Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík segir að “í bréfi sr Geirs Backmanns til biskups árið 1844 hafi hann notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. Vogamenn ásældust Selsvellina, en Grindavíkurprestur var einarður um að Vellirnir væru Grindavíkurbænda.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 naugripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þeta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestsetursins “leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu”. Ef þessu héldi áfram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir “óhemju átroðning og yfirgang”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Ennfremur segir og er þá vísað í skýrslu Guðrúnar Gísladóttur frá árinu 1993: “Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel sjá þær enn. ..Þarna eru rústir í hraunjaðrinum, sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í sel á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnvel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprests”. – Árið 1703 höfðust útileguþjófað við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár [Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir].
Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Selsvallaselsstígur.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli.
Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu.
Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Gengið um selsstíginn að Selsvöllum.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin.
Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli. Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.