Hraunssel

Haldið var upp með austanverðum Höfða frá Méltunnuklifi, vestan Leggjabrjótshrauns, Skolahrauns og Grákvíguhrauns. Ofarlega í Höfða eru gígaraðir frá mismunandi tímum. Stærsti gígurinn er formlega löguð eldstöð. Úr honum hefur gosið síðast og þá myndað stórbrotna og langa hrauntröð.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Á móts við mitt Sandfell liggur Hraunsselstígurinn inn á slétt helluhraun Grákvíguhrauns. Ofar (norðar) er Stórahraun er nær frá vestanverðum Selsvöllum og langleiðina til Hafnarfjarðar. Selstígurinn, sem að þessum stað, er einnig gata að Selsvallaseljunum skammt norðar undir Núpshlíðarhálsi. Gatan liggur upp með Einihlíðum, beygir til austurs í Einihlíðakrika að sunnanverðu Sandfelli og áfram til norðurs með því austanverðu. Hraunsselsstígurinn yfir hraunið er grópaður á köflum i mjúka hraunhelluna og sums staðar hefur verið kastað upp úr stígnum.

Hraunssel

Hraunssel.

Hraunsselið eru fjórar tóftir, auk eldri seltófta, stekkja og kvíar. Eldri tóftirnar eru vestar á nokkuð sléttum grónum bletti undir hlíð Núpshlíðarhálsins. Þar mótar óljóslega fyrir húsaskipan. Nýrri tóftirnar eru tvær selstöður. Önnur er samliggjandi þrjú rými; baðstofa, búr og eldhús. Hin er tvískipt; baðstofa og eldhús annars vegar og búr stakt. Að baki þeim er gróinn stekkur. Hlaðinn stekkur er norðvestan við tóftirnar sem og hlaðin kví utan í moshól. Síðast var haft í seli í Hraunsseli um 1914, en það kun hafa verið síðasta selstaðan sem lagðist af á Reykjanesskaganum, enda eru tóftirnar mjög heillegar að sjá.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa rissað upp og ljósmyndað minjarnar var haldið vestur yfir hraunið eftir jeppaslóða að norðanverðu Sandfelli og litið yfir nýtt hraunflæðið í Meradal, þar sem gos hafði komið upp. Staðnæmst var við “skarðið” þar sem hraunflæði hafði nánast fyllt dalinn og var að myndast við að flæða þar yfir.
Gengið var niður með austanverðu Fagradalsfjalli, niður um Einihlíðakrika, um Hrútadal og áfram niður með Einihlíðum og Höfðahrauni á vinstri hönd uns komið var til móts við gamla Krýsuvíkurveginn (vagnveginn ofan Skála-Mælifells. Þar var gróið hraun skágengið niður að bílnum, sem beið þolinmóður niður við Krýsuvíkurveg neðan Meltunnuklifs.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.