Húshólmi

Fornminjadagurinn var genginn í garð. Lagt var af stað úr bænum í roki og rigningu, en þegar komið var að Húshólmanum í Krýsuvík brosti sólin sínu blíðasta og veðrið gat ekki verið betra.

Húshólmi

FERLIRsfélagar í Húshólma.

Sumir taka ávallt mið af veðrinu út um stofugluggann, en aðrir hafa lært að veður á einum stað er ekki endilega sama veðrið og annars staðar.

Í Húshólma tók Magnús, fornleifafræðingur, Kristinsson á móti FERLIRsförum og gekk með þeim um hólmann. Skoðuð var m.a. fjárborgin, Kirkjuflötin, sem sem er gamall kirkjugarður, líklega frá 10. og 11. öld. Þá var gengið eftir bæjargarðinum, sem bendir til að stórbýli hafi verið á svæðinu áður en Ögmundarhraun rann þar yfir landið árið 1151. Jón Jónsson, jarðfræðingur, telur hins vegar að hraunið hafi runnið árið 1005 (C14 945 ± 85).

Húshólmi

Kirkjulág.

Í Kirkjuláginni var skoðuð tótt gömlu Krýsuvíkurkirkju, hleðslurnar þar sem og bæjartóttirinar ofar í hrauninu. Þá var skoðaður skáli, sem hraunið hafði runnið að og í kringum, en hann síðar fallið saman. Við það myndaðist jarðfall og upp úr því stóðu burðarsúlurnar. Enn má sjá holur þeirra í tóttinni.
Á bakaleiðinni var skoðaður stekkur og fleiri minjar með hraunröndinni að norðanverðu. Gamlar sagnir eru um selstöðu Krýsuvíkurbæjanna í Húshólma fyrr á öldum.
Utan við hólmann er gamalt gerði í hraunkantinum.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Magnús var vel heima í sögu og umhverfi Húshólma. Hann lýsti fyrir þátttakendum því sem fyrir augu bar, kynnti möguleika svæðisins út frá fornminjalegu tilliti og leiddi hópinn frá einu minjasvæðinu yfir í annað.
Þjóðminjasafnið mætti gera meira af því að upplýsa áhugasamt fólk um einstök minjasvæði, en ástæða er til að þakka fyir þetta framlag þess, sem var hið mætasta.

Heimild m.a.:
-J.J. ´81.

Húshólmi

Upplýsingaskilti í Húshólma.