Þórustaðastígur

Þórustaðastígur nefnist gamall götuslóði sem liggur frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp fyrir Vestriháls og að eyðibýlinu Vigdísarvöllum og Bala austan undir Núpshlíðarhálsi.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur. Her er hann sagður 12 km, en er allst 21 km.

Götuslóðinn byrjar um 200 m norðan afleggjarans að bænum og sér þess nú næsta lítil merki að þar hafi verið gata.
Gatan liggur um móa og moldarflag suðvestan við allmikinn klapparhól ofan við Gamla-Keflavíkurveginn. Þegar komið er upp fyrir hól þennan er stefna stígsins til austurs sjónhending skammt norðan við Trölladyngju. Nokkru ofar (um 1 km) liggur gatan um Þórustaðaborg en þar eru rústir stekks eða fjárborgar í vel grónum móa vestan undir allháum hól.
Frá Þórustaðaborg er stefnan áfram sú sama og fyrr er getið og að Lynghól, löngum hól, söðulbökuðum (þ.a. lægstum um miðjuna). Hóllinn er rétt ofan við miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur um hólinn miðjan og er mjög greinilegur þarna upp hólinn vestanverðan. Frá Lynghól er stefnan síðan suðaustlæg að stórum klapparhól sem nefnist Kolgrafarholt skammt ofan Reykjanesbrautar, en það dregur nafn sitt af tveimur djúpum, grasigrónum bollum sunnanvert í holtinu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Undir Kolgrafarholti austanverðu eru tóftir af sauðabyrgi frá Þórustöðum, þar var áningarstaður á leið í fjallið á haustin um Þórustaðastíg. Liggur gatan meðfram Kolgrafarholti norðaustanmegin. Frá Kolgrafarholti er stefna götunnar austan Sýrholts sem er allmikil hæð í heiðinni og liggur slóðinn þar sem lægst er á milli holtsins og Flekkuvíkursels en það stendur nokkuð fyrir neðan Grindarvíkurgjá. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f. 1858 kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.”

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur um Núpshlíðarháls.

Einiberjahóll heitir stór hóll skammt neðan Grindavíkurgjár og liggur stígurinn spölkorn vestan hans. Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Yfir gjána liggur stígurinn svo milli tveggja þúfna sem standa á vesturbarmi hennar en hærri bergveggurinn snýr til fjalla.
Þegar komið er upp fyrir Grindavíkurgjá er farið sem leið liggur í stefnu norðan til við Keili. Ofarlega í heiðinni liggur gatan vestan við stóran hól sem heitir Kolhóll. Stór skál er ofan í miðjan hólinn og eftir nafninu að dæma mætti halda að þar hafi verið kolavinnsla. Áfram liggur svo leiðin að norðurhorni Hrafnafells (Móbergsstapa rétt við Keili að norðanverðu) og síðan fram með því og að Keili. Frá þessu svæði liggur síðan Höskuldarvallarstígur yfir hraunið að Oddafelli.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Þórustaðastígurinn liggur áfram frá Hrafnafelli og er stefnan í suðaustur að Melhól en hann er spöl ofan Keilis við hraunjaðarinn að Driffelli. Fyrsti spölurinn er um brunakarga, stuttan veg, en svo eru sléttar klappir að fellinu. Stígurinn liggur síðan í sveig með Driffellinu að austanverðu og svo suður með því drjúgan spöl.
Þegar komið er á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla liggur leiðin yfir hraunhaft í stefnu fast sunnan við gíghólinn. Upp frá völlunum liggur gatan síðan upp gilið andspænis gígnum og þegar komið er upp á fjallið sveigir slóðin til suðurs.
Niður á túnið á Vigdísarvöllum er svo farið um skarðið vestan við Bæjarhálsinn og við gömlu reitina.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.