Húshólmi

Gengið var um Húshólma og síðan frá Hólmasundi um Miðreka og yfir að Selatöngum. Í Ögmundarhrauni eru ein merkustu minjasvæði landsins og ætlunin að skoða a.m.k. tvö þeirra.
Auðvelt var að ganga niður mosavaxið Ögmundarhraun því mosinn var frosinn. Þegar komið var niður í Húshólma var stefnan hiklaust tekin að hinum fornu minjum vestan hans. Þar er talið að Krýsuvík hafi verið fyrra sinni.
Forn skáli í ÖgmundarhrauniBúseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið  fluttur frá Húshólma,  til ársins 1942. Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur austast á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Hnausa, Lækjar, Norðurkots, Snorrakots og Suðurkots.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Ögmundarhraunið, sem umlykur minjarnar við Húshólma, er talið hafa runnið 1151 (-1188). Ljóst er að hraunið hefur ekki myndast í einu lagi hefur smám saman í allnokkrum spýjum með mismunandi bergsamsetningu. Það átti glögglega eftir að koma í ljós þegar gengið var um Miðrekana.
Í Lesbók Mbl 17. sept. 1961 er m.a. fjallað um Ögmundarhraun: “Áður en það var rutt, varð að fara vestur fyrir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomu
nni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkurm er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa á móti honum; tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungrjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun. (Úr sóknarlýsingu 1840).”

Verkhús við vestustu sjóbúðina á SelatöngumÍ Lesbók Mbl. 31. jan. 1954 er grein eftir Árna Óla; “Svona var lífið fyrir einum mannsaldri”. Í henni fjallar hann m.a. frásögn Stefáns Filipssonar um Ögmundarhraun: “Ögmundarhraun, lítið fyrir vestan Krýsuvík, runnið vestan úr Almenningi, sem allur er líka hraun, en þó grasi og skógi vaxið – er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits; gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niðursokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað maður veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra. Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, n.l. Hæslvík nú nefnd. Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært hraun alt um kring bema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt samalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborga rústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.
Hólmasund - Krýsuvíkurbjarg fjærVestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langr frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hjer um bil 100 árum, eð máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson, Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti iena á eins lit, og bætti hann ei fyr að fala hana af sysur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðgu, Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbjargi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákoll aleins er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Teur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af breginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafnótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám hans. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár.

Í Arngrímshelli

Þetta hef jeg af sögusögn og gef það eit út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst (Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvufjöru undir Krýsuvíkurbjargi “og með honum kalrmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr breginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekkia ð öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðam breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálunm ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannaátt segir: – “Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”).

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðhús nær.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmdunrur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, hélt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glæergluggum, sængurhúsi afþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn íhellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt um kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki…” 

Minjar í Ögmundarhrauni

Húshólmi er merkur minjastaður suður af   Krýsuvíkur Mælifelli, í austurjaðri Ögmundarhrauns, nær sjávarhömrunum. Þar hefur hraunið runnið til hvorrar handar við óbrennishólma sem nefndur er Hólmastaður í gömlum heimildum. Þar er m.a. fornt bæjarstæði, skálatóftir, garðhleðsla og gerði, en í hrauninu vestan Húshólma er Kirkjulág og fleiri minjar. Samkvæmt gamalli munnmælasögu stóð Krýsuvíkurkirkja í Kirkjulág og stóð uppi löngu eftir að hraunflóðið eyddi bænum.  Óbrennishólmi er spölkorn suður af Latstöglum sem ganga vestur úr Latsfjalli. Þetta er gróinn hólmi sem sker sig á sérkennilegan hátt úr grófu apalhrauninu. Þar eru fornar búsetuminjar, tvær fjárborgir og vegghleðslur. Önnur fjárborgin virðist vera mjög forn hringlaga hleðsla, en hin nokkuð yngri.
Áður hefur nokkrum sinnum verið fjallað um minjarnar í og við Húshólma og í Óbrennishólma hér á vefsíðunni, auk þess sem Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling þar sem rifjaðar eru upp heimildir og minjar skýrðar heilstætt á svæðinu. Annars er táknrænt að staldra við hjá þessum fornu minjum því við þær er staur frá Fornleifavörslunni – án orða. Um er að ræða friðlýstar fonleifar, en hið litla vesæla skilti við þær er löngu afmáð.
Á MiðrekumEftir að hafa staldrað við ofan við Hólmasund var stefnan tekin vestur með ströndinni. Þessi u.þ.b. 6 km kafli er torfarin.
Í fyrstu er um úfið hraun að fara með stuttum helluhraunspöllum, en síðan tekur við sjóbakað apalhraun, laust í sér og seinfarið. Að vísu opnast u.þ.b. 500 m kafli ofan við sjálfa Miðrekana, neðan við Brúnavörður, en síðan verður aftur með það sama – ófæra hefði einhver óvanur látið hafa eftir sér, en með rólegheitum má ýmist þræða ofanverða ströndina eða fjöruna, einkum síðasta spölinn, áður en komið er í Eystri-Látur. Víða má lesa myndunarsögu bergsins út úr jarðlögum þar sem brimið hefur brotið allt mélinu smærra og hreinsað ofan af heilu bergflekunum. Víða á leiðinni eru einstaklega sérkennilegar myndanir og þótt ekki væri fyrir annað en þær verður svona ferð alveg þess virði. Auk þess er óvænt rekavonin á leiðinni, einkum ofan við Miðreka, góð ábót á ágóðan. Í þessari ferð var t.d. gengið fram á brak af björgunarbát, sem rak þar upp fyrir ári og varð að engu. Björgunarhringurinn var þó enn heill og var honum komið í Saltfisksetrið að ferð lokinni.
Austasta sjóbúðin á SelatöngumSelatangar er gömul verstöð suður af   Núpshlíð og vestan við Ögmundarhraun.Vestan við Selatanga eru Borgir eða Katlahraun, fallegar hraunlægðir með allskonar hraunmyndunum. Frá bílastæðinu er um hálftíma gangur í austur að fjölda verbúðartófta, hlaðinna fiskibyrgja og fiskgarða úr grjóti. Talið er að um 100 manns hafi stundað útræði frá Selatöngum þegar mest var. Vermenn hættu að stunda róður frá Selatöngum um 1884, en ábúendur í Krýsuvík og Ísólfsskála stunduðu útræði frá Selatöngum fram á fyrstu áratugi 20.aldar.  
Eftirfarandi umfjöllun Ólafs Einarssonar um Selatanga, “Útræði á Selatöngum”, birtist í Ferðablaði Lesbókar Mbl 25. nóv. 1989 (Ólafur var frá Garðshúsum í Grindavík): “Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má áætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Afur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaður þaðan allar götur fram til ársins 1884 [reyndar var róið frá Selatöngum frá á byrjun 20. aldar].
Þurkkbyrgi á Selatöngum (t.h.)Í bók Ólafs Þorvaldssonar “Harðsporum” segir: “Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk”.
Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður [róið var þó lengur þaðan, bæði frá Krýsuvíkurbæjum og Ísólfsskála sbr. aðrar frásagnir]. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.
Rölti maður um það svæði á Selatöngum, sem vitað er að voru höfuðstöðvar þeirra, kemur greinilega í ljós að útræðið hefur verið talsvert. Má sjá það á þeim gróðri sem þar hefur myndast, þar sem annars er svartnættisgróðurleysi. Það er auðvitað slógið úr fiskinum, sem myndað hefur gróðurinn. Mörg fiskbyrgi eru þatrna tiltölulega vel á sig komin, en mannabústaðir gamlir, hrörlegir og niður fallnir. Gætu þeir varla kallast mannabústaðir í dag.
Hér má sjá viðgerð á austasta verkhúsinuHvað sem um þennan stað má segja, þá er það víst að á löngu tímabili var þar dregin nokkur björg í bú þeirra Krýsvíkinga. En aðstæðurnar hafa verið mjög erfiðar og mikið strit samfara veiðiskap og flutningum.
Varla er hægt að skrifa um útræðið frá Selatöngum, sem mun hafa hafist fljótlega eftir að Húshólmasund eyðilagðist með öllu í hamförunum þegar Ögmundarhraun rann, án þess að rifja upp eða lýsa þeim miklu reimleikum sem sagt er að þar hafi átt sér stað.
Draugur sá, sem magir kváðust hafa séð, var nefndur Tanga-Tómas og er hann sagður hafa gert mörgum búðarmönnum ýmsar skráveifur eða smáglettur.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Á Arnarfelli í Krýsuvík bjó þá maður er Beinteinn hét, þrautreyndur í sjóróðrum frá Selatöngum, sem getið er hér að framan. Einu sinni var hann heylítill og flutti sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar, einnig var ætlun hans að huga að reka. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu kveikur hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr til en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssu sína og skaut út úr dyrum. Sótti Tanga-Tómas þá svo fast að honum að hann hélst ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Eftir mikil átök við drauginn og illviðrið komst Beinteinn loks heim til sín um morguninn og var þá mjög þrekaður.
Það kom fyrir á Selatöngum einhverju sinni að unglingspiltur var orðinn mötustuttur. Buðust þá hásetar, á skipum þeim sem þar reru, til að gefa honum mötu til vertíðarloka ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Strákur kvað:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Ara, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein, Einara tvo, Ingibjörn, Rafn,
Vilhjálmi Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn
sjálfur Guð annist þá.

Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó enn talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.”

Vestasta verbúðin á Selatöngum

Þór Magnússon skrifaði um “Þjóðminjar” í Lesbók Mbl þann 27. júní 1976 fjallaði hann um “Verbúðarrústir á Selatöngum”: “Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið líttþekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram. Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selataöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selataöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum [nú er hann að sjálfsögðu greiðfær öllum bílum]. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til aðhvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Dagon (Raufarklettur), landamerkjasteinn á SelatöngumUppsátur sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjarðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”
Í forverkefnisskýrslunni „Plokkfiskur” – Íslensk strandmenning sem grunnur fyrir ferðaþjónustu í framtíðinni, sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins í júlí 2004, er m.a. fjallað um strandminjasvæðið á Seltaöngum. “Aðrar mjög áhugaverðar strandminjar eru Selatangar, suð-austur af Grindavík. Þetta svæði mun líka hafa verið miðstöð fyrir árstíðabundnar veiðar og hér eru rústir, hellar og aðrar minjar. Talið er að þarna hafi verið verstöðvar af svipaðri stærðargráðu og gömlu verstöðvarnar á Snæfellsnesi; Dritvík og Djúpalónssandur þar sem oft gistu hundruðir vermanna. Okkur skilst að áhugasamur einkaaðili hafi gert svæðið aðgengilegt fyrir almenning og sett upp upplýsingaskilti, gangstíga og gefið út bækling. Bæði Óttarsstaðir og Selatangar eru dæmi um aðgengilega sögustaði á Íslandi sem hafa mikla möguleika í ferðaþjónustu. Það ætti að koma af stað vinnuhópi, með það að markmiði að gera yfirlit yfir slíka staði á landinu öllu, forgangsraða þeim og meta ástand þeirra og möguleika innan ferðaþjónustu.”
Vestasta sjóbúðin á Selatöngum

Ekki var vart við Tanga-Tómas í þessari ferð, eins og svo jafnan áður. Á skilti við Selatanga er texti er segir að þaðan hafi síðast verið róið 1884. Þá eru myndir af tilgátuhúsum á Töngunum. Þar voru þrjár búðir, en ólíklegt verður að telja, af ummerkjum að dæma, að útlit þeirra hafi verið með slíkum hætti.
Dagon er nú varla svipur hjá sjón. Hann sést þó enn neðst í fjörunni á Selatöngum (þríkolla). Á síðustu árum hefur Ægir farið ómjúkum öldum um hann. “Kletturinn” er þó enn ábending um að vestasta sjóbúðin og tilheyrandi mannvirki hafa tilheyrt Ísólfsskála. Líklegt má því telja, ef Beinteinn frá Arnarfelli hefur hafst við í sjóbúð á Selatöngum, að þar hafi hann verið í austustu búðinni, enda heillegust þeirra, sem enn má sjá á Töngunum.
Aflraunasteinarnir á Selatöngum voru nú horfnir undir sand og grjót, enda ströndin búið við mikla ágjöf í hinum hörðu rokum liðins vetrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Mbl 17. sept. 1961.
-Lesbók Mbl. 31. jan. 1954.
-Lesbók Mbl 25. nóv. 1989.
-Lesbók Mbl 27. júní 1976.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

 

https://ferlir.is/husholmi-ii/https://ferlir.is/husholmi-i/