Sundhnúkar

Gengið var frá Svartsengisfelli, öðru nafni Sýlingarfelli, þvert yfir Sundhnúkahraun með stefnu á hæsta gíg Sundhnúkagígaraðarinnar sunnan Stóra-Skógfells.

Stóra-Skógfell

Stóra-Skógfell.

Sundhnúkahraunið, sem er um 2400 ára, kom upp á sprungurein líkt og svo mörg hraunin á nútíma á Reykjanesskaganum. Gígaröðin nær frá Hagafelli upp að Kálffelli og er um 10 km löng. Besta yfirsýnin yfir gígana er uppi á Stóra-Skógfelli austanverðu. Þaðan sést vel hvernig röðin liggur í svo til beina stefnu og sneiðir við austurhornið á Skógfellinu. Einmitt þess vegna er staðsetning á myndarlegum rauðleitum gjallgíg, eða gjallhrygg öllu heldur, austan fellsins og þar með utan við hina beinu gígaröð, nokkurt spurningarmerki. Margir hafa talið hann með Sundhnúkagígaröðinni, en nú var ætlunin að skoða hann nánar.

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Sundhnúkahraunið er blandhraun, bæði hellu- og apalhraun. Hellurhraunið hefur runnið þunnfljótandi í upphafi gossins, en síðan hefur apalhraunið fengið að njóta sín þegar á leið. Fallegar hrauntraðir eru vestan gígaraðarinnar, en hraunið er í rauninni hvergi erfitt yfirferðar.
Þegar komið var upp í gíginn, sem stefnan hafði verið tekið á, komu í ljós fallegar hraunæðar vestan við hann, og op við efri enda þeirra. Það var ekki nægilega stórt til að komast inn (þarna þarf járnkarl), en þegar myndarvélinni var stungið inn um gatið og myndað sást inn í sæmilega rás. Skammt austar er gígurinn. Í vesturjaðri hans er gat, en erfitt var að sjá hvort það tengdist því neðra.

Ofan og austan við gígaröðina, eru slétt helluhraun með ýfingum á milli. Rauðhóll blasir þarna við í norðaustri og sker sig út úr mosabreiðulandslaginu.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Þykk mosaþemba gerð af hraungambra er umhverfis hólinn (gíginn), en það er tegundarheiti þess mosa sem oft myndar þykkar breiður á hraunum Reykjanesskagans. Í daglegu tali er hann oftast nefndur grámosi eða gamburmosi.
Austan við Stóra-Skógfell eru helluhraunaléttur með lágum hraunhryggjum á milli. Þegar staðið er þar með Skógfellið að vestanverðu, Fagradalsfjall að austanverðu (gegnt Kastinu), Vatnsheiðina að sunnanverðu og Þráinsskjöld að norðanverðu má segja að sjá megi nær allar tegundir eldsupprunamöguleika á Skaganum; dyngjur á bak og fyrir, ísaldatilurðir til beggja handa og nútímann svo til við nefið.

Sundhnúkahraun

Ein af gersemum Sundhnúkahrauns.

Hinn rauðleiti gjallgígur framundan er hér nefndur Rauðhóll, bæði vegna litarins og auk þess mun þetta vera heiti á flestum líkum á Skagagnum. Ekki er vitað til að eitt nafn umfram annað hafi verið fest á hann. Í rauninni virðist hann ekki vera gígur, einungis bogadregin hæð, en þegar betur er að gáð sést vel hvernig helluhraun úr Sundhnúkagígaröðinni hefu runnið í kringum gíginn og inn í hann að austanverðu. Rauðhóll er greinilega eldri gígur en hinir vestan hans. Betur er gróið í síðum hans en annars staðar í hrauninu – beiti- og krækilyng, geldingahnappur, einir og fleiri tegundir má sjá í skjóli hans. Þegar staðið er upp á honum sést í nokkra litla toppa, mun lægri, með sömu stefnu og hann til norðausturs.

Sundhnúkahraun

Eldri gígar í Sundhnúkahrauni.

Þarna eru líklega leifar af enn eldri gígaröð en Sundhnúkagígaröðin er, en hraun úr henni hefur runnið yfir eldra hraunið og hulið það að langmestu leyti. Eftir standa Rauðhóll og nokkrir smærri bræður hans. Líklega eru Sandhólarnir (Sandhóll vestan Faradalsfjalls og Innri-Sandhóll, skammt austan Stóra-Skógfells) leifar af enn einni gígaröðinni á þessu svæði.

Gengið var til baka yfir Sundhnúkagígaröðina og stefnan tekin þvert á hrauntröðina vestan hennar. Tröðin er ein af mörgum slíkum á þessu svæði.

Grindavík

Grindavík ofanverð.

Allnokkuð er um litlar hraunbólur (hraunhvel) og yfirborðsrásir, einkum næst gígaröðinni, en enga raunverulega hella var að sjá þarna, enda að mestu um apalhraun að ræða.

Hraunin ofan við Grindavík eru flest tiltölulega greiðfær, ekki síst í frosti, eins og nú var. Þá er mosinn frosinn og líkur gervigrasi að ganga á. Skógfellavegurinn liggur þarna milli Grindavíkur og Voga, austan Sundhnúkagígaraðarinnar og Skógfellanna, og því auðvelt að rata. Fjölbreytileikinn er mikill því ávallt birtist eitthvað nýtt er gleður augað. Hraunkarlinn í Sundhnúkahrauni virðist t.a.m. vera merkilegur með sér og alls ekki ólíkur þekktri teiknimyndapersónu. Vegalengdir er þolanlegar og um margar leiðir að velja. Þarna er því um kjörið heilsubótar- og þjálfurnarumhverfi að ræða – fyrir íbúa heilsubæjarins og gesti þeirra.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkagígaröðin.