Færslur

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarhraun að Latfjalli, komið við í sæluhúsi í hrauninu undir fjallinu og síðan gengið yfir í Óbrennishólma og þaðan yfir í Húshólma. Stígur í gegnum hraunið liggur ofan við sæluhúsið og með sunnanverðum Óbrennishólma. Áður fyrr hefur hann legið með ströndinni um Húshólma, en sjórinn hefur tekið hann til sín fyrir allnokkru. Stígurinn er klappaður í bergið á kafla.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1200. Í þessu gosi myndaðist feiknarmikil hraun. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun/Kapelluhraun – yfirlit.

Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi (Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.

Reykjanesskagi

Ögmundarhraun.

Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram. Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það nokkuð greiðfær malarvegur. Sjálfur vegurinn er ekki friðlýstur, þó svo einhver gæti haldið það, en hraunið er friðlýst.
Krýsuvík var fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn, og stóð bærinn upphaflega allmiklu vestar. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 12. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Bæði Óbrennishólma og Húshólma er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. FERLIR-128, 217, 300, 386, 545, 634 og 715.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

 

Jón Valgeir Guðmundsson

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998 er fjallað um “Samgöngur hið forna“,  og er þar sérstaklega getið Ögmundarhrauns.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

“Forn gata um Ögmundarhraun. Þarna voru miklar samgöngur fyrr á öldum og hafa skeifur hestanna klappað götu í hraunhelluna.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni, frá Grindavík til Skálholtsstaðar.

Fyrr á öldum voru miklar samgöngur milli Suðurlandsins og verstöðvanna á Suðurnesjum. Þar voru vermenn á ferð og eins þurfti að koma varningi milli landshlutanna.
Sveitamenn að austan seldu sínar afurðir íbúum lítt búsældarlegra Útnesja og keyptu í staðinn skreið og annað sjávarfang. En erfiðir farartálmar voru á leiðinni, bæði á sunnanverðu nesinu og eins að norðanverðu, þar sem úfin hraun bönnuðu allar hestaferðir milli Útnesja og Innnesja. Örnefni eins og Hvassahraun vísa til landslagsins milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar.

Ögmundarhraun

Hraun á Reykjanesskaga.

Hraunin neðan Krýsuvíkur voru ekki síður torfarin, þannig að leiðirnar út á Reykjanes voru nánast lokaðar og alls ekki hestfærar og troðningar tæpast bjóðandi skólítilli þjóð. Hraunin á Reykjanesi eru bæði gömul og ný. Talið er að Kapelluhraun, þar sem álverið stendur, og Ogmundarhraun vestan Krýsuvíkur, hafi runnið úr miklu gosi skömmu eftir árið 1000. Undir þeim eru önnur og eldri hraun.
Um Ögmundarhraun liggur gömul gata, sem á sér svipaðan uppruna og vegurinn um Berserkjahraun vestra, og glöggt er sagt frá í Eyrbyggju hvernig sú samgöngubót var framkvæmd, og frægt er orðið fyrir löngu.
Í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum er sagt frá hverjir stóðu að vegaframkvæmdunum við Krýsuvík forðum daga, en vert er að gefa því gaum, að þar starfaði leysingi að, en þrælahald lagðist af á Íslandi á 11. öld. Er því vegurinn yfir hraunið þarna orðinn ærið gamall.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

En hér fer á eftir lýsingin á vegagerðinni: Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei til að stand á móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, Ætlaði hann hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Húshólmi

Húshólmi – gamla Krýsuvík – minjar í Ögmundarhrauni (rann 1151).

Í Dagblaðinu 1982 er spurt hversu gamalt Ögmundarhraunið sé? Þar segir m.a.: “Jón [Jónsson] hefur prófað lífrænar leifar í hrauninu með geislakolsaðferð og fær úr ártalið 1040. Staðfestir það niðurstöðu sem Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hafði áður komizt að, en vildi láta prófa betur.
Sveinbjörn [Rafnsson] kannar hins vegar gömul skjöl með afar læsilegri röksemdafærslu færir hann líkur að því að Ögmundarhraun hafi runnið rétt fyrir 1563 og eyðilagt Krýsuvíkurkirkju. Má því segja að þarna skakki 500 árum á niðurstöðum raunvísinda og hugvísinda.

Geislakolsprófanir og kvennafarssögur

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson.

Listaskáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson liggur þarna mitt á milli því hann stakk upp á árinu 1340 eða þá 1390.
Þeir sem efast um að jarðfræðingarnir hafi rétt fyrir sér benda á að geislakolsprófanir gefa oft hærri aldur á Íslandi en annars staðar. Hafa menn gizkað á eldgos eða jafnvel sólblettir valdi vissum ruglingi í kolefninu. En þessi skekkja á þó ekki að vera meira en 100 ár og Jón er búinn að draga frá fyrir henni þegar hann velur ártalið 1040.
Þeir sem gagnrýna niðurstöðu Sveinbjörns segja hins vegar að ótrúlegt sé að eldgos hafi orðið á Reykjanesi um 1560, því á það er hvergi minnzt í ritum. Verður Sveinbjörn því að treysta á að viðkomandi heimildir hafi eyðzt, brunnið eða farizt í hafi, ef ekki endað í harðindum.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hann byggir allmikið á því að Krýsuvíkurkirkja er formlega aflögð 1563 og skömmu seinna kemst undarleg saga á kreik. Sumsé að Skálholtsbiskup hafi lagt kirkjuna niður til að hefna sín á manni sem þar átti hagsmuna að gæta og vildi ekki gefa dóttur sína vildarmanni biskups. Þykir Sveinbirni sú skýring vafasöm. Raunar tilfærir hann í grein sinni aðra kvennamálasögu sem tengist hrauninu. Samkvæmt henni hafði Ögmundur nokkur lagt veg um þetta illfæra náttúrufyrirbrigði. Átti hann að fá bóndadóttur að launum, en faðir hennar sá sig um hönd og myrti Ögmund áður en af brúðkaupinu yrði. Þannig fékk hraunið nafn sitt. Telur Sveinbjörn þetta þjóðsögu og ekki ýkja gamla.”

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón Valgeir Guðmundsson fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krísuvíkur

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krýsuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Jón fylgdi FERLIRsfélögum um Ögmundarstíg og Selatanga í maí 2004. Sjá má frásögn af ferðinni HÉR.

Út frá framangreindu má álykta að framangreind saga af meintum ágreiningi biskups og Krýsuvíkurbónda og aflögn Krýsuvíkurkirkju hafi ekki stafað af persónulegum ástæðum, heldur hagkvæmum. Lýsing Jóns Vestmanns styður það. Ögmundarhraun rann, skv. áreiðanlegustu heimildum, um 1150.

Þjóðsagan um Ögmund er að öllum líkindum yngri en vegagerðin.

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli. Lyngfell og Festarfjall fjær.

Vegagerðin virðist hafa verið framkvæmd á 16. öld. Þjóðsagan er því líklega frá á 17. öld. Kirkjusóknin var á þeim tíma færð til Selvogssóknar, og síðar til Grindavíkursóknar, líkt og lesa má í heimildum. Slík tilfærsla sóknar var ekkert einsdæmi á þeim tilgreindu tímum, þótt ekki sé hægt að útiloka afskipti klerkaveldisins í einstökum persónulegum málum þess tíma.

Heimild:
-Dagur, Íslendingaþættir, 24.01.1998, Samgöngur hið forna, Ögmundarhraun, bls. 1.
-Dagblaðið-Vísir, 160. tbl. 17.07.1982, Hvursu gamalt er Ögmundarhraun?, bls. 15.
-https://grindavik.is/v/22455
-https://ferlir.is/isolfsskali-selatangar-med-joni-gudmundssyni/

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Húshólmi

Í tímaritið Jökul 1988 skrifa Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson um “Krýsuvíkurelda“. Greinin nefnist “Krýsuvíkureldar I  – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins”.

Ágrip
JökullÍ grein þessari er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins er kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á.
Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag og eru leidd sterk rök að aldri þess og uppruna. Einnig eru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum. Ofangreindar athuganir eru bornar saman við ritheimildir og teljum við okkur geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin er getið um aldursákvörðun forns torfgarðs í Húshólma sem reynist vera eitt af elstu mannvirkjum sem fundist hafa á Íslandi.

Inngangur

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982, 1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakolsaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæði en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulag sem nefnt hefur verið miðaldalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu.
Í þessari grein verður skýrt frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru síðla hausts 1987.

Ögmundarhraun
Krýsuvíkureldar
Ögmundarhraun (mynd 1) er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Kröflueldum, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Útbreiðsla hrauna sem þá runnu er sýnd á mynd 1. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur og er ætlun okkar að fjalla nánar um þau í annarri grein um Krýsuvíkurelda sem nú er í smíðum. Jón Jónsson (1982) hefur áður haldið því fram að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Rústir í Ögmundarhrauni
Krýsuvíkureldar
Í Ögmundarhrauni em nokkrir óbrennishólmar, en svo nefnast landskikar umluktir sögulegu hrauni. Stærstur er Húshólmi sem er austast og neðst í hrauninu en nokkru vestar og ofar er Óbrennishólmi.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Rústir em í báðum þessum hólmum (mynd 2). Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum sem em smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið mnnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. maí 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Olafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið (mynd 2). Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum. Í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra til Krýsuvíkur er þess getið að þáverandi bóndi þar hafi lagt veg út í hólmann með miklu erfiði (sbr. Sveinbjörn Rafnsson, 1982). Þá gæti gatan hafa komist í núverandi horf. Engin gata er milli Húshólma og Óbrennishólma. Gata liggur úr neðri Kirkjulág og vestur að Selatöngum en í Óbrennishólma liggur gata frá Latfjalli og úr hólmanum niður að sjó. Af loftmyndum að dæma hefur gatan að hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík austan að legið nokkru neðar en sú gata sem nú liggur í Húshólma (mynd 2).

Gjóskulagasnið
Krýsuvíkureldar
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði við jaðra hraunsins og utan þess (myndir 3 og 5). Á þessu svæði eru nokkur lík gjóskulög af þekktum aldri.

Landnámslagið
Krýsuvíkureldar
Þekktasta gjóskulagið á þessu slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og efri hlutinn dökkur, en á Reykjanesskaga er það oftast hvítgult og slitrótt en þó auðþekkjanlegt. Ekki hefur tekist að finna dökka hlutann á sunnanverðum skaganum eða vestar en í Reykjavík. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Landnámslaginu fylgja yfirleitt litaskipti í jarðvegssniðunum og er jarðvegurinn dökkur undir því, en ljósari ofan þess og fokkenndari. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafi brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Aldur landnámslagsins
Krýsuvíkureldar
Um aldur landnámslagsins hefur allmikið verið ritað og hefur Margrét Hallsdóttir (1987) tekið saman yfirlit um það.

Reynt hefur verið að aldurssetja landnámslagið með þremur ólíkum aðferðum. Í fyrsta lagi með geislakolsgreiningum. Í öðru lagi með könnun á afstöðu þess til annarra þekktra gjóskulaga og aldur þess síðan reiknaður út frá jarðvegsþykknun. Í þriðja lagi með tengingu við frávík í sýrustigi í ískjörnum í Grænlandsjökli en frávikin eru rakin til eldgosa.

Landnámslagið

Landnámslagið.

Geislakolsgreiningar eru þeim annmarka háðar að mæliskekkja er sjaldnast minni en 50 ár til eða frá.
Þær aldursgreiningar sem til eru af landnámslaginu benda til síðari hluta níundu aldar (Sigurður Þórarinsson, 1977; Hreinn Haraldsson, 1981; Margrét Hallsdóttir, 1987).
Guðrún Larsen (1982, 1984) hefur sett fram þá tilgátu að sýrustigsfrávik í Grænlandskjörnunum 897-898 gæti orsakast af eldgosi því sem myndaði landnámslagið. Skekkjan er 1-2 ár. Bryndís G. Róbertsdóttir og Haukur Jóhannesson (1986) reiknuðu aldur lagsins út frá afstöðu þess til annarra þekktra öskulaga og fengu ártalið 901-902. Í þessari grein er reiknað með að landnámslagið sé fallið um 900.

Miðaldalagið
Krýsuvíkureldar
Annað nokkuð vel þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Gunnar Ólafsson (1983) hefur kannað útbreiðslu þess og reynt að heimfæra það upp á eldgos sem getið er í rituðum heimildum. Lagið er þykkast yst á Reykjanesskaga þar sem það er um 20 cm og auðvelt er að rekja það inn allan skagann. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðvestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Yngra Stampahraunið er því runnið á sögulegum tíma. Miðaldalagið er dökkt og nokkuð jafngróft og auðgreint frá Kötlulaginu 1485 sem er kolsvart og fínkornótt en það finnst greinilega á norðanverðum skaganum.
Gunnar Ólafsson var í vafa um hvernig heimfæra skyldi gos þetta upp á ritaðar heimildir um eldgos á svæðinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi til áranna 1226/27 eða 1231 en útreikningar á jarðvegsþykknun milli þekktra gjóskulaga (landnámslags og gjóskulags frá Kötlu sem ýmist er talið fallið um 1485 eða 1500 (Sigurður Þórarinsson, 1967; Guðrún Larsen, 1978), bendi til ársins 1340. Hann endar greinargerð sína á eftirfarandi orðum: “Hér verður ekki gert upp á milli þessara þriggja gosára.”

Aldur miðaldalagsins

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Til að gera sér betur grein fyrir því, hvaða ár miðaldalagið féll, er vert að rýna í heimildimar að nýju. Augljóst er, að goshrina hefur verið í sjó undan Reykjanesi frá 1210 eða 1211 til 1240, og virðist hún hafa náð hámarki á þriðja áratug aldarinnar. Annálar, Biskupasögur og Íslendinga Saga eru nokkuð samhljóða um þessa atburði. Hér á eftir verða heimildirnar prentaðar hráar. Það sem Setbergsannáll segir umfram aðra annála er talinn skáldskapur höfundarins. Stafsetning á Oddaverjaannál er ekki samræmd því Storm (1888) hefir fellt út hluta af textanum ef hann er samhljóða öðrum annálum, einkum Konungsannál og Lögmannsannál.
Tilvitnun úr annálabrotum Gísla Oddssonar er tekin eftir þýðingu Jónasar Rafnar (Gísli Oddsson, 1942) en frumritið er ekki til lengur, heldur aðeins latnesk þýðing (sjá Gísli Oddsson, 1917). Tilvitnanir í Íslendinga Sögu era teknar úr Sturlunga Sögu (1946).
Tilvitnanir í einsakar biskupasögur era teknar úr Biskupa Sögum (1858-1878). Tilvitnanir í aðra annála en annál Flateyjarbókar, annálabrot Gísla Oddssonar og Setbergsannál eru teknar úr Storm (1888). Annáll Flateyjarbókar er í Flateyjarbók (1945).

Eldey

Eldey.

1210:
“Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyiar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufðu stadit” (Oddaverjaannáll bls. 478). Sigurður Þórarinsson (1952, 1965) setur þessa heimild ranglega við 1211.
Um 1210?:
“Á vorum dögum hefur það gerst að hafið hefur á þriggja mílna svæði ólgað og soðið eins og í potti, en jörðin opnast og kastað upp úr djúpunum eldlegum gufum og myndað stórt fjall upp úr sjónum” (Noregskróníka á latínu (Munch, 1850), þýðing Sigurðar Þórarinssonar (1965)). Sigurður Þórarinsson (1965) telur að hér sé átt við eldgos undan Reykjanesi 1211 og verður ekki annað séð en hér sé á ferð lýsing á myndun Eldeyjar.
1211:

Eldey

Eldey.

“Elldr kom vpp ór séa. Sörli Kols sonr fann Elldéyiar” (Konungsannáll bls. 123).
“Elldr kom vpp or sia fyrir Reykia nesi. Sörli Kols son fann Elld eyiar” (Skálholtsann áll bls. 182).
“Eldr kom upp ór sjó. Sörli fann Eldeyjar” (Annáll Flateyjarbókarbls. 311).
“En viku fyrir andlát Páls biskups sýndist túngl svá sem roðra væri, ok gaf eigi ljós af sér um miðnætti í heiðviðri, ok bauð þat þá þegar mikla ógn mörgum manni” (Páls biskups saga bls. 145; Páll biskup lést þriðjud. 29. nóv. 1211. Roðra=blóð – innskot höf.).
“..en hér má sjá, hversu margr kviðbjóðr hefir farit fyrir fráfalli þessa hins dýrliga höfðíngja Páls biskups: jörðin skalf öll og pipraði af ótta (harður jarðskjálfti varð þetta ár samkvæmt mörgum annálum og fórust 13-14 menn – innskot höf.); himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómr stóð yfir sýndist náliga allar höfuðskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli” (Páls biskups saga bls. 145).

Önglabrjótsnef

Gígur ofan Kerlingarbáss. Karlinn fjær.

“Þat fylgir þessum fádæmum, at í sjálfu hafinu, viku sjávar suðr undan landinu, hefur upp komit af eldsganginum stórt fjall, en annat sökk niðr í staðinn, þat er upp kom í fyrstu með sömu grein” (Guðmundar saga Arasonar Hólabiskups bls. 5; Vika sjávar er forn mælieining sem virðist hafa verið breytileg frá um fimm km upp í liðlega átta – innskot höf.).
Sigurður Þórarinsson (1965) rekur einnig nokkrar erlendar heimildir sem eiga við um neðansjávargos á öndverðri 13. öld og telur að minnsta kosti eina þeirra eiga við eldgosið 1211 (Munch, 1850).
1223:
“Elldz vppkuama fyrir Reykianese” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Enn fremur eldgos við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar, bls. 10). Sigurður Þórarinsson (1965) nefnir ekki þetta eldgos.

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

1225:
“Sandwetur ai Jslandi” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Sandvetur hinn mikli víðast um Island, svo peningur almúgans hafði litla björg afjörðu og varð oftast hey að gefa” (Setbergsannáll bls. 25).
1226:
“Ellz vpqvama fyr Revkia nesi” (Resensannáll bls. 24).
“Elldz upqvama fyrir Reykjanesi” (Höyersannáll bls. 64).

Stampar

Stampagígaröðin myndaðist um 1230.

“Elldr i séa firir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag” (Konungsannáll bls. 127).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Skálholtann áll bls. 186).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Gottskálksannáll bls. 326). “Sandfalls wetur ai Jslandi. Elldr i séa fyrir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Elldz vppkuama fyrir Reykianese” (Lögmannsannáll bls. 255).
“Það varð til um sumarið, að mikið myrkur varð um miðdegi” (Setbergsannáll bls. 25).
“Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Eldr í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkr um miðjan dag” (Annáll Flateyjarbókar bls. 315).
“Sumar þetta var illt ok vátviðrasamt. Kom upp eldr ór sjónum fyrir Reykjanesi” (Íslendinga Saga bls. 311).
“Sumar þetta var illt ok vandréðasamt. Kom upp eldr or sjónum fire Reykjanese” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 546).
1226/27:
“Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði” (Íslendinga Saga bls. 314-15).
“Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 548).

Gjóskusnið

Unnið við að greina gjóskulög í jarðvegssniði.

1227:
“Sandvetr” (Resensannáll bls. 24).
“Sanduetr a Islande” (Lögmannsannáll bls. 256).
“Sand vetr” (Skálholtsannáll bls. 186).
“Sanndvetr” (Konungsannáll bls. 117).
“Sanduetr” (Gottskálksannáll bls. 326).
“Sanndvetr” (Oddaverjaannáll bls. 480).

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

“Sandvetur eins og sá næsti á undan” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Sandvetr” (Annáll Flateyjarbókar bls. 315). Beinast liggur við að þessi sandvetur eigi við síðari hluta vetrar 1226/27 og annálagreinar um hann því samstofna frásögn Sturlungu og Guðmundar sögu biskups sem getið er hér næst að framan.
1231:
“Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil” (Íslendinga Saga bls. 346).
“Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppe fire Reykjanese ok var grasleysa mikil” (Guðmundar saga Arasonár hin elsta bls. 553-554).
1238:
“Ellz vppqvama i Revkia nesi” (Resensannáll bls. 25).
“Elldz upkuama fyrir Reykianesi” (Höyersannáll bls. 65).
“Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 130).
“Elldz vppqvama fyrir Reykia nesi. Varþ brestr mikill at Sauða felli ok margir fyrir burþir” (Skálholtsannáll bls. 188).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Gottskálksannáll bls. 327).

Karl

Karlinn við Reykjanes.

“Elldr firir Réykianesi” (Oddaverjaannáll bls. 481).
“Eldgos við Reykjanes-skaga” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Eldr uppi fyrir Reykjanesi” (Annáll Flateyjarbókar bls. 317).
1240:
“Sól rávð. Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 131).
“Sol varð rauð” (Skálholtsann áll bls. 188).
“Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi” (Oddaverjaannáll bls. 481).
“Sól rauð sem blóð. Eldgos aftur við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls.10).
“Eldr fyrir Reykjanesi” (Annáll Flateyjarbókar bls. 318).

Önglabrjótsnef

Hraun og aska nýlegra hrauna við Önglabrjótsnef á Reykjanesi. Karlinn fjær.

1340:

“Einnig Reykjaneshöfði (Sigurður Þórarinsson (1965) þýðir hér Reykjanesskagi og er svo í Sjávarborgarannál bls. 236 – innskot höf.) eyddist í eldi meira en að hálfu; sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, – eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá. Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 11). Síðast nefnda frásögnin er einnig í Sjávarborgarannál við árið 1389 (Þorlákur Markússon, 1940-48) og í Árbókum Espólíns við árið 1390 (Jón Espólín, 1821). Þessi frásögn er hluti af reyfarakenndum frásögnum af eldgosum víða um land og hefur á stundum verið talin uppspuni. Þarflegt væri að kanna sannleiksgildi þessara frásagna betur, en ekki eru tök á því hér.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Höfundur Sjávarborgarannáls (Þorlákur Markússon) hefur ekki þekkt annálabrot Gísla Oddssonar og því haft annálsgreinina annars staðar frá og hún þá líklega ekki verið ársett í frumheimild. Jón Jóhannesson (sjá Þorlákur Markússon, 1940-48) hefir rannsakað Sjávarborgarannál. Í hann var sett efni úr a.m.k. einum annál sem nú er glataður, og telja verður víst að hann hafi haft ofangreinda frásögn úr eldri heimild, sem nú er með öllu ókunn. Hugsanlega hefur það verið sama heimildin og Gísli Oddsson hafði undir höndum en þó er það ekki víst. Espólín hefur frásögnina vafalítið úr Sjávarborgarannál. Það er umhugsunarvert að þessi frásögn finnst ekki í gömlu annálunum þ. á m. annál Flateyjarbókar sem er mjög ýtarlegur um fjórtándu öldina (hefur þó gosið í Öræfajökli 1350 í stað 1362) og þar er getið um Heklugosin 1341 og 1389.
ÖnglabrjóstnefFlestar heimildirnar em úr annálum en þeir éta oft hver upp eftir öðrum. Talið hefur verið að þeim annálum sem við nú þekkjum hafi verið steypt saman úr eldri skrám um 1280 (Jakob Benediktsson, 1976). Íslendingasögu verður að telja samtímaheimild og auðsæ tengsl em milli hennar og sögu Guðmundar góða. Það sést best á klausunum um árin 1226 og 1231, sem em nær samhljóða í báðum heimildum. Saga Páls biskups í Skálholti mun rituð skömmu eftir dauða hans og má því telja hana samtímaheimild.
Við lestur biskupasagnanna verður hverjum manni ljóst að höfundar þeirra hafa haft fyrir sér ritaðar skrár m.a. um náttúmhamfarir auk heimilda um marga aðra atburði sem sést best af því að inn í sögurnar er mjög víða skotið efni í upptalningarstíl sem kemur efni þeirra lítið við. Einnig ber að hafa í huga, að sumar klausurnar um eldgos og jarðskjálfta eru nær samhljóða í annálum og biskupasögunum og liggur þá beinast við að álykta að höfundar biskupasagnanna hafi haft frumgerðir annálanna undir höndum og þeir því nær samtíma heimildir um þá atburði sem hér em til umræðu. Því hefir reyndar einnig verið haldið fram að við endurritun biskupasagnanna hafi efni verið skotið inn í þær úr annálum, en það getur vart átt við Guðmundar sögu og Páls sögu því þær eru að sumu leyti ýtarlegri um þessa atburði en annálarnir.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – rann um 1226.

Í stuttu máli virðist sem tíð gos hafi verið í sjó undan Reykjanesi á árunum 1210 eða 1211 til 1240 en telja verður óvíst um eldgos 1340. Eldgos hafa verið. 1210 og/eða 1211, 1223, 1226, 1231, 1238 og 1240. Einnig gæti hafa gosið 1225 því þá getur Oddaverjaannáll um sandvetur. Sandvetur er veturinn 1226/27 samkvæmt Íslendinga Sögu og Guðmundar sögu góða, en annálar hafa sandvetur 1227. Hér er líklega átt við sama atburðinn.

Nýey

Ný eyja rís úr sjó.

Gjóskufalls er og getið við gosið 1231 og að það hafi verið að sumri til (sandsumar). Líklegt er að gjóska sem fallið hefur 1231 falli saman við gjóskulagið frá 1226 og myndi því ekki sérstakt öskulag. Telja má víst, að gjóskufallið, sem varð 1226 hafi verið mikið því getið er um, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur kannaði fyrir höfunda hvort um sólmyrkva hafi verið að ræða en enginn almyrkvi á sólu varð 1226. Því kemur vart annað til greina en að myrkvinn hafi verið af völdum gjóskufalls. Allmikið gjóskufall þarf til að svo sterkt sé til orða tekið, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Ekkert annað gjóskulag er þekkt sem getur átt við þennan atburð. Við könnun á miðaldalaginu á Reykjanesi kemur í ljós, að það er víða fokið til og vantar sumstaðar alveg, sem bendir til að það eigi frekar við veturinn 1226/27 en sumrin 1226 eða 1231. Þá taka höfundar Biskupasagnanna og Íslendinga Sögu mun sterkar til orða um sandfallsveturinn og afleiðingar hans sem bendir einnig til meira öskufalls þá en 1231.

Óbrennishólmi

Óútskýrð tóft í Óbrennishólma.

Haukur Jóhannesson (1988) hefur mælt þrjú jarðvegssnið í Viðey. Eyjan er utan uppblásturssvæða og því má búast við nokkuð áreiðanlegum niðurstöðum úr útreikningum á aldri miðaldalagsins miðað við jarðvegsþykkt milli þekktra öskulaga. Jarðvegsþykknun er nokkuð jöfn síðustu 1000 árin eða á bilinu 0.04-0.06 cm á ári. í tveimur sniðanna eru þrjú þekkt öskulög, landnámslag, miðaldalag og Kötlulagið frá 1485.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Miðað við að landnámslagið sé fallið um árið 900 fást eftirfarandi ártöl fyrir aldur miðaldalagsins: 1170 og 1228 (meðaltal 1199). Út frá þeirri niðurstöðu er nánast útilokað að lagið hafi fallið á fjórtándu öld.
Af ofangreindu má vera ljóst, að yfirgnæfandi líkindi eru til að miðaldalagið hafi fallið 1226, líklega um haustið eða fyrri hluta vetrar, en vitaskuld getur hafa bæst í það 1231. Ekkert annað öskulag hefur fundist á Reykjanesi sem tengst getur þessum eldsumbrotum og gerum við ráð fyrir að það sé að meginhluta fallið síðla árs 1226.

Aldur Ögmundarhrauns – geislakolsaldursgreiningar

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson (munnl. uppl.) tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Kirkjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Þorleifur telur að taka beri þessum aldursgreiningum með varúð þar sem þær geti verið af koluðum rekavið eða mó og því eldri en hraunið. Niðurstöður voru eftirfarandi.
U-2590 980 + 60
U-2591 960 ±170

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Séu aldursgreiningamar miðjaðar (970 ár) og leiðréttar samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Beckers (1986) fæst að sýnið sé frá því um 1027 e.Kr. (mynd 4). Sé leiðrétt samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Pearsons (1986) fæst 1030.
Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðurleifum undan hrauninu.
Tvö sýni, U-4355 og U-4356, vom undan Ögmundarhrauni efst í Óbrennishólma, og eitt sýni, U-4005, var tekið undan hrauninu austan í Núpshlíðarhálsi.
Jón telur þó ekki víst, að þar sé sama hraunið en aldurinn, sem fékkst, er mjög áþekkur hinum.
U-4355 905 ±60
U-4356 940 ±55
U-4005 925 ±70
Meðaltal: 923,3 ár. Miðgildi: 922,5 ár.
Þegar beitt er sömu leiðréttingaraðferð (Stuiver og Becker, 1986) og að ofan (miðgildi er 923 ár) þá koma fimm ártöl til greina: 1044, 1096, 1122, 1141 og 1156 (mynd 4). Sé aftur á móti leiðrétt samkvæmt Stuiver og Pearson (1986) fæst 1050, 1095, 1125, 1142 og 1148.

Álfakirkja

Hraun er hægt að aldursgreina.

Ástæðan fyrir því, að svo mörg gildi fást er óregla í 14C magni í andrúmsloftinu á þessum tíma, en leiðréttingarnar byggjast á geislakolsgreiningum á árhringjum í trjám. Aldursgreiningar Þorleifs gefa nokkuð hærri aldur en aldursgreiningar Jóns eins og búast mátti við af fyrirvara þeim sem Þorleifur hafði gert um aldursmun hraunsins og kolaleifanna í eldstæðinu. Aldursgreining Jóns Jónssonar (1982) af Gvendarselshrauni gefur svipaðar niðurstöður en aldursgreiningar af Kapelluhrauni gefa ekki ótvíræða niðurstöðu.

Gjóskulög undir og ofaná hrauninu

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Landnámslagið fannst víðast hvar undir Ögmundarhrauni (mynd 5) þar sem grafið var, en milli þess og hraunsins fannst aftur á móti ekkert gjóskulag. Milli landnámslagsins og hraunsins var víðast 2-4 cm þykkur jarðvegur. Í sniðum sem tekin vom utan hrauns en nærri gígunum (mynd 3) reyndist jarðvegsþykktin vera 3-7 cm milli gjóskulagsins og gjalldreifar frá gígunum. Ofan á sjálfu hrauninu fannst aðeins eitt gjóskulag, miðaldalagið og var jarðvegur 0-4 cm þykkur milli hrauns og gjóskulags. Í sniðum sem tekin voru utan hrauns en nærri gígunum reyndist þykktin vera um 2-4 cm frá miðaldalaginu niður að gjalldreif frá Krýsuvíkureldum.

Rauðablástur

Gjall.

Hlutfallið milli jarðvegsþykktar frá landnámslagi að hrauni/gjalldreif annars vegar og þykktar frá hrauni/gjalli að miðaldalagi hins vegar er afar mismunandi frá einum stað til annars og því ekki einhlítt að brúka það til aldursákvörðunar hraunsins. Hraunið eða gjalldreifin frá gosinu er þó í flestum tilvikum mun nær miðaldalaginu en landnámslaginu.

Sögulegar heimildir
Fátt er sögulegra heimilda um eldgos á Reykjaneskaga á þessum tíma og eru þær allar knappar.

1151:
“Elldr i Trölladyngivm. Hvsrið” (Konungsannáll bls. 115).
“Elldur wppi j Trolla dyngium” (Oddaverjaannáll bls. 474).
“Eldr í Trölladyngjum. Húshríð” (Annáll Flateyjarbókar bls. 301).
1188:
“Ellz vppqvama j Trolla dyngiu” (Skálholtsannáll bls. 180). (Úr Skálholtsannál hefur glatast þ.á.m. fyrir árið 1151 – innskot höf.).

Trölladyngja

Trölladyngja.

Trölladyngja eða Trölladyngjur heitir nyrsti hluti Núpshlíðarháls. í sumum eldri heimildum (Árni Magnússon, 1955) er notað nafnið Dyngjur (og mun þá átt við Grænudyngju og Trölladyngju) og eru þær m.a. eyktarmark frá Kálfatjörn (Pétur Jónsson, 1937-39). Hingað til hefur ekki verið hægt með vissu að heimfæra þessar heimildir upp á eldgos.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einstöku menn hafa álitið að hér væri átt við Trölladyngju eða Dyngjufjöll í Ódáðahrauni (Ólafur Jónsson, 1945). Þar hefur þó ekki fundist hraun sem tengja má þessum heimildum. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur umrædd gos hafa verið í Trölladyngju á Reykjanesi og það gerði Jónas Hallgrímsson (1934-37) einnig. Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt em inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360 en telur þó síðastnefnda ártalið óvisst.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gígur Drottningar efst.

Jón Jónsson (1983) getur sér þess til að Brennisteinsfjöll hafi áður fyrri verið nefnd Trölladyngjur en ekki hafa fundist nein gögn önnur en klausa í annálabrotum Gísla Oddssonar (1942) sem styðja þá tilgátu og í raun engin ástæða til þar sem Trölladyngja eða Trölladyngjur hafa ávallt verið þekktar þar sem þær nú eru enda við alfaraveg milli Innnesja annars vegar og Krýsuvíkur og Grindavíkur hins vegar (sbr. Ólafur Þorvaldsson, 1949).
Það er athyglivert, að húsrið (þ.e. landskjálfti svo harður að hús hristast) er nefnt í Konungsannál og annál Flateyjarbókar, í framhaldi af eldgosinu. Vafalítið er samband þar á milli sem þá sýnir að átt er við Trölladyngjur á Reykjanesi en ekki í Ódáðahrauni.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Bæði er að jarðskjálftar geta verið nokkuð harðir á Reykjanesskaga og Trölladyngja og Dyngjufjöll í Ódáðahrauni eru fjarri byggð. Þess má einnig geta að eldvirkni í Dyngjufjöllum mun hafa verið hverfandi lítil á umræddu tímabili (Guðmundur E. Sigvaldason, o. fl. í undirbúningi).
Þegar litið er á ofangreindar niðurstöður hníga ýmis rök að því, að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Gígaröð Krýsuvíkurelda spannar liðlega 25 km og miðhluti hennar liggur skammt austan við Trölladyngju. Eldgosið sem varð 1188 gæti vel hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli gosanna þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna, sbr. reynsluna af Mývatnseldum 1724-1729 og 1749.

Herbert kapelán

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Auk áðurnefndra heimilda um Krýsuvíkurelda er rétt að geta lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Um rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður), sem skrifuð var 1178 – 80 hefur Sigurður Þórarinsson (1952, 1975) fjallað allítarlega. Herbert lýsir ýmsum furðum sem gerst hafa á Íslandi og þar segir m.a. (þýð. Jakobs Benediktssonar, birt í grein Sigurðar Þórarinssonar, 1952): “Á vorum tímum hefur það sézt einhverju sinni, að hann (þ.e. vítiseldur – innskot höf.) gaus upp svo ákaflega, að hann eyðilagði mestan hluta landsins allt í kring. Hann brenndi ekki aðeins borgir og allar byggingar, heldur einnig grös og tré að rótum og jafnvel sjálfa moldina með beinum sínum. Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.

Hraun

Hraunmyndun.

Þegar þessi ofsagrimmi eldur hafði eytt land þetta og allt, sem á því var, með óseðjandi græðgi sinni, jók hann við því enn skelfilegra undri, að hann réðst einnig á hafið við ströndina, og þegar hann kom út á hafsdjúpið, tók hann að brenna og eyða vatninu með fáheyrðum ofsa, allt niður á hyldýpi. Auk þess bar eldurinn með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir, sem aðrir gráðugir eldslogar höfðu steypt um, svo að þar sem vatnið varð að láta undan síga, kom land í staðinn, og fjöllin bárust út í hafsauga. Og þegar þau höfðu fyllt sjóinn algjörlega á löngu og breiðu svæði og gert hafsdjúpið jafnt sjávarströndu, varð sjórinn að þurru landi, svo að þar sem áður var vatn, varð nú fast land um 12 mílur og er ef til vill enn. Enn fremur eyddist í þessum eldum fræg borg og mannmörg, en þar var ágæt höfn við fjörð, sem eyðilagðist þó, þegar sjórinn þurrkaðist upp.”

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Sigurður Þórarinsson (1975) telur að hér sé á ferðinni ýkt og ruglingsleg lýsing sem annað hvort eigi við hraunrennsli í sjó og þá líklega Ögmundarhraun, eða jökulhlaup og þá líklega Kötluhlaup, nema hvorttveggja sé. Um heimildarmenn Herberts kapelláns fjallar Sigurður einnig og þar kemur nokkuð merkilegt í ljós. Frásögnina hefur Herbert líklegast eftir Eskil erkibiskupi í Lundi, en hann dvaldi í Clairvaux meðan ritið var samið.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Eskil erkibiskup vígði Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152, þ.e. árið eftir að annálar nefna gos í Trölladyngjum sem við teljum meginhrinu Krýsuvíkurelda og næsta víst að eldsumbrotin hafa þá verið ofarlega á baugi í fréttum frá Íslandi. Ljóst er að í riti Herberts er farið nokkuð frjálslega með tölur og stærðir en að öðru leyti á lýsingin ágætlega við Krýsuvíkurelda. Í eldsumbrotunum rann hraun í sjó fram bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga. Að norðanverðu runnu Kapelluhraun og Hvaleyrarhraun sem fylltu víkina sem var á milli núverandi Straumsvíkur og Hvaleyrarholts en að sunnanverðu Ögmundarhraun.

Sigurður Þórarinsson

Sigurður Þórarinsson.

Sigurður Þórarinsson (1975) taldi að sá hluti frásagnar Herberts sem segir að eldurinn beri með flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir sem berist út í hafsauga, eigi við jakaburð í Kötluhlaupi og má það vera rétt. Jafnlíklegt er að lýsingin eigi við um stórgerða hraunmúga sem ýttust fram með hrauninu. Þessi heimild tekur af allan vafa um að hraun hefur runnið í sjó á Íslandi á tólftu öld og þá fyrir 1180. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapillánsins frekari stoðum undir þá skoðun okkar að Ögmundarhraun hafi brunnið árið 1151. Ólíklegt er að átt sé við eldgosið 1188 því rit Herberts múnks er talið fært í letur 1178-80.

Aldur garðs í Húshólma

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur.

Hliðar hans standa nokkuð vel og eru nær lóðréttar, um 40 cm háar (50-55 cm sé pælunni bætt við) en breidd garðsins er um 150 cm. Pælan, sem stungin hefur verið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún nú um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn. Þess skal getið til glöggvunar að sniðið var gaumgæfilega athugað og landnámsaskan var skoðuð í víðsjá (binocular smásjá) og borin saman við sýni af ösku úr öðrum sniðum. Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900 en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.
Eins og áður var bent á virðist sem kirkja hafi verið í notkun í Húshólma eftir að hraunið rann. Sveinbjörn Rafnsson (1982) getur þess að kirkjan í Krýsuvík hafi verið lögð af 1563.

Húshólmi

Kirkjutóftin við Húshólma.

Telja má nær fullvíst að hraunið hafi runnið 1151 og í því gosi hafa bæjarhúsin í hinni fornu Krýsuvík og garðarnir farið undir hraun. Kirkjan hefur því að líkindum verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að Ögmundarhraun rann. Nafnið Hólmastaður bendir til þess að þar hafi verið kirkja eftir að Húshólminn fékk nafn og þá síðar en hraunið rann.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Eftir að hin forna Krýsuvík fylltist af hrauni neyddust ábúendur í Krýsuvík til að gera út frá Selatöngum sem eru vestast í Ögmundarhrauni og eftir jarðeldinn eina mögulega lendingin í landi Krýsuvíkur. Kirkjan í Húshólma er mitt á milli Selatanga og hins yngri Krýsuvíkurbæjar. Það gæti verið ástæðan fyrir því að kirkjan var ekki færð um leið og bærinn. Hún hefur verið miðsvæðis. Búandkarlar þeir sem Eggert og Bjami höfðu tal af í maílok 1755 hafa hugsanlega ruglað saman eldgosinu 1151 og því að kirkjan í Krýsuvík var aflögð 1563.
Það þótti guðleg forsjón að Reykjahlíðarkirkju við Mývatn skyldi ekki taka af í Mývatnseldum. Hlýtur fommönnum ekki hafa þótt það jafnstórt undur að kirkjan ein skyldi standa eftir af húsum í Krýsuvík hinni fornu, er hraunið umlukti hólminn sem hún stóð á?

Sjá einnig um aldur Ögmundarhrauns HÉR.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1988, Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um “Trölladyngju og nágrenni” í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
“Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást”.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði”. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi”. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um “Þróun byggðar í Grindavík” í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Húshólmi

Eftirfarandi mátti lesa í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins undir fyrirsögninni “Þjóðsagan” þann 20. október 1963:

Húshólmi - uppdráttur

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af er eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast fram með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrinnishólmi er hann var.

Húshólmi

Húshólmi – yfirlit.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið á Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar.
Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur  í botninn sem hin gamla staka segir (orkt á seinni tímum):

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.
Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.”

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 20. október 1963, bls. 83.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Kleifarvatn

“Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin”.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Húshólmastígur

Gengið frá frá hálsinum ofan við Latfjall, norðvestur yfir Tófubruna. Sést móta fyrir gamla veginum (Hlínarveginum) skammt sunnar. Ofar eru fallegir, litskrúðgir klepra- og gjallgígar. Þeir eru hluti gígaraðar, sem liggur autan með austanverðum Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Ögmundarhraun mun hafa komið úr gígaröðinni, sem nær alllangt til norðurs. Eftir stutta áframhaldandi göngu var komið að háum misgengisveggjum Stóra Hamradals undir hálsinum. Undir veggnum, sunnarlega, er gömul hlaðin rétt. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði að hún hafi jafnan verið notuð við rúningar.
Ögmundarhraun er neðan við Latfjall. Hraunið er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.

Eldey

Eldey.

Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám.

Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík. Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”.

Húshólmi

Kirkjulág.

Í hólmanum er á einum stað nefnd Kirkjulág og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Talið er að Ögmundarhraun sé komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson frá Skála við Ögmundardys.

Þekkt er sagan af Ögmundi, viðskipti hans við bónda og gatnagerð um hraunið. Dys hans má sjá við austurjarðar þess.

Efni m.a. af:
http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Húshólmi

Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Latfjall fjær.

Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.

Fengið af:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=292

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Húshólmi

FERLIR fór páskaferðina í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – skilti við austurenda Húshólmastígs.

Gengið var niður eftir slóða með austurjarðri Ögmundarhrauns fá bifreiðastæðinu neðan við Suðurstrandarveg. Algengast er að fólk, sem ætlar í “göngu” ætli sér að ganga frá A til B, þ.e. frá upphafsstað og til baka. Hafa ber í huga að þessa á millum er fjölmargt áhugavert að gaumgæfa.
Rétt við stæðið er hringlaga gróið gerði utan í hraunkantinum, líklega rúningsrétt. Gata liggur upp vestanverða Krýsuvíkurheiði að fjárborginni á Borgarhólum. Hún er skammt sunnan gömlu Krýsuvíkurgötunnar milli Grindavíkur og Krýsuvíkur.
Vestanverð Krýsuvíkurheiðin er nú víða orðin gróðurlítil á milli fjalla og fjöru. Heyra mátti lóu af og til.

Húshólmi

Húshólmastígur frá Bergsendum vestari.

Haldið var áfram í átt til sjávar, framhjá vegvísi við Húshólmastíg, niður á Bergsenda vestari. Þar sést greinilegur stígur í gróningum um nýja hraunið (Ögmundarhraun (Húshólmabruni) frá 1151) vestan við gamla bergið. Nýtt hraunið hafði runnið fram af eldra bergi. Það sést greinilega á allnokkrum kafla skammt vestar. Hægt er að ganga áfram, hvort sem er neðan við það eða ofan. Vestar hækkar nýja hraunið, en ágætur stígur liggur upp og yfir það. Vestast og efst á brúninni er varða. Frá henni er ágætt útsýni til allra átta, hvort sem er um að ræða austur að Krýsuvíkurbergi eða til vesturs yfir að Hólmasundi (Miðrekum). Neðar eru Svörtuloft (Selhella) þar sem hafið hamast stöðugt á endimörkum nýja hraunsins. Ofar í hrauninu er hóll. Hann lætur ekki mikið yfir sér, en ef nánar er að gáð er á honum hlaðin varða; mið frá sjó. Mið sem þessi eru algeng með ströndinni.

Húshólmi

Sjávarstígurinn – gamla bergið framundan.

Þarna er ágætt að staldra við og virða fyrir sér önefnin með ströndinni, að teknu tillitil lýsinga Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Vestasta hornið á Krýsvíkurbergi heitir Bergsendi, sem fyrr sagði. Vestan við Bergsenda eru Bergsendarekar undir gamla landfasta berginu, sem áður sagði, og Miðrekar ofan Hólmasunds. Ofan Sundsins er Húshólmi og Óbrennishólmi vestar. Á Húshólma sjást leifar af mannvirkjum, sem ætlunin var að skoða. Þar vottar vel fyrir garðlögum, sem eru leifar af túngörðum.

Ef við værum stödd á suðurbrún nýja hraunsins (vestast á sjónaröndinni frá vörðunni) vestan Húshólma, segir Gísli: “Ef haldið er niður með austurbrún Ögmundarhrauns, er komið nær miðju þar sem tvær vörður standa á brúninni (Brúnavörður).
Milli þessara varða liggur ruddur stígur þvert yfir hraunið. Kallast Húshólmastígur efri. Á vesturbrún hraunsins hefur verið hlaðið fyrir stíginn.

Húshólmi

Gamla bergið neðan Húshólmaburna.

Hér er komið í Húshólma einhvern merkasta stað á Suðurnesjum. Húshólmi er allstórt svæði og gróinn að mestu. Húshólmabruni nefnist hraunið austan hans eða Húshólmahraun neðst liggur Húshólmastígurinn neðri yfir það. Við jaðar þann sem er vestan við Húshólma eru miklir fornir garðar, Húshólmagarðar, sem ættu að sína að hér hafi miklir vallargarðar verið.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Með vesturjaðrinum liggur stígur og er þá komið að rúst, sem sumir nefna Kirkjurúst þar í kring er Kirkjuflöt, sem aðrir nefna Kirkjulág. Nokkru neðar á að hafa verið brunnur, Húshólmabrunnur og þar Brunnlág. Frá Kirkjuflöt liggur ógreinilegur slóði upp í hraunið. Liggur hann að Húshólmarústunum. Hérna er um fjórar rústir að ræða. Tvær neðst og snúa frá suð-austri til norð-vestur og sú þriðja þvert á þær. Þar í var grafið og komið niður á viðarkolahrúgu. Taldist því að hér hafi verið smiðja.

Nokkru ofar er svo stærsta rústin og í henni holur, sem álítast að séu eftir stoðir, sem brunnið hafa þegar hraunið rann inn í hús þessi. Hraunhella er í gólfi allra húsanna. Af sumum mönnum er þarna talað um Gömlu Krýsuvík. Frá Kirkjuflöt liggur götuslóði vestur og upp á hraunið. Hefur verið flóraður með hellum og átti að liggja til Selatanga. Stígur þessi varð aldrei fullger (þ.e. stígurinn að Brúnavörður).”

Þá er stokkið í lýsingunni til austurs, að endimörkum Krýsuvíkurlands: “Strandlengjan fyrir Krýsuvíkurlandi er alllöng. Margt er þar örnefna.

Húshólmi

Tóftir í Kirkjulág vestan Húshólma.

Seljabót er austast. Þar eru jarða- hreppa- og sýslumörk. Vestar tekur svo við Krýsuvíkurbjarg. Það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að [Eystri]Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg (þ.e. útsýnið frá vörðunni til austurs). Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Húshólmi

Horft til austurs að Krýsuvíkurbergi.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og fossinn Mígandi.

Húshólmi

Varða, mið, á hraunhól í Húshólmsbruna.

Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík [og heiðin þar ofar Hælsvíkurheiði]. Hér tekur við Húshólmabruni og Húshólmakampar hér framaf. (Hafa ber í huga að örnefnin hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars. Nýting landsins virðist jafnan hafa skipt þar sköpum.)

Húshólmi

Hólmasund – fyrrum lending Krýsuvíkurbænda.

Þegar kemur fyrir Húshólma eru kamparnir tveir. Hinn eldri er síðan fyrir að hraunið rann, en sá fremri er kominn eftir að hraunið rann. Vestan við Hæl eru Hvalbásar og þar fyrir vestan Húshólmalending [Hólmasund], þar lentu Krýsvíkingar í lágdeifu og köstuðu fiski á land til eldis fólki sínu heima í Krýsuvíkurhverfi.

Húshólmi

Húshólmi – Hólmasundsstígur fremst.

Mávaflár eru hér vestur af og þá koma Þjófabásar, Þjófabás eystri, Þjófabásanef og Þjófabás vestri. Þá taka við Miðrekar, Miðrekar eystri og Miðrekar vestri [neðan við Óbrennishólma]. Hraunið upp af Miðrekum öllum nefnist Títuprjónahraun. Vestarlega við Miðreka er Selhella og hrauninu upp af er Grendalur og Grenið. Rétt áður en komið er að Selatanga verða fyrir út í sjónum Látrin, Selalátrin, Látrin eystri og Látrin vestri. Þá eru Selatangar.”

Húshólmi

Vatnsstæði og gerði neðst í Húshólma.

Ari Gíslason segir um svæðið frá Hælsvík (austan Bergsenda vestari) að Selatöngum: “Nú skulum við færa okkur um set og taka fyrir vestari hluta Krýsuvíkurlands. Síðast vorum við staddir niðri við sjó hjá Hælsvík. Vestan hennar er steinn fram í sjó, sem heitir Þyrsklingasteinn. Þar tekur við mjó hraunbreiða fram að sjó og víða hamrar. Næst vestan við Vestri-Bergsenda taka við svonefnd Svörtuloft. Eftir að þeim sleppir, taka við Miðrekarnir, sem fyrr var getið. Austarlega í Ögmundarhrauni eru tveir básar í hraunbrúninni við sjóinn, og heita þeir Rauðibás og Bolabás. Ekki eru þeir stórir og fjaran í þeim ekki meir en fáeinir metrar. Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Selatangar.”

Húshólmi

Verbúðartóft syðst í Húshólma.

Þar sem staðið er við vörðuna efst á suðurbrún Ögmundarhrauns (Húshólmabruna) má í góðu veðri sjá til Skriðu í austri og að Selatöngum í vestri. Mávaflár, Þjófabásar og Miðrekarnir í Títuprjónahrauni, allt að þeim vestari, eru torfærir. Þegar horft er yfir Húshólma sést vel hvar hraunið hefur runnið niður með Skála-Mælifelli að vestan og austur fyrir Krýsuvíkur-Mælifell að austan.

Gísli segir: “Ögmundarhraun verður að teljast mikið hraun. Það á upptök sín í sprungu, sem jarðfræðingar nefna Ögmundarsprungu. Hún er þrískift. Austursprunga Miðsprunga og Vestursprunga.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Austursprungunni við Vigdísarvelli.

Austursprungan á upptök sín inn á dal rétt vestan Vigdísarvalla og eru þar nokkrir gígar. Í einum þeirra er Fjárhellir, er þar hlaðið fyrir munnann og dyr á en garði frá munnanum inn eftir hellinum. Hraun úr þessari sprungu hefur runnið fram milli Mælifells og Urðarfells og sunnanundir Latsfjalli sem einnig nefnist Lasafjall. Gegnum hraun þetta, milli fyrrnefndra fjalla, lá Ögmundarstígur.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Úr miðsprungunni hefur einnig runnið allmikið hraun. Hefur það runnið bæði sunnan og norðan Urðarfells. Þar eru örnefni eins og Almenningur og var þar í eina tíð nokkur skógarló. Þar nokkru vestar eru Tóubrunar. Úr Vestursprungunni hefur runnið mikið hraun. Allt hefur það runnið norðan Latsfjalls. Núpshlíðarsprunga mætti sprunga þessi heita, því hún liggur fram um syðsta hluta Núpshlíðar fram á Skalla. Í hrauni þessu er Sængurkonuhellir eða Víkurhellir. Þar á kona að hafa alið barn á ferð milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Suður af Latsfjalli eru Latsfjallstögl og þar fram af Latur móbergshnúkur lítill með grastorfu Latstorfu. Hraunið hefur runnið hér með miklum gassa, það sést af hrauntröðum og rásum þeim sem liggja frá gígunum. Hraunið hér í slakkanum og gígarnir nefnast Katlahraun og Katlar. Neðan við Núpshlíð við hraunið liggur Núpshlíðarstígur fjárgata. Nú liggur eftir hrauni þessu akvegurinn frá Krýsuvík til Grindavíkur.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Frá Latstöglum liggur stígur, Óbrynnishólmastígur niður hraunið niður Óbrynnishólma allstórt svæði sem hraun hefur runnið kringum, en ekki þakið. Hér gefur að líta landslag það, sem verið hefur áður en hraunið rann. Móar og hvammar eða lægðir og hæðir og grýtt holt. Austast og efst í hólma þessum er Óbrynnishólmarúst. Litlu neðar er Fjárborgin litla og Fjárborgin stóra. Þær eru 6×7 metr. og 20×20 að stærð. Héðan liggur svo Óbrynnishólmastígur niður á Ögmundarhraun.” Í Óbrynnihólma eru leifar topphlaðins húss og hlaðnir garðar, sem nýja hraunið hefur staðnæmst við. “Fjárborgin stóra” hefur að öllum líkindum verið hlaðið virki. Það er efst á hól. Frá honum hefur verið ústýni yfir svo til allan hafflötinn til suðurs. Gróinn garður er og í Óbrynnishólma er gefur til kynna að öll ströndin ofan Gömlu Krýsuvíkur, víkurinnar sem nýja hraunið fyllti, hafi fyrrum verið í samfelldri byggð.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Gengið var niður af hraunbrúninni. Þar er hlaðinn veggur, skjól refaskyttu. Sjá má slóðir eftir refi í grasinu með hraunbrúninni. Austan við Hólmasundsstíginn eru vatnsból og hlaðið lítið gerði. Skil gömlu strandarinnar og þeirrar nýju eru þarna augljós. Í hólmanum, beint ofan við stíginn, er rúst sjóbúðar. Hún var síðast notuð árið 1913 af Krýsuvíkurbændum, en þeir reru um tíma við erfið skilyrði frá Hólmasundi. Skammt ofar og vestar sést hvar gamall hlaðinn (nú gróinn) túngarður liggur undir nýju hraunbrúnina. Garðurinn liggur í boga upp hólmann til norðurs og norðvesturs þar sem hann fer undir hraunið efra. Innan þessa garðs er annar hlaðinn garður sem og þvergarður. Sunnan þvergarðsins er sporöskjulaga stórt gróið gerði; mjög líklega forn grafreitur. Enn ofar, úti í hrauninu vestan hólmans eru fyrrnefndar Kirkjulágar og skálatóftir, sem hraunið hefur runnið að, en ekki náð að kaffæra.

Húshólmi

Húshólmi – hlaðinn garður við Húshólmastíg.

Ofar í Húshólma er forn fjárborg, sennilega frá tímaskeiði minjanna. Enn ofar er hlaðin, mosagróin refagildra, einnig stekkur utan í grónum hraunkanti sem og minjar selshúsa. Greni er þar skammt vestar sem og skeifulaga hlaðið byrgi refaskyttu. Hringlaga byrgi (smalaskjól) er og á hraunbrúninni norðvestan stekksins.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Þar sem gengið er upp úr hólmanum að austanverðu (Húshólmastígur) er hlaðinn þvergarður, sennilega frá þeim tíma er Húshólmi hefur um skeið verið notaður fyrir selstöðu, allnokkru eftir að nýja hraunið hafði kólnað. Húshólmastígur ber þess merki að allnokkur umferð hafi verið um hann um alllangan tíma, enda greiðfær með afbrigðum.

Gangan tók 1. klst og 36 mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmastígur.