Færslur

Hraunssel

Haldið var upp með austanverðum Höfða frá Méltunnuklifi, vestan Leggjabrjótshrauns, Skolahrauns og Grákvíguhrauns. Ofarlega í Höfða eru gígaraðir frá mismunandi tímum. Stærsti gígurinn er formlega löguð eldstöð. Úr honum hefur gosið síðast og þá myndað stórbrotna og langa hrauntröð.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Á móts við mitt Sandfell liggur Hraunsselstígurinn inn á slétt helluhraun Grákvíguhrauns. Ofar (norðar) er Stórahraun er nær frá vestanverðum Selsvöllum og langleiðina til Hafnarfjarðar. Selstígurinn, sem að þessum stað, er einnig gata að Selsvallaseljunum skammt norðar undir Núpshlíðarhálsi. Gatan liggur upp með Einihlíðum, beygir til austurs í Einihlíðakrika að sunnanverðu Sandfelli og áfram til norðurs með því austanverðu. Hraunsselsstígurinn yfir hraunið er grópaður á köflum i mjúka hraunhelluna og sums staðar hefur verið kastað upp úr stígnum.

Hraunssel

Hraunssel.

Hraunsselið eru fjórar tóftir, auk eldri seltófta, stekkja og kvíar. Eldri tóftirnar eru vestar á nokkuð sléttum grónum bletti undir hlíð Núpshlíðarhálsins. Þar mótar óljóslega fyrir húsaskipan. Nýrri tóftirnar eru tvær selstöður. Önnur er samliggjandi þrjú rými; baðstofa, búr og eldhús. Hin er tvískipt; baðstofa og eldhús annars vegar og búr stakt. Að baki þeim er gróinn stekkur. Hlaðinn stekkur er norðvestan við tóftirnar sem og hlaðin kví utan í moshól. Síðast var haft í seli í Hraunsseli um 1914, en það kun hafa verið síðasta selstaðan sem lagðist af á Reykjanesskaganum, enda eru tóftirnar mjög heillegar að sjá.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa rissað upp og ljósmyndað minjarnar var haldið vestur yfir hraunið eftir jeppaslóða að norðanverðu Sandfelli og litið yfir nýtt hraunflæðið í Meradal, þar sem gos hafði komið upp. Staðnæmst var við “skarðið” þar sem hraunflæði hafði nánast fyllt dalinn og var að myndast við að flæða þar yfir.
Gengið var niður með austanverðu Fagradalsfjalli, niður um Einihlíðakrika, um Hrútadal og áfram niður með Einihlíðum og Höfðahrauni á vinstri hönd uns komið var til móts við gamla Krýsuvíkurveginn (vagnveginn ofan Skála-Mælifells. Þar var gróið hraun skágengið niður að bílnum, sem beið þolinmóður niður við Krýsuvíkurveg neðan Meltunnuklifs.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunssel
Haldið var inn (austur Drykkjarsteinsdal frá Hatti utan í vestanverðri Slögu ofan Ísólfsskála, beygt um Brattháls norður með austanverðum Lyngbrekkum og áfram inn með austanverðum Einihlíðum uns staðnæmst var við sunnanvert Sandfell. Þaðan var gengið til austurs sunnan við fellið og síðan til norðurs með því austanverðu. Ætlunin var m.a. að skoða hvort enn mætti greina spor hinnar fornu Hatturleiðar Grindvíkinga áleiðis inn á Selsvelli. Spurning var hvort líklegra var að leiðin hafi legið norður með vestanverðu Sandfelli eða því austanverðu. Báðar leiðirnar gætu hafa verið farnar, allt eftir því hvort leiðin lá í Hraunssel eða á Selsvelli. Austari leiðin var líklegri á fyrrnefnda staðinn. Þaðan liggur leiðin yfir slétt Skolahraun (helluhraun) að Þrengslum undir vestanverðum Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi). Sunnar er Leggjabrjótshraun (apalhraun), erfiðara yfirferðar. Þó lá þar yfir ruddur, varðaður, vegur allnokkru sunnar. Sá vegur var endurgerður, lagfærður og breikkaður, með svonefndum “Hlínarvegi” skömmu eftir 1930 er hann var gerður akfær til Krýsuvíkur með það að markmiði að flytja útvegsbændum í Grindvík nýslegna töðu, að sjálfsögðu gegn gjaldi. Vegagerðin frá Ísólfsskála (Drykkjarsteinsdal) til Krýsuvíkur kostaði þá um 500 krónur og tók það fjóra menn ásamt kúsk lungann úr sumrinu að framkvæma verkið. Hlín Johnsen, þá sérstakur verndari og umönnunarstýra þjóðskáldsins Einars Benediktssonar, greiddi fram vinnulaun að verki loknu, en Einar átti þá bæði Krýsuvík og Herdísarvík. Einar sjálfur, þótt stór væri, var þá lítill fyrir mann að sjá, enda ofsóttur jafnt í rökkri og myrkri, bæði af Þistilfjarðar Sólborgu og öðrum sektarkenndum.
Gengið var yfir Skolahraun. Slétt helluhraunið er að öllum líkindum úr Þránsskildi, en ofan á því er mjó apalræma til suðurs, líklega úr gosinu 1151.
Hraunssel Slóðar liggja yfir slétt hraunið og hefur mosinn farið illa af utanvegaakstri. Komið var að norðanverðu Hraunsseli. Augljóst er að þarna hafa verið tvær selstöður. Í selinu eru bæði tóftir nýrri og eldri selja. Nýrri selin eru undir Núpshlíðarhálsinum, en þau eldri bæði norðan við nýrri selin undir hlíðinni og einnig vestar, nálægt grónum hraunkanti. Þær eru nær jarðlægar. Vestan þeirra tófta er tvískiptur hlaðinn stekkur. Norðan hans er hlaðinn ferköntuð tóft undir hraunbakka, hugsanlega kví. Grösug skál er í hlíðinni ofan við selið. Þar má m.a. sjá leifar hverasvæðis, sem ekki er langt um liðið síðan kulnaði.
Nyrðra nýrra selið er eins stök tóft og síðan önnur með tveimur rýmum. Hitt er heilstæð tóft með þremur samliggjandi rýmum. Elsta tóftin (vestar) virðist hafa verið með tveimur rýmum og því þriðja fasttengdu. Þerrivatn er í grunnum gilskorningi sunnan við selið, en búast má við að þarna neðarlega á grasvöllunum hafi fyrrum verið brunnur, þótt ekki móti fyrir honum nú.
Þetta eru sennilega rústir hins síðasta umbúna sels á Reykjanesskaganum, er talið er að hafi lagst af um 1914, með efasemdum þó, því sel voru almennt að leggjast niður á þessu landssvæði á seinni hluta 19. aldar. Þeim hafði þá verið viðhaldið, með tilfærslum, hléum og margfaldlegri endurgerð, allt frá landnámi noSelsstígurrrænna manna hér á landi (871 +/- 2). Selstöður virtust hafa verið mikilvægur þáttur í búsetusögu svæðisins um langan tíma. FERLIR hefur þegar skoðað rúmlega 255 selstöður í landnámi Ingólfs, sem enn eru sýnilegar minjar um, og eru þó allnokkur enn óskoðuð, s.s. norðan Esjufjalla að Botnsá. Þótt margt sé líkt með rústunum er einnig nokkuð ólíkt með þeim. Það verður allt betur rakið með umfjöllun síðar.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun segir m.a. að merkin hafi verið “frá Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallarfjall upp af Sogaselsdal.” Í fyrsta lagi heita Vatnskatlarnir nú á landakortum Fagradals-Vatnsfell og Hraun lýsir merkjum í Selsvallarfjall.Â
Samkvæmt heimild úr Jarðabók ÁM 1703 á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd selstöðu í Sogaseli er það sagt í Stóru Vatnsleysulandi. Selið hins vegar, sem lá undir Hraun (Hraunssel), er fyrir sunnan Þrengslin og þannig innan merkja Hrauns samkvæmt þessari skilgreiningu. Þá má að lokum benda á að fyrir norðan þessa línu og almennt á Selsvöllunum var almenningsselstaða frá Grindavík og ennfremur frá Vatnsleysuströnd”. Hafa ber þó í huga að landamerki Þórkötlustaða stangast verulega á við landamerkjalýsingu Hrauns þar sem m.a. Dalsselið vestan Langhóls er innan landamerkja þeirra. Ef rétt er þá er Dalsselið í landi Þórkötlustaða, en Vogabændur og Grindvíkingar hafa jafnan deilt um tilveru þess inna þeirra marka – hvors um sig.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála segir m.a. um merkin: “Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna [Hrauns]. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.
Samkvæmt þessu ætti Hraunssel að hafa verið í landi Ísólfsskála og gert út þaðan. Þeir nágrannar gætu þó hafa komið sér saman um selstöðu undir hálsinum og verið þar með sitthvort selið. Það myndi a.m.k. skýra seltóftirnar. Ef svo er þá eru fundið selið frá Ísólfsskála, sem og selið frá Þórkötlustöðum, þ.e. Dalsselið. StekkurJárngerðarstaðir og Staður hafa síðan haft selstöður á Baðsvöllum og síðar á Selsvöllum.
Ritari, sem reyndar er hlutdrægur, hefur reyndar talið langlíklegast að Dalselið hafi verið frá Þórkötlustaðabæjunum fyrrum.
Í örnefnalýsingum þaðan, segir að “úr Stóra-Skógfelli [á að vera Litla-Skógfelli til samræmis við aðrar lýsingar] liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði . Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti, og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura, í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell,sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum.”
Í Jarðabókinni 1703 er dómkirkjan í Skálholti eigandi bæði Krýsuvíkur og Hrauns, auk Ísólfsskála, Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða. Ekki er sagt frá selstöðu frá Krýsuvík, en þó má telja öruggt að hún hafi verið þá til staðar. Ekki er heldur sagt frá selstöðu frá Hrauni eða Þórkötlustöðum, en ein hjáleigan, Buðlunga, Stóri-Hrútur“brúkar selstöðu og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustðalandi. Er selstaðan að sönnun góð, en mikilega lángt og erfitt að sækja”. Hóp þarf að kaupa út selstöðu, en Járngerðarstaðir “brúkar selstöðu enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lseti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleina”. Þarna gæti verið komið tilefni til þess að ætla að Selsvallaselstaðan, sem Járngerðarstaðabændur nýttu síðar, hafi fengist framseld frá Stað. Í Jarðabókinni 1703 segir að selstaða Staðar “sé góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum”.
Eftir að hafa skoðað minjar seljanna (því þau eru fleiri en eitt frá mismunandi tímum), var gengið norðvestur eftir áberandi götu yfir Skolahraunið með stefnu milli Hraunssels-Vatnsfellanna. Mikil umferð hefur verið þarna. Gatan liggur yfir hið mjóa apalhaft. Hún gefur vísbendinu uma ð nokkur umferð hafi verið inn að Hraunsseli neðan úr Vogum eða Vatnsleysuströnd svo ekki er með öllu hægt að útiloka að selstaðan hafi um tíma verið sótt þaðan.
VatnsstæðiÞegar komið var yfir í Meradalahlíðar var ákveðið að halda áfram til vesturs austan Kisturfells (335 m.y.s.). Kistufell og Keilir, með Litla-Keili og Litlahrút á millum býður upp á skemmtilegt sjónarhorn inn á efstu brún Þráinsskjaldar, hinnar miklu og tilkomuríku dyngjudrottningu Reykjanesskagans. Þaðan er hægt að ganga að einum fallegasta gíg Skagans, nyrst í Fagradalsfjalli (Langhól). Gígurinn, sem er um 70 metra hár, er þverskorinn, þ.e. það sést inn í hann úr norðri og því auðvelt á áætla hvernig gígopið hafi litið út áður en roföflin tóku yfirhöndina.
Hér er í rauninni um að ræða einn tilkomumesta og fallegasta, en um leið úrleiðarlegasta gíg Reykjanesskagans. Vonandi fær Hitaveita Suðurnesja aldrei áhuga á honum – því þá er voðinn vís.
Þegar staðið er þarna má í rauninni sjá nokkra “keilira”, því auk Keilis er Sandfell í suðaustri, Stórihrútur í suðri og Litlihrútur í norðvestri öll með sömu lögun. Keilir nýtur hins vegar þeirrar sérstöðu sinnar að standa stakur og því meira áberandi fyrir þá, sem ekki hafa nennu til að stíga svolítið afsíðis frá malbikinu.
Gengið var til suðurs niður í Meradali. Hér er um einstaklega stórt, sléttbotna og myndarlegt landssvæði að ræða, skjólgott með “safaríkum” blettum. Ef einhvers staðar ætti að planta skógi á Reykjanesskagann – þá væri það þarna, undir hlíðum Meradals. Og þá skemmir litadýrðin ekki fyrir; fjólublátt Fagradalsfjalli, bláleitt Kistufelli, brúnleitar Meradalahlíðarnar og svarleitur Stórihrútur.
Haldið var að upphafsstað með því að ganga til austurs upp úr Meradal milli Stórahrúts og Hraunssels-Vatnssfells syðra um Einihlíðasand. Ljóst er að vorblómin hafa vaknað seint þetta árið. Blóðbergið og lambagrasið eru þó að koma til, en vetrarblómið virðist hafa ákveðið að kúra frameftir. Smá vætuíbleyta og hlýindi í par daga myndu nægja til að vekja það snemmendis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsinar og landamerkjaskrár Grindavíkurbæjanna.

Dalssel

Dalssel.

 

Sognsel

Þegar FERLIR var á leið um Sandfellsveg fyrir skömmu virtist augljóst að selstaða væri einhvers staðar nálægt Sandfellstjörninni. Við hana austan- og suðaustanverða er grasmikill flói og svo virtist einnig vera vestan og norðvestan við hana, en melhryggur skilur þar af. Leit var þá gerð við flóann, en án árangurs.

Selstígurinn

Þegar niður var komið og gluggað var í gamlar lýsingar virtist í fyrstu fátt er staðfest gæti ályktunina. Í Jarðabókinni 1703 er getið um jörðina Sogn í Kjós. Þar segir: “Eigandinn Reynivallakirkja”. Ekki er getið um selstöðu frá bænum í Jarðabókinni. Það bendir annað hvort til þess að þá hafi hún verið aflögð fyrir löngu eða verið tekin upp eftir þetta og væri þá yngri. Hvorutveggja gerði áskorunina um að finna og staðsetja selstöðu þarna einkar áhugaverða. Hafa ber í huga að FERLIR hefur áður náð að staðsetja 257 selstöður á Reykjanesskaganum (auk fjölmargra annarra menningarverðmæta eins og sjá má á vefsíðunni), í fyrrum landnámi Ingólfs, svo næmni fyrir mögulegri selstöðu á fyrrnefndum stað kom ekki af engu. Það var því ekki góð tilfinning að þurfa að yfirgefa svæðið án þess að hafa fullnægt næmninni. Ekki bar þó á uppgjafartilfinningu því reynslan hefur kennt leitendum a.m.k. tvennt; reyna aftur og aftur þangað þangað til fullreynt er. Stundum hefur þurft að gera allnokkrar ferðir inn á tiltekin svæði áður en árangur hefur náðst. Oftar en ekki hefur fólk talið ólíklegt að nokkuð væri þar að finna ef ekki hefði þegar verið getið um það í rituðum heimildum.
Þegar skoðuð var örnefnalýsing fyrir Vindás, sem Ari Gíslason skráði eftir Hannesi Guðbrandssyni í Hækingsdal og að nokkru frá Bjarna Ólafssyni segir hins vegar: “
Suður af Hryggjunum, sem eru holt og hæðir, sunnarlega, er Sandfellstjörn, og Sandfell er hátt fell [395 m.y.s]. Austur af því eru Sandfellsmelar. Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognsel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir. Sandfellsás liggur norðvestur úr Sandfelli, austur af tjörninni. Í Sandfelli er gren gamalt sunnan í fellinu; þar er hellisskúti og Gren.”

SelstígurÍ örnefnalýsingu Bjarna Ólafssonar um Vindás segir m.a. um þetta: “Sandfell er suðvestan við Skiptagilsbotn og suðaustur af því  Sandfellsmelar. Lóma heitir seftjörn norðaustur  af Skiptagilsbotni. Vestur af Lómu, og allt vestur að Dauðsmannsbrekku eru víðáttumiklir melar sem einu nafni nefnast Hryggir. Vestur af Sandfelli er Sandfellsflói og þá Sandfellstjörn, síðan Tjarnarflói, þar næst flói sem heitir Stóri-Krókur og annar vestur af honum sem heitir Litli-Krókur. Allir þessir flóar eru einu nafni nefndir Vindásflóar. Sunnan við Sandfellsflóa er Sandfellsás. Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognsel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur.
Fossá sem áður er nefnd, fellur fram af Reynivallahálsi niður í Hvammá, beygir síðan meir til vesturs og fellur í smá fossum niður í Leyni og heitir þar frá Leynislækur. Úr Leyni  rennur hann milli Leynismýrar og Kvíamýrar, um Leynislækjarmóa og saman við Gíslalæk áður en þeir falla á.
SelstígurSelstígur lá yfir Ása, austan við Eystri-Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa
 verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.”

Ekki er vitað hvenær Sognbærinn gamli var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. Til er mynd af gamla bænum frá árinu 1918.

SognselGuðbrandur Hannesson, bóndi í Hækingsdal, kvaðst ekki vita af tóftum á nefndum stað innan við Sandfellstjörn, en ef faðir hans, sem var mjög kunnugur þar, hefði getið þeirra í lýsingu sinni þá væri það áreiðanlega rétt. Sagði hann Sogn vera næsta bæ vestan við Reynivelli, milli Valdastaða og Reynivalla. Selstígurinn væri nú mjög greinilegur því hrossin á Vindási sæktu mjög upp Múlann eftir stígnum um þessar mundir. Það því væri kjörið að reyna að rekja Selstíginn einmitt núna.

Sognsel

Sognsel – uppdráttur ÓSÁ.

Og þá var ekkert annað gera en að leggja land undir fót. Þegar komið var að Hvammá ofan við Leynislæk blasti fossinn í Fossá við. Með Múlanum liggur gömul gata. Henni var fylgt til suðurs. Staldrað var við undir Múlanum. Þar liggur gatan áfram á ská áleiðis upp hann fyrir Múlahornið. Hún er þarna mjög vel greinileg og auðrötuð. Nokkru áður en þangað er komið liggur Selstígurinn af götunni ofar í Múlann á a.m.k. þremur stöðum. Ef miðstígurinn er valinn er auðveldast að feta sig upp brekkuna áleiðis upp á brún. Neðan hennar beygir stígurinn til vinstri og aftur til hægri áður en upp er komið. Þaðan er gengið spölkorn beint af augum og síðan til vinstri á ská upp sandás og síðan til hægri ofan hans með stefnu á gilskorning í stuttu hamrabelti. Þar liggur stígurinn í sneiðing uns upp er komið. Þá sést varða. Stígurinn liggur upp með henni vinstra megin og síðan beygi hann til hægri áleiðis upp ásana með stefnu á Sandfell. Þarna sést stígurinn greinilega.
Áður en upp á efsta ásinn er komið greinist Selstígurinn; annars vegar áfram upp ásana Gatna- og stígakerfiáleiðis að suðvestaverðu Sandfelli með tengingu inn á Sandfellsveg og Svínaskarðsveg norðaustan við fellið, og hins vegar til vinstri, áleiðis í Sognsel. Fyrrnefnda gatan greinist á leiðinni; annars vegar beint áfram og hins vegar til hægri, til austurs með sunnanverðu Sandfelli. Það gæti verið beinni tenging við Svínaskarðs-veginn. Síðarnefnda gatan þarna á fyrrnefndu gatnamótunum er óljósari og ekki auðvelt að koma auga á hana á melnum. Þegar Selstígurinn var rakinn til baka frá selinu kom hann þarna niður. Nú var stígnum fylgt áfram áleiðis að Sandfelli. Þar greindist hann aftur; annars vegar beint áfram inn á fyrrnefndar Þjóðleiðir, og hins vegar upp í selið. Síðanefndu leiðinni var fylgt upp á móbergsás. Þaðan var ágætt útsýni yfir Sandfellstjörn og á Kjöl. Neðan ássin lá stígurinn við enda grágrýtisholts og að Fossá þar sem hún fellur úr tjörninni. Álftarpar neri saman hálsum og gæsir horfðu á með aðdáun.

VarðaSelið kúrir undir lágu holti, einu af nokkrum austan Sandfellstjarnar, skammt norðan við Fossá. Ekki er ólíklegt að áin hafi fengið nafn sitt af litlum fallegum fossi (sjá mynd hér að neðan) neðan við selið. Stekkurinn er við fossinn. Selið er óvenjulegt að því leyti að það hefur fjögur rými í stað þriggja, sem hefðbundið er í seljum á Reykjanes-skaganum. Það virðist vera af seinni tíma gerð selja, þ.e. reglulegri mynd en þekktist í þeim eldri. Líklegt má telja, af tóftunum að dæma, að haft hafi verið í seli þarna vel fram á 19. öld. Veggir standa grónir (0.60 m) og augljóslega má sjá húsaskipan og gangverk milli rýma. Hleðslur eru fallnar, en sjást, t.d. í meginrýminu, þ.e. baðstofunni, sem hefur verið innst og aukarýmið hefur augsýnilega tengst henni. Búrið hefur verið vinstra megin við innganginn í baðstofuna og eldhúsið hægra megin.
FossáAð vettvangsskoðun lokinni var ákveðið að fylgja Sel-stígnum utanverðum, enda augljós þar sem hann lá frá selinu. Liggur hann eðlilega sem leið liggur neðan við grágrýtis- og móbergsholtin sunnan við selið, niður með hæðardrögum á vinstri hönd og að fyrrnefndum gatnamótum (stígsmótum) ofanvið vörðuna. Frá stígnum er frábært útsýni yfir neðanverða Kjósina.

Þegar að vörðunni var komið var stígnum fylgt hvylftina í hamraveggnum, á ská niður sandása og að brúninni. Þarna mætti að ósekju hlaða vörðu fyrir þá, sem áhuga hafa á áhuagverðri leið, en eru ekki fulllæsir á landslagið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

SognP.S. Hafa ber í huga að ekkert hefur fundist hingað til nema að því hafi verið leitað, þ.e. farið á staðinn, með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgir. Hluti fyrirhafnarinnar hefur falist í eftirgrennslan, leit, grúski og viðtölum við fólk, sem gerst þekkir til á hlutaðeigandi svæði. Útvega hefur þurft kort, loftmyndir og skrár er upplýst geta um möguleikana, skoða vettvang, meta aðstæður, bíða eftir ákjósanlegu veðri eða jafnvel árstíma og leggja síðan af stað, horfa, meta, leita og fylgja vísbendingum. Þegar allt þetta hefur borið árangur þarf að ljósmynda, teikna upp, hnitsetja, skrá og borða nestið. Og ekki má gleyma þeim tíma, sem fer í að koma öllu þessu heim og saman í stuttum texta og útvali ljósmynda, búa til uppdrætti, gera kort, færa inn á þau helstu upplýsingar til glöggvunar. Og síðan þarf að uppfæra allt þetta í réttu hlutfalli við síbreytilega tæknimöguleika – en allt er þetta fyrirhafnarinnar virði.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Vindás
-Guðbrandur Hannesson

SelstígurinnSognsel

Eldvörp

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Markrakagil
Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum.
Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.

Markrakagil

Markrakagil.

Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).

Hraunhóll

Hraunhóll.

Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hrauntröð.

Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hellisop.

Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.

Sandfell

Sandfell – austurhliðin er snýr að Sandfellsklofa.

Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.
Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á Dyngjatoppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Húshellir

Við Húshelli.

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.

Húshellir

Í Húshelli.