpum fimmtán árum síðar (1816) eru íbúar í Selvogssókn 118, en þá hefur sóknin verið sameinuð Krýsuvíkursókn. Af þeim eru 30 búandi í Krýsuvík og 8 í Herdísarvík, þ.e. Árni Þorsteinsson og Rannveig Jónsdóttir ásamt þremur börnum, eiginkonu annars þeirra, ógiftum vinnumanni, ógiftri vinnukonu og niðursetningi (17 ára gömlum) frá Beggjakoti. Húsbóndinn í Krýsuvík er Árni Þorvaldsson frá Þórkötlustöðum og húsfreyjan Þuríður Jónsdóttir úr Villingaholtshreppi. Þar eru þá 11 íbúar, sami fjöldi og árið 1802. Enn eru og 5 bæir í byggð, en 16 í Selvogi (hafði fækkað um einn).

Nesviti

Nesviti – leifar gamla vitans, sá nýi fjær.

Í manntalinu árið 1845 eru 8 bæir í byggð í Krýsuvíkursókn. Nú, árið 1822, höfðu bæst við nýbýlið Lækur og hjáleigurnar Vigdísarvellir og Bali. Að Læk bjó Halldór Magnússon og Margrét Þorleifsdóttir ásamt tveimur börnum og móður húsbóndans. Á Vigdísarvöllum bjuggu Ólafur Þórðarson úr Stokkseyrarsókn og Guðrún Halldórsdóttir úr Grindavík með fjórum börnum þeirra. Á Bala bjuggu Einar Þórðarson, grasnytsbóndi, og Guðríður Jónsdóttir, einnig með fjórum börnum sínum. Öll börnin átta voru fædd á bæjunum tveimur. Beinteinn Stefánsson (29 ára) frá Hjallasókn er þá búandi í Krýsuvík ásamt eiginkonu sinni, Jórunni Gísladóttur (46 ára), ásamt dóttur þeirra, Sigríði, sonur hennar, Þorsteinn Magnússon sem og móðir hennar, Gróa Helgadóttir. Bergsteinn Þorkelsson (43 ára) og Sigríður Jónsdóttir (45 ára) búa þá í Krýsuvíkurbænum ásamt tveimur börnum þeirra, Þorkeli (11 ára) og Jónasi (7 ára). Íbúar sóknarinnar eru þarna 54 talsins. Sóknin virðist vera í örum vexti, en allir íbúarnir eru aðrir en voru þar 23 árum fyrr.
Þetta árið bjuggu 190 manns í Staðarsókn, hafði fjölgar um 44 síðan 1810, eða að jafnaði um  einn og hálfan á ári. Tóftir að Nesi í SelvogiBæirnir voru líka orðnir 29 að tölu, hafði fjölgað um 4. Stóragerði, Móakot, Kvíadalur og Bergskot höfðu vaxið upp í Staðarhverfi og svo virðist sem vöxturinn hafi mestur verið þar. Járngerðarstaðabæirnir eru nú orðnir tveir og Þórkötlustaðarbæirnir fjórir talsins. Þar býr Sveinbjörn Þórðarson, útvegsbóndi, ásamt Margréti Guðmundsdóttur, bæði fædd á staðnum, ásamt 5 öðrum. Alls búa þá 25 manns á Þórkötlustaðabæjunum. Í Einlandi býr þá Eiríkur Erlendsson og Ingibjörg Þorláksdóttir, dóttir þeirra Guðrún og niðursetningurinn Jón Stephansson (73 ára). Á Hrauni, sem þá er orðið tvíbýli, eru 20 manns, þ.a. Jón Jónsson, hreppsstjóri, fæddur á bænum, og eiginkona hans, Guðbjörg Gísladóttir. Hér er komin skýringin á svonefndum Guðbjargarhelli, sem er skammt fyrir ofan Hraun, en þangað mun húsfreyjan hafa leitað er hún vildi vera í næði. Á hinum bænum býr Guðmundur Jónsson, fæddur á Hrauni, og Valgerður Hafliðadóttir. Börn þeirra eru Gísli, Valgerður og Gróa. Hafliða- og Gíslanöfn hafa loðað við bæinn æ síðan.
Á Torfbaer-3Járngerðarstöðum býr Einar Jónsson, fæddur á bænum, og Sigríður Guðmundsdóttir úr Reykjasókn. Alls eru 13 manns vistaðir á bænum og 21 á báðum Járngerðarstaða-bæjunum, mest vinnufólk og venslafólk. Niðursetningurinn, Einar Magnússon, var þá 14 ára. Á Stað var Geir Jónsson Backmann (42 ára) frá Miklaholtssókn, prestur, og eiginkona hans, Guðríður Magnúsdóttir (38 ára) frá Reykjavík ásamt tveimur börnum, Stephan og Sigríði og tveimur tökubörnum, Þórði og Ragnhildi. Alls bjuggu þá 11 manns að prestsetrinu Stað. Vernharður Ólafsson (65 ára) frá Gaulverjabæjarsókn bjó að Stóragerði ásamt Sigríði Björnsdóttir (64 ára), fæddri í hverfinu. Litlagerði virðist ekki hafa verið orðið til á þessum tíma. Á Húsatóftum bjuggu þá 16 manns; Jón Sæmundsson, útvegsbóndi, frá Kirkjuvogssókn, og Margrét Þorláksdóttir frá Húsatóftum. Niðursetningurinn var Margrét Sveinsdóttir, þá 13 ára, frá Húsatóftum.

Torfbaer-4

Í manntalinu 1910, eða fyrir tæplega einni öld síðan, segir m.a. frá því að í Krýsuvíkursókn hafi búið 25 manns í tveimur bæjum. Hér hafa orðið mikil umskipti á 65 árum þegar íbúarnir voru 54 talsins á 8 bæjum. Einungis Krýsuvík (hér er bæjarheitið loksins ritað með “ý”) og Stóri-Nýibær eru í byggð. Á fyrrnefnda bænum búa 11 manns og 14 í þeim síðarnefnda. Krýsuvíkurbærinn, þar sem Jón Magnússon, Hreppshólasókn, og Kristbjörg Sigurðardóttir, Brautarholtssókn, búa er nú timburhús, en Stóri-Nýibær, þar sem Guðmundur Jónsson frá Skarðshólasókn og Kristín Bjarnadóttir úr Gaulverjabæjarsókn búa, er torfbær með 3 heilþilum og 5 hálfþilum. Börnin eru þá orðin 9 talsins. Magnús Ólafsson (f:1872, d: 1950) frá Garðasókn er hér tilgreindur sem fjármaður og sláttumaður. Í báðum tilvikum er eigandi jarðanna tilgreindur fyrrverandi sýslumaður [og svikahrappur] Einar Benediktsson og stórkaupmaður í Kristjaníu í Noregi. Jarðirnar eru tilgreindar í Grindavíkurhreppi.

Tóftir við gamla Hópsbæinn í Grindavík

Í Grindavíkursókn eru þetta árið (1910) orðnir 62 bæir. Grindavík virðist því í mikilli sókn á meðan fækkar verulega í nágrannsveitunum og bæir hafa lagst þar af. Íbúarnir eru orðnir 275 talsins á 65 bæjum. Bæjunum hefur því fjölgað verulega, en íbúum á hverjum stað hefur fækkað. Á Ísólfsskála, torfbæ með hálfþili, var nú búandi Brandur Guðmundsson frá Breiðagerði og Estífa  Benidiktsdóttir frá Tjarnarsókn ásamt þremur börnum, elsta fætt í Suðurkoti í Krýsuvík 1898. Hrauntún er orðið til út frá Hrauni. Ábúandi er Guðmundur Loftsson (fæddur 1833) frá Sigluvíkursókn og Guðlaug Sveinsdóttir (fædd 1859) frá Hólasókn. Barn þeirra er Guðmundur (fæddur 1902). Þórkötlustaðabæirnir eru nú orðnir fimm, samtals með 35 íbúa. Þarna hefur orðið veruleg breyting frá síðasta manntali. Þórkötlustaðahverfið virðist vera í mestri sókn Grindavíkurhverfanna þriggja, Staðarhverfis, Járngerðarstaðahverfis og Þórkötlustaðahverfis. Á Þórkötlustöðum III býr Hjálmar Guðmundsson, óðalsbóndi, formaður og útvegsbóndi. Eiginkona hans er Helga Jónsdóttir frá Goðhól í Kálfatjarnarsókn. Benóný Benitiktsson og Ólöf Einarsdóttir búa að Þórkötlustöðum II ásamt 5 öðrum, en á höfuðbýlinu býr Jón Þórðarson og Valgerður Gamalielsdóttir.

Hus

Þurrabúðin Lambúshúskot er þá í byggð, auk Eyvindarstaða, Miðhúss, Vestur-Móa, Austur-Móa, Vestur-Buðlungu, Sunnuhvols, Þingeyrar, Efri-Grundar, Vallarhúsa, Valla, Austur-Akurhúsa, Suður-Gjáhúsa, Byggðarenda, Hæðarenda. Garða, Gimli, Bjargs, Grundar, Skemmu, Rafnshúss, Akrahóls, Akrakots, Krosshúsa, Dalbæjar, Merkis, Bergskots og Litla-Gerðis.
Eftir manntalið 1910 hafa orðið miklar breytingar á byggðaþróun framagreindra byggðalaga. Selvogur er nú “lifandi” minjasafn og Krýsuvík komin í eyði. Grindavík hefur hins vegar vaxið upp úr “öskustónni” og orðið að lífvænlegum bæjarkjarna. Miðað við nýjustu fréttir af áhuga þarverja á framtíðaruppbyggingu staðarins má ætla að fjölgunin muni á næstu árum og áratugum verða margföld m.v. það sem áður var. Nú er íbúafjöldi í Grindavíkursókn (fyrrum Staðarsókn) um 2800 manns á ótalmörgum bæjum (heimilum).
Benda má á manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands. Þar er nú hægt að leita rafrænt að fólki, eftir nafni, bæjum, sóknum eða stöðu í manntölunum 1703, 1835 og 1840-1910, alls 11 manntöl. Hægt er að láta kerfið leita í einu eða fleiri manntölum í senn. Sjá www.manntal.is. Hafa verður í huga að bæjarheiti eins og t.d. Krýsuvík, getur ýmist verið ritað Krýsuvík, Krísuvík eða Krísivík, því getur þurft að gera fleira en eina leit eða nota % þ.e. Kr%suvík. Sjá nánar leiðbeiningar á síðunni.

Heimildir:
-Manntal 1802.
-Manntal 1816.
-Manntal 1822.
-Manntal 1845.
-Manntal 1910.

torfbaer-2