Vatnshólavarða
Um fiskimið við Grindavík
Síðan á landnámstíð hafa Íslendingar stundað veiðiskap, af miklum dugnaði og elju, bæði í vötnum og sjó. Svo er skráð um Hrafna-Flóka landnámsmann, að hann hafi misst fé sitt um veturinn, því hann gætti ekki þess að afla heyjanna um sumarið, vegna veiðanna, því Vatnsfjörður var fullur af fiski.

Keilir

Keilir.

Frumstæðasta hvöt alls, sem lifir, er að seðja hungur sitt. Þegar fiskur hefur fengið fylli sína og kannske etið yfir sig, svo maginn er við það að springa, tekur hann varla beitu en slær sér til rólegheita eða leggst á meltuna, eins og það er orðið, í holum, pollum eða við hraunbrúnir og hverja aðra mishæð, sem afdrep er. Þetta er kallað að fiskurinn sé lagztur.Heyrt hef ég það haft eftir Bjarna Sæmundssyni, að stórþorskarnir gömlu mundu að mestu leyti liggja kyrrir í hraunholum á grunnsævi og bíða þar ellidauða, sem karl og kerling í koti sínu, en lifðu aðeins af smáverum þeim, sem syntu eða bærust að munni þeirra. Ef til vill berst þeim svo einhvern tíma að munni góður biti og glæsilegur, en öngull er í því, maður matinn sendi eins og Jakob Thor. orðar það í kvæðinu ‘Tófan svanga’.Fyrr á tímum, allt fram yfir síðustu aldamót, var mest fiskað á handfæri og þá oftast legið við fast, á hnitmiðuðu fiskimiði, og vandað til beitu, svo sem bezt voru föng á. Menn höfðu fundið, að ekki var alls staðar jafn fiskisælt. Bezt aflaðist við hraunbrúnir eða í hraunholum og smápollum, þar sem sandur var í botni, en hraunhæðir í kring. Þessar fiskisælu matarholur voru miðaðar nákvæmlega á tvo vegu og gefin nöfn, sem oftast voru dregin af örnefnum þeim, sem miðað var við, eða hugkvæmni manna um nafnaval. Er mikill urmull slíkra fiskimiða frá eldri tímum með öllum Suðurnesjum og um allan Faxaflóa, fundin af glöggum formönnum áraskipanna.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Stundum tileinkuðu menn sér einstakar holur, sem þeir höfðu fundið eða lengi notað. Fannst þeir eiga þær og það væri orðin hefð. Þótti miður og varla rétt, ef annar var þar kominn á undan þeim. Þeir höfðu kannski dekrað við holu sína með niðurburði. En það var oft, ef beita var afgangs, svo sem ræksni (innyfli úr grásleppu), að því var kastað útbyrðis, ef straumlaust var, til þess að hæna fisk í holuna. Má nærri geta, að það var gjört fyrir sjálfan sig en ekki aðra.

Svo nákvæmt varð að liggja í nokkrum þessum holum, að legufærið var stundum dregið inn að nokkru eða gefið betur út, eftir því sem straumur jókst eða minnkaði. Stundum varð að taka stjórann og okra, eins og það var kallað, um örfáa faðma, til þess að sökkur og önglar kæmu niður á alveg sama punkti og áður með hinu fallinu. Þeir voru oft nákvæmir, gömlu formennirnir, og þetta voru nú þeirra vísindi. – Bergmál, Radar og fisksjá þeirra tíma.

Með þeim stórbreytingum, sem orðið hafa á skipastól og veiðafærum á liðnum aldarhelmingi, hefir áraskipum verið útrýmt með öllu. Togarar og sístækkandi vélbátar hafa sótt næstum eingöngu á djúpmið. Gömlu miðin áraskipanna hafa lítið eða ekkert verið notuð um áratugi og eru nú að gleymast. Grunnmiðin flest verða horfin úr minni manna með þeirri kynslóð, sem nú er á förum.

Þó mikið vanti á, að öll gömul fiskimið séu talin og mörgu sé illa lýst mætti þó þessi upptalning verða að nokkru liði fyrir þá ungu menn, sem nú eru að hefja lífsstarf á smáum trillubátum, auk þess að það eru þjóðleg fræði, sem skaði er að láta með öllu tínast.

Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

1. Lambrifshola. Keilir um Ósvöðu (á melnum austur af Skálareykjum. – Súlur um Þóroddstaði. Syðsti bær í Kirkjubólshverfi.
2. Sundpollur grynnri. Kolbeinsstaðavarða um skúr við sjóinn á túnmörkum Kirkjubóls og Vallarhúsa. – Súlur um Flankastaði.
3. Sundpollur dýpri. Kolbeinsstaðavarða um skúrinn áðurnefnda. – Súlur um Sandgerði. – Heimahúsið gamla.
4. Vatnshólshola grynnri. Skiphóll um Vatnshól. – Súlur um Fuglavík.
5. Vatnshólshola dýpri. Skiphóll um Vatnshól. – Súlur um Melaberg.
6. Einarshola grynnri. Digravarða um Tjarnarkot í Sandgerðishverfi. – Sandfell um Melaberg.
7. Einarshola dýpri. Digravaða um Tjarnarkot. Súlur um Melaberg.
8. Munkállinn Keilir um Endagerði. – Hvalneskirkja um Munkasetur á Bæjarskerseyri.
Miðin 1 –8 eru öll í þaranum og aðeins notuð á smábátum á sumartíma. Fyrir utan þaragarðinn eru ágæt veiðisvæði, sem heita:
9. Kirkjubóls-Labbar. Þar suður af eru:
10. Fitja-Labbar.
11. Bæjarklettur. Keilir um Flankastaðakot. – Digravarða um Sandgerði. – Heimahúsið gamla.
12. Sundpollur. Keilir um Digruvörðu – Hamarsund. – Bæjarsker um Búðina á Bæjarskerseyri.
13. Sandskarð. Keilir um Sjónarhól. Hann er landamerki milli Sandgerðis og Bæjarskerja. – Sýrfell um Hvalneskirkju.
14. Miðskarð I (öðru nafni Boðatorfa). Keilir um skarð milli vegamótahólanna á vegamótum Bæjarskers og Sandgerðis. (Gamli vegurinn) – Skálin um Stafnes.
15. Miðskarð II Keilir um skarð o.s.frv. – Skálin um Garðana, (sjávarhús Stafnesinga á Gelluklöppum).
16. Miðskarð III Keilir um skarð o.s.frv. – Sílfell um Stafnes.
17. Bæjarpollur. Keilir um Bæjarsker. – Skálin um Stafnes.
18. Bæjarlega. Keilir um Bæjarsker. – Skálin um Garðana.
19. Bæjarlega dýpri Keilir um Bæjarsker. – Sílfell um Stafnes.
20. Hleypisund I. Keilir um Hleypisundshól, (landamerki milli Bæjarskers og Fuglavíkur). – Skálin um Stafnes.
21. Hleypisund II. Keilir um Hleypisundshól. – Skálin um Garðana.
22. Hleypisund III. Keilir um Hleypisundshól. – Sílfell um Stafnes.
23. Hólsund. Keilir um Eyktarhólma, (fjörumerki milli Bæjarskers og Fuglavíkur). – Skálin um Stafnes.
24. Hólsund II. Keilir um Eyktarhólma. – Skálin um Garðana.
25. Hólsund III. Keilir um Eyktarhólma. – Sílfell um Stafnes.
26. Hólsund IV. Keilir um Eyktarhólma. – Sílfell um Garðana.
Miðin 13 –26 eru nefnd einu nafni “Skörðin”. Þar út af (dýpra) er hraunfláki, mjög fiskisæll, sem heitir:
27. Eldborgarhraun
28. Gunnvararpollur. Keilir norðan við Norðurkot. – Sílfell um Stafnes.
29. Snókur. Keilir um Vatnshólavörðu. – Hvalneskirkja í Súlutoppinn.
30. Tjarnarpollur. Keilir um varptjörnina, sunnan við Fuglavíkurtúnið. – Sandfell um Hvalneskirkju.
31. Melabergsmið. Keilir um Melaberg. – Vatnsfellið laust.
32. Állinn. Virkisvarða um Moshús (nú horfin) alla leið frá Másbúðarsundi að Bæjarskerseyri. Vor og sumar veiðisvæði, þarafiskur.
33. Nesjapollur. Keilir um Nesjar. – Móar á Vatnsfelli. (Sést aðeins ofan á Vatnsfell yfir Hafnabergstána).
34. Busthúsahola I. Keilir um Busthús til Nýlendu. – Eldborg dýpri langlaus.
35. Busthúsahola II. Keilir um Busthús. – Djúphallir-Hausar. Löngumið á agnar smáum blett, eins og hreiður.
36. Virkispollur. Keilir um Virkishól. – Vatnsfell laust.
Miðin 33 –36 eru nefnd einu nafni: Hvalnespollar.
37. Bakkholur. Keilir um bakkana frá Ærhólmum að Hólakotstúngarði. (Hólakot nú í eyði.) – Eldborg dýpri til skörðin. Fiskisælt svæði.
38. Stafnesállinn. Heiðarvarða og Urðarvarða saman frá Urðinni fram á Vatnsfell.
39. Álslegan er í Álnum þegar móar á Eldborg dýpri.
40. Stafsund. Heiðavarða um Skiphólma (uppsátur Stafnesinga). – Eldborg dýpri laus.
41. Glaumbæjarhola. Heiðarvarða um Glaumbæ (í eyði). Eldborg dýpri laus.
42. Rifshola. Heiðarvarða um Vallarhús. (Eyðirústir norðvestan við Stafnesbæinn.) – Vatnsfell laust.
43. Sandhúsahola. Keilir um Sandhús. (Eyðirústir sunnan við Stafnestúnið.) – Vatnsfell laust.
44. Stromphola. Keilir um strompinn á gamla bænum á Stafnesi. – Vatnsfell laust.
45. Djúpmið. Keilir um Gálga. – Vatnsfell laust. (Lúðumið og löngu).
46. Lega I. Keilir um Þórshöfn. – Vatnsfell laust.
47. Lega II. Keilir um Þórshöfn. – Skálahaus við Berg. (Lúðumið og skötu).
48. Þórshafnarhola. Keilir um Þórshöfn. – Eldborg grynnri.
49. Þórshafnarhraun. Nær frá Álnum og Keilir suður um brún.
50. Básendahola. Keilir um Svartaklett (hann er úti í sjó í Djúpuvík). – Karlinn laus.
Þá er ógetið merkasta fiskimiðs um aldir, en það er:
51. Stafnesdjúp. Það nær Keili suður um Brún (þar endar hraunið, en byrjar Hafnaleir, Hafnasjór) og Keilir norður um Ærhólma. (Þar fyrir norðan kölluðum við Norðurdjúp.) En á djúpmiðið: Rauðhól, Vörðufell, Stampar og Sílfell. Þetta var aðalveiðisvæði stórskipanna og annarra vertíðarskipa öldum saman. Milli Hvalnespolla og Stafnesdjúps eru miðin: Skálin, Reykirnir og Hraunþúfurnar. Þar þótti ekki fiskisælt og var minnst notað.
53. Súluállinn. Keilir um Útskála. – Þrjár botnsúlur farmundan Esju. (Lúðumið, löngu og skötu).

Kringum 1890 voru mönnuð út stórskip úr Flankastaðavör á vorin með einum eða tveimur mönnum frá hverjum bæ, í legu, er svo var kallað. Voru þeir útbúnir með kaffiáhöld og mat til tveggja eða þriggja daga. Var þá ætið farið í Súluál og legið við fast, svo lengi sem verðu leyfði eða matur entist, nema fyrr væri fullt skip. Var það gleðistund hjá ungum og gömlum er skipin komu úr þessum ferðum með ágætan feng, mest lúðu og skötu, en nokkuð af þorski og löngu.

Um leið og skráð eru gömul fiskimið á Miðnesi, er þörf nokkurra skýringa á örnefnum þeim, er notuð voru sem mið.

Keilir

Keilir.

Nær ávalt er Keilir miðaður við bæi, hóla, tjarnir, garða, vörður og sundmerki eftir endilöngu Miðnesi, þó ekki ætið á grynnstu miðum. Keilir er ofarlega í Vatnsleysustrandarheiði. Strýtumyndaður, líkur Baulu í Borgarfirði séður frá Reykjavík og Innnesjum. En séður úr Miðsjó, líkastur því að sjá í gaflhlað á torfkofa, skökkum og skældum, er hann ber yfir Miðnesheiðina, og þá auðvitað blár vegna fjarlægðar.

Flest fiskimiðin fyrir norðan Másbúðarsund eru fremur grunnt, og djúpmið þeirra eru einhver örnefni á Miðnesi eða í heiðinni og tvö hin fremstu af svo nefndum Grindavíkurfjöllum, Sandfell og Súlur. En alls staðar þar fyrir sunnan eru djúpmiðin örnefni á Reykjanesi, er þau koma fram fyrir Hafnabergstána. En þau eru:

1. Karlinn. Það yddir á Karlinum af Gelluklöppum hjá Stafnesi.
2. Kerlingin.
3. Eldborgin grynnri.
4. Valahnjúkur. Þar, sem gamli vitinn stóð, fyrst byggður 1878.
5. Eldborgin dýpri.
6. Vatnsfellið. Þar, sem vitinn stendur nú.
7. Hnausarnir. Þ.e. þegar Skálartoppinn ber í Bjarghólinn á Hafnabergi.
8. Skörðin. Þ.e. þegar Skálatoppinn ber í smáskörð milli Bjarghóls og Hafnabergstáar.
9. Skálin.
10. Reykirnir – Úr Gunnuhver.
11. Hraunþúfurnar.
12. Rauðhóllinn.
13. Vörðufellið.
14. Stamparnir.
15. Sílfellið.
16. Þrúðurnar. Dýpsta fiskimið opnu skipanna.

(Eftir Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Prentsmiðja Hafnarfjarðar hf. – 1960).

Karlinn

Karlinn.