Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg undir Krýsuvíkur-Mælifelli og áleiðis yfir Ögmundarhraun milli þess og Latsfjalls.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Staðnæmst var við dys Ögmundar, sem er þarna í austurjarðri hraunsins. Þar er eini hluti hins gamla Ögmundarstígs, sem enn er óbreyttur. Öðrum köflum stígsins í gegnum hraunið hefur verið breytt eftir því sem ökutækin hafa tekið breytingum. Þannig var hann endurruddur að nýju í byrjun fjórða áratugs 20. aldar er hann var gerður ökufær á kostnað Hlínar Johnsens í Krýsuvík. Stígurinn ber þess merki, enda orðinn bæði nokkuð beinn og breiður. Nýi akvegurinn liggur svo til samhliða honum skammt sunnar í hrauninu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Dysin er skírskotun til þjóðsögunnar um Ögmund og áhuga hans á að eignast dóttur Krýsuvíkurbónda (aðrir segja Njarðvíkurbónda). Bóndi samþykkti eftirgjöfina gegn því að Ögmundur ruddi stíg yfir hraunið á tilskyldum tíma. Ögmundur hófst handa að vestanverðu, en þegar hann kom austur yfir hraunið sat bóndi fyrir honum, drap hann þar í lægð og dysjaði. Þar er nú Ögmundardys. Enn má sjá hlöðnu dysina við stígkantinn.
Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Hraunið er talið hafa runnið um 1151 eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.

Latur

Latur. Latsfjall ofar.

Ögmundarstíg var fylgt yfir að Latsfjalli og síðan gengið suður með því að austanverðu, niður Latstöglin. Franskur ferðamaður, sem leið hafði átt gangandi um Krýsuvíkurveg, slóst með í förina, en hann var á leið til hins mikla og margfræga menningarbæjar Grindavíkur. Þegar hann frétti af fyrirhugaðri göngu FERLIRs vildi hann ólmur slást með í för. Eftir gönguna sagðist hann varla trúa því enn að landið byggi yfir slíkum töfrum sem raun ber vitni. Var honum tjáð að lykillinn að þessum töfrum væri í höndum bæjarstjóra Grindavíkurbæjar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Sunnan við Lat var komið við í sæluhúsi í hraunskúta. Hlaðið er fyrir munnann. Op er á skútanum og hlaðið umhverfis það að ofanverðu. Þarna leituðu ferðalangar skjóls á leiðum þeirra milli Krýsuvíkur og Grindavíkur fyrrum.
Stígur liggur ofan sæluhússins áleiðis í og neðan við Óbrennishólma. Stígurinn heldur áfram til austurs sunnan hólmans, en að þessu sinni var götu fylgt inn í hólmann og staðnæmst þar við stóra forna fjárborg á hæð í honum sunnanverðum. Í lægð vestan við borgina mótar fyrir fornu garðlagi frá norðri til suðurs. Austar er tóft, annað hvort af minni fjárborg er hringlaga topphlöðnu húsi. Hár hraunkanturinn er skammt austan hennar.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Haldið var upp í hólmann og skoðaðir garðar þeir er hraunið hafði staðnæmst við. Greinilega sést hvar þunnfljótandi hraunið hefur runnið yfir hlaðinn garð. Grjótið í honum er úr grágrýti en ekki hraungrýti, sem er allt umhverfis. Líkast til er þarna um tvö hraun, mismunandi gömul, að ræða. Garðurinn hefur verið hlaðinn á eldra hraunið, en það yngra runnið að honum. Grjótið í garðinum er svipað og á holtinu hjá stóru fjárborginni og í borginni sjálfri.

Óbrennishólmi

Skjól eða fjárborg ofan Óbrennishólma.

Ofar í hrauninu er hlaðið hringlaga gerði, líklega nýrra, enda úr hraungrýti. Þá er hlaðið gerði og garður út frá því neðst og syðst í hólmanum. Hann virðist vera nýrri, enda hlaðinn að hraunkantinum, en hraunið ekki yfir honum líkt og efra.

Gengið var austur yfir úfið hraunið áleiðis að Húshólma. Af efstu brún þess er fallegt útsýni yfir hólmann og nærliggjandi hraun. Þaðan sést vel hvernig skipting hraunsins hefur verið, annars vegar þynnfljótandi og hins vegar úfið og seigt. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa að öllum líkindum verið hæðir í fyrrum landslaginu og því staðið upp úr þegar hraunin runnu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Í suðri sést vel í Brúnavörður, en við þær liggur stígur frá suðurbrún úfna hraunsins áleiðis í Húshólma. Stígurinn er flóraður á kafla.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka móta fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Skiptar skoðanir eru um aldur Ögmundarhrauns en nýjustu niðurstöður benda til þess að það hafi runnið 1151. Myndast hafa nokkrir landhólmar í hraunrennslið og kallast þessir hólmar óbrennishólmar.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Húshólmi er þeirra stærstur. Í honum eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum skammt vestan við Húshólma, eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því. Leifar einnar byggingarinnar eru nær horfnar en hraunið sem runnið hefur umhverfis hana stendur eftir og mótar útlínur hennar. Er það nær einstakt í heiminum að fornleifar hafi varðveist með slíkum hætti, mótaðar inn í storknaðan hraunstraum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þegar komi er að rústunum í Húshólma, eða öllu heldur í hrauninu skammt vestan við hólmann, má fyrst sjá minjar skála, sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt torfveggina. Eftir stendur stoðholuröð. Í þeim hafa verið stoðir, sem haldið hafa þakinu uppi. Sést vel hvernig hraunið hefur brennt timburverkið svo eftir standa holurnar í hrauninu, í miðri tóftinni. Áhrifaríkt.

Húshólmi

Húshólmi – veggur og tóftir.

Sunnan við þennan skála er annar heillegri. Snýr hann eins og sá efri. Lag hans sést vel, lítillega sveigðir veggir og þverhýsi við austurnendann. Hleðslurnar sjást vel. Grjótið er grágrýti, ólíkt hraungrýtinu umhverfis. Norðaustar móta fyrir tveimur tóftum sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt.

Húshólmi

Skálatóft í Ögmumdarhrauni við Húshólma.

Sunnan við þessar tóftir er bogadreginn veggur, alllangur. Innnan hans er tóft, líklega þriðji skálinn. Garðstubbur er vestan hans og annar bogadreginn út frá honum að austanverðu. Innan hans er skeifulaga tóft. Þar er hin forna kirkja við Kirkjuflöt. Í henni eru m.a. hleðslur úr sjóbörðu grágrýti. Auðvelt er að draga þá ályktun að tóftir húsa í Húshólma, sem enn sjást, hafi verið byggð niður við sjóinn. Þarna gæti hafa verið (og hefur að öllum líkindum verið) vík inn í landið (Krýsuvík, Krossvík eða annað líkt – annars er merking Krýsuvíkur sú að deildur hafi staðið þar, annað hvort um víkina eða annað) og góð lending. Eftir að hraunin runnu hafi þau fyllt upp í víkina.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjustígur.

Kirkjustígurinn liggur til austurs, yfir í Húshólma. Þar mótar fyrir hringlaga mannvirki, nokkuð stóru. Segir sagan að þarna hafi verið forn grafreitur. Lítið sem ekkert hefur verið grafið í Húshólma. Bæði er það vegna þess að talsverður gangur er þangað, auk þess er hætt við að niðurstaðan kunni að breyta í einhverju sögunni um búsetu manna hið fyrsta hér á landi.
Garður liggur frá hraunkantinum, og reyndar inn í hann einnig, nokkuð ofar (móts við efsta skálann) og til suðausturs, en sveigir síðan til suðurs og aftur að hraunkantinum mun sunnar. Á hann liggur beinn þvergarður, skammt sunnan við hringalaga gerðið. Allt hafa þetta verið mikil mannvirki á sínum tíma. Ytri garðurinn er að mestu úr torfi, en þvergarðurinn hefur verið hlaðinn úr grjóti að hluta. Sést það vel miðsvæðis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Samkvæmt rannsóknum er aldur garðsins a.m.k. frá því að landnámsöskulagið lagðist yfir landið því sjá má það í pælunni við garðinn. Líklegt má telja að landnámsmenn þarna hafi fyrst byggt hús og nauðsynlega garða, en síðan tekið til við gerð stærri og fjarlægari mannvirki. Ekki er ólíklegt að hraunið hafi runnið yfir fleiri byggingar, sem hafa staðið þarna lægra. Minjarnar í Óbrennishólma, sem þó eru í nokkurri fjarlægð, og minjarnar í Húshólma, bera með sér að þarna hafi verið talsverð byggð. Fjárborgin í Óbrennishólma virðist hafa verið nokkuð há, auk þess sem ummál hennar er með því meira sem gerist í fjárborgum á Reykjanesi. FERLIR hefur þegar skoðað tæplega áttatíu slíkar. Þá er jarðlægi garðurinn í Óbrennishólma svipaður görðunum í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúð ofan Hólmasunds.

Syðst í Húshólmanum er tóft, skammt ofan við rekastíginn. Líklega tengist hún rekavinnslu í hólmanum. Neðan undir honum er Hólmasundið.
Efst í Húshólma er forn fjárborg og minjar selsstöðu, s.s. stekkur og kví. Þar er og hlaðið byrgi refaskyttu við eitt grenjanna. Stígur liggur út úr Húshólma efst í honum, en hann er sagður hafa verið gerður vegna þess að kirkjan í hólmanum hafi verið notuð eftir að hraunið rann. Aðrir benda á að hann kynni að vera tilkominn vegna selstöðunnar eða annarrar nýtingar, sem verið hefur í Húshólma í gegnum tíðina.

Húshólmi

Útsýni yfir Krýsvíkurbjarg af sjávarstígnum.

Gengið var austur eftir stíg syðst í Húshólma, neðan undir gamla berginu og með stórkostlegt útsýni yfir að Krýsuvíkurbergi. Ofan bergins á þessu svæði vottar einnig fyrir garðlögum innan óbrennishólma.
Með austurjaðri Ögmundarhrauns er hlaðið stórt gerði, líklega fyrir hesta. Ofar, upp undir Borgarhól, er hlaðin fjárborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Brynjólfur Jónsson. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903. Rvk.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson. „Krísuvíkur eldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins.“ Jökull 38, 1988
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd.is/2/Fridlystar_fornleifar/Reykjanes%20og%20Reykjavik/husholmi.htm

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

/https://ferlir.is/husholmi/